Alþjóðlegt bankaáhlaup á morgun!

Tíminn líður og á morgun er 7. desember. Á morgun kemur það í ljós hvort almenningur í 28 löndum hefur raunverulega áræði til að ögra bönkunum með því að taka sparifé sitt út af reikningum sínum og/eða færa viðskipti sín yfir í aðra banka.

Eric Cantona, sem er upphafsmaðurinn, er sagður eiga svo mikið sparifé að hann þyrfti ferðatöskur til að koma því öllu út úr bankanum sínum. Margir þeirra sem ætla að taka þátt í þessu hér á landi eiga tæplega nokkurt sparifé og þeir sem eiga sparifé á annað borð eru sennilega flestir með það á bundnum reikningum sem er ekki er hægt að ná út á hvaða tíma sem er. Einhverjir hafa þó fært viðskipti sín úr stóru bönkunum og opnað reikning í öðrum þeirra sparisjóða sem þáðu enga ríkisstyrki enda tók hvorugur þeirra þátt í sukkinu sem varð svo orsökin að bankahruninu.

Það er ljóst að þetta framtak hefur vakið miklu meiri athygli víða erlendis en hér heima á Íslandi enda er það bókstaflega orðin lenska meðal íslenskra fjölmiðla að þegja yfir því sem kemur óþægilega út fyrir íslenska eigna- og valdastétt. Í þessu samhengi má nefna að í síðustu viku hafði einn fréttaritara Reuters samband við eina þeirra sem er skrifuð fyrir atburðinum hér á Íslandi. Atburðurinn er hér en nú hefur verið aukið við hann.

JólasprellHeimavarnarliðið ásamt tunnunum hafa boðað til „jólahátíðar við bankana til að þakka samstarf á liðnu ári. Mælt með því að fólk mæti með jólabjöllur“ og ekki er verra að hafa jólasveinahúfu á kollinum. (Sjá hér)

Það er sem sagt ætlunin að hafa uppákomu til að vekja athygli á þeirri einföldu kröfu að bankarnir þjóni viðskiptavinum sínum en vinni ekki gegn þeim eins og almennir viðskiptavinir bankanna hafa fengið að upplifa svo áþreifanlega á undanförnum misserum.

Það verða sem sagt engar tunnur en aldrei að vita nema einhverjir mæti með hljóðfæri og svo eru þrjár söngelskar konur að æfa nýja útfærslu á jólalögunum. Hér er dæmi sem er nýr texti við lagið: Snjókorn falla

Víxlar falla, á litla kalla,
bankastjórinn skemmtir sér:
Nú er hátíð fjármagnseigendanna
boðið verður undan þér.


Ég vek athygli á því að þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum en það er búið að snúa mörgum fleirum þannig að þeir falla vel að tilefninu. Það eru uppi hugmyndir um að fjölfalda textana og dreifa til þeirra sem mæta og vilja taka undir sönginn. Það er kannski ekki úr vegi að benda á að það er líklegt að fréttamenn frá erlendum fjölmiðlum verði með opin augun fyrir uppákomum við bankana þennan dag.

Við hvetjum því fólk til að mæta kl. 14:00 niður við aðalútibú Landsbankans í Austurstræti þ. 7. desember. Ef tilefni gefst til munum við líka heimsækja útibúi Arion- og Íslandsbanka sem eru í nágrenninu.  Sýnum umheiminum, stjórnvöldum sem láta bankana hafa forgang framyfir almenning, stjórnendum umræddra banka og síðast en ekki síst okkur sjálfum að við erum dugmikil og kjörkuð þjóð sem stöndum með okkur sjálfum!

Nú gerum við það bara á svolítið óvenjulegan og húmorískan hátt! 

Sjá líka þessa færslu hér um alþjóðlega viðburðinn, tilefnið og staðreyndir varðandi þátttöku.


mbl.is Lögum um gengishagnað breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Leyfðu okkur landsbyggðatúttunum að fylgjast með.  Sýnishornið af jólalaginu lofar góðu um framhaldið.   Gangi ykkur vel, hefði svo sannarlega mætt ef ég væri þarna fyrir sunnan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.12.2010 kl. 10:29

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Landsbyggðartúttunum Ég er víst ein af þeim sjálf þó ég búi um þessar mundir í borginni. Þessi aðgerð gegn bönkunum, þ.e.a. færa viðskiptin úr hrunbönkunum yfir í aðra öruggari er einmitt atburður sem er hægt að taka þátt í algjörlega óháð búsetu. En jólaathöfnin... hún er svolítið öðruvísi

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.12.2010 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband