„Ísland er stjórnlaust, því engin því stjórnar“

Jólakór Heimavarnarliðsins og Tunnanna kom fyrst fram þann 7. desember sl. sem var alþjóðlegur bankaáhlaupsdagur. Í tilefni karókímaraþonsins, sem fram fer í Norræna húsinu, hafa meðlimir hans ákveðið að koma saman enn á ný og flytja orkumikinn ættjarðaróð ásamt fleiri grasrótum Austurvellinga kl 17:45 í dag. Óðurinn er frá Hallgrími Helgasyni sem setti hann saman haustið 2008 við lagið: „Ísland er land þitt“.

Eins og alþjóð veit eru þeir sem hafa staðið vaktina niður á Austurvelli mjög samfélagslega meðvitaðir enda hafa þeir staðið fyrir bæði stórum og smáum aðgerðum og uppákomum til varnar hagsmunum lands og þjóðar. Margir þeirra sem koma fram með kórnum síðar í dag hafa verið virkir í slíkri viðspyrnu í bráðum tvö og hálft ár. Ófáir hafa líka stutt við undirskriftarsöfnunina á orkuaudlindir.is með ráðum og dáð.

Það er reyndar ein af grundvallarkröfum Austurvellinga að náttúruauðlindirnar og nýting þeirra sé í höndum þjóðarinnar sjálfrar. Það er líka algjör lágmarkskrafa að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um svo þýðingarmikil og afgerandi mál og ráðstöfun orkuauðlindanna.

Austurvellingar eru vanir því að láta verkin tala og kunna að sjálfsögðu að sýna stuðning sinn í verki. Þeir munu því hefja upp raust sína í tilefni þessa skemmtilega framtaks upp úr kl. 17:45 í Norræna húsinu í dag. Það er heldur ekki útilokað að þingmenn og varaþingmenn sem styðja þennan góða málstað sláist í hóp Viðspyrnukórs Austurvellinga.

Es: Það má sjá frumflutning Jólakórs Heimavarnarliðsins og Tunnanna á umræddu lagi og texta Hallgríms Helgasonar hér.


mbl.is Skráð gegn vilja sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Botnlaus lygaþvæla!

Mikið er það orðið þreytandi að hlusta á þá endalausu lygaþvælu sem stjórnmálamennirnir og klíkusystkini þeirra komast upp með að halda að okkur í gegnum „einmiðlana“ sem eru í eigu þeirra sem kostuðu þá inn á þing. Ég er búin að fá mikið meira en nóg! Ég vil að við gefum þeim öllum frí og tel að þetta væri friðsamasta og jafnvel árangursríkasta leiðin til þess: http://utanthingsstjorn.is/

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þá heimsmynd sem íslenskir stjórnmálamenn keppast við að halda að okkur dyggilega studdir af ofvöxnum fjármálastofnunum Vesturveldanna. Myndin hér að neðan segir nefnilega miklu meira um þá „einmiðlastuddu“ heimsmynd sem haldið er að neyslusamfélögunum sem slíkir sækja fylgi sitt til.

Einmiðlavarin heimsmynd

Mér er fyrir löngu nóg boðið! og hef mótmælt frá haustinu 2008. Það er þreytandi að mótmæla en það er ljóst að það er það eina sem hreyfir við þeim sem hafa byrgt sig inni í innsta hring. Þess vegna mun ég halda áfram uns glerbúr sérhagsmunaklíkanna mun hrynja til grunna. Ég hvet alla til að taka þátt því misskiptingin kann ekki góðri lukku að stýra. ALDREI og HVERGI!

Ég bendi ykkur á að þann 17. janúar n.k. kemur þingið saman að nýju til fundar. Þann dag ætlum við líka að mæta og mótmæla þeirri gegndarlausu og kerfisvörðu lygaþvælu sem þjóðinni er boðið upp á! Þingfundur byrjar kl. 15:00 og tunnunum sem glumdu 4. október mun verða komið fyrir á Austurvelli á sama tíma.

Tunnuslátturinn, sem hefur verið líkt við „hjartslátt þjóðarinnar“, mun svo væntanlega ná hámarki kl. 16:30 en tveir hópar hafa nú þegar boðað til mótmæla á þeim tíma fyrir framan alþingishúsið. Báðir hópar hvetja atvinnurekendur og stofnanir til að gefa starfsfólki sínu frí á þessum tíma svo allir geti sameinast um að mótmæla vanhæfri stjórnmálastétt sem „þjónar engum nema hagsmunum sjálfra sín og siðblinds fjármálakerfis.“ Sjá hér og hér.


mbl.is Fundur VG hreinsaði loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningar og svör varðandi utanþingsstjórn

Hugmyndin um utanþingsstjórn er alls ekki ný af nálinni en samt sem áður virðast þeir vera margir sem vita lítið um fyrirbærið og óttast það jafnvel meira en núverandi stjórnmálakreppu. Hér á eftir ætla ég að reyna að svara nokkrum spurningum varðandi utanþingsstjórn og þá aðallega hvað hún er og hvers vegna hugmyndin er fram komin nú.

Hvað er utanþingsstjórn?

Á Wikipedia segir m.a. að: „utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið. [...] Á Íslandi hefur einu sinni setið utanþingsstjórn [...] sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði í kjölfar þess að formenn stjórnmálaflokkanna gátu ekki komið sér saman um myndun ríkisstjórnar. Utanþingsstjórnin sat í tvö ár 1942 til 1944.“

Með þessu skapaði þáverandi, þjóðhöfðingi, Sveinn Björnsson, það sem er kallað stjórnskipunarhefð og þó henni hafi ekki verið beitt síðan þá hefur skipun slíkrar stjórnar nokkrum sinnum komið til tals á umliðnum árum. Þ.e. árið 1950 (sjá hér) í kringum 1980 (sjá hér) og margítrekað í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. (sjá t.d. hér, hér og hér).

Undir hvaða kringumstæðum er utanþingsstjórn skipuð?

Samkvæmt almennustu skilgreiningunni þá er gripið til skipunar slíkrar stjórnar „þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum“ (sjá Wikipedia) Það má vel umorða þessa skilgreiningu því umræðan um skipun slíkrar stjórnar hefur komið upp oftar og þá alltaf þegar stjórnmálakreppa blasir við.

Í ljósi sögunnar sýnist mér því nær að tala um að skipun slíkrar stjórnar eigi aðeins við þegar almennt neyðarástand ríkir í samfélaginu vegna þess að kosnir fulltrúar geta ekki komið sér saman um skynsamlegar leiðir varðandi almenna hagsmuni þjóðarinnar.
 

Saga utanþingsstjórnar

Ríkisstjórn Björns ÞórðarsonarUtanþingsstjórnin 1942-1944: Utanþings- stjórn hefur aðeins einu sinni verið skipuð hér á landi en það var í tíð Sveins Björnssonar, þáverandi ríkisstjóra. Þetta var árið 1942. Lýðveldisstofnunin stóð fyrir dyrum með ritun sérstakrar stjórnar- skrár fyrir hið nýja lýðveldi en það var fleira sem kynti undir stjórnmálakreppu þessa tíma. 

Í upphafi ársins 1942 sat hér þjóðstjórn sem klofnaði í deilum um kjördæma- skipan. Þá tók við minnihlutastjórn sem sat á meðan kjördæmamálið var leitt til lykta. Um haustið var boðað til kosninga en hin nýju kjördæmalög röskuðu mjög fylgi flokka og ljóst að erfitt gæti orðið að mynda þingræðisstjórn. „Eftir rúmlega eins mánaðar þóf tók Sveinn Björnsson ríkisstjóri til sinna ráða og myndaði utanþingsstjórn ( Íslenskur söguatlas 3.bd. 1993:85)

Árin 1949-1950: Ég finn engar heimildir um þá staðhæfingu Vilmundar Gylfasonar að Sveinn Björnsson, þáverandi forseti, hafi myndað utanþingsstjórn árið 1950 eins og hann heldur fram hér. Þó er ljóst að á þessum tíma voru miklar sviptingar í pólitíkinni sem má rekja til stjórnmálakreppu sem grundvallaðist á heimatilbúnum vanda í stjórn efnahagsmála.

Ráðuneyti Stingríms SteinþórssonarForsetinn hefur því óhjákvæmilega haft einhver afskipti af stjórnmálunum. Fyrst með boðun kosninga árið 1949 eftir að slitnaði upp úr samstarfi þeirrar ríkis- stjórnar sem almennt hefur verið kölluð Stefanía og svo aftur snemma í mars- mánuði 1950 en þá var minnihlutastjórn Ólafs Thors borin vantrausti í kjölfar áætlunar sem stjórn hans lagði fram um aðgerðir í efnahagsmálum. (Sjá Íslenskan söguatlas 3.bd, 1993 bls. 102-105 og Wikipediu)

Kristján Eldjárn og utanþingsstjórn 1979-1980: Þann 4. nóvember sl. birti Pressan grein þar sem gerð er grein fyrir því að áramótin 1979/1980 var Kristján Eldjárn að missa þolinmæðina eftir að myndun starfhæfrar ríkisstjórnar hafði dregist í hálft ár. Þegar hann lét stjórnmálaforingjana vita að hann væri tilbúinn til að mynda slíka stjórn „hrökk allt í gírinn“ þannig að af myndun slíkrar stjórnar varð ekki. (Sjá hér)

Mig langar til að vekja athygli á því að Pressan birtir þessa athyglisverðu upprifjun daginn sem Tunnurnar efndu til mótmæla við Alþingishúsið undir yfirskriftinni Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn!

Hver skipar utanþingsstjórn?

„Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja“ (sjá Wikipedia) Í því eina tilfelli sem utanþingsstjórn hefur setið hér á landi þá var það Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, sem skipaði hana. Í því tilviki sem heimildir herma að skipun slíkrar stjórnar hafi staðið til síðar var það þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, sem hefði staðið að skipun hennar. Ef marka má þessa heimild hér hefði hann þó farið eftir hugmynd sem hafði verið sett fram ári áður um það hverjir ættu að sitja þar.

Ég reikna með að ef af skipun utanþingsstjórnar verður í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar þá muni hann kjósa lýðræðislegri leið en þá að hann standi einn að skipun slíkrar stjórnar. Annað eins hefur hann hamrað á mikilvægi lýðræðisins og því að vilji þjóðarinnar sé í heiðri hafður. (Sjá t.d. síðasta áramótaávarp forsetans hér

Hverjir sitja í utanþingsstjórn?

„Utanþingsstjórn er ríkisstjórn skipuð mönnum sem sitja ekki á alþingi.“ (sjá Vísindavefinn). Þeir „stjórna með hlutleysi eða stuðningi löggjafarvaldsins“ (sjá Wikipedia) Sveinn Björnsson skipaði fimm karlmenn til að sitja slíka stjórn á árunum 1942-1944 en samkvæmt þessari heimild hér voru þeir tólf sem Kristján Eldjárn hugðist skipa í slíka stjórn árið 1980.

Ef af skipun utanþingsstjórnar verður til að leysa úr núverandi stjórnmálakreppu verður að finna leið til að skipun hennar skapi almenna sátt og frið í samfélaginu. Það er mín skoðun að besta leiðin sé að byrja á því að skapa ákveðið vinnuferli til að byggja á. Það gæti t.d. byggt á eftirfarandi:

  • Hvaða kröfur á að gera til þeirra sem koma til greina að skipa í utanþingsstjórn?
  • Hversu margir eiga að sitja í þessari stjórn?
  • Hverjir eiga að standa að forvalinu?
  • Hvernig getur þjóðin komið að endanlegu vali? 

Umræðan um utanþingsstjórn frá bankahruni

Krafan um utanþingsstjórn er langt frá því að vera runnin undan rifjun þess hóps sem kennir sig við Tunnurnar. Strax í nóvember 2008 setti Katrín Oddsdóttir, núverandi stjórnlagaþingmaður, fram kröfuna, um utanþingsstjórn (sjá hér). 27. janúar 2009 setti hópur sem kenndi sig við Neyðarstjórn kvenna fram kröfu um utanþingsstjórn (sjá hér). Samtökin Nýtt Ísland settu líka fram kröfu um utanþingsstjórn 12. janúar 2010 (Sjá hér).

Þeir eru reyndar miklu fleiri sem hafa talað um skipun slíkrar stjórnar en þá oftast undir öðrum heitum. Þar má nefna: neyðarstjórn, bráðabirgðastjórn, embættismannastjórn og jafnvel forsetastjórn. Tvö þau fyrstu geta reyndar allt eins átt við þar sem umræðan um utanþingsstjórn er fyrst og fremst til komin fyrir það neyðarástand sem hér ríkir og er eingöngu hugsuð til bráðabirgða.

Undir lok október færðist aftur líf í umræðuna um skipun utanþingsstjórn en ég tók aðalatriði hennar saman hér. Þeir sem kalla eftir slíkri stjórn nú ætla henni það verkefni að bregðast við því neyðarástandi í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Margir vilja líka meina að stjórnmálakreppan hafi viðhaldið og dýpkað kreppuástandið á þessum sviðum í samfélaginu.

Þeir sem hafa kallað eftir utanþingsstjórn ætla henni að sitja til bráðabirgða til að vinna að þeim verkefnum sem henni verða sett. Til að sá verkefnalisti verði vel og fagmannlega unninn þá þarf hún annaðhvort að vera skipuð fagmönnum eða hafa slíka sér til ráðgjafar.

Einhverjir vilja e.t.v. trúa því að allir embættismenn séu fagmenn en ég tel að síðustu ár hafi fært okkur heim sanninn um það að slík er alls ekki alltaf raunin! Þar af leiðandi er það varla réttnefni að kalla utanþingsstjórn embættismannastjórn og forsetastjórn er varla viðeigandi heldur þar sem það er æskilegra að fleiri komi að skipun hennar en hann eingöngu. Sjálf tel ég æskilegast að það verði fundin leið til að þjóðin hafi úrslitavaldið varðandi það hverjir sitja þar.

Er einhver ástæða til að óttast utanþingsstjórn?

Ég held að það sé í eðli mannskepnunnar að óttast nýjungar en það er ljóst að skipun utanþingsstjórnar er neyðarúrræði til að bregðast við núverandi ófremdarástandi. Skipun utanþingsstjórnarinnar árið 1942-1944 var beitt þannig en hefur verið gagnrýnd m.a. fyrir það hvernig að skipun hennar var staðið.

Umræðan um hana í forsetatíð Kristjáns Eldjárns virkaði eins og svipa á þáverandi stjórnmálastétt og það er ljóst að núverandi stjórnmálastétt stendur töluverð ógn af hugmyndinni. Það kom ekki síst fram í þeim hræðsluáróðri sem var vakinn upp helgina sem undirskriftarlisti með áskorun á forsetann um skipun slíkrar stjórnar kom fram. Ég rakti meginatriðin í þeim hræðsluáróðri hér

Það verður að viðurkennast að margir hrærðust til ótta undir staðhæfingum eins og þeim að þeir sem stæðu að baki henni væru „fasískir tunnuterroristar“. Það var hins vegar ekkert haft fyrir því að vekja athygli á bréfaviðskiptum sem talsmenn Tunnanna áttu við núverandi alþingismenn þar sem þetta kom m.a. fram:

Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til:

*skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar,

*hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig,

*hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla

*og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina.  (Sjá hér)

En það eru ekki aðeins talsmenn Tunnanna sem hafa bent á að skipun utanþingsstjórnar gæti orðið til þess að leysa núverandi stjórnmálavanda. Einn þingmaður hefur opinberað þá skoðun fyrir þingheimi að honum finnist krafan réttlætanleg. Þetta er bréfið hans: 

það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.

Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.

Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan [hér vísar viðkomandi þingmaður í svar frá Ólínu Þorvarðardóttur sem hún sendi líka á allar þingmenn] í það að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri ríkisstjórn. (leturbreytingar eru mínar)

Í aðalatriðum þá er svarið við spurningunni hér að ofan að eðlilega hræðist stjórnmálastéttin skipun utanþingsstjórnar því það myndi draga úr völdum hennar. Eignastéttin hræðist hana líka því utanþingsstjórninni yrði falið það verkefni að draga úr því þeirri misskiptingu og ójafnrétti sem hún nærist á.

Allur þorri þjóðarinnar hefur hins vegar miklu fremur ástæðu til að óttast núverandi stjórnmálaástand sem viðheldur ójafnréttinu og vinnur að enn frekari niðurskurði á kjörum og lífsgæðum almennings.

Myndi þingið vinna með utanþingsstjórn?

Eins og kemur fram í svari þingmannsins hér að ofan situr þingið áfram þó utanþingsstjórn verði skipuð. Auðvitað er það æskilegast að þingið myndi styðja slíka stjórn og að öllum líkindum myndi það „neyðast“ til þess ef forsetinn myndi stíga það skref að binda endi á þá stjórnmálakreppu sem nú er uppi með skipun utanþingsstjórnar. 

Það hlýtur að blasa við að núverandi þingflokkar hafa engar áætlanir um að leggja sjálfa sig niður. Ef þjóðin sameinast um áskorunina til forsetans um að skipa utanþingsstjórn sem leið til að leysa úr því ófremdarástandi sem hér ríkir og skapa frið þá væru þeir tilneyddir til að sætta sig við hana. Þingheimur veit það rétt eins og þjóðin að ef við komumst að samkomulagi þá yrði það dauðadómur þeirra sem þar sitja ef þeir rifu samkomulagið.

Þess vegna yrðu þeir að vinna með utanþingsstjórninni í sátt og samlyndi enda væri það besta veganestið til að komast aftur til valda þegar boðað verður til kosninga að nýju. 

Eru ekki fleiri kostir í stöðunni?

Ég hef bent á það áður að það eru fimm möguleikar í núverandi stöðu:

1. Þjóðstjórn
2. Kosningar
3. Utanþingsstjórn
4. Blóðug bylting
5. Landflótti

Eins og ég rakti hér þá er utanþingsstjórn illskástur þessara möguleika. Með þeirri leið yrðu settir til þess hæfir einstaklingar til að vinna að alvöru lausnum á skuldavanda heimilanna og í atvinnumálum þjóðarinnar. Þessi leið myndi líka búa stjórnlagaþinginu viðunandi starfsskilyrði til að vinna að alvöru lýðræðisumbótum fyrir íslenskt samfélag. Ég bind líka töluverðar vonir við að þessi leið sé sú tryggasta til að binda endi á sölu ríkis og sveitarfélaga á náttúruauðlindunum okkar.

Ég vil skora á þig að kynna þér vel áskorun undirskriftarlistans (sjá hér). Ef þú vilt leggja þessari undirskriftarsöfnun enn frekara lið hvet ég þig til að prenta listann út (sjá hér) og safna enn fleiri undirskriftum þar sem það er nokkuð ljóst að það eru ekki allir sem fylgjast með því sem fram fer í netheimum. Þú getur líka dreift slóðinni og hvatt fólk til að kíkja. Slóðin er: http://utanthingsstjorn.is/


mbl.is Biskup fjallar um reiðina í þjóðlífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er á valdi ógnarafla!

Stundum er það þannig að ógnirnar sem steðja að eru þvílíkar að það finnast bara alls ekki nógu stór orð til að ná utan um þær á einfaldan hátt. Slíkar eru ógnirnar sem steðja að þjóðinni nú á tímum. Þær eru reyndar búnar að steðja að okkur svo lengi að sumir eru að verða þurrausnir við að koma þeim í orð og líður jafnvel eins og þeir séu búnir að vera að segja það sama aftur og aftur frá því haustið 2008.

Jólakór Heimavarnarliðsins og Tunnanna kom saman aftur í dag. Í síðustu viku söng hann fyrir framan Landsbankann í tilefni af alþjóðlegu bankaáhlaupi þann 7. desember sl. (sjá hér). Í dag komum við saman fyrir framan útibú Íslandsbanka í Lækjargötu. Við fengum óvæntan glaðning frá manni sem ég veit ekkert hvað heitir en hann færði okkur texta sem er eftir höfund sem skortir svo sannarlega ekki orðin til að lýsa ástandinu.

Við tókum okkur til og sungum hann við lagið „Ísland er land þitt“. Útkoman er hér:

Hér er textinn:

Ísland er stjórnlaust, því engin því stjórnar.
Ísland er fleki af dýrustu gerð.
afreksmennÍsland er landið sem Flokkurinn fórnar.
Ísland á reki í sjónum þú sérð.
Ísland í forsetans orðanna skrúði. ...
Ísland sem bankanna, auðmönnum gaf.
Ísland sem sonanna afrekum trúði.
Ísland er land sem á verðinum svaf.

Íslensk er þjóðin sem allt fyrir greiðir.
Íslensk er krónan sem fellur hvern dag.
Íslensk er höndin sem afvegaleiðir.
Íslensk er trúin: „Það kemst allt í lag.“

Íslensk er bjartsýna alheimskuviskan
um íslenskan sigur í sérhverri þraut.
Íslensk er góðærisátveisluhryssan
Ísland er fleki af dýrustu gerðsem íslenskan lepur nú kreppunnar graut.

Ísland er landið sem öllu vill gleyma
sem Ísland á annarra hlut hefur gert.
Íslenska þjóð, þér var ætlað að geyma
hið íslenska nafn sem þú hefur nú svert.

Íslandi stýra nú altómir sjóðir.
Ísland nú gengur við betlandi staf.
Að Íslandi sækja nú alls konar þjóðir.
Ísland er sokkið í skuldanna haf.

Sá sem færði okkur þennan texta sagðist ekkert vita um það hver samdi hann. Vissi það eitt að hann hefði borist á vinnustaðinn hans með faxi.

Viðbót: Höfundurinn af þessum stórkostlega texta er Hallgrímur Helgason. Hann „rappaði“ hann sjálfur í Kiljunni hjá Agli Helgasyni þann 19. nóvember 2008. Talandi um það að vera orðin þurrausin fyrir það að vera búin að segja það sama aftur og aftur frá bankahruniWoundering


mbl.is Icesave frumvarpið lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlítið fréttayfirlit

Það hefur litlum fréttum farið af því hvort einhverjir hafi sagt upp viðskiptum sínum við hrunbankanna þrjá í tilefni alþjóðlega bankaáhlaupsins sem var í gær. Ég veit þó um nokkra sem hafa flutt viðskipti sín úr þessum bönkum yfir í annan af tveimur sparisjóðum sem hafa enga ríkisstyrki þegið. En eins og allir ættu að vera farnir að átta sig á þá er eins og það sé sameiginlegt þöggunarátak hjá þeim sem vilja verja gamla kerfið sem leiddu okkur í hrunið.

Það er ekki ætlun mín að fara ýtarlega ofan í þessa sálma heldur að setja hér inn sýnishorn af viðburðum gærdagsins og dagsins í dag. Fyrst er það dæmi um eitt þeirra jólalaga sem var tekið við Landsbankann á alþjóðlegum bankadegi.

Hér er textinn:

Sjö lítil hús voru boðin upp
er bankakerfið fjandans til fór.
Ætlið'ið ekki að hjálpa undrandi ég spurði
en þingið allt svaraði í kór:

Allir saman nú: Einn, tveir, þrír!
Nei, við ætlum að vera svo ósköp þæg og góð,
fyrir okkar alþjóðagjaldeyrissjóð.
Jólunum á þurfið þið að flytja
og við vitum alls ekki hvert!

Kórinn og tónborðsleikarinn eiga eftir að koma saman aftur síðar í mánuðinum og skemmta gestum og gangandi fyrir framan útibú Arion- og Íslandsbanka. Þess má geta að þó við fengjum ekki leyfi til að fara inn í Landsbankann og halda tónleikana þar þá sníktu nokkrir öryggisvarðanna af okkur textablað.

Í dag eru svo tvö ár liðin frá því að hópur fólks heimsótti Alþingi með það fyrir augum að halda upp á þingpalla og lesa yfirlýsingu fyrir þingheim. Þau komust aldrei þangað þar sem þau voru stöðvuð. Níu þeirra hafa mátt sæta pólitískum ofsóknum síðan sem hafa verið rækilega studdar af íslenska dómskerfinu. Það hefur verið gripið til margháttaðra mótmælaaðgerða fyrir það svívirðilega einelti sem þessi hópur sætir en allt hefur komið fyrir ekki. (Sjá nánar hér)

Í dag hittumst við nokkur uppi á þingpöllum til að minna á þetta mál og sýna þessum níu samstöðu. Það dró til tíðinda:

Í framhaldinu voru þingpallar rýmdir og þegar þingfundur hófst að nýju hafði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ákveðið að honum skyldi framhaldið fyrir luktum dyrum. (Sjá hér)


mbl.is Segja að Landsbankinn hafi staðið mun verr en bókhald sagði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælaalda eða upphitun...

Tæmum hrunbankanaMér líður oft eins og ég sé fullkomlega þurrausin þegar ég sest niður og ætla að koma því frá mér á hnitmiðaðan hátt sem farið hefur fram í huga mér yfir daginn. Þetta er eitt af þeim skiptum. Tilefnið að ég sest hér niður núna er að minna á alþjóðlega bankaáhlaupið. Dagurinn í dag mun leiða í ljós hvað verður úr.

Tilefni þess að Íslendingar taka þátt er ærið en það má kannski draga það saman í þann kjarna að þeir sem grípa til einhverra aðgerða vilja sýna stóru hrunbönkunum þremur vandlætingu sína gagnvart þeim. Samkvæmt hugmyndafræði eigenda þeirra og stjórnenda á almenningur að bera hrunið af fullum þunga og svo voga þeir sér að standa í vegi fyrir því að hann fái leiðréttingu á lánasamningum sínum vegna þess forsendubrests sem varð við bankahrunið.

Eins og ég tók fram í gær (sjá hér) þá tóku Heimavarnarliðið og Tunnurnar sig saman og standa fyrir svolítilli uppákomu við bankana í dag. Upphafið verður fyrir framan aðalútibú Landsbankans niður í Austurstræti kl. 14:00. Væntanlega munum við heimsækja útibú Arion- og Íslandsbanka líka en þau eru í nágrenninu. 

En það stendur fleira til.
NíumenningarnirÁ morgun, 8. desember,

[...] verða liðin tvö ár frá því að hópur fólks heimsótti Alþingi með það fyrir augum að halda upp á þingpalla og lesa yfirlýsingu fyrir þingheim. Eins og kunnugt er eru afleiðingarnar m.a. þær að níu manneskjur, úr þessum u.þ.b. þrjátíu manna hópi, hafa verið ákærðar á grundvelli 100. greinar hegningarlaganna, sem lýtur að árásum á sjálfræði Alþingis, og eiga nú yfir höfði sér þunga fangelsisdóma.

Það er ekki ofmælt að kalla ákærurnar pólitískar ofsóknir og við þeim hefur verið brugðist á ýmsan hátt. Meðal annars fór af stað undirskriftalisti þar sem rúmlega sjöhundruð skrifuðu undir „samsekt“ og kröfðumst þess að vera ákærð ásamt nímenningunum. Listinn var svo afhentur Ástu Ragnheiði forseta Alþingis í sumar en það hefur ekki spurst til hans síðan. (Sjá hér)

Á morgun er fólk hvatt til að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til viðveru á þingöllum og sýna með því samstöðu með níumenningunum. Áætlað er að þessar stuðningsaðgerðir vari í um klukkutíma og hefjist kl. 14:30.

Eftir það ætla ég a.m.k. að reyna að eiga jól... en við komum aftur saman í kringum miðjan janúar. Ég geri ráð fyrir að þeir verði nokkrir orðnir óþreyjufullir að grípa til aðgerða þá!

Lýk þessu nú með myndrænni upphitun frá Ásgeiri Ásgeirssyni: Mótmæli from PressPhotos on Vimeo.


mbl.is Erfitt efnahagsástand út 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlegt bankaáhlaup á morgun!

Tíminn líður og á morgun er 7. desember. Á morgun kemur það í ljós hvort almenningur í 28 löndum hefur raunverulega áræði til að ögra bönkunum með því að taka sparifé sitt út af reikningum sínum og/eða færa viðskipti sín yfir í aðra banka.

Eric Cantona, sem er upphafsmaðurinn, er sagður eiga svo mikið sparifé að hann þyrfti ferðatöskur til að koma því öllu út úr bankanum sínum. Margir þeirra sem ætla að taka þátt í þessu hér á landi eiga tæplega nokkurt sparifé og þeir sem eiga sparifé á annað borð eru sennilega flestir með það á bundnum reikningum sem er ekki er hægt að ná út á hvaða tíma sem er. Einhverjir hafa þó fært viðskipti sín úr stóru bönkunum og opnað reikning í öðrum þeirra sparisjóða sem þáðu enga ríkisstyrki enda tók hvorugur þeirra þátt í sukkinu sem varð svo orsökin að bankahruninu.

Það er ljóst að þetta framtak hefur vakið miklu meiri athygli víða erlendis en hér heima á Íslandi enda er það bókstaflega orðin lenska meðal íslenskra fjölmiðla að þegja yfir því sem kemur óþægilega út fyrir íslenska eigna- og valdastétt. Í þessu samhengi má nefna að í síðustu viku hafði einn fréttaritara Reuters samband við eina þeirra sem er skrifuð fyrir atburðinum hér á Íslandi. Atburðurinn er hér en nú hefur verið aukið við hann.

JólasprellHeimavarnarliðið ásamt tunnunum hafa boðað til „jólahátíðar við bankana til að þakka samstarf á liðnu ári. Mælt með því að fólk mæti með jólabjöllur“ og ekki er verra að hafa jólasveinahúfu á kollinum. (Sjá hér)

Það er sem sagt ætlunin að hafa uppákomu til að vekja athygli á þeirri einföldu kröfu að bankarnir þjóni viðskiptavinum sínum en vinni ekki gegn þeim eins og almennir viðskiptavinir bankanna hafa fengið að upplifa svo áþreifanlega á undanförnum misserum.

Það verða sem sagt engar tunnur en aldrei að vita nema einhverjir mæti með hljóðfæri og svo eru þrjár söngelskar konur að æfa nýja útfærslu á jólalögunum. Hér er dæmi sem er nýr texti við lagið: Snjókorn falla

Víxlar falla, á litla kalla,
bankastjórinn skemmtir sér:
Nú er hátíð fjármagnseigendanna
boðið verður undan þér.


Ég vek athygli á því að þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum en það er búið að snúa mörgum fleirum þannig að þeir falla vel að tilefninu. Það eru uppi hugmyndir um að fjölfalda textana og dreifa til þeirra sem mæta og vilja taka undir sönginn. Það er kannski ekki úr vegi að benda á að það er líklegt að fréttamenn frá erlendum fjölmiðlum verði með opin augun fyrir uppákomum við bankana þennan dag.

Við hvetjum því fólk til að mæta kl. 14:00 niður við aðalútibú Landsbankans í Austurstræti þ. 7. desember. Ef tilefni gefst til munum við líka heimsækja útibúi Arion- og Íslandsbanka sem eru í nágrenninu.  Sýnum umheiminum, stjórnvöldum sem láta bankana hafa forgang framyfir almenning, stjórnendum umræddra banka og síðast en ekki síst okkur sjálfum að við erum dugmikil og kjörkuð þjóð sem stöndum með okkur sjálfum!

Nú gerum við það bara á svolítið óvenjulegan og húmorískan hátt! 

Sjá líka þessa færslu hér um alþjóðlega viðburðinn, tilefnið og staðreyndir varðandi þátttöku.


mbl.is Lögum um gengishagnað breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er utanþingsstjórn svarið?

Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt það og sannað að hún annaðhvort vill ekki eða er ekki fær um að gera neitt fyrir heimilin í landinu. Við sjáum það á þessari niðurstöðu sem er útkoma hræðsluviðbragða Jóhönnu og Steingríms við stóru mótmælunum þann 4. okt. sl. Ólafur Arnarsson er þegar búinn að gera úttekt á því samkomulagi sem var undirskrifað fyrr í dag en niðurstaða hans er í stuttu máli sú að: „Aðgerðaáætlunin, sem ríkisstjórnin kynnti í dag, er samin af kröfuhöfum – fyrir kröfuhafa.“ (Sjá hér)

Ég vek hins vegar athygli á því að hér er tæpast hægt að tala um neina aðgerðaráætlun heldur er þetta viljayfirlýsing! Enda heitir plaggið: „VILJAYFIRLÝSING um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna“ Þegar maður les plaggið yfir þá er það allt morandi í orðasamböndum eins og „leitast skal við“ og „beita sér fyrir“. Það er líka ljóst að þetta plagg er ekki svar við kröfum þeirra margþúsunda sem mættu niður á Austurvöll 4. október síðastliðinn. Áður en lengra er haldið langar mig til að vekja sérstaka athygli á þessari frétt úr kvöldfréttum Stöðvar 2.

Viljayfirlýsingin og/eða samkomulagið sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar gerðu við kröfuhafana eingöngu er fyrir margra hluta sakir athyglisvert plagg. Ekki síst fyrir það hvernig textinn endurspeglar það að þau eru í vinnu hjá kröfuhöfum en ekki þeim sem ráða ekki við blóðþyrstar kröfur þeirra. Í upphafi er það m.a.s. tekið fram að það verður ekki gengið lengra í að mæta skuldavanda heimilanna:

Aðilar eru sammála um að með þessum aðgerðum sé með viðhlítandi hætti og eins og fært er brugðist við skuldavanda heimilanna. Mikilvægt er að úrvinnslu verði nú hraðað og ekki eru efni til að vænta frekari aðgerða. (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Skítt með almenning Í síðasta mánuði voru Hagsmunasamtök heimilanna útilokuð frá því að eiga nokkra aðild að því að vinna að lausn á skuldavanda heimilanna. Fréttatíminn og DV tóku það að sér að mála almenning þannig út í horn með því að taka þátt í áróðursstríði gagnvart fulltrúa Hagsmunasamtakanna sem átti aðild að þessu samkomulagi. Hér skal ekkert um það sagt hvort þetta var viljandi ásetningur stjórnenda þessara blaða en sú varð niðurstaðan samt.

Ég vil nota tækifærið og benda á þetta bréf sem formaður Samtakanna sendi Jóhönnu Sigurðardóttur í fyrradag með „Ramma aðgerða til sátta um skuldavanda heimilanna“. Í kjölfar frétta af því samkomulagi sem náðist milli samningsaðila í gær sendu Hagsmunasamtökin hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hafna aðferðafræði stjórnvalda:

Sú aðferðafræði sem stjórnvöld leggja upp með er ekki ný af nálinni og gengur út á að aðlaga stökkbreyttar skuldir að veðrými og greiðslugetu á grundvelli einstakra mála í stað þess að fást við rót vandans. Í aðgerðunum felst eingöngu viðurkenning á óinnheimtanlegum kröfum.

Þá fordæma samtökin þá stefnu stjórnvalda að ætla sér ekki að grípa til frekari aðgerða.  Slíkar yfirlýsingar bera í besta falli vott um alvarlegt vanmat á stöðunni og því viðfangsefni sem um ræðir.  Í versta falli hefur ríkisstjórnin gefist upp.  Sé svo verður hún að víkja. 
(Sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Einhverjir kunna að ímynda sér að hér sé verið að óska eftir kosningum en allir sem hafa fylgst með vita að það er enginn stjórnmálahreyfing eða -flokkur  inni á Alþingi sem er þess megnung/-ur að leysa núverandi stjórnvöld af þó það kæmi til kosninga. Hér er reyndar rétt að undanskilja Sjálfstæðisflokkinn en það er ljóst að það aðgerðar- og dáðleysi stjórnvalda sem nýútgefin viljayfirlýsing felur í sér er Sjálfstæðisflokknum síst á móti skapi þó flokksformaðurinn átelji þau fyrir seinagang í því að fara að þeirra góðu ráðum í þessu sambandi. (Sjá hér og hér)

Tunnan er ekki hljóðnuðEn hvað er þá til ráða? Ég hef áður bent á utanþingsstjórn (sjá kröfuna hér) sem er hugmynd sem kom fram í tunnumótmæl- unum og var reyndar sú meginkrafa sem bar mest á þar! Ríkisstjórnin kaus hins vegar að reyna að drepa málinu á dreif með að veifa götóttri, hvítri dulu sem hún kýs að leggja á borð fyrir þjóðina nú tveimur mánuðum síðar! Ég reikna með að almenningur verði fljótur að átta sig á því hvers lags rifrildi þetta er og hvaða blekkingarleik hún hefur haft í frammi á þeirra kostnað!

Þessi ríkisstjórn svo og langmestur hluti stjórnmálastéttarinnar er ógn við hagsmuni almennings bæði í nútíð og framtíð ef ekki verður gripið í taumana! Þess vegna ríður á að koma hér á stjórn sem neyðir hana til að taka hlutverk sitt og umboð gagnvart almenningi í landinu til rækilegrar endurskoðunar.

Ég hef sagt frá þeirri einu leið sem við höfum til að mynda starfhæfa ríkisstjórn en henni verður sett það meginverkefni að leiðrétta kjör almennings. Þetta er utanþingsstjórn! Á meðan hún starfar hafa stjórnmálaflokkarnir og þingmenn þeirra tækifæri til að ákveða hvort þeir leggi sig niður eða gerir gagngerar breytingar á starfsháttum sínum og -aðferðum!

Ég vil undirstrika það að hin óhæfa stjórnmálastétt, sem hefur lagt þinghúsið niður við Austurvöll undir sig, ógnar ekki aðeins kjörum almennings heldur lýðræðisumbótunum sem áttu að koma með nýrri stjórnarskrá. Ég vek athygli á þessari yfirlýsingu frá þingmönnum Hreyfingarinnar máli mínu til áréttingar.

Mig langar líka til að minna á að Katrín Oddsdóttir, einn hinna nýkjörnu stjórnlagaþingmanna, benti á það í landsfrægri eldræðu, sem hún flutti á laugardagsmótmælum niður á Austurvelli haustið 2008, að utanþingsstjórn væri svarið við vandræðum þjóðarinnar. Vandræði okkar í hnotskurn er spillt stjórnmálastétt sem vinnur fyrir fjármagnseigendur sem kosta þá inn á þing sem... Svo má ekki gleyma Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er hér í boði Sjálfstæðisflokksins en núverandi ríkisstjórn hefur ekki hugrekki til að vísa úr landi heldur unir honum blóðtökunnar

Gerum kjörum okkar og stjórnlagaþinginu þann dýrmæta greiða að fylgja eftir þeirri einu kröfu sem getur bundið endi á það ófriðar- og ófremdarástand sem nú ríkir vegna vanhæfrar og trausti rúinnar stjórnmálastéttar. Dreifum slóðinni inn á hann um allt Netið. Prentum hann líka út og komum honum fyrir sjónir sem flestra. (Hér er  hann í pdf-skjali) Akiterum og útskýrum hvað er í húfi. Göngum svo til kosninga þegar stjórnlagaþingið hefur lokið störfum og lagt grunninn að nýju samfélagi.

Rifjum það að lokum upp sem Katrín Oddsdóttir sagði í ræðu sinni fyrir tveimur árum. Það er virkilega sorglegt hve lítið hefur breyst enda fengu sömu stjórnmálamenn, og ríghéldu kjafti yfir því hvert stefndi fyrir hrun, umboð til að stjórna hér áfram. Katrín bendir á utanþingsstjórnarleiðina undir lok ræðu sinnar (þegar sirka 10:35 mínútur eru liðnar af ræðunni)


mbl.is Hafna aðferðafræði stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlegt bankaáhlaup

Ég ætla að nota þessa frétt til að vekja athygli á alþjóðlegu bankaáhlaupi sem verður núna 7. desember. Hugmyndin að þessari aðgerð kom upphaflega fram í Frakklandi. (Sjá hér) Þar líkt og víðar í heiminum er vaxandi óánægja vegna þess að stjórnvöld þjóna fyrst og fremst bönkunum. Þjónustulund þeirra við bankana bitnar svo á almenningi á þann hátt að smátt og smátt höggva báðir, þ.e. valdhafar og bankar, í réttindi almennings og kjör.
Skref til réttlætisHér á landi hefur þessi staðreynd verið að renna upp fyrir mörgum. Í þessu sambandi má benda á þær viðræður sem hófust í kjölfar stóru mótmælanna 4. okt. sl. Hér er að sjálfsögðu átt við viðræður samráðsnefndarinnar, sem er mynduð af ríkisstjórninni og fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna, við fulltrúa stóru bankanna og lífeyrissjóðanna. Sumir hafa haldið því fram að einhver vilji sé hjá ríkisstjórninni til almennra skuldaleiðréttinga fyrir heimilin en það strandi á fulltrúum fyrrgreindra fjármálastofnana.

Þetta eitt og sér er auðvitað fullgild ástæða fyrir Íslendinga til að taka þátt í því að færa viðskipti sín til banka sem eru enn í sambandi við það hvert hlutverk slíkra stofnana á að vera. Bankastofnanir sem líta svo á að þeim sem frjálst að fara með innistæðurnar eins og sína einkaeign hafa fyrirgert öllu trausti. Hafi þær þar að auki tapað stórfé út á hátternið, fengið það bætt af skattfé almennings og ætlar sér svo enn meira þaðan þá er mælirinn miklu meira en fullur! Það hlýtur því að liggja í hlutarins eðli að segja viðskiptum sínum upp við stofnanir sem koma þannig fram.

Nú hafa verið stofnaðir viðburðir á Fésbókinni í 28 löndum undir yfirskriftinni Bankrun 2010. Þar á meðal þessi hér á Íslandi. Þegar þetta er skrifað hafa u.þ.b. 750 skráð sig til þátttöku og vekur það vissulega athygli í samanburði við hinar þjóðirnar 27 sem hafa stofnað sambærilega viðburði. Hér að neðan er yfirlit yfir þau lönd sem eru komin með fleiri þátttakendur en hér á Íslandi:

  • Frakkland: 30.229 og fjölgar stöðugt (Sjá hér)
  • England:      8.073 og fer fjölgandi (Sjá hér)
  • Ítalía:           7.092 og fer stöðugt fjölgandi (Sjá hér)
  • Spánn:         7.574 og fer fjölgandi (Sjá hér)
  • Þýskaland:   3.000 tölurnar færast ýmist upp eða niður (Sjá hér)
  • Portúgal:      1.853 og fjölgar eitthvað (Sjá hér)
  • Argentína:    1.781 og fjölgar þó það sé hægt (Sjá hér)

Önnur lönd sem taka þátt eru: Albanía, Ástralía, Bandaríkin, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Grikkland, Holland, Írland, Kanada, Kólumbía, Líbanon, Lúxemborg, Mexíkó, Rúmenía, Slóvenía, Sviss, Svíþjóð, Tékkland og Úrúguay. Fésbókarviðburðirnir sem hafa verið stofnaðir fyrir þessi lönd eru með á milli 29-636 þátttakendur. Fæsta í Kanada en það eru Grikkir sem koma næst á eftir Íslendingum.

Hver var að tala um að Íslendingar væru óduglegir við að mótmæla?!?

Yfirlit yfir þátttökulönd er bæði að finna á íslenska viðburðinum og svo hér.


mbl.is Mikil óvissa í Stjórnarráðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ganglegir upplýsingavefir um frambjóðendur og kosningakerfið

Ég vona að þú hafir ákveðið að taka þátt í kosningunum til stjórnlagaþingsins á morgun. E.t.v. ertu búin/-inn að því eða hefur þegar raðað þeim sem þú ætlar að kjósa. Ef ekki langar mig til að benda þér á nokkrar síður sem þú getur farið inn á til að kynna þér kjósendur eða afla þér upplýsinga um kosningakerfið.

  • Svipan.is Þar eru ýtarlegar upplýsingar um frambjóðendur (þ.e. þá sem svöruðu) Hér eru frambjóðendur m.a. spurðir um flokks- og hagsmunatengsl og svo það hvort þeir hafi lesið núverandi Stjórnarskrá ásamt Rannsóknarskýrslu Alþingis.
  • RUV-útvarpsviðtal  Frambjóðendur svara þremur spurningum sem varða það hvort og hvernig þeir vilji breyta stjórnarskránni og hvers vegna þeir bjóða sig fram.
  • Kjóstu! sem er upplýsingavefur frambjóðenda með hagnýtum leiðbeiningum um það hvernig kosningakerfið virkar. Auk þess er bent er á síður inni á DV sem hafa hjálpað sumum við að velja úr öllum þeim fjölda sem býður sig fram.

Ég get auðvitað ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að ég er sjálf í framboði en ég tók saman yfirlit yfir upplýsingar varðandi það sem er hægt að nálgast hér á Netinu um framboð mitt hér.

Að lokum óska ég okkur öllum þess að útkoma þessa stjórnlagaþings verði stjórnarskrá sem verður framtíð íslensku þjóðarinnar og fósturjörðinni okkar til heillaHeart


mbl.is Rúmlega 10 þúsund búin að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband