1. maí ávarp: Stjórnarkreppan viðheldur efnahagskreppunni!

Ég var fengin til að flytja ávarp á morgunfundi Stefnu hér á Akureyri í tilefni dagsins. Fundurinn fór fram á Kaffi Amor sem stendur við Ráðhústorgið hér í bænum. Fundurinn var þokkalega vel sóttur en eftir hádegið var ganga sem endaði með kaffisamsæti í Sjallanum. Ávarp mitt fer hér á eftir:

Góðan daginn, árisulu baráttugarpar!

Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa þessa virðulegu samkomu í tilefni þessa dags sem hefur verið helgaður baráttu verkalýðsins. Nú er reyndar svo komið málum að hver einasti dagur ársins þyrfti, ef vel ætti að vera, að vera helgaður baráttu almennra launþega fyrir réttindum sínum.

Þá er ég ekki aðeins að tala um varnarbaráttu til að verjast því að allt það sem áunnist hefur fyrir baráttu forfeðra okkar og –mæðra verði af okkur tekið. Sóknarbaráttan er nefnilega ekki síður mikilvæg og reyndar nauðsynleg. En hvar á að byrja?

Frá mínum bæjardyrum séð gæti byrjunin falist í því að almenningur brjótist út úr þeim meðvirka hugsunarhætti sem stjórnvöld hafa alið þjóðina upp í undanfarin misserin.

Í hinu svokallaða góðæri, sem ég vil miklu fremur kenna við æði, var þjóðin knúin til einhvers konar neyslumaníu. Við hrunið var það, hve vel tókst til, notað gegn almenningi þar sem hinir raunverulegu gerendur efnahagshrunsinskepptust hver um annan þveran við að benda á að almenningur bæri ekki síst ábyrgð á því hvernig komið var og þyrfti því að gangast við afleiðingum gjörða sinna.

Því miður tókst þessi áróðurherferð samábyrgðar alls launafólks í landinu svo vel að fólk þorir tæpast enn að segja frá því hvernig það var haft að ginningarfíflum hinna ýmsu lánastofnanna. Það ber líka grunsamlega lítið á reynslusögum fórnarlamba niðurskurðarhnífsins á vinnumarkaðinum.

Bæði fyrir og eftir hrun voru í gangi ýmsar sögur af því hvernig eigendur bankanna misnotuðu eignarhald sitt yfir þeim og stórjuku eiginfjárstöðu sína á kostnað skjólstæðinga sinna. Þ.e. okkar almennings. Til að tryggja „lögmæti“ slíkra gjörninga kostuðu þeir breiðstræti valinkunnra velunnara sinna inn á Alþingi okkar Íslendinga.

Nöfn þeirra þingmanna sem voru kostaðir af Landsbanka og Kaupþingi eru talin upp í 8. bindi nýútkominnar Rannsóknarskýrslu. Maður skyldi ætla  að af því sem á undan er gengið, að það eitt hefði dugað til að þeir sem um ræðir segðu af sér en nei ekki aldeilis. Þeir sitja sem fastast.

Það er kunnara en frá því þurfi að segja að Alþingi okkar Íslendinga nýtur þverrandi trausts bæði innanlands sem utan. Það að kostaðir þingmenn sitji áfram á þingi og viðhafi þá vörn sem við höfum orðið vitni að frá útkomu Skýrslunnar er síst til þess fallið að auka á traust þingsins eða trúverðugleika og á meðan svo fer fram ríkir hér lamandi stjórnarkreppa!

Þetta er grafalvarlegt ástand því ríkjandi stjórnarkreppa viðheldur kreppuástandinu á öllum öðrum sviðum samfélagsins. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þó e.t.v. djúpstæðari en svo að hann verði leystur með því einu að umræddir þingmenn segi af sér og varamenn taki sæti í þeirra stað.

Sú stjórnarkreppa sem við glímum við kemur ekki síst fram í því hvaða mál hafa verið sett á oddinn frá hruni sem eru í stuttu máli: Skilyrðislaus björgun fjármagnseigenda og fjármálastofnana. Almennt launafólk er sett út á guð og gaddinn í þessum tilgangi.

Á sama tíma horfum við upp á það að bankar og aðrar fjármálastofnanir eru ríki í ríkinu. Ríki sem hefur fyrir tilstilli stjórnvalda fullkomnar veiðiheimildir í lífsafkomu íslenskra launþega. Við erum á þeirra valdi á meðan skipt er um kennitölur þeirra fyrir tilstilli stjórnvalda og skuldir stærstu hluthafa þeirra eru afskrifaðar.

Og nú hafa ráðherrar í ríkisstjórninni svo og seðlabankastjóri undirritað viljayfirlýsingu, í tilefni af endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands, þess efnis að nauðungarsölur vegna gjaldþrota húsnæðislánagreiðenda verði ekki frestað lengur en fram í október á þessu ári!

Óveðursskýin sem stefnt er gegn okkur almennum borgurum hrannast upp. Á sama tíma og afborganir húsnæðislánanna okkar, svo og annarra lána, rjúka upp eru laun stórs hluta launamanna í frosti. Lífeyrisgreiðslur hafa verið skornar niður í tveimur áföngum og miðað við það sem hefur verið haft eftir Steingrími J Sigfússyni er nú komið að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.

Ég ætla ekki að lýsa þeirri vandlætingu og reiði sem ég finn til þegar ég hugsa til aðgerðarleysis velflestra forkólfa verkalýðsforystunnar. Hvað þá vanhæfni framkvæmdarstjórna lífeyrissjóðanna. En það að þær framkvæmdarstjórnir, sem stýrðu lífeyrissjóðunum fyrir hrun, sitji óáreittar enn sýnir e.t.v. best þá gjá sem hér hefur myndast milli þjóðar og þings.

Nú nýlega kvað Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg upp dóm þess efnis að íslenska ríkinu væri óheimilt að innheimta iðnaðarmálagjaldið sem það hefur látið iðnfyrirtæki greiða til Samtaka iðnaðarins.

Iðnaðarráðherra segir að það „verði farið vandlega yfir dóminn áður en það verði ákveðið hvernig ríkið bregðist við honum“. Það er nefnilega ekki bara Samtök iðnaðarins sem byggja afkomu sína á gjöldum af þessu tagi heldur líka Bændasamtökin og LÍÚ.

Allt ber að sama brunni þegar litið er til stjórnsýslunnar. Hún stendur vörð um samtök og stofnanir sem urðu kannski til í þeim tilgangi að ávaxta launin okkar og verja kjör okkar og réttindi en hafa gersemalega týnt þeim tilgangi. Stjórnendur þessara stofnana og samtaka þrífast beinlínis á því að hlunnfara okkur á alla lund og það í skjóli íslenska ríkisins. Skiptir engu hvort ríkjandi stjórnmálaflokkar kenna sig við nýfrjálshyggju eða norrænt velferðarkerfi; hægri eða vinstri.

Á meðan almenningur getur ekki treyst stjórnmálamönnunum fyrir öðru en því að þeir snúist gegn almennum borgurum og verji arðræningjanna. Á meðan það er látið viðgangast að kostaðir þingmenn fjármálaveldisins taki þátt í að stýra landinu og taka mikilvægar ákvarðanir sem varða kjör okkar er ekki von á neinum breytingum í íslensku samfélagi.

Við sitjum föst nema við gerum eitthvað sjálf! Varnarbaráttan dugar ekki til. Við þurfum að hefja sóknarbaráttu! Baráttu í anda forfeðra okkar og –mæðra sem sóttu þau réttindi sem við búum að á vinnumarkaðinum í dag. Réttindi sem verða af okkur tekin ef við gerum ekki neitt!

Við verðum að átta okkur á þessari staðreynd áður en við verðum gerð að fullkomnum þrælum í eigin landi! Til að sporna gegn þvílíkri ógn þarf sennilega miklu meira en berja tréfótum niður í háborð þeirra sem sitja við stjórnvölinn!

Ég þakka áheyrnina.


mbl.is Styðja upptöku eigna auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Flott ræða

Finnur Bárðarson, 1.5.2010 kl. 15:59

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gaman að fá þá viðurkenningu frá þér:-)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.5.2010 kl. 16:40

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Rakel flott innlegg í þjóðfélagsumræðunaÉg komst ekki en í staðinn fór ég í Þorgeirskirkju og hlustaði á lögreglukór Reykjavíkur singja, eftir sönginn hitti ég Geir Jón Þórisson og átti við hann spjall um ástandið tjáði ég honum að það sem þeir gerðu þarna fyrir sunnan væri hættulegt útspil lögreglu jafnframt varaði ég við því að með sama áframhaldi myndi sjóða uppúr, taldi hann það mjög líklegt og hvaðst hafa af því miklar áhyggur.

Sigurður Haraldsson, 1.5.2010 kl. 21:37

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þið hafið verið góðir saman

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.5.2010 kl. 22:30

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábært ávarp hjá þér.  Ég er hætt að skilja langlundargeð okkar fólksins, við erum eins og barðir hundar við höfum okkur ekkert í frammi.  Ég fór í bæinn í gær, ég lagði bílnum mínum fyrir neðan Landsbankann á Laugavegi 77 og kíkti á mömmu mína í vinnunni.  Hún var ein gamla konan og barinn fullur af fólki, ég fór ekki lengra en á barinn og var í hörkuvinnu þar til við vorum búnar að fá hjálp fyrir mömmu.  Ég missti því af öllum ræðunum á Austurvelli, því miður. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.5.2010 kl. 00:08

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Rakel.

Sönn ádrepa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.5.2010 kl. 17:10

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og innlegg Finnst virkilega vænt um þau öll!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.5.2010 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband