Áskorun á nýja ríkisstjórn

Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga var ekki annað að sjá en allir sem hafa látið sig pólitík einhverju varða væru svo uppteknir af því að berjast um atkvæðin að samstaðan hefði týnst. Það þarf ekki að vera og því líklegt að fólk með sama markmið geti tekið sig saman og myndað pólitískan þrýsting um brýn mál rétt eins og þegar kom að viðspyrnunni gegn Icesave á síðasta kjörtímabili.

Í gærkvöldi var þingmönnum nýstofnaðrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks send áskorun um að binda endi á aðlögun Íslands að Evrópusambandinu og standa þannig við ályktanir síðustu landsfunda flokkanna um stefnu í utanríkismálum. Umræður um Evrópusambandsaðild hafa risið mishátt allt síðasta kjörtímabil, valdið klofningi og deilum en hins vegar má finna andstæðinga aðilar í öllu litrófi pólitíkunnar.

Ekki spurning um hvort heldur hvenær

Það er þannig hópur sem hefur skrifað undir áskorunina sem er birt hér fyrir neðan ásamt greinargerð og nöfnum þeirra 39 einstaklinga sem settu nafn sitt undir áskorunina. Þessir einstaklingar eiga það allir sameiginlegt að vilja að aðlögun Íslands að Evrópusambandinu verði hætt. Þeir hafa líka allir lagt sitt á vogarskálarnar í baráttunni gegn aðild að Evrópusambandinu á undanförnum árum.

Um helmingur þeirra, sem settu nöfn sín undir meðfylgjandi áskorun til nýskipaðrar ríkisstjórnar, eru frambjóðendur Regnbogans í nýliðnum kosningum, félagar í SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velverðar og félagar í öðrum samtökum sem hafa lýst sig andsnúna Evrópusambandsaðild. Þessi félög eru: Heimssýn - Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold - Félag ungs fólks gegn ESB aðild og Herjan - Félag stúdenta gegn ESB-aðild.

Reykjavík, 22. maí 2013

Við undirrituð skorum á ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að binda enda á frekari aðlögun Íslands að Evrópusambandinu með formlegum hætti og standa þannig við síðustu landsfundarályktanir um stefnu flokkanna í utanríkismálum.

Greinargerð:

Eitt þeirra atriða sem má lesa út úr niðurstöðu nýafstaðinna alþingiskosninga, þar sem 51,1% kjósenda greiddu núverandi ríkisstjórnarflokkum atkvæði sitt, eru skýr skilaboð um aðrar málefnaáherslur en fyrrverandi ríkisstjórnar; m.a. varðandi Evrópusambandsaðild.

Evrópusambandið glímir sjálft við gjaldmiðils- og skuldakreppu sem ekki er séð fyrir endann á. Í þessu sambandi er vert að draga það fram að fyrrverandi fjármálaráðherrar bæði Bretlands og Þýskalands, sem mæltu með og stuðluðu að aðild landa sinna að Evrópusambandinu á sínum tíma, hafa lýst yfir þungum áhyggjum af stefnu ESB og þeirri áherslu sem sambandið leggur á viðhald evrunnar.

Nigel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, staðhæfir að efnahag Bretlands sé betur komið utan ESB auk þess sem útganga úr sambandinu muni hafa jákvæðar afleiðingar innanlands í lýðræðisátt. Oskar Lafontaine, fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands, gengur sínu lengra þar sem hann hefur hvatt til þess að evrusamstarfið verði leyst upp til að forða frekari efnahags- og samfélagshörmungum ýmissa ríkja Suður Evrópu (sjá hér).

Afstaða fyrrverandi fjármálaráðherra er í fullu samræmi við viðvörun Yves Daccord, framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs Rauða krossins,  frá upphafi ársins. Í viðtali við danska blaðið Politiken varaði hann við vaxandi fátækt í löndum Suður- og Austur-Evrópu vegna efnahags-kreppunnar (sjá hér). Með orðum sínum staðfestir Oskar Lafontaine ekki aðeins það sem kemur fram hjá framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs Rauða krossins heldur dregur hann myntbandalagið fram sem orsakavald.

Aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu hefur dregið dýrmætan tíma, fjármuni og orku fráfarandi stjórnvalda frá brýnni verkefnum. Nú er tækifæri til að snúa þessu við með því að binda endi á aðlögunina og byggja upp samstöðu um uppbyggingu fullvalda ríkis sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir um grundvallarmálefni eins og efnahagsmál og milliríkjaviðskipti.

Undirskriftir:

Anna Ólafsdóttir Björnsson, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum

Atli Gíslason, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum

Árdís Magnúsdóttir, tækniteiknari

Ásgeir Geirsson, formaður Herjans, félags stúdenta gegn ESB-aðild

Baldvin H. Sigurðsson, oddviti  Regnbogans í Norðausturkjördæmi í nýliðnum kosningum

Bjarni Bergmann

Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og stjórnarmaður í Heimssýn

Björg Sigurðardóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum

Björgvin Rúnar Leifsson, framhaldsskólakennari

Eiríkur Ingi Garðarsson, í stjórn SAMSTÖÐU

Elinborg K. Kristjánsdóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum

Friðrik Atlason, oddviti Regnbogans í Reykjavíkurkjördæmi suður í nýliðnum kosningum
Guðjón Halldór Höskuldsson, iðnaðarmaður

Guðni Karl Harðarson, félagi í SAMSTÖÐU

Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni

Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Gunnar Guttormsson, vélfræðingur

Gunnar Waage, stjórnarmaður í Heimssýn

Gunnlaugur Ingvarsson ráðgjafi og stjórnarmaður í Heimssýn

Gústaf Skúlason, meðlimur í Heimssýn

Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB

Hallgeir Jónsson, í stjórn SAMSTÖÐU

Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði

Helga Garðarsdóttir, félagi í SAMSTÖÐU

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra

Hörður Guðbrandsson, stjórnarmaður í Heimssýn

Jón Bjarnason, oddviti Regnbogans í Norðvesturkjördæmi í nýliðnum kosningum

Jón Reginbald Ívarsson, nemi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík
Jónas Pétur Hreinsson, iðnrekstrarfræðingur og félagi í SAMSTÖÐU

Karólína Einarsdóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Kristján Jóhann Matthíasson, fyrrverandi sjómaður

Rakel Sigurgeirsdóttir, varaformaður stjórnar SAMSTÖÐU

Rannveig Sigurðardóttir, skrifstofumaður

Sif Cortes, viðskiptafræðingur

Sædís Ósk Harðardóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum

Valdís Steinarsdóttir, oddviti Regnbogans í Suðvesturkjördæmi í nýliðnum kosningum

Þollý Rósmundsdóttir, stjórnarmaður í Heimssýn

Þórarinn Baldursson, vélamaður

Þórarinn Einarsson, aktívisti


mbl.is Engar yfirlýsingar um ESB-atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar

Hvenær ætlið þið Evrópuhatarar að hætta að ljúga um þessa aðlögun ?  Staðreyndin er sú að það á ENGIN aðlögun sér stað fyrr en EFTIR að samningur væri samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það sem þið haldið fram varðandi aðlgögunina er einfaldlega lýgi!

Annað: Að sjálfsögðu á þjóðin að fá að ákveða það hvort þessu ferli verði haldið áfram í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þið frekjurnar í þjóðrembudeildinni getið náttúrulega ekki sætt ykkur við að þjóðin ráði þessu, þið lítill og hávær minnihlutahópur viljið taka lýðræðið af þjóðinni.  Þú talar sjálf um klofning og deilur, yfir helmingur þjóðarinnar vill klára þessar viðræður,  það gefur auga leið að deilur um þetta mál verða ekki niðurlagðar nema þjóðin kjósi um ferlið og eigi síðasta orðið.

Óskar, 23.5.2013 kl. 01:29

2 identicon

Mér hefði þótt vænt um, ef mér hefði verið gefinn kostur á að skrifa undir þessa yfirlýsingu.  Var ykkur ókunnugt um afstöðu mína?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 11:43

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar, ég held að þú vitir jafnvel og ég að það ert þú sem ferð með rangt mál þegar þú heldur því fram að hér eigi engin aðlögun sér stað. Um leið og kaflarnir eru opnaðir þá hafa þær reglur, sem kaflinn tekur til, verið teknar upp hér á landi eða íslensk lög verið „aðlagaðar“ að þeim.

Það má vera að þú viljir kalla það einhverju öðru nafni en aðlögun en sjálfri finnst mér það skýrasta orðið. Mér skilst m.a.s. að þeir þingmenn sem eru hlyntir aðlögun detti ekki einu sinni í hug að kalla það sem meiri hluti vinnutíma þeirra fer í, þ.e. að afgreiða frumvörp í gegnum þingið sem innihalda endalausar aðlagarnir íslenskra laga að regluverki ESB, öðru nafni.

Það er líka villandi að tala eins og það standi til að gera samning við Ísland sem er eitthvað öðru vísi en samningarnir sem hafa verið gerðir við önnur lönd sem eru nú þegar eru gegnin inn í Evrópusambandið. Stjórnarskrá Evrópusambandsins (þ.e. Lissabonsáttmálinn) liggur líka fyrir. Í sjálfu sér liggur það fyrir um hvaða samfélagsgerð yrði kosið ef og þegar að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur.

Þú ávarpar mig í fleirtölu og talar um „Þið frekjurnar í þjóðrembudeildinni“. Ég vissi ekki til að ég væri í neinni deild en ef þú vilt miða við þá 39 einstaklinga sem eru á listanum hér fyrir ofan þá kemur það fram að við tilheyrum ekki einu sinni sama hópnum. Ég verð heldur ekki vör við þá frekju eða þjóðrembu sem þú talar um þegar mið er tekið af áskoruninni.

Ég hefði þvert á móti talið að flestir gætu verið sammála um það að áskorunin er frekar hógværlega orðuð þó ekkert fari þar á milli mála og í stað þess að vísa til íslenskrar sérstöðu eða séreinkenna þá er vísað til reynslu og/eða viðhorf þeirra sem annaðhvort búa í löndum sem eru í Evrópusambandinu eða hafa horft upp á afleiðingar myntsamstarfsins milli ríkja ESB.

Það er heldur ekkert sem útilokar þjóðaratkvæðagreiðslur í þessari áskorun. Þvert á móti þá segir hún:  „Við undirrituð skorum á ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að binda enda á frekari aðlögun Íslands að Evrópusambandinu með formlegum hætti og standa þannig við síðustu landsfundarályktanir um stefnu flokkanna í utanríkismálum.“ (feitletrunin er mín)

Með „formlegum hætti“ getur þess vegna vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur verið að mér og einhverjum fleirum finnist þjóðaratkvæðagreiðsla miðað við gefnar forsendur vera óþörf en það er ljóst að skv. stjónarsáttmála nýskipaðrar ríkisstjórnar er það sú leið sem þykir vænlegust til að leiða málið til lykta. Það hefði sannarlega verið æskilegra að hún hefði farið fram áður en farið var af stað með þessar viðræður.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2013 kl. 13:02

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Pétur Örn, það má vel bæta þér við þennan lista ef þú vilt það en það er ljóst að það verður aldrei svo að það náist í alla sem eru tilbúnir til að leggja ákveðnum málefnum lið. Mér þykir leitt að þú skulir hafa gleymst en þeir eru ábyggilega fleiri sem hefði mátt munast eftir í þessu tilviki.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2013 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband