Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Ganglegir upplýsingavefir um frambjóðendur og kosningakerfið

Ég vona að þú hafir ákveðið að taka þátt í kosningunum til stjórnlagaþingsins á morgun. E.t.v. ertu búin/-inn að því eða hefur þegar raðað þeim sem þú ætlar að kjósa. Ef ekki langar mig til að benda þér á nokkrar síður sem þú getur farið inn á til að kynna þér kjósendur eða afla þér upplýsinga um kosningakerfið.

  • Svipan.is Þar eru ýtarlegar upplýsingar um frambjóðendur (þ.e. þá sem svöruðu) Hér eru frambjóðendur m.a. spurðir um flokks- og hagsmunatengsl og svo það hvort þeir hafi lesið núverandi Stjórnarskrá ásamt Rannsóknarskýrslu Alþingis.
  • RUV-útvarpsviðtal  Frambjóðendur svara þremur spurningum sem varða það hvort og hvernig þeir vilji breyta stjórnarskránni og hvers vegna þeir bjóða sig fram.
  • Kjóstu! sem er upplýsingavefur frambjóðenda með hagnýtum leiðbeiningum um það hvernig kosningakerfið virkar. Auk þess er bent er á síður inni á DV sem hafa hjálpað sumum við að velja úr öllum þeim fjölda sem býður sig fram.

Ég get auðvitað ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að ég er sjálf í framboði en ég tók saman yfirlit yfir upplýsingar varðandi það sem er hægt að nálgast hér á Netinu um framboð mitt hér.

Að lokum óska ég okkur öllum þess að útkoma þessa stjórnlagaþings verði stjórnarskrá sem verður framtíð íslensku þjóðarinnar og fósturjörðinni okkar til heillaHeart


mbl.is Rúmlega 10 þúsund búin að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta verður spennandi

Rakel SigurgeirsdóttirÉg er ein þeirra sem eru í framboði og undanfarna daga hef ég ansi oft heyrt spurninguna: „Hvernig gengur kosningabaráttan?“ Kannski er það bara ég sem er svo illa áttuð að finnast spurningin mjög úr takt við það sem ég hef boðið mig fram í.

Þeim sem hafa fylgst með blogginu mínu vita að ég er ótrauð þegar kemur að baráttu fyrir því sem ég tel réttlátan málstað. Ég, um mig, frá mér til mín-herferð lætur mér hins vegar ekkert sérstaklega vel. Auðvitað veit ég að ég hef heilmikið til brunns að bera ekki síst þegar kemur að því að vinna í hópi og fjalla um málefni sem varða grunngildi mannlegs samfélags og uppbyggingu þess.

Mér er hins vegar ljóst að af rúmlega 500 frambjóðendum til stjórnlagaþings eru margir mjög frambærilegir til þessa verkefnis. Ég geri því ráð fyrir því að stór hluti frambjóðenda sé ekkert síður frambærilegir en ég og tvímælalaust einhverjir miklu hæfari. Ég sé því engan tilgang í að leggjast í einhverja baráttu inni í slíkum hópi.

Ég viðurkenni að ég mætti sjálfsagt vera duglegri við að kynna framboð mitt. Til að bregðast við ábendingum þar um ákvað ég að sýna einhverja ábyrgð á framboði mínu og tína saman þær kynningar sem hægt er að nálgast um mig sem frambjóðanda til stjórnlagaþings hér á Netinu. Fyrst minni ég á töluna mína sem er 3865.

Kynningarnar sem ég bendi á hér eru: örkynningin inni á kosning.is, löng og ýtarleg svör við spurningum frá svipan.is, myndbandsupptaka sem var tekin upp á vegum Stjórnarskrárfélagsins þar sem ég segi hvers vegna ég býð mig fram og ræði nokkur grundvallarhugtök sem varða ritun nýrrar stjórnarskrár og að lokum viðtalið sem RUV bauð öllum frambjóðendunum upp á.

Inni á kosning.is er yfirlit yfir menntun og starfsreynslu og svar við spurningunni hvers vegna ég býð mig fram til stjórnlagaþings. Þar var ég í töluverðum vandræðum því við fengum svo fá orð til ráðstöfunar. Ég rakti þó að ég hefði búið víða um land og hefði fjölbreytta starfs- og lífsreynslu. Að mínu mati skiptir það máli varðandi hæfileikann að setja sig í annarra spor og sjá viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.

Inni á svipan.is er sú kynning sem ég er ánægðust með. Svipan er líka sá miðill sem hefur staðið sig langbest varðandi kynningu og umfjöllun um stjórnlagaþingið og þá sem bjóða sig fram til þess. Kynningin sem ég sendi þangað er bæði löng og ýtarleg. Sennilega of löng fyrir marga en þar svara ég sumu af því sem kemur fram í örkynningunni nákvæmar en þar er þó flest nýtt.

Svipan spurði t.d. um hagsmunatengsl og tengsl við flokka og hagsmunasamtök. Tengsl mín við flokka eru þau að ég var fimmta á lista Borgarahreyfingarinnar í síðustu alþingiskosningum í norðaustur og er nú varamaður í stjórn Hreyfingarinnar. Í þessu sambandi finnst mér líka rétt að taka það fram að ég er framhaldsskólakennari og er þar af leiðandi aðili að Kennarasambandi Íslands auk þess sem ég er fulltrúi í samninganefnd Félags framhaldsskólakennara.

Um hagsmunatengsl mín setti ég fram eftirfarandi lista:

Það eru allir tengdir einhverjum og allir eiga þeir einhverra hagsmuna að gæta. Mín eru fyrst og fremst þessi:

  • Ég á nána ættingja sem þjást vegna niðurskurðarins í heilbrigðiskerfinu.
  • Ég á líka aðstandendur sem þurfa að framfleyta sér á bótum sem eru undir framfærslumörkum.
  • Ég þekki mjög vel kjör einstæðra foreldra af 27 ára reynslu.
  • Ég ólst upp í sveitum Vestur- og Norðurlands og hef alla tíð verið í nánum tengslum við vini og ættingja sem eru bændur.
  • Ég hef líka búið í þorpum og bæjum úti á landsbyggðinni en einnig í höfuðborginni og er þar af leiðandi í góðum tengslum við fólk víða á landinu. Þó minnst austan- og sunnanlands.
  • En fyrst og fremst er ég þó Íslendingur sem finn til djúprar samkenndar með þjóðinni sem ég tilheyri. Hagsmunir mínir eru tengdir hennar órjúfanlegum böndum.

Í kynningu minni á Svipunni nota ég tækifærið og rek ég í stuttu máli hvar ég hef búið svo og menntunar- og starfsferil. Þar rek ég líka ýtarlega hvaða hugmyndir ég hef varðandi breytingar á stjórnarskránni. Í meginatriðum varða þær eftirtalda þrjá þætti: lýðræðisumbætur, mannréttindi og náttúrvernd. Fyrir þá sem hafa ekki nennu til að lesa það allt bendi ég á krækjurnar í upptökurnar hér á eftir.

Að lokum eru spurningarnar sem mér þykir eiginlega vænst um en þær varða það hvort ég hafi lesið Stjórnarskrá Íslands, stjórnarskrá annarra ríkja og Rannsóknarskýrsluna. Reglulegir lesendur þessa bloggs hafa sennilega ekki komist hjá því að rekast á að ég hef gjarnan vitnað í núverandi Stjórnarskrá og svo Rannsóknarskýrsluna hér. Ég hef þó ekki enn lokið við lestur þeirrar síðarnefndu.

Svo ég sé alveg heiðarleg þá er ég ekkert sérstaklega trúuð á það að ég verði á meðal þeirra sem hljóta kosningu inn á væntanlegt stjórnlagaþing en ef sú verður raunin þá finnst mér það vera eitt af hlutverkum mínum að kynna mér vel þær stjórnarskrár annarra ríkja sem þykja best heppnaðar. Hingað til hef ég kynnst stjórnarskrám annarra ríkja meira af afspurn en í gegnum eigin lestur.

Í lok kynningarinnar inni á Svipunni eru hvorki meira né minna en þrjár upptökur sem voru teknar upp á vegum Stjórnarskrárfélagsins. Ég set þá lengstu hingað inn. Hún er rúmar fimm mínútur en hinar eru rúmum tveimur mínútum styttri.

Í þessu myndbandi útskýri ég að ein ástæðan fyrir því að ég bauð mig fram til stjórnlagaþingsins hafi verið sú að ég gegndi áskorunum þar um. Reglulegir lesendur þessa bloggs hafa varla komist hjá því að taka eftir því að ég hef verið afar virk í hvers konar viðspyrnu- og grasrótarstarfi frá bankahruninu 2008. Ég var með frá byrjun mótmælanna á Akureyri og var viðstödd alla slíka viðburði fyrir norðan nema ég væri stödd fyrir sunnan á laugardögum en þá fór ég niður á Austurvöll.

Frá upphafi árs 2009 til vorsins 2010 tók ég þátt í að skipuleggja og halda utan um borgarfundi á Akureyri. Við byrjuðum fjórar, vorum fimm þegar vorum flestar en ég endaði ein. Um mitt síðasta sumar flutti ég til Reykjavíkur þar sem ég er búsett núna. Það eru margar ástæður sem búa að baki þeim flutningi en ein þeirra var vissulega sú að ég vissi að kraftar mínir og hugmyndir myndu nýtast betur í því viðspyrnustarfi sem fer fram hér en fyrir norðan.

Eftir að ég flutti hef ég tekið þátt í ýmis konar starfsemi. Þar á meðal mótmælum og hef komið að skipulagningu tunnumótmælanna. Sumum kann að þykja það ógnvekjandi að „tunnuterroristi“ fái sæti inni á stjórnlagaþingi en það er nafngift sem okkur, sem tókum þátt í mótmælunum núna í október, hefur verið gefið af þeim sem vilja af einhverjum ástæðum halda í núverandi samfélagsástand.

Það er ljóst að ég vil ekkert annað frekar en tækifæri til að byggja upp. Ritun nýrrar stjórnarskrár er ein leiðin til þess. Í seinni hluta kynningarinnar hér að ofan skoða ég ýmis hugtök sem mér þykir lykilatriði að ríki sameiginlegur skilningur á ef stjórnlagaþinginu á að takast að skapa nýja og betri stjórnaskrá. Um lýðræðið segi ég t.d. þetta:

Lýðræði merkir t.d. dæmis ekki að kjósendur fái að hrókera valdahlutföllum ákveðinna flokka inni á Alþingi á fjögurra ára fresti gegn teygjanlegum loforðum sem er stungið niður í skúffu á milli kosninga.

Ég velti líka upp hugtökum eins og pólitík, mannréttindum og heilbrigðu samfélagi. Í styttri myndbandsupptökunum, sem er að finna í lok kynningarinnar á Svipunni, fjalla ég eingöngu um innihald þessara hugtaka.

Síðastliðinn laugardag fór ég í útvarpsviðtal á RUV ásamt öðrum frambjóðendum. Við vorum tekin inn í stúdíóið í tíu manna hópum þar sem voru lagðar fyrir okkur eftirtaldar spurningar: Þarf að breyta stjórnarskrá  lýðveldisins núna ? Hverju þarf helst að breyta ? og hvers vegna ég hafi boðið mig fram? Í sem stystu máli finnst mér full þörf á að breyta stjórnarskránni. Mér þykir núverandi stjórnmála- og samfélagskreppa vera afdráttarlausustu rökin um nauðsyn þess.

Hins vegar set ég spurningarmerki við tímasetningu þessa bráðnauðsynlega verkefnis. Ég vík að öðru atriðinu í útvarpsviðtalinu en það eru áhyggjur mínar af því að hér hefur ekki átt sér stað sú hugarfarsbreyting sem mér þykir nauðsynleg að verði til að útkoma stjórnlagaþingsins verði ný stjórnaskrá sem leggur grunn að heilbrigðu og sjálfstæðu lýðræðissamfélagi.

Hitt er að ég fæ ekki betur séð en fjórflokkurinn allur muni reyna að setja stein í götu árangursins sem kann að nást á stjórnlagaþinginu sjálfu við endurritun stjórnarskrárinnar. Ef það væri tryggt að stjórnarskráin færi í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að stjórnlagaþingið skilar henni af sér þá væri ég Rakel Sigurgeirsdóttirrólegri.

Að lokum má geta þess að ég tók prófið inni á DV.is Þar átti ég í erfiðleikum með nokkrar spurningar vegna þess að þeim fylgdu enginn svarmöguleiki sem samræmdist mínum skoðunum en ekki var hægt að sleppa því að svara. Þetta voru spurningarnar:
* Hver eftirfarandi möguleika lýsir þínum áherslum um kjördæmaskipan á Íslandi best?“

* Hvort viltu heldur að kjördæmaskipan byggi á einfaldri meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum eða á hlutfallskosningu?
* Á að fjölga eða fækka þingmönnum?

Þar sem enginn svarmöguleikanna náðu utan um skoðanir mínar á þessum málum þá neyddist ég til að velja „vil ekki svara“ þrátt fyrir að finnast það alveg afleitur kostur. Af þessum ástæðum bætti ég eftirfarandi við í athugasemd:

Í þessari spurningu: Hvort viltu heldur að kjördæmaskipan byggi á einfaldri meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum eða á hlutfallskosningu? Vil ég hvorugt. En varðandi fjölgun eða fækkun kjördæma svo og þingmanna er ég ekki viss um að núverandi fjöldi sé það sem standi lýðræðinu fyrir þrifum.

Prófkjör og misvægi á milli atkvæða gera það aftur á móti að verkum að kjósendum er gert það að kjósa einn flokk inn á þing og/eða bæjarstjórn. Ég myndi vilja að kjósendur ættu kost á því  að velja einstaklinga óháð því hvaða flokki þær tilheyra.

Ef þú, lesandi þessara orða, ert einhverju nær um það hvort ég sé fulltrúi þinna skoðanna inn á stjórnlagaþingið þá er tilgangi þessara skrifa náð. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að treysta mér þá er sanngjarnt að ég minni þig á númerið mitt sem er 3865.


mbl.is Skannar komnir á talningarstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálakreppan dýpkar og hinar með

Það er ljóst að þeir sem hafa talið hugsjónum sínum best borgið innan Vinstri grænna naga sig margir í handabökin nú. Sumir hafa sagt sig úr þessum stjórnmálasamtökum og enn fleiri íhuga úrsögn. Allir þeir sem hafa kynnt sér helstu stefnumál svo og kosningarloforð Vinstri grænna sjá það svart á hvítu að flokkurinn er kominn langt út fyrir þær hugmyndafræðilegu áherslur sem hann hefur gefið sig út fyrir að séu hans.

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir þeim hræðilegu staðreyndum að traust almennings gangvart stjórnvöldum er í sögulegu lágmarki eða innan við 10%. Hér er ekki eingöngu við Vinstri græna að sakast heldur alla þá sem tilheyra svonefndum fjórflokkum. Ef gengið yrði til kosninga, eins og Lilja Mósesdóttir bendir á að hefði verið eðlilegt í framhaldi af niðurstöðu kosninganna um landsdóm 28. september síðastliðinn, hefði stór hluti kjósenda staðið frammi fyrir þeim vanda að þeir treysta, því miður, engu núverandi stjórnmálaafli fyrir atkvæði sínu. 

Kosningar eru því ekki raunhæfur möguleiki nú enda ljóst að í kjölfar útkomu nýrrar Stjórnarskrár verður boðað til nýrra alþingiskosninga. Af öllu samanlögðu þá er illskásti möguleikinn frammi fyrir núverandi aðstæðum sá að fara að tillögum þeirra sem hafa bent á utanþingsstjórnarleiðina. Nýlega var settur af stað undirskriftarlisti með áskorun á forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn nú þegar. Sjá hér http://utanthingsstjorn.is/

Það er ljóst að þegar þessi krafa kom fram olli hún titringi á ýmsum stöðum eins og er rakið um miðbik þessarar færslu hér. Eðlilega má velta því fyrir sér hvaða hagsmunum það þjónar að búa við áframhaldandi stjórnmálakreppu sem viðheldur kreppuástandinu á öðrum sviðum samfélagsins. Það er ljóst að það eru a.m.k. ekki hagsmunum almennings. Samkvæmt verkefnalistanum sem settur er fram í áðurnefndri áskorun til forsetans eru það hagsmunir hans sem eru þar í forgrunni:

  • Það þarf að setja neyðarlög til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem tekur mið af tillögum hagsmuna- og faghópa.
  • Utanþingsstjórnin hefur auk þess það verkefni að vinna að skynsamlegum og raunhæfum langtímalausnum á skuldavanda heimilanna.
  • Þar sem atvinnumissir er orðið stórt vandamál er það ekki síður brýnt verkefni utanþingsstjórnarinnar að vinna að uppbyggingu atvinnuveganna á skynsaman og raunhæfan hátt um allt land.
  • Gagnger endurskoðun á efnahagsstefnu landsins. Þ.m.t. samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.


Eins og hefur komið fram sendu aðstandendur tunnumótmælanna bréf á alla þingmenn þ. 4. nóvember sl. í tilefni af mótmælum sem báru yfirskriftina: Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn. Þar kynntu þeir kröfuna sjálfa svo og tilefni hennar. Bréfinu lauk á þessum orðum:

Þess vegna skorum við á ykkur að svara kalli tunnanna um slíka lausn. Þið hafið tækifæri til að brúa það bil sem er á milli þings og þjóðar með því að taka af skarið núna og samþykkja utanþingsstjórn þegar í stað. Þið eruð líka í aðstöðu til að bregðast við þessu kalli með því að skapa henni lýðræðislega umgjörð og taka þátt í umræðunni um það hvernig að skipun hennar verður staðið í samvinnu og sátt við íslenska þjóð.  (Sjá hér)

Sú sem þetta skrifar hefur útfært þær hugmyndir sem er ýjað að hér enn betur í bréfaskiptum sínum við ónefndan þingmann með þessum orðum:

Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar, hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig, hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina. 

Það skal tekið fram að þar sem umræddur þingmaður hafði sent mér póst sem allir þingmenn gátu lesið gerði ég slíkt hið sama þegar ég svaraði honum. Þ.e. ég sendi svar mitt þar sem ofangreint kemur fram á alla þingmenn.

Að lokum vil ég hvetja alla sem lesa þessar línur til að velta vandlega fyrir sér stöðunni sem íslenskt samfélag er í dag og hvernig er hægt að leysa úr því ófremdarástandi sem við búum við. Það hef ég gert. Eftir gaumgæfilega íhugun og fund með forsetanum komst ég að þeirri niðurstöðu að illskásta leiðin er utanþingsstjórn.


mbl.is Líkjast kommúnistaflokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við verðum að komast út úr þessari vitleysu!

Ef að af líkum lætur þarf þjóðin nokkra daga til viðbótar til að átta sig á útkomunni sem kom út úr sýndarviðbrögðum ríkisstjórnarinnar við stóru mótmælunum þann 4. október síðastliðinn. Ég ætla ekki að kafa frekar ofan í þau en bendi á það sem Hagsmunasamtök heimilanna og Marinó G. Njálsson hafa skrifað nú þegar um 40 blaðsíðna skýrslu sem var afrakstur þeirrar vinnu.

Ég ætla hins vegar að freista þess að benda á leið sem við getum farið í þeim tilgangi að bæta stöðu almennings og samfélagsins í leiðinni með því að rekja aðdragandann að því að undirskriftarsíðan með þessari áskorun til forsetans varð til.  Þessi saga hefur að einhverju leyti verið sögð hér á þessu bloggi á undanförnum dögum. Hér verður þó helstu atburðir hennar rifjaðir upp og áréttaðir. Til að gera frásögnina aðgengilegri ætla ég að setja hana upp í eins konar dagbókarform:

1. október

Töluverður fjöldi fólks safnaðist saman niður á Austurvelli í tilefni þingsetningarinnar sem fram fór þennan dag. Einn þeirra hafði sent 36 þingmönnum uppsagnarbréf í tilefni að því hvernig þeir vörðu atkvæði sínu um landsdóm nokkrum dögum áður. Þar segir m.a. um þetta atriði:

Með því sýndir þú svart á hvítu að þér er ekki treystandi til að gegna því ábyrgðarmikla starfi að vera þingmaður sem vinnur að velferð lands og þjóðar. Þú lokaðir augunum fyrir því upplausnarástandi sem ríkir í samfélaginu og útilokaðir þær sterku raddir sem krefjast uppgjörs og nýrra starfshátta sem munu leiða til siðvæðingar bæði innan þings og utan.  (Sjá hér)

Hugmyndin að tunnumótmælunum þann 4. október varð til strax eftir mótmæli þessa dags en hefði aldrei orðið að veruleika nema fyrir þann hóp sem var tilbúinn til að taka þátt. Viðburður var settur upp á Fésbókinni (Sjá hér) til að vekja athygli á fyrirhuguðum mótmælum undir setningaræðu Jóhönnu Sigurðardóttur. Yfirskrift mótmælanna var: Tunnumótmæli fyrir brotinn trúnað. Þar sagði m.a:

Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag. Því er komið að okkur almenningi að spyrna við fótum áður en þeir missa landið okkar niður um svelginn vegna áframhaldandi afglapa.

Næstu dagar fóru í að safna tunnum en söfnunin fór þannig fram að leitað var að tunnum í reiðuleysi og þær hirtar en auk þess höfðu ýmsir samband við aðstandendur mótmælanna og gáfu þeim tunnur. Sögusagnir um að N1 hafi verið þar á meðal eru algerlega úr lausu lofti gripnar!

Undarlegasta upphringingin sem aðstandendum þessara mótmæla barst var frá ungri konu sem er dóttir þokkalega áberandi frammámanns í samfélaginu. Sú sagðist hafa starfað í lögreglunni. Hún sagði líka að hún og kærastinn hennar væru algerlega búin að missa trúna á getu og vilja Alþingis til að vinna að brýnustu hagsmunamálum almennings. Það sem þau lögðu til mótmælanna þetta kvöld voru 2000 egg.

Eggjakakan við alþingishúsið Eggjabakkar á Austurvelli

 

 

 

 

 

 

 
4. október

Þrátt fyrir að fyrirvarinn væri stuttur fengu um 20.000 manns boð á viðburðinn og tæplega 3.000 staðfestu komu sína. Af þessu, upphringingum og bréfasendingum dagana fyrir mótmælin grunaði aðstandendur mótmælanna að þau yrðu fjölmenn en engum þeirra grunaði þó að þau næðu þeirri stærð sem raunin varð.

Opinberar tölur segja að þeir hafi verið um 8.000 sem söfnuðust saman þetta kvöld undir stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur. Sumir hafa bent á að þeir hafi verið nær 16.000. Þar á meðal eru lögreglumenn sem voru við löggæslu þetta kvöld.

Fjölmiðlar tóku viðtöl við mótmælendur sem sögðu nánast allir það sama. Þeir treysta einfaldlega ekki núverandi þingmönnum til að mynda starfhæfa stjórn sem muni hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Sjá t.d. hér:


Enginn innan þingsins hefur áræði og/eða bolmagn til að halda þessu almennilega á lofti!

5. otóber

Þeir allra hörðustu meðal mótmælenda söfnuðust líka saman fyrir framan alþingishúsið þennan dag í mótmælum sem báru yfirskriftina: Tunnutaktur sem kallar á heiðarlegt uppgjör

Meðal þess sem var sett í texta þessa viðburðar inni á Fésbókinni var eftirfarandi

Þess vegna höldum við áfram að mótmæla á morgun en ekki síður vegna þess að nú veit þjóðin að hún getur ekki treyst núverandi þingmönnum sem er það fyrirmunað að koma fram af heiðarleika og réttlæti. Lausnin er því ekki þjóðstjórn eða nýjar alþingiskosningar.

Atkvæðagreiðslan um landsdóm síðastliðinn þriðjudag færði þjóðinni heim sanninn um það að stór hluti þingheims telur sig yfir alla ábyrgð hafinn. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að alþingiskosningar munu ekki skila okkur neinu nema sömu mafíunni aftur. Mafíu sem setur bankaelítuna og peningamennina alltaf í fyrsta sæti.

Lýðræðisleg lausn gæti verið þjóðkjör um þingrof því núverandi þing er því miður handónýtt. Jóhanna ætti svo að óska eftir hugmyndum almennings í landinu að samsetningu nýs þings frekar en reyna að hræra upp í gömlum graut.
(Sjá hér)

Það vakti athygli aðstandenda mótmælanna að mbl.is hafði þennan texta orðréttan eftir. (Sjá hér) Það var líka athyglisvert að langflestir netfjölmiðlanna sögðu frá boðuðum tunnumótmælum og mættu yfirleitt til að taka myndir og segja frá þeim. Aðstandendur mótmælanna veittu því líka athygli að það heyrði til undantekninga að fjölmiðlar reyndu að tala tunnurnar niður í tölum og annarri umfjöllun um mótmælin sem þær stóðu fyrir allan októbermánuð.

6. október

Mætingin deginum áður orkaði ekki hvetjandi til að halda mótmælunum áfram en í tilefni þess að tveggja ára afmæli hrunsins var þennan dag var þó ákveðið að blása enn einu sinni til mótmæla fyrir framan alþingishúsið. Yfirskrift þessara mótmæla var: Tunnutónar í tilefni tveggja ára afmælis hrunsins.

Í texta viðburðarins inni á Fésbókinn segir m.a. um tilefni mótmælanna:

[Þingmennirnir] sem ráða ekki við verkefnið sem þeir hafa staðið frammi fyrir í tvö ár án þess að lyfta hendi fyrir almenning í landinu! Reynslutíminn er liðinn og þolinmæði okkar með. Þingmenn sem búa hvorki yfir heiðarleika né ábyrgðartilfinningu eru ekki færir um að ráða við stærð verkefnisins og þess vegna viljum við að þeir víki nú þegar fyrir hæfara fólki. (Sjá hér)

8. október

Aðfararnótt þessa föstudags skrifar einn aðstandandi tunnumótmælanna bréf til forseta Íslands þar sem hann óskar eftir fundi með honum til að ræða stöðuna sem uppi er í samfélaginu og möguleikana til að bæta úr henni.

Alþingishúsið í hættu?Kl. 10:00 Fjórar konur úr hópi aðstandenda tunnumótmælanna mæta á fund forsega Alþingis sem hefur meiri áhyggjur af afdrifum alþingishússins en tilefni mótmælanna. Ein þeirra sem var boðuð á fundinn en komst ekki vegna vinnu sendir frá sér bréf.

Enginn sýnir þessu áhuga nema Svipan sem sagði ekki aðeins frá þessari heimsókn heldur birti líka bréfið (Sjá hér)

Viðbrögð Alþingis við mótmælunum

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar kusu að skilja tilefni tunnumótmælanna þannig að þau miðuðu að því að knýja þau til aðgerða gagnvart skuldavanda heimilanna. Þau neituðu m.ö.o. að skilja það að aðgerðarleysi þeirra varðandi afdrif heimilanna frá því þau komust til valda hefur rúið þau öllu trausti. Núverandi stjórnarflokkar hafa sýnt það og sannað á þessu einu og hálfa ári að þeim er ekkert frekar treystandi en ríkisstjórnarflokkunum sem voru við völd á árunum á undan. 

Vandtraustyfirlýsing mótmælanna var hundsuð og skipuð samráðsnefnd til að skoða skuldavanda heimilla. Fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna var m.a.s. boðið að taka þátt í viðræðum nefndarinnar við hagsmunaaðila. Þessi saga er rakin hér. Hún hefst 8. október síðastliðinn.

11. október

Aðstandandi mótmælanna sem skrifaði forseta Íslands bréf fékk upphringingu frá skrifstofu forsetans þennan dag þar sem honum var boðið á fund Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum. Bréfritarinn óskaði eftir því að taka fleiri með sér og var boðið að taka einn til tvo með sér.

12. október

Kl. 10:00 Tunnumótmæli fyrir framan stjórnarráðið í tilefni af ríkisstjórnarfundi. Yfirskrift mótmælanna var: Tunnum ríkisstjórnina. Um 15.000 fengu boð á mótmælin en þeir voru ekki nema tæplega 600 sem boðuðu komu sína. Raunveruleg mæting náði þó tæplega þeirri tölu. Í texta viðburðarins inni á Fésbókinni segir m.a:

Við viljum ekki aðeins skipta út spilltum stjórnmálamönnum fyrir nýtt fólk sem tekur kjör almennings fram yfir örlög steinhússins við Austurvöll heldur viljum við fólk sem sýnir það í verki.

Við höfum ekki efni á að taka við fleiri loforðum frá stjórnmálamönnum sem hafa látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn binda hendur sínar.
(Sjá hér)

Kl. 14:00 Fundur þriggja aðstandenda tunnumótmælanna á Bessastöðum með forsetanum ásamt aðstoðarmanni hans. Eftirfarandi birtist á vef forsetaembættisins af þessu tilefni:

12.10.2010
Forseti á fund með Rakel Sigurgeirsdóttur, Ástu Hafberg og Þórarni Einarssyni um mótmælin undanfarið, áherslur og efnisþætti; stöðuna í atvinnumálum og skuldavanda heimilanna.
(Sjá hér)

Tunnumótmælendur í heimsókn hjá forsetanumTveir fjölmiðlar fengu veður af þessari heimsókn. Aðeins annar þeirra fjallaði um hana. Það var Svipan sem birti þessa frétt.


Næstu dagar á eftir

Tveir þeirra sem sátu fundinn með forsetanum styrktust í þeirri sannfæringu sinni að hvorki þjóðstjórn né kosningar dygðu til að koma af stað þeim róttæku áherslubreytingum sem samfélagið þarf á að halda. Það var og er enn mat þeirra að utanþingsstjórn sé heillavænlegasti kosturinn í stöðunni. Miðað við þær raddir sem heyrðust í mótmælunum 4. október og heyrast enn eru margir sammála þessari skoðun þeirra.

Til að draga þetta fram var því ákveðið að stofna undirskriftarsíðu með áskorun til forsetans um skipun utanþingsstjórnar (sjá hér) en þeir þurftu að hafa uppi á einstaklingum með kunnáttu í að setja upp rafræna undirskriftarsíðu. Að lokum tókst að hafa uppi á hópi sem var tilbúinn að leggja sitt af mörkum svo þetta gæti orðið að veruleika.

19. október

Eftir tunnumótmælin við Landsbankann (sjá hér) settust þeir aðstandendur tunnumótmælanna sem heimsóttu forsetann niður á kaffihúsi með aðilum sem voru tilbúnir til að aðstoða þá við að koma upp þessum undirskriftarlista. Það var ákveðið að þeir tveir semdu textann og var hann settur saman þá um kvöldið og sendur hinum til yfirlestrar.

25. október

Hópurinn kom saman til að vinna að uppsetningu undirskriftarsíðunnar. Það þarf að huga að ýmsu við frágang undirskriftarlista af þessu tagi og því miður kom það í ljós að kvöldið entist ekki til að ljúka þeirri vinnu.

26. október

Einn aðstandenda tunnumótmælanna lýkur við að semja texta á undirsíður með sögu utanþingsstjórna og hverjir standa að henni ásamt fréttatilkynningu á fjölmiðla.

29. október

Síðan með undirskriftarsöfnuninni fór í loftið í hádeginu þennan dag. Viðburður var stofnaður inni á Fésbókinni þar sem boðað var til viðburðar til að fylgja eftir kröfunni um utanþingsstjórn. Fréttatilkynning var send á alla fjölmiðla. Þar var sagt frá undirskriftarsíðunni og boðuðum mótmælum. Enginn nema Svipan (sjá hér) birti hana en af skrifum næstu daga er augljóst að bæði blaðamenn, álitsgjafar og einhverjir innan ríkisstjórnarinnar hafa kynnt sér innihald hennar.

Á ríkisstjórnarfundi þennan morgun var tillaga forsætisráðherra um samstarfsáætlun í atvinnu- og vinnumarkaðsáætlun samþykkt. (Sjá hér)

31. október

Ögmundur Jónasson birti harðorða færslu þar sem hann sakar þá sem gæla við hugmyndina um utanþingsstjórn um forræðishyggju. Það vekur sérstaka athygli að svo er að sjá að hann vitni til viðburðarins sem var settur inn á Fésbókina tveimur dögum áður (sjá hér) þar sem hann talar um „stjórnmálastéttina“.

1. nóvember

Bjarni Benediktsson lýsir því yfir að hann vilji þjóðstjórn sem starfi saman í einhverja mánuði áður en boðað verði til kosninga. Það vekur líka athygli að þennan dag kynnir flokkurinn sem hann leiðir um úrlausnir í atvinnumálum og skuldavanda heimilanna.

Ármann Jakobsson skrifar hreint ótrúlega meðvirka grein til stuðnings núverandi ríkisstjórn en gegn þeim sem hann kallar „tunnuterrorista“. Í þessari grein sakar hann líka „hægri sinnaða“ fjölmiðla um að „spana upp“ ákveðna tegund mótmælenda.

2. nóvember

Enn fleiri sjá tilefni til að draga fram pennann og ráðast beint gegn hugmyndinni um utanþingsstjórn. Þ. á m. er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sem heldur því fram að tunnumótmælunum sé stýrt úr Valhöll en af ýmsu sem hún skrifar er ljóst að hún veit um hvað mótmælin snúast en kýs að fara með útúrsnúninga og rangfærslur. Hún sakar mótmælendur um að stýrast af „hreinum fasisma og hatursáróðri“ og heldur því fram að allri umræðu hafi verið snúið á hvolf af meðvirkum fjölmiðlum. Þar á hún sennilega við sömu fjölmiðla og Ármann Jakobsson kallar „hægri sinnaða“.

Björn Þór Sigþórsson byggir skrif sín greinilega á texta áskorunarinnar inni á undirskriftarsíðunni en í stað þess að hringja í ábyrgðarmenn undirskriftarsöfnunarinnar og spyrja þá þeirra spurninga sem eru greinilega að þvælast fyrir honum kýs hann að snúa út úr, vefengja og gera lítið úr hugmyndinni enda tekur hann það fram að hann treystir Jóhönnu Sigurðardóttur þrátt fyrir allt. Að hans áliti eru það Hreyfingin og „lausbeislaðir“ tunnumótmælendur sem eru leiddir af varaformanni Frjálslynda flokksins sem bera ábyrgðina á hugmyndinni um utanþingsstjórn.

Hann hefur þó greinilega lesið sér nógu vel til, til að átta sig á að það er einhver áherslumunur á hugmyndunum. Að öðru leyti gerist hann uppvís af fáfræði sem gæti skýrst af flokkshollustu og ótta við að flokkurinn hans kunni að stafa hætta af hugmyndinni um utanþingsstjórn. Af skrifum hans að dæma er hann á þeirri skoðun að stjórnmál eigi að vera sérsvið stjórnmálamanna. Skiptir ekki máli hvort þeir eru til þess hæfir eða ekki. Eðlilega má spyrja sig að því hvort Björn geri ráð fyrir því að það að vera stjórnmálamaður samkvæmt hans skilgreiningu sé meðfæddur eiginleiki en ekki áunninn?

Jónas Kristjánsson skrifar einhvern hrærigraut þar sem hann hrærir öllu saman en virðist þó fylgjast nógu vel með til að vita um fund aðstandenda tunnumótmælanna með forsetanum. Af skrifum hans að dæma veit hann greinilega líka af boðuðum mótmælum þann 4. nóvember. Hann heldur því hins vegar fram að þau séu að undirlagi Hreyfingarinnar.

Þennan dag birtist líka athyglisvert viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún segist hafa meiri áhyggjur af stuðningi við mótmælin en minnkandi fylgi við ríkisstjórn hennar! Að hennar mati er ríkisstjórnin að gera allt sem í hennar valdi stendur til að verja heimilin og velferðarkerfið. Þjóðin ætti því að sýna henni þolinmæði og stuðning með jákvæðu hugarfari í stað þess að vera svona neikvætt.

3. nóvember

Ríkisstjórnin fundar með forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna um mótun samstarfsvettvangs í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum. Aðrir sem eru nefndir til samstarfsins (sjá hér) vekja ekki miklar vonir um jákvæðari útkomu út úr því en fram komu í svokölluðum stöðugleikasáttmála. (Sjá hér)

4. nóvember

Boðað til tunnumótmæla í tilefni af því að þing kemur saman aftur eftir einnar og hálfrar viku þinghlé. Yfirskrift mótmælanna að þessu sinni var: Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn. Um 16.000 fengu boð á viðburðinn. Tæplega 1000 boðuðu komu sína. Í fyrsta skipti síðan tunnumótmælin hófust eru mótmælendur sem mættu taldir niður og sagðir hafa verið um 300 til 400. Sumir skrifa það sem þkjósa að telja til fylgishruns við mótmælin á það að utanþingsstjórn njóti ekki fylgis.

Tunnurnar kalla á utanþingsstjórnHið rétta er að þegar flest var söfnuðust saman á milli 1000 og 1500 manns. Aðeins 300-400 tóku þátt í að berja tunnurnar. Þeir sem talað var við sögðust vilja sjá annað stjórnarfyrirkomulag. Viðtal er tekið við annan ábyrgðarmann áskorunarinnar til forsetans af starfsmönnum Kastljóss en þar sem hann er í framboði til stjórnlagaþings er hann klipptur út.

Ábyrgðarmenn áskorunarinnar sem tóku líka þátt í að boða til þessara mótmæla skrifuðu þingmönnum bréf þar sem þeir bentu þingmönnum m.a. á það að með þessari kröfu væri komið tækifæri fyrir þá til að brúa bilið á milli þeirra og þjóðarinnar. Nú hefðu þeir tækifæri til að búa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegra umhverfi. Bréfið var sent á alla fjölmiðla og enn og aftur var það eingöngu Svipan sem segir frá. (Sjá hér)

Fimm þingmenn svöruðu þessu bréfi og einn þeirra tók undir hugmyndina um utanþingsstjórn með þessum orðum:

það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.

Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.

Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan [hér vísar viðkomandi þingmaður í svar frá Ólínu Þorvarðardóttur sem hún sendi líka á allar þingmenn] í það að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri ríkisstjórn. (leturbreytingar eru mínar)

Þrátt fyrir að þingmaðurinn sem skrifaði þetta bréf hafi sent það á alla þingmenn hefur engin alvöru umræða farið fram inni á þinginu um þetta atriði!

Síðastliðnir dagar

Lítið hefur farið fyrir umræðum um stjórnmálakreppuna sem þjóðin býr við inni á Alþingi og úti í samfélaginu á undanförnum dögum. Ég geri þó ráð fyrir að flestir séu búnir að átta sig á því að enginn núverandi þingflokka hafi burði eða getu til að ráða við það alvarlega ástand sem sú kreppa viðheldur á öllum sviðum samfélagsins.

Nýlega birti Market and Media Research niðurstöður skoðanakönnunar sem bendir þó til að hugmyndin um utanþingsstjórn njóti vaxandi fylgis. „MMR kannaði afstöðu almennings til nokkurra kosta við samsetningu ríkisstjórnar sem hafa verið í umræðunni að undanförnu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 33,7% sem sögðu ákjósanlegast að mynduð yrði utanþingsstjórn [...] (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Nánasta framtíð

Við núverandi ástand stefna sífellt fleiri heimili og fyrirtæki í þrot. Almennt upplausnar- og ófremdarástand stigmagnast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er ljóst að sífellt fleiri bætast í þann hóp sem mun ekki hafa efni á að framfleyta sér og sínum. Raðirnar fyrir framan Fjölskylduhjálpina munu lengjast um allt land og spurning hve lengi hún og aðrar hjálparstofnanir geta sinnt neyð þeirra sem eiga ekki fyrir mat. Að öllu samanlögðu má því búast við að landsflótti og sjálfsmorðstíðni eigi eftir að aukast verulega á næstu vikum.

Viðbrögð

Ég hef bent á það áður að það eru fimm möguleikar í núverandi stöðu:

1. Þjóðstjórn
2. Kosningar
3. Utanþingsstjórn
4. Blóðug bylting
5. Landflótti

Af þessum möguleikum er utanþingsstjórn illskástur. Með þeirri leið yrðu settir til þess hæfir einstaklingar til að leysa þau verkefni að vinna að alvöru lausnum á skuldavanda heimilanna og í atvinnumálum þjóðarinnar. Þessi leið myndi líka búa stjórnlagaþinginu viðunandi starfsskilyrði til að vinna að alvöru lýðræðisumbótum fyrir íslenskt samfélag. 

Þess vegna skora ég á þig að kynna þér vel áskorun undirskriftarlistans (sjá hér). Ef þú vilt leggja þessari undirskriftarsöfnun enn frekara lið hvet ég þig til að prenta listann út (sjá hér) og safna enn fleiri undirskriftum þar sem það er nokkuð ljóst að það eru ekki allir sem fylgjast með því sem fram fer í netheimum. Þú getur líka dreift slóðinni og hvatt fólk til að kíkja. Slóðin er: http://utanthingsstjorn.is/

Ef við náum að safna undirskriftum 25% kosningabærra manna fyrir áramót er aldrei að vita nema við getum endurtekið blysförina heim að Bessastöðum frá síðasta nýársdegi! Ef margir leggjast á eitt ætti það að takast!
mbl.is Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræningjarnir vaða enn uppi!

Það vita það allir sem fylgjast með þessu bloggi að ég hef stórfelldar áhyggjur af því hvað verður um íslenskt samfélag og það ekki af ástæðulausu. Við erum á valdi ósvífinna græðgisafla sem hafa lagt undir sig bankana og lífeyrissjóðina. Þau hafa líka lagt undir sig hagsmunabaráttu verkalýðsins.

GræðgissvínSamt sem áður finnst ríkisstjórninni það eðlilegast að ræða einmitt við þessa aðila þegar kemur að því að ræða afleiðingar gjörða þeirra á kjör almennings. Þ.e. skuldavanda heimilanna. Miðað við framkomu eigenda bankanna og stjórnenda lífeyrissjóðanna í aðdraganda efnahagshrunsins og líka eftir hrun ætti það ekki að koma neinum á óvart að niðurstaða svokallaðs sérfræðingahóps sem var skipaður eftir stóru mótmælin 4. okt. sl. skilaði almenningi nánast engu.

Það þarf vart að minna á það að það voru eigendur bankanna og stjórnendur lífeyrissjóðanna sem „gömbluðu“ þannig með þá fjármuni sem þeim var trúað fyrir að úr varð sá forsendubrestur lánasamninga sem almenningur líður fyrir nú. Það að þeir skuli koma að ákvörðunum um það hvort og hvernig eigi að bregðast við þeim skuldavanda sem varð til af þessu er forkastanlegt. Það er reyndar álíka gáfulegt og tryggingarfélög hefðu það að reglu að kalla innbrotsþjófa inn í það verkefni að meta hvort eða hve mikið þeir ættu að bæta tjón sem er tilorðið fyrir verk þeirra!

Græðgisdólgarnir sem stýra þessum fjármálastofnunum hafa með mikilli reikniskúnst reiknað sig frá allri sanngirni og stungið réttlætinu ofan í tunnuna. Meðvirk ákvarðanafælni ríkisstjórnarinnar hefur svo verið gefin út í 40 blaðsíðna skýrslu studda af talnakúnst glæpamannanna sem ullu almenningi því tjóni sem kostar sífellt stærra hlutfall hans atvinnuna og eignirnar. Í stað þess að rísa upp til varnar tekur sívaxandi fjöldi til þess ráðs að kveðja fósturjörðina með því annaðhvort að flytja eða yfirgefa þennan heim.

Græðgiskúltúr Hin græðgisfulla og tilfinningalausa sérhagsmunaklíka lætur sér fátt um finnast. Hún verst til að viðhalda sjálfri sér og neitar að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Á meðan magnast reiðin úti í samfélaginu en í bakaraofni hennar mallar hættan sem þessari klíku óar ekki fyrir enda veit enginn hvernig rétturinn mun líta út fyrr en hann sprengir utan af sér ofninn.

Enda er alveg sama hvað þessi bófaflokkur reiknar. Hann getur aldrei reiknað sig frá þessari staðreynd:

Í skýrslu sérfræðingahópsins kemur fram að kostnaður við almenna lækkun skulda um 15,5% er 185 milljarðar.  Samkvæmt fulltrúa í sérfræðingahópnum fengu bankarnir 420 milljarða afslátt af lánasöfnum heimilanna við yfirfærsluna milli gömlu og nýju bankanna.  Því er ljóst að bankarnir ráða vel  við sinn hlut og enn er töluvert svigrúm til að koma til móts við fólk sem á í meiri vanda en svo að almenn leiðrétting hjálpi þeim.

Þá hefur komið fram að hlutur lífeyrissjóða vegna þessara leiðréttinga sé um 75 milljarðar.  Í því samhengi benda þingmenn Hreyfingarinnar á að lífeyrissjóðirnir hafa fengið yfir 126 milljarða í verðbætur vegna  sjóðfélagalána og sem lánveitandi Íbúðalánasjóðs, frá ársbyrjun 2008.  Þá fengu lífeyrissjóðirnir um 33 milljarða afslátt af íbúðabréfum sem þeir keyptu af Seðlabankanum í maí 2010. Svigrúm lífeyrissjóðanna er því einnig nægilegt. (sjá hér)
mbl.is Hollvinir lentu í hremmingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunnur skrifa bréf

Eins og einhverjir vita höfðu aðstandendur tunnumótmælanna boðað til mótmæla nú í kvöld. Mótmælin áttu að hefast kl. 18:00 fyrir framan Stjórnarráðið. Tilefnið var að til stóð að samráðsnefnd ráðherra og forystumanna stjórnarandstöðunnar um skuldavanda og atvinnumál funduðu á þessum tíma. Síðar í kvöld, eða kl. 20:00, ætlaði nefndin svo að ganga til fundar við hagsmunaaðila í Þjóðmenningarhúsinu.

ÞjóðmenningarhúsiðÞessum fundum hefur nú verið frestað og mótmælunum með. Fundurinn sem átti að hefjast kl. 18:00 í Stjórnarráðinu í kvöld hefur verið færður til kl. 16:00 á morgun en fund- urinn í Þjómenningarhúsinu hefur verið færðu til kl. 14:00 n.k.  fimmtudag. Aðstandendur tunnumótmælanna hafa fært mótmælin fram til þess tíma þannig að þau verða við Þjóðmenningarhúsið kl. 14:00 þ. 11. nóvember.

Heimildum ber ekki saman um það hvort þessi tilfærsla sé eingöngu tilkomin vegna fyrirhugaðra mótmæla en athygli vekur að fundirnir eru nú báðir settir niður á hefðbundinn dagvinnutíma. Það styður það vissulega að boðuð mótmæli hafi haft þar töluvert að segja.

Það er hart að það skuli þurfa að mótmæla til að ráðherrar og þingmenn gegni því hlutverki að vinna að hagsmunum almennings. Síðasta áminning almennings, þ.e. 4. okt., um tilveru sína og réttindi hreyfði ríkisstjórnina og stjórnarandstöðuna til meðvitundar um að eitthvað yrði að gera. Þá setti ríkisstjórnin, í samstarfi við stjórnarandstöðu, af stað yfirstandandi leikrit sem loks er farið að sjá fyrir endann á.Strengjabrúður

Þessi viðbrögð stjórnvalda vakti mörgum bjartsýni þó einkum fyrir það að Hagsmuna- samtökum heimilanna var boðið að taka þátt í samráði um það hvernig skyldi staðið að því að koma heimilunum í landinu til bjargar. Það var þó ljóst strax um miðjan síðasta mánuð að tilefnin til bjartsýni voru lítil enda létu fulltrúar Hagsmuna- samtakanna hafa þetta eftir sér: „Þá er það orðið opinbert. Stjórn HH var dregin á asnaeyrunum í tvær vikur af getulausu stjórnkerfi.“ (Sjá hér)

Eftir því sem það dregst að niðurstöður sam- ráðsins komi fram þá hefur líka fjarað enn frekar undan bjartsýni manna enda hafa fregnir borist af því að eingöngu standi til að leiðrétta eitthvað kjör þeirra sem þegar eru komnir í þrot í þeim tilgangi að gera þeim það auðveldara að halda áfram að borga!

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru allar eftir sömu uppskriftinni sem miðar að því að treysta skjaldborgina utan um lánastofnanir en ekki húsnæðislánagreiðendur. Þær miða að því að tryggja það að fjármálastofnanirnar fái það sem þeir kalla „sitt“ til baka. Almenningur borgar þessa sérhagsmunagæslu valda- og eignastéttarinnar dýru verði og er þar alls ekki aðeins átt við tekju- og húsnæðismissi."  

Okkur sem stöndum að tunnumótmælunum er svo nóg boðið að við ákváðum að skrifa bréf til ráðherranna í samráðsnefndinni og þing- og forystumanna stjórnarandstöðuflokkunum sem eiga þar sæti. Auk þeirra fengu hagsmunaðilum, varðandi skuldavanda heimilanna og atvinnumál sem hafa átt í viðræðum við ríkið, þetta bréf. Í stað þess að telja þessa upp hér leyfi ég mér að vísa á slíka hér hér).

Við sendum þetta bréf líka á fjölmiðla en þar sem enginn þeirra hefur birt það (Svipan hefur nú birt það) ætla ég að vekja athygli á því hér:

                                               ************************

Reykjavík 9. nóvember 2010

Góðan daginn!

Við undirritaðar erum meðal þeirra sem boðuðum til tunnumótmælanna við alþingishúsið 4. október sl. sem urðu ein stærstu mómæli Íslandssögunnar. Megintilgangur þeirra var að koma á framfæri vantrausti á störf Alþingis. Þrátt fyrir að öllum þeim fjölda sem tók þátt í mótmælunum væri sá megintilgangur fyllilega ljós tókst meginþorra þingheims einhvern veginn að leiða hann hjá sér.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar þutu m.a.s. upp til handa og fóta  og skipuðu samráðsnefnd nokkurra ráðherra og forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna um skuldavanda og atvinnumál. Hefði þessi nefnd verið skipuð fyrir rúmu ári síðan hefði skipan hennar verið fagnaðarefni en tilurð hennar og fréttir af vinnubrögðunum hafa því miður ekki gefið neina von um ásættanlega niðurstöðu. Aðkoma svokallaðra hagsmunaaðila gáfu heldur enga von nema ef undan eru skilin Hagsmunasamtök heimilanna.

Tilburðirnir geta því miður ekki kallast neitt annað en blekkingarleikur viðhafður í því skyni að lengja líftíma ríkisstjórnarinnar. Ástæða þess að við tökum svo sterkt til orða er einfaldlega sú að við blasir að á meðan samningur ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er enn í gildi munu hagsmunir fjármálastofnana ávallt vera hafðir í fyrirrúmi sama hvað það kostar almenning.

Við undirritaðar viljum minna á að þau forréttindi eigna og valda sem bankarnir, lífeyrissjóðirnir, verkalýðsfélögin og samtök atvinnurekenda ásamt stjórnvöldum láta bitna á almenningi kostar almenning: atvinnumissi, gjaldþrot, eignamissi og veldur landflótta og sjálfsmorðum. (eingöngu feitletrað í þessari birtingu)

Þess vegna er það krafa undirritaðra að ríkisstjórnin geri það sem hún var kosin til og gegni umboði meirihluta kjósenda sinna en ekki eingöngu þeirra sem reikna sér bankaviðskipti okkar og lífeyrissparnað sem sínar einkaeignir.

  • Við krefjumst þess að ríkisstjórnin stöðvi nú þegar afskriftir auðmanna og einkavina fjármálafyrirtækja sem margir hverjir eiga drjúgan þátt í að skapa þá efnahagskreppu sem svonefndum hagsmunaaðilum, að Hagsmunasamtökum heimilanna undanskildum, þykir ofureðlilegt að lendi eingöngu á almenningi.
  • Við krefjumst þess að ríkisstjórnin snúi af þeirri braut að viðhalda því upplausnar- og ófriðarástandi sem ríkir í samfélaginu með sýndarmennsku og blekkingarleikjum í stað raunverulegra aðgerða fyrir heimilin í landinu.
  • Við krefjumst þess að raunverulegar lausnir fyrir öll heimili verði unnar í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilanna án aðkomu þeirra sem bera meira og minna ábyrgð á efnahagskreppunni í landinu.
  • Við krefjumst þess að á meðan á þeirri vinnu stendur verði útburður fjölskyldna af lögheimilum þeirra stöðvaður.
  • Við krefjumst þess að okkur verði ekki boðið upp á stórframkvæmdir í formi virkjunarframkvæmda og byggingu álvera. Það liggur nefnilega í augum uppi að slíkar stórframkvæmdir þarf að auglýsa á evrópska efnahagssvæðinu þannig að það er algerlega óvíst að þær muni breyta miklu varðandi atvinnuleysi þjóðarinnar þó þær keyrðu hagtölur ríkissjóðs hátt upp á við um skamma hríð.

Að lokum viljum við vekja athygli á því að við höfum hvatt fólk til að mæta fyrir utan boðaða fundi samráðsnefndarinnar og síðar hennar og hagsmunaaðila í kvöld. Ástæðan er sú að við viljum styrkja samningsstöðu almennings þar sem það hefur sýnt sig að hann er iðulega fyrir borð borinn. Því miður er stöðugt aðhald af mótmælum það eina sem virðist duga til að minna á réttindi okkar.

Í einlægri von um að þið sjáið sóma ykkar í því að svíkja ekki þjóðina um þá almennu skuldaleiðréttingu sem þið lofuðuð.

                                               ************************

Við getum vissulega spurt okkur hvað stjórninni gangi til með þeirri stefnu sem hún framfylgir. Sú spurning er afar eðlileg þó við henni finnist engin heilbrigð svör. Ég ætla að varpa fram tveimur hér þó þau séu í afar glannaleg. Hins vegar er ástandið það líka og þess vegna þykir mér ástæða til að leita svara við því hvers vegna ráðamenn þjóðarinnar haga sér hreinlega eins og viti firrtir einstaklingar með enga jarðtengingu!

Þess vegna varpa ég þessum fram hér þó mér sé fullkomlega ljóst að þau hljóma eins og hverjar aðrar gróusögur. Það er líka sjálfsagt að taka þeim þannig þar sem ég hef ekkert fyrir mér í þessu nema orð sem mér finnst ekki óvitlausari en hver önnur í öllum grængolandi vitleysisganginum sem maður horfir upp á. Þessar sagnir herma að Vinstri grænir engist í vandræðum sínum yfir því hvernig þeir eigi að meðhöndla Steingrím sem þjáist af sömu persónuleikaröskun og Davíð. Persónuleikaröskun þeirra einkennist af því sem nefnist á grísku hybris.

Almennir félagsmenn í Samfylkingunni eru líka í nokkrum vandræðum þar sem þeir sitja uppi með óþægilegan grun um að ráðherrar og aðrir forystumenn hennar stefni að því að svelta þjóðina inn í Evrópusambandið! 


mbl.is Efnahagsleg skilyrði uppfyllt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fasískur tunnuterroristi og afleiður verka hans í nærmynd

Ég má til að skemmta mér og ykkur hinum með þessari skemmtilegu myndaseríu frá Henrý Þór skrípóbloggara:

Tunnuterroristi að störfum

 


Gæti utanþingsstjórn styrkt ímyndina?

Ég man enn skömmina sem ég fann til við fyrstu fréttirnar af hruninu. Ekki styrktist sjálfsímyndin við fréttir næstu daga. Ég lýsti tilfinningum mínu í ræðu sem ég hélt á fyrsta borgarafundinum sem var haldinn á Akureyri með þessum orðum:

Sjálfsmynd mín sem Íslendings hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli vegna þess sem hefur dunið á þjóðinni að undanförnu. Ég er reyndar viss um að það eru margir í sömu sporum og ég hvað það varðar. Framkoma stjórnvalda gagnvart íslensku þjóðinni í kjölfar nýliðinna atburða veldur því að sjálfsvirðing mín heldur áfram að molna niður. (Sjá hér)

Ég hef aldrei velkst í neinum vafa um það að íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því hvernig fór. Eins er ég í engum vafa um að þau bera ábyrgð á núverandi stöðu. Það mátti láta sig dreyma um það að eitthvað myndi breytast við kosningar eins og háværasta krafa búsáhaldabyltingarinnar hljóðaði upp á en ég deildi ekki þeirri bjartsýni með meginþorranum.

Því miður hefur það komið í ljós að svartsýni mín, og reyndar fleiri, var á rökum reist. Þess vegna hef ég átt þátt í því að endurvekja þá kröfu sem mér var alltaf efst í huga (sjá hér). Þ.e.a. leysa gömlu flokkanna sem áttu allir sína hlutdeild í því að sitja sofandi hjá viðvörunarmerkjunum um það hvert stefndi. Sumir stýrðu þjóðinni beinlínis í hrunið með gjörðum sínum og/eða andvaraleysi. Aðrir gegndu ekki hlutverki sínu sem stjórnarandstöðuflokkar.

Í dag er það orðið fullljóst að fjórflokkurinn er sekur um að gegna fyrst og síðast eigin hagsmunum. Þeir hafa allir komið að stjórn landsins á undanförnum fimm árum með þeim árangri að sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins er í molum!

Eitthvað þarf að gera til að leiðrétta þær alvarlegur afleiðingar sem stjórnir þessara flokkar hafa haft á: efnahagslífið, stjórnmálinn, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins. Enginn framantalinna flokka er fær um það. Enginn annar flokkur eða stjórnmálaafl hefur aflað sér nægilegs fylgis til að geta tekið við af gömlu flokkunum.

En landið þarf að lúta einhverri stjórn. Sveinn Björnsson sem var ríkisstjóri á árunum 1942-1944 leysti úr þeirri stjórnmálakreppu sem hann stóð frammi fyrir með utanþingsstjórn. Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti, hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að þessi leið sé fær í núverandi kreppu sem er mun umfangsmeiri og alvarlegri en sú sem Sveinn Björnsson stóð frammi fyrir á sínum tíma.

Þessi undirskriftarsöfnun er einhvers konar svar við þessum hugmyndum forsetans. Það er hins vegar ljóst að hún veldur umfangsmiklum titringi meðal þeirra sem ég leyfi mér að kalla fylgismenn vinstri sértrúarsafnaðanna. (Sjá viðbrögð mín við skrifum sumra þeirra hér)

Hræðsluáróðrinum gagnvart hugmyndinni um utanþingsstjórn er ábyggilega hvergi nærri lokið. Nýjasta dæmið sem ég hef rekist á er frá Össuri Skarphéðinssyni og hinn sérlundaði Ármann Jakobsson dælir frá sér niðurrifinu á allt og alla sem hafa gert sér dælt við hugmyndina. Árásinra verða eflaust fleiri og sennilega illskeyttari. Ég met það svo að ástæðan sé sú að hér er um raunhæfa og framkvæmanlega hugmynd að ræða. En ef hún yrði að veruleika myndi hún að sjálfsögðu svipta núverandi stjórnvöld þeim sérréttindum sem þeir búa að nú.

Þeir eru þó til sem velta þessari hugmynd fyrir sér út frá allt öðrum forsendum. Áður en ég vík að sterkasta dæminu um það þá ætla ég að bregða upp möguleikunum sem eru fyrir hendi við núverandi kringumstæður:

  1. Þjóðstjórn
  2. Kosningar
  3. Utanþingsstjórn
  4. Blóðug bylting
  5. Landflótti 

Í mínum huga hefur núverandi þing sýnt það og sannað að þeim er gjörsamlega ómögulegt að vinna saman. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með að rökstyðja það neitt sérstaklega þar sem dæmin eru svo mýmörg að allir þeir sem hafa á annað borð fylgst með því sem fram hefur farið á yfirstandandi þingi hljóta að gera sér grein fyrir sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar að samvinnugrundvöllur er ekki fyrir hendi.

Kosningar myndu vafalaust skila einhverju nýju fólki inn á þing. E.t.v. myndu líka koma fram ný framboð sem kæmu einhverjum að en miðað við skoðanakannanir myndi Sjálfstæðisflokkurinn að öllum líkindum verða sá flokkur sem yrði í bestri aðstöðu til að mynda meirihluta stjórn. Auðvitað yrði það óskastaða þeirra sem vilja viðhalda óbreyttu kerfi. Þ.e. því kerfi sem keyrði efnahagslíf landsins í þrot. Það ætti því að segja sig sjálft að ný stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi væri síst af öllu til þess fallinn að bæta ímynd landsins hvað þá sjálfsmynd þjóðarinnar.

Þá er það þriðji möguleikinn sem hlýtur að teljast fýsilegri en möguleikar 4) og 5). Að mínum viti er hann illskásti möguleikinn af öllum fimm. Þess vegna gerðu aðstandendur tunnumótmælanna utanþingsstjórn að kröfu sinni sl. fimmtudag. Við Ásta Hafberg sem erum þær sem eru ábyrgðarmenn undirskriftarlistans um utanþingsstjórn (Sjá hér) skrifuðum þingmönnum bréf þar sem við drógum fram ástæður þess að þeim væri ekki treystandi lengur fyrir stjórn landsins. Bréfinu lukum við á þessum orðum: 

Þess vegna skorum við á ykkur að svara kalli tunnanna um slíka lausn. Þið hafið tækifæri til að brúa það bil sem er á milli þings og þjóðar með því að taka af skarið núna og samþykkja utanþingsstjórn þegar í stað. Þið eruð líka í aðstöðu til að bregðast við þessu kalli með því að skapa henni lýðræðislega umgjörð og taka þátt í umræðunni um það hvernig að skipun hennar verður staðið í samvinnu og sátt við íslenska þjóð. (Sjá hér)

Svör hafa borist frá fimm þingmönnum (eins og kemur fram hér). Ég hef fengið leyfi eins þeirra til að birta svar hans. Það er líka sínu merkilegast af þeim sem hingað til hafa borist. Ég ætla ekki að birta nafn viðkomandi þingmanns strax en tek fram að hann er í stjórnarandstöðunni og hefur setið á Alþingi frá 2007. Þetta er svarið sem hann sendi ekki bara á mig og Ástu heldur alla þingmenn líka:

Sæl Rakel,
það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.

Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, Alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.

Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri Ríkisstjórn.

Bestu kveðjur,

Nú velti ég því fyrir mér hvaða þýðingu þetta bréf muni hafa og hvort þeir þingmenn sem hafa talað um handónýtt Alþingi muni bregðast við og styðja það sem hér segir. Ég sjálf hef heyrt sex þingmenn viðurkenna að þingið sé valdalaust eins og segir í þessu bréfi. Þrjá stjórnarþingmenn og þrjá stjórnarandstöðuþingmenn.

Hins vegar er ljóst að þeir sem vilja viðhalda því kerfi, sem hefur ekki aðeins sökkt ímynd landsins heldur lætur þjóðina gjalda glæpamannanna sem tryggðu þeim völdin með bitlingum og bónusum, eru skíthræddir um að glata sérréttindunum og fríðindunum sem þeir njóta.

Efnahagur landsins og sjálfsímynd landans líða fyrir það að þjóðin situr uppi með stjórnvöld sem hafa verið meira og minna kostuð til valda af einstaklingum sem finnst það eðlilegt að þeir njóti þeirra forréttinda að lifa í vellystingum þó verkamennirnir sem halda þeim uppi hafi varla í sig á fyrir það hvað þeir eru frekir á fóðrum.

Á meðan stjórnvöld láta slíka mismunum líðast munu afleiðingar hrunsins halda áfram að elta þjóðina í formi atvinnuleysis, gjaldþrota, eignamissis, brottflutninga og sjálfsmorða. Ef stjórnvöld ráða ekki við að horfast í augu við sína pólitísku ábyrgð og fara einu skynsamlegu leiðina sem nú er í sjónmáli þá eigum við annað tveggja víst: blóðuga byltingu eða landflótta nema hvort tveggja verði. 


mbl.is Ímynd Íslands í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur í veginum

Þessi frétt segir af fundi Hreyfingarinnar með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Birgitta segir frá því að á fundinum hafi komið fram staðfesting á því að það er samningurinn sem ríkið hefur gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem kemur í veg fyrir almenna skuldaleiðréttingu heimilunum til handa.

Af þessu tilefni þykir mér ástæða til að endurbirta færslu sem ég setti inn í byrjun júlí sl. Á þeim tíma reyndu nokkrir mótmælendur að vekja athygli á þeirri ógn sem íslensku samfélagi stafar af veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi. Því miður virðist enn vera langt í land með að almenningur átti sig á þvílíkri nöðru hefur verið komið fyrir á hálsi hans.

Ég hvet alla Íslendinga til að kynna sér sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er t.d. hægt með því að gúggla skammstöfunina IMF og velja úr upplýsandi greinar um starfsaðferðir sjóðsins og afleiðingarnar sem efnahagsaðstoð frá honum hafa haft á samfélögin sem hafa látið glepjast til að þiggja efnahagsaðstoð  hans. Ég bendi líka á þessa heimildamynd um efnahagshrunið í Argentínu og afleiðingarnar sem aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafði á lífsskilyrði argentínsku þjóðarinnar.

 En hér er greinin sem ég skrifaði í sumar. Hún er ágætis inngangur:

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekkert annað en sníkjusamfélag!

IMF trapping countries in debt Það hefur enginn verið jafnduglegur við að fræða okkur um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og Gunnar Skúli Ármannsson. Hann hefur verið mjög iðinn við að afla sér upplýsinga um afleiðingar „efnahagsaðstoðar“ sjóðsins í hinum ýmsum löndum og kynna þær fyrir öðrum bæði á blogginu sínu og með fyrirlestrum

En þeir eru fleiri sem hafa reynt að vekja athygli á því hvernig þetta sjóðsskrímsli hefur rústað efnahag hinna ýmsu landa. Þ.á m. Argentínu sem ákvað að losa sig við þennan „afætusjóð“. Auðvaldshringurinn, sem gefur sig út fyrir að vera neyðarlánastofnun, er að fara eins með Lettlandi núna eins og hann fór með Argentínu á sínum tíma.

Lífskjör okkar stefna þangað líka! Það er framkvæmdastjóri sjóðsins hér á landi sem er hinn eiginlegi landsstjóri. Hann selur ríkisstjórninni fyrst þá hugmynd að til að tryggja efnahagslegan stöðugleika þurfi ríkissjóður að þiggja af þeim ægistórt neyðarlán. Þetta lán er látið heita gjaldeyrisvarasjóður og er nú þegar orðinn margfalt hærri en hann var á árunum áður en fór að hylla undir efnahagshrunið. (Sjá nánar hér) Svo þarf ríkið að borga vexti af þessu láni. Áætlaðir vextir af láninu fyrir þetta ár nema sömu upphæð og kostar að reka allt íslenska menntakerfið! eða um fjórðungi af skatttekjum ríkissjóðs!

En lánið er líka háð ákveðnum skilyrðum. Ríkisstjórnin þarf að vinna skipulega að nýfrjálshyggjunni sem flestir eru sammála um að hafi verið sú stefna sem upphaflega setti hér allt á hausinn. Það er þess vegna ekki skrýtið þó við sjáum engar breytingar aðrar en þær að stöðugt fleiri stefna í fátækt og landsflótta.

Ég hef ekki heyrt neinn sem mótmælir því að inni í nýfrjálshyggjunni er kreppugildra. Gildra sem má búast við að verði vart á 10 ára fresti. Í hverri kreppu sem dynur yfir þá færast verðmæti úr höndum margra aðila, sem hafa fjárfest í húsnæði og/eða atvinnutækifærum, yfir á hendur fárra fjármagnseigenda og/eða lánastofnana.
Ekkert réttlætiHitt skilyrðið er niðurskurður í ríkisútgjöldum. Niðurskurðurinn kemur þannig fram að fyrst er það sem má kalla velferðarkerfið skorið niður til algjörrar örbirgðar. Þar er m.a. átt við mennta- og heilbrigðiskerfið. Laun almennra opinberra starfsmanna eru skert og framlög til framkvæmda og uppbyggingar eru skorin af. Þetta ferli er hafið hér hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. (Viðbót: Fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram nú í haust er enn frekari staðfesting þessa.)

Almenningur borgar
Niðurskurður
Í reynd er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekkert annað en risavaxin hryðjuverkasamtök sem hafa það eina markmið að leggja undir sig efnahag þjóða. Þeir eru búnir að margprufukeyra aðferðina sem virkar líka svona glimrandi. Þeir sannfæra ríkisstjórnir um að þær komist ekki af án þeirrar hjálpar en setja þeim skilyrði sem eru til þess ætluð að lama efnahagskerfi þjóðarinnar, sem hún stýrir, þannig að neyðin leiðir til þess að stöðugt er gengið á hin raunverulegu verðmæti. Í tilfelli okkar Íslendinga eru það fyrst og fremst náttúruauðlindirnar sem þeir eru að sækjast eftir.

SamningurinnVið höfum dæmin allt í kringum okkur um það hvernig þeir hafa rústað lífskjörum þeirra þjóða sem hafa þegið hina svokölluðu neyðaraðstoð þeirra. Þeir lifa sníkjulífi á efnahagskerfum sem hafa orðið fyrir skakkaföllum og tryggja að þau riði til falls. Þeir mæta eins og hrææturnar yfir helsærðu fórnarlambi og tæta það svo í sig.

Er einhver tilbúinn til að standa hjá á meðan þannig fer fyrir öllu því sem tryggir okkur og afkomendum okkar lífsafkomu í þessu landi?

************************************************************

Viðbót: Vil vekja athygli á þessari yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem þeir settu inn sunnudaginn 7. nóvember. Þar segir m.a:

Við lestur viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda frá 7. apríl 2010 vakna upp áleitnar spurningar um tilgang efnahagsáætlunarinnar. Í þeirri yfirlýsingu ber allt að sama brunni, það er að leita allra leiða til að lágmarka tjón fjármálakerfisins á kostnað almannahagsmuna.  Fólkið er gert ábyrgt fyrir óráðsíu fjármálakerfisins og vanrækslu stjórnvalda við að taka á þeirri óráðsíu.  Nýtilkomin ofurskuldsetning ríkisins er til merkis um það og skuldaþrældómur þjóðarinnar er orðinn að veruleika. 


mbl.is Birgitta: Almennar aðgerðir fyrir suma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunnurnar valda titringi!

TunnanHugmyndin af því að nota tunnur í mótmælunum kom upp 1. október. Þann dag safnaðist fólk saman á Austurvelli í tilefni þingsetningarinnar. Fólk var reitt og því var misboðið vegna þess að meiri hluti þingmanna hafði nokkrum dögum áður staðfest það í atkvæðagreiðslu um landsdóm að æðstu embættismenn landsins skyldu ekki sæta ábyrgð þó gjörðir þeirra jöfnuðust á við landráð að ásettu ráði.

Skipuleggjendur fyrstu tunnumótmælanna voru fimm konur og álíka margir karlmenn. Þessi hópur safnaði saman tunnum og kom þeim niður á Austurvöll skömmu áður en Jóhanna Sigurðardóttir hóf upp raust sína í boðaðri stefnuræðu. Hávaðinn frá tunnunum sköpuðu henni viðeigandi umgjörð en mannfjöldinn sem mætti þetta kvöld skapaði enn meiri þrýsting á forsætisráðherrann og ríkisstjórnina sem hann leiðir.

Í kjölfarið var skipuð samráðsnefnd nokkurra ráðherra ríkisstjórnarinnar ásamt forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Hún hefur átt allnokkra fundi með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna, verkalýðsfélaga og banka. Markmiðið var að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig farsælast væri að bregðast við skuldavanda heimilanna. 

Nú herma fregnir að niðurstaðan muni tæplega verða til þess að sátt myndist um hana. Heimildir eru fyrir því að ríkisstjórnin hafi engu breytt frá stefnu fyrri ríkisstjórna varðandi það að hafa hagsmuni fjármagnseigenda ávallt í fyrirrúmi án þess að hirða um það þótt slíkt komi alvarlega niður á hagsmunum meirihluta þjóðarinnar.

Einn heimildarmaður minn tjáði mér að það stefndi allt í það að útkoma þessarar samvinnu yrðu það að ríkisstjórnin muni „reikna sig frá réttlætinu“. Hún muni birta 40 síðna útreikniskýrslu og á endanum fallast á að leiðrétta aðeins hjá þeim sem eru komnir fram yfir bjargbrúnina. En getum við sætt okkur við það þegar enn fleiri eru á leiðinni fram af???
Lífsstíll þeirra sem lifa á öðrumÞað er ljóst að fjármagnseigendur vilja alls ekki sætta sig við að almenningi verði komið til bjargar því það myndi ógna þeirra stríðöldu sérhagsmunum. Það er líka ljóst að þessi ríkisstjórn eins og þær sem stjórnuðu á undan gegna hagsmunagæslu hennar fyrst og fremst enda margt sem bendir til að þeir hinir sömu hafi kostað leið þeirra inn á þing að mestu leyti.

Ég vil líka benda á það að ég hef traustar heimildir fyrir því að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ráði miklu um niðurstöðuna. Fulltrúar hans hér á landi viðurkenndu að það stríðir gegn samningnum sem þeir gerðu við ríkið ef ríkisstjórnin gengur lengra í því að koma heimilunum til bjargar. Samkvæmt samningum við sjóðinn hefur ríkisstjórnin ekki heimild til annars eða meira en að tjasla eitthvað upp í stöðu þeirra sem eru komnir í gjaldþrot nú þegar. Þeir sem hafa kynnt sér sögu sjóðsins kannast eflaust við að þetta rímar mjög vel við aðferðir hans. 

En til hvaða viðbragða getur þjóðin gripið? Aðstandendur tunnumótmælanna hafa boðað til enn einna mótmælanna n.k. þriðjudagskvöld eða þ. 9. nóv. kl. 18:00. Á þeim tíma er fyrrgreind samráðsnefnd boðuð til fundar í Stjórnarráðinu en kl. 20:00 mun hún halda til fundar með ofangreindum hagsmunaaðilum í Þjóðmenningarhúsinu.

Ég hvet alla til að styrkja samningsstöðu almennings og beita þrýstingi með því að mæta!    


mbl.is Tunnumótmæli boðuð á þriðjudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband