Þetta verður spennandi

Rakel SigurgeirsdóttirÉg er ein þeirra sem eru í framboði og undanfarna daga hef ég ansi oft heyrt spurninguna: „Hvernig gengur kosningabaráttan?“ Kannski er það bara ég sem er svo illa áttuð að finnast spurningin mjög úr takt við það sem ég hef boðið mig fram í.

Þeim sem hafa fylgst með blogginu mínu vita að ég er ótrauð þegar kemur að baráttu fyrir því sem ég tel réttlátan málstað. Ég, um mig, frá mér til mín-herferð lætur mér hins vegar ekkert sérstaklega vel. Auðvitað veit ég að ég hef heilmikið til brunns að bera ekki síst þegar kemur að því að vinna í hópi og fjalla um málefni sem varða grunngildi mannlegs samfélags og uppbyggingu þess.

Mér er hins vegar ljóst að af rúmlega 500 frambjóðendum til stjórnlagaþings eru margir mjög frambærilegir til þessa verkefnis. Ég geri því ráð fyrir því að stór hluti frambjóðenda sé ekkert síður frambærilegir en ég og tvímælalaust einhverjir miklu hæfari. Ég sé því engan tilgang í að leggjast í einhverja baráttu inni í slíkum hópi.

Ég viðurkenni að ég mætti sjálfsagt vera duglegri við að kynna framboð mitt. Til að bregðast við ábendingum þar um ákvað ég að sýna einhverja ábyrgð á framboði mínu og tína saman þær kynningar sem hægt er að nálgast um mig sem frambjóðanda til stjórnlagaþings hér á Netinu. Fyrst minni ég á töluna mína sem er 3865.

Kynningarnar sem ég bendi á hér eru: örkynningin inni á kosning.is, löng og ýtarleg svör við spurningum frá svipan.is, myndbandsupptaka sem var tekin upp á vegum Stjórnarskrárfélagsins þar sem ég segi hvers vegna ég býð mig fram og ræði nokkur grundvallarhugtök sem varða ritun nýrrar stjórnarskrár og að lokum viðtalið sem RUV bauð öllum frambjóðendunum upp á.

Inni á kosning.is er yfirlit yfir menntun og starfsreynslu og svar við spurningunni hvers vegna ég býð mig fram til stjórnlagaþings. Þar var ég í töluverðum vandræðum því við fengum svo fá orð til ráðstöfunar. Ég rakti þó að ég hefði búið víða um land og hefði fjölbreytta starfs- og lífsreynslu. Að mínu mati skiptir það máli varðandi hæfileikann að setja sig í annarra spor og sjá viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.

Inni á svipan.is er sú kynning sem ég er ánægðust með. Svipan er líka sá miðill sem hefur staðið sig langbest varðandi kynningu og umfjöllun um stjórnlagaþingið og þá sem bjóða sig fram til þess. Kynningin sem ég sendi þangað er bæði löng og ýtarleg. Sennilega of löng fyrir marga en þar svara ég sumu af því sem kemur fram í örkynningunni nákvæmar en þar er þó flest nýtt.

Svipan spurði t.d. um hagsmunatengsl og tengsl við flokka og hagsmunasamtök. Tengsl mín við flokka eru þau að ég var fimmta á lista Borgarahreyfingarinnar í síðustu alþingiskosningum í norðaustur og er nú varamaður í stjórn Hreyfingarinnar. Í þessu sambandi finnst mér líka rétt að taka það fram að ég er framhaldsskólakennari og er þar af leiðandi aðili að Kennarasambandi Íslands auk þess sem ég er fulltrúi í samninganefnd Félags framhaldsskólakennara.

Um hagsmunatengsl mín setti ég fram eftirfarandi lista:

Það eru allir tengdir einhverjum og allir eiga þeir einhverra hagsmuna að gæta. Mín eru fyrst og fremst þessi:

  • Ég á nána ættingja sem þjást vegna niðurskurðarins í heilbrigðiskerfinu.
  • Ég á líka aðstandendur sem þurfa að framfleyta sér á bótum sem eru undir framfærslumörkum.
  • Ég þekki mjög vel kjör einstæðra foreldra af 27 ára reynslu.
  • Ég ólst upp í sveitum Vestur- og Norðurlands og hef alla tíð verið í nánum tengslum við vini og ættingja sem eru bændur.
  • Ég hef líka búið í þorpum og bæjum úti á landsbyggðinni en einnig í höfuðborginni og er þar af leiðandi í góðum tengslum við fólk víða á landinu. Þó minnst austan- og sunnanlands.
  • En fyrst og fremst er ég þó Íslendingur sem finn til djúprar samkenndar með þjóðinni sem ég tilheyri. Hagsmunir mínir eru tengdir hennar órjúfanlegum böndum.

Í kynningu minni á Svipunni nota ég tækifærið og rek ég í stuttu máli hvar ég hef búið svo og menntunar- og starfsferil. Þar rek ég líka ýtarlega hvaða hugmyndir ég hef varðandi breytingar á stjórnarskránni. Í meginatriðum varða þær eftirtalda þrjá þætti: lýðræðisumbætur, mannréttindi og náttúrvernd. Fyrir þá sem hafa ekki nennu til að lesa það allt bendi ég á krækjurnar í upptökurnar hér á eftir.

Að lokum eru spurningarnar sem mér þykir eiginlega vænst um en þær varða það hvort ég hafi lesið Stjórnarskrá Íslands, stjórnarskrá annarra ríkja og Rannsóknarskýrsluna. Reglulegir lesendur þessa bloggs hafa sennilega ekki komist hjá því að rekast á að ég hef gjarnan vitnað í núverandi Stjórnarskrá og svo Rannsóknarskýrsluna hér. Ég hef þó ekki enn lokið við lestur þeirrar síðarnefndu.

Svo ég sé alveg heiðarleg þá er ég ekkert sérstaklega trúuð á það að ég verði á meðal þeirra sem hljóta kosningu inn á væntanlegt stjórnlagaþing en ef sú verður raunin þá finnst mér það vera eitt af hlutverkum mínum að kynna mér vel þær stjórnarskrár annarra ríkja sem þykja best heppnaðar. Hingað til hef ég kynnst stjórnarskrám annarra ríkja meira af afspurn en í gegnum eigin lestur.

Í lok kynningarinnar inni á Svipunni eru hvorki meira né minna en þrjár upptökur sem voru teknar upp á vegum Stjórnarskrárfélagsins. Ég set þá lengstu hingað inn. Hún er rúmar fimm mínútur en hinar eru rúmum tveimur mínútum styttri.

Í þessu myndbandi útskýri ég að ein ástæðan fyrir því að ég bauð mig fram til stjórnlagaþingsins hafi verið sú að ég gegndi áskorunum þar um. Reglulegir lesendur þessa bloggs hafa varla komist hjá því að taka eftir því að ég hef verið afar virk í hvers konar viðspyrnu- og grasrótarstarfi frá bankahruninu 2008. Ég var með frá byrjun mótmælanna á Akureyri og var viðstödd alla slíka viðburði fyrir norðan nema ég væri stödd fyrir sunnan á laugardögum en þá fór ég niður á Austurvöll.

Frá upphafi árs 2009 til vorsins 2010 tók ég þátt í að skipuleggja og halda utan um borgarfundi á Akureyri. Við byrjuðum fjórar, vorum fimm þegar vorum flestar en ég endaði ein. Um mitt síðasta sumar flutti ég til Reykjavíkur þar sem ég er búsett núna. Það eru margar ástæður sem búa að baki þeim flutningi en ein þeirra var vissulega sú að ég vissi að kraftar mínir og hugmyndir myndu nýtast betur í því viðspyrnustarfi sem fer fram hér en fyrir norðan.

Eftir að ég flutti hef ég tekið þátt í ýmis konar starfsemi. Þar á meðal mótmælum og hef komið að skipulagningu tunnumótmælanna. Sumum kann að þykja það ógnvekjandi að „tunnuterroristi“ fái sæti inni á stjórnlagaþingi en það er nafngift sem okkur, sem tókum þátt í mótmælunum núna í október, hefur verið gefið af þeim sem vilja af einhverjum ástæðum halda í núverandi samfélagsástand.

Það er ljóst að ég vil ekkert annað frekar en tækifæri til að byggja upp. Ritun nýrrar stjórnarskrár er ein leiðin til þess. Í seinni hluta kynningarinnar hér að ofan skoða ég ýmis hugtök sem mér þykir lykilatriði að ríki sameiginlegur skilningur á ef stjórnlagaþinginu á að takast að skapa nýja og betri stjórnaskrá. Um lýðræðið segi ég t.d. þetta:

Lýðræði merkir t.d. dæmis ekki að kjósendur fái að hrókera valdahlutföllum ákveðinna flokka inni á Alþingi á fjögurra ára fresti gegn teygjanlegum loforðum sem er stungið niður í skúffu á milli kosninga.

Ég velti líka upp hugtökum eins og pólitík, mannréttindum og heilbrigðu samfélagi. Í styttri myndbandsupptökunum, sem er að finna í lok kynningarinnar á Svipunni, fjalla ég eingöngu um innihald þessara hugtaka.

Síðastliðinn laugardag fór ég í útvarpsviðtal á RUV ásamt öðrum frambjóðendum. Við vorum tekin inn í stúdíóið í tíu manna hópum þar sem voru lagðar fyrir okkur eftirtaldar spurningar: Þarf að breyta stjórnarskrá  lýðveldisins núna ? Hverju þarf helst að breyta ? og hvers vegna ég hafi boðið mig fram? Í sem stystu máli finnst mér full þörf á að breyta stjórnarskránni. Mér þykir núverandi stjórnmála- og samfélagskreppa vera afdráttarlausustu rökin um nauðsyn þess.

Hins vegar set ég spurningarmerki við tímasetningu þessa bráðnauðsynlega verkefnis. Ég vík að öðru atriðinu í útvarpsviðtalinu en það eru áhyggjur mínar af því að hér hefur ekki átt sér stað sú hugarfarsbreyting sem mér þykir nauðsynleg að verði til að útkoma stjórnlagaþingsins verði ný stjórnaskrá sem leggur grunn að heilbrigðu og sjálfstæðu lýðræðissamfélagi.

Hitt er að ég fæ ekki betur séð en fjórflokkurinn allur muni reyna að setja stein í götu árangursins sem kann að nást á stjórnlagaþinginu sjálfu við endurritun stjórnarskrárinnar. Ef það væri tryggt að stjórnarskráin færi í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að stjórnlagaþingið skilar henni af sér þá væri ég Rakel Sigurgeirsdóttirrólegri.

Að lokum má geta þess að ég tók prófið inni á DV.is Þar átti ég í erfiðleikum með nokkrar spurningar vegna þess að þeim fylgdu enginn svarmöguleiki sem samræmdist mínum skoðunum en ekki var hægt að sleppa því að svara. Þetta voru spurningarnar:
* Hver eftirfarandi möguleika lýsir þínum áherslum um kjördæmaskipan á Íslandi best?“

* Hvort viltu heldur að kjördæmaskipan byggi á einfaldri meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum eða á hlutfallskosningu?
* Á að fjölga eða fækka þingmönnum?

Þar sem enginn svarmöguleikanna náðu utan um skoðanir mínar á þessum málum þá neyddist ég til að velja „vil ekki svara“ þrátt fyrir að finnast það alveg afleitur kostur. Af þessum ástæðum bætti ég eftirfarandi við í athugasemd:

Í þessari spurningu: Hvort viltu heldur að kjördæmaskipan byggi á einfaldri meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum eða á hlutfallskosningu? Vil ég hvorugt. En varðandi fjölgun eða fækkun kjördæma svo og þingmanna er ég ekki viss um að núverandi fjöldi sé það sem standi lýðræðinu fyrir þrifum.

Prófkjör og misvægi á milli atkvæða gera það aftur á móti að verkum að kjósendum er gert það að kjósa einn flokk inn á þing og/eða bæjarstjórn. Ég myndi vilja að kjósendur ættu kost á því  að velja einstaklinga óháð því hvaða flokki þær tilheyra.

Ef þú, lesandi þessara orða, ert einhverju nær um það hvort ég sé fulltrúi þinna skoðanna inn á stjórnlagaþingið þá er tilgangi þessara skrifa náð. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að treysta mér þá er sanngjarnt að ég minni þig á númerið mitt sem er 3865.


mbl.is Skannar komnir á talningarstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband