Séntilmaður hverfur af þingi

Hundrað fertugasta og fyrsta löggjafarþinginu lauk á þriðja tímanum í fyrrinótt. Frá þessu sagði m.a. í þessari frétt á ruv.is Það sem vakti athygli mína var þetta niðurlag fréttarinnar:

Í þriðju umræðu um frumvarp um kísilver í landi Bakka á fyrsta tímanum í nótt kom til orðahnippinga milli fyrrum flokksbræðranna Steingríms J Sigfússonar, atvinnuvegaráðherra, og Atla Gíslasonar. Atli sagði í síðustu ræðu sinni á þingi meðal annars að þegar hann liti til baka yfir þau fjögur ár sem forysta VG hefði átt aðild að ríkisstjórn blasti við sér sviðin jörð brigða við stefnu og hugsjónir VG. Í andsvari sagði Steingrímur að í enskri tungu væri til orðið "pathetic", ágæt þýðing á því væri lítilmótlegt. Atli sagði í sínu andsvari orð ráðherrans ekki svaraverð.

Steingrímur J. Sigfússon og Atli Gíslason

Fyrir framkomu Steingríms J. Sigfússonar og fyrir það að Atli Gíslason er horfinn af þingi setti ég eftirfarandi saman og birti á fésbókarveggnum mínum:

Atli Gíslason, hefur alltaf átt sérstakan stað í sálu minni fyrir þau gæði sem mér þykja geisla af manninum! Ég er nokkurn veginn 100% viss um að hann hefur einhverja galla eins og við öll en Atli býr yfir slíkum mannkostum að ég get betur fyrirgefið honum bresti eins og þá að vera ekki alltaf tilbúinn til að standa uppi í hárinu á óforbetranlegum kjaftöskum eins og Steingrími J. Sigfússyni sem kann ekki einu sinni að gefa fyrrum samherjum sem eru að hverfa af vettvangi tækifæri til að kveðja á þann hátt sem þeim sýnist!

Atli, um leið og það hryggir mig að sjá að Steingrímur J. Sigfússon gat ekki einu sinni unnt þér uppreisnarinnar þá þakka ég þér af alhug það sem þú hefur lagt íslenskri pólitík! Um leið og ég harma það að pólitíkin hefur sennilega glatað sínu síðasta séntilmenni í bili a.m.k. Vonandi tekst að bjarga henni aftur undan hákörlunum þannig að þar skapist rúm og vinnuaðstæður fyrir jafn kurteisan og hógværan hugsjónamann eins og þig!

Þessa þings verður væntanlega minnst sem þings hinna glötuðu tækifæra. Þings sem hrakti bæði vönduðustu hæfileikana og heiðarlegustu hugsjónirnar út af þingi.

Ef ég ætti mér pólitískan draum þá væri hann sá að sjá þig, Lilju Mósesdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sitja saman að undirbúningi einhvers pólitísks plotts :-)

Hér er uppgjör Atla Gíslason við VG sem hann lét fylgja með ræðu sinni í umræðum um kísilver í landi Bakka. Viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar við því og að lokum andsvar Atla þar sem hann bendir Steingrími J. Sigfússyni á að ummæli hans séu ekki svaraverð.

Áður en kemur að punkti er vert að geta þess að Atli Gíslason hefur á undanförnum vikum unnið með þeim Jóni Bjarnasyni og Bjarna Harðarsyni að því að koma upp framboði á vegum Regnbogans sem mun bjóða fram í næstu kosningum sem regnhlífarsamtök. Stefnan er í anda villikattanna eins og meðfylgjandi mynd vísar til.

Villikettirnir: Jón Bjarnason og Atli Gíslason

Þeir sem vilja rýna niður í verkefni og störf Atla Gíslasonar á nýliðnu þingi skal bent á þetta yfirlit yfir þingmál hans eru góður vitnisburður um að áherslur hans eru trúar þeirri stefnu sem hann var kosinn til að gegna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð færsla.  Ég er algjörlega sammála þér með Atla Gíslason, einn af þeim fáu sem hægt er að bera virðingu fyrir á þinginu.  Þetta myndband fór alveg framhjá mér.  Þvílík skömm fyrir allt múligráðherrann. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.3.2013 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband