Tregðuafleiðingar

Í kvöld rakst ég á tvær stöðuuppfærslur á Fésbókinni sem sögðu frá birtingarmyndum fátæktarinnar annars vegar í Ungverjalandi og hins vegar á Íslandi. Önnur sagan sagði frá fólki sem var að borða upp úr ruslatunnum í sorpgeymslu fjölbýlishúss í Ungverjalandi. Hin sagði frá hungruðum manni sem var að betla fyrir utan Nóatún.

Sögurnar eru einn af mörgum vitnisburðum um það að mannkynið er enn einu sinni komið á þann stað þar sem valda- og eignastéttin hefur misst sig svo í græðgi sinni að afleiðingarnar geta ekki farið fram hjá neinum. Í báðum tilvikum reyndu þeir sem áttu leið hjá að leiða þessar óþægilegu staðreyndir neyðarinnar hjá sér. Þeir sem sögðu sögurnar sveið undan og segja sögurnar í þeirri viðleitni að ná til samkenndar fólks og vekja það upp til viðbragða. 

Borðað úr ruslatunnunniBetlað fyrir mat

Mannkynssagan geymir fjölda slíkra sagna. Menningarsagan varðveitir myndbrotin einkum í sögnum og myndlist en eitthvað kemur í veg fyrir það að þessar heimildir verði lífinu að því gagni að sagan endurtaki sig ekki. 

Það hafa nefnilega alltaf verið til einstaklingar sem finna til yfir áþekkum birtingarmyndum neyðarinnar og þeim sem er vísað til hér á undan. Sumum hefur meira að segja sviðið misréttið svo að þeir hafa gripið til aðgerða. Hingað til hefur valda- og eignastéttinni alltaf tekist að spila þannig á einstaklingseðlið og sérhyggjuna að samstaðan hefur aldrei skilað neinu nema endurtekningu á því sama.

Stríðsfórnir

Það hafa farið fram byltingar eins og rússneska byltingin, franska byltingin, menningarbyltingin í Kína og miklu fleiri. Niðurstaða þeirra varð kannski nýir herrar, nýtt kerfi, önnur valdastétt en frummyndin af samfélagsgerðinni sem eftirgerðin var byggð á í öllum þessum tilvikum braust fljótlega fram og í ljós kom að hún fól í sér sömu skekkju og sú úrsérgengna samfélagsgerð sem hrinti þessum byltingum af stað.

Í öllum tilvikum var það almenningur sem fórnaði blóði sínu til að koma nýju samfélagsmyndinni á. Í lok þessara byltinga kom það hins vegar í ljós að samfélagsmyndin sem það barðist fyrir að koma á, í stað þeirrar sem var fyrir, gerði líka ráð fyrir að vinna þess sama almennings héldi valdastéttinni uppi...

Örlæti hinna fátæku

Það er vissulega spurning hvenær við sem manneskjur náum þeim þroska að læra af reynslu kynslóðanna sem fóru á undan okkur og bregðumst öðru vísi við því úrlausnarefni sem við eigum sameiginleg með þeim. Rétt eins og gengnar kynslóðir stöndum við nefnilega frammi fyrir þeirri sameiginlegu þraut sem einstaklingar að við búum í samfélagi við alla hina einstaklinganna sem eru samferða okkur í tíma og rúmi og þurfum að deila gæðunum með þeim.

Ég held að við séum öll sammála um það að einstaklingurinn þrífst ekki nema í samfélagi við aðra fyrir það að hann þarf alltaf einhvern tímann á öðrum að halda. Ég held að það geti heldur ekki verið óeining um það að til að komast af þurfa allir mat og drykk auk þess sem allir þurfa þak yfir höfuðið. En er það sanngjarnt að valda- og eignastéttin beinlínis þrífist á þessum nauðsynjum og/eða grundvallarskilyrðum til þess að halda lífinu við?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband