Það er þannig með skáldin...

Það er svolítið sérstakt að fylgjast með því hvað skáldin okkar eru dugleg við að koma samtíma okkar í orð. Í því sambandi dettur mér strax í hug: Andri Snær Magnason, Einar Már Guðmundsson, Gerður Kristný, Jón Kalmann Stefánsson og Steinar Bragi Guðmundsson. Þessi hafa öll lagt þjóðinni lið við að koma hinum óraunverulega glundroða sem hefur blasað við þjóðinni frá því í haust niður á blað. Um leið hefur þeim gjarnan tekist að setja fjarstæðukennda atburði nýliðinna vikna og mánaða í skiljanlegt samhengi.

Túlkun þeirra á súrrealískum raunveruleikanum hefur oft og tíðum hjálpað okkur hinum við að horfast í augu við það hvernig komið er eða bara einfaldlega það að koma honum í orð. Ég reikna með að langflestir kannist við ræður og/eða greinar framantaldra sem ég vísa í, í þessu sambandi, en það er hægt að krækja í þær undir nöfnum þeirra ef einhver hefur misst af einhverri þeirra.

Það er þannig með suma texta að þeir lifa mun lengur en tímarnir sem þeir urðu til á. Greinarnar sem ég vísa í hér að ofan eiga ábyggilega eftir að lifa okkur öll sem minnisvarðar um þessa umbrotatíma sem við lifum nú. Það er sagt að hörmungarnar sem eiga sér stað í hérlendu efnahagslífi séu óþekktar annars staðar nema á stríðstímum. Það er þess vegna ekki skrýtið þó að slíkar kalli á ýmis konar viðbrögð og nú verði til margir ódauðlegir textar.

Hörmungar knýja skáldin gjarnan til að munda skriffærin og beita orðinu sem vopni í baráttunni fyrir réttlætinu. Ég hef áður birt kveðskap Bólu-Hjálmars sem dæmi um slíkan texta sem mér fannst eiga einstaklega vel við í nútímanum. Nú langar mig til að vekja athygli á ljóði eftir ekki síðra ádeiluskáld sem deildi gjarnan á þýlyndi þjóðarinnar eins og hann gerir í eftirfarandi ljóði. Þetta er ljóðið Þjóðsaga eftir Jónas E. Svafár Eins og heiti og innihald ljóðsins bera með sér rekur Jónas sögu þjóðarinnar frá landnámi til þeirra tíma að varnarsamningur Íslendinga og Bandaríkjamanna komst til framkvæmda. 

Hæðnisfull ádeilan fer vart framhjá nokkrum manni en hæðnin kemur ekki síst fram í meinlegum vísunum í þjóðsögurnar okkar og tengingum þeirra við sögu þjóðarinnar. Kvæðið dregur ekki síður upp nöturlegan sannleika sem fæstir samtíðarmenn Jónasar vildu horfast í augu við  og margir eiga í erfiðleikum með að kyngja enn þann dag í dag. Mér sýnist að einn angi þessa sannleika sé sá að lýðræðið hefur aldrei fengið að vaxa og dafna hér á Íslandi. Í reynd hefur aðeins verið um sýndarlýðræði að ræða sem birtist í því að þjóðin fær tækifæri til að kjósa á fjögurra ára fresti...

Í ljóði sínu, sem fer hér á eftir, víkur Jónas E. Svafár að þeim merku tímamótum í íslenskri sögu þegar landið varð sjálfstætt lýðveldi 1. desember 1944. Íslenska þjóðin hélt upp á það næstu fimm árin að nú fengi hún í alvöru að hafa einhver áhrif á framgang mála sem vörðuðu framtíð og þjóðarhag. Þau urðu reyndar ekki nema tæp fimm því 30. mars 1949 var sá misskilningur þjóðarinnar leiðréttur með lögreglukylfum og táragasi fyrir framan alþingishúsið eins og frægt er orðið.

5. maí 1951 var svo Keflavíkursamningurinn undirritaður. Árið 1968 birtist eftirfarandi ljóð Jónasar í ljóðabók hans Klettabelti fjallkonunnar:

SkjaldarmerkiðÞjóðsaga

að koma fyrst við sögu
eins og álfur út úr hól

og eiga draugafé á fjalli
sem verður kveðið niður

að reisa við sjávarútveginn
hamraborg fyrir huldufólkið

og verða sjálfstætt lýðveldi
af forfeðranna tröllatryggð

að gerast með vélum og vinnu
dverghagir á iðnað og listir

en glata frelsi og efnahag
til erlendra útilegumanna

Mér finnst þessi orð Jónasar E. Svafárs ekki síður eiga erindi nú á tímum en þá þegar hann orti það. Íslenska þjóðin hefur glatað frelsi sínu þó það sé auðvitað spurning hvert frelsi hennar var áður þá ætti öllum að vera orðið ljóst að efnahagslegt frelsi hennar er gersamlega komið í vaskinn. Þar voru hagsmunir erlendra sparifjáreigenda og fámennrar, íslenskrar auðmannaklíku teknir fram yfir afkomu þjóðarinnar.

Er það lýðræði? Nei! Gjörningurinn á ekkert skylt við lýðræðið enda var þjóðin aldrei spurð álits. Gjörningurinn minnir miklu frekar á þá forgangsröðun sem var við lýði á tíma íslenskrar óðalsbændastéttar sem réði ríkjum í skjóli dansks konungsvalds. Hvað annað stjórnaði gjörðum ríkisvaldsins 30. mars 1949 en forræðishyggja gömlu bændastéttarinnar sem hafði haft töglin og hagldirnar hér innanlands allt frá landnámi? 

Einræðistilburðir Davíðs Oddssonar minna í sumu á þessa rótgrónu forræðishyggju. Þeir eru þó fléttaðir úr fleiri þáttum en engum þó lýðræðislegum.

Skoðana- og trúfélagar Ég vil meina að íslensk stjórnvöld hafi verið alltof upptekin af því að STJÓRNA til að leyfa lýðræðinu að blómstra í reynd. Nýfrrjálshyggjan gerði svo endanlega út af við alla lýðræðishugsjón þeirra sem hafa farið með stjórn landsins síðastliðin ár. Þjóðin hefur aldrei fengið að taka afstöðu til stærri mála sem varðar hag hennar, afkomu og virðingu út á við. Ef einhver taldi sig búa í lýðræðisríki þá hljóta a.m.k. að vera runnar á þá tvær grímur.

Ég fullyrði að við búum við forræðishyggju en ekki lýðræði. Mér sýnist að sumir þeirra sem sitja í núverandi stjórn geti m.a.s. tekið undir það með mér eins og eftirfarandi bendir til: „Hinir ábyrgu sem ekki vilja kosningar telja að fólkið í landinu sé svo vitlaust að því sé ekki treystandi til að kjósa“ (visir.is)

Ég vil brjóta þessa forræðishyggju á bak aftur og útrýma henni. Ég vil innleiða lýðræði á Íslandi. Mér finnst vera kominn tími til að íslenska þjóðin brjótist undan margra alda oki spilltrar auðmannastéttar sem kann ekki að verja annarra hag en sjálfrar sín. Það er kominn tími til að við göngum í takt við nútímalegri stjórnarhætti inn í framtíðina.

Það er löngu kominn tími á það að við innleiðum lýðræðið á Íslandi og látum það virka eins og til stóð! Stöndum þess vegna þétt saman og mótmælum óréttlætinu sem er dunið yfir og komum í veg fyrir að það haldi áfram. Það er ekki einkaréttur skáldanna að finna til eldmóðs og heilagrar reiði enda sækjast þau ekki eftir slíku. Þvert á móti þau vilja kveikja þann sama eld í brjóstum þjóðarinnar. 

Það var fyrst í dag sem ég gaf mér tíma til að lesa grein Steinars Braga Guðmundssonar: Upprisa þjóðarinnar. Þó sumt af því sem stendur þar sé nú, tæpum mánuði eftir að hún var skrifuð, eins og bergmál margs af því sem hefur verið sagt síðan þá hleypti hún í mig endurnýjuðum eldmóði. 

Ég fylltist heilagri reiði sem ég ætla að virkja til að standa með sjálfri mér og þjóðinni minni. Okkur skal takast það að lágmarki að koma núverandi ríkisstjórn frá og krefjast nýrra kosninga. Þetta er þjóðþrifamál því núverandi ríkisstjórn stendur í vegi fyrir framtíðinni! (Sjá grein Steinars Braga)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband