Í hlekkjum hugarfarsins

Það er eins og verkalýðsbaráttan í landinu hafi lognast út af. Það kemur a.m.k. ekkert markvert fram í málflutningi verkalýðsforystunnar í landinu. Það litla sem fulltrúar hennar láta út úr sér þessa daganna virðist aðeins vera eitthvert innihaldslaust orðagjálfur.

Aðgerðar- og ráðaleysi þeirra veldur mér furðu þar sem þeirra hlutverk ætti að vera það að taka ábyrgð og láta í sér heyra. Þeir horfa upp á það með öllum almenningi í landinu að grunninum hefur verið kippt undan mannsæmandi kjörum meginþorra þjóðarinnar. Þeir sitja eftir í losti eins og við hin og virðast ófærir um að vinna sig úr úr því. Í stað þess að taka ábyrga afstöðu til nýliðinna atburða heyrist aðeins hjáróma væl um að það sé ekki hlutverk verkalýðsforystunnar að taka pólitíska afstöðu!

Hvað merkir það?! Merkir það ekki einungis það að þeir þora ekki að gagnrýna núverandi ríkisstjórn!? Ég stóð í þeirri meiningu að stéttabarátta snerist um það að hafa skoðanir! Marka sér skýra stefnu og vinna að henni með ráðum og dáð. Hver ættu markmið verkalýðsforystunnar að vera önnur en þau að standa vörð um kjör almennings í landinu? Þessi markmið virðast því miður hafa týnst með öllu. Aðgerðarleysi verkalýsforystunnar er svo sannarlega pólitísk því með þögninni styður hún sitjandi ríkisstjórn og leggur blessun sína yfir afleiðingar efnahagshörmunganna á afkomu þjóðarinnar.

Ég hef spurt mig að því aftur og aftur undanfarnar vikur hvenær komi að því að einhver rísi upp og verji málstað almennings í landinu. Mér sýnist að það standi verkalýðsforystunni býsna nálægt þar sem það er ljóst að afleiðingar bankahrunsins eigi fyrst og fremst eftir að koma niður á kjörum almennings. Þessi kjaraskerðing kemur fram á öllu sviðum: hækkandi vöruverði, hækkun vaxta, lækkun á verðgildi eigna, aukinni skattabyrði og það án þess að til komi nein teljanleg hækkun á launun.

Það er lágmark að fara fram á það að verkalýðsforystan í landinu taki sig saman og krefjist þess að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd og fram fari ítarleg rannsókn á aðdraganda bankahrunsins. Ástæðan er ósköp einföld. Bankahrunið olli ekki aðeins gífurlegri kjaraskerðingu heldur notar viðsemjandinn það sem rök fyrir því að ekki sé hægt að standa við loforð sem gefin voru sl. vor um áframhaldandi kjaraviðræður. M.ö.o. bankahrunið kippti stoðunum undan allri kjaraviðræðu í landinu.

Ég skora því á verkalýðsforystuna að vakna af þyrnirósarsvefninu og beina sjónum sínum að vanda almennings í landinu. Takið ábyrga afstöðu til aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda sem ullu þeirri víðtæku kjaraskerðingu sem nú blasir við þjóðinni. Hættið að styðja stjórnvöld með þögninni. Þögn ykkar eru svik við þjóðina en skýr pólitísk stuðningsyfirlýsing við sitjandi ríkisstjórn!!


mbl.is Endurskoðun samninga frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Rakel. Gallinn er sá að verkalýðsforystan er í svo litlum tengslum við alþýðu þessa lands. Forystan er á ofurlaunum miðað við það sem gengur og gerist hjá almenningi. Þegar þessi tengsl eru rofin hættir forystan að skilja. Ég sé fyrir mér menn eins og Bjarna Þórðarson heitinn, sem lengi var bæjarstjóri í Neskaupstað. Hann var alla tíð á sama kaupi og starfsmenn áhaldahússins og sagði að ef þeir gætu lifað af verkamannalaunum þá gæti hann það. Þegar Bjarni dó tók verkfræðingur við af honum og hafði fimmfalt kaup hans. Held að hann hafi samt ekki stjórnað bænum neitt betur. 

Haraldur Bjarnason, 12.12.2008 kl. 10:38

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er handviss um þar liggur hluti skýringarinnar á dáðleysi hennar grafinn. Hins vegar varð ég að fá útrás fyrir þá skoðun mína að þögn þeirra er rammpólitísk þó þeir vilji ekki kannast við að hafa neina skoðun...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.12.2008 kl. 11:16

3 identicon

Ég hef nú haft þetta á tilfinningunni í mörg ár að forysta verkalýðshreyfingarinnar sé ekki í neinu sambandi við umbjóðendur sína og nýlegar yfirlýsingar um að það sé ekki hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að taka pólítíska afstöðu sýnir bara hvað þetta fólk er langt frá þeim veruleika sem almennigur er að upplifa núna. Mér verður bara hugsað til verkalýðsleiðtoga fyrri tíðar, ég nefni Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, Tryggva Helgason á Akureyri, Bjarnfríði Leósdóttur, Guðmund J. Guðmundsson og Pétur Sigurðsson. Aldrei hefði þetta fólk látið sér slíkt um munn fara enda voru þau nú ekki á ráðherralaunum.

Þórður Grétarsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 12:31

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það á að setja á hátekjuskatt sem færir stjórnendur nær almenningi í framfærslugetu. Þetta skilar því að þeir fara kannski að átta sig á því hvar botninn liggur sem snertir framfærslugetu og einnig í auknum tekjum ríkissjóðs. Það mætti svo nota tekjurnar í fríar skólamáltíðir.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.12.2008 kl. 12:55

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þórður: Mikið vildi ég að við ættum einhverjar af þessum hetjum núna í verkalýðsforustunni!

Jakobína: Ég er enn að jafna mig eftir fréttir gærdagsins og morgunsins af nýjum fjárlögum. Eitt það skýrasta sem þau leiða í ljós er það að við sitjum uppi með tvöfaldan Sjálfstæðisflokk! Ég sé a.m.k. engin merki jafnaðarmannaflokks á þeim

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.12.2008 kl. 13:28

6 identicon

Já fréttir af fjárlögum og öðrum aðgerðum ríkisstjórnar eru alveg ótrúlegar svo vægt sé til orða tekið. Er ekki meiningin að takast á við verðbólgu og verðhækkanir ? Ég get alveg sætt mig við að borga meira fyrir áfengi og einhverjar aðrar neysluvörur ef það skyldi hjálpa ríkissjóði en HALLÓ ER EINHVER HEIMA ??? Þessir hlutir eru beintengdir inn í vísitölu neysluverðs !!!!! Þannig að hækkun á rauðvíni og sígarettum hleypur beinustu leið inn í húsnæðislánin okkar. Það er eins og þetta lið sé alveg galtómt í hausnum.

Á sama tíma eru stjórnvöld svo að eyðileggja möguleika okkar á því að fara í skaðabótamál við breska ríkið vegna Kaupþings með tómum sofandahætti, nema að samið hafi verðið um eitthvað sem ekki má sjá dagsins ljós. 

Þórður Grétarsson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 14:00

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er einmitt málið! Er þetta lið alveg galtómt í höfðinu eða þjóna aðgerðir þessa liðs einhverju sem við fáum ekkert að vita um? Miðað við þá hringavitleysu sem við horfum upp á er ekki nema von að það vakni upp hjá manni alls konar hugmyndir varðandi það sem við fáum ekki að sjá. Þú skalt endilega kíkja á þetta hjá henni Láru Hönnu í þessu sambandi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.12.2008 kl. 14:23

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Vonandi mun fólk flykkjast út á göturnar á moprgun og mótmæla sem aldrei fyrr.  Á Austurvelli verður staðið í 17 mínútna þögn sem á að vera táknræn að vera fyrir þau 17 ár sem sjálfstæðislfokkurinn hefur verið við völd.

Og svo hef ég heyrt að það verði mjög kröftugur ræðumaður á Akureyri. Fólk er nú að koma fram sem hefur fengið nóg en hefur kannski ekki getað tjáð sig um það áður. NÚNA er tíminn gott fólk að koma saman og sýna yfirvöldum hvað okkur finnst um þá sem víla ekki fyrir sér að knésetja fjölskyldur þessa lands um leið og þetta lið stendur vörðinn um auðvaldið og vini sína. Hversu miklu lægra er hægt að komast og hversu miklu meiru getur fólk tekið við áður en það hreinlega brotnar???

Sýnum samstöðuna kæru íslendingar. Við verðum að standa saman núna..bara verðum!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.12.2008 kl. 15:04

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nú segir þú mér fréttir! Ég er búin að vonast eftir bréfi í allan dag sem setti mig inn í það hvað eigi að gera hér á Akureyri á morgun. Vissi bara að það verður ganga eins og að undanförnu en vissi ekki um kröftugan ræðumann. Þetta verður spennandi 17 mínútna þögn á Austurvelli hljómar líka vel ekki síst út af samhenginu. Bið að heilsa suður.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.12.2008 kl. 17:12

10 Smámynd: Heidi Strand

Fólk er að vakna en því miður eru allt of margir sofandi enn. Það eina sem við getum gert í stöðinni er að láta í okkur heyra. Ekki förum við með ofbeldi. Margir gagnrýna okkar leiðir og situr heima, en þögn er sama á samþykki. Það hafði verið gott að fá hugmyndir þeirra sem ekki hafa trú á friðsæl mótmæli og skammast út í ófriðsælum mótmælum. Ég held að það fólk varpi ábyrgðin fyrir aðgerðaleysið sitt yfir á okkur hin.
Mætum öll á mótmælafundunum á Austurvelli og á Akureyri á morgun.

PS: Mig vantar tillögur til Axarskaftaverðlaunanna.

Heidi Strand, 12.12.2008 kl. 21:38

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sammála ykkur um að það er ekki hægt að sætta sig við núverandi ástand. Ég er líka algerlega sammála um að þögnina er ekki hægt að túlka sem neitt annað en samþykki!! Mér finnst líka miklu nær að fá útrás fyrir vandlætinguna í aðgerðum sem beinast að ríkisstjórninni og öðrum handhöfum valdsins í landinu, hvort sem fólk gerir það eitt eða með öðrum, heldur en að gagnrýna þá sem mótmæla.

Hedi: Kíki á axarskaftarverðlaunin og athuga hvort ég geti bætt við tillögu

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.12.2008 kl. 22:11

12 Smámynd: Haraldur Bjarnason

En Rakel, þurfum við þorparar þá að labba alla leið inn að Samkomuhúsi og þaðan á torgið? Þetta er meiri háttar þrekvirki.

Haraldur Bjarnason, 12.12.2008 kl. 22:13

13 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

þakka þér fyrir mjög góða færslu. Vandamálin hjá okkur eru svolítið lík því þegar ofalinn kyrrsetufíkill þarf allt í einu að fara að hreyfa sig. Þjóðin er vön góðæri og stór hluti hennar er enn ekki búinn að átta sig. Verkalýðsforustan er augljóslega ekki í neinum tengslum við fólkið sitt. Það er bæði vegna hárra launa þeirra en ekki síður vegna þess hverjir eru vinir þeirra og hverjir þeir umgangast dagsdaglega. Að hátekjuskattur skyldi ekki vera samþykktur núna finnst mér merkilegt. Annað hvort lýsir það slæglegri varnarbaráttu Samfylkingarinnar eða þá að við höfum tvo flokka í Rikisstjórn sem eru sama sinnis.Þögn og afstöðuleysi verkalýðsforustunnar er æpandi, minnir helst á eiginkonu fíkils-kóara.

Gunnar Skúli Ármannsson, 12.12.2008 kl. 22:47

14 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Haraldur: Það má líka bara mæta á Torgið og stytta labbið en ég gæti boðið þér far inn að Samkomuhúsi ef ég vissi hvar ég ætti að taka þig upp í.

Tinna: Auðvitað á fólk að taka reiðina út á réttum aðilum ef gremjan er tekin út heima er hætt við að það endi með ósköpum.

Gunnar Skúli: Nákvæmlega!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.12.2008 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband