Ræða flutt á útifundi Orkunnar okkar

Við vorum fjögur sem fluttum erindi á útifundi Orkunnar okkar sem haldinn var í góða veðrinu á Austurvelli laugardaginn 1. júní.

2019-06-02_0013

Hér að ofan eru framsögumennirnir allir saman á einni mynd en hér að neðan er ræðan sem ég flutti.

><>  ><>   ><>   ><>

Meðvituðu áheyrendur

Ég fagna því að þið skulið gefa ykkur tíma frá nýhöfnu sumri til að koma hingað á Austurvöll til að standa með sjálfstæðri framtíð lands og þjóðar, ósnortinni náttúru landsins og áskorun Orkunnar okkar til þingmanna um að hafna orkupökkum sem ógna framantöldu.

Ástæðurnar fyrir því að ég er á móti orkupakkanum sem bíður afgreiðslu á Alþingir eru þær að:

  • Ég vil ekki hærri rafmagnsreikning
  • Ég vil að orkukerfið verði áfram í sameign þjóðarinnar
  • Ég vil að íslenska þjóðin ráði sinni orku sjálf
  • Ég vil að vel sé farið með orkuauðlindir landsins

Þó öðru sé haldið fram þá vitum við sem hér stöndum að innleiðing 3. orkupakkans mun fyrr eða síðar leiða til hærra raforkuverðs. Við vitum það af reynslunni af innleiðingu fyrri orkupakka og svo skiljum við alveg hvað felst í orðunum „neytendavernd“. Við skiljum það vegna þess að við höfum reynsluna frá öðrum þjónustuþáttum sem hafa verið einkavæddir undir sambærilegum formerkjum.

Við vitum að með meiri yfirbyggingu, fleiri milliliðum og kostnaðarsömum framkvæmdum í orkugeiranum, eins og til dæmis með lagningu sæstrengs, verður til meiri kostnaður. Við vitum að þessum kostnaði verður velt yfir á okkur neytendur.

Stjórnmálamennirnir sem þvinguðu orkupakka 2 í gegn þóttust koma af fjöllum þegar raforkuverðið hækkaði í kjölfar innleiðingarinnar en þeir tóku enga ábyrgð (sjá frétt á visir.is frá 2005), heldur skýldu sér á bak við nýinnleiddar reglugerðir Evrópusambandsins.

Það er orðin viðtekin venja að sjórnvöld og opinberar stofnanir skáki í skjóli reglugerða sambandsins sem hafa verið innleiddar án okkar vitundar. Þannig hefur Alþingi orðið að stimpilstofnun fyrir ESB-reglugerðir sem engin ástæða þykir að kynna fyrir kjósendum hvað þá að okkur sé gefinn kostur á að hafa skoðanir á þeim.

Þannig hefði líka farið með orkupakka 3 hefði ekki verið fyrir samtökin Orkan okkar og svo þingflokkana sem hafa tekið afstöðu gegn orkupakkanum. Þar munar mestu um þingmenn Miðflokksins sem hafa nýtt nótt sem dag til að setja sig inn í afleiðingarnar af innleiðingunni.

Margir hafa notið góðs af og þó nokkrir hafa haft á orði að umræða þingmannanna hafi verið svo upplýsandi að það hafi bætt upp kynningarleysi málsins fram að því - sem hefð er orðin fyrir að kalla málþóf.

Það dapurlega er að í stað þess að fjölmiðlar hafi gert sér mat úr því sem umræðan hefur dregið fram í dagsljósið síðustu þrjár vikur hafa þeir, sem hafa stundum verið nefndir fjórða valdið, nær eingöngu rætt við forseta Alþingis og aðra fylgjendur pakkans sem hafa gjarnan nýtt tækifærið til að hæða og gera lítið úr andófinu og þeim sem eru á móti innleiðingu orkupakkans.

Við höfum verið kölluð „einangrunarsinnar", „sviðsljóssfíklar“ og „hetjur lyklaborðsins“. Það hefur farið minna fyrir haldbærum rökum sem mæla með innleiðingu pakkans enda ljóst að uppnefni, af því tagi sem ég hafði eftir hér á undan, eru upphrópanir rökþrota málsvara.

Flest bendir til þess að glíman sem við háum sé fyrst og fremst við það vald sem ég vil nefna peningavaldið og mætti þess vegna kalla fimmta valdið. Við vitum það að það voru þessi sömu öfl sem ollu efnahagshruninu. Forsendunrnar voru einkavæðing bankanna og ákvæði í EES-samningnum um frjálst flæði fjármagns.

Í kjölfarið kölluðu mörg okkar, sem risum upp þá, eftir uppgjöri. Meðal annars innan stjórnmálaflokkanna vegna þess að við þóttumst sjá og skynja að peningavaldið réði meiru um gjörðir stjórnmálaflokkanna en góðu hófi gegndi og ylli þar með umtalsverðum lýðræðishalla.

Nú erum við hér aftur, rúmum tíu árum eftir hrun, og horfum upp á að sú gjá sem við upplifðum að hefði skapast á milli þings og þjóðar í aðdraganda og eftirmálum hrunsins er í meginatriðum orðin að hyldýpi.

Í stað þess að stjórnmálamennirnir lærðu af hruninu og byggðu brýr yfir til kjósenda er ekki að sjá annað en þeir hafi byggt skjaldborgir í kringum sjálfa sig og peningavaldið sem stjórnast af svo botnlausri gróðahyggju að nú eru fulltrúar þess tilbúnir til að fórna sjálfstæði íslensku þjóðarinnar fyrir markaðsvæðingu orkunnar.

Orkuútrásin væri eflaust hafin ef það væri ekki fyrir viðspyrnu okkar og eina stjórnmálaflokksins inni á þingi sem setti vilja meirihluta þjóðarinnar á oddinn og gaf sig á vald upplýsandi umræðum um orkupakkana undir harðræði forseta Alþingis.

Þeir þingflokkar sem vilja samþykkja orkupakkann hafa ekkert haft fyrir því að kynna þessar breyttu áherslur sínar í orkumálum, hvorki fyrir kjósendum né almennum flokksmönnum, heldur fela þeim að setja saman yfirlýsingar um stefnur eins og í orkumálunum.

Tveir ríkisstjórnarflokkanna þverbrjóta nú slíkar samþykktir. Sá þriðji gengur ekki aðeins gegn kosningaloforðum og stefnuskrá heldur einnig heiti stjórnmálaflokksins. Allir þrír skáka í því skálkaskjóli að Alþingi sé ekkert annað en stimpilstofnun Evrópusambandsins.

Ég spyr á móti: Er Ísland þá ekki lengur lýðræðisríki?

Ég minni á að: Íslenska þjóðin hefur sýnt það áður að henni er vel treystandi til að taka réttar ákvarðanir í erfiðum málum. Það valdaframsal sem orkupakkarnir fela í sér þjónar hvorki landi okkar né þjóð og þess vegna segjum við óhikað, NEI. Lágmarkskrafan er sú að málinu verði frestað til næsta hausts!

Það er mín skoðun, og ég veit að ég deili henni með fleirum, að orkupakkamálið sé vel til þess fallið að þjóðin sé spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar svo til að bæta því við að ég skil hvorki forsjárhyggju Evrópusambandsins né þá sem finnst það nútímalegt og framsækið að fórna bæði sjálfstæði þjóðarinnar og íslenska lýðræðinu fyrir miðaldarlegt lénsskipulag Evrópusambandsins í orkumálum.

Ég sé ekki vænleika framtíðarinnar í amtmönnum, lénsherrum né landsreglurum sem þjóna peningavaldinu en ógna lífskjörum og velferð almennings. Ég sé hins vegar framtíð í því að við skipum okkur sérstöðu og ráðum okkar orku sjálf. Til þess þurfum við að koma í veg fyrir útrás peningavaldsins með orkuauðlindirnar.

Það er algerlega óvíst hvað „ frestun málsins um óákveðinn tíma“ er langur tími en við skulum nýta hann vel. Fræðumst og fræðum. Spyrjum og svörum. En umfram allt verum gagnrýnin og látum ekki fjórða eða fimmta valdið brjóta okkur niður.

Síðast en ekki síst skulum við halda áfram að trúa á landið okkar og okkur sjálf og gera ósjálfstæðum stjórnmálaflokkum það skiljanlegt að þeirra tími er liðinn ef fulltrúar þeirra hlusta ekki á vilja meirihluta þjóðarinnar og forða okkur frá lénsveldismiðaðri stjórn peningavaldsins í hérlendum orkumálum.

Höldum áfram að standa þétt saman í viðspyrnunni gegn orkupökkum.


Gullfiskar eða sauðfé?

Ég skrifaði eftirfarandi athugasemd við þessa frétt inni á Vísi. Fréttin heitir „Mögulega stærstu mótmæli Íslandssögunnar“.

                                              ***************

Þann 4. október haustið 2010 voru fyrstu tunnumótmælin haldin á Austurvelli. Völlurinn og öll sund umhverfis hann voru pökkuð af fólki. Öll bílastæði umhverfis miðborgina voru yfirfull og umferðaröngþveiti í nærliggjandi götum. Þeir sem sáu yfir miðbæinn töluðu um endalaust mannhaf hvert sem litið var á og umhverfis Austurvöllinn.



Framan af síðasta kjörtímabili var ekkert “smart“ að mótmæla þó þá sæti stjórn sem sveik flest sín loforð. Af sanngirnisástæðum skal það tekið fram að Vinstri grænir gengu þó mun lengra í því að svíkja sín kosningaloforð en Samfylkingin.

En áfram um tunnumótmælin
4. október haustið 2010 af því að það var altalað á þeim tíma að mannfjöldinn var talaður umtalsvert niður af lögregluyfirvöldum, fjölmiðlum og þeirri fjármálaklíku sem stýrir samfélaginu á bak við tjöldin. Þessir sömu, svo og nytsömu og stundum saklausu verkfærin þeirra, orga nú um lífsnauðsynleg tilefni núverandi mótmæla og nauðsyn nýrra kosninga.

Haustið 2010 orguðu þessir um dauða og djöful tunnumótmælanna sem var haldið fram að væri stýrt af Sjálfstæðisflokknum. Enginn spyr um það hvaða fjármálaöfl eða pólitíska forréttindastétt stýrir núverandi mótmælum. Ég hef a.m.k. ekki séð háværar raddir um ágiskanir þó þær ættu að blasa við.

Þegar dans bæði samfélagsmiðlanna og gamalgrónari miðla er skoðaður þá finnst mér eðlilegt að fólk spyrji sig af hverju ætli það sé sem það er látið sem sambærilega stór mótmæli hafi aldrei farið fram? Annað sem mér finnst ástæða til að fólk velti fyrir sér er hvort það telji virkilega að við værum eitthvað betur stödd með stjórnina sem kom í veg fyrir það að uppgjörið sem hún lofaði færi fram og lagði grunninn að því niðurrifi sem við höfum haldið áfram að upplifa á þessu kjörtímabili.

Mér finnst sjálfsagt að það verði tekið til í núverandi ríkisstjórn en mér finnst líka sjálfsagt að það verði tekið til í stjórnmálunum almennt eins og Rannsóknarskýrslan, sem var hundsuð af síðustu ríkisstjórn, leiddi svo skýrt og greinilega í ljós. Mér finnst það reyndar mikilvægara að fólk horfist í augu við þá staðreynd en en að það rifji upp mótmælin gegn Jóhönnustjórninni þann 4. október 2010.

4.okt4.okt1

Es: Þeir sem hafa áhuga á því geta gert það hér:http://raksig.blog.is/blog/raksig/entry/1116202/


mbl.is „Bless, bless“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan á Eyjunni

Í fréttum helgarinnar hefur m.a. verið minnt á það að núverandi ríkisstjórn varð tveggja ára sl. föstudag. Af því tilefni hefur eyjan.is birt “drottningarviðtöl“ við þrjá formenn stjórnarandstöðuflokkanna og einn helsta talsmann evrópusambandsaðildarinnar.

Stjórnarandstaðan á Eyjunni

Það vekur e.t.v. athygli að hér vantar formann Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason, en það er ekki útilokað að það eigi eftir að birtast áður en hvítasunnuhelgin er úti. Það er margt athyglisvert við umrædd viðtöl en svo er líka annað ákaflega grátbroslegt.

Eitt er það hvað þau eru öll lík enda virðist útgangspunktur þeirra vera nokkuð sá sami. Formenn stjórnarandstöðunnar eru beðnir um að meta stjórnarsamstarfið, lýsa formönnum ríkisstjórnarflokkanna og spurðir um það hvort þeir geti hugsað sér að verða forsætisráðherrar.

Miðað við það sem hefur verið haldið á lofti að undanförnu þarf það að ekki að koma á óvart að stjórnarandstöðuformennirnir þrír kjósa að ala enn frekar á því viðhorfi að Framsóknarflokkurinn sé vandamálið í íslenskri pólitík. Þó aðallega fyrir það að Sigmundur Davíð sé ómögulegur í samskiptum. Hins vegar er Bjarni Benediktsson orðinn hugljúfi stjórnarandstöðunnar.

Viðhorfin sem koma fram virðast þó nokkuð ráðast af spurningum blaðamannsins sem spyr m.a: „Eigið þið í vandræðum með að nálgast hann [Sigmund Davíð]? og „Hvað með Bjarna Benediktsson, er auðveldara að eiga í samskiptum við hann?“ (sjá hér) Svörin eru auðvitað í stíl við spurningarnar.

Birgitta Jónsdóttir segir: „Ég held að Bjarni [sé] nú mun betri. Það er auðveldara að tala við Bjarna.“ (sjá hér) og Katrín Jakobsdóttir: „Bjarni er auðvitað duglegri að mæta hér í þingið, duglegri að taka sérstakar umræður. Einkum hvað varðar sérstöku umræðurnar, ég held að Sigmundur sé búinn að taka tvær í vetur.“ (sjá hér)

Þegar Guðmundur Steingrímsson er spurður hvort það sé erfitt að nálgast Sigmund Davíð svarar hann: „Ég held að það eigi það nú flestir. Það er greinilegt að stjórnunarstíllinn er ekki þessi samráðs- og samtalsstíll. Það er mjög leiðinlegt að sjá hvað honum finnst þingið lítið mikilvægt og ber litla virðingu fyrir því.“ (sjá hér)

Stjórnarandstaðan
Þau Katrín, Guðmundur og Birgitta eru líka mjög samstíga í svörum sínum um það hvort þau hafi áhuga á því að mynda breiðfylkingu þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu og hver yrðu þeirra helstu áherslumál í slíku samstarfi. Af svari Guðmundar Steingrímssonar verður ekki annað ráðið en þegar sé búið að setja saman nýja ríkisstjórn þar sem hann segir: „Við tökum væntanlega bara upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið þegar ný ríkisstjórn tekur við.“ (sjá hér)

Hvorki Katrín né Birgitta eru jafnafdráttarlausar í sínum tilsvörum. Þó er það greinilegt á svörum þeirra að þær eru á sömu línu og Guðmundur. Birgitta talar um kosningabandalag um „nýja stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB“. (sjá hér) Katrín fer eins og köttur í kringum heitan graut en samstarf hennar með formönnum evrópusambandssinnuðu flokkanna tekur af allan vafa um það hvar hún stendur í reynd.

Það sem hún lætur hafa eftir sér um „evrópumálin“ í viðtalinu er ekki bara loðið og teygjanlegt heldur er þar sumt beinlínis rangt eða í besta falli svo mikil einföldun að það jaðrar við ósannindi. Hún segir:

Eitt erfiðasta mál sem VG hefur staðið frammi fyrir er afstaðan um aðild að Evrópusambandinu. Það mál klauf flokkinn í tvennt á síðasta kjörtímabili þegar sú ríkisstjórn sem flokkurinn átti aðild að lagði inn umsókn, þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu við inngöngu. Það varð til þess að bæði þingmenn og aðrir áhrifamenn í flokknum gengu á dyr. (sjá hér) 

Það er rétt að minnast þess að Katrín Jakobsdóttir var ekki bara varaformaður í flokknum þegar þetta gekk á heldur var hún líka ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem tók hverja ákvörðunina á fætur annarri sem urðu til þess að kjósendur, flokksfélagar og þingmenn sneru við honum baki. Það er mjög mikil einföldun að halda því fram að þetta hafi allt stafað af afstöðunni til evrópusambandsaðildar.

Katrín Jakobsdóttir og þingmennirnir sem hún hirti ekki um að haldaKveðja núverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs til þeirra sem standa pólitískt munaðarlausir er bæði hæðin og köld. Hún tekur líka af allan vafa um að hún ætlar ekki að taka neina ábyrgð á því að hún og Steingrímur J. Sigfússon hafi stýrt flokknum til þess að verða ekki annað en skugginn af Samfylkingunni.

„Það er alveg rétt að það hefur fólk yfirgefið hreyfinguna af því að þeir hafa bara metið þetta mál svo mikið grundvallarmál að þeir hafa ekki verið reiðubúnir að opna á þessa lýðræðisleið í málinu. Þó eru þeir hinir miklu fleiri og ég get bara sagt það að það hefur ekki fækkað félögum hjá okkur. Þótt einhverjir hafa farið þá hafa aðrir komið í staðinn.“ (sjá hér (feitletrun er blogghöfundar)

Þegar það er rifjað upp hversu margir þingmenn hurfu frá þingflokki Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili þá er það í hæsta máta sérkennilegt, að þáverandi varaformanni og núverandi formanni flokksins, skuli finnast fimm þingmenn eðlilegur fórnarkostnaður fyrir þá óheiðarlegu stefnu sem hún heldur á lofti í Evrópusambandsmálinu.

Tveggja ára afmæli síðustu ríkisstjórnar

Hér þykir svo vera tilefni til að rifja upp hvaða aðstæður ríktu á stjórnarheimilinu þegar síðasta ríkisstjórn náði tveggja ára aldrinum en það var vorið 2011. Þann 21. mars sögðu Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sig frá þingflokki Vinstri grænna. Ástæðan er ekki ein heldur margar. Meðal þeirra sem þau nefna eru: „Efnahagsstefnan, fjárlögin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Icesave, ESB, Magma og skuldavandi heimilanna.“ (sjá hér

Eins og kemur fram í þessari upptalningu er langt frá því að afstaðan um aðild að Evrópusambandinu“ hafi verið einhver meginástæða en um það mál segja Atli og Lilja:

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sagt að virða skuli ólíkar áherslur hvors flokks um sig gagnvart aðild að ESB og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu. Þetta málfrelsi um ESB virðist þó þeim einum ætlað sem hlynntir eru inngöngu eða sigla undir því flaggi að það sé lýðræðislegt að hefja aðlögun að ESB áður en þjóðin hefur sagt hvort hún yfirhöfuð vilji ganga þar inn.

Umsóknin er í öngstræti og sannleikanum um aðlögunarferlið er haldið frá þjóðinni. ESB mun aldrei samþykkja kröfur, skilyrði og forsendur Alþingis fyrir umsókninni. Á meðan gríðarmiklu fjármagni, tíma og kröftum er beint í þetta ólýðræðislega ferli og litið á það sem ógn við ríkisstjórnina að ræða opinskátt um það. (sjá hér)

Það fer vart framhjá neinum að upptalningin hér ofar snýr miklu fremur að efnahagsmálum en Evrópusambandsmálinu. Þegar Ásmundur Einar Daðason sagði sig úr þingflokknum var það í kjölfar vantraustsyfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins á síðustu ríkisstjórn sem var borin upp þ. 14. apríl 2011. Hann nefnir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu [sem] helstu ástæðu þess að hann styddi ekki ríkisstjórnina“ (sjá hér). Hann tiltekur þó líka fleira þó það sé ekki talið hér. 

Úrsögn úr þingflokki Vinstri grænna vorið 2011

Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins var lögð fram 11. apríl 2011. Það var fyrsta þingdag eftir að að önnur þjóðaratkvæðagreiðslan um þriðja Icesavesamning þáverandi ríkisstjórnar hafði farið fram. Atkvæðagreiðslan var knúin fram af grasrótarsamtökum almennings og fór fram laugardaginn 9. apríl þar sem þjóðin hafnaði samningnum.

Það er forvitnilegt að lesa bréf Bjarna Benediktssonar sem hann sendi til flokksmanna Sjálfstæðisflokksins í tilefni vantrauststillögunnar. Bréfið var birt á DV daginn áður en greidd voru atkvæði um vantrauststillögu hans (sjá hér). Vantrauststillagan var felld meðal annars fyrir hjásetu Guðmundar Steingrímssonar og dreifða afstöðu Hreyfingarinnar (sjá hér).

Einhvers konar yfirlýsing um stuðning þessara og Eyglóar Harðardóttur við ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna má svo heita tveggja ára afmælisgjöf ofantalinna til fyrrverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Fyrri ríkisstjórn og þeir sem vörðu hana falli hirtu ekkert um það að skömmu fyrir afmælið höfðu þrír af öflugustu þingmönnum annars ríkisstjórnarflokksins yfirgefið þingflokk hans vegna kosningasvika og framkomu flokksforystunnar við þá sem vildu standa við yfirlýsta stefnu flokksins. 

Þessi hirtu ekkert um það heldur að þjóðin hafði komið því afdráttarlaust á framfæri í tvígang að hún tæki það ekki í mál að borga ofurskuldir gerenda hrunsins. Fæstir treystu sér þó til að ganga svo langt að fara fram á nýjar kosningar því þeir voru fáir sem gátu hugsað sér að fá Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Þegar kom að alþingiskosningum vorið 2013 var þó afgerandi meiri hluti kjósenda búinn að missa alla trú á þeim flokkum sem höfðu séð til þess að ríkisstjórnin hjarði kjörtímabilið.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er vert að rifja það upp að á tveggja ára afmæli þeirrar ríkisstjórnar, sem núverandi stjórnarandstöðuflokkar áttu allir einhvers konar þátt í að halda á lífi, voru síst færri blikur á lofti. Blikur sem svo sannarlega hefðu átt að gefa fjölmiðlum tilefni til að taka púlsinn á stöðu mála á stjórnarheimilinu þá. Ef einhver man eftir slíkri yfirferð í kringum 10. maí 2011 væri kærkomið að fá ábendingar um það.

Borgaður til heyrnarleysis, blindu og málleysis

Ég minnist þess ekki að það hafi verið gert. Hins vegar man ég hversu oft mér blöskraði það hversu lítið fór fyrir gagnrýninni umræðu þrátt fyrir allt það sem fram fór. Ég man aldrei eftir því að Eiríkur Bergmann eða annar stjórnmálafræðingur hafi farið yfir málefnastöðu fyrrverandi ríkisstjórnar. Hins vegar man ég bæði eftir honum og öðrum þar sem þeir réttlættu gjörðir hennar.

Þar af leiðandi var ekki hægt að búast við öðru en að viðhorf Eiríks til núverandi stjórnvalda væri síst hlutdrægari en þó á hinn veginn. Þetta kemur fram strax í upphafi viðtalsins þar sem hann segir: „Vantraustið á valdstjórninni er alvarlegt. Og varla viðunandi. En fá teikn á lofti um að til stjórnarskipta komi fyrir lok tímabilsins.“ (sjá hér

Til að kóróna verkið kallar eyjan.is þá sem sáu ekkert, heyrðu ekkert og gerðu ekkert á síðasta kjörtímabili í drottningarviðtöl. Þeim er stillt upp eins og líklegustu bjargvættum kjósenda undan ríkisstjórn sem hefur þrátt fyrir allt ekki náð að svíkja kjósendur jafnillilega síðastliðin tvö ár eins og sú síðasta hafði náð á tímabilinu 2009-2011.

Jákvæðir forsætisráðherrar

En það er ekki bara eyjan.is sem hefur kallað til stjórnmálafræðing vegna tveggja ára stjórnarafmælis stjórnarflokkanna. dv.is hefur fengið stjórnmálafræðinginn Stefaníu Óskarsdóttur til að rýna ofan í sálarástand Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hún viðrar þá skoðun sína að stjórnmálamaðurinn Sigmundur Davíð „ætti að láta öðrum eftir að greina fjölmiðlaumæðu“. (sjá hér)

Tilefni þessa virðist m.a. það að: „Sigmundur hefur rætt mjög um neikvæða umræðu um störf ríkisstjórnarinnar og sagt skort á bjartsýni einkennandi. „Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi.“ sagði hann í viðtali við Eyjuna á föstudag.“(líka hér)

Það er sannarlega skrýtið að kalla til stjórnmálafræðing til að lesa ofan í ályktun af þessu tagi. Það verður kannski sínu undarlegra þegar það er haft í huga að forveri hans í starfi, og sennilega enn aðrir þar á undan, var sömu skoðunar þó að hann færði hana í tal með svolítið öðrum orðum. Það gerir kannski gæfumuninn?

Jóhanna Sigurðardóttir afhendir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni lyklavöldin

2. nóvember haustið 2010 var Jóhanna Sigurðardóttir beðin að bregðast við lækkandi fylgi Samfylkingarinnar auk mikillar og óvenjuháværrar mótmælahrinu. Svar hennar var að hún hefði „meiri áhyggjur af miklum stuðningi við mótmælaaðgerðir enda vinni þjóðin sig ekki úr kreppunni nema með jákvæðu hugarfari.“ (sjá hér)

Þetta var haustið sem Tunnurnar mættu á Austurvöll eftir að í ljós var komið að ríkisstjórnin ákvað að misnota loforðið um uppgjörið, sem kallað hafði verið eftir, til að niðurlægja Sjálfstæðisflokkinn en hlífa “sínum mönnum“. Þetta háttarlag þótti skipuleggjendum sýna að flokkspólitíkin ætlaði sér ekkert að læra af hruninu.

Krafan var utanþingsstjórn og var settur af stað undirskriftarlisti til að fylgja henni eftir. Af svari Jóhönnu má draga þá ályktun að Jóhanna hafi ímyndað sér að samasemmerki væri á milli fylgisins við mótmælin og fjöldans sem skrifaði undir til að krefjast utanþingsstjórnarinnar.

Það varð öðru nær enda ýmsir sótraftar ræstir út til að koma utanþingshugmyndinni lóðbeint ofan í gröfina en undirskriftarsöfnunin þöguð í hel. Hún fékk því enga opinbera umfjöllun hvorki af þáverandi stjórnarandstöðu né í fjölmiðlun. Þessi orð Jóhönnu Sigurðardóttur nutu heldur engrar sérstakrar athygli:   

Ég hef satt að segja miklu meiri áhyggjur af því sem kom fram í könnuninni að 73 prósent séu hlynnt mótmælaaðgerðum. Af því ber okkur öllum að hafa áhyggjur, því ef við ætlum að vinna okkur út úr þessari kreppu þá gerum við það ekki nema með jákvæðu hugarfari. Neikvæð orka drepur allt niður ef menn eru í þeim stellingum, að því er varðar mótmælin. Við eigum að reyna að sýna samstöðu til þess að reyna að vinna okkur út úr vandanum (líka hér)

Eins og lesendur taka eflaust eftir þá eru þetta nánast sömu orð og Sigmundur viðhefur nú: „ef menn eru glaðir og bjartsýnir, og eru það af því að menn hafa tilefni til eins og við höfum, þá geta þeir haldið áfram að þróa samfélagið í rétta átt. En hitt leiðir til öfugþróunar.“ (sjá hér)

Af einhverjum ástæðum hafa þau samt sett afar háværan minnihluta svo út af laginu að einn þeirra miðla, sem hafa staðið dyggilega í að næra hópinn, fær til sín stjórnmálafræðing sem er settur í hlutverk ráðgefandi sálfræðings og sem slíkur kemur hann þeim skilaboðum til stjórnmálamannsins að hann hafi ekkert í fjölmiðlagreiningu... Man einhver eftir sambærilegu haustið 2010 í kjölfar fyrrgreindra orða Jóhönnu?

Málfrelsi í praksís

Þegar allt sem hér hefur verið nefnt er dregið saman er synd að segja annað en fjölmiðlarnir leggja sig alla fram um að næra stjórnmálakreppuna með síst ótrúlegri uppákomum en þeim sem viðgangast inni á þingi. Það er auðvitað líklegra að bæði þjóni sama tilganginum.

Sjá líka þessar nýju greinar inni á eyjan.is:
Stefanía: Vandi að stjórna og enn meiri vandi að stjórna vel 
Bjarni: Íslendingar hafa aldrei áður verið í jafn sterkri stöðu og nú


mbl.is Bjarni: Staðan aldrei sterkari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar blekkingin verður markmið

Fyrir rúmri viku síðan birti ég skrif hér á þessum vettvangi sem ég gaf heitið Pólitískt krabbamein. Þar fjallaði ég um óheiðarleika þeirra sem halda því fram að þjóðin hafi möguleika á að kjósa um inngöngu Íslands í Evrópusambandið að inngönguferlinu loknu. Meðal þeirra sem skrifuðu athugasemdir við þetta blogg eru Snorri Hansson.

Það sem hann skrifar er svo athyglisvert að ég ákvað að gera um það sérstaka færslu. Hér er upphafið:

Snorri Hansson

Forvitni mín var vakin. Ég byrjaði á því að fylgja slóðinni sem Snorri bendir á hér að ofan og fann bæklinginn. Bæklingurinn, sem kom út í júní árið 2011, er bæði stuttur og læsilegur.

Bæklingur um stækkunarferlið

Það er þess vegna eðilegt að spyrja sig af hverju þessi bæklingur var ekki þýddur á íslensku sama ár og hann kom út. Þeir sem eru læsir á ensku geta lesið hann núna á slóðinni sem Snorri vísar á en hún er hér. Það sem hann segir um tilefni þess að bæklingurinn var saminn og gefinn út kemur fram á nokkrum stöðum í bæklingnum:

Tilgangurinn 

En Snorri heldur áfram og vísar í orð hans til rökstuðnings því að stækkunarstjóri ESB hafði tilefni til að „víta Össur Skarphéðinsson fyrir afglöp í starfi við inngönguferli íslands að sambandinu“ (sjá hér).

Snorri Hansson

Í þessu svari setur Snorri hluta textans fram á ensku þannig að það er auðvelt að finna hann í bæklingnum og er ekki annað að sjá að hér sé um ræða góða þýðingu og hárrétta túlkun á því sem segir á bls. 9:

Stækkunarferlið (Það er hægt að klikka á þessa mynd til að stækka hana)

Það er er margt fleira í þessum bæklingi sem væri alveg þess virði að fara nánar út en það er full ástæða til að taka undir orð Snorra Hanssonar þar sem hann segir: „Ég bið fólk um að lesa þetta skjal vandlega ef það hefur minnsta áhuga á hver sannleikurinn er.“ (sjá hér) Ég las bæklinginn alveg aftur á öftustu blaðsíðu og þar rakst ég á slóð sem var mælt með fyrir þá sem vildu vita meira. Hún er hér.

Eitt af því sem hlýtur að vekja athygli í texta bæklingsins sem kemur fram á myndinni hér að ofan er málsgreinin: „The term “negotiation” can be misleading“ (sjá hér). Það hvað liggur á bak við það sem aðildarsinnar hafa viljað þýða sem samningaviðræður í stað aðildarviðræðna er útskýrt hér:

Innlimunarferlið(Þennan texta er að finna hér)

Það er fróðlegt að fylgja slóðinni sem er á öftustu síðu bæklingsins og lesa nánar um það sem sumir hafa viljað kalla samningaviðræður í stað aðildarviðræðna. Af því sem hefur verið birt hér væri kannski miklu nær að kalla þetta ferli innlimunarviðræður. Það er líka forvitnilegt að lesa framhaldið en þar eru fyrst reglurnar og svo „Steps towards joining“. Þar er hvergi minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu í lok innlimunarferlisins.

Aftur á móti segir í upphafi þessara leiðbeininga að skilyrði aðildar séu m.a. þau að hafa jáyrði borgaranna sem kemur fram í samþykki þjóðþingsins eða þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Innlimunarskilyrðin(Þennan texta er að finna hér)

Mér sýnist enginn vafi leika á því að síðasta ríkisstjórn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hafa af þjóðinni þjóðaratkvæðagreiðsluna. Líklegasta skýringin er sú að hún hafi óttast það að þjóðin myndi hafna því að vilja ganga inn í Evrópusambandið. Samkvæmt því sem Vigdís Hauksdóttir heldur fram í nýjustu bloggfærslu sinni voru þau atriði Rammaáætlunarinnar, sem nú er rifist um á Alþingi, notuð sem gjaldmiðill í samskiptum fyrrverandi ríkisstjórnarflokka til að ESB-málið yrði ekki stöðvað (sjá hér).

Miðað við það sem þar kemur fram hefur þetta átt sér stað eftir að aðildarviðræðurnar strönduðu á landbúnaðar- og sjávarútvegsköflunum. Vigdís vitnar beint í dagbókarfærslur Össurar Skarphéðinssonar sem hann gaf út í bókinni, Ár drekans. Í færslu frá 24. mars 2012 segir hann: „Það er á flestra vitorði að ég lít á rammann sem tryggingu fyrir því að VG stöðvi ekki ESB-málið.“ Össur Skarphéðinsson ber væntanlega öðrum fremur meginábyrgð á því pólitíska meini sem, það sem hann kallar, „ESB-málið“ er orðið. 

ESB-draumfarirHins vegar er það alveg ljóst að hvorki Steingrímur J. Sigfússon né Jóhanna Sigurðardóttir eru saklaus. Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson skrifuðu undir það sem mér sýnist megi kalla umsóknarnefnu sumarið 2009 (sjá umsóknina hér). Áður höfðu þau náð fram meiri hluta samþykki á Alþingi með þvingunum sem formenn beggja stjórnarflokka áttu aðild að:

Sagði Ásmund­ur Ein­ar, að dag­inn sem  at­kvæðagreiðslan var í þing­inu um mitt síðasta ár hefði Jó­hanna Sig­urðardótt­ir, for­sæt­is­ráðherra, setið í þing­hús­inu og kallað hvern þing­mann Vinstri grænna á fæt­ur öðrum inn á teppið til sín og sagt þeim, að ef þeir samþykktu til­lögu um svo­nefnda tvö­falda þjóðar­at­kvæðagreiðslu og slík til­laga yrði samþykkt, þá væri fyrsta vinstri­stjórn­in sprung­in. (sjá hér)

Þeir sem kusu Samfylkinguna vorið 2009 gerðu það væntanlega allir vegna draumsins um Evrópusambandið þó það sé óvíst að allir kjósendur flokksins hafi séð það fyrir að aðildarumsókn yrði send af stað án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Íslensku ESB-“hetjurnar“(Myndin er samsett út tveimur verkum Jónasar Viðars (1962-2013))

Hins vegar er það nokkuð víst að þeir sem kusu Vinstri græna sáu kosningasvik Steingríms J. Sigfússonar alls ekki fyrir enda neitaði hann því í þrígang í kosningasjónvarpi Sjónvarpsins kvöldið fyrir kosningar (sjá hér) að það kæmi til „greina að hefja undirbúning að því að sækja um“.

Nokkrum dögum síðar mynduðu Samfylkingin og VG ríkisstjórn og ákváðu strax að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga um það var lögð fram strax í maí. Stjórnarflokkanir höfnuðu tillögu um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var aðildarumsókn send til Brussel. Síðan hófust aðlögunarviðræðurnar. (sjá hér)

Það eru ekki aðeins kjósendur Vinstri grænna sem sneru baki við flokknum, eins og kosningatölurnar sýndu vorið 2013, heldur klofnaði flokkurinn með þeim afleiðingum að fimm þingmenn yfirgáfu hann. Andstaðan við inngöngu í Evrópusambandið var ekki eina ástæðan en hins vegar er útlit fyrir að það sé draumurinn um aðild sem heldur stjórnarandstöðunni svo þétt saman að þó hún telji: Samfylkingu, Vinstri græna, Bjarta framtíð og Pírata þá kemur hún fram sem einn flokkur


Innrömmuð áætlun

Það er sennilegra að það eigi við um þó nokkra að þeir hafi ekki heyrt talað um „rammaáætlun“ fyrr en vorið 2012 en þá var þetta hugtak á hvers manns vörum eins og nú. Hugmyndafræðin sem liggur að baki þessu ferhyrna hugtaki á sér þó töluvert lengri sögu þó orðið sjálft hafi e.t.v. ekki borið á góma fyrr en í kringum árið 1999. 

Þingveturinn 1985-1986 lagði Hjörleifur Guttormsson fram tillögu „um gerð áætlunar um verndun vatnsfalla og jarðhita sem leggja skyldi fyrir þingið“ Þar sem virkjunarhugmyndum, bæði vatnsafli og jarðvarma, yrði raðað „í forgangsröð með hliðsjón af umhverfisáhrifum þeirra.“ (sjá hér)

Tveimur árum síðar fór hann í kynnisferð til Noregs. Í framhaldi hennar lagði hann fram tillögu um áætlun „þar sem kannað yrði annars vegar hagrænt gildi virkjunarhugmynda og hins vegar umhverfisáhrif þeirra og verndargildi virkjanasvæðanna“ Tillagan var „samþykkt vorið 1989 sem ályktun Alþingis og send nýstofnuðu umhverfisráðuneyti 1990.“ (sjá hér)

rammaaaetlun(Klikkaðu endilega á myndina, sem er tekin héðan, ef þú vilt fá hana fram stærri)

Það þarf ekki að koma á óvart að íslenska aðferðafræðin tekur aðeins að nokkru leyti mið að þeirri norsku. Meginmunurinn liggur í því að hér á landi er ekki bara verið að velta fyrir sér vatnsaflsvirkjunum heldur jarðvarmavirkjunum líka. Í Noregi höfðu auk þess verið framkvæmdar umfangsmiklar „líffræðilegar, landfræðilegar og jarðfræðilegar rannsóknir auk áhrifa [vatnsaflsvirkjanna] á samfélagið og atvinnuvegina, svo sem ferðaþjónustu.“ (sjá hér)

Saga íslenska Umhverfis- (og nú) auðlindaráðuneytisins hefur verið rakin þokkalega ýtarlega á þessum vettvangi á öðrum stað (sjá hér). Það hefur komið fram hér að ofan að ráðuneytið var stofnað árið 1990. Á þeim tíma sat Steingrímur Hermannsson yfir sínu þriðja ráðuneyti í fjórflokkastjórn Framsóknar-, Alþýðu- og Borgaraflokks ásamt Alþýðubandalaginu (sjá hér). Tæpu ári eftir að stjórnin tók við völdum var Júlíus Sólnes, þá formaður flokksins, skipaður í embætti fyrsta umhverfisráðherrans hér á landi. 

Í fyrrgreindu bloggi er eitt og annað dregið fram af stuttri sögu þess. Eitt þeirra atriða sem þar er vakin athygli á er:

[...] að frá stofnun þess hafa mismunandi hugmyndir um eignarhald, virkjunarframkvæmdir og verndunarsjónarmið verið mjög í sviðsljósinu. Eftir síðasta kjörtímabil ætti það að vera ljóst að þó stjórnmálamennirnir kunni að takast á um einstaka virkjunarkosti þá telja þeir flestir eðlilegt að leigja aðgang að náttúruauðlindunum og verðleggja hvers konar nýtingu þeirra.(sjá hér)

Í þessum anda hafa veiðigjöld verið sett á fiskinn, vatnsveitur verið seldar til einkafyrirtækis (sjá hér) og aðrar auðlindir verðlagðar (sjá hér). Í þessum anda var Rammaáætlun síðustu ríkisstjórnar sett saman þar sem svonefndir „virkjunarkostir“ voru flokkaðir niður í þrjá mismunandi kosti sem eru eftirfarandi: orkunýtingar-, bið- og verndarflokkur (sjá hér). Sú hugmyndafræði rammaáætlunarinnar að líta á vatnsföllin og jarðvarmann sem peningauppsprettur hefur svo litað nær alla aðra opinbera umræðu um náttúruna.

Ramar mismunandi virkjunarkosta(Þessi mynd er klippt saman af vef Framtíðarlandsins)

Í athugasemdum við þingsályktunartillögu Katrínar Júlíusdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem kallaðist Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða með undirtitilinn Rammaáætlun, segir:

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skal iðnaðarráðherra leggja í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar (sjá hér)

Það kemur fram í orðum Katrínar Júlíusdóttur, hér að ofan og líka í greinargerðinni með stjórnarfrumvarpinu til laga um sama efni, að þeir merkimiðar, sem eru settir á náttúruna undir hattinum „virkjunarkostur“, verða endurmetnir á a.m.k. fjögurra ára fresti. Þar kemur líka fram að endurmatið muni vera unnið út frá verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahags-, umhverfis- og samfélagslegum áhrifum nýtingar (sjá hér).

Þetta orðalag sýnir ágætlega hverjar hugmyndir fulltrúa síðustu ríkisstjórnar eru um þá “virkjunarkosti“ sem þeir deila um nú. Það er ekki að sjá að þær skeri sig í neinum grundvallaratriðum frá viðhorfum núverandi stjórnvalda.

Neðri hluti Þjórsár(Neðri hluti Þjórsár)

Samkvæmt því, sem fulltrúar núverandi stjórnarandstöðu, lögðu til og samþykktu á síðasta kjörtímabili þá eru Þeistareykir, Þjórsá, Markarfljót og Geysir allt virkjunarkostir. Þó þeim hafi verið raðað í þrjá mismunandi flokka þá skildu þeir möguleikann til að breyta henni eftir galopinn. 

Þeir stjórnarandstöðuþingmenn sem beita sér hvað ákafast í málþófinu sem á sér stað á Alþingi núna höfðu svo sannarlega tækifæri til að setja lög til að vissar náttúruperlur stæðu fyrir utan flokkunarramma virkjunarkostanna. Þeir gerðu hins vegar ekkert til að halda þeim þar fyrir utan. Það segir sig einginlega sjálft að sú aðferðarfræði sem var búin til með Rammaáætluninni gefur tilefni til að rífast út í eilífðina um það hvaða verðmiði innan virkjanakostana mali mesta gullið.

Virkjanakostir: Nýtingar- eða biðflokkur(Hagavatn, Hágöngur, Hólmsá og Skrokkalda)

Rifrildið að undanförnu hefur staðið um eftirtalda virkjunarkosti: Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Hágönguvirkjun I og II og Skrokkölduvirkjun auk Hagavatnsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar við Atley (sjá hér). Nú hefur reyndar verið fallið frá hugmyndinni um virkjun Hagavatns, í bili a.m.k. (sjá hér).

Sú sem þetta skrifar viðurkennir að hún hefur aldrei verið virkjunarsinni og á því erfitt með að skilja þá virkjunaráherslu sem henni finnst koma fram í því að setja alla helstu fossa og hveri landsins undir hatt virkjunarkosta. Að mínu mati hefði verið nær að koma sér saman um það að þrátt fyrir að það megi ná einhverjum megavöttum út úr allflestum hérlendum vatnsföllum og jarðhitasvæðum þá er gildi margra náttúrusvæða hafið yfir peningaleg verðmæti. Að ramma þessi svæði inn í áætlun um virkjunarkosti er hins vegar boðin leið til virkjunar þeirra síðar meir.  

Þrætueplin á vorþingi 2015(Tekin af visir.is)

Í kjölfar Rammaáætlunar, síðustu ríkisstjórnar, var lagt fram frumvarp til laga um náttúruvernd sem byggði á þeirri hugmyndafræði sem sett er fram í Rammaáætluninni. Töluverð umræða varð um frumvarpið og töluðu sumir um „frumvarp boða og banna“ (sjá hér). Að endingu voru lögin þó samþykkt en gildistöku þeirra frestað til 1. apríl 2014 (sjá 94. grein hér).

Síðastliðið haust ákvað nýr umhverfis- og auðlindaráðherra að afturkalla lögin sem voru samþykkt rétt fyrir þinglok síðasta kjörtímabils (sjá hér). Gildistöku heildarlaga um náttúrvernd var síðan frestað til 1. júlí n.k. (sjá hér). Fram að þeim tíma stóð til að skoða einstaka þætti laganna betur (sjá hér). Nú stendur hins vegar til að fresta gildistökunni enn frekar eða til 1. janúar 2016. Þetta er gert til að tryggja að frum­varp um nátt­úru­vernd fái full­nægj­andi um­fjöll­un á Alþingi“ (sjá hér).

Það er mjög líklegt að þessar frestanir standi í beinu samhengi við þær verðmiðamerkingar sem hér hafa verið til umræðu. Ég leyfi mér reyndar að efast um að nokkurt náttúruverndarákvæði dugi sem vörn þeirri náttúruperlu sem hefur verið hengt á verðmiðinn „virkjunarkostur“. Það að núverandi stjórnarandstaða eyði nú dögum og vikum í málþóf, náttúrunni til síðborinnar varnar, snýst þar af leiðandi sennilega um eitthvað allt annað en umhverfisvernd. 

Sjá líka:
„Rétt að færa alla átta kostina í nýtingarflokk“ 13. maí 2015 visir.is
Auðlindir landsins 1.800 milljarða virði
 11. apríl 2015 ruv.is
Auðlindir nokkrar milljónir á mann 9. apríl 2015 ruv.is
Efast um lögmæti tillögu um virkjanakosti 29. nóvember 2014 visir.is
Vilja skilgreina auðlindir landsins 6. október 2014 mbl.is
Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun 15. júní 2007 visir.is

Annað forvitnilegt efni:
Nánar um einstaka virkjunarkosti
Lög um verndar- og nýtingaráætlun (Lög nr. 48 16. maí 2011)
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (bloggfærsla höfundar frá 22. febrúar 2014) 


mbl.is „Með hreðjatök á þinginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Felulitaður ásetningur

Einhverjir hafa viljað halda því fram að með bréfi Gunnars Braga Sveinssonar sé möguleg innganga í Evrópusambandið út úr myndinni. Það er því miður ekki svo gott. Væntanlega hafa flestir áttað sig á þessu ekki seinna en með nýjustu yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins (sjá hér).

Bjarni Benediktsson og ESB

Þeir sem hafa rýnt lengst og gleggst í flokkapólitíkina rekur eflaust minni til þess að Bjarni Benediktsson hefur alls ekki verið svo fráhverfur inngöngu í Evrópusambandið heldur þvert á móti mælt með henni. Þetta var í grein sem hann skrifaði ásamt Illuga Gunnarssyni, núverandi menntamálaráðherra, í desember árið 2008 (sjá hér). Á þeim tíma var Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar (sjá hér).

Bjarni og Illugi mæla með ESB

Það er svo nauðsynlegt að skoða það, sem einhverjir kunna að telja stefnubreytingu hjá núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í samhengi við annað sem hefur verið að eiga sér stað á stjórnarheimilinu. Núverandi stjórnarandstaða hefur myndað fylkingu sem sú sem þetta skrifar er sannfærð um að snúist um inngöngu í Evrópusambandið. Ef mark er takandi á skrifum Össurar Skarphéðinssonar eru það einkum tvær konur sem standa í stafni hennar (sjá hér).

Össur Skarphéðinsson hvetur Katrínu Jakobsdóttur og Birgittu áfram

Það er ekki bara Össur sem lætur sig dreyma enda vísar hann hér í það sem Hallgrímur Helgason setti upp á Fésbókarsíðu sinni sem „draumaríkisstjórn“ (sjá hér). Þar er Katrín Jakobsdóttir nefnd sem forsætisráðherra og Birgitta Jónsdóttir sem utanríkisráðherra. Miðað við fylgi Pírata í skoðanakönnunum fannst Gunnari Smára Egilssyni ástæða til að benda á að það væri nær að forsætisráðherraembættið félli þeim í skaut. Birgitta tekur óbeint undir þann draum (sjá hér):

Birgitta Jónsdóttir lætur sig dreyma

Eins og sjá má, bæði í fréttinni sjálfri og í úrklippunni úr henni hér að ofan, þá eru það stjórnarskrárdrög Stjórnlagaráðs sem er helsta baráttumál Birgittu. Þ.e. stjórnarskrárdrögin þar sem segir í 111. grein: „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér). 

Þeir, sem hafa barist og berjast enn fyrir því að ákvæði af þessu tagi verði tekið upp í gildandi Stjórnarskrá með einhverju hætti, neita því jafnan að ástæðan að baki ástríðu þeirra tengist Evrópusambandinu. Að sjálfsögðu mega þeir gera það en um leið þá stimpla þeir sig óheiðarleikanum. Það liggur nefnilega í augum uppi að það sækist enginn eftir því að taka upp heimild, í stjórnarskrá fullvalda þjóðar, til valdasals svona „af því bara“! 

Með grein Bjarna Benediktssonar þá hefur hann fært okkur skýringu á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur helsti “óvinur“ þeirra flokka sem mörgum var tamt að telja til vinstri. Sú samstæða fylking, sem þessir flokkar hafa myndað í núverandi stjórnarandstöðu, hefur þvert á móti snúið blaðinu svo hraustlega við að fulltrúar hennar hafa séð tilefni til að hrósa formanni þess flokks sem þeir kenndu áður alfarið um efnahagshrunið haustið 2008. (Myndin sem er sett hér sem dæmi er tekin héðan)

Stjórnarandstöðufylkingin 
Hinn nýi “óvinur“ er Framsóknarflokkurinn. Aðförin sem stjórnarandstöðufylkingin, og sá háværi minnihluti sem nærist í skjóli hennar, stendur fyrir er svo ofsafengin og lágkúruleg að minnir helst á svæsnustu eineltismál. Þar verður allt að vopni og orðbragðið og aðferðirnar slíkar að það varðar sálarheill þjóðar að þetta fólk horfist í augu við það að það eru stærri og alvarlegri hlutir sem skipta kjósendur meira máli en það hvort þessari “hatursdeild“ takist að sprengja ríkisstjórnina til að hún komist í samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Miðað við það sem Bjarni Benediktsson hefur sett fram er ljóst að hann er tilbúinn til samstarfsins. Hvort þjóðfélagsástandið verður keyrt til sambærilegrar stöðu og Grikkir búa við nú undir forsæti Guðmundar Steingrímssonar, Katrínar Jakobsdóttur eða Birgittu Jónsdóttur skiptir hann væntanlega ekki öllu.

Það skiptir hins vegar máli fyrir lífskjör almennings í landinu að þessi hugmynd verði aldrei að veruleika! Þess vegna er brýnt að kjósendur rýni vel og rækilega í það hvaða ásetningur liggur í þeirri hatursfullu og ruglingslegu umræðu sem hefur verið haldið að þeim alltof, alltof lengi. Svo lengi að sumir hafa hreinlega gefist upp!

ESB býður ekkert nema enn þyngri kjör

Það er tilfinning þeirrar sem þetta skrifar að sá ásetningur varði innlimum landsins í Evrópusambandið meira en nokkuð annað. Innlimum sem gæti m.a. komið sér vel fyrir stjórnmálamenn sem láta sig dreyma um vinnu að þingferli loknum innan stofnana sambandsins. Áherslan varðar þar af leiðandi sérhagsmuni þeirra sjálfra þar sem fyrrverandi þingmönnum hefur gjarnan reynst erfitt að fá vinnu þegar þingferli lýkur.

Innlimunin þjónar þó ekki síður sérhagsmunum kaupsýslumanna og fjármagnseigenda. Það eru ekki aðeins innlendir kaupahéðnar heldur líka erlendir sem gætu t.d. keypt framleiðsluréttinn á mjólk og kjöti ásamt vatnsnýtingar- og veiðiréttindi. Einhverjir prófessorar yrðu væntanlega líka á grænni grein. A.m.k. á meðan þeir héldu uppi áróðri um gæði sambandsins. Hins vegar sjáum við það á örlögum annarra „jaðarríkja“ innan Evrópusambandsins að það mun kreppa enn frekar að lífskjörum almennings með auknu atvinnuleysi og enn meiri fátækt.

Því miður hafa lífskjör margra hópa versnað töluvert hér á landi á síðustu árum og fleiri bæst við sem hafa sáralitla möguleika til að bæta stöðu sína. Þess vegna er það auðvitað með ólíkindum að enginn stjórnmálaflokkur hafi tekið af skarið og sagt það fullum fetum að meginskýringin sé sú að átökin um það hvort við eigum að standa innan eða utan Evrópusambandsins taki bara allan þeirra tíma og orku, þrátt fyrir allt!


mbl.is Þjóðaratkvæði samhliða kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt krabbamein

Það er alveg ljóst að umræðan um inngöngu í Evrópusambandið er miklu eldri en svo að hún hafi orðið til við efnahagshrunið 2008. Þar af leiðandi er það enn furðulegra að a.m.k. tvær síðustu alþingiskosningar og ein forsetakosning hafa í reynd snúist um Evrópusambandið þó afstaðan til inngöngu hafi ekki verið sett á oddinn af öllum aðilum með heiðarlegum hætti.

Væntanlega er það fyrir það að sá háværi minnihluti, sem gerir sér væntingar um að sínum sérhagsmunum verði best borgið með inngöngu í Evrópusambandið, er sér fullmeðvitaður um að mikill meirihluti almennings er á því að ávinningurinn komist ekki í hálfkvisti við það sem mun glatast. Þeir sem skilja hvað felst í hugtakinu fullveldi átta sig nefnilega á því að með innlimum myndi sjálfstæði landsins færast aftur fyrir árið 1944.

Frá 1. maí 2015

Það er ljóst að þeir, sem hafa ánetjast hugmyndinni um valdaafsalið til Evrópusambandsins, hafa lagt í það bæði tíma og peningum að vinna þeirri ætlun sinni að komast þangað inn fylgi. Sumir tala um að með eftirfylgni, ýtni og endalausum áróðri hafi evrópusambandssinnum tekist að leggja undir sig stóran hluta verkalýðshreyfingarinnar og fleiri stofnanir sem láta sig lífskjör og almannahag varða.

Í þessu sambandi hlýtur það að vekja athygli að meðal umsagnaraðila, sem vitnað er til í fréttinni sem þessi færsla er skrifuð við, eru bæði Kennarasamband Íslands og Neytendasamtökin. Væntanlega kemur það hins vegar engum á óvart að Samtök iðnaðarins eiga þessa umsögn um þingsályktunartillögu stjórnarandstöðuflokkanna:

Frjáls og óhindruð viðskipti og aðgang­ur að er­lend­um mörkuðum er lífæð ís­lenskra fyr­ir­tækja. EES-samn­ing­ur­inn skipt­ir þar sköp­um en óvíst er hvort hann einn þjóni hags­mun­um okk­ar til lengri tíma litið. Nauðsyn­legt er að tryggja að fram­hald aðild­ar­viðræðna við ESB verði lagt í dóm þjóðar­inn­ar. [...] Sam­tök iðnaðar­ins [telja] rétt og eðli­legt að fram fari þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald aðild­ar­viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið. (sjá fréttina)

Það er auðvitað gott og blessað að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið en hún getur hvorki snúist um það sem Samtök iðnaðarins leggja til né það sem segir í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar (sjá hér). Á þetta er bent í umsögn Bændasamtaka Íslands:

Þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald viðræðna um aðild Íslands að ESB er [...] inni­halds­laus við nú­ver­andi aðstæður, þ.e. meiri­hluti þjóðar­inn­ar er mót­fall­inn aðild að ESB og eng­in áform eru af þess hálfu um að ljúka viðræðum og taka inn ný ríki á næstu árum. Eina þjóðar­at­kvæðagreiðslan um ESB sem myndi hafa þýðingu und­ir þess­um kring­um­stæðum fæl­ist í því að spyrja þjóðina hvort hún vildi ganga í sam­bandið eða ekki, en fram­an­greind þings­álykt­un­ar­til­laga legg­ur það ekki til. (sjá aftur fréttina)

Sú áhersla sem kemur fram í þingsályktunartillögu formanna stjórnarandstöðuflokkanna svo og umsögnum evrópusinna getur því ekki falið annað í sér en þeir kjósi að ganga fram hjá fyrirvörunum sem voru settir með umsókn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar frá vorinu 2009. Þegar það er haft í huga að aðildarviðræðurnar strönduðu á þessum fyrirvörum fer óheiðarleikinn í orðalagi þingsályktunartillögu þeirra: Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur,Guðmundar Steingrímssonar og Birgittu Jónsdóttur, vart fram hjá nokkrum manni:

Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
 _&#157;&#143; Já.
 _&#157;&#143; Nei.

Meginóheiðarleikinn liggur þó í því að halda því fram að þjóðin geti kosið um inngöngu eftir að inngönguferlinu er lokið með upptöku Lissabonsáttmálans. Þessi óheiðarleiki aðildarsinna er vissulega það sem nærir þá stjórnmálakreppu sem hér ríkir og má því kallast pólitískt krabbamein. Krabbamein sem er hætt við að eigi eftir að grassera sem aldrei fyrr í næstu forseta- og alþingiskosningum með ekki minni aukaverkunum en kjósendur urðu að þola í síðustu sveitarstjórnar-, alþingis- og forsetakosningum.

Að lokum langar mig til að hvetja lesendur til að kynna sér rök þeirra sem eru á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það má gera það á einfaldan og þægilegan hátt með því að hlusta á viðmælendurna í myndbandasyrpunni Þess vegna NEI við ESB


mbl.is Fleiri umsagnir með þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunasamtök fjármálaheimsins

Þeir eru ófáir sem hafa áttað sig á því að í reynd eru það fjármagnseigendur sem hafa enn einu sinni komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir stjórna því sem þeir vilja ráða. Frá heimsstyrjöldinni síðari hafa þeir byggt upp og/eða yfirtekið ýmis konar samtök sem á yfirborðinu var ætlaður annar tilgangur. Þetta á m.a. við um Evrópusambandið sem öllum má vera ljóst að eru hagsmunasamtök fjármagnsins þó öðru sé gjarnan haldið á lofti.

Erpur Eyvindsson, sem hefur listamannsnafnið Blaz Roca, orðar þetta ágætlega þar sem hann segir ESB vera klúbb „gömlu nýlenduherranna“ sem eru búnir að loka sig af innan tollamúra:

Hann bætir því svo við að þar af leiðandi geti þeir sem eru alþjóðasinnaðir aldrei verið fylgjandi Evrópusambandinu. Erna Bjarnadóttir bendir á að sambandið taki fyrst og fremst mið af hagsmunum stóru iðnríkjanna í Mið-Evrópu í reglugerðarverki sínu. Hún segir það líka fráleitt að halda að skipting auðlindanna væri betur komið í höndunum á embættismönnum í Brussel:

Halldóra Hjaltadóttir er formaður Ísafoldar sem er ungliðahreyfing þeirra sem segja NEI við ESB. Hún segir margar ástæður vera fyrir því að hún er á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Í fyrsta lagi tekur hún nokkuð í sama streng og Erna þar sem hún nefnir að Íslendingar myndu tapa stjórn yfir auðlindum landsins. Hún bendir líka á að með inngöngu muni lög Evrópusambandins „trompa“ öll íslensk lög þar með talið sjálfa Stjórnarskrána. Hún dregur það svo fram að ef mið er tekið af núverandi hagvexti þá myndu Íslendingar þurfa „að greiða með sér allt upp í 14 milljarða á ári umfram það sem Ísland fengi frá Evrópusambandinu“.

Gunnlaugur Jónsson er e.t.v. þekktastur í netheimum fyrir grein sína Banani segir meira en 40 orð. Í upphafi viðtalsins tekur hann fram að þær séu margar ástæðurnar fyrir því að hann er á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Sú sem hann gerir grein fyrir hér er sú að það hefur sýnt sig að það er almennt óskynsamlegt að safna of miklu valdi á einn stað. Hætturnar sem liggi í slíku fyrirkomulagi, segir hann að komi m.a. fram í bókinni Leiðin til ánauðar eftir Friedrich von Hayek. Þetta verk kom út árið 1944 en þar bendir höfundur þess á að sagan sýni að þróun af sama tagi og eigi sér nú stað innan Evrópusambandsins sé gjarnan undanfari mjög alvarlegra atburða.

Hann telur það því farsælla að valdið sé í höndum þeirra sem eru nær fólkinu þannig að þeir þurfi frekar að taka afleiðingum gjörða sinna beint eða óbeint.

Að lokum má benda á að það er útlit fyrir að mjög margir séu sammála því að íslenskir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafi farið afar illa með umboðið sem við kjósendur höfum veitt þeim til að fara með málefni samfélagsins. Marga grunar að ein meginástæðan sé sú að þeir hafi hallast til þeirrar niðurstöðu að það þjóni framtíð þeirra í stjórnmálum betur að ganga erinda fjármagnseigenda af, oft og tíðum, yfirgengilegu trygglyndi.

Það er auðvitað alls ekki rétt nema kjósendur haldi áfram að kjósa eftir kosningaloforðum í stað efnda og að þeir kjósi áfram eftir pólitískum flokkslínum í stað þess að krefjast þess að allir flokkar stokki upp verklagið við skipun handhafa æðstu embætta í stjórnsýslu landsins. Þegar saga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð er t.d. ljóst að leiðin til evrópusambandsstýringar landsins er miklu lengri en frá haustinu 2008.

Þó Alþýðuflokkur/Samfylking hafi átt áberandi lengstan tíma í ráðuneytinu þá hafa aðrir flokkar skipað því ráðherra úr sínum röðum en allt kemur fyrir ekki. Skýringin, sem býr að baki þessu, er væntanlega sú að við utanríkisráðherrum taki eitthvað annað vald sem skólar ístöðulausa flokkspólitíkusa til þeirrar utanríkismálastefnu sem hentar hagsmunum þess best. 

Þegar sagan er skoðuð er nefnilega engu líkara en allir stjórnmálaflokkar hafi sammælst um að halda möguleikanum til inngöngu opnum. Spurning hvort það sé ekki einmitt af undanlátssemi við fjármagnseigendur? Almennum kjósendum var haldið nokkuð utan við þessa ætlan lengi framan af (sjá samt hér) en eftir að hún mátti verða öllum ljós hefur þeim hins vegar aldrei verið ætlað alvöru tækifæri til að segja af eða á um það hvort þeim hugnist það að ganga í Evrópusambandið.

Niðurstöður síðustu tveggja alþingiskosninga ættu þó að gefa nokkuð góðar vísbendingar um það að meiri hluti kjósenda telur hag sínum og framtíðarinnar best borgið utan þess. Því miður sviku Vinstri grænir stærstan hluta kjósenda sinna svo alvarlega í þessu efni vorið 2009 að mörg teikn eru á lofti um að flokkurinn muni þurrkast út. Margir þeirra sem kusu núverandi stjórnarflokka eru líka orðnir afar óþreyjufullir eftir því að kosningaloforð þeirra, varðandi aðildarumsókn síðustu ríkisstjórnar, verði efnt með afturköllun.

Ísland er enn meðal umsóknarríkja um innlimun í Evrópusambandið

Það er ekki útlit fyrir að bréfið sem núverandi utanríkisráðherra hefur sent út til að lýsa afstöðu núverandi stjórnvalda til aðildarumsóknarinnar hafi neina þýðingu. Ísland er a.m.k. enn á meðal umsóknarríkja samkvæmt göngum Evrópusambandsins (sjá hér). Það er því hvenær sem er hægt að taka umsóknina upp að nýju, strika út fyrirvarana sem voru settir á síðasta kjörtímabili varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann og innsigla innlimunina!


mbl.is Hið furðulega tungutak fjármálaheimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna NEI við ESB

Samtökin NEI við ESB tóku þá ákvörðun fyrr í mánuðinum að safna saman upptökum á viðtölum við ýmsa aðila í þeim tilgangi að koma málstað þeirra, sem eru á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið, á framfæri. Til verksins voru fengin Rakel Sigurgeirsdóttir og Viðar Freyr Guðmundsson. Bæði unnu að ekki ósvipuðu verkefni vorið 2011 í tengslum við NEI við Icesave.

Viðar Freyr Guðmundsson

Lokið var við upptökur um síðustu helgi en fjögur myndbönd hafa nú þegar verið gerð aðgengileg á You Tube-síðu Heimssýnar. Fleiri eru væntanleg á næstu dögum. Þeir sem koma fram í því sem er búið að birta eru sumir vel þekktir eins og núverandi formaður Heimsýsnar og tveir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna. Auk þeirra kemur fram vinsæll rappari sem segir það litla alþjóðahyggju að vilja loka sig af fyrir heiminum innan tollamúra gömlu nýlenduveldanna.

Viðmælendurnir koma annars úr ýmsum áttum og eru líka á öllum aldri. Allir eiga það þó sameiginlegt að vera andstæðingar Evrópusambandsaðildar. Í viðtölunum draga þessir hvers vegna þeir eru á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Rökin eru margvísleg en margir leggja áherslu á að fullveldið tapist við inngöngu í Evrópusambandið og að forræðið yfir grunnstoðum íslensks efnahagslífs, eins og sjávarútvegi og annarri auðlindanýtingu, flytjist úr landi.

Einhverjir fara líka vandlega ofan í saumana á helstu rökum þeirra, sem tala um að geta ekki tekið afstöðu nema vita hvað verði í svokölluðum „pakka“, sem sumir virðast halda að sé í boði. Þessir benda á að með breyttum inntökuskilyrðum Evrópusambandsins þá sé ekki um neitt pakkatilboð að ræða heldur liggi samningurinn fyrir í Lissabonsáttmálanum sem var undirritaður í lok árs 2007.

Með honum er ekki um neinar varanlegar undanþágur að ræða í veigamiklum málaflokkum. Undanþágurnar sem hafi verið veittar eru aðeins „í smámálum sem skipta Evrópusambandið engu máli í efnahagslegu tilliti“ eins og einn viðmælandinn orðar það. Sem dæmi tekur hann að sambandið veitti „Svíum undanþágu varðandi munntóbak, Dönum vegna sumarhúsa og Möltubúar fá að veiða eitthvað af skrautfiskum áfram.“


mbl.is Umsóknin ekki verið afturkölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrasamanburður: Nefndareynsla II

Þetta verkefni er farið að teygja sig vel á annað ár. Frá upphafi hefur það einkum snúist um að reyna að draga það fram hvað það er sem ræður því hver sest í ráðherrastól hverju sinni. Það eru sjálfsagt margir sem treysta sér til að svara því með jafnvel hita og sleggjudómum og vísa til “almennrar vitneskju“ máli sínu til rökstuðnings. Stundum liggur sannleikskorn í því sem er almannarómur en hann dugar skammt í rökræðum.

Þegar bankarnir hrundu haustið 2008 opinberaðist það fyrir mörgum að eitthvað mikið væri að innan bankanna og einkarekinna endurskoðunarfyrirtækja þeirra. Það þótti líka blasa við að opinberar eftirlitsstofnanir höfðu ekki sinnt hlutverkum sínum við að sinna hagsmunum heildarinnar í stað fjármálastofnana eingöngu. Það sem verra var er að stjórnmálamennirnir gátu ekki verið saklausir heldur!

Alltof margir, sem tóku þátt í kröfugerðinni um uppstokkun,virtust loka augunum algjörlega fyrir því að Samfylkingin var í þeirri stjórn sem tók þátt í því að kjafta þá staðreynd í hel að hrunið átti sér aðdraganda. Þó nokkrir tóku svo þátt í því að styrkja hana aftur til valda vorið 2009. Margir kjósenda virtust sættast á að ný stjórn annars hrunflokkanna í bandalagi við VG væri svarið við þeirri uppstokkun sem byltingaraddirnar sem vöknuðu í kjölfar hrunsins, höfðu kallað eftir.

Hins vegar kom það berlega í ljós í síðustu alþingiskosningum að mjög margir kjósendur voru alls ekki sáttir við það hvernig sú stjórn spilaði úr spilum sínum. Fylgjendur síðustu ríkisstjórnar hafa margir neitað að horfast í augu við það að verk svokallaðrar „velferðarstjórnar“ var langt frá því að vera í takt við uppstokkun eða framfarir í stjórnarháttum og/eða aukið lýðræði ásamt því sem fulltrúar hennar sviku öll kosningaloforð um aukinn jöfnuð. Þessir fóru mikinn í aðdraganda síðustu kosninga og fara enn í gagnrýni á stefnu og efndir núverandi stjórnmálaflokka.

Doris Lessing

Að nokkru leyti voru það þessar ástæður sem urðu til þess að farið var af stað með þetta bloggverkefni. Sú sem heldur úti þessu bloggi sér sem sagt ekki allan muninn á þeim flokkum sem voru stundum settir saman undir einn hatt á síðasta kjörtímabili og kallaðir: fjórflokkurinn. Spurningar vöknuðu sem leiddu m.a. til þess ásetnings að finna það út hvort það sé einhver raunverulegur munur á; annars vegar bakgrunni ráðherra þessarar og síðustu ríkisstjórnar og svo þeim forsendum, sem bakgrunnur þeirra gefur tilefni til að álykta, að liggi að baki skipun þeirra til embættis.

Eins og þeir sem hafa lesið fyrri færslur eru væntanlega búnir að átta sig á þá þykir það orðið ljóst að munurinn er lítill sem enginn. Reyndar er meðalaldur (sjá hér) þeirra sem sitja á ráðherrastóli nú og svo þingreynslualdur (sjá hér) nokkru lægri en þeirra sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili. Að öðru leyti er ekki annað að sjá en formenn þeirra stjórnmálaflokka sem taka þátt í ríkistjórn nú og þeirrar á undan hafi farið eftir afar áþekkri formúlu við skipun ráðherranna.

Formúlan sem um ræðir varð ekki til vorið 2009 heldur virðist hún hafa verið í mótun frá tíma heimastjórnarinnar. Hún byggir á hefð sem tekur harla lítið mið af faglegum þáttum. Miðað við það sem hefur verið dregið fram hér er ekki annað að sjá en hún byggi helst á einhverju, sem e.t.v. mætti kalla, flokkspólitísku metorða- og valdakapphlaupi.

Í því ljósi er það alls ekkert skrýtið að efnahagur landsins hafi ratað í hrun sem leiddi til kreppu. Langdreginnar efnahagskreppu sem hefur haft þær afleiðingar að bæði stjórnmálin og samfélagið, sem stjórnmálaflokkarnir hafa gefið sig út fyrir að þjóna, eru stödd í slíkri úlfakreppu að við upplifun hana öll án þess rata út úr henni.

Hér er meiningin að halda áfram þaðan sem frá var horfið í síðustu færslu. Áherslan í þessum miðjuhluta, þar sem fjallað er um þingnefndir Alþingis, er að draga fram nokkra þeirra athyglisverðustu þátta sem urðu út undan í þeirri síðustu. Auk þessa verður litið aftur í tímann og byggt frekar undir það, sem var haldið fram í síðustu færslu, þ.e. að í augum stjórnmálamanna á framabraut þá þykir utanríkismála- og fjárlaganefndin mikilvægari en aðrar nefndir til að komast áfram innan þess valdastrúktúrs á Alþingi sem flokkspólitíkin hefur mótað og viðhaldið hingað til.

Athyglisverðast

Síðasta færsla snerist aðallega um að draga fram staðreyndir miðað við ferilskrár þeirra sem gegna ráðherraembættum á núverandi kjörtímabili og hinna sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili. Úrvinnslan á þessu efni var hins vegar látin bíða annarar færslu sem birtist hér.

Eitt af því markverðasta sem kom fram þar er að Össur Skarphéðinsson, sem kom inn á þing sama ár og Alþingi var breytt í eina málstofu, hefur átt sæti í öllum núverandi fastanefndum þingsins. Hann sat almennt í þremur fastanefndum á sama tíma en var yfirleitt ekki lengur í hverri þeirra en rúm tvö ár.

Sú fastanefnd sem hann hefur setið lengst í er utanríkismálanefndin þar sem hann átti sæti á árunum 1995 til 1999 og svo aftur 2005 til 2007. Össur hefur verið formaður tveggja fastanefnda Alþingis: iðnaðarnefndar og heilbrigðis- og trygginganefndar.

Þeir sem koma næstir á eftir honum, þegar horft er til fjölda nefndarsæta, eru Bjarni Benediktsson og Ögmundur Jónasson. Bjarni, sem á lengsta þingreynslualdur núverandi ráðherra, hafði setið í öllum fastanefndum Alþingis, nema umhverfis- og samgöngunefndinni, áður en hann varð ráðherra vorið 2013.

Að öllu jöfnu sat hann í þremur nefndum á sama tíma og gjarnan í fjögur ár í hverri þeirra en þó sumum skemur. Lengst sat Bjarni í utanríkismálanefnd eða í átta ár en styst í heilbrigðis- og trygginganefnd en þar átti hann sæti í aðeins eitt ár. Bjarni hefur verið formaður tveggja nefnda; allsherjarnefndar í fjögur ár og utanríkismálanefndar í tvö ár.

Flestar fastanefndir

Af þeim sem eru taldir á myndinni hér að ofan vekur nefndarreynsla Ögmundar Jónassonar og Álfheiðar Ingadóttur ekki minnsta athygli. Ástæðan er ekki síst sú hve Álfheiður hefur komist að í mörgum nefndum á aðeins tveimur árum en sú sem snýr að Ögmundi kemur reyndar ekki fram nema með því að fara í ferilskrána hans (sjá hér).

Það sem breytir mestu á nefndarferli hans er að hann vék úr ráðherraembætti aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann var skipaður (haustið 2009) og gekk svo inn í ríkisstjórnina aftur einu ári síðar (haustið 2010). Það hefur áður verið vikið að því sem vekur athygli við nefndarreynslu Álfheiðar Ingadóttur.

Þar var m.a. bent á að hún hafði aðeins tveggja ára reynslu úr tveimur þegar Jóhanna tók við stjórnartaumunum í Stjórnarráðinu í byrjun árs 2009 (sjá hér). Þessar nefndir eru heilbrigðis- (og trygginganefnd) og iðnaðarnefnd. Miðað við ferilskrána hennar hafði hún hins vegar setið í sex nefndum þegar hún tók við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009.

Skýringin liggur í því að við stjórnarskiptin var Álfheiður skipuð í fjórar nýjar nefndir. Tvær þeirra voru allsherjar- og efnahags- og skattanefnd sem er útlit fyrir að komi næstar á eftir fjárlaga- og utanríkismálanefndinni að virðingu. Auk þessara vegtylla var hún formaður viðskiptanefndar mánuðina áður en hún var skipuð heilbrigðisráðherra aðeins rétt rúmum fjórum mánuðum eftir að Jóhönnustjórnin tók formlega við stjórnartaumunum (sjá hér).

Á meðan Álfheiður gegndi ráðherraembættinu vék hún úr þeim nefndum sem hún hafði setið í áður nema kjörbréfanefndinni. Þegar ráðherratímabili hennar lauk haustið 2010 tók hún við öllum sætunum aftur og einu betur. Hún átti þar af leiðandi sæti í fimm fastanefndum þingveturinn 2010 til 2011. Þessar nefndir eru: allsherjarnefnd, viðskiptanefnd, kjörbréfanefnd, efnahags- og skattanefnd og umhverfisnefnd (sjá nánar hér).

Umbun eða sárabætur?

Ögmundur Jónasson hefur hingað til haldið því fram að hann hafi vikið úr embætti heilbrigðisráðherra af eigin hvötum þar sem skoðun hans í Icesave-málinu samrýmdust ekki skoðunum þáverandi ríkisstjórnar (sjá t.d. hér). Miðað við nefndarsætin sem hann fékk í kjölfarið er ekki útlit fyrir að skoðanamunurinn hafi verið látinn koma illa niður á honum. Haustið 2009 tók hann við fjórum nefndarsætum þar af í þremur nefndum sem hann hafði aldrei setið í áður.

Ein þeirra var utanríkismálanefndin, þá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndin og svo umhverfisnefndin. Fjórða nefndin sem hann fékk sæti í var efnahags- og skattanefndin (sjá nánar hér). Í þessu samhengi er svo spennandi að sjá hvaða nefndarsæti þau Kristján L. Möller, Árni Páll ÁrnasonJón Bjarnason og Oddný G. Harðardóttir fengu í kjölfar þess að þeim var gert að víkja úr ráðherrastólum. Reyndar gegnir öðru máli um Oddnýju en þau hin. Hún, rétt eins og Álfheiður Ingadóttir, var aðeins tekin tímabundið inn í ríkisstjórnina.

Það sem er þó óvenjulegast í tilviki Oddnýjar er að það er ekki annað að skilja en hún hafi átt sæti í tveimur fastanefndum og einni erlendri nefnd á sama tíma og hún gegndi embætti fjármálaráðherra. Það er heldur ekki hægt að álíta annað en Oddný hafi verið sett yfir Fjármálaráðuneytið þannig að Steingrímur J. Sigfússon gæti tekið við ráðuneytunum sem Árni Páll Árnason og Jón Bjarnason sátu yfir áður en þeim var vikið út úr ríkisstjórninni.

Brottvikningin átti sér stað á gamlársdag árið 2011 (sjá hér). Oddný G. Harðardóttir var ráðherra í níu mánuði og ekki er hægt að skilja það sem kemur fram á ferilskrá hennar öðru vísi en að hún hafi á sama tíma setið í allsherjar- og menntamálanefnd og þingskapanefnd ásamt því að eiga sæti í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (sjá hér).

Þegar Ögmundur gekk aftur inn í ríkisstjórnina haustið 2010 var Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sett undir Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Þar af leiðandi varð Kristján L. Möller að víkja. Í kjölfarið tók hann við þremur nefndarsætum og var gerður að formanni í einni þeirra. Þetta var iðnaðarnefndin en þar hafði hann setið áður í eitt ár. Hann var líka settur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndina en hann hafði áður átt sæti í sjávarútvegsnefndinni í þrjú ár. Þriðja nefndin er heilbrigðisnefnd en þar hafði hann aldrei átt sæti áður.

Eftir 2011 átti hann áfram sæti í þremur nefndum en reyndar aðeins tveimur sem eru taldar til fastanefnda miðað við þetta yfirlit. Hann varð formaður atvinnuveganefndar haustið 2011 og hélt þeirri vegtyllu út síðasta kjörtímabil. Auk þessa var hann gerður að þriðja varaforseta Alþingis og átti því sæti í forsætisnefndinni frá árinu 2010 til loka síðasta kjörtímabils. Þess má geta að hann hefur verið fyrsti varaforseti frá upphafi þessa kjörtímabils (sjá hér).

Rúmu ári eftir að Álfheiður Ingadóttir og Kristján L. Möller viku sem ráðherrar var komið að Árna Páli Árnasyni og Jóni Bjarnasyni að yfirgefa sína stóla. Árni Páll sem hafði setið í utanríkismálanefnd í tvö ár (2007-2009) og verið varaformaður hennar á sama tíma  fékk aftur sæti þar. Hann hélt því út kjörtímabilið og fékk líka sæti í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins en þar hafði hann ekki átt sæti áður. Hann er sá eini sem vék ráðherrasæti í síðustu ríkisstjórn sem var umbunað eða bættur skaðinn með sæti í erlendri nefnd (sjá nánar hér).

Jón Bjarnason fékk líka sæti í utanríkismálanefndinni eftir að honum var sparkað út úr Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu á síðasta kjörtímabili. Hann hafði aldrei átt sæti þar áður en sat í henni kjörtímabilið á enda ásamt efnahags- og viðskiptanefndinni en hann hafði áður setið í viðskiptanefndinni í tvö ár (sjá nánar hér).

Það vekur vissulega athygli að Jón Bjarnason hafi fengið sæti í utanríkismálanefndinni í kjölfar þess að honum var vikið úr embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir afstöðu hans til evrópusambandsaðildarinnar (sjá hér). Skýringin kann að vera sú að hann sagði sig ekki opinberlega úr VG þá þegar en það hefði vissulega gert endanlega út af við ríkisstjórnina. Hún var nefnilega orðin minnihlutastjórn á þessum tíma þó sú staðreynd fengi af einhverjum ástæðum að liggja í þagnargildi.

Það er fleira sem vekur athygli þegar nefndarferill Jóns Bjarnasonar er skoðaður. Sama ár og hann settist inn á þing fékk hann sæti í fjárlaganefnd og átti þar sæti næstu tíu árin eða þar til hann var skipaður ráðherra síðustu ríkisstjórnar. Í þessu samhengi er rétt að minna á að árið, sem hann kom inn á þing, er sama ár og Samfylkingin og Vinstri grænir buðu fram til alþingiskosninga í fyrsta skipti; þ.e. er árið 1999.

Það ár hlutu aðrir elstu þingmenn Vinstri grænna, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, sæti í þeim þremur nefndum sem lítur út fyrir að sitji efst í virðingarröð fastanefndanna á Alþingi. Þingmennirnir fjórir, sem hér er rætt um, sátu óvenju lengi í þessum nefndum miðað við það sem almennt gerist. Jóhanna, sem var þingmaður Samfylkingarinnar, átti sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni tveimur árum styttra en aðrir sem eru taldir á myndinni hér að neðan.

Öll eiga það hins vegar sameiginlegt að þau sátu í sömu nefndinni, og þau settust í árið 1999, fram til þess að þau tóku við ráðherraembætti: Jóhanna árið 2007 í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hinir árið 2009 þegar stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum eftir að hin hraktist frá völdum.

Í þessu samhengi má líka geta þess að Kristján L. Möller tók sæti í samgöngunefnd árið 1999. Hann átti þar sæti nær óslitið fram til þess að hann var skipaður samgönguráðherra í stjórn Geirs H. Haarde sama ár og Jóhanna Sigurðardóttir var skipuð félagsmálaráðherra (sjá hér).

Bandalag sem brást?

Það er vissulega spurning hvað hefur ráðið því sem kemur fram hér að ofan en á það skal minnt að Steingrímur J. Sigfússon var formaður VG allan þann tíma sem hann átti sæti í utanríkismálanefndinni. Það var því á hans valdi hvernig nefndarsætunum, sem þingflokkur VG fékk í sinn hlut, var úthlutað.

Það er þ.a.l. hann sem hefur raðað þeim Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni ásamt öðrum þingmönnum flokksins í nefndir. Það voru hins vegar Margrét FrímannsdóttirÖssur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem tryggðu Jóhönnu Sigurðardóttur sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni frá því að hún varð þingmaður Samfylkingarinnar þar til Ingibjörg Sólrún skipaði hana sem einn ráðherra flokksins vorið 2007.

Átta til tíu ára reynsla ofantalinna í efnahags- og viðskiptanefnd/efnahags- og skattanefnd, utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd vekur ekki síst athygli í ljósi þess að ef mark er takandi á því sem hefur verið dregið fram á þessum bloggvettvangi þá situr hver þingmaður að jafnaði ekki nema tvö til þrjú ár í hverri nefnd (sjá hér).

Það má svo vekja athygli á því að Steingrímur J. hafði átt sæti í efnahags- og viðskipanefndinni í átta ár áður en hann tók sæti í utanríkismálanefndinni. Honum var úthlutað sæti í þeirri nefnd sama ár og Davíð Oddsson tók við sem forsætisráðherra, í fyrsta skipti, og þá í stjórnarsamstarfi við Alþýðuflokkinn.

Þar sem það er mjög líklegt að á þeim tíma hafi svipaðar reglur verið við lýði hvað varðar vald flokksformanna er ekki úr vegi að rifja upp að það var Ólafur Ragnar Grímsson sem var formaður Alþýðubandalagsins á þessum tíma. Steingrímur sat í efnahags- og viðskiptannefndinni fyrstu tvö kjörtímabil Davíðs. Margrét Frímannsdóttir var formaður Alþýðubandalagsins seinna kjörtímabilið en undir lok þess tók hún þátt í að mynda Samfylkinguna ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, Össuri Skarphéðinssyni o.fl. en Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson klufu sig frá fylkingunni og tóku saman við Vinstri græna.

Samfylkingin og Vinstri grænir voru nýir stjórnarandstöðuflokkar á valdatíma þriðja ráðuneytis Davíðs Oddssonar. Við upphaf þess skipaði Steingrímur J., Ögmund Jónasson í sitt gamla sæti innan efnahags- og viðskiptanefndarinnar, setti óreyndan þingmann í fjárlaganefndina og tók sjálfur sæti í utanríkismálanefndinni. Þessi nefndarsætaskipan hélst næstu tíu árin eða þar til allir þrír urðu ráðherrar undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009.

Margrét Frímannsdóttir, sem var fyrsti formaður Samfylkingarinnar, skipaði Jóhönnu Sigurðardóttur sem fyrsta fulltrúa flokksins í efnahags- og viðskiptanefndina. Með því urðu þau Ögmundur samferða í átta ár innan sömu nefndar eða þar til Jóhanna Sigurðardóttir var skipuð félagsmálaráðherra í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér).

Tæpum tveimur árum síðar sprakk stjórnarsamstarfið og þessi urðu öll ráðherrar í stjórn sem tók við í kjölfar háværra krafna um endurnýjun og breytta stjórnarhætti. Þrjú þeirra sem tóku við ráðherraembætti í Jóhönnustjórninni höfðu auk þess verið ráðherrar í hrunstjórninni. Það voru: Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller og Össur Skarphéðinsson. Allt síðasta kjörtímabil var helmingur ráðherrahópsins skipaður þeim sem áttu það sameiginlegt að eiga yfir tíu ára þingreynslu að baki og hafa tekið þátt í því að stofna til Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1999.

Vorið sem þessi komu inn á þing fyrir framangreinda flokka sat Halldór Ásgrímsson sitt annað kjörtímabil sem utanríkismálaráðherra en hann hafði verið sjávarútvegsráðherra á sama tíma og Steingrímur J. var skipaður landbúnaðarráðherra og Jóhanna félagsráðherra Þetta var í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar sem sat á árunum 1989 til 1991 eða þar til Alþýðuflokkurinn sprengdi upp stjórnarsamstarfið (sjá hér).

Loks skal vakin athygli á því að sama ár og Steingrímur J. fékk sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni tók hann líka sæti í sjávarútvegsnefndinni en þar sat hann í sjö ár. Hann varð svo formaður hennar fyrsta kjörtímabilið sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur störfuðu saman í öðru ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér). Það er óvíst að, að baki því sem hér hefur verið rakið liggi neitt sem skiptir máli en vissulega vekja þessi atriði nokkra athygli og eru þess vegna talin hér.

Drög að samantekt á þessu efni

Það er ekki einfalt að draga þetta efni þannig saman að það sýni á óyggjandi hátt hvort og þá hvernig vera í nefndum hefur verið metin hingað til við skipun til ráðherraembætta. Þó verður tæplega annað sagt en að í þessum skrifum hafi verið dregnar fram sterkar vísbendingar um að það þyki harla góður undirbúningur fyrir ráðherrastöðu að hafa verið í nefnd sem fjallar um málefni þess ráðuneytis sem viðkomandi er skipaður yfir.

Það er því líklegra að val á ráðherraefnum fari öðru vísi fram en almennt er gert ráð fyrir. Þegar mið er tekið af því hvernig sá hópur sem hefur verið til skoðunar hér hefur raðast niður á nefndir er það a.m.k. ekki útilokað að draga þá ályktun að ráðherraefni flokkanna séu valin miklu fyrr á þingmannsferli þeirra sem hljóta skipun. Eigi þessi ágiskun við rök að styðjast skýrir þetta  nokkuð það valdaþrátefli sem þingstörfin einkennast gjarnan af.

Það er greinilegt að ekki nauðsynlegt að uppfylla það skilyrði að hafa setið í viðeigandi nefnd til að fá ráðherraembættisúthlutun. Kristján Þór Júlíusson er heilbrigðisráðherra án þess að hafa nokkurn tímann setið í velferðarnefndinni. Í báðum stjórnum sátu líka ráðherrar sem voru nýir inni á þingi þegar þeir voru settir yfir ráðuneyti.

Þessir höfðu því hvorki þingreynslu né reynslu innan úr nefndum sem heyrðu málefnalega undir ráðuneytin sem þeir voru skipaðir yfir. Hér er að sjálfsögðu átt við þær Svandísi Svavarsdóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þær eiga það hins vegar sameiginlegt að hafa báðar framkvæmdastjórar á vegum sinna flokka og síðar borgarfulltrúar. Það sem þessi eiga hins vegar sameiginlegt er að þau voru efst á framboðslista síns kjördæmis þegar þau komu inn á þing (Svandís, Kristján Þór og Hanna Birna).

Þar sem Svandís og Hanna Birna voru nýjar inni á þingi þegar þær voru skipaðar í ráðherraembætti er forvitnilegt að bera ferilskrár þeirra saman. Hér er það gert út frá aldri, menntun, starfs- og stjórnmálareynslu. Þeir sem vilja nánari samanburð er bent á alþingisvefinn þaðan sem þessar upplýsingar eru teknar. Ferilskrá Svandísar er hér og Hönnu Birnu er hér.

Svandís Svavarsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir

Fyrir árið 2011 var það ekki óalgengt að hver þingmaður ætti sæti í þremur til fjórum þingnefndum á sama tíma en með breytingunum á þingskaparlögunum var ætlunin að draga úr nefndarálaginu þannig að hver þingmaður ætti aðeins sæti í einni nefnd. Reyndin virðist hins vegar vera sú að hver þingmaður situr í tveimur til þremur nefndum. Algengasta samsetningin er sú að þeir sitja í tveimur þingnefndum og í einni erlendri nefnd (sjá hér).

Annað sem ætti að liggja fyrir eftir þá samantekt sem hefur verið leidd fram hér er að áherslan á nefndarstörf þingmanna hefur orðið æ ríkari þáttur í störfum þeirra. Hér hefur líka töluverð áhersla verið lögð á að draga það fram að ein af þeim hefðum sem hafa orðið til í kringum þingnefndirnar er misjöfn virðingar- og/eða mikilvægisröð þeirra. Þær fastanefndir þingsins sem er útlit fyrir að veiti mestu upphefðina eru: utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd, þá efnahags- og viðskiptanefnd og svo allsherjarnefnd og loks iðnaðarnefnd.

Til að undirstrika þessa niðurstöðu enn frekar er forvitnilegt að horfa aftur í tímann og skoða þá sem hafa orðið forsætisráðherrar á stjórnmálaferli sínum en hafa áður setið í utanríkismálanefnd og/eða verið utanríkisráðherrar. Áður en lengra er haldið er þó vert að benda á að í kaflanum Ráðherrasamanburður: Flokksforystuhlutverk voru einnig færð rök fyrir því í hvaða virðingarröð stjórn utanríkismála er í íslenskri flokkspólitík. Að þessu var einnig vikið í færslunum Til Evrópustýringar Íslands og Utanríkisráðuneytið.

Aðgöngumiðinn að forsætisráðuneytinu

Eins og kemur fram á þessari mynd þá má það heita hefð, frá árinu 2004, að þeir sem verða forsætisráðherrar hafi áður setið í utanríkismálanefnd. Það má reyndar vera að þessi hefð sé eitthvað eldri. Það er a.m.k. ljóst að það hafa verið sterk tengsl á milli forsætisráðherra- og utanríkisráðherraembættisins frá því að fyrsti utanríkisráðherrann var skipaður árið 1941.

Stefán Jóh. Stefánsson (Alþýðuflokki) var fyrsti utanríkisráðherrann (sjá hér). Hann var jafnframt fyrsti forsætisráðherrann sem hafði gegnt utanríkisráðherraembættinu áður en hann varð forsætisráðherra (sjá hér). Bjarni Benediktsson (eldri) hafði verið utanríkisráðherra í sex ár áður en hann varð forsætisráðherra, Benedikt Gröndal í eitt ár, Halldór Ásgrímsson í níu og Geir H. Haarde í eitt en hann hafði líka setið í utanríkismálanefnd í sjö ár áður en kom að því að hann tók við ráðherrastöðu.

Hér er ótalinn Ólafur Thors sem fór með Utanríkisráðuneytið samhliða forsætisráðherraembættinu í fyrstu tveimur ráðuneytunum sem hann fór fyrir. Þetta var árið 1942 og svo árin 1944 til 1947 (sjá hér). Það er heldur ekki óalgengt að þeir sem hafa verið forsætisráðherrar hafi orðið utanríkisráðherrar í framhaldinu. Þetta kemur líka fram á myndinni hér að ofan.

Þetta á við í tilviki Emils Jónssonar, Ólafs Jóhannessonar, Geirs HallgrímssonarSteingríms Hermannsonar og Davíðs Oddssonar. Það vekur væntanlega athygli að bæði Steingrímur og Davíð gegndu þó ekki utanríkisráðherraembættinu nema í eitt ár hvor. Það er ekki síður athyglisvert að af þeim átján, sem hafa verið forsætisráðherrar frá því að Utanríkisráðuneytið var stofnað, þá eru þeir ellefu sem höfðu gengt embætti utanríkisráðherra áður en þeir urðu forsætisráðherra, fóru með bæði embættin á sama tíma eða voru yfir Utanríkisráðuneytinu í framhaldi þess að þeir sátu í Stjórnarráðinu.

Til að lesendur átti sig enn frekar á sambandinu sem er á milli embættanna er vert að gera sams konar samanburð á embætti fjármála- og forsætisráðherra. Þessi embættisheiti eru jafngömul eða frá stofnun fyrstu ráðuneytanna árið 1917 (sjá hér). Vera í fjárlaganefnd er líka höfð með í þessum samanburði en ætlunin er að skoða hversu algengt það er að þeir sem hafa orðið forsætisráðherra hafi verið fjármálaráðherra áður, í framhaldinu eða hvort þeir, sem hafa sest í Stjórnarráðið eftir 1991, hafi setið í fjárlaganefnd.

Fjármálaráðherrar sem hafa orðið forsætisráðherrar

Af þeim 24 sem hafa verið forsætisráðherra frá árinu 1917 þá eru þeir eingöngu fimm sem hafa líka verið fjármálaráðherra og allir áður en þeir urðu forsætisráðherra. Geir H. Haarde er eini forsætisráðherrann eftir 1991 sem hafði átt sæti í fjárlaganefndinni áður en hann varð æðstráðandi í ríkisstjórn. Hann stýrði þremur ráðuneytum á þingferlinum: fyrst Fjármálaráðuneytinu, þá Utanríkisráðuneytinu og síðast Forsætisráðuneytinu.

Áður en Geir tók sæti í fjárlaganefnd hafi hann átt sæti í tveimur nefndum. Hann sat í utanríkismálanefnd á árunum 1991-1998 og var formaður hennar þrjú síðustu árin. Hann var líka í sérnefnd um stjórnarskrármál árin 1992-1997. Auk þessa átti hann sæti í tveimur erlendum nefndum (sjá hér).

Þetta dæmi dregur það væntanlega fram að það eru mjög sterk tengsl á milli þess að formenn þeirra þriggja stjórnmálaflokka, sem oftast hafa komið að ríkisstjórnarmyndun; þ.e. Sjálfstæði-, Framsóknar- og Alþýðuflokks/Samfylkingarinnar, sækist eftir því að verða bæði forsætis- og utanríkisráðherra. Það er ekki að sjá að sama samband sé á milli embætta fjármála- og forsætisráðherra.

Hins vegar er rétt að taka það fram að það er alls ekki óalgengt að þeir sem hafa orðið forsætisráðherra hafi áður setið í ýmsum stjórnum og ráðum helstu peningastofnana landsins. Það er heldur ekkert einsdæmi að þeir sem hafi veitt ríkisstjórnarsamstarfi forsæti sitt hafi tekið við æðstu stjórn peningastofnana landsins.

Það er þar af leiðandi ekki útilokað að halda því fram að þó það sé langt frá því að nokkuð bendi til ákveðins orsakasamhengis á milli fjármála- og forsætisráðherraembættisins, eins og á milli þess síðarnefndar við utanríkisráðherraembættið, þá er slíkt samhengi fyrir hendi við helstu stofnanir fjármálamarkaðarins. Þessu verða gerð aðeins nánari skil í næstu færslu.

Niðurlag þessarar færslu

Það hefur þegar komið fram að það varð ofan á að lengja þessi skrif. Það væri þó nær að segja að þetta verkefni reyndist töluvert umfangsmeira en leit út fyrir í fyrstu. Einkum þykir ástæða að byggja betur undir ýmislegt sem samanburður á ráðherrahópunum tveimur svo og umfjöllunin um ráðuneytin hafa gefið vísbendingu um varðandi nefndarreynslu. Hér er átt við vísbendingar um það hvað hvort og hvaða hlutverki hún gegnir varðandi val á þeim sem verða ráðherrar.

Það er væntanlega öllum ljóst að sú hefð hefur orðið ofan á að formenn og varaformenn eru orðnir sjálfskipaðir komist flokkarnir sem þeir stýra til valda. Það hafa líka skapast ákveðnar hefðir í sambandi við það hvaða ráðuneyti þessir setjast yfir (sjá hér). Hins vegar er ekki annað að sjá en viss samkenni sé líka að finna í því í hvaða nefndum þessir hafa átt sæti. Þar af leiðandi er forvitnilegt að setja þetta fram og reyna að átta sig á því hvort eitthvert samhengi sé á milli þessara þriggja þátta; þ.e: formennsku í stjórnmálaflokkum, nefndarsetu og svo úthlutunar ráðherraembætta.

Hér, eins og í fyrri færslum, hafa þeir, sem hafa verið skipaðir í ráðherraembætti frá vorinu 2009, verið í brennidepli. Til að sýna fram á samhengið sem er útlit fyrir að sé á milli utanríkismálanefndar og forsætisráðherraembættisins var þó farið aftur í tímann. Því verður haldið áfram í næstu færslu en þar er ætlunin að fjalla frekar um þær nefndir sem skv. þessu hér heyra undir „aðrar nefndir“. Þessar eru m.a. þingvalla- og forsætisnefndin sem ýmislegt bendir til að hafi a.m.k. skipt máli í því valdakapphlaupi sem flest bendir til að ráði úrslitum varðandi bæði skipun í nefndir og síðar ráðherrastóla.

Síðasta færslan sem fjallar um nefndarstörf núverandi og fyrrverandi ráðherra snýst svo um erlendu nefndirnar. Þegar þetta verður allt komið saman þá ætti að vera óhætt að setja fram einhverjar frekari fullyrðingar. Nú þegar er þó óhætt að setja það fram að skipun til ráðherraembætta byggir frekar á flokkspólitískum hefðum en faglegum forsendum. Þessar flokkspólitísku hefðir virðast líka vera afar áþekkar innan þeirra stjórnmálaflokka sem mynduðu ríkisstjórn vorið 2009 og svo hinna sem skipuðu þá sem situr nú.

Það er sem sagt allt útlit fyrir að þær hefðarreglur sem hafa orðið ofan á við skipun til nefndarsæta og ráðherraembætta ráðist af uppgangi viðkomandi innan stjórnmálaflokksins og í stjórnmálum almennt. Með öðrum orðum hversu duglegur hann er við að pota sjálfum sér áfram innan stjórnmálaflokksins og síðar þingflokksins og síðast en ekki síst í kapphlaupinu um mikilvægustu nefndarsætin. Sennilega haldast þessi atriði mjög í hendur.

Þegar svona er komið ræður fagleg þekking á þeim málaflokki, sem hver og einn er skipaður yfir, sáralitlu ef nokkru máli. Með öðrum orðum þá ræður flokkspólitíkin öllu þegar kemur að skipun í ráðherraembætti á kostnað þeirra þátta sem væru heillavænlegastir fyrir málefnin og hagsmuni samfélagsins.

Yanis Varoufakis

Þegar allt kemur til alls þá er það reyndar líklegt að sú flokkspóltíska þröngsýni, sem ræður því hvernig nefndar- og ráðherrasætum er úthlutað, sé meginskýring þeirrar kreppu sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á velflestum sviðum. Því miður eru lítil líkindi til þess að hæfustu einstaklingarnir, veljist til að stýra efnahagsmálum landsins, atvinnulífinu, velferðarkerfinu og utanríkismálunum ásamt því að annast stjórnskipunareftirlitið, á meðan stjórnmálaflokkarnir beita aðferðum við val á forystumönnum sem taka mið af því hverjir eru færastir í að leggja það undir sig sem skilar þeim sjálfum mestu bæði hvað flokkspólitísk völd og illskiljanlega pólitíska virðingarröð varðar.

Heimildir

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla
Ráðherrasamanburður: Nefndareynsla I

Krækjur í aukafærslur í þessum flokki:
Hefðarreglur ráða för I
Hefðarreglur ráða för II
Hefðarreglur ráða för III
Hefðarreglur ráða för IV
Ráðherrasamanburður: Aukafærsla vegna skipunar Sigrúnar

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimild um fastanefndir Alþingis
Fastanefndir Alþingis - Sögulegt yfirlit

Heimild um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.


mbl.is Forgangsröðunin „óásættanleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband