Álfrú og einkavæðingadrottning

Þær fréttir sem hafa verið af dauða Lagarfljóts og nýjustu fréttir af aðgerðum sérstaks saksóknara gefa áfram tilefni til að endurbirta pistla sem ég skrifaði fyrir Rannsóknarskýrslubloggið haustið 2010. Pistillinn sem birtist hér í dag er endurbirtur undir sama heiti og sá upphaflegi.

                                                                    ***

Það er rétt að taka það fram að þó þessi skrif miði fyrst og fremst að því að draga fram ábyrgð Valgerðar Sverrisdóttur á þeim hörmungum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir vegna efnahagshrunsins þá er alls ekki ætlunin að draga úr ábyrgð annarra sem sátu í Ráðherranefnd um einkavæðingu og tóku ákvarðanir um sölu Landsbankans og Búnaðarbankans enda eru nöfn þeirra nefnd hér líka.

Valgerður Sverrisdóttir Valgerður Sverrisdóttir var þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1987 - 2009 og ráðherra í ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á árunum 1999-2007. Fyrst iðnaðar- og viðskiptaráðherra í sex ár (1999-2006) og síðan utanríkis- ráðherra í eitt (2006-2007).

Það var einmitt í tíð hennar, sem viðskipta-ráðherra, sem einkavæðingarferli bankanna gekk í gegn. Bankanna sem fimm árum síðar sliguðu íslenska efnahagskerfið til hruns.

Af þessum sökum er ástæða til að skoða feril hennar í Viðskiptaráðuneytinu og aðkomu hennar að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka. Hér á eftir verður stiklað á stóru hvað þetta varðar með stuðningi af því sem kemur fram í Rannsóknarskýrslunni um söluferli þeirra.

Auk þess sem hér verður vitnað í einstaka fréttir og ummæli hennar sjálfrar hvað varðar einkavæðingu bankanna, virkjunarframkvæmdir austanlands og álvæðingu og skoðun hennar á eigin ábyrgð svo og Framsóknarflokksins á núverandi samfélagsstöðu.

Tilefni þessarar samantektar er  ekki síst það sem segir í 14. grein Stjórnarskráarinnar: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar) Af þessu ætti það að vera ljóst að Valgerður Sverrisdóttir ber ábyrgð á því hvernig komið er í samfélaginu og á þar af leiðandi að svara fyrir hana.

Hér á eftir verður tilefni þess að Alþingi beri að kæra hana fyrir embættisrekstur hennar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra á árunum 1999-2006 þó rökstuddar.

Valgerður tekur við af Finni

Ríkisstjórnin 1999

Myndin hér að ofan er af þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar frá 28. maí 1999-23. maí 2003. Á myndinni eru talið frá vinstri: Tómas Ingi Olrich, Sólveig Pétursdóttir, Páll Pétursson, Guðni Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Ólafur Davíðsson ríkisráðsritari.

Nokkrar hrókeringar urðu í röðum ráðherranna á þessu tímabili en hér er aðeins vakin athygli á því að Valgerður Sverrisdóttir tók við Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á gamlársdag árið 1999 af Finni Ingólfssyni. Það er auðvitað full ástæða til að skoða feril hans en það verður að bíða. Valgerður lét hins vegar þegar til sín taka í nýfengnu embætti við að vinna að túlkun þessarar ríkisstjórnar á stefnumálum sínum.

Það er af mörgum ástæðum merkilegt að lesa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum árið 1999 en hér er markmiðið að beina einkum sjónum að einkavæðingu bankanna. Þess vegna verður látið nægja að benda á það sem snertir hana þar:

Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. [...]

Stefnumörkun á sviði einkavæðingar fari fram í ráðherranefnd um einkavæðingu en undirbúningur og framkvæmd verkefna á þessu sviði verði í höndum framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Áður en sala einstakra ríkisfyrirtækja hefst verði lögð fram í ríkisstjórn áætlun um tímasetningu, fyrirkomulag og ráðstöfun andvirðis af sölu þeirra.

Tekjunum verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið. (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Valgerður Sverrisdóttir á Iðnþingi Á Iðnþingi árið 2001 segist Valgerður vonast til að öllum meginbreytingum á fjármagnsmarkaði verði lokið á yfirstandandi kjörtímabili „en sú veigamesta sé að nú hilli undir að ríkisbankarnir komist í hendur nýrra eigenda og að afskiptum ríkisins í almennri bankaþjónustu ljúki.“ (Sjá hér) „Lögmál frjálsrar samkeppni verður þá að fullu ríkjandi sem leiða ætti til hagsældar fyrir fyrirtæki og almenning.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Á Iðnþingi 2002 er ljóst að starfsorka hennar hefur þó farið að mestu í annað en einkavæðingu bankanna. Þar segir hún nefnilega: „Nýlega hef ég lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Tilgangur frumvarpsins er að afla lagaheimilda fyrir svokallaða Kárahnjúkavirkjun, sem er nauðsynleg vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi sem áformað er að ráðast í á næstu árum.“ (Sjá hér)

Mikið kapp en lítil forsjá 

Þó það sé ekki meginefni þessara skrifa að rekja þátt Valgerðar í álvæðingunni austanlands verður ekki hjá því vikist að hafa nokkur orð þar um. Á sínum tíma lagði hún nefnilega alla sína orku í að vinna virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum þar brautargengi. Hún hefur þó ekki viljað kannast við pólitíska ábyrgð sína í því né verið tilbúin til að svara fyrir gagnrýni varðandi ýmis atriði sem var haldið leyndum í sambandi við viðvaranir og athugasemdir um staðsetningu virkjunarinnar. 

Ögmundur Jónasson víkur að þessu í bloggpistli sínum í ágúst árið 2006 en þaðan er eftirfarandi tilvitnun tekin:

Hin pólitíska ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var tekin í Framsóknarflokknum fyrir margt löngu. Eftir það virðast röksemdir skipta ráðherra Framsóknar engu máli, þær komi pólitíkinni ekkert við. Þær séu bara fyrir embættismenn að glíma við; þeir eigi að svara öllum tæknilegum álitamálum, eins og hvort jarðfræðilegar eða efnahaglsegar forsendur hafi verið fyrir því að ráðast í þessar framkvæmdir! (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Valgerður Sverrisdóttir og stóriðjan Hér er líka ástæða til að víkja að bréfi Bjarna Harðarsonar. Lára Hanna Einarsdóttir birti þetta  bréf í heild sinni á blogginu sínu þ. 11. nóvember 2008 (Sjá hér) Þeir voru fáir sem fylgdu í fótspor hennar við að reyna að snúa umræðunni um þetta bréf að innihaldi þess. Allur hitinn lá í háværri gagnrýni á sendandann fyrir það að kunna ekki almennilega á tölvupóstinn sinn og hvernig hann vildi koma höggi á flokkssystur sína.

Í bréfinu minnir Bjarni Valgerði á þátt hennar og flokksforystu Framsóknarflokksins í hruninu sem var þá nýorðið. Hann bendir henni á þrjú atriði sem hún ber ábyrgð á. Þau eru:

1. Einkavæðing bankanna

2. Innleiðing tilskipunar ESB um raforkumál

3. Áróður fyrir aðild landsins að ESB

Bjarni ásakar Valgerði líka fyrir það að hafa stutt Halldór Ásgrímsson og nýjar áherslur hans í stefnu flokksins. Hann segir reyndar að með formennsku hans hefjist raunasaga Framsóknarflokksins. Ástæðuna segir hann liggja í þeim áherslubreytingum sem Halldór kom á varðandi stefnu flokksins.

Við mótun nýrrar stefnu skipaði Halldór „framtíðarnefnd“ sem vann að breytingunum. Það vekur athygli að Jón Sigurðsson leiddi þessa nefnd og var ætlað að fá Sigurð Einarsson og Bjarna Ármannsson til liðs við sig. Það er þó svo að skilja að sá síðarnefndi hafi afþakkað boðið. 

Bjarni telur upp fjögur atriði sem fólust í þessari nýju stefnu:

1. Í stað þess að standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi átti að gangast undir ESB-valdið í Brussel

2. Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða „frjálst“ markaðshagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB

3. Ísland átti að verða „alþjóleg“ fjármálamiðstöð og skattaparadís

4. Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum átti að vera forsenda þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu (Sjá hér)

Það vekur sérstaka athygli að hér er hvergi minnst á þátt Valgerðar í virkjana- og stóriðjumartröðinni en hér eru hins vegar dregin fram flest önnur sem máli skipta varðandi þátt Framsóknarflokksins í hruninu. Orð Ögmundar Jónassonar og  Bjarna Harðarsonar rökstyðja þó bæði virkan þátt Valgerðar í þeirri atburðarrás sem leiddi til efnahagshrunsins. Þó hún neiti enn hvers kyns sakargiftum:

Aðspurð hvort hún sé ennþá ánægð með Kárahnjúkavirkjun og þær ákvarðanir sem hún tók sem iðnaðarráðherra á sínum tíma sagði Valgerður: „Ég ætla ekki að svara því. Ég er löngu hætt í pólitík.“

Í viðtali sem DV tók við Valgerði í maí árið 2011 sagðist hún aldrei hafa haft efasemdir um að rétt væri að ráðast í framkvæmdirnar við Kárahnjúka. „Þetta var réttlætanlegt en auðvitað hafði þetta í för með sér röskun á náttúrunni. Hvernig væri staðan fyrir austan í dag ef ekki hefði verið farið í þessa framkvæmd?“ spurði hún og lagði áherslu á þá staðföstu trú sína að framleiða þyrfti verðmæti í landinu og „nýta okkar auðlindir.“ (sjá hér)

„Þetta var dálítið barn síns tíma“

Valgerður Sverrisdóttir Fyrsta skrefið í einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka var frumvarp sem Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, lagði fram hinn 5. mars árið 2001. Frumvarpið varðaði breytingu á lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Ísland. (Sjá hér)

Einu breytingarnar sem frumvarpið gerði ráð fyrir að yrðu á lögunum var að veita heimild til sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. (Sjá hér) Hins vegar var engin afstaða tekin til annarra atriða varðandi söluferlið. Í 1. bindi Rannsóknarskýrslunnar er ferill þessa frumvarps reifaður svo og annað sem lýtur að einkavæðingu beggja bankanna (sjá bls. 233-235)

Frumvarpið var samþykkt óbreytt 18. maí 2001 með 35 atkvæðum þingmanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þingmenn Frjálslynda flokksins og Samfylkingar sátu hjá en þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn því. Eins og er áréttað í Rannsóknarskýrslunni var söluheimildin á bönkunum með öllu opin og óákvörðuð samkvæmt þessum lögum. „Öll frekari ákvarðanataka varðandi fyrirkomulag sölunnar fór því ekki fram á vettvangi þingsins heldur hjá stjórnvöldum“ (1. bd. bls. 234-235 (leturbreytingar eru höfundar) 

Það var því í höndum stjórnvalda:
a) hvort ætti að selja annan bankann eða báða
b) hvort þeir skyldu seldir á sama tíma
c) hversu stórir hlutir yrðu seldir
d) á hvaða verði
e) hvaða kröfur eða skilmála átti að gera til kaupenda
e) hvort það væri æskilegt og/eða heimilt að binda kaup eða eigu í bönkunum einhverjum skilyrðum (sbr. 1. bd. bls. 235)

Rannsóknarnefnd Alþingis spurði Valgerði út í þá leið sem var farin við sölu bankanna. Áhersla nefndarinnar snýr að því að fá einhverjar skýringar á því hvers vegna söluheimildin hafi verið höfð svo opin í lögunum og af hverju stjórnvöldum var látið það fullkomlega eftir að ákvarða nánari skilyrði og framkvæmd sölunnar.

Svör Valgerðar eru síst til að vekja manni tiltrú á störfum hennar sem ráðherra: „Já, svona eftir á að hyggja þá er þetta náttúrulega mjög opið en þetta var dálítið barn síns tíma, framkvæmdarvaldið var náttúrulega mjög dóminerandi í þinginu á þeim tíma.“ (1. bd. 235 (leturbreytingar eru höfundar)

Þegar Valgerður var svo spurð um gagnrýni sem kom fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um skort á pólitískri ákvarðanatöku um það hvernig skyldi standa að einkavæðingunni svarar hún „að reglur hefðu verið til um það „hvernig einkavæðingarnefnd skyldi starfa“ og að „Alþingi [hefði] alltaf tækifæri til að spyrja um alla hluti““ (1. bd. bls. 235)

Blinduð trúarsannfæring

Það verður að viðurkennast að margt í svörum Valgerðar frammi fyrir Rannsóknarnefndinni vekur manni bæði furðu og spurningar. Þó er eitt tilsvar hennar sem stendur upp úr en það varðar nánari eftirgrennslan nefndarmanna um afstöðu hennar í sambandi við það fyrirkomulag við sölu bankanna að ákvörðunarvaldið væri allt í höndum ráðherra. Þessu svarar Valgerður: 

„Já, það er sjálfsagt alveg rétt. Þetta var vissulega bara í höndum ríkisstjórnarinnar en [...] það var þó ákveðið ferli í gangi og það voru þá einhverjar kríteríur. Ýmsir héldu að þetta hefði bara allt verið ákveðið af þessum ráðherrum, ekki einu sinni fjórum heldur einhverjum tveimur og svo bara gert. En það var náttúrulega ekki alveg svo slæmt. Og ég nefni þá enn einu sinni þetta HSBC fyrirtæki sem ég hélt að væri voðalega merkilegt en svo veit ég ekkert um það.“ (1. bd. bls. 235 (leturbreytingar eru höfundar)

HSBC

HSBC-fyrirtækið“ sem Valgerður Sverrisdóttir minnist á í tilvitnuninni hér að ofan er banki, reyndar stærsti banki í heimi, með höfuðstöðvar í London. Við einkavæðingu bankanna var óskað eftir tilboðum í ráðgjöf við söluna sem fór þannig að gerður var samningur við breska fjárfestinga-bankann HSBC um verkið. (sbr. 1. bd. 237)

Þess ber að geta að Framkvæmdanefnd um einkavæðingu var falið að vinna að undirbúningi tillagna um fyrirkomulag á sölu bankanna tveggja. Nefndin starfaði undir Ráðherranefnd um sama málefni en hana sátu: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir og Geir H. Haarde

Við lestur Rannsóknarskýrslunnar kemur það berlega í ljós að þegar nær dró sölunni á bönkunum hætti Ráðherranefndin að taka mark á tillögum Framkvæmdanefndarinnar enda fór það svo að einn fulltrúi hennar, Steingrímur Ari Arason, sagði sig úr henni 10. september 2002. (sbr. 1. bd. 266) Uppsögnina sendi hann í bréfi til forsætisráðherra daginn eftir að Ráðherranefndin ákvað að ganga til viðræðna við Samson eignarhaldsfélagið ehf um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum.

Ástæða þess að stjórnvöld völdu Samson-hópinn til viðræðna segir Valgerður Sverrisdóttir eingöngu hafa verið þá að ráðgjafi stjórnvalda við söluna, þ.e. breski fjárfestingabankinn, mat Samson hópinn þannig að „þeir hafi heilmikla faglega þekkingu og séu færir um að kaupa banka“ (1. bd. bls. 263)

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á tveimur atriðum sem koma fram í Skýrslunni í þessu sambandi. Fyrra atriðið kom fram í svörum Valgerðar Sverrisdóttur og Steingríms Ara Arasonar.

Bæði báru um að það hefði vakið athygli sína á þessu stigi í ferlinu að Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmaður einkavæðingarnefndar, hefði tekist á hendur för einsamall til London til fundar við ráðgjafa stjórnvalda um söluna hjá HSBC.

Steingrímur Ari lýsti vitneskju sinni um tilgang fararinnar með þeim orðum að starfsmaðurinn hefði farið á fund HSBS til að „sitja með þeim yfir því hvernig [ætti] að stilla upp matslíkaninu“ þó að „það [hefði átt] að heita að þetta reiknilíkan væri komið frá HSBC-bankanum“ (1. bd. bls. 263) 

Hitt er tölvubréf frá Edward Williams, sem var sá sem fór með ráðgjöfina fyrir hönd HSBC-bankans. Bréfið er dagsett þann 29. ágúst 2002. Bréfið er stílað á fyrrnefndan Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmanns framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Undir lok bréfsins segir:

„By defining the criteria and weighting carefully, it is possible to arrive at the „right“ result in selecting the preferred party, whilst having a semi-scientific justification for the decision that will withstand external critical scrutiny.“ (1. bd. bls. 263)

Björgólfur Guðmundsson Varðandi það blinda traust sem mætti ætla að hafi verið á ráðgjöf HSBC-bankans er vert að benda á eitt atriði til viðbótar. Það varðar það sem Björgólfur Guðmundsson segir um það hvernig þeir, sem kölluðu sig Samson í tilboðinu sem þeir gerðu í Landsbankann, komust á snoðir um það að ríkið hygðist selja hlut sinn í bankanum.

Ef marka má orð hans segir hann að það hafi verið í kokteilboði úti í London þar sem þeir hafi hitt „mann sem er frá HSBC“ sem hafi sagt þeim að hann væri með „mandate“ (tilskipun/umboð) frá íslensku ríkisstjórninni um að hann „megi, eigi að selja bankann.“ (1. bd. bls. 242)

Það kemur kannski ekki á óvart að Steingrímur Ari segir í uppsagnarbréfinu, sem hann skrifar til forsætisráðherra, að ástæðan fyrir úrsögn sinni sé sú að „aðrir áhugasamir kaupendur [hafi] verið sniðgengnir þrátt fyrir að hagstæðari tilboð“. Hann tekur það líka fram að á löngum ferli í nefndinni hafi hann „aldrei kynnst „öðrum eins vinnubrögðum““(1. bd. bls. 266)

Halldór Ásgrímsson Ekki benda á mig

Ráðherranefndin sem tók ákvörðun um það hvernig var staðið að sölu bankanna var, eins og áður segir, skipuð þeim: Davíð Oddssyni, þáverandi forsætis-ráðherra, Geir H. Haarde, þáverandi fjármála-ráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi utanríkisráðherra og Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi viðskiptaráðherra.

Þessi vilja þó ekki kannast við það að þeirra hafi verið ákvarðanirnar heldur vísa til Framkvæmdanefndar um einkavæðingu og fyrrnefndan ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Það er reyndar erfiðleikum háð að rekja það nákvæmlega hvar ákvarðanirnar hafi verið teknar þó það verði að segjast eins og er að allt bendi til þess að það hafi miklu frekar verið hjá Ráðherranefndinni en þeim sem voru undir henni. 

Rannsóknarnefndin athugaði sérstaklega hvort hjá stjórnvöldum væru tiltæk skrifleg gögn um störf RnE sem varpað gætu ljósi á almenn störf og ákvarðanatöku nefndarinnar í söluferlinu, svo sem fundargerðir, en samkvæmt svörum stjórnvalda fundust engin slík gögn í vörslum þeirra. (1. bd. bls. 264)

Davíð Oddsson Einu upplýsingarnar sem rannsóknarnefndin gat aflað sér um störf nefndarinnar var framburður Davíðs Oddssonar og Valgerðar Sverrisdóttur. Af framburði beggja er ljóst að störf hennar hafi verið mjög óformleg og óskipulögð.

Valgerður segir að það hafi verið helst eftir ríkisstjórnarfundi sem nefndarmenn hafi setið saman og átt í einhverjum smáviðtölum. (sbr. 1. bd. bls. 265). Bæði, Davíð og hún, bera því við að málið hafi verið í höndum einkavæðingarnefndar; þ.e Framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Þau segjast bæði hafa reitt sig á ráðgjöf þeirra aðila, sem störfuðu undir þeim og bjuggu tillögur að efnislegum ákvörðunum í hendurnar á þeim, við ákvarðanatöku í söluferli bankanna . Þessir eru annars vegar einkavæðingarnefndin en hins vegar fyrrnefndur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar frá HSBC.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því sem fram kemur í máli Valgerðar varðandi það að Ráðherranefndin hafði aldrei bein samskipti við þennan ráðgjafa (sbr. 1. bd. bls. 266).

Hún segir samt að hún hafi gert „mjög mikið með þá ráðgjöf, ég trúi því að þeir hafi staðið faglega að málum og það kostaði mikla peninga að kaupa þá ráðgjöf að þeim [...].“ Síðan bætir hún við í sambandi við það hvað réð ákvörðunum varðandi sölu bankanna: „Við treystum okkar einkavæðingarnefnd og kannski treystu þeir HSBC eða hvernig það var.“ (1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Það kemur reyndar líka fram í skýrslu Valgerðar hvað þetta varðar að ákvörðunin um það að gagna til samninga við Samson-hópinn um Landsbankann hafi verið frá Davíð Oddssyni komin. (sbr. 1. bd. bls. 267) Steingrímur Ari Arason segir hins vegar að þeir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson hafi verið þeir sem tóku „pólitískar ákvarðanir“ um það hverjir keyptu bankanna. Hann ýjar líka að samskiptum sem hafi átt sér stað á milli stjórnvalda og einstakra aðila úr Samsonar-hópnum í aðdraganda þess að þeir sendu Framkvæmdanefndinni bréf þar sem þeir lýstu áhuga sínum á að kaupa Landsbankann (sbr.1. bd. bls. 267)

Þegar Davíð Oddson er inntur eftir þeirri ábyrgð sem hann ber á söluferli bankanna svarar hann á mjög davíðskan hátt. Hann segir: Ég hef bara búið við það í háa herrans tíð að allt sem er ákveðið hefur verið eignað mér. Með réttu eða röngu.“ Hvað ráðgjöf HSBC varðar segir hann m.a. þetta.

„[Þ]egar þú ræður þér þekktan og góðan sérfræðing í þeim efnum til að setja fram síðan óskir og kröfur, þá mundum við halda að þá mundu öll fagleg og efnisleg sjónarmið, það ætti ekki að koma frá ríkisstjórninni, [...] ráðgjafinn mundi sjá til þess að þau lægju [fyrir] [...] [M]itt hlutverk í þessu er aðallega að veita pólitíska leiðsögn, leiðsögn og yfirstjórn í þessu, ég er ekki síðan í einhverjum detail-um“ (1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Einn handa þér og annar handa mér  

Það þarf ekki að tíunda það að niðurstaðan varð sú að Samson-hópurinn keypti Landsbankann og S-hópurinn Búnaðarbankann. Það var líka farið nokkuð ýtarlega yfir þetta atriði í færslunni Ráðherrarnir fyrstir til að brjóta lögin um einkavæðinguna og afleiðingar þess í færslunni Glæpamenn á beit í bönkunum.

Það er ljóst af því sem þar kemur fram og öllu framansögðu að ráðherrarnir sem áttu sæti í Ráðherranefndinni sveigðu til eigin viðmið til að hrinda einkavæðingu bankanna í framkvæmd. Steingrímur Ari Arason segir líka að haustið 2002 hafi vinnubrögð Framkvæmdanefndar um einkavæðingu líka snúist við á þann hátt að í stað þess að hún ynni upp valkosti fyrir Ráðherranefndina þá hafi hún tekið við fyrirmælum þaðan um efnislegar niðurstöður við val á viðsemjendum. Hann segir reyndar:

„[É]g er 99,9% viss um að [Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson] taka ákvörðun um þetta, að selja báða bankana samtímis, að ganga til viðræðna við S-hópinn um kaup á Búnaðarbankanum og Samson hópinn um kaup á Landsbankanum.“ (1. bd. bls. 267) 

Þetta stangast þó reyndar aðeins á við það sem Valgerður Sverrisdóttir segir um þetta atriði:

„Við tókumst svolítið á, við Davíð, þarna einmitt þegar var verið að ákveða hvort það ætti að auglýsa báða bankana eða annan. Hann vildi bara auglýsa annan, bara Landsbankann. [...] Ja, hann vildi bara að þetta væri svona en ég vildi að þetta væri hinsegin og hafði vinninginn og þótti það nú ekki leiðinlegt.“ (1. bd. bls. 239)

Valgerður Sverrisdóttir Þegar bankarnir voru seldir í kringum áramótin 2002/2003 voru markaðsaðstæður alls ekki hagstæðar. Gagnrýni hvað þetta varðar svarar Valgerður með því að benda á að kjörtímabilið var að líða undir lok og þeim hafi þótt áríðandi að standa við kosningaloforð um einkavæðingu bankanna áður en það yrði úti.

Hún bætir því síðan við að: „það er rétt sem hefur komið fram að það var fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn sem þrýsti á það.“ (1. bd. bls. 239 (leturbreytingar eru höfundar)

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í ræðu sinni sem hún flutti á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 virðist hún alls ekki kannast við að hvorki hún né flokkurinn beri nokkra ábyrgð á afleiðingunum þar sem hún segir: Því fer fjarri að Framsóknarflokkurinn beri ábyrgð á efnahagshruninu, eins og formaður Samfylkingarinnar ýjar gjarnan að." (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Það er til marks um veruleikafirringu Valgerðar Sverrisdóttur að í ræðu sinni bendir hún á að lausnina á þeim erfiðleikum sem samfélagið stendur frammi fyrir, m.a. fyrir embættisverk hennar og Halldórs Ásgrímssonar, sé að finna undir forystu Framsóknarflokksins. Valgerður lauk fyrrnefndri ræðu sinni þannig: 

„Traust þjóðarinnar mun aðeins fást við samhentan flokk sem hefur eitthvað mikilvægt til málanna að leggja. Samvinnuhugsjónin, félagshyggja, jöfnuður og umfram allt manngildi ofar auðgildi eiga að vísa okkur leið – bæði flokknum og þjóðinni til heilla.“ (Sjá hér)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk fyrir þessa þörfu upprifjun Rakel. Ég vil benda fólki á að horfa á frábæra mynd sem heitir:  Draumalandið.

Það ætti að skylda alla Íslandsbúa til að horfa á þá frábæru mynd.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.3.2013 kl. 21:24

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta er ''masterpice'' Rakel. Gott að fá svona upprifjun. Greinin er komin og geymd á Kindle lesbókina mína. Anna. Draumalandið er flott og ætti að vera skyldu áhorf fyrir þingmenn einusinni í mánuði.

Valdimar Samúelsson, 21.3.2013 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband