Innanríkisráðuneytið

Þetta er síðasta færslan um einstök ráðuneyti með beinum samanburði á ferilskrám þeirra sem gegna embætti ráðherra í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem gegndu sömu embættum í þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili. Fyrsta færslan um Forsætisráðuneytið var skrifuð 11. ágúst fyrir vel rúmu hálfu ári en í aðdraganda að þessu verkefni var gert ráð fyrir því að það tæki í mesta lagi einhverjar vikur. Verkefnið hefur hins vegar undið nokkuð upp á sig og orðið töluvert umfangsmeira og tafsamara heldur en ráð var fyrir gert.

Á eftir færslunni um Forsætisráðuneytið fylgdu færslur um Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og menningamálaráðuneytið, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Félags- og húsnæðisráðuneytið, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og hér er að lokum sú um Innanríkisráðuneytið. Í næstu færslum verður minnt á meginmarkmið þessa verkefnis ásamt því sem tilraun verður gerð til þess að setja fram einhverjar niðurstöður.

Andrew Jackson

Það kom fram í aðdraganda að þessari færslu að Innanríkisráðuneytið er ekki nema þriggja ára gamalt. Það varð til á síðasta kjörtímabili eftir að heiti Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafði verið breytt í Dóms- og mannréttindaráðuneytið og aukið við Samgönguráðuneytið með því að fela því yfirumsjón með sveitarstjórnarmálum. Þetta var í fullu samræmi við samstarfsyfirlýsingu síðustu ríkisstjórnar:

Nýtt ráðuneyti sveitastjórna, samgöngu og byggðaþróunar fær til viðbótar við fyrri verkefni aukið vægi varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem tengist m.a. tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, auk stefnumótunar á sviði byggðaþróunar.

Í nýju ráðuneyti mannréttinda og dómsmála verður til viðbótar við verkefni sem fyrir eru, lögð áhersla á verkefni á sviði lýð- og mannréttinda auk þess sem öll framkvæmd almennra kosninga færist þangað, en hún er nú dreifð á þrjú ráðuneyti. Þangað færast ennfremur neytendamál. [...]

Fyrir lok kjörtímabilsins er gert ráð fyrir því að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmálaráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti. (sjá hér)

Þar sem svo margir málaflokkar eða eldri ráðuneyti eru nú samankomin undir einum hatti var horfið til þess að setja þessari færslu um Innanríkisráðuneytið aðdraganda. Færslur með einhvers konar aðdraganda eða inngangi að færslunum sem eru undir heitum ráðuneytanna eru því orðnar sex. Fjórir voru settir á undan færslunni um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, einn á undan þeirri um Utanríkisráðuneytið og einn að þessari um Innríkisráðuneytið.

Hér verða dregin fram nokkur atriði til viðbótar sem tengjast forsögu Innanríkisráðuneytisins áður en kemur að samanburði á ferilskrám þeirra Ögmundar Jónassonar sem var innanríkisráðherra síðustu ríkisstjórnar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem situr í Innanríkisráðuneytinu nú.

Flokks- og/eða kynbundin málefni  

Því hefur löngum verið haldið fram að sum ráðuneyti og málaflokkar tilheyri ákveðnum flokkum og jafnvel kyni eftir að konur fóru að gerast ráðherrar. Fullyrðingar af þessu tagi byggja ekki alltaf á öðru en tilfinningu en þegar betur er að gáð kemur í ljós að sumar fullyrðingar af þessu tagi eru á rökum reistar.

Þannig hefur því stundum verið haldið fram að hið unga Umhverfisráðuneyti sé kvennaráðuneyti (sjá hér). Miðað við það að aðeins helmingur þeirra ráðherra sem hafa setið yfir ráðuneytinu eru konur er hæpið að halda slíku fram. Staðhæfinguna má hins vegar réttlæta þegar horft er til þess að ekkert ráðuneyti hefur haft jafn margar konur sem ráðherra. Það má benda á að einn fjórði þeirra kvenna sem hafa gengt ráherrastöðum, frá því fyrsti kvenráðherrann var skipaður árið 1970, hafa verið umhverfisráðherrar.

Grace Paley

Í þessu ljósi kemur það e.t.v. á óvart að fjórar konur hafa verið skipaðar dóms- og kirkjumálaráðherrar. Hér ber reyndar að minna á að töluverðar breytingar urðu á mörgum ráðuneytanna á síðasta kjörtímabili eins og áður hefur komið fram. Kirkjumálaráðuneytið var lagt niður en Mannréttindaráðuneytið sett á stofn haustið 2009. Ragna Árnadóttir var fyrsti ráðherra þess. Innanríkisráðuneytið, sem var stofnað í upphafi ársins 2011, tók þessa málaflokka yfir (sjá hér) og er Hanna Birna Kristjánsdóttir því fyrsta konan sem gegnir embætti innanríkisráðherra.

Af þeim sex konum sem hafa verið umhverfisráðherrar eru tvær úr Sjálfstæðisflokknum, ein úr Framsóknarflokknum, ein úr Samfylkingunni og tvær úr Vinstri grænum (sjá hér). Þrjár af þeim fjórum konum sem hafa verið dóms- og kirkjumálaráðherrar koma hins vegar úr Sjálfstæðisflokknum en ein var óflokksbundin.

Konurnar í Dómsmálaráðuneytinu

Það vekur væntanlega athygli að á meðan utanríkismálin hafa lengst af verið í höndum jafnaðarmanna þá hafa innanríkimálin að mestu verið í höndum Sjálfstæðisflokksins. Eins og kom fram í færslunni um Utanríkisráðuneytið var það stofnað árið 1940. Af þeim 74 árum, sem eru liðin síðan, þá hefur Alþýðuflokkur/Samfylking haft utanríkismálin í sinni forsjá í 32 ár (sjá hér)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið er hins vegar orðið 97 ára gamalt. Á þeim tíma sem er liðinn síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verðið yfir ráðuneytinu í 55 ár, Framsóknarflokkurinn í 29 en Alþýðuflokkurinn aðeins í 5 ár. Þess ber að geta að á árunum 1917 til ársins 1926 fóru þeir sem voru forsætisráðherrar jafnframt með Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Af einhverjum ástæðum viðhéldu forsætisráðherrar Framsóknarflokksins, þeir Hermann Jónasson og Ólafur Jóhannesson, þessari hefð. Ólafur Jóhannesson var forsætisráðherra árið 1971 til 1974 en hélt dóms- og kirkjumálaráðherraembættinu áfram árin 1974 til 1978 (sjá hér). Hermann Jónasson var hins vegar forsætisráðherra allan þann tíma sem hann var yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu auk þess sem hann fór með landbúnaðarmál og stundum vega- og orkumál (sjá hér).

Dóms- og kirkjumálaráðherrar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka verið lengst allra flokka yfir Samgönguráðuneytinu eða alls 39 ár, Framsóknarflokkurinn 25, Alþýðuflokkur/Samfylking 10 ár en aðrir flokkar 6 ár. Hér er miðað við að Samgönguráðuneytið hafi verið stofnað fyrir 80 árum en það er tæplega hægt að halda því fram þar sem ráðuneytið festist ekki í sessi fyrr en í öðru ráðuneyti Ólafs Thors árið 1944 til 1947 (sjá hér). Það kemur þó fyrst fyrir í þeirri ríkisstjórn sem Tryggvi Þórhallsson fór fyrir frá 1927 til 1932 (sjá hér).

Í millitíðinni gekk málaflokkurinn ýmist undir heitinu vega- eða samgöngumál. Í síðustu færslu var farið nokkuð ýtarlega yfir þann þátt svo og það hvaða ráðherrar hafa setið lengst yfir samgöngumálunum. Það kemur tæpast á óvart að það eru allt Sjálfstæðismenn. Halldór Blöndal sat sitt fyrsta kjörtímabil sem samgönguráðherra þegar EES-samningurinn var samþykktur.

Það kom því í hans hlut að hefja innleiðingu samgönguáætlunar Evrópusambandsins hér á landi (sjá hér). Sturla Böðvarsson tók við keflinu úr höndum Halldórs (sjá t.d. hér), þá Kristján L. Möller (sjá t.d. hér) og loks Ögmundur Jónasson (sjá t.d. hér). Í samræmi við aðrar innleiðingar  EES-regluverksins og/eða EB-tilskipana þá miða þær að því að: færa ákvarðanavaldið varðandi málaflokkinn í hendur einum manni; þ.e. ráðherra (sjá hér), fjölga stjórnsýslustofnunum (sjá t.d. hér), leggja á ýmis konar gjöld og koma ýmsum þáttum samgöngumála í einkavæðingarferli (sjá t.d. hér).

Ögmundur Jónasson tók ekki aðeins við kefli samgöngu- og sveitarstjórnarmála úr höndum Kristjáns L. Möllers á síðasta kjörtímabili. Haustið 2010 tók hann líka við þeim málaflokkum sem höfðu verið í höndum vinsælasta ráðherra síðasta kjörtímabils. Hér er átt Rögnu Árnadóttur en hún steig fyrstu skrefin við innleiðingu EB-tilskipana sem varða málefni hælisleitenda. Tilskipanirnar byggja á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948, Mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950 og Genfarsamningunum frá 1951 um réttarstöðu flóttamanna.

Manngreinandi mannúðarstefna 

Í síðustu færslu var sá þáttur rakin sem gerði það að verkum að það er tæplega hægt að tala um annað en sprengingu í ásókn hælisleitenda um landvistarleyfi hér á landi. Í september árið 2010 voru þrjú lagafrumvörp Rögnu Árnadóttur sem vörðuðu útlendinga samþykkt þar af eitt um „hælismál“ (sjá hér). Á næstu tveimur árum ríflega tvöfaldaðist fjöldi hælisleitenda hér á landi. Á kvenfrelsisdaginn árið 2012 var svo lagafrumvarp um „hælisleitendur“ (sjá hér) samþykkt.

Gífurleg aukning hælisleitenda á Íslandi

Það er auðvitað líklegt að sú aukning sem varð árið 2012 á fjölda umsókna um hæli á Íslandi eigi sér einhverjar skýringar í samþykki seinna lagafrumvarpsins en árið 2013 rúmlega þrefaldast fjöldi hælisleitenda ef miðað er við árið 2010. Það vekur athygli að samkvæmt því sem bæði Ragna Árnadóttir og Ögmundur Jónasson taka fram í framsögum sínum við kynningu lagafrumvarpanna þá var gert ráð fyrir að sá kostnaður sem félli á ríkissjóð samfara innleiðingu þessara laga yrði óverulegur.

Ragna Árnadóttir, sem var fyrsti mannréttindaráðherrann, gerði reyndar ráð fyrir 10 til 20 milljarða útgjaldaaukningu vegna rýmkaðra heimilda flóttamanna til dvalarleyfis hér á landi, bættrar réttarstöðu og aukinnar verndar. Kostnaðaraukningin fór fram úr þeirri áætlun þegar árið eftir. Árið 2012 var kostnaður ríkissjóðs vegna þessa málaflokks kominn upp í 220 milljónir (sjá hér) en hann var 600 milljónir á síðasta ári (sjá hér). 

Eins og bent var á í síðustu færslu gerði Innanríkisráðuneytið samning við Reykjanesbæ um þjónustu við hælisleitendur. Vorið 2013 „lýstu forsvarsmenn bæjarins því yfir að ekki væri svigrúm til að taka við fleiri hælisleitendum.“ (sjá hér) Í framhaldinu var auglýst eftir fleiri sveitarfélögum sem væru tilbúin til að taka á sig sams konar þjónustu við hælisleitendur og Reykjanesbær. Í upphafi þessa árs var gegnið frá slíkum þjónustusamningi við Reykjavíkurborg (sjá hér).

Mörgum hefur þótt það nöturlegt upp á að horfa að á sama tíma og upp undir 200 einstaklingar eru heimilislausir í Reykjavík þá skuli Reykjavíkurborg ráðstafa 15 félagslegum íbúðum undir hælisleitendur en á engin úrræði fyrir þá sem hafa þurft að sofa á götunni á undanförnum árum.

Paul Farmer

Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna segir að „Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð.“ (sjá hér) Þar segir líka að:

Ríkisstjórnin leggur áherslu á baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi, friði og afvopnun og gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu og hungursneyð, m.a. með markvissri þróunaraðstoð. Framlag Íslands til friðargæslu í heiminum verður fyrst og fremst á sviði sáttaumleitana, uppbyggingar borgaralegra stofnana, jafnréttis- og mannúðarmála. (sjá hér)

Þar segir hins vegar ekkert um vernd innfæddra sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Þar segir heldur ekkert um það hvaða áherslur verði lagðar í baráttunni fyrir „mannréttindum, kvenfrelsi, [...] gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu“ og hungri íslenskra ríkisborgara. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er ekkert að finna um málefni hælisleitenda eða utangarðsfólks (sjá hér).

Miðað við tilefni þeirrar gífurlegu fréttaumfjöllunar, sem meðferð núverandi innanríkisráðherra á umsókn eins hælisleitenda hefur fengið frá því í nóvember á síðasta ári, má draga þá ályktun að ýmsir fulltrúar fyrrverandi ríkisstjórnar svo og þeir stuðningsmenn hennar, sem hafa haldið umfjölluninni uppi, sé umhugaðra um kjör einstakra hælisleitenda en þeirra ríkisborgara sem hafa engan annan samanstað en götuna. Hér er ekki rúm til að fjalla á þann hátt um „lekamálið“ svokallaða að öllum þáttum þess verði gerð fullnægjandi skil. Þar af leiðandi verður látið nægja að vísa í fréttasöfn DV og mbl.is um þetta mál.

Því var haldið fram í síðustu færslu að sú áhersla, sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka, á mannréttinda- og innflytjendamál standi í beinum tengslum við þá ætlun hennar að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Sú aðlögun sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili að regluverki alþjóðlegra skuldbindinga um mannréttindamál var þó hafin nokkru áður. Með aðildinni að EES-samningnum í upphafi ársins 1994 jókst þrýstingurinn að hálfu þeirra Evrópustofnana sem íslensk stjórnvöld höfðu framselt vald sitt til með Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna undir lok ársins 1948 og  Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins haustið 1953 (sjá hér).

Olaf Palme

Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér árið 1994 (sjá hér). Ári síðar voru gerðar breytingar á Stjórnarskránni í þeim tilgangi að færa ákvæði mannréttindakafla hennar „til samræmis við alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að“ (sjá hér). Því miður hefur íslenskum stjórnvöldum ekki borið gæfa til að tryggja að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti „mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“ (sjá hér).

Staða útigangsfólks samanborðið við hælisleitendur er til marks um að sú mannúðarstefna sem Innanríkisráðuneytinu er ætlað að vinna að stuðlar að manngreiningu og mismunun sem er bundin þjóðernisuppruna og efnahag. Þar hallar greinilega á þá sem eru fæddir á Íslandi eða hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga minnst. Þó núverandi innanríkisráðherra hafi tekið ýmsar ákvarðanir, sem hafa orðið þyrnir í augum þeirra sem setja hagsmuni hælisleitenda ofar öllu öðru sem snýr að mannúðarmálum, er algjörlega óvíst að ástæðan hafi eitthvað með mannréttindi þeirra hópa innfæddra sem eiga undir högg að sækja.

Reyndar er ljóst að fátækir Íslendingar eiga afar fáa málssvara hvort sem litið er til útigangsfólks eða bótaþega. Hitt er víst að þessa hópa sárvantar ekki aðeins öfluga málsvara bæði innan þings og utan heldur hljóta málefni þeirra ekki síður að heyra undir málefnasvið þess ráðherra sem fer með mannréttindamál heldur en málefni hælisleitenda og annarra sem sækja um landvistarleyfi á Íslandi.  

Innanríkisráðherra 

Innanríkisráðherrar

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum hversu miklar hreyfingar urðu á ráðherraskipan síðustu ríkisstjórnar. Fyrsta hreyfingin varð aðeins fimm mánuðum eftir að hún tók við völdum en þá sagði Ögmundur Jónasson af sér sem heilbrigðisráðherra. Tilefnið var skoðanaágreiningur um fyrsta Icesave-samninginn (sjá hér).

Ári síðar tók Ögmundur Jónasson við þeim ráðuneytum sem voru sameinuð í Innanríkisráðuneytinu 1. janúar 2011. Þetta voru Dóms- og mannréttindaráðuneytið og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Á sama tíma og Ögmundur gekk þannig inn í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur að nýju voru þau Ragna Árnadóttir og Kristján L. Möller leyst frá störfum sínum sem ráðherrar (sjá hér).

Ögmundur er fæddur árið 1948. Hann var því 61s árs þegar hann tók við sínu fyrsta ráðherraembætti vorið 2009 eftir fjórtán ára þingsetu. Hanna Birna er fædd árið 1966. Hún kom ný inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor og var þá þegar skipuð innanríkisráðherra þá 47 ára gömul.

Menntun og starfsreynsla:
Ögmundur
var 21s ár þegar hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Fimm árum síðar útskrifaðist hann með MA-próf í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Edinborgarháskóla í Skotlandi. Í framhaldinu vann hann við rannsóknir við Edinborgarháskóla og ýmis hlutastörf næstu fjögur ár.

Árið 1978 hóf Ögmundur störf sem fréttamaður Ríkisútvarpsins; fyrst hljóðvarps og síðar sjónvarps, og starfaði þar í 10 ár. Tvö síðustu árin var hann fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum með aðsetur í Kaupmannahöfn. Ögmundur var kjörinn formaður BSRB árið1988 og gegndi því embætti fram til 2009. Ögmundur var kjörinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið árið 1995. Hann var því 47 ára þegar hann tók sæti á þingi.

Hanna Birna lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 18 ára og stúdentsprófi frá Kvennaskólanum tveimur árum síðar. 25 ára lauk hún BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands en auk þess er hún með M.Sc.-próf í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla. Hún útskrifaðist þaðan árið 1993.

Samkvæmt ferilskrá Hönnu Birnu inni á alþingisvefnum hefur hún hafið starfsferil sinn sem starfsmaður Öryggismálanefndar árið 1990 en nefndin var lögð niður ári síðar (sjá hér). Eftir að Hanna Birna sneri heim frá meistaranáminu við Edinborgarháskóla starfaði hún í eitt ár sem deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu en varð þá framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins í fjögur ár og því næst aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmálaflokksins á árunum 1999 til 2006. 

Hanna Birna var í borgarstjórn frá árinu 2002. Á þeim tíma var hún m.a. borgarstjóri á árunum 2008 til 2010. Hanna Birna kom ný inn á þing síðastliðið vor fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún var því 47 ára þegar hún var kjörin inn á þing.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Áður en Ögmundur var kosinn inn á þing fyrir tæpum tuttugu árum var hann orðinn þokkalega kynntur sem fréttamaður hjá RUV í tíu ár og síðan formaður BSRB til sjö ára. Hann gegndi formennsku BSRB fram til ársins 2009. Frá árinu 1995 hefur Ögmundur setið inni á þingi fyrir þrjá stjórnmálaflokka.

Fyrst fyrir Alþýðubandalagið eða fram á haust árið 1998 en þá stofnuðu nokkrir þingmenn Alþýðubandalagsins og Kvennalistans sameiginlegan  þingflokk óháðra. Ögmundur var formaður hans til þingloka vorið 1999. Hann bauð fram fyrir Vinstri græna í alþingiskosningunum vorið 1999 og hefur verið þingmaður þeirra síðan. Hann var formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs frá 1999 til 2009.

Hanna Birna tók að starfa á pólitískum vettvangi aðeins 24 ára gömul og þá sem starfsmaður Öryggismálanefndar. Fjórum árum síðar var hún deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu. Árið 1995 var hún framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna fór með það embætti næstu fjögur árin. Í framhaldinu varð hún aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 1999 til ársins 2006.

Hanna Birna hefur setið í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2002 og sat í borgarráði frá árinu 2003 fram til þess að hún var kjörin inn á þing. Hún var forseti borgarstjórnar á árunum 2006 til 2008 og borgarstjóri næstu tvö árin eða fram til þess að núverandi borgarstjóri tók við völdum.

Á þeim tíma sem Hanna Birna var í borgarstjórn hefur hún setið í 15 stjórnum, ráðum og nefndum. Flestum á árunum 2003 til 2005 og árið 2010. Þessi ár var hún í sex nefndum auk þess að vera aðstoðarframkvæmdarstjóri flokksins og sitja í borgarstjórn og borgarráði. Árið 2008 var hún orðinn borgarstjóri í Reykjavík og gegndi því embætti fram til ársins 2010.

Það vekur e.t.v. athygli að Hanna Birna hefur ekki verið formaður fleiri nefnda en raun ber vitni. Auk þess að vera forseti borgarstjórnar á árunum 2006 til 2008 var hún formaður skipulagsráðs á sama tíma. Áður hafði hún verið formaður nefndar menntamálaráðherra um mótun símenntunarstefnu í eitt ár. Síðar, eða á sama tíma og hún var borgarstjóri, var hún formaður stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og formaður almannavarnanefndar sama svæðis.

Í fljótu bragði er ekki að sjá að þær séu ekki nema þrjár nefndirnar sem Hanna Birna hefur setið í sem tengjast núverandi stöðu hennar sem innanríkisráðherra. Þetta eru stjórnarsetur hennar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá árinu 2006, og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2008 til 2010. Auk þessa átti hún sæti í stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar frá 2010 til 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Ögmundur
hefur verið inni á þingi frá alþingiskosningunum vorið 1995. Í vor fyllir vera hans á þingi 19 ár. Hann kom upphaflega inn sem þingmaður Reykjavíkur fyrir Alþýðubandalagið. Undir lok kjörtímabilsins klofnaði flokkurinn er stærstur hluti þingflokksins gekk til liðs við Alþýðuflokkinn og Kvennaistann um stofnun Samfylkingarinnar (sjá hér). Ögmundur var meðal þriggja þingmanna Alþýðubandalagsins og tveggja frá Samtökum um kvennalista sem stofnuðu þingflokk óháðra sem starfaði fram til alþingiskosninga vorið 1999 (sjá hér).

Ögmundur bauð áfram fram í Reykjavík þetta vor en nú undir merkjum Vinstri græna sem hann hefur boðið fram fyrir síðan. Árin 2003 til 2007 var hann þingmaður Reykjavíkur suður en frá árinu 2007 hefur hann verið þingmaður Suðvesturkjördæmis.

Á þeim tæpu tuttugu árum sem eru liðin síðan Ögmundur tók sæti inni á þingi hefur hann starfað í tólf þingnefndum eða að meðaltali þremur á hverju þingári. Meðal þeirra nefnda sem hann hefur átt sæti í eru allsherjarnefnd þar sem hann átti sæti fyrsta kjörtímabilið sem hann sat á þingi og svo aftur árið 2010, heilbrigðis- og trygginganefnd þar sem hann sat fyrsta árið sitt inni á þingi og félagsmálanefnd en þar sat hann líka í eitt ár eða frá 1997 til 1998. Á árunum 2007 til 2009 átti hann svo sæti í félags- og tryggingamálanefnd og aftur árið 2010.

Hanna Birna kom ný inn á þing í síðustu alþingiskosningum. Hún er þingmaður Reykjavíkur suður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ráðherraembætti:
Ögmundur var 61s árs þegar hann var skipaður heilbrigðisráðherra vorið 2009. Hann var ekki lengi í því embætti því hann sagði af sér og fékk lausn fimm mánuðum eftir að hann var skipaður. Tæpu ári síðar tók hann við embættum tveggja ráðherra sem fengu lausn á sama tíma og gegndi embættum dómsmála- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fram til 1. janúar 2011 þegar þessi embættisheiti voru lögð niður og innanríkisráðherra tekið upp í þeirra stað. Ögmundur veitti innanríkismálunum forystu til loka síðasta kjörtímabils (sjá nánar hér).

Hanna Birna er eini þingmaður núverandi ríkisstjórnar sem var skipaður ráðherra án þess að hafa aflað sér þingreynslu áður. Hún var 47 ára þegar hún var skipuð innanríkisráðherra (sjá nánar hér).

Samantek:
Þau Ögmundur og Hanna Birna eiga fleira sameiginlegt en væntanlega lítur út fyrir í fyrstu. Þau eru bæði með meistaragráðu frá Edinborgarháskóla. Ögmundur var þar við nám í byrjun áttunda áratugarins en Hanna Birna tveimur áratugum síðar. Bæði voru þar í meistaranámi í stjórnmálum. Ögmundur í stjórnmálafræði og sagnfræði en Hanna Birna alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum.

Bæði hafa líka verið umsvifamikil í stjórnmálum. Hanna Birna á vettvangi borgarmála og Ögmundur inni á Alþingi. Um svipað leyti og Ögmundur hóf sinn feril á vinstri væng stjórnmálanna inni á Alþingi var Hanna Birna að hasla sér völl innan Sjálfstæðisflokksins. Fyrst sem framkvæmdarstjóri þingflokks hans. Eftir að hún komst inn í borgarstjórn hefur hún verið í stjórn fjölda nefnda sem fara með málefni borgarinnar og íbúa hennar. Ögmundur hefur líka verið ötull innan hinna ýmsu þingnefnda. Það má svo benda á að bæði voru 47 ára þegar þau voru kosin inn á þing í fyrsta skipti.

Vegið og metið

Hvað flesta aðra þætti varðar skilur þó nokkuð á milli. Ólíkt Hönnu Birnu hafði Ögmundur aflað sér töluverðar starfsreynslu áður en hann sneri sér að stjórnmálunum af einhverjum þunga. Það er líka óhætt að gera ráð fyrir því að hann hafi aflað sér dýrmætrar reynslu til afskipta af samfélagsmálum á tíu ára ferli sem fréttamaður RUV og síðar sem formaður BSRB í sjö ár áður en hann varð þingmaður.

Samkvæmt ferilskrá Hönnu Birnu er sú reynsla sem hún hefur aflað sér öll af vettvangi pólitíkunnar. Fyrst sem starfsmaður Öryggismálanefndar fyrsta kjörtímabilið sem Davíð Oddsson var forsætisráðherra (sjá hér). Öryggismálanefndin heyrði undir Forsætisráðuneytið en var lögð niður árið 1991 (sjá hér).  Síðar þetta sama kjörtímabil var Hanna Birna deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu en Ólafur G. Einarsson var þá menntamálaráðherra.

Á síðasta kjörtímabili þótti mörgum það lofa góðu að tveir utanþingsráðherrar voru á meðal þeirra sem voru skipaðir til ráðherraembætta. Ragna Árnadóttir var annar þeirra en eins og hefur komið rækilega fram hér í aðdraganda þá var hún skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar. Embættisheitinu var breytt 1. október 2009 og hét eftir það dóms- og mannréttindaráðherra (sjá hér). Þrátt fyrir að hún væri langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar var hún leyst frá störfum haustið 2010 (sjá hér)

Á sama tíma var Álfheiður Ingadóttur leyst frá störfum (sjá hér) en hún hafði tekið við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009 þegar Ögmundur vék sæti fyrir afstöðu sína í Icesave sem samræmdist ekki afstöðu annarra ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur (sjá hér). Kristján L. Möller vék einnig sæti en Ögmundur tók við embættum hans og Rögnu Árnadóttur.

Í ánægjukönnun sem Gallup birti haustið 2009 um ánægju þjóðarinnar með störf ráðherra sögðust 27% þátttakanda í könnuninni vera ánægð með störf Ögmundar Jónassonar sem heilbrigðisráðherra (sjá hér). Undir lok síðasta kjörtímabils sögðust rúmlega 29% þátttakenda sömu könnunar vera ánægð með störf hans sem innanríkisráðherra (sjá hér).

Ezra Stiles

Embættisferill Ögmundar Jónassonar sem ráðherra sker sig vissulega úr þar sem hann er eini ráðherrann sem sagði sig sjálfur úr embætti en tók síðar við öðru ráðherraembætti ári síðar. Hann er hins vegar ekki eini ráðherra síðustu ríkisstjórnar sem var skipaður til annars ráðherraembættis,  vorið 2009 en þess sem hann gegndi í lok kjörtímabilsins. Það væri sannarlega forvitnilegt að rekja frekar þau pólitísku átök sem leiddu til þessara hrókeringa en þar sem það er hætt við að það yrði of langt mál þá verður látið nægja að vísa til þess sem Ögmundur hefur látið hafa eftir sér sjálfur (sjá t.d. hér)

Þegar ferilskrár þeirra Ögmundar Jónassonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttir eru skoðaðar þá verður tæplega annað sagt en að Ögmundur standi svolítið sterkari miðað við starfsreynslu af almennum vinnumarkaði sem fréttamaður RUV og formaður verkalýðsfélags ásamt lengri þingreynslu. Hanna Birna er hins vegar með sambærilega menntun og viðlíka langa reynslu innan úr pólitíkinni og Ögmundur. Reynsla Hönnu Birnu var hins vegar nær öll úr borgarpólitíkinni þegar hún var skipuð innanríkisráðherra en Ögmundur var með 14 ára þingreynslu að baki þegar hann tók við sínu fyrsta ráðherraembætti og einu ári betur þegar hann tók við þeim málaflokkum sem heyra nú undir Innanríkisráðuneytið.

Í stuttu máli þá má segja að miðað við þá hefð sem hefur skapast hér á landi við skipun ráðherra þá hljóta bæði Ögmundur Jónasson og Hanna Birna Kristjánsdóttir að teljast álitlegir kostir. Hins vegar þegar horft er til þess víðfeðma málefnasviðs sem heyrir undir Innanríkisráðuneytið þá er hæpið að gera ráð fyrir að menntun þeirra og starfsreynsla standi undir þeim væntingum um þekkingu sem væri eðlilegast að gera til einstaklinga sem er trúað fyrir jafn umfangsmiklum málaflokkum og: dóms-, mannréttinda-, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum.

Helstu heimildir
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir

Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með störf ráðherra:
9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra:
10. janúar 2013

Heimildir úr lögum
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands
(fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.

Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga) 
Ræður þingmanna
(á árunum 1907-2014)

Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Farsýslan, stjórnsýslustofnum samgöngumála
. frá 20. september til 19. nóvember 2012.
Vegagerðin, stjórnsýslustofnun samgöngumála
. frá 20. september til 19. nóvember 2012.
Útlendingar (vegabréfsáritanir, hælisleitendur og EES-reglur)
. frá 31. mars til 19. júní 2012.
Samgönguáætlun 2011-2022
. frá 14. desember 2011 til 19. júní 2012.
Útlendingar (dvalarleyfi fórnarlamba mannsals)
. frá 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (hælismál)
. 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (þátttaka í samstarfi á ytri landamærum, framfærsla o.fl.)
frá 31. mars til 9. september 2010.
Samgönguáætlun
. frá 28. nóvember 2007 til 15. apríl 2008.
Samgönguáætlun
. frá 22. janúar til 29. apríl 2002.
Lagaákvæði er varða samgöngumál
. frá 20. ágúst 1992 til 5. maí 1993.

Heimildir úr fjölmiðlum
Metfjöldi hælisumsókna hér á landi á síðasta ári
. mbl.is 16. mars 2014.
Auðveldari félagsleg aðlögun hælisleitenda í borginni
. visir.is 20. febrúar 2014.
Útigangsfólk kemur víða að
. ruv.is 14. febrúar 2014.
Umsóknum hælisleitenda fjölgaði nærri um 130 prósent á tveimur árum
. visir.is 28. janúar 2014.

Sveitarfélög viljug til að þjónusta hælisleitendur
. visir.is 24. ágúst 2013.
Neyðarástand í Reykjavík. eyjan.is 15. maí 2013.
Samið um aðstoð við hælisleitendur. mbl.is 23. apríl 2013.
Hafa ekki undan að útvega fjölskyldum íbúðir. mbl.is 8. apríl 2013.
Meira fjármagn þarf til hælisleitenda
. mbl.is 23. mars 2013.
Geti áfram ákært vegna falspappíra
. mbl.is 8. mars 2013.
Janúar ekki lengur rólegur mánuður
. mbl.is 9. febrúar 2013.
Endurskoða hælisumsóknarferlið
. mbl.is 21. janúar 2013.
„Orð tekin úr samhengi“
. mbl.is 19. janúar 2013.
Sækja til Íslands til að fá frítt uppihald
. ruv.is 18. janúar 2013

Harður heimur vímusjúkra á götunni. SÁÁ-blaðið 9. október 2012
Hælisleitendur flytja í Klampenborg
. Víkurfréttir 30. júlí 2012
Forstjóri Útlendingastofnunar: „Þetta er ekki boðlegt“
. mbl. 23. júlí 2012.
Aukin fjárframlög til Útlendingastofnunar rædd
. mbl.is 15. maí 2012.
Borgarverðir aðstoði útigangsfólk
. visir.is 19. mars 2012.

Tveir nýir ráðherrar taka við. mbl.is 3. september 2010. 
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið verður dóms- og mannréttindaráðuneyti
. vb.is28. ágúst 2009.

Ögmundur hættur (fréttaknippi). mbl.is
Minnisblað ráðuneytis
. Fréttamál. DV.is
Lekamálið
(fréttaknippi) mbl.is 

Heimildir af vef Innanríkisráðuneytisins
Fyrri ráðherrar
 
Málaflokkar  
Yfirlit yfir lög og reglugerðir eftir málaflokkum
 

Heimildir úr ýmsum áttum

Eignastýring þjóðvegakerfisins
. Janúar. 2014.
Flóttamenn og hælisleitendur. Mannréttindaskrifstofa Íslands.
Fækkun ráðuneyta úr 12 í 9. Forsætisráðuneytið.
Mannréttindasáttmáli Evrópu
(öðlaðist gildi á Íslandi 3. september 1953)
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
(samþykkt 10. desember 1948)
Mat á hagkvæmni strandflutninga á Íslandi
. Innanríkisráðuneytið. 2011
Tölfræðilegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi
. Fjölmenningarsetur. júlí 2013
Samanburður á beinni gjaldtöku og samfélagslegum kostnaði við flutninga
. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. 2005
Samningur um réttarstöðu flóttamanna (Genf 28. júlí 1959)
Schengen upplýsingakerfið á Íslandi
. frá 30. nóvember 1999 til 7. apríl 2000.

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarráð Íslands


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð grein og góð samantekt. Missir þó aðeins trúverðugleika í umfjölluninni um hælisleitendur þar sem þeim er spyrnt gegn útigangsfólki á Íslandi. Það er vissulega rétt að fátækir Íslendingar eiga fáa málsvara en hvað hefur það að gera með aukin réttindi hælisleitenda? Höfundur er kominn út á hálan ís og tilgangurinn er greinilega að koma eigin pólitísku skoðunum á framfæri, sem hefur ekkert með efni greinarinnar að gera.

Með því að gera lítið úr "lekamálinu" og ýja að því að það hafi verið eitt stórt PR-stunt vinstrimanna ýtir hún til hliðar þeirri alvarlegu ásökun að ráðherra hafi brotið af sér í starfi - svo mikið að málið er til rannsóknar hjá saksóknara. Getur fólki ekki fundist það vera slæmt án þess að vera álitið stuðningsmenn fyrrverandi ríkisstjórnar?

Að setja hælisleitendur upp á móti fátækum íslenskum ríkisborgurum er eins og að segja að það eigi að leggja niður sinfóníuna því að það vantar svo mikinn pening á Landsspítalann.

Ari Þór Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 18.4.2014 kl. 05:10

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það segir sig sjálft að ef einhver leggur það á sig að taka annað eins saman og það sem þú varst að lesa þá hefur viðkomandi skoðanir. Í þessu tilfelli fjallar greinin um samfélagsleg málefni en skoðanir á samfélaginu flokkast víst undir pólitík.

Það má vera að sá hluti umfjöllunarinnar sem fjallar um málaflokkinn mannréttindamál dragi eitthvað úr „trúverðugleika“ skrifanna í þínum augum. Ég er ekkert viðkvæm fyrir því en langar samt til að benda þér á að tilgangur minn var fyrst og fremst sá að reyna að sýna fram á að sú mannréttindastefna sem Innanríkisráðuneytið hefur beygt sig undir fer í manngreinarálit þar sem mannréttindi hælisleitenda eru sett á undan mannréttindum útigangsfólks. Ég sé reyndar ekki að það sé nein sérstök pólitísk í því að koma auga á það og draga það fram.

Dæmið sem þú nefnir þykir mér frekar langsótt þar sem ekki er um hliðstæður að ræða. Það væri nærtækara að stilla fram fjölskyldu sem hefur opnað hús sitt fyrir umrenningum en sér svo ekki fram á annað en setja börnin sín út á götu til að geta haldið áfram að framfleyta umrenningunum. Þetta dæmi er kannski fjarstæðukennt í þínum augum en er það ekki líka frekar fjarstæðukennt að setja ákveðin málaflokk eins og mannúðarstefnu í forgang og þykjast ætla að bjarga heiminum þegar það bitnar þannig á samfélaginu að innfæddir búa afskiptir á götunni?

Ég vil líka leiðrétta þig varðandi fullyrðingu þína um það að ég geri lítið úr lekamálinu og ýti þeim möguleika að ráðherra hafi brotið af sér í starfi. Það er hægt að fara yfir fréttasöfnin sem ég vísaði til og gúggla umfjöllunarefnið til að færa sönnur á það að þeir sem hafa haft hæst um þetta mál eru langflestir flokksbundir eða yfirlýstir stuðningsmenn þeirra afla sem réðu ríkjum á síðasta kjörtímabili.

Ég benti þess vegna á þá staðreynd að málið ber lit af því að frá upphafi hafi ætlunin verið sú að koma höggi á Hönnu Birnu. Ég tek það hins vegar fram í færslunni að:

„Hér er ekki rúm til að fjalla á þann hátt um „lekamálið“ svokallaða að öllum þáttum þess verði gerð fullnægjandi skil. Þar af leiðandi verður látið nægja að vísa í fréttasöfn DV og mbl.is um þetta mál.“

Með þessu var ætlunin að fjalla ekki frekar um þetta pólitískt eldfima mál heldur bíða þess að frekari sönnunargögn kæmu fram í málinu sem sýna fram á það að Hanna Birna hafi brotið af sér í starfi. Eins og er þá hefur málflutningurinn um þetta mál verið með þeim hætti að ég hef ekki treyst mér til að taka afstöðu til þess þáttar málsins.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.4.2014 kl. 05:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband