Við sendum fréttatilkynningu...

Ábyrgðarmenn undirskriftarsöfnunarinnar þar sem skorað er á forseta Íslands að skipa utanþingsstjórn nú þegar var send á alla fjölmiðla sl. föstudag en enginn, utan Svipunnar og Útvarps Sögu hafa sinnt henni enn. Krafan er hins vegar komin fram og það er greinilegt að hún veldur ugg bæði inni á stjórnarheimilinu og meðal stjórnarandstöðunnar.

Bjarni Benediktsson rumskar allt í einu og biður um þjóðstjórn. Ögmundur Jónasson setur upp alkunnan vandlætingarsvip og talar niður til þeirra sem standa á bak jafn óábyrgri kröfu og utanþingsstjórn sem að hans sögn minnir á ekkert nema forræðishyggju. Ármann Jakobsson skrifar fyrsta hlutann í framhaldssögunni um tunnuteroristsa sem hafa það svo margfalt betra en hann að þeir eiga jeppa, mörg hundruð fermetra íbúðir og kasta grjóti í alþingishúsið undir blaktandi fasistafána.

Svo eru það blaðamennirnir tveir: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir heldur því fram að tunnumótmælin snúist ekki um neitt nema sundrungu og muni þar af leiðandi stuðla að því að koma Sjálfstæðisflokknum til valda. Björn Þór Sigbjörnsson talar um lausbeislaða tunnumótmælendur með höfuðið uppi í skýjunum og svo er það að síðustu forsætisráðherrann sem segist hafa meiri áhyggjur af stuðningi þjóðarinnar við mótmæli en fylgistapi ríkisstjórnarinnar sem hún leiðir!

Öll þessi umræða eru viðbrögð við kröfunni um utanþingsstjórn. Miðað við fjöldann er vert að taka það fram að umrædd áskorun var ekki sett fram opinberlega af hálfu tunnumótmælendanna fyrr en síðastliðinn föstudag. Kröfunni verður fylgt eftir með mótmælum n.k. fimmtudag og hafa rúmlega 700 meldað sig á þau þegar þetta er skrifað.

Það sem vekur furðu mína er að tveir ofangreindra eru stjórnarþingmenn sem hafa haft eitt og hálft ár til að bregðast við því óréttlæti sem almenningur má þola og hefur mótmælt í rétt rúm tvö ár. Það vekur mér svo nær óstöðvandi hlátur að norræna velferðarstjórnin hefur komið sér upp sínum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og ekki skemmir fyrir hvað hann er skemmtilegur penni! Hann er pennafærasta grúbbpía nýfrjálshyggjunnar sem ég hef rekist á hingað til. 

Svo er ástæða til að vekja vel og rækilega athygli á því að tvö ofantalinna eru blaðamenn sem mætti ætla að beri meiri virðingu fyrir fagmannlegum vinnubrögðum en svo að þau létu það undir höfuð leggjast að spyrja sérfræðinga í t.d. í stjórnskipunarrétti um efnið. Sú virðist þó ekki raunin þar sem skrif þeirra minna miklu frekar á blogg en frétt eða grein sem ber að taka alvarlega.

Það tekur e.t.v. steininn úr þegar það er haft í huga að fjölmiðlarnir sem birtu ofangreindar greinar og fréttir hafa allir fengið fréttatilkynninguna sem ég hef ákveðið að birta hér á blogginu mínu. Svipan birti hana óbreytta og einn dagskrárgerðarmannanna á Útvarpi Sögu fékk annan ábyrgðarmann undirskriftarsöfnunarinnar í viðtal til sín sl. laugardagsmorgun. Að öðru leyti hefur það bara verið þögnin fyrir utan þessa fyrirtíðarspennu þeirra sem óttast að missa völdin. Það er vert að vekja athygli á því að það er reyndar greinilegt á texta Ögmundar að hann þekkir ekki bara texta áskorunarinnar heldur fréttatilkynningarinnar líka.

Að ofantöldu þykir mér greinilegt að þeir sem trúa á fjórflokkinn og úr sér gengið stjórnkerfi eru farnir að skjálfa. Það er líka einsýnt að gömlu fjölmiðlarnir rétt eins og gömlu flokkarnir ætla ekki að læra neitt af Rannsóknarskýrslu Alþingis. En hér er fréttatilkynningin sem allir þessir fjölmiðlar láta sem þeir viti ekki af þrátt fyrir að hafa fengið hana tvisvar í pósthólfið hjá sér:

Fréttatilkynning: Áskorun til forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn nú þegar

Hrundið hefur verið af stað undirskriftarsöfnun þar sem skorað er á forseta Íslands að koma á utanþingsstjórn sem hefur það verkefni að leysa úr brýnustu vandamálum þjóðarinnar. Þ.e. skuldavanda heimilanna og vaxandi atvinnuleysi. Það eru tveir aðstandendur tunnumótmælanna sem settu áskorunina saman í samvinnu við sérfræðinga í netsíðugerð.

Kveikjan að þessari undirskriftarsöfnun er það stjórnarfars- og efnahagsástand sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag. Kosningar vorið 2009 vöktu mörgum vonir um breyttar áherslur í efnahags- og atvinnumálum. Þær vonir hafa orðið að engu hjá mörgum. Hún hefur heldur ekki farið fram hjá neinum hin sívaxandi samstaða meðal þjóðarinnar í að mótmæla ýmsum stjórnsýslulegum ákvörðunum.

Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni hefur mætt harðri gagnrýni hvarvetna um landið og í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um landsdóm þ. 28. september sl. tóku mótmælin sig upp enn og aftur hér í Reykjavík og þá af enn meiri krafti en áður. Í viðtölum fjölmiðla við mótmælendur sem teknir voru tali við þingsetninguna þ. 4. október sl. ber mjög við sama tón. Viðmælendur segjast ekki treysta þjóðþingi okkar Íslendinga. Þeir álíta að þjóðstjórn eða kosningar muni engu breyta enda sýna nýjustu tölur að Alþingi nýtur innan við 10% trausts þjóðarinnar.

Við þessar aðstæður er utanþingsstjórn eina færa leiðin til að mynda starfhæfa stjórn sem getur tekið á þeim knýjandi vandamálum sem ógnar íslensku samfélagi. Utanþingsstjórn hefur einu sinni verið mynduð hér á landi. Það var þegar Sveinn Björnsson þáverandi ríkisstjóri leysti stjórnarkreppu í landinu árið 1942 með því að skipa slíka stjórn. Hún sat frá desember 1942 fram í október 1944. Nokkrum sinnum síðan hefur myndun utanþingsstjórnar komið til tals bæði innan og utan þings. Umræðan um myndun slíkrar stjórnar hefur þó aldrei verið jafn hávær og nú.

Skipun utanþingsstjórnar er ekki aðeins nauðsynleg til lausnar á stjórnkreppunni í landinu heldur fyrst og fremst til að leysa þá efnahagskreppu sem er að sundra þjóðinni. Það getur hreinlega verið lífsspursmál að bregðast við skuldavanda heimilanna og því alvarlega ástandi sem ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar. Auk þess þarf að endurmeta efnahagsstefnu landsins. Þetta yrðu forgangsverkefni þeirrar utanþingsstjórnar sem undirskriftarsöfnunin kallar eftir.

Ábyrgðarmenn áskorunarinnar eru úr hópi þeirra sem hafa staðið að tunnumótmælunum að undanförnu. Sá hópur hefur boðað til nýrra mótmæla 4. nóvember n.k. í tilefni þess að Alþingi kemur saman á þeim degi eftir þinghlé í eina og hálfa viku. Tilgangur mótmælanna er að undirstrika það að tími þingsins til að bregðast við og leysa vanda þjóðarinnar er útrunninn. Við gerum þá kröfu að Alþingi styðji skipun utanþingsstjórnar sem við treystum til að leiðrétta kjör almennings í landinu.

Við skorum á atvinnurekendur og stofnanir að gefa starfsfólki sínu frí þennan dag og landsbyggðarfólk að taka sér ferð á hendur og fjölmenna á Austurvöll. Það hefur nefnilega sýnt sig að samstaða er aflið sem þarf til að knýja fram breytingar!

Ásta Hafberg og Rakel Sigurgeirsdóttir

 


mbl.is Allra úrræða leitað áður en til nauðungarsölu kemur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl æfinlega; mín fornvinkona, Rakel !

Þrek þitt; og ykkar Ástu Hafberg - sem annars baráttufólks, mun aldrei gleymast, né heilindi ykkar, kjarkur og einurð, Rakel mín.

Hafir þú; sem þau hin, í framvarða sveitinni, dýpstu þakkir, fyrir framgöngu ykkar, hér eftir - sem hingað til.

Ríkidæmi Íslands; er fólgið í ykkur; kæra Rakel !

Með byltingarkveðjum innilegum; sem jafnan, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 01:34

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæl Rakel. Við megum ekki gefast upp í baráttunni þó á móti blási. Það verða alltaf einhverjir sem munu gagnrýna þá sem dirfast að sýna óánægju sýna í verki en ég er alveg viss um að hinir eru fleiri sem styðja aðgerðir á borð við tunnumótmæli sem hafa farið að mestu leyti friðsamlega fram. Bestu kveðjur.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.11.2010 kl. 05:41

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur báðum fyrir virkilega hughreystandi og uppbyggilegar kveðjur Það verður aldrei hægt að forðast gagnrýni en það segir sig auðvitað sjálft að standi maður í öðru eins og hér um ræðir gefur maður um leið veiðileyfi á mannorð sitt og æru. Ég hef sem betur fer bein til að bera slíkt. Hef langan aðlögunartíma að baki þó ég hafi ekki alltaf haft jafn hátt og nú

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.11.2010 kl. 12:41

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Lengi lifi byltingin.

Ég bý við þá ógæfu að geta ekki notað Explorer (Gates er minn maður) þannig að ég næ ekki virkum linkum inná bloggið mitt.

En ég ætla samt að krækja við hugsanlegar og óhugsanlegar fréttir í dag, og minna á tunnun morgundagsins.

Vona að þetta gangi vel hjá ykkur, Valkyrjum Íslands.

Hafið þið þökk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2010 kl. 15:05

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er gott að vita að stuðningi hetju eins og þín

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.11.2010 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband