Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Davíð sýnir þjáningum þjóðarinnar fullkomið skeytingarleysi
1.12.2008 | 22:50
Ég veit ekki hvort ég er eitthvað óeðlilega viðkvæm en fréttin sem ég tengi þessari færslu, svo og þessi hér, hreyfðu báðar þannig við mér að ég fékk kökk í hálsinn. Ég fann einhvern veginn svo djúpt til undan því algera skeytingarleysi sem Davíð Oddsson sýnir þjóðinni og e.t.v. sérstaklega þeim hluta hennar sem hafa staðið upp og mótmælt aðgerðum hans og/eða aðgerðarleysi varðandi fjármál þjóðarbúsins að undanförnu.
Hann lokar sig bara inni í sínum rammgerða steinsteyputurni og hæðist að mótmælendum. Þeir koma auðvitað úr ýmsum áttum og eru e.t.v. mislitur og í einhverjum atriðum ósamstíga hópur. Þeir virðast þó vera merkilega margir sem eru sammála um að einmitt honum beri að axla ábyrgðina á undangengnum efnahagshörmungum og víkja.
Þetta var krafa þeirra sem tóku sig saman eftir þjóðfundinn í dag og komu sér fyrir í anddyri Seðlabankans núna seinni partinn: Við viljum Davíð [Oddsson seðlabankastjóra] burt. Mjög einföld krafa og það er ekkert hlustað á þessa kröfu. 90% þjóðarinnar vill hann burt. Gæti þetta verið skýrari krafa.
Miðað við könnunina sem þarna er vísað í er langmestur meirihluti þjóðarinnar sammála um að Davíð eigi að segja af sér. Auðvitað eru þeir sumir sem vilja ekki gera neitt. Aðrir eru ákveðnir í að halda höfðinu ofan í sandinum svolítið lengur. Einhverjir ætla að freista þess að gleyma sér í jólaundirbúningnum og enn aðrir ætla að doka með að taka afstöðu og sjá hvort raunveruleikinn sem blasir við í dag líði ekki bara hjá...
Þeir eru hins vegar fjölmargir sem eru búnir að fá miklu meira en nóg. Það eru bæði ungir og aldnir. Einhverjir þeirra mættu á þjóðfundinn í dag þó ég hafi vissulega vonað að þeir yrðu miklu fleiri sem létu sjá sig þar. Flestir vilja aðgerðir. Vilja sjá einhver viðbrögð og árangur en þrautseigjan og þolinmæðin eru ótrúleg.
Þeir sem tóku sig saman og söfnuðust saman fyrir framan Seðlabankann til að bera Davíð Oddssyni þau skilaboð að þjóðin segði honum upp starfinu sýndu líka ótrúlega stillingu miðað við tilefnið. Einu móttökurnar sem þeim var boðið upp á var lögreglunnar. Davíð lét hins vegar ekki sjá sig eða heyra. Skeytingarleysi hans gangvart þessum fámenna en þolinmóða og prúða hópi mótmælenda særir mig.
Ég tek undir það sem einn í hópi þeirra sagði í viðtali við mbl.is: Við krefjumst þess að stjórnvöld sem og aðrir í þjóðfélaginu fari að sýna ábyrgð. Að mínu viti sýna þeir sem mótmæla ábyrgð. Þeir vilja knýja á um farsælar breytingar fyrir mig og þjóðina alla. Við viljum réttlæti þjóðinni til handa. Við viljum að það sama sé látið yfir alla þegna hennar ganga.
Þeir sem gerast sekir um auðgunarbrot eru látnir sæta ábyrgð. Þeir sem gerast sekir um vanrækslu í starfi eru látnir sæta ábyrgð. Þeir sem hafa gerst sekir um landráð, jafnvel þó það hafi verið af gáleysi, verða að sæta ábyrgð. Þjóðin getur ekki tekið út refsinguna fyrir þessa einstaklinga. Þeir myndu heldur aldrei gera slíkt hið sama fyrir okkur!
Fólkið sem safnaðist saman fyrir framan Seðlabankann í dag hrópaði: Réttlæti ekki ofbeldi. Þjóðin er fórnarlamb margs konar ofbeldis þessa daganna. Það er undir okkur komið hvort við viljum láta níðast á okkur áfram eða hvort við viljum horfast í augu við það að íslenska stjórnkerfið er meingallað og það er bráðnauðsynlegt að hreinsa til í því til að rýma til fyrir nýjum og farsælli leiðum í framtíðinni.
Mig langar til að vekja athygli á umfjöllun smugunnar.is á aðgerðunum fyrir framan Seðlabankann í dag en þar segir:
Uppfært - 16:37: Nú eru þeir tvöhundruð mótmælendur sem staddir eru inni í anddyri Seðlabankans byrjaðir að setjast niður og segjast ekki hreyfa sig fyrr en Davíð Oddsson hefur sagt af sér. Á bak við glerhurð bíður vopnuð sérsveit lögreglumanna sem hefur hótað táragasi ef mótmælendur yfirgefa ekki anddyrið.
Uppfært - 16:45: Nú eru mótmælendur teknir að syngja "Lok, lok og læs og allt í stáli - lokað fyrir okkur" auk þess að krefja sérsveitarmennina að ganga í lið með sér.
Uppfært - 17:12: Anddyri Seðlabankans hefur nú verið rýmt. Mótmæledur og lögreglan náðu samkomulagi. Það fól í sér að að allir mótmælendur yfirgæfu Seðlabankann gegn því að lögreglan leggði niður vopn og beitti sér ekki gegn mótælendum á nokkurn hátt. (smugan.is)
Mig langar svo til að ljúka þessu á broti úr Kastljósi frá 21. nóvember: Andspyrnuhreyfing á krepputímum. Þetta myndband er samantekt frá mótmælaaðgerðunum í Reykjavík fyrstu sex vikur mótmælanna. Það var Katrín Snæhólm sem vakti athygli mína á þessari dásamlegu samantekt. Lára Hanna er líka með þetta myndband inni á síðunni sinni.
Ástæðan fyrir því að ég lýk þessari færslu með tilvísun í þetta myndband er að fréttirnar frá aðgerðununum við Seðlabankann í dag, sérstaklega sú sem kom á undan, vekja mér svipaðar tilfinningar og myndirnar sem það birtir. Ég finn til samkenndar og stolts þegar ég horfi á þetta þolgóða og staðfasta fólk sem biður á friðsaman hátt um sanngirni en er fullkomlega hundsað. Ég dáist að þolgæði þess og styrk og vona að þó við sjáum lítil sem engin viðbrögð enn þá muni samtakamáttur þjóðarinnar knýja fram réttlæti okkur til handa.
Ég ætla að minnsta kosti að halda í vonina. Það er eina haldreipið sem ég hef í bili.
Ráðist inn í Seðlabankann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þjóðfundasöngur Bólu-Hjálmars
1.12.2008 | 20:23
Þorvaldur Gylfason sagði í ræðu sinni á þjóðfundinum í dag að þjóðin neyddist til að endurvekja byltingaranda sjálfstæðisbaráttunnar sem var háð hér á 19. öldinni. Af því tilefni langar mig til að minna á Þjóðfundasöng Bólu-Hjálmars en hann hefur komið mér nokkrum sinnum í hug á undanförnum vikum.
Bólu-Hjálmar samdi þetta tilfinningaþrungna og kraftmikla kvæði í tilefni af þjóðfundinum sem var haldinn í Reykjavík árið 1851. Eins og alþjóð væntanlega veit varð þessi fundur einn afdrifaríkasti atburðurinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það var líka einmitt á þessum fundi sem Jón Sigurðsson sagði hin fleygu orð: Vér mótmælum allir!
Bólu-Hjálmar var ekki á þessum fundi enda tilheyrði hann ekki þeirri stétt sem hefur farið með völdin á Íslandi í gegnum tíðina. Bólu-Hjálmar var fátækur bóndi norður í Skagafirði en þó hann væri í sífelldri baráttu við að sjá sér og sínum farborða lét hann hag lands síns og þjóðar sig miklu varða.
Þjóðfundasöngurinn er hans sýn á það hvernig komið var fyrir landinu undir stjórn Dana á þessum tíma. Hann hafði áhyggjur af því að kjörnir þjóðfundarfulltrúar myndu ekki standa með landi og þjóð á þessum fundi þannig að það yrði Íslendingum til farsældar. Ljóðið var innlegg hans til umræðunnar um þetta efni. Sennilega hefur Bólu-Hjálmar beðið fulltrúa Skagfirðinga fyrir þetta kvæði en það var þó aldrei lesið upp á fundinum og engar fregnir eru af því að það hafi borist danska konunginum.
Ástæðan fyrir því að mér hefur verið hugsað til þessa kvæðis undanfarna dag er sú að ég finn til sömu tilfinninga og Bólu Hjálmar birtir þar. Ég treysti ekki þeim sem fara með völdin í dag frekar en hann á sínum tíma. Ég finn til djúprar samkenndar með landi og þjóð vegna staðreyndanna sem blasa við okkur þeirra vegna. Þetta veldur mér öllu í senn: djúpum harmi, myrku vonleysi og þrúgandi reiði.
Aldin móðir eðalborna,
Ísland, konan heiðarlig,
ég í prýðifang þitt forna
fallast læt og kyssi þig,
skrípislæti skapanorna
skulu ei frá þér villa mig.
Þér á brjósti barn þitt liggur,
blóðfjaðrirnar sogið fær,
ég vil svarinn son þinn dyggur
samur vera í dag og gær,
en hver þér amar alls ótryggur,
eitraður visni niður í tær.
Ef synir móður svíkja þjáða
sverð víkinga mýkra er,
foreyðslunnar bölvan bráða
bylti þeim, sem mýgjar þér,
himininn krefjum heillaráða foreyðslunar=tortíming/mýgja=kúga/fjer=fjör
og hræðumst ei, þó kosti fjer.
Legg við, faðir, líknareyra,
leið oss einhvern hjálparstig,
en viljirðu ekki orð mín heyra,
eilíf náðin guðdómlig,
mitt skal hróp af heitum dreyra
himininn rjúfa kringum þig.
Móðir vor með fald og feldi
fannhvítum á kroppi sér,
hnigin að æfi kalda kveldi,
karlæg nær og holdlaus er.
Grípi hver sitt gjald í eldi
sem gengur frá að bjarga þér.
Sjáðu, faðir, konu klökkva
sem kúrir öðrum þjóðum fjær.
Dimmir af skuggum dauðans rökkva,
drottinn, til þín hrópum vér:
Líknaðu oss eða láttu sökkva
í leg sitt aftur forna mær!
Endurvakin sjálfstæðisbarátta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gráglettinn húmor Henrýs
1.12.2008 | 15:39
Hann heitir Henrý Þór Baldursson og gerir líka svona skemmtilegar myndir. Hann kallar þær skrípómyndirnar sínar. Mér finnst þær flottar. Vinnslan á þeim er skemmtileg og textinn hnyttinn. Smugan.is er farin að birta þessar myndir líka. Þó mér sé ekki hlátur í hug þessa dagana þá verður það að viðurkennast að hann er lífsnauðsynlegur. Háðið í þessum myndum Henrýs vekur mér hlátur. Háðið er líka oft besta meðalið í baráttunni gegn fáránleika raunveruleikans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er kannski ekki nema von...
1.12.2008 | 01:06
Hugurinn hvarflar víða þessa daga og vikur sem hafa liðið frá hruni bankanna. Margt vekur mér furðu og sumt svo mjög að ég er angdofa og orðlaus. Það hefur ýmislegt viðgengist í samfélaginu á undanförnum misserum sem mér hefur fundist í hæsta máta ósanngjarnt en ég ímyndaði mér þó aldrei að ósanngirnin gæti orðið jafn yfirgengileg og sú sem við horfum upp á um þessar mundir.
Mér finnst það a.m.k. yfirgengileg ósanngirni að íslensk stjórnvöld setji almenningi að blæða og þjást fyrir auðgunarbrot nokkurra banka- og fyrirtækjaeigenda. Fréttir herma að það sé skollin, eða u.þ.b. að skella, á kreppa í löndunum í kringum okkur en hún muni þó hvergi verða þyngri en hér á Íslandi. Ástæðan er sögð íslensku útrásarbarónarnir sem lögðu ævisparnað íslenskra sparifjáreigenda undir á spilaborði áhættufjármagnisins.
Heilbrigð skynsemi segir mér að eigendur bankanna, sem fóru þannig að ráði sínu, og fjármálaeftirlitið í landinu, sem lét þetta viðgangast, eigi að taka ábyrgðina og bera hana líka. Heilbrigð skynsemi segir mér að banka- og fyrirtækjaeigendur sem fóru þannig að ráði sínu séu glæpamenn sem eigi ekkert frekar að fá að njóta vafans frekar en hverjir aðrir innbrotsþjófar. Heilbrigð skynsemi segir mér líka að fjármálaeftirlitið í landinu eigi að axla sína ábyrgð, biðja almenning í landinu afsökunar, viðurkenna vanhæfni sína og draga sig í hlé.
Það sem við horfum upp á er í þvílíkri mótsögn við heilbrigða skynsemi mína að ég velti því óneitanlega fyrir sér hvort ég lifi í martröð eða veruleika. Ég veit að þetta er ekki martraðarkenndur draumur og þess vegna spyr ég mig hví veruleikinn sé svona öfugsnúinn eins og raun bert vitni? Í raun finnst mér veruleikinn sem blasir við í íslensku samfélagi um þessar mundir ekki aðeins martraðarkenndur heldur stórhættulega geðveikur!
Þess vegna setur að mér kvíða. Ég treysti ekki stjórnvöldum sem snúa út úr sanngirninni eins og þeir hafa gert. Ef ég gerist sek þarf ég að taka út mína refsingu. Af hverju gildir það ekki um auðmannaklíkuna líka? Af hverju þarf íslenskur almenningur að sitja í skuldafangelsi fyrir fámenna auðmannarefi? Af hverju þurfum við að blæða og þjást þó fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin hafi látið þetta auðmannabræðralag hafa sig af fíflum?
Ég þykist vita að það liggi nokkuð ljóst fyrir meðal allra aðila hverjir hinir seku eru. Ég krefst þess að þeir fái meðhöndlun eins og aðrir grunaðir. Að þeir verði rannsakaðir og dregnir til saka. Ég krefst þess að þeir verði látnir borga það tjón sem þeir bera ábyrgð á. Ég neita því að dæmdur fjárglæframaður geti snúið heim með rússagull og hreiðrað um sig í einni af elstu fjármálastofnun landsins og orðið þannig enn stórtækari í fjárglæfrastarfseminni, og komist upp með það!
Ég veit að það gengur kreppa yfir hinn vestræna heim en það eru fleiri og alvarlegri hlutir sem dundu á íslensku hagkerfi en svo að hún skýri þá djúpu lægð sem við erum ekki enn komin til botns í. Ég á rétt á að fá það upp á yfirborðið hvaða hlutir það voru og hverjir báru ábyrgð á þeim. Ég á líka rétt á því að mínar skuldir fái sömu meðhöndlun og þeir gæðingar sem hafa verið fríaðir frá skuldum sínum með ólögum frá Alþingi á undanförnum vikum. Ég á rétt á því að ég og fjöldinn sem ég tilheyri verði sett í forgang fram yfir örfáa glæpamenn sem eru flestir búnir að flytja lögheimili sín út fyrir landsteinanna.
Það er ekki langt síðan að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds við að heyra þá vafasömu speki hafða eftir einhverjum bandbrjáluðum græðgisvæðingarsinnanum að græðgin væri dyggð! Mér var svo sannalega misboðið. Að einhverjum geti dottið þessi heimska í hug. Að einhverjum skuli detta í hug að bera slíka gerræðishugmynd á borð fyrir venjulegan almenning. Það er því miður nokkuð ljóst að þeir sem hömpuðu útrásinni og þeim örfáu einstaklingum sem stóðu að baki henni voru heillaðir af þessari kenningu.
Kenningin um að græðgin sé dyggð er afskræming á veruleikanum, eins og dæmin allt í kringum okkur núna sanna, en græðgisvæðingarsinnaðir banka- og fyrirtækjaeigendur sem hafa fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnina í vasanum neita að horfast í augu við það. Græðgin hefur bent þeim á lausn á vanda þeirra: Látum almenning blæða! Getur það verið að þeir muni komast upp með það! Ég neita að trúa því en þessi mynd græðginnar hefur ýtt mér út á tilfinningalegt hengiflug.Er það von þó manni blöskri?! Er það von þó manni misbjóði?! Er það von þó manni finnist maður vera staddur úti á ystu brún hengiflugsins?!
En hvað er til ráða? Eina leiðin sem ég sé út úr þessari skelfilegu líðan er að rísa upp og mótmæla: Hingað og ekki lengra! Bíð spennt eftir fréttum morgundagsins. Þykir slæmt að geta ekki verið með en treysti því að íbúar höfuðborgarsvæðisins og nágrennis misbjóði eins og mér og fjölmenni á þjóðfundinn. Ég get ekki séð annað en það sé langbesta gjöfin til 90 ára fullveldis landsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2008 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)