Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Á kostnað framtíðarinnar

Það muna e.t.v. einhverjir eftir þeim gjörningi sem myndin hér að neðan sýnir en það var Katrín Snæhólm sem vakti athygli mína á honum á sínum tíma með bloggi og myndbirtingum.

Félagsgjaldið þitt í kapítalismanum

Það var í desember 2008 sem aðgerðarhópur, sem hafði tekið virkan hátt í mótmælaaðgerðum haustsins, tók sig til og bætti við andlitsmyndirnar sem skreyttu barnavegginn svokallaða. Á verðmiðunum sem voru límdir yfir andlitin er upphæðin sem reiknað var út að yrði gjaldið sem þessi og önnur íslensk börn þyrftu að bera vegna bankahrunsins.

Síðan þetta var hefur þjóðinni tekist að forða því að skuldir eigenda bankanna vegna Icesave félli á framtíðarkynslóðir landsins. Baráttan var oft og tíðum tvísýn ekki síst fyrir skefjalausan hræðsluáróður bæði stjórnmálamanna og ýmissa fræðimanna í háskólum landsins. 

Það er ekki ætlunin að fara í neina ýtarlega upprifjun á þessum ummælum hér. Þó finnst mér ástæða til að minna á það sem Ólína Þorvarðardóttir færði í orð á bloggi sínu. Ástæðan eru orðin sem hún lét falla á Alþingi í síðustu viku vegna þróunarinnar í stjórnarskrármálinu:

„Þetta er þyngra en tárum taki og ég lýsi sorg yfir því hvernig þetta mál er statt og andúð á vinnubrögðum Alþingis,“ sagði Ólína Þorvarðardóttir um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi í dag. Ólína sagðist eiga erfitt með að taka til máls vegna sorgar yfir því hvernig farið hefði verið með málið í þinginu.

Hrikalegt væri að sitja undir andsvörum sjálfstæðismanna í skætingstóni eftir allt það sem á undan væri gengið. „Þessi atburðarás er öll í boði Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Ólína. (sjá hér)

Í þessu samhengi þykir mér verra fullt tilefni til að rifja það upp sem hún sagði um Icesave haustið 2010. Þann 19. október það ár birti hún færslu á bloggvettvangi sínum á Eyjunni sem ber heitið: Þjóðinni hollt að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave? Til að svara spurningunni í fyrirsögninni vitnar hún í niðurstöðu prófessors í heimspeki við Háskólann á Akureyri sem hann hafði opinberað í Silfri Egils deginum áður. Niðurstaða prófessorsins, sem samfylkingarkonan tók undir á blogginu sínu, er eftirfarandi:

Það er siðferðilega hollt fyrir íslenska þjóð að taka á sig Icesave-skuldbindingarnar. Þar með tekur almenningur þátt í því að þrífa til eftir hrunið og leggja drög að nýrri uppbyggingu. Þar með er einnig tryggt að þjóðin gleymir ekki því sem gerðist, a.m.k. ekki á meðan hún ber byrðarnar af því.

Þessi skrif þingkonunnar vöktu að vonum þó nokkur viðbrögð. Vegna hitans sem kom fram í sumum þeirra hefur þingkonan sennilega fundið sig nauðbeygða til að svara. Þá færslu nefndi hún Siðferði og sálarstyrkur. Í færslunni segir hún m.a. þetta:

[...] þegar hamfarir eiga sér stað, er þó skömminni skárra að taka þátt í björgunarstörfum, hreinsun á vettvangi og uppbyggingunni , heldur en að standa aðgerðalaus hjá. Það er siðferðilega og sálrænt séð betra heldur en að gnísta tönnum í bræði og finna engan farveg fyrir særða réttlætiskennd og sanngjarna reiði.

Sá sem aðstoðar á vettvangi er ekki í öfundsverðum sporum – en hann er þó betur settur en hinn sem gefur sig á vald reiðitilfinningum og aðgerðaleysi.

Þeir sem hafa horfst í augu við það sem fram fer meðal þeirra sem hafa komist til valda átta sig væntanlega á því hve varasamt það getur reynst að treysta þessum einstaklingum. Það blasir þess vegna væntanlega við mörgum að það er eitthvað annað sem býr að baki þeirri tilfinningastjórnun sem Ólína og fleiri hafa brugðið fyrir sig í stjórnarskrármálinu.

Það gæti reyndar verið mjög gagnlegt að rifja það upp sem haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í þessari frétt: Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild og setja orð hennar í samhengi við þann atgang og örvæntingu sem hefur einkennt framgöngu stjórnarskrársinnanna að undanförnu.

Það gæti líka verið ganglegt að tengja það saman að margir þeirra sem hafa hæst um stjórnarskrárfrumvarpið nú eru ekki aðeins ESB-aðildarsinnar heldur  voru alls ekki fráhverfir þeirri skoðun, sem kemur fram í skrifum Ólinu Þorvarðardóttur, varðandi skyldur þjóðarinnar gagnvart Icesave.

Verða þau svipt réttinum til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál?

Það sem situr eftir er þetta: Við björguðum framtíðarkynslóðum Íslands undan Icesave en tekst okkur að bjarga þeim undan stjórnarskrá sem sviptir þau réttinum til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni eins og Icesave?! (sjá hér) Það er líka ástæða til að vekja athygli á möguleikanum sem er opnaður á framsali ríkisvalds „til alþjóðlegra stofnana“ í umræddu stjórnarskrárfrumvarpi. (sjá hér)

**********************************************************************

Bloggið hér að ofan er að nokkru leyti byggt á eldri bloggfærslu frá því í október 2010


Bankanum er sama um þig

Haustið 2010 tóku nokkrir einstaklingar sig saman og komu upp sérstöku bloggsvæði til að vekja athygli á niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis. Bloggsíðan var stofnuð 24. ágúst 2010 og lifði fram til atkvæðagreiðslunnar um landsdóm 28. september 2010. Þar sem ekkert uppgjör hefur farið fram eftir hrunið á margt af því sem þar var skrifað fullt erindi enn.

Hér er endurbirt færsla sem fjallar um breytinguna, sem átti sér stað við einkavæðinguna, á starfsemi bankanna. Færslan sem um ræðir heitir: Takmarkalaust virðingarleysi gagnvart almenningi Hún er birt hér með minni háttar frávikum sem koma einkum fram í því að hér hafa verið settar millifyrirsagnir og sett ný lok sem eru í sérstökum kafla.

Fjárfestingabankar í stað viðskiptabanka

Það má gera ráð fyrir að eftirfarandi lýsing sé sú mynd sem flestir hafa hingað til gert sér af eðlilegri bankastarfsemi:

Hefðbundin bankastarfsemi felst í því að taka við innlánum frá sparifjáreigendum, sem vilja geyma fjármuni sína í lengri eða skemmri tíma, og lána áfram til arðbærra verkefna. Bankinn er fjárvörsluaðili þeirra sem trúa honum fyrir sparifé sínu og þarf að vera gætinn í lánum til annarra þannig að hann verði ekki fyrir of miklum útlánatöpum. Lögð hefur verið áhersla á þá ímynd að að bankinn beri umfram allt hag viðskiptavinarins fyrir brjósti og í því skyni hafa í áranna rás þróast íhaldssamar reglur í þessum samskiptum. (bls. 59)

Búa til peninga Fyrir einkavæðinguna nutu íslenskar fjármálastofnanir trausts sem grundvallaðist á þessari mynd. Á þeim ellefu árum sem eru liðin frá því að hún átti sér stað hefur þetta heldur betur snúist við. Við einkavæðinguna hófust hinir nýju eigendur þeirra handa við að breyta bönkunum, sem þeir komust yfir, úr hefðbundnum innlánsstofnunum í fjárfestingabanka sem hafa það hlutverk að þjónusta viðskiptalíf og stóra fjárfesta. Tekjur fjárfestingabanka byggjast ekki á muninum á innláns- og útlánsvöxtum heldur þóknunum fyrir þjónustuna við viðskiptalífið og stóra fjárfesta.

Almenningur fylgdi ofangreindum breytingum ekki eftir [heldur] treysti bankanum sínum eins og hann hafði alltaf gert . Fæstir gerðu sér grein fyrir að með nýjum tímum voru komnir gjörbreyttir siðir. (bls. 59)

Almenningur varð varan sem gaf arð

Viðskiptavinirnir gerðu sér þess vegna ekki grein fyrir að ekki var lengur litið á þá sem skjólstæðinga bankanna heldur sem vöru sem gat gefið arð. Samkeppni, bæði á milli bankanna og innan þeirra, jókst gríðarlega. Bankarnir kepptust við að bjóða í viðskiptavini samkeppnisaðilanna með alls kyns gylliboðum og innan bankanna var komið upp söluhvetjandi bónuskerfi. 

Bankanum er sama um þig! Þetta hafði þær afleiðingar að þjónustu- fulltrúarnir sem viðskiptavinirnir álitu að hefðu þeirra hagsmuni í huga voru oft og tíðum að veita ráðgjöf varðandi þjónustu bankans sem skilaði þeim sjálfum aukagreiðslu í vasann. Þ.e.a.s. ef kúnninn beit á agnið.

Þetta skýrir m.a. þá gífurlegu áherslu bankanna á alls konar þjónustuformum eins og t.d. það sem náms- mönnum er boðið upp á. „Í þessu ljósi kemur það almenningi tæplega á óvart nú hve mikil ásókn var í að selja honum nýjar vörur eða þjónustu í bankanum.“ (bls. 60)

Almennt litu viðskiptavinir bankanna á þjónustufulltrúann, sem þeir voru í mestum samskiptum við, sem velgjörðarmann sinn sem þeir gátu treyst. Þjónustufulltrúar hafa líka aðgang að trúnaðarupplýsingum sem varða fjármál viðskiptavinanna þannig að það er e.t.v. ekki nema eðlilegt að almenningur vilji trúa því að þeim sé treystandi.

Þjónustufulltrúi = Aflar bankanum tekna og fær bónus fyrir

Ekki lengur þjónustufulltrúi Eftir einkavæðinguna fengu þjónustu-fulltrúarnir hins vegar nýtt hlutverk sem væri nær að skilgreina sem sölumann þar sem þeim bar frekar að þjóna skammtímahagsmunum bankans fremur en hagsmunum viðskiptavinarins. Þessi nýja skilgreining hafði þær óhjákvæmilegur afleiðingar að þjónustufulltrúarnir gátu ekki lengur verið í hlutverki velgjörðamannsins sem setur hagsmuni viðskiptavinarins í öndvegi. 

Þessar breyttu áherslur í starfi bankanna voru aldrei kynntar út á við. Þær komu heldur hvergi fram í samskiptum þeirra við almenna viðskiptavini. Hefðu viðskiptavinirnir t.d. verið upplýstir um það að þjónustufulltrúarnir fengu greitt fyrir hverja þá „vöru“ sem þeir seldu þeim þá hefðu þeir eflaust litið öðruvísi á hlutverk þessara starfsmanna bankans. 

Það er hins vegar ljóst að Fjármálaeftirlitið vissi af þessum nýju áherslum þó að starfsmenn þeirra hafi ekki aðhafst neitt varðandi þetta atriði fremur en önnur sem tengjast vafasömum starfsháttum bankanna á þessum árum. Því miður eru dæmin fjölmörg um það að bankarnir reyndu að blekkja einstaklinga til viðskipta þó enginn þeirra verði rakin hér.

Illráð í hagnaðarskyni

Það er að sjálfsögðu á ábyrgð einstaklingsins að taka ekki of mikla áhættu í lántöku en maður skyldi ætla að áhætta einstaklingsins á því sviði væri líka áhætta bankans. Það er líka eðlilegt að gera ráð fyrir að þeir sérfræðingar sem vinna hjá bönkunum búi yfir einhverjum starfsheiðri þannig að eðlilega gerði almenningur sér ekki grein fyrir því að oft og tíðum stríddu ráðleggingar bankanna gegn almennu siðferði og góðum starfsháttum.

Fronturinn verður að vera í lagi

Dæmi um þetta eru t.d. svonefnd „barnalán“ Glitnis (sbr. bls. 65) og framsetning bankanna á kynningum varðandi ýmsar áhættufjárfestingar eins og í hlutabréfakaupum og kaupum á svokölluðum peningabréfum sem starfsmönnum allra bankanna var ráðlagt að kynna sem áhættulausa fjárfestingu. (sbr. bls. 63)

Þessi kúvending á starfsemi bankanna má rekja til þess að ábyrgð og raunsætt áhættumat vék fyrir voninni um áhættulausan hagnað. Hugmynd sem af öllum sólarmerkjum að dæma er runnin undan rifjum þeirra sem ráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgeirsson lögðu svo ríka áherslu á að eignuðust bankanna að þeir fóru á svig við lögin til að koma þeim ásetningi í kring.

Sjónarmið skammtímahagnaðar réðu ferðinni en ekki ábyrgð gagnvart samfélaginu. Allar leiðir til hagnaðar voru nýttar til fulls og eftirlitið stóð að mestu leyti aðgerðarlaust hjá. (bls. 67)

Takmarkalaust virðingarleysi

Það er ástæða til að vekja athygli á því að höfundar 8. bindisins taka það sérstaklega fram í lok kaflans sem þessi skrif byggja á að: „Ástæða er til mun ítarlegri rannsóknar á afstöðu Fjármálaeftirlitsins til ýmissa vafaatriða í íslensku viðskiptalífi.“ (bls. 67 (leturbreytingar eru höfundar).

Það má hverjum vera orðið ljóst að innan bankanna var/er áhugaleysið á vönduðum starfsháttum nær takmarkalaust. Sömu sögu er að segja um virðingarleysið fyrir lögum og reglu. Stærstu eigendurnir og æðstu stjórnendur notfærðu sér stöðu sína óspart til að hygla sjálfum sér á kostnað almennra viðskiptavina bankanna.

Almenningur ber uppi sérhagsmunaelítuna

Það er því óhætt að segja að bæði í því og því sem síðar hefur komið fram í orðum þeirra og gjörðum endurspeglist ekki síst takmarkalaust virðingarleysi gagnvart almennum borgurum svo og samfélagslegum hagsmunum.

Nægir þar að nefna viðtöl við marga þeirra svo og aðrar yfirlýsingar þeirra sjálfra á opinberum vettvangi en hér verður vikið að einu slíku dæmi úr Rannsóknarskýrslunni:

Þegar Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, baðst afsökunar í Kastljósviðtali í ágúst 2009 um tíu mánuðum eftir að bankinn hans féll, tiltók hann sérstaklega hluthafa bankans, kröfuhafa og starfsmenn. Aðspurður taldi hann sér ekki skylt að biðja þjóðina afsökunar.

Annan hóp vantaði þó tilfinnanlega í upptalningu hans: það voru sparifjáreigendur - fólk sem hafði trúað bankanum fyrir sparifé sínu og tapað hluta þess í peningamarkaðssjóðum eða öðrum sparnaðar-formum, svo ekki sé talað um þá almennu viðskiptavini sem hafði verið ráðlagt að taka erlend lán eða kaupa hlutafé í bankanum þegar best lét. (8. bd. bls. 59 (leturbreytingar eru höfundar)

Það er ekkert vafamál að ef ekki hefði komið til stefnubreyting ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þegar bankarnir voru einkavæddir þá hefðu þeir sem eignuðust bankana í kjölfarið aldrei komið til greina sem eigendur þeirra. Þess vegna ætti það að liggja í augum uppi að þeir sem ullu eiga ekkert síður að bera ábyrgð en eigendurnir og svo þeir sem stýrðu bönkunum af slíku taumleysi sem raun ber vitni.      

Ofangreindar línur eru aðallega byggðar á bls. 58-67 í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar.

Einkabankar búa til peninga með lánum

Þrátt fyrir hrunið eru þeir þó nokkrir sem skilja það ekki enn hvernig það vildi til. Þeir sem eru enn í þeim sporum þurfa að horfast í augu við það að á sama tíma og bankarnir voru einkavæddir fengu eigendur þeirra einkaréttinn til peningaprentunar. Þetta hljómar ekki gáfulega en þetta er því miður staðreyndin.

Við einkavæðingu bankanna vildi svo furðulega til að ríkið var áfram ábyrgt fyrir rekstri bankanna; þ.e. ef bankinn færi í þrot. Eigendur einkareknu bankanna báru og bera ekki enn neina ábyrgð gagnvart samfélaginu. Eigendur íslensku bankanna nýttu þetta óspart og lánuðu ótæpilega þar sem lánin veittu þeim ekki einungis arð í formi ýmissa lánskostnaðarliða eins og vaxta og verðtryggingar heldur færa þeir lánin sér til eignar.

Það vita allir að slíkt bókhaldsfiff getur aldrei gengið upp nema koma einhvers staðar niður. Það að færa lán sem eignir og lifa í vellystingum af því sem ekki er innistæða fyrir er ekki aðeins fullkomið ábyrgðarleysi heldur sýnir það hið algjöra siðleysi sem hefur blómstrað við vissuna frammi fyrir því að þegar allt springur þá er það ríkið, eða réttara sagt skattborgararnir, sem sitja uppi með afleiðingarnar. Þannig var það haustið 2008 og það er ekkert sem hindrar það að sams konar hrun bankanna endurtaki sig.

Hér er að lokum myndband frá Positive Money sem dregur fram mjög skýra mynd af því hvernig peningamyndunin fer fram innan núverandi bankakerfis og með hvaða afleiðingum.

 

Það liggur væntanlega í augum uppi eftir áhorfið að það er ekki spurning um það hvort valdið til peningamyndunar verði tekið af einkareknu bönkunum heldur hvernig og hvenær. Þeir sem vilja fræðast um aðferðina sem hefur verið lögð fram á íslenska þinginu er bent á þessa slóð.


Sexflokkurinn

Þó mér sé orða vant vegna þess sem blasir við á myndum frá fundi sem sagður er vera „fundur formanna flokkanna um framhald stjórnarskrármálsins“ þá ætla ég að gera tilraun til að orða það sem kom upp í huga minn.

Myndin var tekin að láni hjá visir.is

sexflokkurinn

Það blasir væntanlega við öllum að á myndina vantar einn formann stjórnmálaflokks sem er þingmaður á Alþingi. Það er rétt að hann situr ekki inni á þingi sem þingmaður þess stjórnmálaflokks en það gera hvorki Guðmundur Steingrímsson né Birgitta Jónsdóttir heldur. Það er rétt að flokkurinn sem Lilja Mósesdóttir gegnir formennsku fyrir er ekki á leið í framboð en það er Hreyfingin ekki heldur og afar ólíklegt að Píratarnir nái því þó þeir haldi slíku fram.

Það blasir við að þessi fundur er skýr birtingarmynd þess eineltis sem hefur viðgengist á Alþingi allt þetta kjörtímabil. Hann er ekki aðeins birtingarmynd þess eineltis sem Lilja hefur þurft að þola af hendi þeirra sem sitja fyrir á myndinni heldur líka þess sem skjólstæðingar málstaðarins, sem hún hefur ein barist fyrir að einhverju marki, hafa liðið fyrir; þ.e. kjósendur sem byggja heimilin í landinu!

Þeir sem láta sem ekkert sé eru óbeinir þátttakendur í þessu einleti eins og í öðrum þeim tilvikum þar sem um einelti eða annað einstaklings-/málefnamiðað ofbeldi er að ræða! Þeir fjölmiðlar sem láta sem þeir taki ekki eftir því að það vantar einn formanninn á myndina eru skýrasta dæmið um slíka þátttakendur!

Það er rétt að taka það fram í þessu sambandi að Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, gerði athugasemd við fundarboð Samfylkingarinnar í gærkvöldi og benti á að Lilju Mósesdóttur vantaði á boðslistann. Aðrir gerðu enga athugasemd.

Eins og kemur fram á þessari mynd og öðrum sem teknar voru á fundinum þá breytti ábending Sigmundar Davíðs engu um það að sjöundi formaðurinn var ekki boðaður til fundarins og hann því haldinn án hans!


mbl.is Engin niðurstaða um stjórnarskrána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband