Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Séntilmaður hverfur af þingi

Hundrað fertugasta og fyrsta löggjafarþinginu lauk á þriðja tímanum í fyrrinótt. Frá þessu sagði m.a. í þessari frétt á ruv.is Það sem vakti athygli mína var þetta niðurlag fréttarinnar:

Í þriðju umræðu um frumvarp um kísilver í landi Bakka á fyrsta tímanum í nótt kom til orðahnippinga milli fyrrum flokksbræðranna Steingríms J Sigfússonar, atvinnuvegaráðherra, og Atla Gíslasonar. Atli sagði í síðustu ræðu sinni á þingi meðal annars að þegar hann liti til baka yfir þau fjögur ár sem forysta VG hefði átt aðild að ríkisstjórn blasti við sér sviðin jörð brigða við stefnu og hugsjónir VG. Í andsvari sagði Steingrímur að í enskri tungu væri til orðið "pathetic", ágæt þýðing á því væri lítilmótlegt. Atli sagði í sínu andsvari orð ráðherrans ekki svaraverð.

Steingrímur J. Sigfússon og Atli Gíslason

Fyrir framkomu Steingríms J. Sigfússonar og fyrir það að Atli Gíslason er horfinn af þingi setti ég eftirfarandi saman og birti á fésbókarveggnum mínum:

Atli Gíslason, hefur alltaf átt sérstakan stað í sálu minni fyrir þau gæði sem mér þykja geisla af manninum! Ég er nokkurn veginn 100% viss um að hann hefur einhverja galla eins og við öll en Atli býr yfir slíkum mannkostum að ég get betur fyrirgefið honum bresti eins og þá að vera ekki alltaf tilbúinn til að standa uppi í hárinu á óforbetranlegum kjaftöskum eins og Steingrími J. Sigfússyni sem kann ekki einu sinni að gefa fyrrum samherjum sem eru að hverfa af vettvangi tækifæri til að kveðja á þann hátt sem þeim sýnist!

Atli, um leið og það hryggir mig að sjá að Steingrímur J. Sigfússon gat ekki einu sinni unnt þér uppreisnarinnar þá þakka ég þér af alhug það sem þú hefur lagt íslenskri pólitík! Um leið og ég harma það að pólitíkin hefur sennilega glatað sínu síðasta séntilmenni í bili a.m.k. Vonandi tekst að bjarga henni aftur undan hákörlunum þannig að þar skapist rúm og vinnuaðstæður fyrir jafn kurteisan og hógværan hugsjónamann eins og þig!

Þessa þings verður væntanlega minnst sem þings hinna glötuðu tækifæra. Þings sem hrakti bæði vönduðustu hæfileikana og heiðarlegustu hugsjónirnar út af þingi.

Ef ég ætti mér pólitískan draum þá væri hann sá að sjá þig, Lilju Mósesdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sitja saman að undirbúningi einhvers pólitísks plotts :-)

Hér er uppgjör Atla Gíslason við VG sem hann lét fylgja með ræðu sinni í umræðum um kísilver í landi Bakka. Viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar við því og að lokum andsvar Atla þar sem hann bendir Steingrími J. Sigfússyni á að ummæli hans séu ekki svaraverð.

Áður en kemur að punkti er vert að geta þess að Atli Gíslason hefur á undanförnum vikum unnið með þeim Jóni Bjarnasyni og Bjarna Harðarsyni að því að koma upp framboði á vegum Regnbogans sem mun bjóða fram í næstu kosningum sem regnhlífarsamtök. Stefnan er í anda villikattanna eins og meðfylgjandi mynd vísar til.

Villikettirnir: Jón Bjarnason og Atli Gíslason

Þeir sem vilja rýna niður í verkefni og störf Atla Gíslasonar á nýliðnu þingi skal bent á þetta yfirlit yfir þingmál hans eru góður vitnisburður um að áherslur hans eru trúar þeirri stefnu sem hann var kosinn til að gegna. 


Lokaþáttur stjórnarskrármálþófsins

Það er útlit fyrir að sjái fyrir endann á umræðum um stjórnarskrárfrumvarpið í dag. Öndinni verður þó tæplega varpað léttar nema því verði vísað frá á grundvelli þeirra galla sem það inniheldur. Stærstu gallarnir eru 67. greinin og sú 111.

Greinarnar vega annars vegar að réttinum til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu „um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“ og hins vegar að fullveldinu með því að „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér) Þrátt fyrir þessa galla hafa þingmenn Hreyfingarinnar, og væntanlega framboðin sem þau tilheyra nú, ásamt Lýðræðisvaktinni gert stjórnarskrá með þessum greinum að sínu meginbaráttumáli.

Stjórnarskrá frekasta fólksins

Í reynd virðist munurinn á Samfylkingunni, leifunum af Vinstri grænum, Bjartri framtíð, Lýðræðisvaktinni, Pírötum og Dögun vera enginn þegar kemur að stórum málum eins og Evrópusambandsaðild og stjórnarskrárbreytingum. Þetta hefur komið hvað skýrast fram í því að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi í raun verið fallin fyrir ári síðan þegar litið er á þingmannafjölda þá hefur hún setið keik fram á þennan dag í skjóli þingmanna Hreyfingarinnar og Bjartar framtíðar.

Lýðræðisvaktin á engan inni á þingi nema það ætti að vera augljóst sambandið sem er á milli a.m.k. Þorvaldar Gylfasonar og þingmanna Hreyfingarinnar. Nægir þar að nefna sameiginlegt ferðalag fulltrúa Dögunar og Þorvaldar hringinn í kringum landið sl. haust þar sem tilgangurinn var að kenna landsmönnum að kjósa rétt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um valdar greinar stjórnarskrárfrumvarpsins sl. haust (sjá kennslugögnin hér)

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með framgöngu Hreyfingarþingmannanna á Alþingi eftir að þeir gengu ríkisstjórninni á hönd fyrir ríkisráðsfundinn á Bessastöðum á gamlársdag, 2011. Af þessu tilefni fórnuðu þeir kosningaloforðum sínum sem sneru að efnahags- og lífskjaraumbótum fyrir stjórnarskrármálið. Síðan hafa þau lagt umtalsverðar upphæðir af fyrrum fjármunum Borgarahreyfingarinnar, nú Dögunar, til að fjármagna það að stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs verði að nýrri stjórnarskrá.

Það er óhætt að segja að Hreyfingarþingmennirnir hafi barist með kjafti og klóm fyrir því að koma stjórnarskrárfrumvarpinu til þess að verða að nýrri stjórnarskrár. Oft og tíðum hafa meðul þeirra lyktað af óheilindum og annars konar undirferli. Dæmi um slíkt er myndin hér að neðan sem er tekin 1. október 2011 á útifundi sem Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir í tilefni þingsetningar sem fram fór þann sama dag.

Sögufölsun Hreyfingarinnar

Eins og lesendur rekur eflaust minni til var hin eiginlega Búsáhaldabylting háð undir lok janúar 2009 og fór að öllu jöfnu ófriðsamlegar fram en þessi mynd gefur til kynna. Sennilega eru þeir heldur ekki margir sem eru tilbúnir að kvitta undir það að þessa síðustu daga janúarmánaðar árið 2009 hafi það verið krafan um nýja stjórnarskrá sem hafi knúið þá áfram til þátttökunnar. Myndin hér að ofan er því í versta falli dæmi um sögufölsun.

Þeir sem hafa gert stjórnarskrármálið að forgangsmáli hafa orðið sífellt uppvöðslusamari í kröfu sinni um nýja stjórnarskrá og um leið hafa þeir gerst ósvífnari. Þingmenn Hreyfingarinnar eru þar engin undantekning sem opinberaðist ekki hvað síst í þeirri breytingartillögu sem Margrét Tryggvadóttir lagði fram fimmtudaginn 14 mars sl. (sjá hér)

Slægðin sem liggur í breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur er slík að jafnvel sumum samfylkingarþingmönnunum þótti nóg um eins og fram kemur í neðangreindum orðum Árna Páls Árnasonar. Eftirfarandi orð lét hann falla í andsvaraskiptum sínum við Birgittu Jónsdóttur þ. 18. mars sl. en alls tók umræðan um ný stjórnskipunarlög u.þ.b. tíu klukkustundir  þann dag.

Árni Páll Árnason 18. mars 2013

Þann 18. mars sl. var fyrsti dagurinn í þeirri lotu stjórnarskrárumræðunnar sem má búast við að ljúki í dag. Það er nokkuð víst að enn ríkir engin sátt um stjórnarskrármálið en mánudaginn, 18. mars, var töluverður titringur í þinginu sem hefur viðhaldist síðan og olli ekki síst breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur.

Breytingartillagan setti framhald umræðunnar nefnilega í algera óvissu sem mátti reyndar greina í máli Hreyfingarþingmannanna þó þeir létu sem svo að framlenging þingsins væri ekkert vandamál þegar stjórnarskrármálið er annars vegar. Birgitta Jónsdóttir, núverandi frambjóðandi Pírata, lýsti sig tilbúna til að ræða stjórnarskrána næstu daga og jafnvel vikur.

Birgitta Jónsdóttir 18. mars 2013

Þór Saari, núverandi frambjóðandi Dögunar, vildi ramma stjórnarskrárumræðuna inn í 100 klukkustunda umræðu sem hann ætlaði að tæki eina viku.

Þór Saari 18. mars 2013

Margrét Tryggvadóttir, núverandi frambjóðandi Dögunar, lofaði hins vegar kjósendum því að ef stjórnarskrárfrumvarpið yrði fellt á þessu þingi yrði það forgangsverkefni hennar á því næsta að leggja það fram aftur.

Margrét Tryggvadóttir 18. mars 2013

Þeim, sem vilja sannreyna að hér sé rétt eftir ofangreindum þingmönnum haft, skal bent á þessa slóð hér sem inniheldur fjögur myndbönd með völdum köflum úr stjórnarskrárumræðunni 18. og 19. mars sl.

Mánudaginn 18. mars tóku umræður um stjórnarskrármálið u.þ.b. 10 klukkustundir. Á meðan á þessum umræðum stóð var a.m.k. einum þingmanni sem blöskraði svo tilfinnanlega hvernig þessi umræða bitnaði á öðrum brýnni málefnum að hann þrusaði hnefanum í ræðupúltið og benti á að það væri ekki eitt einasta mál sem snerti skuldamál heimilanna á dagskrá þessa framlengda þings!

Sigurður Ingi Jóhannsson

Því miður er þetta bara eitt dæmið enn um það hvernig forgangsatriðum þessa þings hefur verið háttað og þá einkum stjórnarmeirihlutans. Þeir sem hafa varið ríkisstjórnina falli allt síðasta ár; þ.e. núverandi frambjóðendur Dögunar, Pírata og Bjartar framtíðar, hafa gengist inn á þessa forgangsröðun og stuðlað að henni líka. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa gengið vasklega fram í þessum efnum.

Það sem er alvarlegast í því sem snýr að vantausts- og stjórnarskrármoldviðrinu sem þessi þingmannahópur hefur staðið fyrir er að á meðan þessu sprelli hefur farið fram í sölum Alþingis hafa erlendir hrægammasjóðir verið hér á landi að semja um íslenskar krónueignir í bönkunum.

Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings hafa á síðustu vikum myndað hóp sem gengur undir nafninu krónuhópurinn (e. ISK working group), að því er segir í frétt Fréttablaðsins. Hlutverk hópsins er að kanna forsendur fyrir því að losa um eignir þrotabúanna, sérstaklega í íslenskum krónum. Þær nema tæpum 500 milljörðum króna. Stærstu íslensku eignir þeirra eru stórir eignarhlutir í Íslandsbanka og Arion banka [...] (sjá nánar hér og líka hér)

Stjórnmálamennirnir sem hafa þyrlað upp moldviðri um meingallað stjórnarskrárfrumvarp nú „blekktu velflesta kjósendur í síðustu alþingiskosningum til meðvitundarleysisins um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samninga sem fólu það í sér að þjóðin skyldi borga Icesave. Strax eftir kosningar kom hið sanna í ljós og allt þetta kjörtímabil hefur farið í viðbragðsaðgerðir ýmissa sjálfboðaliðshópa til að viðhalda möguleikanum til mannsæmandi lífskjara hér á landi.“ (sjá hér)

Lykilframbjóðendur Bjartar framtíðar, Dögunar, Lýðræðisvaktarinnar og Pírata hafa tekið virkan þátt í sambærilegum leik að þessu sinni. Það er því ástæða til að hvetja kjósendur til að hafa afleiðingar meðvitundarleysisins vorið 2009 hugfastar þegar kemur að því að þessir haldi því fram síðustu daga fyrir kosningar að þeir muni breyta einhverju í forgangsröðun sinni og starfsháttum hljóti þeir fylgi kjósenda.

Þeir ættu að skammast sín!


mbl.is Lokasprettur á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangur

Í dag hefst önnur vikan sem umræðan um stjórnarskrármálið verður efst á baugi á Alþingi og í fjölmiðlum án þess að hinn eiginlegi tilgangur sem liggur að baki umræðunni liggi á yfirborðinu. Hér hefur ítrekað verið minnt á það að á meðan þessu fer fram renni öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs...

Það er ekki eingöngu vegið að framtíð lands og þjóðar úr launsátri þess moldviðris sem stjórnarskrárumræðan hefur skapað. Framtíðinni stafar nefnilega ekki síður ógn af ýmsum greinum þess stjórnarskrárfrumvarps sem hefur skapað samningaviðræðunum við fulltrúa erlendra hrægammasjóða skjólið.

Hér er ekki síst átt við 111. grein þar sem segir: „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér) Eins og bent var á hér er fyrirliggjandi stjórnarskráfrumvarp nefnilega fyrst og fremst ætlað að uppfylla skilyrði til Evrópusambandsaðildar eins og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir dró svo skýrt fram í svari sínu sem hún veitti Birgittu Jónsdóttur sl. mánudag.

111. greinin

Ástæða þess að enn er verið að ræða stjórnarskrárfrumvarpið nú rúmri viku eftir áætluð þinglok er breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur sem hefur verið líkt við bæði „pólitískt klofbragð“ og „tundurskeyti“. Síðastliðinn mándudagt vísaði Pétur H. Blöndal til síðarnefndu ummælanna á undan fyrirspurn sem hann beindi til Margrétar Tryggvadóttur varðandi það hvort það væri ætlun hennar að eyðileggja fyrir stjórnarskrármálinu og skoraði jafnframt á hana að draga breytingartillögu sína til baka.

Af þessu tilefni notaði Margrét Tryggvadóttir tækifærið og gaf kjósendum sínum kosningaloforð þess efnis að ef hún næði kjöri fyrir næsta kjörtímabil yrði það hennar fyrsta verk að setja stjórnarskrárfrumvarpið aftur á dagskrá verði það fellt nú.

Kosningaloforð Margrétar Tryggvadóttur

Það ætti þess vegna að vera komið á hreint að þeir sem telja að málefni sem tengjast efnahagslegri afkomu heimila og fyrirtækja í landinu svo og málefni sem viðkoma skipan efnahagsmála í landinu hafi orðið fyrir barðinu á þrotlausri umræðu um gallað stjórnarskrárfrumvarp munu tæplega setja Margréti Tryggvadóttur, eða þann flokk sem hún býður sig fram fyrir, sem sinn fyrsta kost í næstu alþingiskosningum.

Þeim sem finnst það aftur á móti brýnt að í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sé ákvæði um fullveldisframsal þannig að af Evrópusambandsaðild geti orðið geta aftur á móti treyst því að Margrét hefur tileinkað sér ýmsa klæki til að það geti orðið að veruleika.


Draumurinn um ESB og stjórnarskrárástríðan

Það er orðið ljóst að ekkert mál hefur tekið meiri tíma nú á lokadögum þingsins en stjórnarskrármálið og vegna þess hefur yfirstandandi þing m.a.s. verið framlengt um óákveðinn tíma. Á meðan liggur það sem stendur hverjum og einum næst, þ.e. lífsafkoman, á milli hluta. Það sem er þó enn skelfilegra er að í fárviðri stjórnarskrárumræðunnar þá hafa farið fram samningaviðræður við hrægammasjóði á vegum Goldman Sachs sem gætu haft þær afleiðingar að efnahagur landsins svo og möguleikarnir til að rétta hann við verða ekkert nema rústir.

Öllu þessu er fórnað fyrir stjórnarskrárfrumvarp sem ýmislegt bendir til að hafi verið sett saman í þeim eina tilgangi að tryggja að kosningaloforð Samfylkingarinnar um inngöngu í Evrópusambandið nái fram að ganga (sjá hér): 

Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild

Margir hörðustu gagnrýnendur stjórnarskrárdraga Stjórnlagaráðs hafa lagt sig í framkróka við að benda á að 111. grein núverandi frumvarps staðfesti að þessi sé megintilgangurinn að baki núverandi stjórnarskrárfrumvarpi en þar segir: „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá hér).

Sigríður Ingibjörg IngadóttirÍ þessu ljósi vekja ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sérstaklega athygli. Ummælin komu fram í svari hennar við spurningum sem Birgitta Jónsdóttir beindi til hennar í umræðu um stjórnskipunarlög sl. þriðjudag. Eftir að Sigríður Ingibjörg hafði lokið ræðu sinni um þá stöðu sem nú er uppi í stjórnarskrármálinu kom Birgitta upp og spurði Birgitta Jónsdóttirhana fyrst hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að næsta þing muni ekki virða niðurstöðu þjóðar-atkvæðagreiðslunnar.

Í framhaldi af svari Sigríðar Ingibjargar kom Birgitta Jónsdóttir aftur upp í ræðustól til að spyrja eftir því hvernig yrði farið með þjóðaratkvæðagreiðsluna um inngöngu í ESB ef ný stjórnarskrá yrði ekki afgreidd á þessu þingi. Svar Sigríðar Ingibjargar hefst á þessum orðum: 

„Ég vil byrja á því að segja varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB þá er það náttúrulega fullljóst að það getur ekki orðið samþykkt á aðild að Evrópusambandinu nema með breytingum á stjórnarskrá og fullveldisframsali - ákvæði um fullveldisframsal í henni“

Af þessu verður ekki betur séð en stjórnarskrárástríðan sem knýr hina svokölluðu vinstri flokka til að safnast saman á Ingólfstorgi laugardag eftir laugardag stjórnist í rauninni af draumnum um ESB-aðild. Á meðan liggur það sem stendur hverjum og einum næst, þ.e. lífsafkoman, á milli hluta.

Það sem er þó enn skelfilegra er að í skjóli fárviðrisins sem þessir hafa skapað umræðunni um nýja stjórnarskrá hafa farið fram samningaviðræður við hrægammasjóði á vegum Goldman Sachs sem stefna framtíðarmöguleikum lands og þjóðar í þann voða að óvíst er að það þurfi 111. grein stjórnarskrárfrumvarpsins til að steypa fullveldinu í þá glötun að það ógni lífsafkomu framtíðarinnar.


Aðvörunarorð Tunnanna

Tunnurnar létu í sér heyra við stefnuræðu forsætisráðherra síðastliðið haust. Þetta var í þriðja skiptið sem Tunnurnar komu fram af þessu tilefni. Eins og áður skrifuðu þær þingmönnum bréf þar sem þær útskýrðu tilefni þess að þær skoruðu á almenning að mæta. Af því sem hefur farið fram á Alþingi að undanförnu þykir mér tilefni til að minna á þau skilaboð sem voru sett fram í fyrsta bréfinu sem var sent á þingmenn í aðdraganda tunnumótmælanna sl. haust.

Tunnurnar gegn sérhagsmunum

                                                                                        Reykjavík 10. september 2012

Hvernig ávarpar maður hóp þingmanna sem flestir eiga það sameiginlegt að hafa lokað skynfærum sínum fyrir því sem fram fer úti í því samfélagi sem kjósendur þeirra byggja? Hvernig ávarpar maður þann hóp sem kjósendur hafa misst svo algerlega álitið á að það er vart mælanlegt lengur? Segir maður: „Góðan daginn!“ og vonar að allir sem tilheyra hópnum glaðvakni og beini sjónum sínum loksins að þjóðinni sem þeir skildu eftir handan gjárinnar sem þingheimur hefur grafið?

Tunnurnar, sem hafa ómað hjartslætti afskiptar þjóðar undir stefnuræðu forsætisráðherra tvö undanfarin ár, harma það hvernig bæði flokkar og flestir þingmenn hafa snúist með fjármálastofnunum gegn almenningi. Þeim svíður sú ofuráhersla á hagsmuni banka og annarra innheimtustofnanna sem hefur einkennt þetta þing líkt og þau á undan.

Við skorum á þingheim að endurskoða verkefnalista þessa síðasta þingárs fyrir kosningar og setja lánamál heimilanna svo og lausn á efnahagsvandanum, sem fjármálastofnanir landsins sköpuðu, í forgang. Í þeim efnum skorum við á alla þingmenn að skoða alvarlega og heiðarlega allar lausnir sem hafa komið fram af gaumgæfni þannig að sú sem verður fyrir valinu feli ekki í sér annað þokkalega fyrirsjáanlegt efnahagshrun.

Á verkefnalista núverandi þings er fyrirsjáanlegt að mörg mikilvæg mál [hér er vísað til rammaáætlunarinnar, kvóta- og stjórnarskrármálsins sem voru sett í forgang fyrir þetta þing] verða tekin fyrir eins og þau sem urðu til þess að þinglok þess síðasta drógust fram undir lok júní. Án þess að gera lítið úr umræddum málaflokkum leyfa Tunnurnar sér að spyrja hvers vegna málefni heimilanna í landinu falla enn og aftur utan verkefnalista þingsins? Getur verið að þingheimur sé annar heimur sem hafi aflokast svo rækilega frá raunveruleikanum að hann hvorki heyri, sjái né skilji þann veruleika sem forgangsröðunin og ákvarðanirnar sem þar eru teknar hafa í raunheimum?

Tunnurnar vilja minna á að fyrir utan steinveggina má sjá afleiðingar forgangsröðunarinnar sem ræður ríkjum innan þeirra. Ef þingmenn líta út um gluggana sjá þeir að heimilis- og atvinnulausu fólki hefur fjölgað, atvinnutækifæri hafa glatast, sístækkandi hópur hefur horfið til að leita sér atvinnu utan landssteinanna á sama tíma og bankastofnanir hirða eignir landsmanna og hafa dómsorð æðsta dómsstóls landsins að engu!

Það ríkir upplausn í samfélaginu sem Alþingi ber ábyrgð á fyrir framgöngu sína. Stærsta efnahagshrun Íslandssögunnar haustið 2008 var sagt stafa af aðgerðarleysi. Aðgerðarleysið nú gæti leitt annað slíkt yfir okkur í náinni framtíð en nú þegar hefur það valdið margs konar hruni sem setur óafmáanlegt mark á alla þjóðina. Hér hefur nefnilega orðið hrun á öllum helstu grunnstoðum samfélagsins sem lúta að lífi meginþorra fólks.

Stefnuræðukvöldið 12. september n.k. munu Tunnurnar enn einu sinni óma hjartslætti þeirrar þjóðar sem hefur verið hundsuð og nú undir síðustu stefnuræðu núverandi forsætisráðherra. Að þessu sinni viljum við minna þingmenn á að ef þeir nota ekki tímann fram að kosningum til raunverulegra aðgerða til að koma á móts við heimilin í landinu og leiðrétta kjör þeirra hópa sem hefur verið gert að bera afleiðingar efnahagshrunsins á meðan gerendunum hefur verið hossað þá mega þeir búast við að verða þurrkaðir út í alþingiskosningunum næsta vor!

Með byltingarkveðjum!

Tunnurnar


mbl.is 36 mál órædd á þingfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfrú og einkavæðingadrottning

Þær fréttir sem hafa verið af dauða Lagarfljóts og nýjustu fréttir af aðgerðum sérstaks saksóknara gefa áfram tilefni til að endurbirta pistla sem ég skrifaði fyrir Rannsóknarskýrslubloggið haustið 2010. Pistillinn sem birtist hér í dag er endurbirtur undir sama heiti og sá upphaflegi.

                                                                    ***

Það er rétt að taka það fram að þó þessi skrif miði fyrst og fremst að því að draga fram ábyrgð Valgerðar Sverrisdóttur á þeim hörmungum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir vegna efnahagshrunsins þá er alls ekki ætlunin að draga úr ábyrgð annarra sem sátu í Ráðherranefnd um einkavæðingu og tóku ákvarðanir um sölu Landsbankans og Búnaðarbankans enda eru nöfn þeirra nefnd hér líka.

Valgerður Sverrisdóttir Valgerður Sverrisdóttir var þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1987 - 2009 og ráðherra í ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á árunum 1999-2007. Fyrst iðnaðar- og viðskiptaráðherra í sex ár (1999-2006) og síðan utanríkis- ráðherra í eitt (2006-2007).

Það var einmitt í tíð hennar, sem viðskipta-ráðherra, sem einkavæðingarferli bankanna gekk í gegn. Bankanna sem fimm árum síðar sliguðu íslenska efnahagskerfið til hruns.

Af þessum sökum er ástæða til að skoða feril hennar í Viðskiptaráðuneytinu og aðkomu hennar að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka. Hér á eftir verður stiklað á stóru hvað þetta varðar með stuðningi af því sem kemur fram í Rannsóknarskýrslunni um söluferli þeirra.

Auk þess sem hér verður vitnað í einstaka fréttir og ummæli hennar sjálfrar hvað varðar einkavæðingu bankanna, virkjunarframkvæmdir austanlands og álvæðingu og skoðun hennar á eigin ábyrgð svo og Framsóknarflokksins á núverandi samfélagsstöðu.

Tilefni þessarar samantektar er  ekki síst það sem segir í 14. grein Stjórnarskráarinnar: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar) Af þessu ætti það að vera ljóst að Valgerður Sverrisdóttir ber ábyrgð á því hvernig komið er í samfélaginu og á þar af leiðandi að svara fyrir hana.

Hér á eftir verður tilefni þess að Alþingi beri að kæra hana fyrir embættisrekstur hennar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra á árunum 1999-2006 þó rökstuddar.

Valgerður tekur við af Finni

Ríkisstjórnin 1999

Myndin hér að ofan er af þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar frá 28. maí 1999-23. maí 2003. Á myndinni eru talið frá vinstri: Tómas Ingi Olrich, Sólveig Pétursdóttir, Páll Pétursson, Guðni Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Ólafur Davíðsson ríkisráðsritari.

Nokkrar hrókeringar urðu í röðum ráðherranna á þessu tímabili en hér er aðeins vakin athygli á því að Valgerður Sverrisdóttir tók við Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á gamlársdag árið 1999 af Finni Ingólfssyni. Það er auðvitað full ástæða til að skoða feril hans en það verður að bíða. Valgerður lét hins vegar þegar til sín taka í nýfengnu embætti við að vinna að túlkun þessarar ríkisstjórnar á stefnumálum sínum.

Það er af mörgum ástæðum merkilegt að lesa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum árið 1999 en hér er markmiðið að beina einkum sjónum að einkavæðingu bankanna. Þess vegna verður látið nægja að benda á það sem snertir hana þar:

Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. [...]

Stefnumörkun á sviði einkavæðingar fari fram í ráðherranefnd um einkavæðingu en undirbúningur og framkvæmd verkefna á þessu sviði verði í höndum framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Áður en sala einstakra ríkisfyrirtækja hefst verði lögð fram í ríkisstjórn áætlun um tímasetningu, fyrirkomulag og ráðstöfun andvirðis af sölu þeirra.

Tekjunum verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið. (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Valgerður Sverrisdóttir á Iðnþingi Á Iðnþingi árið 2001 segist Valgerður vonast til að öllum meginbreytingum á fjármagnsmarkaði verði lokið á yfirstandandi kjörtímabili „en sú veigamesta sé að nú hilli undir að ríkisbankarnir komist í hendur nýrra eigenda og að afskiptum ríkisins í almennri bankaþjónustu ljúki.“ (Sjá hér) „Lögmál frjálsrar samkeppni verður þá að fullu ríkjandi sem leiða ætti til hagsældar fyrir fyrirtæki og almenning.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Á Iðnþingi 2002 er ljóst að starfsorka hennar hefur þó farið að mestu í annað en einkavæðingu bankanna. Þar segir hún nefnilega: „Nýlega hef ég lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Tilgangur frumvarpsins er að afla lagaheimilda fyrir svokallaða Kárahnjúkavirkjun, sem er nauðsynleg vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi sem áformað er að ráðast í á næstu árum.“ (Sjá hér)

Mikið kapp en lítil forsjá 

Þó það sé ekki meginefni þessara skrifa að rekja þátt Valgerðar í álvæðingunni austanlands verður ekki hjá því vikist að hafa nokkur orð þar um. Á sínum tíma lagði hún nefnilega alla sína orku í að vinna virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum þar brautargengi. Hún hefur þó ekki viljað kannast við pólitíska ábyrgð sína í því né verið tilbúin til að svara fyrir gagnrýni varðandi ýmis atriði sem var haldið leyndum í sambandi við viðvaranir og athugasemdir um staðsetningu virkjunarinnar. 

Ögmundur Jónasson víkur að þessu í bloggpistli sínum í ágúst árið 2006 en þaðan er eftirfarandi tilvitnun tekin:

Hin pólitíska ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var tekin í Framsóknarflokknum fyrir margt löngu. Eftir það virðast röksemdir skipta ráðherra Framsóknar engu máli, þær komi pólitíkinni ekkert við. Þær séu bara fyrir embættismenn að glíma við; þeir eigi að svara öllum tæknilegum álitamálum, eins og hvort jarðfræðilegar eða efnahaglsegar forsendur hafi verið fyrir því að ráðast í þessar framkvæmdir! (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Valgerður Sverrisdóttir og stóriðjan Hér er líka ástæða til að víkja að bréfi Bjarna Harðarsonar. Lára Hanna Einarsdóttir birti þetta  bréf í heild sinni á blogginu sínu þ. 11. nóvember 2008 (Sjá hér) Þeir voru fáir sem fylgdu í fótspor hennar við að reyna að snúa umræðunni um þetta bréf að innihaldi þess. Allur hitinn lá í háværri gagnrýni á sendandann fyrir það að kunna ekki almennilega á tölvupóstinn sinn og hvernig hann vildi koma höggi á flokkssystur sína.

Í bréfinu minnir Bjarni Valgerði á þátt hennar og flokksforystu Framsóknarflokksins í hruninu sem var þá nýorðið. Hann bendir henni á þrjú atriði sem hún ber ábyrgð á. Þau eru:

1. Einkavæðing bankanna

2. Innleiðing tilskipunar ESB um raforkumál

3. Áróður fyrir aðild landsins að ESB

Bjarni ásakar Valgerði líka fyrir það að hafa stutt Halldór Ásgrímsson og nýjar áherslur hans í stefnu flokksins. Hann segir reyndar að með formennsku hans hefjist raunasaga Framsóknarflokksins. Ástæðuna segir hann liggja í þeim áherslubreytingum sem Halldór kom á varðandi stefnu flokksins.

Við mótun nýrrar stefnu skipaði Halldór „framtíðarnefnd“ sem vann að breytingunum. Það vekur athygli að Jón Sigurðsson leiddi þessa nefnd og var ætlað að fá Sigurð Einarsson og Bjarna Ármannsson til liðs við sig. Það er þó svo að skilja að sá síðarnefndi hafi afþakkað boðið. 

Bjarni telur upp fjögur atriði sem fólust í þessari nýju stefnu:

1. Í stað þess að standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi átti að gangast undir ESB-valdið í Brussel

2. Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða „frjálst“ markaðshagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB

3. Ísland átti að verða „alþjóleg“ fjármálamiðstöð og skattaparadís

4. Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum átti að vera forsenda þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu (Sjá hér)

Það vekur sérstaka athygli að hér er hvergi minnst á þátt Valgerðar í virkjana- og stóriðjumartröðinni en hér eru hins vegar dregin fram flest önnur sem máli skipta varðandi þátt Framsóknarflokksins í hruninu. Orð Ögmundar Jónassonar og  Bjarna Harðarsonar rökstyðja þó bæði virkan þátt Valgerðar í þeirri atburðarrás sem leiddi til efnahagshrunsins. Þó hún neiti enn hvers kyns sakargiftum:

Aðspurð hvort hún sé ennþá ánægð með Kárahnjúkavirkjun og þær ákvarðanir sem hún tók sem iðnaðarráðherra á sínum tíma sagði Valgerður: „Ég ætla ekki að svara því. Ég er löngu hætt í pólitík.“

Í viðtali sem DV tók við Valgerði í maí árið 2011 sagðist hún aldrei hafa haft efasemdir um að rétt væri að ráðast í framkvæmdirnar við Kárahnjúka. „Þetta var réttlætanlegt en auðvitað hafði þetta í för með sér röskun á náttúrunni. Hvernig væri staðan fyrir austan í dag ef ekki hefði verið farið í þessa framkvæmd?“ spurði hún og lagði áherslu á þá staðföstu trú sína að framleiða þyrfti verðmæti í landinu og „nýta okkar auðlindir.“ (sjá hér)

„Þetta var dálítið barn síns tíma“

Valgerður Sverrisdóttir Fyrsta skrefið í einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka var frumvarp sem Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, lagði fram hinn 5. mars árið 2001. Frumvarpið varðaði breytingu á lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Ísland. (Sjá hér)

Einu breytingarnar sem frumvarpið gerði ráð fyrir að yrðu á lögunum var að veita heimild til sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. (Sjá hér) Hins vegar var engin afstaða tekin til annarra atriða varðandi söluferlið. Í 1. bindi Rannsóknarskýrslunnar er ferill þessa frumvarps reifaður svo og annað sem lýtur að einkavæðingu beggja bankanna (sjá bls. 233-235)

Frumvarpið var samþykkt óbreytt 18. maí 2001 með 35 atkvæðum þingmanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þingmenn Frjálslynda flokksins og Samfylkingar sátu hjá en þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn því. Eins og er áréttað í Rannsóknarskýrslunni var söluheimildin á bönkunum með öllu opin og óákvörðuð samkvæmt þessum lögum. „Öll frekari ákvarðanataka varðandi fyrirkomulag sölunnar fór því ekki fram á vettvangi þingsins heldur hjá stjórnvöldum“ (1. bd. bls. 234-235 (leturbreytingar eru höfundar) 

Það var því í höndum stjórnvalda:
a) hvort ætti að selja annan bankann eða báða
b) hvort þeir skyldu seldir á sama tíma
c) hversu stórir hlutir yrðu seldir
d) á hvaða verði
e) hvaða kröfur eða skilmála átti að gera til kaupenda
e) hvort það væri æskilegt og/eða heimilt að binda kaup eða eigu í bönkunum einhverjum skilyrðum (sbr. 1. bd. bls. 235)

Rannsóknarnefnd Alþingis spurði Valgerði út í þá leið sem var farin við sölu bankanna. Áhersla nefndarinnar snýr að því að fá einhverjar skýringar á því hvers vegna söluheimildin hafi verið höfð svo opin í lögunum og af hverju stjórnvöldum var látið það fullkomlega eftir að ákvarða nánari skilyrði og framkvæmd sölunnar.

Svör Valgerðar eru síst til að vekja manni tiltrú á störfum hennar sem ráðherra: „Já, svona eftir á að hyggja þá er þetta náttúrulega mjög opið en þetta var dálítið barn síns tíma, framkvæmdarvaldið var náttúrulega mjög dóminerandi í þinginu á þeim tíma.“ (1. bd. 235 (leturbreytingar eru höfundar)

Þegar Valgerður var svo spurð um gagnrýni sem kom fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um skort á pólitískri ákvarðanatöku um það hvernig skyldi standa að einkavæðingunni svarar hún „að reglur hefðu verið til um það „hvernig einkavæðingarnefnd skyldi starfa“ og að „Alþingi [hefði] alltaf tækifæri til að spyrja um alla hluti““ (1. bd. bls. 235)

Blinduð trúarsannfæring

Það verður að viðurkennast að margt í svörum Valgerðar frammi fyrir Rannsóknarnefndinni vekur manni bæði furðu og spurningar. Þó er eitt tilsvar hennar sem stendur upp úr en það varðar nánari eftirgrennslan nefndarmanna um afstöðu hennar í sambandi við það fyrirkomulag við sölu bankanna að ákvörðunarvaldið væri allt í höndum ráðherra. Þessu svarar Valgerður: 

„Já, það er sjálfsagt alveg rétt. Þetta var vissulega bara í höndum ríkisstjórnarinnar en [...] það var þó ákveðið ferli í gangi og það voru þá einhverjar kríteríur. Ýmsir héldu að þetta hefði bara allt verið ákveðið af þessum ráðherrum, ekki einu sinni fjórum heldur einhverjum tveimur og svo bara gert. En það var náttúrulega ekki alveg svo slæmt. Og ég nefni þá enn einu sinni þetta HSBC fyrirtæki sem ég hélt að væri voðalega merkilegt en svo veit ég ekkert um það.“ (1. bd. bls. 235 (leturbreytingar eru höfundar)

HSBC

HSBC-fyrirtækið“ sem Valgerður Sverrisdóttir minnist á í tilvitnuninni hér að ofan er banki, reyndar stærsti banki í heimi, með höfuðstöðvar í London. Við einkavæðingu bankanna var óskað eftir tilboðum í ráðgjöf við söluna sem fór þannig að gerður var samningur við breska fjárfestinga-bankann HSBC um verkið. (sbr. 1. bd. 237)

Þess ber að geta að Framkvæmdanefnd um einkavæðingu var falið að vinna að undirbúningi tillagna um fyrirkomulag á sölu bankanna tveggja. Nefndin starfaði undir Ráðherranefnd um sama málefni en hana sátu: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir og Geir H. Haarde

Við lestur Rannsóknarskýrslunnar kemur það berlega í ljós að þegar nær dró sölunni á bönkunum hætti Ráðherranefndin að taka mark á tillögum Framkvæmdanefndarinnar enda fór það svo að einn fulltrúi hennar, Steingrímur Ari Arason, sagði sig úr henni 10. september 2002. (sbr. 1. bd. 266) Uppsögnina sendi hann í bréfi til forsætisráðherra daginn eftir að Ráðherranefndin ákvað að ganga til viðræðna við Samson eignarhaldsfélagið ehf um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum.

Ástæða þess að stjórnvöld völdu Samson-hópinn til viðræðna segir Valgerður Sverrisdóttir eingöngu hafa verið þá að ráðgjafi stjórnvalda við söluna, þ.e. breski fjárfestingabankinn, mat Samson hópinn þannig að „þeir hafi heilmikla faglega þekkingu og séu færir um að kaupa banka“ (1. bd. bls. 263)

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á tveimur atriðum sem koma fram í Skýrslunni í þessu sambandi. Fyrra atriðið kom fram í svörum Valgerðar Sverrisdóttur og Steingríms Ara Arasonar.

Bæði báru um að það hefði vakið athygli sína á þessu stigi í ferlinu að Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmaður einkavæðingarnefndar, hefði tekist á hendur för einsamall til London til fundar við ráðgjafa stjórnvalda um söluna hjá HSBC.

Steingrímur Ari lýsti vitneskju sinni um tilgang fararinnar með þeim orðum að starfsmaðurinn hefði farið á fund HSBS til að „sitja með þeim yfir því hvernig [ætti] að stilla upp matslíkaninu“ þó að „það [hefði átt] að heita að þetta reiknilíkan væri komið frá HSBC-bankanum“ (1. bd. bls. 263) 

Hitt er tölvubréf frá Edward Williams, sem var sá sem fór með ráðgjöfina fyrir hönd HSBC-bankans. Bréfið er dagsett þann 29. ágúst 2002. Bréfið er stílað á fyrrnefndan Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmanns framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Undir lok bréfsins segir:

„By defining the criteria and weighting carefully, it is possible to arrive at the „right“ result in selecting the preferred party, whilst having a semi-scientific justification for the decision that will withstand external critical scrutiny.“ (1. bd. bls. 263)

Björgólfur Guðmundsson Varðandi það blinda traust sem mætti ætla að hafi verið á ráðgjöf HSBC-bankans er vert að benda á eitt atriði til viðbótar. Það varðar það sem Björgólfur Guðmundsson segir um það hvernig þeir, sem kölluðu sig Samson í tilboðinu sem þeir gerðu í Landsbankann, komust á snoðir um það að ríkið hygðist selja hlut sinn í bankanum.

Ef marka má orð hans segir hann að það hafi verið í kokteilboði úti í London þar sem þeir hafi hitt „mann sem er frá HSBC“ sem hafi sagt þeim að hann væri með „mandate“ (tilskipun/umboð) frá íslensku ríkisstjórninni um að hann „megi, eigi að selja bankann.“ (1. bd. bls. 242)

Það kemur kannski ekki á óvart að Steingrímur Ari segir í uppsagnarbréfinu, sem hann skrifar til forsætisráðherra, að ástæðan fyrir úrsögn sinni sé sú að „aðrir áhugasamir kaupendur [hafi] verið sniðgengnir þrátt fyrir að hagstæðari tilboð“. Hann tekur það líka fram að á löngum ferli í nefndinni hafi hann „aldrei kynnst „öðrum eins vinnubrögðum““(1. bd. bls. 266)

Halldór Ásgrímsson Ekki benda á mig

Ráðherranefndin sem tók ákvörðun um það hvernig var staðið að sölu bankanna var, eins og áður segir, skipuð þeim: Davíð Oddssyni, þáverandi forsætis-ráðherra, Geir H. Haarde, þáverandi fjármála-ráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi utanríkisráðherra og Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi viðskiptaráðherra.

Þessi vilja þó ekki kannast við það að þeirra hafi verið ákvarðanirnar heldur vísa til Framkvæmdanefndar um einkavæðingu og fyrrnefndan ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Það er reyndar erfiðleikum háð að rekja það nákvæmlega hvar ákvarðanirnar hafi verið teknar þó það verði að segjast eins og er að allt bendi til þess að það hafi miklu frekar verið hjá Ráðherranefndinni en þeim sem voru undir henni. 

Rannsóknarnefndin athugaði sérstaklega hvort hjá stjórnvöldum væru tiltæk skrifleg gögn um störf RnE sem varpað gætu ljósi á almenn störf og ákvarðanatöku nefndarinnar í söluferlinu, svo sem fundargerðir, en samkvæmt svörum stjórnvalda fundust engin slík gögn í vörslum þeirra. (1. bd. bls. 264)

Davíð Oddsson Einu upplýsingarnar sem rannsóknarnefndin gat aflað sér um störf nefndarinnar var framburður Davíðs Oddssonar og Valgerðar Sverrisdóttur. Af framburði beggja er ljóst að störf hennar hafi verið mjög óformleg og óskipulögð.

Valgerður segir að það hafi verið helst eftir ríkisstjórnarfundi sem nefndarmenn hafi setið saman og átt í einhverjum smáviðtölum. (sbr. 1. bd. bls. 265). Bæði, Davíð og hún, bera því við að málið hafi verið í höndum einkavæðingarnefndar; þ.e Framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Þau segjast bæði hafa reitt sig á ráðgjöf þeirra aðila, sem störfuðu undir þeim og bjuggu tillögur að efnislegum ákvörðunum í hendurnar á þeim, við ákvarðanatöku í söluferli bankanna . Þessir eru annars vegar einkavæðingarnefndin en hins vegar fyrrnefndur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar frá HSBC.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því sem fram kemur í máli Valgerðar varðandi það að Ráðherranefndin hafði aldrei bein samskipti við þennan ráðgjafa (sbr. 1. bd. bls. 266).

Hún segir samt að hún hafi gert „mjög mikið með þá ráðgjöf, ég trúi því að þeir hafi staðið faglega að málum og það kostaði mikla peninga að kaupa þá ráðgjöf að þeim [...].“ Síðan bætir hún við í sambandi við það hvað réð ákvörðunum varðandi sölu bankanna: „Við treystum okkar einkavæðingarnefnd og kannski treystu þeir HSBC eða hvernig það var.“ (1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Það kemur reyndar líka fram í skýrslu Valgerðar hvað þetta varðar að ákvörðunin um það að gagna til samninga við Samson-hópinn um Landsbankann hafi verið frá Davíð Oddssyni komin. (sbr. 1. bd. bls. 267) Steingrímur Ari Arason segir hins vegar að þeir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson hafi verið þeir sem tóku „pólitískar ákvarðanir“ um það hverjir keyptu bankanna. Hann ýjar líka að samskiptum sem hafi átt sér stað á milli stjórnvalda og einstakra aðila úr Samsonar-hópnum í aðdraganda þess að þeir sendu Framkvæmdanefndinni bréf þar sem þeir lýstu áhuga sínum á að kaupa Landsbankann (sbr.1. bd. bls. 267)

Þegar Davíð Oddson er inntur eftir þeirri ábyrgð sem hann ber á söluferli bankanna svarar hann á mjög davíðskan hátt. Hann segir: Ég hef bara búið við það í háa herrans tíð að allt sem er ákveðið hefur verið eignað mér. Með réttu eða röngu.“ Hvað ráðgjöf HSBC varðar segir hann m.a. þetta.

„[Þ]egar þú ræður þér þekktan og góðan sérfræðing í þeim efnum til að setja fram síðan óskir og kröfur, þá mundum við halda að þá mundu öll fagleg og efnisleg sjónarmið, það ætti ekki að koma frá ríkisstjórninni, [...] ráðgjafinn mundi sjá til þess að þau lægju [fyrir] [...] [M]itt hlutverk í þessu er aðallega að veita pólitíska leiðsögn, leiðsögn og yfirstjórn í þessu, ég er ekki síðan í einhverjum detail-um“ (1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Einn handa þér og annar handa mér  

Það þarf ekki að tíunda það að niðurstaðan varð sú að Samson-hópurinn keypti Landsbankann og S-hópurinn Búnaðarbankann. Það var líka farið nokkuð ýtarlega yfir þetta atriði í færslunni Ráðherrarnir fyrstir til að brjóta lögin um einkavæðinguna og afleiðingar þess í færslunni Glæpamenn á beit í bönkunum.

Það er ljóst af því sem þar kemur fram og öllu framansögðu að ráðherrarnir sem áttu sæti í Ráðherranefndinni sveigðu til eigin viðmið til að hrinda einkavæðingu bankanna í framkvæmd. Steingrímur Ari Arason segir líka að haustið 2002 hafi vinnubrögð Framkvæmdanefndar um einkavæðingu líka snúist við á þann hátt að í stað þess að hún ynni upp valkosti fyrir Ráðherranefndina þá hafi hún tekið við fyrirmælum þaðan um efnislegar niðurstöður við val á viðsemjendum. Hann segir reyndar:

„[É]g er 99,9% viss um að [Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson] taka ákvörðun um þetta, að selja báða bankana samtímis, að ganga til viðræðna við S-hópinn um kaup á Búnaðarbankanum og Samson hópinn um kaup á Landsbankanum.“ (1. bd. bls. 267) 

Þetta stangast þó reyndar aðeins á við það sem Valgerður Sverrisdóttir segir um þetta atriði:

„Við tókumst svolítið á, við Davíð, þarna einmitt þegar var verið að ákveða hvort það ætti að auglýsa báða bankana eða annan. Hann vildi bara auglýsa annan, bara Landsbankann. [...] Ja, hann vildi bara að þetta væri svona en ég vildi að þetta væri hinsegin og hafði vinninginn og þótti það nú ekki leiðinlegt.“ (1. bd. bls. 239)

Valgerður Sverrisdóttir Þegar bankarnir voru seldir í kringum áramótin 2002/2003 voru markaðsaðstæður alls ekki hagstæðar. Gagnrýni hvað þetta varðar svarar Valgerður með því að benda á að kjörtímabilið var að líða undir lok og þeim hafi þótt áríðandi að standa við kosningaloforð um einkavæðingu bankanna áður en það yrði úti.

Hún bætir því síðan við að: „það er rétt sem hefur komið fram að það var fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn sem þrýsti á það.“ (1. bd. bls. 239 (leturbreytingar eru höfundar)

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í ræðu sinni sem hún flutti á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 virðist hún alls ekki kannast við að hvorki hún né flokkurinn beri nokkra ábyrgð á afleiðingunum þar sem hún segir: Því fer fjarri að Framsóknarflokkurinn beri ábyrgð á efnahagshruninu, eins og formaður Samfylkingarinnar ýjar gjarnan að." (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Það er til marks um veruleikafirringu Valgerðar Sverrisdóttur að í ræðu sinni bendir hún á að lausnina á þeim erfiðleikum sem samfélagið stendur frammi fyrir, m.a. fyrir embættisverk hennar og Halldórs Ásgrímssonar, sé að finna undir forystu Framsóknarflokksins. Valgerður lauk fyrrnefndri ræðu sinni þannig: 

„Traust þjóðarinnar mun aðeins fást við samhentan flokk sem hefur eitthvað mikilvægt til málanna að leggja. Samvinnuhugsjónin, félagshyggja, jöfnuður og umfram allt manngildi ofar auðgildi eiga að vísa okkur leið – bæði flokknum og þjóðinni til heilla.“ (Sjá hér)

Uns uppgjöri lýkur...

Í tilefni dagsins sem fyrirsögnin á forsíðu Fréttablaðsins er: „Níu ákærðir fyrir stærsta mál sinnar tegundar í heiminum“! finnst mér við hæfi að velja einn þeirra pistla sem ég skrifaði á Rannsóknarskýrslubloggið haustið 2010.

Sá sem varð fyrir valinu birtist 1. september 2009 og nefnist
„Var þeim greitt fyrir að þegja?“

Bjarni Ármannsson
 Lárus Welding Hreiðar Már Sigurðsson
 Ingólfur Helgason Sigurjón Þ. Árnason Halldór I. Kristjánsson

Margir hafa furðað sig á ofurlaunaþegunum sem stýrðu stærstu bönkunum en það er tæplega nokkur maður, utan þeirra sjálfra, sem efast um óheilindi þeirra. Væntanlega voru þeir þó ekki beinir gerendur í efnahagshruninu heldur verkfæri eigendanna. 

Svör bankastjóranna við gagnrýni á þau himinháu laun sem þeir þáðu á árunum frá einkavæðingu og fram að hruni hafa gjarnan verið á þann veg að þeir hafi gengt svo mikill ábyrgð. Hvað sem um ábyrgðina má segja er ljóst að þeir stóðu ekki undir henni gagnvart samfélaginu. Hins vegar má spyrja sig hvort svör þeirra vísi til ábyrgðar gagnvart eigendum bankanna sem komið hefur í ljós að stríddu gegn almannahagsmunum?

Það er nefnilega ljóst að „stærstu eigendur bankanna voru jafnframt í hópi stærstu lántakenda þeirra.“ (8. bindi Skýrslunnar bls. 38) Þeir virtu heldur engar reglur um tryggingar og útlánaáhættu heldur sveigðu þær til ef þeim bauð svo við að horfa. Í þessu ljósi er eðlilegt að maður spyrji sig hvort ofurlaun bankastjóranna í: Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum megi skilja sem svo að þögn þeirra hafi verið eigendunum svona dýr?

Eftirfarandi töflu yfir heildarlaun bankastjóra ofantalinna banka er að finna í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar bls. 43:

 

 

2004

2005

2006

2007

2008

Bjarni Ármannsson

Glitnir

  80.057.080

137.467.312

230.881.360

570.844.544

  11.149.876

Lárus Welding

Glitnir

 

 

 

387.661.792

  35.823.212

Hreiðar Már Sigurðsson

Kaupþing

141.786.672

310.321.280

822.697.408

811.961.856

458.917.504

Ingólfur Helgason

Kaupþing

  55.391.704

139.805.184

126.805.760

129.493.760

  77.966.984

Sigurjón Þ. Árnason

Landsbanki

  42.089.283

112.820.768

218.169.279

234.332.638

355.180.856

Halldór J. Kristjánsson

Landsbanki

  33.775.376

262.887.573

143.907.850

105.839.025

133.628.686


Þetta eru svo stjarnfræðilegar tölur að einstaklingur af mínu kaliberi nær tæpast utan um þær. Ég ætla þó að freista þess að fjalla frekar um þær upplýsingar sem er að finna í þessari töflu. Fyrst skulum við skoða samanlögð heildarlaun þessara bankastjóra fyrir árin 2004-2008 og meðalmánaðarlaun yfir þetta sama tímabil:

 

Samtals

Meðallaun á mán.

Hreiðar Már Sigurðsson

2.545.684.720

42.428.078

Bjarni Ármannsson

1.030.400.172

17.173.336

Sigurjón Þ. Árnason

    962.592.824

16.043.213

Halldór J. Kristjánsson

    680.038.510

  11.333.975

Ingólfur Helgason

    529.463.392

   8.824.389

Lárus Welding

    423.458.004

  17.644.083


Ég ætla að byrja á því að vekja athygli á því að ástæðan fyrir því að Lárus Welding er með lægstu heildarlaunin er sú að hann tók ekki við sem bankastjóri í Glitnis-banka fyrr en árið 2007. Hann hefur því verið annar hæst launaðasti bankastjórinn ef miðað er við meðallaun á mánuði.

Mér þykir líka ástæða til að vekja sérstaka athygli á launum Hreiðars Más Sigurðssonar. Heildarlaun hans eru til dæmis meira en tvöfalt hærri en laun Bjarna Ármannssonar á þessu tímabili og vekur það upp spurningar hvort þögn Hreiðars Más sé dýrmætari en hinna eða hvort leyndarmálin sem honum er ætlað að þegja yfir séu dýrari en þeirra?

Þegar meðalmánaðarlaun þessara bankastjóra eru skoðuð kemur það líka í ljós að laun Hreiðars Más eru margfalt hærri en meðalmánaðarlaun þeirra sem eru með lægstu mánaðarlaunin á þessu tímabili. Þessi samanburður kemur fram hér:

 

2004

2005

2006

2007

2008

Hreiðar Már Sigurðsson

11.815.556

25.860.106

68.558.117

67.663.488

38.243.125

Halldór J. Kristjánsson

  2.814.614

 

 

  8.819.918

 

Sigurjón Þ. Árnason

 

  9.401.730

 

 

 

Ingólfur Helgason

 

 

10.567.146

 

 

Bjarni Ármannson

 

 

 

 

     929.156


Eins og kemur fram í þessari töflu er Hreiðar Már með tæplega fimm sinnum hærri laun árið 2004 en Halldór sem er með lægstu meðallaunin á mánuði það ár. Næsta ár á eftir er lægst launaðasti bankastjórinn, af þessum sex, tæplega þrefalt lægra launaður en Hreiðar Már. Árin 2006 og 2007 verður munurinn enn meiri enda minnir heildarmánaðarlaunasumma Hreiðars Más meira á heildarveltu stórs fyrirtækis en mánaðarhýru eins launamanns.

Árið 2006 eru mánaðarlaun Hreiðars Más nær því tífalt hærri en lægst launaðasti bankastjórinn í þessum samanburði hefur í mánaðarlaun en mánaðarlaun Ingólfs Helgasonar fara samt töluvert yfir árstekjur býsna margra, sem teljast til almennra launþega, það árið. Munurinn dregst eitthvað saman næsta ár á eftir en er þó áttfaldur.

Árið 2008 dragast laun Hreiðars Más svo umtalsvert saman (þó þau séu enn stjarnfræðilega há á minn mælikvarða a.m.k.) og Bjarna Ármannssyni skýtur upp með lægstu meðalmánaðarlaunin fyrir þetta ár. Í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga að hann lét af störfum sem bankastjóri vorið 2007 þannig að samanburðurinn er tæplega marktækur.

Ástæðurnar sem gefnar voru upp fyrir háum launum í bankakerfinu voru einkum samanburður við önnur lönd en laun í fjármálakerfinu fóru verulega hækkandi á þessum tíma. „Við erum í samkeppni um starfsmenn á sumum stöðvunum þar sem við erum að borga mjög lág laun þó að þau, í samhengi hér heima, þættu alveg óheyrilega há. Þau laun  sem ég hef verið með hjá þessum banka síðan 2003 hafa í öllum samanburði við þá sem ég ber mig saman við verið óheyrilega lág. [...]“ segir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings.  (8. bindi Skýrslunnar bls. 43)

Að lokum er sennilega forvitnilegt að skoða hver heildarlaunasumma bankastjóranna var á þeim árum sem hér hafa verið til skoðunar. Á milli ára lítur hún þannig út:

Heildarlaun bankastjóranna fyrir hvert ár

2004

2005

2006

2007

2008

353.100.115

963.302.117

1.542.461.657

2.240.133.615

1.072.667.118


Þegar þessar tölur eru lagðar saman í eina þá kemur út talan: 6.171.664.622,-

Ef kenningin sem sett er fram í hér að framan á við rök að styðjast þá er ljóst að þögnin er dýrkeypt! En það er líka ljóst að það eru þeir sem hafa ekki einu sinni hugmyndaflug til þeirrar ósvífni sem þessir menn gerðu sig seka um sem bera kostnaðinn!!
mbl.is Mikið mæðir á Kaupþingstoppum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikstjórnendurnir á Alþingi

Framhaldsleikritið: „Alþingi leiðir þjóðina til glötunar“, hefur staðið yfir í þinghúsinu í allan dag og spurning hvort allir þeir sem hrópuðu „snilld“ yfir tillegginu sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir (sjá hér) séu enn í sæluvímu eða komnir með timburmenn. Við skulum nefnilega minnast þess að á sama tíma og þetta leikrit stendur yfir „renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs...“ (eins og vikið var að hér)

Úr þinghópi Hreyfingarinnar er það ekki bara Margrét Tryggvadóttir sem hefur lagt sitt af mörkum við að hleypa upp þingstörfum nú síðustu dagana fyrir þinglok og þreyta þannig kjósendur í aðdraganda alþingiskosninganna. Ekki er nema  ein vika síðan Þór Saari lagði fram sína aðra vantrauststillögu á stuttum tíma á ríkisstjórnina en umræðan um þá seinni fór fram síðastliðinn mánudag og stóð í alls fimm klukkutíma. (sjá hér)

Verkfæri ríkisstjórnarinnar

Sumir vilja meina að sú óvenjulega hugmynd að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina, þegar einungis fimm dagar voru eftir af þinginu, sé alls ekki frá Þór sjálfum komin heldur komi hún innan úr Samfylkingunni rétt eins og það „pólitíska klofbragð“ sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir. (sjá hér) Sá orðrómur hefur farið nokkuð víða að einn ötulasti ráðgjafi Hreyfingarþingmannanna, Össur Skarphéðinsson, standi í raun að baki því að Þór Saari lagði fram tvær vantrauststillögur á ríkisstjórnina með stuttu millibili. Tilefni hans sé að losa ríkisstjórnina undan stjórnarskrármálinu.

Hvort sá er tilgangur Hreyfingarþingmannanna skal ekkert fullyrt enda ýmislegt sem bendir til að þau átti sig ekki á því hvað býr að baki því hvernig Samfylkingin etur þeim fram. Reyndar neita þau öllum slíkum staðhæfingum svo og meintum stuðningi þeirra við ríkisstjórnina allt síðastliðið ár og kalla allar ábendingar í þá átt rógburð eða dylgjur.

Hér verður það látið liggja milli hluta hvort um rógburð eða sannleik er að ræða enda líklegt að hið sanna komi í ljós fyrr en síðar. Aftur á móti þá er full ástæða til að vekja athygli á háttalagi utanríkisráðherrans, Össurar Skarphéðinssonar, undir ræðuhöldunum á Alþingi daginn sem seinni vantrauststillagan var til umræðu ásamt tilefninu að baki hennar; þ.e. sl. mánudag sem var 11. mars.

Á meðan þau Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerðu grein fyrir afstöðu sinni var utanríkisráðherrann með stöðug framíköll þar sem hann neri þeim því m.a. óspart um nasir „að hafa gert Þór Saari að leiðtoga lífs síns með því að samþykkja vantrauststillöguna“ (sjá hér) Þetta keyrði um þverbak undir ræðu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.

Ræða hennar tekur rétt rúmar sjö mínútur. Þegar þrjár mínútur eru liðnar byrja framíköllin en alls gjammar hann 16 sinnum fram í ræðu þingmannsins áður en yfir lýkur. Ólína Þorvarðardóttir leggur honum reyndar lið á lokamínútunum:

Ræða Össurar sjálfs vekur svo ekki síður athygli þar sem hann beinlínis notar nafn Þórs Saaris óspart sem einhvers konar gaddakylfu á sjálfsímynd og sjálfsvirðingu þingmanna stjórnarandstöðunnar (sjá ræðuna alla hér)

Jafnvel þó að mér þyki hv. þm. Þór Saari hafa fallið í díkin verð ég að segja að ömurlegast af öllu finnst mér eigi að síður vera virkur stuðningur formanna tveggja stjórnmálaflokka við þá vantrauststillögu sem Þór Saari hefur flutt. [...]

Það sem er sérkennilegt við þá er að þeir breiða yfir nafn og númer, þeir þora ekki að koma hreint til dyranna og þeir leggja ekki fram vantraust í eigin nafni heldur kjósa að fela sig á bak við hið breiða bak hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst það nokkuð broslegt að þessir flokkar sem ganga hér reigðir um sali og telja að þeir séu um það bil að erfa landið og vinna kosningar byrja þá sigurför sína undir forustu hv. þm. Þórs Saaris.

Frú forseti. Kannski hefði ég ekki átt að nota orðið broslegt heldur grátbroslegt í ljósi þess að enginn þingmaður hefur með jafnvafningalausum hætti látið klóru sína rakast um bak og herðablöð þessara tveggja hv. þingmanna og hv. þm. Þór Saari.

Af því að fyrir framan mig situr formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, hv. þm. Illugi Gunnarsson, verð ég að segja að dapurlegast er hlutskipti Sjálfstæðisflokksins. Eru menn búnir að gleyma landsdómsmálinu? Ég er ekki búinn að gleyma því. Það var mér þungbært og erfitt og er það enn.

Ég sá formann Sjálfstæðisflokksins vikna í landsfundarræðu sinni á síðasta ári þegar hann ræddi herförina, réttilega svo nefnda, sem gerð var á hendur föllnum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hver valdi þeim ágæta manni hæðilegustu pólitísku köpuryrðin sem íslensk tunga á að geyma? Það var hv. þm. Þór Saari og það er ekki lengra síðan en í gær sem sá ágæti hv. þingmaður fór nöturlegum orðum um fallinn foringja Sjálfstæðisflokksins.

Í dag, sólarhring síðar, gerist það að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bregður á það prinsipplausa ráð að gerast málaliði hv. þm. Þórs Saaris í herleiðangri hans á hendur ríkisstjórninni. Það eru ill örlög. Menn með réttlæti og sómatilfinningu gráta ekki örlög fórnarlamba slíkra manna einn daginn og slást svo í för með þeim sem málaliðar í næsta stríði.

Mér finnst ótrúlegt að horfa upp á þetta af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ótrúlegt prinsippleysi af forustu þeirra að þora ekki að heyja þessa vantraustsumræðu á eigin grundvelli, á grundvelli eigin stefnu, heldur fela sig á bak við hv. þm. Þór Saari.

Þessi hentistefna er svo undirstrikuð af því að andlag vantrauststillögunnar er sú skoðun hv. þm. Þórs Saaris að stjórnarliðar gangi ekki nógu hart fram í að keyra í gegn frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn, nota bene, er harðastur allra á móti. Það er það skrýtnasta við þessa tragikómedíu. Í reynd eru þeir að lýsa vantrausti á ríkisstjórn fyrir að brjóta ekki með valdi á bak aftur þeirra eigið málþóf og taka með ofbeldi gegnum þingið mál sem þeir eru á móti. Ef þetta er ekki Íslandsmet í prinsippleysi hlýtur það að minnsta kosti að vera Reykjavíkurmet.

Frú forseti. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa í þessum umræðum ausið svartagalli úr öllum sínum keröldum yfir þjóðina og sjá ekki neitt jákvætt sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Það verður þó varla af henni tekið að hún hefur mokað mikið úr flórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig þegar 18 ára stjórnartíð hans lauk með afleiðingum sem munu standa hátt í Íslandssögunni næstu þúsund árin.

Það sem er hlálegast við það allt saman er að enginn hefur lýst því jafnskilmerkilega og einmitt sá maður sem þeir lúta í dag, hinn nýi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, sem aftur og aftur hefur bent á það hversu algjörlega skýrt það kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að fyrst og fremst ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins settu af stað atburðarás sem segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að ekki hafi verið hægt vinda ofan af þegar kom fram um mitt ár 2006.

Þessum manni, sem er búinn að fleiðra þá upp um herðablöð, niðurlægja, skamma og lítillækka, lúta þeir nú í dag. Þeir eru svo deigir að þeir hafa ekki einu sinni kjark til að koma fram undir eigin nafni og númeri til þess að heyja sitt stríð um vantraust á ríkisstjórnina. Það eru kjarklitlir stjórnmálamenn.

... og á meðan þessu hefur farið fram renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs... (eins og bent var á hér)


mbl.is Funda um þinglok klukkan 21:30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í þágu sérhagsmuna

Þetta er níundi laugardagurinn sem frakkaklæddir efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddir draumóramenn safnast saman á Ingólfstorgi og láta sem það sé þjóðarvilji að skerða réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa ríkisstjórninni vald til framsals ríkisvalds til „alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“. (sjá hér)

Að baki mótmælunum standa þeir sem hafa á einn eða annan hátt lagt sig fram um að villa þannig um fyrir innlendri viðspyrnu að sú grasrót sem varð til upp úr bankahruninu lítur nú út eins og eftir sinubruna (sjá bloggpistilinn: Vegavillt viðspyrna) Villumeistararnir hafa splittað sér upp í þrjú framboð sem öll eru eins og lélegt afrit af Samfylkingunni.

Þrjú framboð um það sama Tvö þeirra eiga þingmenn á þingi. Dögun er annað þeirra. Þingmennirnir tveir sem eru félagar þar hafa staðið fyrir hverjum öfgafarsanum á fætur öðrum á fjölum Alþingis á undanförnum vikum. 

Nú síðast er það handrit sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir sem mörgum þykir lykta af þvílíkum klækjabrögðum að líkt hefur verið við „pólitíkst klofbragð“. Yfirlýstur tilgangur er að þvinga stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs upp á þjóðina. Reyndar eru fleiri á því að með þessu muni Margrét Tryggvadóttir ná þeim árangri að ganga frá stjórnarskrármálinu dauðu.

Þar sem það má gera ráð fyrir að þessi sé ekki ætlun Margrétar Tryggvadóttur er eðlilegt að svara þeirri spurningu hvaðan hugmyndin að handritinu er upprunninn. Auðvitað er ekkert öruggt í því sambandi en ýmsir hafa fullyrt að hugmyndin sé komin innan úr Samfylkingunni eins og fleira sem þingmenn þingflokks Hreyfingarinnar hafa haft til málanna að leggja allt síðastliðið ár í það minnsta.

Það allra versta í þessu öllu saman er að á meðan þessir og þeir sem leika sér þannig að öðrum til að halda úti leikritinu: „Alþingi leiðir íslenskan almenning til glötunar“ renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...

Sá þráláti orðrómur hefur nefnilega farið eins og eldur um sinu að fulltrúar Goldman Sachs séu búnir að vera hér á landi síðastliðinn hálfan mánuð (sumir segja sl. níu mánuði) að semja um hvernig þeir nái eignum sínum út úr íslenska hagkerfinu; þ.e. snjóhengjunni. Síðastliðinn hálfan mánuð hafa leikstjórar núverandi ríkisstjórnar att þingmönnum Hreyfingarinnar til hvers farsaþáttarins á fætur öðrum með þeim afleiðingum að almenningur snýr sér að einhverju öðru en að fylgjast með þessari vitleysu...

Stjórnmálamennirnir sem haga sér þannig nú blekktu velflesta kjósendur í síðustu kosningum til meðvitundarleysisins um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samninga sem fólu það í sér að þjóðin skyldi borga Icesave. Strax eftir kosningar kom hið sanna í ljós og allt þetta kjörtímabil hefur farið í viðbragðsaðgerðir ýmissa sjálfboðaliðshópa til að viðhalda möguleikanum til mannsæmandi lífskjara hér á landi.

Það eru þessir sömu stjórnmálamenn ásamt þingmönnunum, sem komust inn á þing vorið 2009 í nafni mótmælaframboðsins, sem bjóða íslenskum kjósendum nú upp á endalausan farsa um stjórnarskrárfrumvarp til að blekkja kjósendur til meðvitundarleysis um samningana sem er verið að gera á bak við tjöldin við hrægammasjóðina.

Frakkaklæddur efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddur draumóramaður

Á meðan safnast frakkaklæddir efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddir draumóramenn saman á Ingólfstorgi hvern laugardag og láta sem það sé þjóðarvilji að skerða réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa ríkisstjórninni vald til framsals ríkisvalds til „alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“. Á meðan renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs...

*******************************
Myndin af vaktstjóra Lýðræðisvaktarinnar og þingmanni Hreyfingarinnar er fengin að láni hjá Árna Stefáni Árnasyni


mbl.is „Lágmarksreisn fyrir þingið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Lagarfljóts...

Bita fyrir bita, fljót fyrir fljót, hérað fyrir hérað, sýslu fyrir sýslu í skjóli skammsýnarinnar þar til allar auðlindirnar liggja dauðar eftir í þjóðareign...

Viðvörun

Bita fyrir bita, fljót fyrir fljót, hérað fyrir hérað, sýslu fyrir sýslu í skjóli skammsýnarinnar þar til allar auðlindirnar liggja dauðar eftir í þjóðareign...

„Má ekki bjóða þér gr. í stjórnarskrá um að andvana náttúra sé eign þín - en varna þér leið til að tryggja náttúrunni líf?“ (tekið að láni í athugasemdakerfinu inn á Fésbókarveggnum mínum)

... hver átti og/eða á Lagarfljót? og skiptir það yfir höfuð máli varðandi það hvernig er fyrir því komið?

Hvaða máli skiptir það fyrir þjóð sem hefur verið svipt réttinum til þjóðaratkvæðagreiðslu um „fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum“ hver á náttúruna? (sjá 67. grein stjórnarskrárfrumvarpsins)


Stríðsmenn nýrrar stjórnarskrár
Skv. stjórnarskrárfrumvarpinu, sem Margrét Tryggvadóttir, og kollegar hennar í þingflokki Hreyfingarinnar, er svo umhugað um að knýja í gegnum þingið fyrir launagreiðenda sinn, þá mun þjóðin í framhaldinu ekki eiga neinn rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um „fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt“ (67. greinin)

Í 111. greininni er ríkisstjórninni gert heimilt að framselja valdi sínu:
„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“.

Þegar horft er til þessara greina er ekki útilokað að gera ráð fyrir að einhver Margrétin eða Össurinn láti sér detta í hug að beita öllum neðanmittisglímuaðferðunum í bókinni til að knýja slíka framsalssamninga fram til atkvæðagreiðslu.

Í þessu ljósi er eðlilegt að spyrja: Hver á Lagarfljót og hverju breytti það eignarhald varðandi örlög Lagarfljóts? Hvers virði verður lærdómurinn sem má draga af örlögum Lagarfljóts ef ríkisvaldið verður framselt til
„alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“?

Ég spyr enn og aftur: Er þjóð sem hefur afsalað sér réttinum til að hafa nokkuð yfir sjálfu sér og landinu sínu að segja einhverju bættari með brauðmola eins og þann að „eiga“ náttúruauðlindirnar til að mega horfa upp á þær deyja!?! Svona rétt eins og Lagarfljót sem hefur verið úrskurðað látið...

Er smánuð þjóð einhverju bættari með ákvæði í stjórnarskrá um réttinn til eignar á náttúru sem hefur verið smánuð til dauðans?!

**********************************

Myndin af þingmönnum Hreyfingarinnar er tekin að láni hjá Óskari Sigurðssyni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband