Hvað heitir glæpurinn? 1. hluti

Í bráðum tvö ár hefur þjóðin setið meira og minna í losti yfir þeim glæpum sem hér voru framdir í skjóli þeirra sem fóru með stjórn landsins. Hins vegar hefur vafist nokkuð fyrir mönnum að gefa glæpum gerendanna nafn. Margir hafa talað um landráð í þessu sambandi en lögspekingar hafa ekki verið tilbúnir til að taka undir að glæpurinn heyri undir landráðakafla íslenskra laga.

En hvaða önnur heiti geta átt við þann glæp að sitja ekki aðeins aðgerðarlaus hjá þegar efnahagur heillar þjóðar er í húfi og það sem meira er að taka þátt í því að hylma yfir þann raunveruleika?! Ég minni líka á að það voru aðgerðir stjórnvalda sem sköpuðu þeim sem rændu landið þau skilyrði að þeim varð það mögulegt! Fyrst sköpuðu þau þeim skilyrðin, þáðu svo bitlinga og sporslur fyrir greiðasemina og launuðu síðan fyrir sig með því að hylma yfir fyrirséðar afleiðingar gjörða sinna.

Þetta er síst of stór orð þegar ýmsar staðreyndir sem Rannsóknarskýrslan dregur fram eru skoðaðar. Þar kemur m.a. fram að í byrjun árs 2007 mátti öllum vera orðið ljóst hverjar afleiðingarnar yrðu af því frjálsræði sem íslensku bönkunum hafði verið búið. (Sjá upphaf 19. kaflans). Viðvaranir komu víða að en þó einkum erlendis frá. Íslensk stjórnvöld áttu fundi með nokkrum þeirra sem vöruðu við ofvexti íslensku bankanna.

Hér voru líka haldnir samráðsfundir með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, bankastjórn Seðlabankans, forstöðumönnum Fjármálaeftirlitsins auk valdra ráðgjafa. En niðurstaða þeirra funda var mjög á sama veg. Ekkert mátti skaða ímynd íslenska fjármálamarkaðarins og þá var gripið til lyginnar. Enginn þeirra sem um ræðir vill kannast við það að hann hafi beinlínis logið en við vitum betur. Skýrslan dregur fram fjöldann allan af dæmum um slíka lygi.

Ég tel það síst af öllu of djúpt í árina tekið þegar það er fullyrt að ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi öll gerst sek um yfirhylmingu af þessu tagi. Þeir kusu að rjúfa ekki leiktjald sýndarveruleikans sem var ætlað að skapa íslenskum fjármálamarkaði traustvekjandi ímynd. Sumir viðhéldu lyginni með þögninni en aðrir lugu og/eða hvöttu til áframhaldandi lygi með beinum orðum. Þar á meðal eru Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir .

Ingibjörg Sólrún GísladóttirÞórður Björn Sigurðsson veltir trúverðugleika og pólitískri ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir sér í þessari færslu hér. Þar bendir hann m.a. á að 11. febrúar 2008 hafi staða íslensku bankanna verið rædd á þingflokks- fundi Samfylkingarinnar. Á þessum fundi kom fram að allt stefndi í óefni vegna gífur- legrar skuldsetningar íslensku bankanna.

Í bloggfærslu sinni vitnar Þórður í fundargerð þessa fundar þar sem eftirfarandi er m.a. haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: Við þurfum að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann. Bankarnir munu standa af sér a.m.k. næstu 9 mánuði en spurningin er hvað ríkið getur gert hafi markaðir ekki opnast þá“ (letur- breytingar eru mínar. Afrit af þessari fundargerð er að finna hér á bls. 82)

Flestum ætti að vera það í fersku minni að Ingibjörg Sólrún flutti ræðu á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar, 17 apríl sl. Fundurinn var haldinn í tilefni af útkomu Rannsóknarskýrslunnar. Ræða Ingibjargar gaf tóninn. E.t.v. hefur henni verið hugsað til þess sem haft er eftir henni í fundargerðinni hér að framan þegar hún sagði þetta: „Ég kem hér upp bara til að segja ykkur að þegar ég horfi yfir þessi tvö ár þá finnst mér ég hafa brugðist.“ (Sjá hér)

Geir H. HaardeÞað er jafnvel útlit fyrir að Geir H. Haarde hafi verið enn einbeittari í yfirhylmingunni en Ingibjörg Sólrún og má vera að það sé m.a. það sem hún ýjar að í ræðu sinni með þessum orðum: „Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf sem var þess ekki umkomið að taka á fjármálakerfi sem við vissum að var stofnað til með pólitískri spillingu og helmingaskiptum. Stjórnar- samstarfið hafði heldur ekki burði til að taka á vanhæfu stjórnkerfi þar sem aðskilnaður- inn milli stjórnmála og stjórnsýslu var löngu horfinn. Við slíkar aðstæður er voðinn vís.“

Í stjórnartíð hrunstjórnarinnar flutti Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, ræðu á tveimur viðskiptaþingum Viðskiptaráðs Íslands. Þessi þing voru haldin í febrúar árin 2007 og 2008. Brot úr þessum ræðum eru birt í Rannsóknarskýrslunni og gefa þau svo sannarlega tilefni til umhugsunar um það hvað geti legið að baki orðum forsætisráðherra annað en beinn ásetningur um það að ljúga að umheiminum.

Ég hvet lesendur til að skoða brotin sem ég birti hér að neðan í því samhengi sem þau standa í Skýrslunni og mynda sér skoðun á því hvernig Geir H. Haarde hefur getað sagt það sem er haft eftir honum hér þrátt fyrir þá vitneskju sem hann bjó yfir um stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja.

Hér er brot úr ræðunni sem fyrrverandi forsætisráðherra flutti 7. febrúar 2007 eins og það er sett upp í Rannsóknarskýrslunni. (Sjá 6. bindi bls. 79):

Hinn 7. febrúar 2007 flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir. Í ávarpi sínu minntist Geir á alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi og sagði m.a.: Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. Þar höfum við reyndar þegar tekið mörg mikilvæg skref og fleira er í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunarinnar,„Einfaldara Ísland“. Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins.“

Síðar sagði Geir: „Árið 2006 var stormasamt en jafnframt lærdómsríkt. Við lærðum hversu mikilvægt alþjóðlegt orðspor og ímynd er fyrir lítið þjóðfélag. Ég vil þakka Viðskiptaráði hér sérstaklega fyrir að hafa frumkvæði að gerð Mishkin skýrslunnar svokölluðu og einnig Tryggva Þór Herbertssyni, og auðvitað Mishkin sjálfum, fyrir að hafa með skýrslunni útskýrt fyrir umheiminum staðreyndir málsins hvað varðar íslensk efnahagsmál.

Loks sagði Geir:Atvinnulífið átti alfarið frumkvæði að þessu framtaki og stýrði því. Aðkoma mín sem þáverandi utanríkisráðherra fólst í því að veita aðgang að utanríkisþjónustunni til að auðvelda útbreiðslu og kynningu skýrslunnar auk þess sem ég flutti ræðu á kynningarfundi vegna útgáfu skýrslunnar í New York. Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel.(leturbreytingar eru mínar)

Hér er svo brot úr ræðu fyrrverandi forsætisráðherra sem hann flutti 13. febrúar 2008. Eins og hér á undan er það sem á eftir fer tekið eftir Skýrslunni (Sjá 6. bindið bls. 126):

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti ræðu á Viðskiptaþingi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir 13. febrúar 2008. Þar sagði Geir m.a: Á síðustu vikum hefur skuldatryggingarálag íslensku bankanna einnig hækkað töluvert en líklegt má telja að það stafi að hluta til af upplýsingaskorti alþjóðlegra fjárfesta um raunverulega stöðu bankanna. Sérfræðingar greiningar- fyrirtækisins Credit Sights hafa til að mynda sagt að áhættan í tengslum við íslensku viðskiptabankana sé ofmetin og að skuldatryggingarálagið gefi ekki rétta mynd af raunstöðu þeirra. [...]

Í síðustu viku birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður úr nýju álagsprófi á viðskipta- bönkunum þar sem könnuð var geta þeirra til að standast samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, útlánum og fullnustu- eignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjár- hlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark. Skemmst er frá því að segja að bankarnir stóðust allir þetta próf. [...]

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður og greinargerðir Fjármálaeftirlits- ins, Moody’s, Credit Sights og fleiri aðila gætir enn neikvæðrar umfjöllunar hjá einstaka greiningaraðilum og fjölmiðlum. Þar er iðulega farið með hreinar staðreyndavillur og lýsingar á stöðu íslenska hagkerfisins eru mjög ýktar. Það er áhyggjuefni að þessir aðilar skuli ekki taka tillit til þeirra ítarlegu upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og lýsa sterkri stöðu bankanna og ríkissjóðs. Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.“ (leturbreytingar eru mínar)

Ég bið lesendur að taka sérstaklega eftir því að dagana á undan flokkráðsfundi Samfylkingarinnar og þingi Viðskiptaráðs árið 2008 höfðu bæði Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde setið fund með bankastjórn Seðlabankans þar sem alvarleg staða íslenska fjármálamálamarkaðarins var rædd.

Af þeim orðum sem hér hafa verið höfð eftir þessum fyrrverandi ráðherrum hrunstjórnarinnar er því ljóst að þau tala gegn betri vitund. Ingibjörg Sólrún segir: „Við þurfum að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann.“ Af þessum orðum er bersýnilegt að hún kannast við vandann sem steðjaði að íslenska bankakerfinu en henni er umhugaðra um að láta sem allt sé í lagi en grípa til eðlilegra viðbragðsaðgerða. 

Geir H. Haarde snýr sannleikanum á hvolf í ræðu sinni á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands og tekur svo kaldhæðnislega til orða að segja: „Hér virðast önnur öfl ráða ferðinni en leitin að sannleikanum.“ Því má kannski velta fyrir sér hvaða öfl Geir hefur í huga. Mér þykir liggja beinast við að draga þá ályktun að það séu þau sem hann dregur fram í eftirfarandi orðum í ræðunnar sem hann flutti af sama tilefni árið 2007:  „Þetta verkefni er gott dæmi um það þegar samvinna atvinnulífsins og ríkisins tekst vel.“

Þeim sem fylgdust grannt með hverju fram fór á stjórnmálavettvanginum í aðdraganda hrunsins og fyrstu mánuðina eftir hrunið blandast vart hugur um að ráðherrar hrunstjórnarinnar kepptust við að breiða yfir það sem þeir vissu. Þeir blésu á viðvaranir sem bárust annars staðar frá og gerðu jafnvel lítið úr þeim sem höfðu áhyggjur af því hvert ofvöxtur bankanna myndi leiða.

Með útkomu Rannsóknarskýrslunnar er öllum vafa um vitneskju framantaldra ráðherra eytt. Þau vissu hvert stefndi en kusu samt að halda úti þeirri ímynd að staða íslenska fjármálamarkaðarins væri sterk. Þau unnu með þeim sem höfðu hag af þeirri blekkingarímynd en um leið stefndu þau framtíð almennra borgara í umtalsverða hættu. Ég reikna með að ég sé ekki sú eina sem þykir að slíkt hljóti að heyra undir refsivert athæfi.

En hvað heitir glæpurinn? Landráð? Yfirhylming? Samsæri? Samábyrgð? Vanræksla? Samkvæmt landráðakafla Almennu hegningarlaganna er ekki að finna neina grein þar sem nær yfir glæpinn. Í almennu hegningarlögunum er líka erfitt að finna eitthvað um það sem fyrst kemur upp í hugann varðandi þann glæp sem ráðherrarnir unnu íslensku samfélagi með blekkingum sínum og/eða aðgerðarleysi. Nema þetta: „141. gr. Opinber starfsmaður,sem sekur gerist um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfi sínu, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári].“ (leturbreytingar eru mínar)

Varðandi það hvað glæpurinn kann að heita er líka vert að minna á það  sem segir um ráðherrábyrgð en samkvæmt 14. gr. Stjórnarskrárinnar bera „ráðherrar [...] ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum“. Nánar er kveðið á um þetta atriði í lögum um ráðherraábyrgð. Í annarri málsgrein 1. greinar þeirra laga segir að: „Ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taka einnig til ráðherra eftir því, sem við getur átt.“

En það er fleira sem lögin um ráherraábyrgðina taka til um og það er fleira sem þessir ráðherrar gerðu eða létu ógert í aðdraganda hrunsins og fyrstu mánuðina eftir hrun sem samkvæmt því sem má ráða af Rannsóknarskýrslunni flokkast undir saknæmt athæfi. En ég læt staðar numið að sinni en tek upp þráðinn aftur á næstu dögum þaðan sem ég hverf frá vangaveltunum um það hvað glæpurinn heitir hér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Allavega má nefna glæpinn stórfellda vanrækslu.  Og líka vítavert hirðuleysi. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.5.2010 kl. 19:31

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er bara fyrsti hluti Jóna Kolla. Auðvitað er ég ekki lögfræðingur eða dómari en ég þykist hafa fært fyrir því rök að þessi tvö eru a.m.k. sek um vanrækslu. Ég hef verið að lesa Rannsóknarskýrsluna og út frá þeim lestri hafa orðið til margar hugleiðingar sem hafa þó ekki orðið að bloggfærslum, a.m.k. ekki enn.

Þetta átti aldrei að verða nema ein færsla um líkurnar á allt öðrum glæp en þeim sem varðar vanrækslu en þegar ég var byrjuð sá ég að þetta var miklu meira og margslungara efni en ég hafði gert ráð fyrir. Ég ákvað þess vegna að skipta þessu í fleiri hluta og byrja á vanræksluglæpnum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.5.2010 kl. 21:06

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst núverandi ríkisstjórn ekki vera skárri en stjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.  Sama vanhæfnin er ennþá við völd.  Enginn tekur af skarið og segir hingað og ekki lengra í sukkinu og svínaríinu.  Bara þessi ráðstefna hans Árna Páls um fátækt á Grand Hótel í gær, er algjör tímaskekkja.  Það hefði verið betra að leggja þá fjármuni sem fóru í ráðstefnuna í fjölskylduhjálpina eða mæðrastyrksnefndina. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.5.2010 kl. 02:40

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég gæti varla verið meira sammála þér!! Reyndar stórundarlegt að þau skuli ekki geta horfst í augu við það sjálf að þau ráða engan veginn við vandamálin sem þarf að leysa

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.5.2010 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband