Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Vald þagnarinnar

Það er greinilegt að fréttamat fjölmiðlanna í dag er afar ríkisstjórnarhollt. Ástæðan er augljóslega sú að þeim hentar forgangsröðun hennar. Þessi ekki-frétt er gott dæmi um það þetta. Ekki síst í ljósi þess að í raun barst mbl.is stórfrétt í formi fréttatilkynningar í gærmorgun.

Tveir aðstandendur tunnumótmælanna hafa nefnilega hrundið af stað undirskriftarsöfnun með áskorun á forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn nú þegar. Yfirskrif mótmæla gærdagsins tengdist þessari sömu kröfu enda yfirskriftin: „Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn“. Í fyrsta skipti var karfan sett á eitt meginmarkmið sem er einfaldlega sú að Alþingi samþykki utanþingsstjórn.
Tunnuterrorista að störfumTil að undirstrika þessa kröfu þá skrifuðum við Ásta Hafberg bréf sem við sendum á alla þingmenn í gærmorgun og reyndar alla helstu fjölmiðla, sem við ekkjum til, líka. Í bréfinu töldum við upp helstu ástæður þess að þinginu er ekki lengur treystandi. Bréfið endar á því að benda þingmönnunum á að nú hafa þeir tækifæri til að brúa bilið milli þings og þjóðar. Í stað flokkshagsmunapólitíkunnar þá geta þeir tekið sig saman í andlitinu og búið utanþingsstjórninni lýðræðislegri ramma en núverandi stjórnskipunarhefð gerir ráð fyrir.

Enginn fjölmiðill, utan Svipunnar, hefur birt neitt varðandi þetta bréf. Viðtal sem einn dagskrágerðamanna Kastljóss tók við mig varðandi kröfu mótmæla gærdagsins lenti undir ritstjórnarhnífnum af ástæðum sem ég fjalla um síðar en vil taka fram að eru algerlega ótengdar því sem ég sagði. Bréfið er hér:

                              *************************

Reykjavík aðfararnótt 4. nóvember 2010

Góðan daginn!

Við undirritaðar erum meðal aðstandenda tunnumótmælanna og ábyrgðarmenn undirskriftarsöfnunar áskorunarinnar um að forsetinn skipi utanþingsstjórn nú þegar.  Tilefni þessara tilskrifa eru mótmælin síðar í dag en við viljum gera grein fyrir því hvers vegna við finnum okkur knúnar til að standa að mótmælum og krefjast utanþingsstjórnar.

Það getur ekki hafa farið fram hjá ykkur að Alþingi nýtur innan við 10% trausts þjóðarinnar. Ástæðan er hve illa þið valdið þingmannshlutverkum ykkar og hvernig langmestur meiri hluti ykkar hafið farið með umboð kjósenda ykkar. Mörg ykkar hafið setið inni á þingi þegar afdrifaríkustu ákvarðanirnar sem síðar leiddu til bankahrunsins voru teknar. Mikill meiri hluti sat og/eða situr enn í ríkisstjórninni sem leyndi þjóðina mikilvægum upplýsingum í aðdraganda hrunsins. Flest ykkar taka þátt í slíkum yfirhylmingum enn.

Meiri hluti ykkar hefur setið í ríkisstjórnum sem hafa náð völdum á fölskum kosningaloforðum. Einhver ykkar hafa líka komist inn á þing í krafti kosningabaráttu sem var kostuð af gerendum hrunsins. Langmestur meiri hluti ykkar hefur ítrekað sýnt það í orði og athöfnum að ykkur er fyrirmunað að skilja að slík hagsmunatengsl geta og mega ekki líðast. Alltof mörg ykkar tókuð líka þá afstöðu í kosningunum um landsdóm 28. sept. sl. að það sé eðlilegt að æðstu embættismenn landsins beri enga ábyrgð á gjörðum sínum.

Ekkert ykkar hefur heldur knúið í gegn alvöru lausnum við skuldavanda og atvinnuleysi almennings en þið hafið setið aðgerðarlaus hjá þegar miljarðaskuldir eru afskrifaðar hjá auðmönnum sem langflestir tengjast hruni bankanna ljóst og leynt.

Á meðan framtíð lands og þjóðar hangir á heljarþröm eyðið þið dýrmætum tíma og skattpeningum þjóðarinnar í flokkadrætti og bitlingapólitík og stundið aðra viðlíka sér- og flokkshagsmunagæslu af blindri eljusemi. Mörg ykkar eruð svo innmúruð í veruleika fámennrar valda- og eignaklíku að þið hafið algjörlega misst sjónar á raunveruleika meirihluta almennings sem berst í bökkum vegna sérhagsmunagæslu sem undanfarandi ríkisstjórnir hafa ýmist unnið að fyrir fjármálaöflin eða stutt með aðgerðarleysi sínu.

Þetta getur ekki haldið svona áfram! Enda stöndum við frammi fyrir því að sífellt fleiri missa atvinnuna, verða gjaldþrota og tapa eignum sínum. Fjölskyldur eru að sundrast vegna þess að stöðugt fleiri flytja úr landi og þeir eru líka nokkrir sem hafa ekki fundið annað svar frammi fyrir óréttlætinu sem þeim er boðið upp á, á ykkar ábyrgð, en binda enda á líf sitt.

Eina leiðin sem við sjáum út því öngstræti sem mörg ykkar hafið tekið þátt í að leiða þjóðina inn í, og ykkur er fyrirmunað að leiða hana út úr, er utanþingsstjórn. Þess vegna skorum við á ykkur að svara kalli tunnanna um slíka lausn. Þið hafið tækifæri til að brúa það bil sem er á milli þings og þjóðar með því að taka af skarið núna og samþykkja utanþingsstjórn þegar í stað. Þið eruð líka í aðstöðu til að bregðast við þessu kalli með því að skapa henni lýðræðislega umgjörð og taka þátt í umræðunni um það hvernig að skipun hennar verður staðið í samvinnu og sátt við íslenska þjóð.

Í fullri einlægni og djúpri von um að þið hlustið,

Rakel Sigurgeirsdóttir

og Ásta Hafberg

                              *************************

Að lokum vil ég láta þess getið að fjórir þingmenn svöruðu þessu bréfi. Það eru fjórar konur. Ein úr Hreyfingunni, önnur úr Sjálfstæðisflokknum og tvær úr Samfylkingunni. Ég reifa svör þeirra hérna síðar ef ég fæ samþykki þeirra til að birta og/eða vitna í þau. 


mbl.is Olía lak úr mótmælatunnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er að verða miklu meira en nóg!

Ég reikna með að þeir séu miklu fleiri en ég sem eru búin að fá miklu meira en nóg að finna veskið þynnast á meðan tíminn líður undir flokks- og sérhagsmunabaráttu sem fram fer á stjórnarheimilinu. Sambandsleysið og vanhæfnin við að vinna hagsmunum lands og þjóðar eitthvert gagn hefur verið gríðarleg nokkur undanfarin ár en þó tæplega eins himinhrópandi eins og nú.

Dæmin tala fyrir sig sjálf en ég ætla þó að fylgja þessu betur eftir innan skamms en langar til að benda þeim sem eru sammála því að við verðum að binda endi á þessi ósköp á þennan undirskriftarlista þar sem skorað er á forsetann að skipa utanþingsstjórn nú þegar!

Svo minni ég á mótmælin á morgun (4. nóv. kl. 14:00) þar sem þess verður krafist að Alþingi samþykki utanþingsstjórn. Utanþingsstjórn er ætlað það forgangsverkefni að vinna gegn því heilsuspillandi og lífshættulega ástandi sem íslensk stjórnmálastétt hefur skapað og viðheldur með ráðþægni sinni við peningaöflin á kostnað okkar almennings.


mbl.is Hafa fyrirvara á samráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við sendum fréttatilkynningu...

Ábyrgðarmenn undirskriftarsöfnunarinnar þar sem skorað er á forseta Íslands að skipa utanþingsstjórn nú þegar var send á alla fjölmiðla sl. föstudag en enginn, utan Svipunnar og Útvarps Sögu hafa sinnt henni enn. Krafan er hins vegar komin fram og það er greinilegt að hún veldur ugg bæði inni á stjórnarheimilinu og meðal stjórnarandstöðunnar.

Bjarni Benediktsson rumskar allt í einu og biður um þjóðstjórn. Ögmundur Jónasson setur upp alkunnan vandlætingarsvip og talar niður til þeirra sem standa á bak jafn óábyrgri kröfu og utanþingsstjórn sem að hans sögn minnir á ekkert nema forræðishyggju. Ármann Jakobsson skrifar fyrsta hlutann í framhaldssögunni um tunnuteroristsa sem hafa það svo margfalt betra en hann að þeir eiga jeppa, mörg hundruð fermetra íbúðir og kasta grjóti í alþingishúsið undir blaktandi fasistafána.

Svo eru það blaðamennirnir tveir: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir heldur því fram að tunnumótmælin snúist ekki um neitt nema sundrungu og muni þar af leiðandi stuðla að því að koma Sjálfstæðisflokknum til valda. Björn Þór Sigbjörnsson talar um lausbeislaða tunnumótmælendur með höfuðið uppi í skýjunum og svo er það að síðustu forsætisráðherrann sem segist hafa meiri áhyggjur af stuðningi þjóðarinnar við mótmæli en fylgistapi ríkisstjórnarinnar sem hún leiðir!

Öll þessi umræða eru viðbrögð við kröfunni um utanþingsstjórn. Miðað við fjöldann er vert að taka það fram að umrædd áskorun var ekki sett fram opinberlega af hálfu tunnumótmælendanna fyrr en síðastliðinn föstudag. Kröfunni verður fylgt eftir með mótmælum n.k. fimmtudag og hafa rúmlega 700 meldað sig á þau þegar þetta er skrifað.

Það sem vekur furðu mína er að tveir ofangreindra eru stjórnarþingmenn sem hafa haft eitt og hálft ár til að bregðast við því óréttlæti sem almenningur má þola og hefur mótmælt í rétt rúm tvö ár. Það vekur mér svo nær óstöðvandi hlátur að norræna velferðarstjórnin hefur komið sér upp sínum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og ekki skemmir fyrir hvað hann er skemmtilegur penni! Hann er pennafærasta grúbbpía nýfrjálshyggjunnar sem ég hef rekist á hingað til. 

Svo er ástæða til að vekja vel og rækilega athygli á því að tvö ofantalinna eru blaðamenn sem mætti ætla að beri meiri virðingu fyrir fagmannlegum vinnubrögðum en svo að þau létu það undir höfuð leggjast að spyrja sérfræðinga í t.d. í stjórnskipunarrétti um efnið. Sú virðist þó ekki raunin þar sem skrif þeirra minna miklu frekar á blogg en frétt eða grein sem ber að taka alvarlega.

Það tekur e.t.v. steininn úr þegar það er haft í huga að fjölmiðlarnir sem birtu ofangreindar greinar og fréttir hafa allir fengið fréttatilkynninguna sem ég hef ákveðið að birta hér á blogginu mínu. Svipan birti hana óbreytta og einn dagskrárgerðarmannanna á Útvarpi Sögu fékk annan ábyrgðarmann undirskriftarsöfnunarinnar í viðtal til sín sl. laugardagsmorgun. Að öðru leyti hefur það bara verið þögnin fyrir utan þessa fyrirtíðarspennu þeirra sem óttast að missa völdin. Það er vert að vekja athygli á því að það er reyndar greinilegt á texta Ögmundar að hann þekkir ekki bara texta áskorunarinnar heldur fréttatilkynningarinnar líka.

Að ofantöldu þykir mér greinilegt að þeir sem trúa á fjórflokkinn og úr sér gengið stjórnkerfi eru farnir að skjálfa. Það er líka einsýnt að gömlu fjölmiðlarnir rétt eins og gömlu flokkarnir ætla ekki að læra neitt af Rannsóknarskýrslu Alþingis. En hér er fréttatilkynningin sem allir þessir fjölmiðlar láta sem þeir viti ekki af þrátt fyrir að hafa fengið hana tvisvar í pósthólfið hjá sér:

Fréttatilkynning: Áskorun til forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn nú þegar

Hrundið hefur verið af stað undirskriftarsöfnun þar sem skorað er á forseta Íslands að koma á utanþingsstjórn sem hefur það verkefni að leysa úr brýnustu vandamálum þjóðarinnar. Þ.e. skuldavanda heimilanna og vaxandi atvinnuleysi. Það eru tveir aðstandendur tunnumótmælanna sem settu áskorunina saman í samvinnu við sérfræðinga í netsíðugerð.

Kveikjan að þessari undirskriftarsöfnun er það stjórnarfars- og efnahagsástand sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag. Kosningar vorið 2009 vöktu mörgum vonir um breyttar áherslur í efnahags- og atvinnumálum. Þær vonir hafa orðið að engu hjá mörgum. Hún hefur heldur ekki farið fram hjá neinum hin sívaxandi samstaða meðal þjóðarinnar í að mótmæla ýmsum stjórnsýslulegum ákvörðunum.

Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni hefur mætt harðri gagnrýni hvarvetna um landið og í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um landsdóm þ. 28. september sl. tóku mótmælin sig upp enn og aftur hér í Reykjavík og þá af enn meiri krafti en áður. Í viðtölum fjölmiðla við mótmælendur sem teknir voru tali við þingsetninguna þ. 4. október sl. ber mjög við sama tón. Viðmælendur segjast ekki treysta þjóðþingi okkar Íslendinga. Þeir álíta að þjóðstjórn eða kosningar muni engu breyta enda sýna nýjustu tölur að Alþingi nýtur innan við 10% trausts þjóðarinnar.

Við þessar aðstæður er utanþingsstjórn eina færa leiðin til að mynda starfhæfa stjórn sem getur tekið á þeim knýjandi vandamálum sem ógnar íslensku samfélagi. Utanþingsstjórn hefur einu sinni verið mynduð hér á landi. Það var þegar Sveinn Björnsson þáverandi ríkisstjóri leysti stjórnarkreppu í landinu árið 1942 með því að skipa slíka stjórn. Hún sat frá desember 1942 fram í október 1944. Nokkrum sinnum síðan hefur myndun utanþingsstjórnar komið til tals bæði innan og utan þings. Umræðan um myndun slíkrar stjórnar hefur þó aldrei verið jafn hávær og nú.

Skipun utanþingsstjórnar er ekki aðeins nauðsynleg til lausnar á stjórnkreppunni í landinu heldur fyrst og fremst til að leysa þá efnahagskreppu sem er að sundra þjóðinni. Það getur hreinlega verið lífsspursmál að bregðast við skuldavanda heimilanna og því alvarlega ástandi sem ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar. Auk þess þarf að endurmeta efnahagsstefnu landsins. Þetta yrðu forgangsverkefni þeirrar utanþingsstjórnar sem undirskriftarsöfnunin kallar eftir.

Ábyrgðarmenn áskorunarinnar eru úr hópi þeirra sem hafa staðið að tunnumótmælunum að undanförnu. Sá hópur hefur boðað til nýrra mótmæla 4. nóvember n.k. í tilefni þess að Alþingi kemur saman á þeim degi eftir þinghlé í eina og hálfa viku. Tilgangur mótmælanna er að undirstrika það að tími þingsins til að bregðast við og leysa vanda þjóðarinnar er útrunninn. Við gerum þá kröfu að Alþingi styðji skipun utanþingsstjórnar sem við treystum til að leiðrétta kjör almennings í landinu.

Við skorum á atvinnurekendur og stofnanir að gefa starfsfólki sínu frí þennan dag og landsbyggðarfólk að taka sér ferð á hendur og fjölmenna á Austurvöll. Það hefur nefnilega sýnt sig að samstaða er aflið sem þarf til að knýja fram breytingar!

Ásta Hafberg og Rakel Sigurgeirsdóttir

 


mbl.is Allra úrræða leitað áður en til nauðungarsölu kemur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunhæfur möguleiki

Steingrímur J. Sigfússon er haldinn sömu blindu og aðrir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar. Þeir neita að viðurkenna það að þeir hafa hvorki getu eða burði til að gegna hagsmunum almennra kjósenda. Það kom reyndar í ljós strax eftir kosningarnar fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá settu þeir ESB-aðildarviðræður og Icesave-samninginn í forgang fram yfir miklu nærtækari ógnir heimilanna í landinu! Það sér reyndar ekki fyrir endann á vitleysisgangi hvorugra þessara forgangsmála þeirra enn!

Með aðstoð Gylfa Arnbjörnssonar og Vilhjálms Egilssonar frysti þessi ríkisstjórn launaþróun í landinu í nafni svokallaðs stöðugleikasáttmála. Á sama tíma gerði ríkisstjórnin enga tilraun til þess að ná tökum á bönkunum sem áttu langstærsta þáttinn í því að setja efnahag landsins á hausinn.  Bankarnir voru þó í ríkiseign þannig að ef einhver raunverulegur áhugi var fyrir því að leiðrétta kjör almennings og koma honum um leið undan því að bera einum afleiðingarnar af hruninu þá höfðu þeir svo sannarlega tækifærið!

Í stað margumtalaðs gegnsæis voru bankarnir seldir í lokuðu ferli til aðila sem grunur leikur á að séu jafnvel þeir sömu og áttu þá áður. Þeir eru a.m.k. engu betri enda ljóst að starfshættir og siðferði bankanna hafa ekkert breyst. Á sama tíma og margra milljarða lán helstu velgjörðarmanna gömlu eigendanna eru afskrifuð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir aðra viðskiptavini bankanna standa þeir í vegi fyrir leiðréttingu á lánum almennra lántakenda vegna þess forsendubrests sem urðu á lánasamnigum þeirra fyrir gjörðir gömlu eigendanna.
Hrunverjabankarnir 

Bankar og stjórnsýsla hafa algerlega hundsað niðurstöðu Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem höfundar 8. bindisins gefa báðum falleinkunn hvað varðar starfshætti og siðferði. Þetta tvennt hefur síst batnað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn komst til valda í krafti söluvænlegra kosningaloforða sem hún tók að svíkja frá fyrsta degi. Þeir hafa fengið hvert tækifærið á fætur öðru til að bregðast við og taka á málum sem snúa að uppgjöri annars vegar og leiðréttingu á síversandi kjörum almennings í landinu. Í stað þess alvöru aðgerða er þjóðinni boðið upp á blekkingar á blekkingar ofan.

Nú einu og hálfu ári eftir að þessi stjórn tók við völdum er risin upp ný mótmælaalda sem beinist gegn handónýtu þingi sem hefur sýnt sig að þjónar eingöngu peningavaldinu. Skiptir engu hvort þar situr hægri eða vinstri stjórn. Þjóðþing sem er að langstærstum hluta skipað þingmönnum sem finnst ekkert athugavert við það að kosningaslagur einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka sé kostað að fyrirtækjum og fjármálastofnunum búa tæplega yfir heilbrigðri dómgreind. Stjórnsýsla sem gengur meira og minna út á bitlingapólitík býr augljósleg ekki heldur yfir ómengaðri siðvitund.

Það er þess vegna ekki skrýtið þó krafan um utanþingsstjórn sé komin fram. Það er augljóst að núverandi þingflokkar eru ófærir um að mynda þjóðstjórn sem nokkurn gagn verður í. Kosningar myndu tæplega skila neinni vitrænni niðurstöðu heldur þar sem það er líklegt að sama leikritið færi í gang í kosningabaráttunni og hver getur hugsað sér stjórn sem yrði leidd af einhverjum fjórflokkanna nema þeir sem styðja núverandi ástand vegna þess að hann hefur hag af því að almenningur beri allan þungan af afleiðingum þess ófremdarástands sem þeir bera allir nokkra ábyrgð á?!
Komið fram yfir síðasta söludag

Nú hafa tunnumótmælendurnir enn einu sinni boðað til mótmæla á Austurvelli og nú í tilefni að því að þing kemur aftur saman eftir einnar og hálfrar viku hlé. Krafan að þessu sinni er sú að Alþingi samþykki utanþingstjórn en  henni er ætlað það forgangsverkefni að vinna gegn því heilsuspillandi og lífshættulega ástandi sem íslensk stjórnmálastétt hefur skapað og viðheldur með ráðþægni sinni við peningaöflin á kostnað okkar almennings!

Settur hefur verið upp viðburður á Facebook. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 600 manns boðað komu sína. Mótmælin eru verða þann 4. nóvember fyrir framan alþingishúsið kl 14:00. (Sjá hér)


mbl.is Steingrímur gagnrýnir fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband