Nú er mál að vakna!

Það styttist óhugnanlega í það að dekkstu framtíðarspár dyggustu mótmælendanna, sl. tvö ár, rætist. Það styttist ískyggilega í útför hins unga lýðveldis okkar Íslendinga. Eða var hér aldrei neitt lýðveldi? Var okkur bara talin trú um það eða sáum við algerlega um það sjálf að telja okkur trú um það að við byggjum í sjálfstæðu lýðræðisríki?

Miðað við það að enn virðist stór hluti þjóðarinnar geta talið sér trú um að hér sé allt í þokkalegu lagi þá er það ekki ósennilegt að blind trú á það sem okkur er sagt, sé okkar helsti Akkilesarhæll. En nú er mál að linni! Ef við höfum einhverja réttlætiskennd og einhvern snefil af skyldurækni gagnvart okkur sjálfum, forverum okkar og afkomendum, að ég tali ekki um landinu okkar, þá er tíminn til að rísa upp runninn upp núna!

Ef okkur hefur blöskrað yfirgangur svokallaðra Vesturvelda í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu þá er rétt að benda á að það sem er að gerast hér er af sama toga. Álrisarnir voru fyrstir en fæst okkar bærðu á sér. Nú er það Magma Energy. Þeir eru rétt mættir og þegar byrjaðir að teygja fingurna fram og gína yfir gróðavænlegustu bitum landsins.


Í græðginni er fall okkar falið

Þeir verða ekki þeir einu því auðlindir okkar eru á útsölu! Uppboðshaldararnir eru misvitrir stjórnmálamenn sem reyna að telja okkur trú um að þetta sé eðlileg afleiðing kreppunnar. Það rétta er að ef fer sem horfir þá erum við rétt farin að finna smjörþefinn af raunveruleika alvöru þeirrar kreppu sem sú hugmyndafræði sem þeir treysta á leiddi okkur inn í!

Ég bið alla sem lesa þetta að velta því fyrir sér hvað annað en undarlegir hagsmunir geta skýrt það að á sama tíma og ríkisstjórnin „á peninga“ til að leggja í innlendan ferðamannaiðnað segjast fulltrúar hennar ekki hafa haft upp á peningum til að kaupa HS-orku? Ef allir hlustuðu almennilega á það sem sagt er þá hefðu þeir tekið eftir því að það hefur verið reynt að telja okkur trú um að ástæða kreppunnar hér á landi sé alheimskreppa. En þá myndum við líka spyrja okkur að því hvor það sé eitthvert vit í að byggja á ferðamannaiðnaði? Eru ferðalög ekki eitt það fyrsta sem fólk sker niður þegar kreppir að?

Auðlindir okkar eru hins vegar framtíðarverðmæti. Verðmæti sem geta komið okkur út úr kreppunni en ekki ef við seljum þær með öllu tilheyrandi úr landi! Hvet ykkur til að lesa grein Þórs Saaris, „Glópagull erlendra fjárfesta fyrir auðlindir“, sem birtist á Smugunni í síðustu viku, þar sem hann bendir á afleiðingar þess fyrir þjóðina að íslenskir ráðamenn skuli fara þannig með völdin sem þeim var treyst fyrir.

Græðgin át landið mitt inn að beini

Ég spyr mig gjarnan hvernig stendur á því að íslenskur almenningur getur haldið áfram dag frá degi eins og ekkert hafi í skorist? Að einhverju leyti held ég að það sé skortur á skilningi á því sem raunverulega gerðist við hrunið. Hvernig það gat gerst og hvaða afleiðingar það muni hafa en síðast en ekki síst vonleysi. Eða m.ö.o. sú blinda trú að ekkert sé hægt að aðhafast til að breyta og tryggja það að slíkt og þvílíkt gerist aftur.

Það er hins vegar ekki rétt. Það er ýmsu hægt að breyta. Ég hef gjarnan talað um að hér þurfi að verða grundvallarhugarfarsbreyting til að af öðrum nauðsynlegum breytingum megi verða. Kannski hafði ég rangt fyrir mér. Kannski er það skortur á upplýsingum um það hvað gerðist og hvernig það gat gerst sem vantar.

Það vantar kannski bara einfaldlega fræðslu um það hvernig peningakerfi heimsins er byggt upp. Hvernig það varð til. Hvaðan það er komið og hvernig þeir, sem eru í aðstöðu til þess að breyta þessu kerfi, hafa aðlagað það að löngun sinni til að verða ríkir án þess að leggja hart að sér sjálfir.

Leiðin sem þeir fundu var að græða á öðrum. Þessir aðrir eru launafólk. Almennir launþegar. Við! Og nú er komið að því að okkur, íslenskum almenningi, er ekki aðeins ætlað að halda uppi íslenskum útrásardólgum heldur erlendum líka. Við erum m.ö.o. þrælar þess peningakerfis sem þjónar hagsmunum þeirra sem hafa komið sér þannig fyrir að þeir græða á fáfræði okkar og leti. Við erum duglegir vinnukraftar og mölum undir þá gull en við nennum ekki að fræðast um það hvernig þetta kerfi sem við leggjum okkur öll fram við að viðhalda, með þögulli og samviskusamri vinnusemi, er uppbyggt og hagsmunum hverra það þjónar í reynd.

Hagkerfi sem byggir á ísHér í lokin er einfalt kennslumyndband, Money as Dept, sem rekur sögu peninganna frá upphafi og til nútímans. Þar er útskýrt á einfaldan hátt hvernig svokallaður gullfótur var notaður til að ákvarða peningamagn í umferð en í dag eru það útlán bankanna sjálfra sem eru notuð sem viðmið.

Þetta þýðir að það sem setur peninga- prentvélina af stað er eftirspurnin eftir lánum hjá bönkunum. Hverjir mega setja prentvélina af stað? Seðlabankar. Hverjir standa á bak við seðlabankana? Ríkisstjórnir. Hver er þá hin raunverulega trygging? Vinnuframlag hinna vinnandi stétta. Þetta er auðvitað lygilegt en því miður veruleikinn sem við verðum að bregðast við.

Ég hvet alla til að horfa á eftirfarandi myndband af athygli! Það tekur tæpar 50 mínútur í flutningi en er hverrar mínútu virði.

Myndbandið má líka nálgast hér.

Mér þykir ástæða til að enda þetta á ábendingu um mótmæli við Stjórnarráð Íslands sem munu fara fram í fyrramálið kl. 11:30 og hvetja alla til að mæta. Hér má lesa nánar um mótmælin og tilgang þeirra en þar segir m.a:

  • Við sættum okkur ekki við að heimilum okkar og velferð verði fórnað á altari fjárglæframanna.
  • Ef þið haldið áfram að fara með okkur eins og ruslið ykkar munið þið sjálf enda á öskuhaugum sögunnar.

mbl.is Magma á helming í Búlandsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Rakel, vandinn er ekki flókinn.

Flagðið sem stjórnar heitir Jógríma.

Og þess vegna styður margt gott fólk, eins og Jenný Baldurs eða Lára Hanna óráð AGS. 

Þeim finnst allt vera betra en íhaldið.

Á meðan eru þrælahlekkir AGS smíðaðir á okkar þjóð.

Kannski ættir þú að spyrja Láru  Hönnu og Jenný hvað veldur.

Andstaðan safnar ekki liði á meðan þær stöllur brjóta niður orð þín.  

Að allt sé betra en íhaldið. 

Hvaða íhald, íhaldið hans Geirs Harde????????????

Geir Harde er ekki gerandi fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

En Rakel, þínir bloggvinir eru það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.5.2010 kl. 13:22

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ekki styð ég íhaldið svo mikið er víst! en ég styð ekki heldur núverandi stjórn því hún er engu betri. Ég tek undir það með þér að það er sérkennilegt að standa stilltur hjá af ótta við það að ef núverandi stjórnvöldum verði steypt þá sé enginn annar möguleiki en íhaldið. Staðreyndin er sú að núverandi stjórn þjónar fjármálaelítunni jafnvel enn betur en nokkur íhaldsmaður myndi treysta sér til. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt varðandi afstöðu Láru Hönnu hvað þetta varðar og ég hef lítið gert af því að lesa bloggið hennar Jennýar Baldurs.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.5.2010 kl. 21:30

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Rakel.

Ekki ætla ég öðrum mínar skoðanir, á fullt í fangi með að halda utan um þær sjálfur.  Og ég geri mér fulla grein fyrir að á baki viðhorfum fólks eru forsendur sem hver og einn hefur, og ekki er hægt að heimfara yfir á aðra.

En þar sem ég er í hópi þeirra sem er jafn illa við að núverandi stjórn skuli endurreisa hagkerfið á forsendum fjármálaelítunnar eins og sú fyrri, þá gagnrýni ég þá sem eru ekki sama sinnis.

Og tilvísun mín var í þekkta bloggara sem gerðu ICEsave andstöðunni erfitt fyrir með skoðunum sínum, þær skiptu jú máli í baráttunni um sálir fólks, ef það má orða það svo.

En það eru ekki allir sem deila þeirri skoðun minni að ICEsave er grundvallarmál, annars væri það jú ekki svona mikið deiluefni.

Kannski er ég að orða þetta vegna þess að ég el þá von í brjósti að einn daginn sameinumst við öll gegn þeim örlögum sem fjármálaelítan ætlar okkur.  En til þess þarf að orða ágreiningin, sem og að reyna að brúa hann.  

Til slíkra brúargerðar þarf hugsun, þá hugsun að kannski skilur minna að en virðist við fyrstu sýn, og að óvinurinn sé sameiginlegur.  

Síðan þarf einhver að hafa áhuga á að smíða brúna milli ólíkra áherslna.  

En hvað um það, "Nú er mál að vakna".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.5.2010 kl. 22:35

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tek undir það með þér að það er mál að vakna! Það er mál að vakna og átta sig á því hvað við viljum. Margir komast ekki lengra en vita hvað þeir vilja ekki. Þannig var ljóst að mótmælendur sem stóðu að baki janúarbyltingunni svokölluðu höfnuðu Sjálfstæðislflokki en samþykkir stjórnunarhættina sem hann innleiddi og forgangsröðun hans þegar svokölluð vinstri stjórn er komin við stýrið.

Grundvallaratriðið hér hefur ekkert með það að gera hver situr við stýrið á meðan stefnan breytist ekki neitt. Á meðan fjármálaelítan stýrir á bak við tjöldin þá skiptir engu hvort þeir sem halda um stýrið kenna sig við hægri eða vinstri. Ég hafna áfangastaðnum sem merkir það sama og þú orðar þannig „sameinumst [...] öll gegn þeim örlögum sem fjármálaelítan ætlar okkur“.

Ég vona að okkur beri gæfa til þess fyrr en seinna! Því eins og þú segir þá grunar mig að ágreiningurinn milli þeirra sem vilja breytingar sé minni en „virðist við fyrstu sýn“. Það er heldur engum blöðum um það að fletta „að óvinurinn sé sameiginlegur“.

Í sambandi við hugmyndir þínar um að byggja brýr þá langar mig til að benda þér og fleirum, sem kunna að fylgjast með þessari umræðu, á þetta frábæra innlegg Þórodds Bjarnasonar, prófessors við félagsvísindadeild HA, um muninn á því að byggja brýr og byggja virki. Hann flutti þessa tölu á borgarafundi hér fyrir norðan þar sem var fjallað um hugtakið samfélagssamheldni. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.5.2010 kl. 14:07

5 Smámynd: Birgir Rúnar Sæmundsson

Fyrsta mál á dagskrá og aðalmálið er að reka IMF úr landi strax.

Birgir Rúnar Sæmundsson, 28.5.2010 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband