Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Barátta góðs og ills

Það hafa margar sögur um alls kyns spillingu gengið um í samfélaginu undanfarin misseri. Ýmsir auðmenn og reyndar stjórnmálamenn líka hafa verið þar í aðalhlutverki. Eftir bankahrunið óx þessum sögnum svo sannarlega fiskur um hrygg og sífellt fleiri koma við þessar ljótu spillingarsögur.

Ég er ekki í aðstöðu til að meta sannleiksgildi þeirra allra. Hins vegar er ljóst að dýpt kreppunnar hér á landi og þögn yfirvalda þar um er ekki einleikin. Eitthvað liggur að baki. Eitthvað sem er svo stórt og ljótt að það þolir ekki að vera dregið fram í dagsljósið. Það er hins vegar ljóst að til að hylma yfir ástæður og gerendur þarf virka og sterka þöggunar- og felublokk.

Alþjóð veit í grundvallaratriðum hverjir bera ábyrgð á hinni alvarlegu fjármálakreppu sem dundi á íslensku efnahagslífi nú í haust. Við vitum líka í aðalatriðum hvað olli henni. Þ.e.a.s. þeir sem eru tilbúnir til að horfa framan í þann bitra veruleika. Ýmsir málsmetandi menn og konur hafa komið fram í erlendum og innlendum fjölmiðlum, á borgara- og mótmælafundum og svo hér á blogginu og útskýrt það fyrir okkur hvað gerðist og hvernig það gerðist. (Lára Hanna Einarsdóttir hefur sýnt fádæma atorku við að safna þessu öllu saman, saman)

Gandálfur reiðir sverð sitt á móti óvinaöflunumEnginn þeirra seku hefur stigið fram og viðurkennt ábyrgð sína. Það sem hefur þó vakið mesta furðu í þessu sambandi er það hvernig þeir komust upp með þetta og hvers vegna enginn er kallaður til ábyrgðar núna. Þrátt fyrir að það liggi í augum uppi að fjárglæfrastarfsemi nýfrjálshyggjugosanna hafi steypt krónunni til helvítis þá eiga þeir ekki að sæta neinni ábyrgð fyrir það. Þvert á móti eru skilaboðin til þjóðarinnar þau að núna sé ekki rétti tíminn til að finna sökudólga! Hvenær þá ef ekki núna spyrjum við auðvitað á móti? en ekkert svar... aðeins myrk og hol þögnin...

Það sem mér og sennilega flestum öðrum finnst furðulegast í öllum þessum hildarleik er það hvað þessu liði gengur til? Hvers vegna axlar enginn ábyrgð á því, sem við viljum e.t.v. kalla sofandahátt fjármálastofnananna í landinu? Hvers vegna þegir verkalýðsforystan? Hvers vegna þegir forsetinn? Hvers vegna virka fjölmiðlarnir ekki? Hvers vegna þegir dómsvaldið? löggjafarvaldið? og framkvæmdarvaldið? Hvers vegna neitar ríkisstjórnin að víkja?

Hvað eru þessir aðilar að verja? Sekt? Samsæri? Meðvirkni? Heimsku? Getuleysi? Dómgreindarskort? Siðspillingu? Sjö syndir, og sennilega enn fleiri sem mig skortir hugmyndaflug til að draga fram, binda þöggunar- og felublokkina saman, og gegn hverjum? Almenningi, sem er svo sleginn að andlegu ástandi hans má líkja við afleiðingar alvarlegs losts sem stafar t.d. af loftárásum og öðrum stríðsógnum. Og erum við ekki í stríði?

Héldu ekki allir að ríkisstjórnin væri í vinaliðinu með almenningi og stæði vörð um hagsmuni hans? En hvað hefur komið í ljós? Ríkisstjórninn er óvinur almennings í landinu. Hún starfar ekki lengur í hans þágu og ber ekki hagsmuni hans fyrir brjósti. Þvert á móti ver hún þá sem brutu gegn þjóðarhagsmunum. Það lítur líka út fyrir að þeir séu ekki aðeins sekir um yfirhylmingu og samsekir glæpamönnunum þess vegna. Þeir eru líka sekir um sams konar glæpi og útrásarklíkan. Enda tilheyrðu þeir henni og störfuðu leynt og ljóst í hennar þágu og hagsmuna hennar eingöngu. Enda græddu þeir mest á því. (Sjá blogg Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur)

Þjóðin á því ekki bara í baráttu við þá sem spilltu fortíðinni, rústuðu nútíðinni og standa í vegi fyrir framtíðinni heldur berst hún við ill eyðingaröfl. Meinsemdin sem hefur sest að í hugum þeirra, sem verja völd sín og vinaklíkurnar sínar með þessum hætti, er græðgin. Sjúklingarnir sem við sitjum uppi með eru svo gersamlega á hennar valdi að þeir eru orðnir þrælar hennar. Fíknin í auð og meiri auð og spennuna sem hann skapar hefur firrt þessa einstaklinga dómgreindinni. Ef þessi sjúklingahópur tapar er fjörið búið og það má ekki verða. Það er engin framtíðarhugsjón sem stýrir gjörðum þeirra heldur skammtímasjónarmið helguð af peninga- og valdagræðgi. 

Hvar er almenningur í þessari mynd? Hann borgar upp áhættufjármagnið sem tapaðist sama hvað það kostar. Almannaheill er fórnað á altari græðginnar. Það verður að fórna öllu og öllum til að bjarga eigin skinni og halda uppi samsærinu. Hugsun græðgisfíklanna innan ríkisstjórnarinnar er mjög líklega þessi: „Ef vinur minn tapar bankanum sínum kjaftar hann frá mér og það ríður mér að fullu!“ Það er þess vegna engin spurning hverjum verður fórnað? fyrir hvern? og hvers vegna?

Almenningur er fórnarlambið. Við höfum færst aftur á tíma lénsveldisins og fáum alltaf frekari staðfestingar á því. Tekjur okkar og eignir voru settar að veði fyrir sýndarverðmæti banka og fyrirtækja. Við vorum m.a.s. knúin áfram með auglýsingum og gylliboðum til að grundvalla þennan sýndarveruleika enn frekar og sumir bitu vissulega á agnið. Eru þeir sakamenn eða fórnarlömb? Ég held að þeir séu flestir fórnarlömb því ég reikna ekki með að þeir fái skuldirnar sínar afskrifaðar eða réttara sagt reiknaðar inn í vextina og verðtryggingarnar sem leggjast ofan á lán Jóns og Jónu.

Er þessi „útrásar“pistill minn farinn að minna á ævintýri þar sem góðu öflin neyðast til að berjast á móti hinu illa áður en það eyðir veröldinni líkt og í Hringadróttins sögu Tolkiens? eða er eitthvert vit í öfgunum sem ég dreg upp hér að framan? Ég treysti mér ekki til að svara því á þessari stundu? Ég óttast aftur á móti að tíminn muni leiða það í ljós að margt af því sem „orðið á götunni“ segir að skýri fáránleikann í gjörðum núverandi stjórnvalda eigi við sorglega mörg rök að styðjast.

Mér líður sjálfri eins og ég sé í liði með foringjum góðu aflanna þeirra: Gandálfs, Legolasar, Aragons, Fróða og Gimli í stríði við illa rotið lið sem stýrist af taumlausri græðgi og hefur bundist saman í máttugum auðhring til að mata sinn krók. Þessi tilfinning á frekar skylt við martröð en ævintýri... nema að þetta endi allt vel.The evil eye


Botnlaust ástæðugímald!

Það bætast alltaf við ástæður til að mótmæla. Í rauninni er útlit fyrir að hér sé ekki um að ræða einhverja netta spillingargryfju eða viðráðanlegan pytt heldur botnlaust gímald! Það er orðin full ástæða til að taka saman svartbók yfir öll þessi atriði því það er vonlaust að halda utan um þetta allt saman öðru vísi en skrifa það niður.

MótmæliEftir að ísköld spillingartuska Ingibjargar Sólrúnar small á andlitum þjóðarinnar undir táknrænum hæðnishlátri (eða var þetta fliss til að fela skömmina?) heyrist mér að enn fleiri séu að komast til meðvitundar. Það stendur nefnilega alls ekki til að bjarga almenningi í landinu. Enginn af núverandi valdhöfum hefur áhuga á því. Þeir eru að verja allt annarra hagsmuni. Hagsmunum skjólstæðinga þeirra er best borgið með því að velta skaðanum sem þeir ullu yfir á almenning vegna þess að almenningur á engra annarra kosta völ en að borga og hlýða... eða hvað?

Er fók ekki að vakna til meðvitundar um að þetta gengur ekki lengur? Það mun enginn koma okkur til bjargar nema við sjálf. Við gerum það ekki heima hjá okkur eða á kaffistofunni í vinnunni. Við þurfum að taka okkur saman við stærri hópa og safnast saman þar sem eftir okkur er tekið. Mótmælum öll sem eitt á morgun og kannski tökum við okkur svo jólafrí en það er alveg ljóst að við megum ekki gefast upp því það þýðir ekki annað en við sitjum uppi með spillingaröflin áfram gínandi yfir stærra og stærra hlutfalli af lífsafkomunni okkar. 

Ef einhvern vantar enn ástæðu til að koma sér í vetrarflíkurnar og út í mótmælin langar mig að brýna viðkomandi með vísun í stórmerkilegan pistil sem ég var að rekast á inni á síðunni hans Egils Helgasonar. Hér er fjallað um tengsl Kaupþingsmanna í Austurlöndum og ýmislegt fleira sem ætti að ýta undir heilbrigðar áhyggjur varðandi afleiðingar þess að sömu menn og komu bönkunum í þrot skuli vera að eignast þá aftur.

Í umræddum pistli er minnt á að fjárglæframennirnir, skjólstæðingar núverandi valdhafa á Íslandi,  höfðu fullar veiðiheimildir í öllum efnahagslindum þjóðarinnar nema þeim hafði ekki enn tekist að sölsa undir sig orkugeirann. Það eru vonandi flestir ef ekki allir meðvitaðir um að það var og er enn mjög einbeittur vilji þessarar sveitar að komast yfir þessar auðlindir líka.

Það ætti öllum að vera fullkomlega nóg boðið nú þegar! En spillingin sem hefur hreiðrað um sig hér á Íslandi er búin að koma sér upp þvílíku gímaldi að enn sést ekki til botns. Fyrrnefndur pistill, sem er eftir Jón Þórisson, undirstrikar það svo sannarlega:

Drengirnir „okkar“,  bæði í banka- og orkugeiranum, hafa notið stuðnings opinberra aðila í hinum austræna leiðangri og á þessu ári fór Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ásamt fríðu föruneyti, m.a. Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra, í opinbera heimsókn til Katar, en áður hafði forsetinn tekið þátt í Heimsráðstefnu um orkumál sem haldin var í Abu Dhabi í Sameinuðu arbísku furstadæmunum. Á ráðstefnunni var Ólafur Ragnar Grímsson einn ræðumanna.

Forsetinn í Katar 2008Ég hvet alla til að lesa þennan pistil vandlega. Þar er margt afar athyglisvert. Takið t.d. eftir því hve margir fulltrúar fylgdu forsetanum á umrædda heimráðstefnu fyrr á þessu ári. Ráðstefnan var haldin í Austurlöndum og fjallaði um orkumál.

Þegar fjöldi Íslendinga er  borinn saman við fjölda þátttakenda frá öðrum löndum eins og t.d. Danmörku (9), Svíþjóð (7), Þýskalandi (85), Noregi (25), Kanada (43) sést að hér er vel í lagt.  Í hópnum eru m. a. 4 Kaupþingsmenn, 4 fulltrúar Novator og 2 frá Landsbankanum en  t.d. var Royal Bank of Scotland með 1 fulltrúa á ráðstefnunni og Citibank með 3!

Ég bendi á að í skrifum Jóns Þórissonar er listi yfir íslensku þátttakendurna en þar vekur athygli hve margir eru frá íslensku bönkunum. Takið líka eftir því að tala þeirra sem nutu föruneytis forsetans á þessa ráðstefnu er sama tala og Katrín Snæhólm auglýsir eftir á blogginu sínu. Skyldi þó ekki vera að karlarnir væru fundnir!!

Ekki missa af því heldur að í þessari ferð undirritaði iðnaðarráðherra samning milli Íslands og Katar um að ríkin starfi saman m.a. í iðnaði og orkumálum!

Viðbót: Þú ættir líka að lesa þessa færslu Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur ef þú ert ekki þegar búin/-inn að því!


mbl.is Öflugt andóf boðað eftir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hlekkjum hugarfarsins

Það er eins og verkalýðsbaráttan í landinu hafi lognast út af. Það kemur a.m.k. ekkert markvert fram í málflutningi verkalýðsforystunnar í landinu. Það litla sem fulltrúar hennar láta út úr sér þessa daganna virðist aðeins vera eitthvert innihaldslaust orðagjálfur.

Aðgerðar- og ráðaleysi þeirra veldur mér furðu þar sem þeirra hlutverk ætti að vera það að taka ábyrgð og láta í sér heyra. Þeir horfa upp á það með öllum almenningi í landinu að grunninum hefur verið kippt undan mannsæmandi kjörum meginþorra þjóðarinnar. Þeir sitja eftir í losti eins og við hin og virðast ófærir um að vinna sig úr úr því. Í stað þess að taka ábyrga afstöðu til nýliðinna atburða heyrist aðeins hjáróma væl um að það sé ekki hlutverk verkalýðsforystunnar að taka pólitíska afstöðu!

Hvað merkir það?! Merkir það ekki einungis það að þeir þora ekki að gagnrýna núverandi ríkisstjórn!? Ég stóð í þeirri meiningu að stéttabarátta snerist um það að hafa skoðanir! Marka sér skýra stefnu og vinna að henni með ráðum og dáð. Hver ættu markmið verkalýðsforystunnar að vera önnur en þau að standa vörð um kjör almennings í landinu? Þessi markmið virðast því miður hafa týnst með öllu. Aðgerðarleysi verkalýsforystunnar er svo sannarlega pólitísk því með þögninni styður hún sitjandi ríkisstjórn og leggur blessun sína yfir afleiðingar efnahagshörmunganna á afkomu þjóðarinnar.

Ég hef spurt mig að því aftur og aftur undanfarnar vikur hvenær komi að því að einhver rísi upp og verji málstað almennings í landinu. Mér sýnist að það standi verkalýðsforystunni býsna nálægt þar sem það er ljóst að afleiðingar bankahrunsins eigi fyrst og fremst eftir að koma niður á kjörum almennings. Þessi kjaraskerðing kemur fram á öllu sviðum: hækkandi vöruverði, hækkun vaxta, lækkun á verðgildi eigna, aukinni skattabyrði og það án þess að til komi nein teljanleg hækkun á launun.

Það er lágmark að fara fram á það að verkalýðsforystan í landinu taki sig saman og krefjist þess að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd og fram fari ítarleg rannsókn á aðdraganda bankahrunsins. Ástæðan er ósköp einföld. Bankahrunið olli ekki aðeins gífurlegri kjaraskerðingu heldur notar viðsemjandinn það sem rök fyrir því að ekki sé hægt að standa við loforð sem gefin voru sl. vor um áframhaldandi kjaraviðræður. M.ö.o. bankahrunið kippti stoðunum undan allri kjaraviðræðu í landinu.

Ég skora því á verkalýðsforystuna að vakna af þyrnirósarsvefninu og beina sjónum sínum að vanda almennings í landinu. Takið ábyrga afstöðu til aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda sem ullu þeirri víðtæku kjaraskerðingu sem nú blasir við þjóðinni. Hættið að styðja stjórnvöld með þögninni. Þögn ykkar eru svik við þjóðina en skýr pólitísk stuðningsyfirlýsing við sitjandi ríkisstjórn!!


mbl.is Endurskoðun samninga frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég varð undir valtara...

... og ökumaður valtarans bara hló. Þegar lögreglan kom á staðinn kom í ljós að þeir voru vinir. Gott ef ekki skyldir og voru líka í sama veiðiklúbbi. Eftir því sem lengra leið á yfirheyrsluna komu fleiri og fleiri atriði fram sem bundu þá saman. Ég hefði auðvitað minnt þá á að hringja á sjúkrabílinn ef ég hefði ekki liðið út af. Ég hefði jafnvel bent á að ökumaður valtarans væri drukkinn ef ég hefði komist að.

Það síðasta sem ég sá áður en ég leið út af var að ökumaðurinn dró fram silfursleginn pela og bauð lögreglumanninum að súpa af. Lögreglumaðurinn varð svolítið kindarlegur á svipinn í fyrstu en ökumaðurinn sagði eitthvað sem fékk lögreglumanninn til þurrka hann framan úr sér og svo tóku þeir utan um hvorn annan og dönsuðu saman einhvern hringavitleysudans sem mér sýndist ganga út á það að stíga tvö skref til hægri og eitt skref til vinstri...

Ég sit þess vegna uppi með afleiðingarnar af því að hafa lent undir valtara. Ég þarf ekki að vænta mér neinnar aðstoðar. Ég get bara séð um mig sjálf. Ég tengist heldur ekki rétta fólkinu... Hef reyndar ekki áhuga á að tengjast svona spilltu liði sem lætur sér standa á sama um það þó vinir þeirra valti gjörsamlega yfir fólk!!

Ég rakst á rosalega flottan pistil í kvöld sem mig langar til að vekja athygli á og vona að fari sem víðast svo fleiri rekist á hann eins og ég. Pistillinn heitir Tveir mánuðir af ábyrgðarleysi. Höfundurinn kallar sig ak72. Ég veit lítið meira um hann nema ég held að ég hafi rekist á það einhvern tímann að hann sé einn þeirra sem vinnur með Herði Torfa. við það að undirbúa mótmælafundina á Austurvelli.

Ak72 hefur sett saman lista með tuttugu og einu atriði sem vitnar um aðgerðar- og ábyrgðarleysi stjórnvalda í núverandi aðstæðum. Hér eru þrjú þeirra atriða sem hann telur upp:

  • Bankamenn sem bera ábyrgð á IceSave, peningamarkaðsjóðum, vafasömum viðskiptaháttum og blekkingum ýmiskonar, sitja enn. Engin rannsókn hefur farið fram á gjörðum þeirra, heldur hafa þeir haft tvo mánuði til gagnaeyðingar.
  • Stjórnendur FME sem áttu að fylgjast með og skoða hvort eitthvað óeðlilegt hafi veirð í gangi, sitja enn þrátt fyrir að hafa brugðist öllum skyldum sínum. Hafa ekki þurft að sýna ábyrgð, heldur fengið aukin völd.
  • Starfsmenn Kaupþings sem stofnuðu ehf. til að færa skuldir vegna hlutabréfakaupa inn í og skella í gjaldþrot með aðstoð bankans, sitja enn. Ekkert gert til að taka á þessu.

Það eru svo væntanlega allir búnir að sjá þetta hér:

Er það skrýtið þó mér líði eins og ég hafi lent undir valtara?

Ég sit núna í skugganum af sjálfri mér og sleiki sárin. Ég veit ekki hvað kemur út úr þessu öllu saman en veruleikinn er orðinn svo súrrealískur að það er ekki lengur hægt að fjalla um hann með venjulegum orðum. Það er búið að afbyggja öll orð og öll gildi þannig að ég næ ekki lengur tengslum við þau. Grægðin er þannig sögð góð. Spillingin er sjálfsögð. Manngildið er mælt í auði. Auðurinn skapar ekki aðeins völd heldur er sá auðugi hafinn yfir öll lög og allar reglur.

Reglurnar og lögin eru eingöngu notuð til að stýra almenningi. Hann er tuktaður til og haldið niðri svo það megi nota hann áfram eins og tvinnann sem er notaður til að stoppa upp í götin...


Síðasti borgarfundurinn á Akureyri fyrir jól

Sumir ætluðu sér að hafa það náðugt í forsætisráðherrastólnum og neita að viðurkenna að slíkir draumar heyra svo sannarlega liðinni tíð. Sennilega rennur það heldur aldrei upp fyrir manninum að það var hans eigin sauðsháttur og fortakalaus tilbeiðsla hans á Davíð Oddssyni sem gerðu út af við stjórnmálaframa hans.

Mér þykir leiðinlegt að tala illa um annað fólk. Ég tek m.a.s. út fyrir það að nota neikvæð orð um eðli og innræti einstakra manna og kvenna en mér finnst enn verra að sitja þegjandi undir þeirri hrópandi valdníðslu sem ég sit undir núna. Hvaða skýring getur verið á þeim einbeitta hroka Geirs H. Haarde og stjórnar hans gagnvart þeirri neyð sem er að verða til við nefið á þeim önnur en illt innræti?

Hvernig er hægt að sitja stilltur og hljóður undir því efnahagslega og andlega ofbeldi sem ég má þola með þjóð minni upp á hvern einasta dag vegna gjörða forsætisráðherra og stjórnarinnar sem hann ver með kjafti og klóm. Það er greinilegt að límið sem heldur samstarfi núverandi ríkisstjórnar saman er ást þeirra á stólunum sínum en það er spurning hvort að baki þessari stólaást búi ekki eitthvað miklu stærra og hættulegra, svo ekki sé meira sagt.

Í þessu samhengi langar mig til að vekja athygli á síðasta borgarfundinum fyrir jól sem verður haldinn hér á Akureyri.  Fundurinn verður haldinn í Rósenborg (gamla Barnaskólahúsinu) n.k. fimmtudagskvöld. Fundurinn hefst kl. 20:00 eins og venjulega en fyrir fundinn verður myndin Zeitgeist Addendum sýnd. Sýning hennar hefst kl. 18:00.

Myndin hefur hlotið slíkt umtal að hana ætti að vera óþarft að kynna en í tilkynningu frá Byltingu fíflanna, sem stendur að sýningu myndarinnar og borgarafundinum á eftir, segir: Zeitgeist Addendum

Bylting fíflanna kynnir með stolti myndina: ZEITGEIST ADDENDUM

Myndin hlaut verðlaun á Artivist Film Festival 2007 og verður sýnd í Rósenborg fimmtudaginn 11. desember klukkan 18:00. Ókeypis aðgangur meðan húsrúm leyfir.

Að því loknu, klukkan 20:00, verður síðasti borgarafundur fyrir jól. Á fundinum verður horft yfir farinn veg, staðan metin og hugað að næstu aðgerðum og verkefnum.

Mætum öll því valdið er okkar!

Brjótum múra og gleymum flokkapólitík.
Ræðum stöðuna og leitum lausna.

Oft var þörf – nú er nauðsyn.

Bylting fíflanna eru grasrótarsamtök sem vilja virkja lýðræðið.


mbl.is Ræða við samtök um horfurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er þannig með skáldin...

Það er svolítið sérstakt að fylgjast með því hvað skáldin okkar eru dugleg við að koma samtíma okkar í orð. Í því sambandi dettur mér strax í hug: Andri Snær Magnason, Einar Már Guðmundsson, Gerður Kristný, Jón Kalmann Stefánsson og Steinar Bragi Guðmundsson. Þessi hafa öll lagt þjóðinni lið við að koma hinum óraunverulega glundroða sem hefur blasað við þjóðinni frá því í haust niður á blað. Um leið hefur þeim gjarnan tekist að setja fjarstæðukennda atburði nýliðinna vikna og mánaða í skiljanlegt samhengi.

Túlkun þeirra á súrrealískum raunveruleikanum hefur oft og tíðum hjálpað okkur hinum við að horfast í augu við það hvernig komið er eða bara einfaldlega það að koma honum í orð. Ég reikna með að langflestir kannist við ræður og/eða greinar framantaldra sem ég vísa í, í þessu sambandi, en það er hægt að krækja í þær undir nöfnum þeirra ef einhver hefur misst af einhverri þeirra.

Það er þannig með suma texta að þeir lifa mun lengur en tímarnir sem þeir urðu til á. Greinarnar sem ég vísa í hér að ofan eiga ábyggilega eftir að lifa okkur öll sem minnisvarðar um þessa umbrotatíma sem við lifum nú. Það er sagt að hörmungarnar sem eiga sér stað í hérlendu efnahagslífi séu óþekktar annars staðar nema á stríðstímum. Það er þess vegna ekki skrýtið þó að slíkar kalli á ýmis konar viðbrögð og nú verði til margir ódauðlegir textar.

Hörmungar knýja skáldin gjarnan til að munda skriffærin og beita orðinu sem vopni í baráttunni fyrir réttlætinu. Ég hef áður birt kveðskap Bólu-Hjálmars sem dæmi um slíkan texta sem mér fannst eiga einstaklega vel við í nútímanum. Nú langar mig til að vekja athygli á ljóði eftir ekki síðra ádeiluskáld sem deildi gjarnan á þýlyndi þjóðarinnar eins og hann gerir í eftirfarandi ljóði. Þetta er ljóðið Þjóðsaga eftir Jónas E. Svafár Eins og heiti og innihald ljóðsins bera með sér rekur Jónas sögu þjóðarinnar frá landnámi til þeirra tíma að varnarsamningur Íslendinga og Bandaríkjamanna komst til framkvæmda. 

Hæðnisfull ádeilan fer vart framhjá nokkrum manni en hæðnin kemur ekki síst fram í meinlegum vísunum í þjóðsögurnar okkar og tengingum þeirra við sögu þjóðarinnar. Kvæðið dregur ekki síður upp nöturlegan sannleika sem fæstir samtíðarmenn Jónasar vildu horfast í augu við  og margir eiga í erfiðleikum með að kyngja enn þann dag í dag. Mér sýnist að einn angi þessa sannleika sé sá að lýðræðið hefur aldrei fengið að vaxa og dafna hér á Íslandi. Í reynd hefur aðeins verið um sýndarlýðræði að ræða sem birtist í því að þjóðin fær tækifæri til að kjósa á fjögurra ára fresti...

Í ljóði sínu, sem fer hér á eftir, víkur Jónas E. Svafár að þeim merku tímamótum í íslenskri sögu þegar landið varð sjálfstætt lýðveldi 1. desember 1944. Íslenska þjóðin hélt upp á það næstu fimm árin að nú fengi hún í alvöru að hafa einhver áhrif á framgang mála sem vörðuðu framtíð og þjóðarhag. Þau urðu reyndar ekki nema tæp fimm því 30. mars 1949 var sá misskilningur þjóðarinnar leiðréttur með lögreglukylfum og táragasi fyrir framan alþingishúsið eins og frægt er orðið.

5. maí 1951 var svo Keflavíkursamningurinn undirritaður. Árið 1968 birtist eftirfarandi ljóð Jónasar í ljóðabók hans Klettabelti fjallkonunnar:

SkjaldarmerkiðÞjóðsaga

að koma fyrst við sögu
eins og álfur út úr hól

og eiga draugafé á fjalli
sem verður kveðið niður

að reisa við sjávarútveginn
hamraborg fyrir huldufólkið

og verða sjálfstætt lýðveldi
af forfeðranna tröllatryggð

að gerast með vélum og vinnu
dverghagir á iðnað og listir

en glata frelsi og efnahag
til erlendra útilegumanna

Mér finnst þessi orð Jónasar E. Svafárs ekki síður eiga erindi nú á tímum en þá þegar hann orti það. Íslenska þjóðin hefur glatað frelsi sínu þó það sé auðvitað spurning hvert frelsi hennar var áður þá ætti öllum að vera orðið ljóst að efnahagslegt frelsi hennar er gersamlega komið í vaskinn. Þar voru hagsmunir erlendra sparifjáreigenda og fámennrar, íslenskrar auðmannaklíku teknir fram yfir afkomu þjóðarinnar.

Er það lýðræði? Nei! Gjörningurinn á ekkert skylt við lýðræðið enda var þjóðin aldrei spurð álits. Gjörningurinn minnir miklu frekar á þá forgangsröðun sem var við lýði á tíma íslenskrar óðalsbændastéttar sem réði ríkjum í skjóli dansks konungsvalds. Hvað annað stjórnaði gjörðum ríkisvaldsins 30. mars 1949 en forræðishyggja gömlu bændastéttarinnar sem hafði haft töglin og hagldirnar hér innanlands allt frá landnámi? 

Einræðistilburðir Davíðs Oddssonar minna í sumu á þessa rótgrónu forræðishyggju. Þeir eru þó fléttaðir úr fleiri þáttum en engum þó lýðræðislegum.

Skoðana- og trúfélagar Ég vil meina að íslensk stjórnvöld hafi verið alltof upptekin af því að STJÓRNA til að leyfa lýðræðinu að blómstra í reynd. Nýfrrjálshyggjan gerði svo endanlega út af við alla lýðræðishugsjón þeirra sem hafa farið með stjórn landsins síðastliðin ár. Þjóðin hefur aldrei fengið að taka afstöðu til stærri mála sem varðar hag hennar, afkomu og virðingu út á við. Ef einhver taldi sig búa í lýðræðisríki þá hljóta a.m.k. að vera runnar á þá tvær grímur.

Ég fullyrði að við búum við forræðishyggju en ekki lýðræði. Mér sýnist að sumir þeirra sem sitja í núverandi stjórn geti m.a.s. tekið undir það með mér eins og eftirfarandi bendir til: „Hinir ábyrgu sem ekki vilja kosningar telja að fólkið í landinu sé svo vitlaust að því sé ekki treystandi til að kjósa“ (visir.is)

Ég vil brjóta þessa forræðishyggju á bak aftur og útrýma henni. Ég vil innleiða lýðræði á Íslandi. Mér finnst vera kominn tími til að íslenska þjóðin brjótist undan margra alda oki spilltrar auðmannastéttar sem kann ekki að verja annarra hag en sjálfrar sín. Það er kominn tími til að við göngum í takt við nútímalegri stjórnarhætti inn í framtíðina.

Það er löngu kominn tími á það að við innleiðum lýðræðið á Íslandi og látum það virka eins og til stóð! Stöndum þess vegna þétt saman og mótmælum óréttlætinu sem er dunið yfir og komum í veg fyrir að það haldi áfram. Það er ekki einkaréttur skáldanna að finna til eldmóðs og heilagrar reiði enda sækjast þau ekki eftir slíku. Þvert á móti þau vilja kveikja þann sama eld í brjóstum þjóðarinnar. 

Það var fyrst í dag sem ég gaf mér tíma til að lesa grein Steinars Braga Guðmundssonar: Upprisa þjóðarinnar. Þó sumt af því sem stendur þar sé nú, tæpum mánuði eftir að hún var skrifuð, eins og bergmál margs af því sem hefur verið sagt síðan þá hleypti hún í mig endurnýjuðum eldmóði. 

Ég fylltist heilagri reiði sem ég ætla að virkja til að standa með sjálfri mér og þjóðinni minni. Okkur skal takast það að lágmarki að koma núverandi ríkisstjórn frá og krefjast nýrra kosninga. Þetta er þjóðþrifamál því núverandi ríkisstjórn stendur í vegi fyrir framtíðinni! (Sjá grein Steinars Braga)


Þið eruð hetjurnar mínar!

Ég er komin heim eftir langa helgi í Reykjavík. Erindið suður var vinnutengt. Ég þurfti að vera viðstödd þrjá fundi en ég bætti fjórða fundinum við af sjálfsdáðum. Það var níundi mótmælafundurinn á Austurvelli sl. laugardag. Við Katrín Snæhólm vorum búnar að ákveða að fara saman á fundinn. Það var ekki eins fjölmennt á þessum fundi eins og ég hafði búist við en mér var sagt að sennilega væri þetta þriðji fámennasti fundurinn.

Miðað við atburði sl. daga er ástæðan ekki sú að fólk sé að gefast upp á að mótmæla, öðru nær, en kannski er sú algjöra hundsun sem þessum fundum hefur verið sýnd af yfirvöldum það sem einhverjir eru búnir að fá nóg af. Ræðumennirnir sl. laugardag voru tveir: Jón Hreiðar Erlendsson, fyrrum vörubílstjóri og Gerður Kristný, rithöfundur. Bæði sögðu átakanlegar dæmisögur af fjarhagstjóni sem einstaklingar hafa orðið fyrir undanfarna mánuði. 

Í lok fundarins benti Hörður Torfason á að það yrði opið hús í Borgartúni 3. Þar hafa mörg þeirra grasrótarsamtaka, sem urðu til í kjölfar bankahrunsins, fengið aðstöðu fyrir sína starfsemi. Í tilefni þess buðu þau upp á kaffi. Við vorum orðnar fjórar saman og ákváðum að leggja leið okkar þangað. Ég hefði ekki viljað missa af því. 

Fólkið sem ég hitti þennan dag og þá sérstaklega þarna niður frá er einstakt. Styrkurinn, krafturinn, réttlætiskenndin og viljinn til að berjast fyrir betra samfélagi er aðdáunarvert. Ég var heilluð af þessu fólki. Það sem mér finnst reyndar einkum einkenna alla sem ég hef hitt í kringum mótmæli og borgarafundi, bæði fyrir sunnan og hérna fyrir norðan, er eitthvert ólýsanlegt þolgæði og æðruleysi. Það er kannski ekki síst þess vegna sem þetta fólk gefur mér kraft og það sem er mest um vert kjark og trú.

Þó viðkynningin væri stutt þá langar mig til að þakka öllum þeim sem ég fékk tækifæri til að kynnast á mótmælafundinum niður á Austurvelli og í byltingarkaffinu niður í Borgartúninu fyrir yndislega og hvetjandi viðkynningu. Katrínu þakka ég auðvitað sérstaklega fyrir þennan ógleymanlega dag. Án hennar hefði hann aldrei orðið sá sem hann varð.


Akureyringar mótmæla áfram líka!

Mig langaði til að minna á áframhaldandi mótmælaaðgerðir á Akureyri. Núna á laugardaginn, 6. desember, verður enn ein gangan hér fyrir norðan. Mæting er við Samkomuhúsið kl. 15:00 en þaðan verður gengið inn á Ráðhústorg.

Þar verður fundur þar sem eftirtaldir munu taka til máls:

  • Hannes Blandon, prestur.
  • Sonja Eyglóardóttir, framkvæmdastýra.
  • Jóhann Ásmundsson, nútímafræðingur.
  • Þórarinn Hjartarson, sagnfræðingur, lokar mælendaskránni með flutningi ljóðs.

George Hollanders, leikfangasmiður, mun stýra þessum útifundi eins og hingað til.

Tilgangur mótmælanna er að mótmæla spillingu auðvaldsins og ítreka vantraustið á ríkisstjórnina!!!

Ég vona að Akureyringar fjölmenni í gönguna og á fundinn. Sjálf verð ég á Austurvelli á þessum tíma að mótmæla framantöldu.

Ef einhver vill fá nánari upplýsingar um gönguna á Akureyri þá er vísað í Guðrúnar Þórs sem má ná í,  í síma 663 28 48 eða í gegnum póstfangið hennar: gunnathors@gmail.com


mbl.is Áfram mótmælt á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins!!

Ég ætla að hafa þetta óskaplega stutt að þessu sinni því ég ætla að láta aðra um að segja það sem mér liggur á hjarta. Maríanna Friðjónsdóttir segir nefnilega allt sem segja þarf í bloggfærslu dagsins. Þar segir m.a: Í sama blaði og Davíð Oddsson, kemur fram með hótun sína um að taka stjórnmálavöldin, verði fjármálavöldin af honum tekin, er fjallað um psykopatana á valdastóli.

Eftir lestur greinarinnar hennar Maríönnu ætti öllum að vera ljóst hversu aðkallandi það er að þjóðin standi saman og krefjist þess að geðveikinni linni! Við ættum e.t.v. að hrópa burt með sjúklingana næsta laugardag því það eru þeir sem hafa ekki dómgreind til að halda um stjórnartaumana þannig að það verði þjóðinni til farsældar.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna er ég mótmælandi

Það svíður sárt að lesa greinina á mbl.is sem ég tengi þessari færslu. Það skiptir mig engu hvort Uffe Riis Sörensen, fyrrum ritstjóri, er sanngjarn eða ósanngjarn eða hvort að Danir fóru illa með Íslendinga á einokunartímanum; sem þeir sannarlega gerðu. Mér svíður samt.

Orðsporið sem fjármálarefirnir og æðstu embættismenn þjóðarinnar hafa kallað yfir íslensku þjóðina er staðreynd og það er ástæða til að taka afstöðu til þess hvernig okkur líkar við það. Við vissum sennilega öll að þjóðin er rúin trausti. Að það er hlegið að okkur fyrir heimsku og fáráðlingshátt líka. Sumir eru okkur m.a.s. reiðir og það mjög reiðir eins og danski ritstjórinn sem skrifaði greinina sem fyrrnefnd frétt byggir á.

Hann segir í grein sinni, sem hann birtir í Ekstra Bladet, að Íslendingar séu að skapa sér sitt eigið helvíti. Rökin sem hann færir eru þau að hroki og græðgi séu þeir eiginleikar sem við höfum tileinkað okkur og lagt mesta rækt við. Af hverju ætli hann dragi þá ályktun? Dettur einhverjum hinir svonefndu útrásarvíkingar í hug? En það er ekki bara framgangur þeirra og framkoma sem hann byggir skoðun sína á. Hann segir:

Slíkt helvíti hafi Íslendingum nú tekist að skapa sér og þeir eigi ekkert með að koma til Danmerkur og krefjast þess að aðrir vaski upp eftir svallveislu þeirra.Íslendingar hafi þó sannarlega beðið um það með frekju og hroka. Þannig hafi forseti Íslands skammað Breta og Dani í hádegisverðarboði og hótað þeim með Rússum. Þá hafi Geir H. Haarde forsætisráðherra sagt að þar sem einungis fáir glæframenn og heimskreppa hafi komið þjóðinni í þrot eigi hún tilkall til hjálpar.  

Það má vera að einhverjum finnist danski ritstjórinn taka of stórt upp í sig en ég verð að segja að ég skammast mín. Mér þykir hræðilegt að ímynd mín sem Íslendings skuli vera á valdi þessara taktlausu og hjákátlegu stjórnarherra sem hann talar um í greininni sinni. En Uffe segir fleira sem mér svíður undan:

Þetta sé hins vegar helber lygi. Íslendingar hafi byggt sér skýjahallir fyrir annarra manna fé, leikið Matador með banka í Bretlandi, símafyrirtæki í Tékklandi og verslanir í Danmörku. Þá hafi þeir gefið Dönum fríblöð í 400.000 eintökum sem hafi kostað danska fjölmiðla óheyrilega mikið fé.

Er það von þó sjálfsvirðing manns sé brotin. Ég finn til minnkunar yfir því að nágrannar mínir hafi orðið fyrir græðisblikandi innrás íslensks spilaborgarauðvalds. Ég skil afstöðu nágranna okkar en mér finnst rosalegt að við skulum vera á valdi umræddra manna ekki síst eftir að öll spilaborgin hrundi og það þrátt fyrir alla skítalyktina sem leggur af rústunum. Þetta stangast svo á við lágmarkssiðferði að mér verður orða vant. Ég finn reyndar engin önnur en hroka og græðgi sem geta skýrt svona framkomu. Mér sýnist þess vegna að Uffe Riis hafi þó nokkuð til síns máls.

Í ljósi þessa alls og þeirra fáránlegu staðreynda sem hafa komið fram eftir hrunið í haust þá mætti ætla að íslenska þjóðin sé á valdi stórhættulegra fíkla og auðmannamafíu. Þessi „óþjóðalýður“ sem hefur landið og þjóðina á valdi sínu hefur smælað glópagullstenntur framan í nágranna okkar i Evrópu og í leiðinn rænt okkur nánast öllum grundvallaratriðum mannsæmandi lífs. Hann hefur rænt okkur: afkomunni, örygginu, frelsinu, virðingunni, stoltinu og ærunni!

Gyðja réttlætisinsÞess vegna mótmæli ég! Mér svíður svo sárt undan að ég get ekki haldið kyrru fyrir. Réttlætiskennd minni er svo misboðið að ég get ekki haldið aftur af mér. Þess vegna rís ég upp eins og sú örvona þjóð sem barðist fyrir sjálfstæði landsins í lok 19. aldar, sem barðist fyrir réttindum verkalýðsins á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar og allar aðrar þjóðir sem hafa barist á móti óréttlætinu og krafist jafnréttis og réttlátra kjara.

Óréttlætið sem lagt er á okkur núna er ekki aðeins smánarlegt. Það er líka sögulegt. Ég reikna með að um ókomin ár þá muni áminnandi endurminning þess ekki aðeins óma af íslenskum sögubókum heldur erlendum líka. E.t.v. er Ísland aðeins fyrsta dæmið af mörgum um það að tími lýðræðis og nýfrjálshyggju er liðinn eða kannski um það að þetta tvennt getur einfaldlega ekki farið saman. 

Það er sama. Það sem skiptir meginmáli eru fáránleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Þau koma okkur ekki aðeins á algjöran vonarvöl með heimsku sinni heldur svipta okkur ærunni líka! Enginn er rannsakaður og enginn er látin sæta ábyrgð. Í þessu sambandi langar mig til að benda ykkur á afar gagnorð og fróðleg skrif spámannsins um rannsóknarnefndina sem er í burðaliðnum.

Mig setti hljóða eftir lesturinn en í huganum bergmálaði spurningin: „Hversu langt og hversu lengi á þetta að ganga?“ Maður spyr sig líka óneitanlega hvar siðferðiskennd þeirra er sem geta staðið með hrokann í fésinu og áminnt þjóðina um stillingu og annað sem er í álíka hrópandi mótsögn við það sem heilbrigðt fólk finnur fyrir frammi fyrir ólýðræðinu og óréttlætinu sem við stöndum frammi fyrir núna.

Bæn mín er einföld. Ég bið um réttlæti! Það er hins vegar greinilegt að merking þessa hugtaks hefur verið afbökuð og skrumskæld eins og svo margra annarra síðastliðinn misseri. Þegar ég bið um réttlæti er mér efst í huga nauðsyn þess að endurreisa lýðræðið á Íslandi. Það er grundvallaratriði til þess að við getum byggt upp samfélag þar sem réttlætið þjónar allri þjóðinni en ekki eingöngu þeim sem kjósa réttan flokk.

Ef eitthvert réttlæti er til þá mun bæn mín uppfyllast. Þá verða það ekki ég og mínir líkir sem sitja í átthagafjötrum skuldaafborgunarfjötranna næstu kynslóðirnar. Þá verður lýðræðið virt og virkt. Þá gilda lög í landinu en það sitja líka allir við sama borð hvað þau varðar. Það sem skiptir kannski mestu máli er að manngildi verða sett framar auðgildi og öllu því sem hefur verið snúið á haus undanfarin misseri verður komið á réttan kjöl.

Ég er mótmælandi og á meðan frelsi, öryggi, réttlæti og virðing íslensku þjóðarinnar er svívirt á þann hátt sem það er nú þá verð ég það áfram. Ég á ekki annarra kosta völ!
mbl.is Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband