Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
Nú er mál að vakna!
24.5.2010 | 18:05
Það styttist óhugnanlega í það að dekkstu framtíðarspár dyggustu mótmælendanna, sl. tvö ár, rætist. Það styttist ískyggilega í útför hins unga lýðveldis okkar Íslendinga. Eða var hér aldrei neitt lýðveldi? Var okkur bara talin trú um það eða sáum við algerlega um það sjálf að telja okkur trú um það að við byggjum í sjálfstæðu lýðræðisríki?
Miðað við það að enn virðist stór hluti þjóðarinnar geta talið sér trú um að hér sé allt í þokkalegu lagi þá er það ekki ósennilegt að blind trú á það sem okkur er sagt, sé okkar helsti Akkilesarhæll. En nú er mál að linni! Ef við höfum einhverja réttlætiskennd og einhvern snefil af skyldurækni gagnvart okkur sjálfum, forverum okkar og afkomendum, að ég tali ekki um landinu okkar, þá er tíminn til að rísa upp runninn upp núna!
Ef okkur hefur blöskrað yfirgangur svokallaðra Vesturvelda í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu þá er rétt að benda á að það sem er að gerast hér er af sama toga. Álrisarnir voru fyrstir en fæst okkar bærðu á sér. Nú er það Magma Energy. Þeir eru rétt mættir og þegar byrjaðir að teygja fingurna fram og gína yfir gróðavænlegustu bitum landsins.
Þeir verða ekki þeir einu því auðlindir okkar eru á útsölu! Uppboðshaldararnir eru misvitrir stjórnmálamenn sem reyna að telja okkur trú um að þetta sé eðlileg afleiðing kreppunnar. Það rétta er að ef fer sem horfir þá erum við rétt farin að finna smjörþefinn af raunveruleika alvöru þeirrar kreppu sem sú hugmyndafræði sem þeir treysta á leiddi okkur inn í!
Ég bið alla sem lesa þetta að velta því fyrir sér hvað annað en undarlegir hagsmunir geta skýrt það að á sama tíma og ríkisstjórnin á peninga til að leggja í innlendan ferðamannaiðnað segjast fulltrúar hennar ekki hafa haft upp á peningum til að kaupa HS-orku? Ef allir hlustuðu almennilega á það sem sagt er þá hefðu þeir tekið eftir því að það hefur verið reynt að telja okkur trú um að ástæða kreppunnar hér á landi sé alheimskreppa. En þá myndum við líka spyrja okkur að því hvor það sé eitthvert vit í að byggja á ferðamannaiðnaði? Eru ferðalög ekki eitt það fyrsta sem fólk sker niður þegar kreppir að?
Auðlindir okkar eru hins vegar framtíðarverðmæti. Verðmæti sem geta komið okkur út úr kreppunni en ekki ef við seljum þær með öllu tilheyrandi úr landi! Hvet ykkur til að lesa grein Þórs Saaris, Glópagull erlendra fjárfesta fyrir auðlindir, sem birtist á Smugunni í síðustu viku, þar sem hann bendir á afleiðingar þess fyrir þjóðina að íslenskir ráðamenn skuli fara þannig með völdin sem þeim var treyst fyrir.
Ég spyr mig gjarnan hvernig stendur á því að íslenskur almenningur getur haldið áfram dag frá degi eins og ekkert hafi í skorist? Að einhverju leyti held ég að það sé skortur á skilningi á því sem raunverulega gerðist við hrunið. Hvernig það gat gerst og hvaða afleiðingar það muni hafa en síðast en ekki síst vonleysi. Eða m.ö.o. sú blinda trú að ekkert sé hægt að aðhafast til að breyta og tryggja það að slíkt og þvílíkt gerist aftur.
Það er hins vegar ekki rétt. Það er ýmsu hægt að breyta. Ég hef gjarnan talað um að hér þurfi að verða grundvallarhugarfarsbreyting til að af öðrum nauðsynlegum breytingum megi verða. Kannski hafði ég rangt fyrir mér. Kannski er það skortur á upplýsingum um það hvað gerðist og hvernig það gat gerst sem vantar.
Það vantar kannski bara einfaldlega fræðslu um það hvernig peningakerfi heimsins er byggt upp. Hvernig það varð til. Hvaðan það er komið og hvernig þeir, sem eru í aðstöðu til þess að breyta þessu kerfi, hafa aðlagað það að löngun sinni til að verða ríkir án þess að leggja hart að sér sjálfir.
Leiðin sem þeir fundu var að græða á öðrum. Þessir aðrir eru launafólk. Almennir launþegar. Við! Og nú er komið að því að okkur, íslenskum almenningi, er ekki aðeins ætlað að halda uppi íslenskum útrásardólgum heldur erlendum líka. Við erum m.ö.o. þrælar þess peningakerfis sem þjónar hagsmunum þeirra sem hafa komið sér þannig fyrir að þeir græða á fáfræði okkar og leti. Við erum duglegir vinnukraftar og mölum undir þá gull en við nennum ekki að fræðast um það hvernig þetta kerfi sem við leggjum okkur öll fram við að viðhalda, með þögulli og samviskusamri vinnusemi, er uppbyggt og hagsmunum hverra það þjónar í reynd.
Hér í lokin er einfalt kennslumyndband, Money as Dept, sem rekur sögu peninganna frá upphafi og til nútímans. Þar er útskýrt á einfaldan hátt hvernig svokallaður gullfótur var notaður til að ákvarða peningamagn í umferð en í dag eru það útlán bankanna sjálfra sem eru notuð sem viðmið.
Þetta þýðir að það sem setur peninga- prentvélina af stað er eftirspurnin eftir lánum hjá bönkunum. Hverjir mega setja prentvélina af stað? Seðlabankar. Hverjir standa á bak við seðlabankana? Ríkisstjórnir. Hver er þá hin raunverulega trygging? Vinnuframlag hinna vinnandi stétta. Þetta er auðvitað lygilegt en því miður veruleikinn sem við verðum að bregðast við.
Ég hvet alla til að horfa á eftirfarandi myndband af athygli! Það tekur tæpar 50 mínútur í flutningi en er hverrar mínútu virði.
Myndbandið má líka nálgast hér.
Mér þykir ástæða til að enda þetta á ábendingu um mótmæli við Stjórnarráð Íslands sem munu fara fram í fyrramálið kl. 11:30 og hvetja alla til að mæta. Hér má lesa nánar um mótmælin og tilgang þeirra en þar segir m.a:
- Við sættum okkur ekki við að heimilum okkar og velferð verði fórnað á altari fjárglæframanna.
- Ef þið haldið áfram að fara með okkur eins og ruslið ykkar munið þið sjálf enda á öskuhaugum sögunnar.
Magma á helming í Búlandsvirkjun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.5.2010 kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvað heitir glæpurinn? 2. hluti
24.5.2010 | 03:54
Það er orðinn hálfur mánuður síðan ég skrifaði fyrsta hlutann þar sem ég velti því fyrir mér hvaða heiti hæfði þeim glæpum sem stjórnvöld gerðu sig sek um í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Niðurstaða hans var sú að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem sátu þá, gerðu sig a.m.k. seka um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu (leturbreytingar mínar) skv. 141. gr. Almennra hegningarlaga. Í lögum um ráðherraábyrgð er það tekið fram að ákvæði almennra hegningarlaga um brot í starfi taki einnig til ráherra.
Það er nefnilega engum blöðum um það að fletta að með útkomu Rannsóknarskýrslunnar urðu ráðherrar hrunstjórnarinnar svokölluðu berir af mjög alvarlegri vanrækslu. Hún var í reynd svo stórkostleg að það er erfitt að átta sig á því hvað þeim gekk til með því að leiða hjá sér öll merki og allar viðvaranir um það hvert stefndi. Þess vegna hafa sumir viljað kalla glæp þeirra landráð eða umboðssvik.
Í fyrsta hlutanum vísaði ég til þess mats löglærðra manna að landráðakafli íslenskra laga nái ekki utan um vanræksluglæpi stjórnsýslunnar. En hvað um umboðssvik? Í 2. gr. laga um ráðherraábyrgð segir: Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. (Sjá hér. (leturbreytingar eru mínar))
Síðast beindi ég kastljósinu einkum að ráðherraparinu Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hér verða fleiri nefndir til sögunnar en það eru Björgvin G. Sigurðsson og aðstoðarmaður hans Jón Þór Sturluson. Markmiðið er enn sem fyrr að gefa glæpum hrunstjórnarinnar nafn.
Tímabilið sem er til skoðunar nær frá janúar 2007 til september 2008. (Sjá bls. 78-226 í 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar). Það skal tekið fram að hér er stiklað á stóru í þeim tilgangi að draga fram staðreyndir Skýrslunnar sem undirstrika vanrækslu framantaldra svo og brot nefndra ráðherra gegn lögum um ráðherraábyrgð.
Það fyrsta sem vakti athygli mína við lestur þessara blaðsíðna er umfjöllun Skýrslunnar um hækkun Moody's á langtímahæfiseinkunn stóru íslensku bankanna í febrúar 2007. Þar segir orðrétt: Hinni nýju framkvæmd var tekið misjafnlega. Var hún gagnrýnd af mörgum aðilum, sbr. t.d. ummæli greiningaraðila Royal Bank of Scotland sem sagði að Moody's hefði með þessari greiningu sinni gert sig óþarft. (sjá bls. 79 í 6. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))
Annað er aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birtir niðurstöður sendinefndar sinnar til Íslands 11. júní 2007. (Sjá bls. 83 í 6. bd. Skýrslunnar). Ég reikna með að fleiri en ég spyrji sig spurninga eins og: Hvað var sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðins að vilja hingað á þessum tíma? Hver bauð þeim? og til hvers?
Þriðja er að upphaf lausafjárkreppunnar er rakið til júlí 2007 og svör þáverandi bankastjóra Landbankans, Glitnis og Kaupþings við spurningum rannsóknarnefndar Alþingis þar að lútandi. Það er kannski ofmælt að tala um svör því í reynd segja þeir ekkert sem má búast við af ábyrgum bankastjórum. (Sjá bls. 84-85 í 6. bd Skýrslunnar)
Þvert á móti þá undirstrika svör þeirra enn frekar hve rík ástæða var á ströngu eftirliti með bönkunum og aðhaldi á þessum tíma. En eins og allir vita voru þeir eins konar ríki í ríkinu sem enginn þykist bera ábyrgð á.
Það er ekki útilokað að Björgvin G. Sigurðsson hafi sýnt einhverja tilburði til að spyrna við fæti en það er ekkert sem bendir til að það hafi verið út frá forsendum almennra kjósenda. Það er þó ljóst að hinn 1. ágúst 2007 stóð viðskiptaráðuneytið fyrir málþingi þar sem hagfræðingurinn Robert Wade hélt fyrirlestur um hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, Jón Þór Sturluson, tjáði rannsóknarnefndinni það að:
innan ráðuneytisins hefðu menn verið mjög meðvitaðir um það misræmi sem væri á milli stærðar bankakerfisins og stærðar myntkerfisins. Áhersla viðskiptaráðherra hefði hins vegar verið miklu fremur á að leysa þetta með þeim hætti að stækka myntkerfið en að minnka bankakerfið. (bls. 85 í 6. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))
Jón Þór bætir því svo við að starfsmönnum Viðskiptaráðuneytisins hafi komið það mjög á óvart hversu neikvæður Wade hefði verið á þessum fundi varðandi framhaldið. Þeir hafi því ekki lagt trúnað á orð hans enda ekki verið á þessari línu á þessum tíma. (bls. 85 í 6. bd. Skýrslunnar)
Næstu sjö blaðsíður eru afar athyglisverðar enda segir þar af mjög alvarlegum leikfléttum sem sumar hverjar eru grímulaust fals. Hér er t.d. átt við það þegar Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri Fjármálaráðuneytisins, ákveða að opinbera ekki spilin og sýna hvort íslensk stjórnvöld myndu bjarga bankanum sem var viðfangið á samnorrænni viðlagaæfingu sem haldin var 20. - 25. september (sjá bls. 87-89 í 6. bd. Skýrslunnar).
Á viðlagaæfingunni átti að æfa viðbrögð stjórnvalda við sviðsettu fjármálaáfalli. Ingimundur og Baldur sáu til þess að ákvörðunin um það hvort það ætti að bjarga bankanum, sem um ræddi, eða ekki var aldrei tekin. Í lok kaflans segir að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, rámaði í að hafa heyrt um viðlagaæfinguna en virtist lítið vita annað um hana! (Sjá bls. 89 í 6. bd. Skýrslunnar (feitletrun og upphrópunarmerkið er viðbót mín)).
Í mínum huga ætti enginn að þurfa að velkjast í vafa um stórfellda og ítrekaða vanrækslu ráðherra hrunstjórnarinnar. Merkin og viðvarirnar sem komu fram þegar á árinu 2007 hefðu átt að duga til þess að ábyrgur ráðherra hefði brugðist við. Þegar það sem kom fram í þessu sambandi á árinu 2008 er skoðað þá verða vanræksluglæpir ráðherranna enn voveiflegri en um leið berari.
Þeim sem les 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar með hliðsjón af lögum um ráðherrábyrgð blandast vart hugur um það að ráðherrarnir brutu ekki aðeins gegn 141. gr. Almennra hegningarlaga. Þeir brutu líka gegn 2. gr. Laga um ráðherraábyrgð þar sem þeir stofnuðu hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu með því sem þeir gerðu en ekki síður með því sem þeir létu ógert.
10. gr. þessara sömu laga ætti að taka af allan vafa um að ráðherrarnir eru sekir um brot gegn lögum er varða ábyrgðina sem fylgir því að gegna embætti ráðherra:
Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:
[...]
b) ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir. (Sjá hér)
Ég get heldur ekki betur séð en að 13. gr. laga um ráðherraábyrgð eigi líka við um þá vanræksluglæpi sem ráðherrar hrunstjórnarinnar eru berir af:
Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er eftir lögum þessum, skal og þegar þess er krafist, jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur, en um skaðabótaskyldu hans fer eftir almennum reglum. (Sjá hér)
Ég geri ráð fyrir að fæstum blandist hugur um stórfellda og ítrekaða vanræksluglæpi ráðherranna sem sátu í ríkisstjórn á árunum 2007 og 2008. Þeir vanræktu bæði skyldur sínar og ábyrgð gagnvart kjósendum og hagsmunum íslenska ríkisins. M.ö.o. þá sinntu þeir ekki ábyrgð sinni sem ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar. Þeir misfóru með vald sitt. Nýttu það jafnvel til annarra verka en þeirra sem stuðluðu að hagsmunum þjóðarinnar.
Svörin sem ráðherrarnir gefa rannsóknarnefndinni vitna um það að það var a.m.k. ekki hagsmunir þjóðarinnar allrar sem brunnu þeim fyrir brjósti. Í sambandi við svörin sem eru höfð eftir þeim í 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar er vert að taka sérstaklega eftir því hvað Björgvin G. Sigurðsson virðist vera utangátta. Þar er líka sagt frá því að þar kom að hann var ekki hafður með á fundum um stöðu íslensks viðskiptalífs.
Þetta atriði verður sérstakt viðfangsefni síðasta hlutans um það hvað glæpurinn heitir. Glæpir ráðherranna eru nefnilega ekki allir taldir upp enn. Verða kannski seint fullkomlega upptaldir...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.6.2010 kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Uppreisnargjörn ung kona...
20.5.2010 | 22:45
Það verða allir að sjá umfjöllun Kastljóss frá því fyrr um kvöld um hina meintu árás níumenningana á Alþingi í desember 2008. Helgi Seljan var með vandaða umfjöllun um þetta mál þar sem hann birti m.a. myndband sem sýnir að lýsing þingvarða af atburðarrásinni af stympingunum þar inni er í mörgum atriðum röng.
Helgi Seljan ræðir líka við tvö úr hópi hinna ákærðu en undir lok þessarar umfjöllunar rifjar Helgi upp aðrar óvelkomnar heimsóknir á þingpalla. Þar vekur sérstaka athygli að árið 1976 tók Lára V. Júlíusdóttir, nú saksóknari í máli níumenninganna, þátt í heimsókn hóps stúdenta á þingpalla. Á þessum tíma sat Lára í stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands en Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkisráðherra, var formaður þess.
Hámark þessarar heimsóknar var það að Össur truflaði þinghaldið með ræðu á meðan aðrir í hópnum komu í veg fyrir það að þingverðir og lögregla næðu til hans. Í ræðunni kom hann á framfæri mótmælum hópsins við fyrirhuguðum breytingum á námslánum til háskólastúdenta. Þessi uppákoma hafði engar afleiðingar fyrir gerendur...
Sjá umfjöllun Kastljóss hér.
Ræða starfskjör bankastjórans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mikil er skömm þeirra!
17.5.2010 | 12:28
Ég skrifaði eftirfarandi bréf til þingmanna og sendi frá mér rétt í þessu:
Góðan daginn!
Það er vart að maður trúi því að núverandi ríkisstjórn skuli styðja áframhald á þeirri firru sem setti íslensku þjóðina á hausinn! Að stjórn sem vill kenna sig við vinstri stefnu og velferð skuli stíga það ólánsskref að ætla að selja jarðvarmaorkuna á Suðurnesjum í hendurna á fyrirtæki, sem ég leyfi mér að efast um að viti mikið meira um Magna Energy en allur almenningur í landinu, færir manni þó heim sanninn um það að það er ekki lengur neinn munur á hægri eða vinstri í íslenskum stjórnmálum í dag.
Mér þykir þungt að segja það en enn sárara að horfast í augu við þá staðreynd að gömlu flokkarnir, sem eiga sæti inn á núverandi þingi, eru allir undir sama hattinn seldir. Þessi gjörningur færir mér endanlega staðfestingu á því. Hann sýnir að þessir stjórnmálaflokkar eru gerspilltir og handónýtir þar sem þeir sinna ekki lengur því hlutverki að vinna að almannahagsmunum heldur einvörðungu sérhagsmunum.
Þar með sýnist mér íslenska lýðveldið vera hrunið. Mér liggur við að taka mér fleyg orð fyrrverandi forsætisráðherra í munn frá haustinu 2008! en ég held að hér þurfi eitthvað enn þá meira til. Þar sem þið eruð þess ekki umkomin að sinna því hlutverki sem þið voruð kosin til reikna ég með að þjóðin taki til sinna ráða því í reynd er það þannig að guð hjálpar aðeins þeim sem hjálpa sér sjálfir!
Ykkur þykir ég e.t.v. viðhafa hér stór orð en ég bið ykkur að horfa á tilefnið einu sinni enn og dæma svo. Það væri gott að lesa þennan pistil Láru Hönnu Einarsdóttur til að átta sig fullkomlea á tilefninu.
Mér lá svo mikið niðri fyrir að mér láðist að kveðja...
Salan ekki án aðdraganda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.5.2010 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvað heitir glæpurinn? 1. hluti
9.5.2010 | 19:08
Í bráðum tvö ár hefur þjóðin setið meira og minna í losti yfir þeim glæpum sem hér voru framdir í skjóli þeirra sem fóru með stjórn landsins. Hins vegar hefur vafist nokkuð fyrir mönnum að gefa glæpum gerendanna nafn. Margir hafa talað um landráð í þessu sambandi en lögspekingar hafa ekki verið tilbúnir til að taka undir að glæpurinn heyri undir landráðakafla íslenskra laga.
En hvaða önnur heiti geta átt við þann glæp að sitja ekki aðeins aðgerðarlaus hjá þegar efnahagur heillar þjóðar er í húfi og það sem meira er að taka þátt í því að hylma yfir þann raunveruleika?! Ég minni líka á að það voru aðgerðir stjórnvalda sem sköpuðu þeim sem rændu landið þau skilyrði að þeim varð það mögulegt! Fyrst sköpuðu þau þeim skilyrðin, þáðu svo bitlinga og sporslur fyrir greiðasemina og launuðu síðan fyrir sig með því að hylma yfir fyrirséðar afleiðingar gjörða sinna.
Þetta er síst of stór orð þegar ýmsar staðreyndir sem Rannsóknarskýrslan dregur fram eru skoðaðar. Þar kemur m.a. fram að í byrjun árs 2007 mátti öllum vera orðið ljóst hverjar afleiðingarnar yrðu af því frjálsræði sem íslensku bönkunum hafði verið búið. (Sjá upphaf 19. kaflans). Viðvaranir komu víða að en þó einkum erlendis frá. Íslensk stjórnvöld áttu fundi með nokkrum þeirra sem vöruðu við ofvexti íslensku bankanna.
Hér voru líka haldnir samráðsfundir með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, bankastjórn Seðlabankans, forstöðumönnum Fjármálaeftirlitsins auk valdra ráðgjafa. En niðurstaða þeirra funda var mjög á sama veg. Ekkert mátti skaða ímynd íslenska fjármálamarkaðarins og þá var gripið til lyginnar. Enginn þeirra sem um ræðir vill kannast við það að hann hafi beinlínis logið en við vitum betur. Skýrslan dregur fram fjöldann allan af dæmum um slíka lygi.
Ég tel það síst af öllu of djúpt í árina tekið þegar það er fullyrt að ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi öll gerst sek um yfirhylmingu af þessu tagi. Þeir kusu að rjúfa ekki leiktjald sýndarveruleikans sem var ætlað að skapa íslenskum fjármálamarkaði traustvekjandi ímynd. Sumir viðhéldu lyginni með þögninni en aðrir lugu og/eða hvöttu til áframhaldandi lygi með beinum orðum. Þar á meðal eru Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir .
Þórður Björn Sigurðsson veltir trúverðugleika og pólitískri ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir sér í þessari færslu hér. Þar bendir hann m.a. á að 11. febrúar 2008 hafi staða íslensku bankanna verið rædd á þingflokks- fundi Samfylkingarinnar. Á þessum fundi kom fram að allt stefndi í óefni vegna gífur- legrar skuldsetningar íslensku bankanna.
Í bloggfærslu sinni vitnar Þórður í fundargerð þessa fundar þar sem eftirfarandi er m.a. haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: Við þurfum að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann. Bankarnir munu standa af sér a.m.k. næstu 9 mánuði en spurningin er hvað ríkið getur gert hafi markaðir ekki opnast þá (letur- breytingar eru mínar. Afrit af þessari fundargerð er að finna hér á bls. 82)
Flestum ætti að vera það í fersku minni að Ingibjörg Sólrún flutti ræðu á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar, 17 apríl sl. Fundurinn var haldinn í tilefni af útkomu Rannsóknarskýrslunnar. Ræða Ingibjargar gaf tóninn. E.t.v. hefur henni verið hugsað til þess sem haft er eftir henni í fundargerðinni hér að framan þegar hún sagði þetta: Ég kem hér upp bara til að segja ykkur að þegar ég horfi yfir þessi tvö ár þá finnst mér ég hafa brugðist. (Sjá hér)
Það er jafnvel útlit fyrir að Geir H. Haarde hafi verið enn einbeittari í yfirhylmingunni en Ingibjörg Sólrún og má vera að það sé m.a. það sem hún ýjar að í ræðu sinni með þessum orðum: Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf sem var þess ekki umkomið að taka á fjármálakerfi sem við vissum að var stofnað til með pólitískri spillingu og helmingaskiptum. Stjórnar- samstarfið hafði heldur ekki burði til að taka á vanhæfu stjórnkerfi þar sem aðskilnaður- inn milli stjórnmála og stjórnsýslu var löngu horfinn. Við slíkar aðstæður er voðinn vís.
Í stjórnartíð hrunstjórnarinnar flutti Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, ræðu á tveimur viðskiptaþingum Viðskiptaráðs Íslands. Þessi þing voru haldin í febrúar árin 2007 og 2008. Brot úr þessum ræðum eru birt í Rannsóknarskýrslunni og gefa þau svo sannarlega tilefni til umhugsunar um það hvað geti legið að baki orðum forsætisráðherra annað en beinn ásetningur um það að ljúga að umheiminum.
Ég hvet lesendur til að skoða brotin sem ég birti hér að neðan í því samhengi sem þau standa í Skýrslunni og mynda sér skoðun á því hvernig Geir H. Haarde hefur getað sagt það sem er haft eftir honum hér þrátt fyrir þá vitneskju sem hann bjó yfir um stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja.
Hér er brot úr ræðunni sem fyrrverandi forsætisráðherra flutti 7. febrúar 2007 eins og það er sett upp í Rannsóknarskýrslunni. (Sjá 6. bindi bls. 79):
Hinn 7. febrúar 2007 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir. Í ávarpi sínu minntist Geir á alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi og sagði m.a.: Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Þar höfum við reyndar þegar tekið mörg mikilvæg skref og fleira er í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunarinnar,Einfaldara Ísland. Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Síðar sagði Geir: Árið 2006 var stormasamt en jafnframt lærdómsríkt. Við lærðum hversu mikilvægt alþjóðlegt orðspor og ímynd er fyrir lítið þjóðfélag. Ég vil þakka Viðskiptaráði hér sérstaklega fyrir að hafa frumkvæði að gerð Mishkin skýrslunnar svokölluðu og einnig Tryggva Þór Herbertssyni, og auðvitað Mishkin sjálfum, fyrir að hafa með skýrslunni útskýrt fyrir umheiminum staðreyndir málsins hvað varðar íslensk efnahagsmál.
Loks sagði Geir: Atvinnulífið átti alfarið frumkvæði að þessu framtaki og stýrði því. Aðkoma mín sem þáverandi utanríkisráðherra fólst í því að veita aðgang að utanríkisþjónustunni til að auðvelda útbreiðslu og kynningu skýrslunnar auk þess sem ég flutti ræðu á kynningarfundi vegna útgáfu skýrslunnar í New York. Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel. (leturbreytingar eru mínar)
Hér er svo brot úr ræðu fyrrverandi forsætisráðherra sem hann flutti 13. febrúar 2008. Eins og hér á undan er það sem á eftir fer tekið eftir Skýrslunni (Sjá 6. bindið bls. 126):
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir 13. febrúar 2008. Þar sagði Geir m.a: Á síðustu vikum hefur skuldatryggingarálag íslensku bankanna einnig hækkað töluvert en líklegt má telja að það stafi að hluta til af upplýsingaskorti alþjóðlegra fjárfesta um raunverulega stöðu bankanna. Sérfræðingar greiningar- fyrirtækisins Credit Sights hafa til að mynda sagt að áhættan í tengslum við íslensku viðskiptabankana sé ofmetin og að skuldatryggingarálagið gefi ekki rétta mynd af raunstöðu þeirra. [...]
Í síðustu viku birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður úr nýju álagsprófi á viðskipta- bönkunum þar sem könnuð var geta þeirra til að standast samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, útlánum og fullnustu- eignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjár- hlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark. Skemmst er frá því að segja að bankarnir stóðust allir þetta próf. [...]
Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir Fjármálaeftirlits- ins, Moodys, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar staðreyndavillur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum. (leturbreytingar eru mínar)
Ég bið lesendur að taka sérstaklega eftir því að dagana á undan flokkráðsfundi Samfylkingarinnar og þingi Viðskiptaráðs árið 2008 höfðu bæði Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde setið fund með bankastjórn Seðlabankans þar sem alvarleg staða íslenska fjármálamálamarkaðarins var rædd.
Af þeim orðum sem hér hafa verið höfð eftir þessum fyrrverandi ráðherrum hrunstjórnarinnar er því ljóst að þau tala gegn betri vitund. Ingibjörg Sólrún segir: Við þurfum að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann. Af þessum orðum er bersýnilegt að hún kannast við vandann sem steðjaði að íslenska bankakerfinu en henni er umhugaðra um að láta sem allt sé í lagi en grípa til eðlilegra viðbragðsaðgerða.
Geir H. Haarde snýr sannleikanum á hvolf í ræðu sinni á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands og tekur svo kaldhæðnislega til orða að segja: Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum. Því má kannski velta fyrir sér hvaða öfl Geir hefur í huga. Mér þykir liggja beinast við að draga þá ályktun að það séu þau sem hann dregur fram í eftirfarandi orðum í ræðunnar sem hann flutti af sama tilefni árið 2007: Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel.
Þeim sem fylgdust grannt með hverju fram fór á stjórnmálavettvanginum í aðdraganda hrunsins og fyrstu mánuðina eftir hrunið blandast vart hugur um að ráðherrar hrunstjórnarinnar kepptust við að breiða yfir það sem þeir vissu. Þeir blésu á viðvaranir sem bárust annars staðar frá og gerðu jafnvel lítið úr þeim sem höfðu áhyggjur af því hvert ofvöxtur bankanna myndi leiða.
Með útkomu Rannsóknarskýrslunnar er öllum vafa um vitneskju framantaldra ráðherra eytt. Þau vissu hvert stefndi en kusu samt að halda úti þeirri ímynd að staða íslenska fjármálamarkaðarins væri sterk. Þau unnu með þeim sem höfðu hag af þeirri blekkingarímynd en um leið stefndu þau framtíð almennra borgara í umtalsverða hættu. Ég reikna með að ég sé ekki sú eina sem þykir að slíkt hljóti að heyra undir refsivert athæfi.
En hvað heitir glæpurinn? Landráð? Yfirhylming? Samsæri? Samábyrgð? Vanræksla? Samkvæmt landráðakafla Almennu hegningarlaganna er ekki að finna neina grein þar sem nær yfir glæpinn. Í almennu hegningarlögunum er líka erfitt að finna eitthvað um það sem fyrst kemur upp í hugann varðandi þann glæp sem ráðherrarnir unnu íslensku samfélagi með blekkingum sínum og/eða aðgerðarleysi. Nema þetta: 141. gr. Opinber starfsmaður,sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári]. (leturbreytingar eru mínar)
Varðandi það hvað glæpurinn kann að heita er líka vert að minna á það sem segir um ráðherrábyrgð en samkvæmt 14. gr. Stjórnarskrárinnar bera ráðherrar [...] ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Nánar er kveðið á um þetta atriði í lögum um ráðherraábyrgð. Í annarri málsgrein 1. greinar þeirra laga segir að: Ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taka einnig til ráðherra eftir því, sem við getur átt.
En það er fleira sem lögin um ráherraábyrgðina taka til um og það er fleira sem þessir ráðherrar gerðu eða létu ógert í aðdraganda hrunsins og fyrstu mánuðina eftir hrun sem samkvæmt því sem má ráða af Rannsóknarskýrslunni flokkast undir saknæmt athæfi. En ég læt staðar numið að sinni en tek upp þráðinn aftur á næstu dögum þaðan sem ég hverf frá vangaveltunum um það hvað glæpurinn heitir hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.5.2010 kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þetta gætum við líka gert!
4.5.2010 | 23:22
Grikkir hafa boðað til allsherjarverkfalls á morgun í þeim tilgangi að mótmæla þeirri aðgerðaráætlun sem ríkisstjórn Grikklands hefur samþykkt að framfylgja gegn fjárhagsstuðningi AGS og ESB. Það er ljóst að grískur almenningur stendur í aðalatriðum í sömu sporum og sá íslenski nema við erum ekki aðilar að ESB. Ekki enn a.m.k!
Við stöndum þess vegna að sjálfsögðu með Grikkjum (sjá auglýsingu hér að neðan) en við ættum líka að fá hugmynd þeirra að láni og fara í allsherjarverkfall til að freista þess að fá íslensk stjórnvöld til að hlusta á almenna borgara og setja heildarhagsmuni þjóðarinnar á dagskrá.
Eins og allir vita þá er ljóst að slíkt er alls ekki á döfinni heldur stendur til að ganga enn lengra í því að að skerða kjör okkar því samkvæmt hugmyndafræði fjármálaelítunnar er það hlutverk almennra launþega að halda henni uppi og bera skaðann af öllu þeirra klúðri. Þeir kostuðu stjórnmálamenn inn á þjóðþingið okkar til að tryggja það að slíkt telst m.a.s. löglegt! en ætlum við að sætta okkur við það??
Við höfum búið við þennan veruleika í bráðum tvö ár!!! Ég mæli því með því að við tökum upp aðferð Grikkjanna til að binda endi á þá svívirðru sem hefur viðgengist og á síst eftir að fara batnandi!
En hér er auglýsingin varðandi stuðningsaðgerðirnar við Grikki á morgun:
Grikkir allra landa sameinist!
Mótmæli til stuðnings Grikkjum verða þann 5. maí kl. 16:00 á Arnarhóli
Svokölluð aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins við Grikkland er stórkostleg aðför að réttindum verkafólks.
Stórfelldar launalækkarnir, uppsagnir opinberra starfsmanna, skerðing lífeyrisréttinda, niðurskurður opinberra útgjalda og þyngri skattbyrgðar á hina lægst launuðu er meðal þess sem fyrirhugað er.
Afleiðingin er ógnvænleg lífskjaraskerðing almennings.
Á meðan grískir auðmenn koma eigum sínum í skjól, situr almenningur í súpunni. Engar tillögur hafa verið settar fram af AGS eða ESB um hvernig hægt er að draga úr alvarlegri misskiptingu tekna og auðs. Engar tillögur hafa verið settar fram um að þeir sem ábyrgðina beri axli hana. Engar tillögur hafa verið settar fram um hvernig koma skal í veg fyrir að nýjar fjármálakreppur dynji á.
Þann 5. maí hefst allsherjarverkfall í Grikklandi. Á næstu dögum verða samstöðumótmæli um alla Evrópu. Kröfurnar eru:
- Segja verður skilið við pilsfaldakapítalisma og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.
- Stöðva verður þjóðnýtingu tapsins og einkavæðingu gróðans.
- Standa verður vörð um hagsmuni almennings en ekki fjárglæframanna.
Attac á Íslandi mun standa fyrir mótmælum til stuðnings Grikkjum þann 5. maí kl 16:00 á Arnarhóli.
Ræðumenn verða:
- Sólveig Jónsdóttir formaður Attac
- Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingkona VG
Frekari upplýsingar er að finna á Attac.is og á síðu Attac á Facebook.
Allsherjarverkfall í vændum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1. maí ávarp: Stjórnarkreppan viðheldur efnahagskreppunni!
1.5.2010 | 15:36
Góðan daginn, árisulu baráttugarpar!
Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa þessa virðulegu samkomu í tilefni þessa dags sem hefur verið helgaður baráttu verkalýðsins. Nú er reyndar svo komið málum að hver einasti dagur ársins þyrfti, ef vel ætti að vera, að vera helgaður baráttu almennra launþega fyrir réttindum sínum.
Þá er ég ekki aðeins að tala um varnarbaráttu til að verjast því að allt það sem áunnist hefur fyrir baráttu forfeðra okkar og mæðra verði af okkur tekið. Sóknarbaráttan er nefnilega ekki síður mikilvæg og reyndar nauðsynleg. En hvar á að byrja?
Frá mínum bæjardyrum séð gæti byrjunin falist í því að almenningur brjótist út úr þeim meðvirka hugsunarhætti sem stjórnvöld hafa alið þjóðina upp í undanfarin misserin.
Í hinu svokallaða góðæri, sem ég vil miklu fremur kenna við æði, var þjóðin knúin til einhvers konar neyslumaníu. Við hrunið var það, hve vel tókst til, notað gegn almenningi þar sem hinir raunverulegu gerendur efnahagshrunsinskepptust hver um annan þveran við að benda á að almenningur bæri ekki síst ábyrgð á því hvernig komið var og þyrfti því að gangast við afleiðingum gjörða sinna.
Því miður tókst þessi áróðurherferð samábyrgðar alls launafólks í landinu svo vel að fólk þorir tæpast enn að segja frá því hvernig það var haft að ginningarfíflum hinna ýmsu lánastofnanna. Það ber líka grunsamlega lítið á reynslusögum fórnarlamba niðurskurðarhnífsins á vinnumarkaðinum.
Bæði fyrir og eftir hrun voru í gangi ýmsar sögur af því hvernig eigendur bankanna misnotuðu eignarhald sitt yfir þeim og stórjuku eiginfjárstöðu sína á kostnað skjólstæðinga sinna. Þ.e. okkar almennings. Til að tryggja lögmæti slíkra gjörninga kostuðu þeir breiðstræti valinkunnra velunnara sinna inn á Alþingi okkar Íslendinga.
Nöfn þeirra þingmanna sem voru kostaðir af Landsbanka og Kaupþingi eru talin upp í 8. bindi nýútkominnar Rannsóknarskýrslu. Maður skyldi ætla að af því sem á undan er gengið, að það eitt hefði dugað til að þeir sem um ræðir segðu af sér en nei ekki aldeilis. Þeir sitja sem fastast.
Það er kunnara en frá því þurfi að segja að Alþingi okkar Íslendinga nýtur þverrandi trausts bæði innanlands sem utan. Það að kostaðir þingmenn sitji áfram á þingi og viðhafi þá vörn sem við höfum orðið vitni að frá útkomu Skýrslunnar er síst til þess fallið að auka á traust þingsins eða trúverðugleika og á meðan svo fer fram ríkir hér lamandi stjórnarkreppa!
Þetta er grafalvarlegt ástand því ríkjandi stjórnarkreppa viðheldur kreppuástandinu á öllum öðrum sviðum samfélagsins. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þó e.t.v. djúpstæðari en svo að hann verði leystur með því einu að umræddir þingmenn segi af sér og varamenn taki sæti í þeirra stað.
Sú stjórnarkreppa sem við glímum við kemur ekki síst fram í því hvaða mál hafa verið sett á oddinn frá hruni sem eru í stuttu máli: Skilyrðislaus björgun fjármagnseigenda og fjármálastofnana. Almennt launafólk er sett út á guð og gaddinn í þessum tilgangi.
Á sama tíma horfum við upp á það að bankar og aðrar fjármálastofnanir eru ríki í ríkinu. Ríki sem hefur fyrir tilstilli stjórnvalda fullkomnar veiðiheimildir í lífsafkomu íslenskra launþega. Við erum á þeirra valdi á meðan skipt er um kennitölur þeirra fyrir tilstilli stjórnvalda og skuldir stærstu hluthafa þeirra eru afskrifaðar.
Og nú hafa ráðherrar í ríkisstjórninni svo og seðlabankastjóri undirritað viljayfirlýsingu, í tilefni af endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands, þess efnis að nauðungarsölur vegna gjaldþrota húsnæðislánagreiðenda verði ekki frestað lengur en fram í október á þessu ári!
Óveðursskýin sem stefnt er gegn okkur almennum borgurum hrannast upp. Á sama tíma og afborganir húsnæðislánanna okkar, svo og annarra lána, rjúka upp eru laun stórs hluta launamanna í frosti. Lífeyrisgreiðslur hafa verið skornar niður í tveimur áföngum og miðað við það sem hefur verið haft eftir Steingrími J Sigfússyni er nú komið að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.
Ég ætla ekki að lýsa þeirri vandlætingu og reiði sem ég finn til þegar ég hugsa til aðgerðarleysis velflestra forkólfa verkalýðsforystunnar. Hvað þá vanhæfni framkvæmdarstjórna lífeyrissjóðanna. En það að þær framkvæmdarstjórnir, sem stýrðu lífeyrissjóðunum fyrir hrun, sitji óáreittar enn sýnir e.t.v. best þá gjá sem hér hefur myndast milli þjóðar og þings.
Nú nýlega kvað Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg upp dóm þess efnis að íslenska ríkinu væri óheimilt að innheimta iðnaðarmálagjaldið sem það hefur látið iðnfyrirtæki greiða til Samtaka iðnaðarins.
Iðnaðarráðherra segir að það verði farið vandlega yfir dóminn áður en það verði ákveðið hvernig ríkið bregðist við honum. Það er nefnilega ekki bara Samtök iðnaðarins sem byggja afkomu sína á gjöldum af þessu tagi heldur líka Bændasamtökin og LÍÚ.
Allt ber að sama brunni þegar litið er til stjórnsýslunnar. Hún stendur vörð um samtök og stofnanir sem urðu kannski til í þeim tilgangi að ávaxta launin okkar og verja kjör okkar og réttindi en hafa gersemalega týnt þeim tilgangi. Stjórnendur þessara stofnana og samtaka þrífast beinlínis á því að hlunnfara okkur á alla lund og það í skjóli íslenska ríkisins. Skiptir engu hvort ríkjandi stjórnmálaflokkar kenna sig við nýfrjálshyggju eða norrænt velferðarkerfi; hægri eða vinstri.
Á meðan almenningur getur ekki treyst stjórnmálamönnunum fyrir öðru en því að þeir snúist gegn almennum borgurum og verji arðræningjanna. Á meðan það er látið viðgangast að kostaðir þingmenn fjármálaveldisins taki þátt í að stýra landinu og taka mikilvægar ákvarðanir sem varða kjör okkar er ekki von á neinum breytingum í íslensku samfélagi.
Við sitjum föst nema við gerum eitthvað sjálf! Varnarbaráttan dugar ekki til. Við þurfum að hefja sóknarbaráttu! Baráttu í anda forfeðra okkar og mæðra sem sóttu þau réttindi sem við búum að á vinnumarkaðinum í dag. Réttindi sem verða af okkur tekin ef við gerum ekki neitt!
Við verðum að átta okkur á þessari staðreynd áður en við verðum gerð að fullkomnum þrælum í eigin landi! Til að sporna gegn þvílíkri ógn þarf sennilega miklu meira en berja tréfótum niður í háborð þeirra sem sitja við stjórnvölinn!
Ég þakka áheyrnina.
Styðja upptöku eigna auðmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)