Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Með vetrinum koma líka borgarafundirnir

Frá borgarafundi á Akureyri sl. veturÞar sem þessi frétt tengist Norðurlandi þá ætla ég að leyfa mér að notfæra mér hana til að vekja athygli á fyrsta borgarafundi vetrarins hér á Akureyri. Fundurinn verður tileinkaður greiðsluverkfallinu og verður haldinn n.k. mánudagskvöld. Sjá fréttatilkynninguna hér að neðan og þessa frétt inni á dagur.net

Mig langar til að taka það fram hvað mér, sem fulltrúa í borgarafundanefndinni hér fyrir norðan, þykir vænt um eftirfarandi lokaorð þessa akureyska vefmiðiðls: „[Borgara]fundirnir hafa það markmið að upplýsa almenning og hafa þá stefnu að öll sjónarmið komi fram sama hvort stjórnin sjálf er sammála þeim eða ekki.

Við förum aftur af stað með borgarafundina en fyrsti fundur vetrarins er kynning á Hagsmunasamtökum heimilanna og fyrirhuguðu greiðsluverkfalli.

Staður og tími: Deiglan mánudaginn 28. september kl:20:00

Fundarstjóri: Guðmundur Egill Erlendsson

Framsögur:

  • Margrét Ingibjörg Ríkarðsdóttir, húsnæðislánagreiðandi
  • Þorvaldur Þorvaldsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og formaður verkfallsstjórnar
  • Arney Einarsdóttir, meðstjórnandi Hagsmunasamtaka heimilanna
  • Bragi Dór Hafþórsson, lögfræðingur og kollegi Björns Þorra Viktorsonar


Pallborð: Frummælendur og

  • Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við Háslólann á Akureyri
                                                         Borgarafundanefndin á Akureyri

 


mbl.is Mikil hálka á Öxnadalsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum þann sólgula gefa okkur rödd

Fáninn á FáskrúðsfirðiSaga fánans sem ég birti hér hefur breiðst víða en nú er sá sólguli farinn að dreifa sér sjálfur. Einn þeirra stakk sér niður á Fáskrúðs- firði í dag og blaktir nú vondjarfur við hún í garði Ástu Hafberg.

Ásta hefur t.d. sagt þetta um fánann: „[Hann] er samtöðu- og sameiningartákn þeirra sem finnst skipta máli hvernig farið verður með land og þjóð. Hann er óháður og ekki tengdur neinum félagasamtök- um, flokki eða stefnu. Hver og einn getur borið fánann fyrir sig og sínar skoðanir“

Fyrir þá sem hafa ekki enn kynnt sér sögu fánans þá er hér örstutt samantekt. Fáninn varð til sumarið 2007 og þá í tengslum við leiksýningu sem Kristján Ingimarsson setti upp á Akureyrarvöku. Síðan lagðist hann í dvala að mestu nema George Hollanders, leikfangasmiður, hélt honum á lofti. Síðastliðinn vetur var þessi fáni líka áberandi í mótmælunum hér á Akureyri.

Boðskapur verksins, sem Kristján setti upp á Akureyrarvöku 2007, á sér ríkan samhljóm í þeim hugmyndum sem hafa orðið áberandi víða í röðum mótmælenda og grasrótarhópa sem spruttu upp í kjölfar hrunsins sl. haust. Fáninn er tákn þess boðskapar sem er í aðalatriðum sá að það er mannkyninu nauðsynlegt að endurskoða þau gildi sem hafa verið í hávegum höfð á nýliðnum árum.

Það er því ekkert eðlilegra en við, sem erum óánægð með ómannúðlegt samfélag sem stjórnast af græðgi og firringu hennar, tökum þennan fána upp sem tákn fyrir óánægju okkar og óskarinnar um breytingar; ekki síst róttækrar hugarfars- breytingar. Við sem stöndum á bak við það að kynna fánann, sem samstöðutákn fyrir þennan hóp, höfum kallað hann nokkrum nöfnum eins og: þann sólgula og fána samstöðu og vonar.

Bílafáninn er flotturÞað síðarnefnda er heiti hans á  vefverslun Fánasmiðjunnar á Þórshöfn sem sér um prentun hans og dreifingu. Dreifing fánans byrjaði í þessari viku. Við Ásta Hafberg fengum fánana okkar með póstinum í dag. Ásta dreif stóra fánann sinn þegar upp í fánastöngina í garðinum sínum heima á Fáskrúðsfirði en ég prufukeyrði bílafánann minn nú í kvöld hérna á Akureyri.

Þegar við leituðum til Kristján Ingimarsson, höfundur fánans, hreifst hann svo að hugmyndum okkar að hann gaf okkur höfundarréttinn að honum. Af þessu tilefni sagði hann m.a. þetta:

Fyrir rúmum tveimur árum sáði ég fræi sem virðist ekki geta hætt að spíra. Nú viðrist þriðja uppskeran vera að koma fram. Hann virðist getað sáð sér sjálfur þessi fáni. Ef fífillinn getur orðið tákn þess að við stöndum saman sem hópur þá er rétta takmarkinu náð. 

Við Ásta erum með fleiri hugmyndir í sambandi við það hvernig við getum nýtt fífilinn til að sýna samstöðu okkar í viðspyrnunni gegn því sem fer fram á vettvangi stjórn- og fjármála. Okkur langar til að gefa öllum, sem eru óánægðir, tækifæri til að gera afstöðu sína sýnilega víðar en á skipulögðum mótmælum. Nú hafa mótmælin t.d. legið niðri um þó nokkurt skeið og svo er það staðreynd að það hafa alls ekki allir landsmenn tækifæri til að mæta á slíkar uppákomur þó þeir fegnir vildu.

Við höfum stofnað sérstakan vettvang inni á Facebook sem við köllum Viðspyrnu en hann viljum við nýta til að safna hugmyndum um það hvernig almenningur vítt og breitt um landið geti sameinast í því að spyrna á móti gengdarlausu óréttlæti sem þjóðinni er ætlað að bera þegjandi og hljóðalaust. Það er öllum velkomið að ganga í þann hóp og leggja inn hugmynd/-ir. 

En fyrst er það fáninn sem við vonum að muni dreifa sér um allt land og standa svo þétt að stjórnmála- og embættismenn þessa lands geti ekki lengur látið sem við séum ekki til. Við sem viljum sporna á móti ættum að nýta þetta tækifæri til að gera afstöðu okkar sýnilega bæði stjórnvöldum og fjölmiðlum. Fánar hvarvetna munu hafa þau áhrif að þeir geta ekki lengur leitt afstöðu okkar hjá sér.

Drögum þann sólgula að húni og látum hann tala máli okkar. Hann er þegar byrjaður á því í Eyjafirði, á Akureyri og Fáskrúðsfirði og sennilega víðar.


Vargöld

Tími grimmra úlfaÞað hefur komið í ljós að hið svokallaða góðæri var tími úlfanna. Þessir úlfar gleyptu ekki sól og mána heldur efnahag Íslands með þeim afleiðing- um sem eru alltaf að koma betur og betur í ljós.

Á tíma varganna gleyptu þeir í sig innistæðurnar í bönkunum og fluttu þær úr landi. Þeir fjárfestu gríðarlega en bjuggu til innlend eignarhaldsfélög í kringum þær. Í gegnum þau létu þeir lánin sem þeir tóku falla á almenning en héldu fjárfesting- unum eftir kinnroðalaust.

Almenningur er að kikna undan skuldaböggunum og óréttlætinu. Hann er ekki síður beygður af skömminni yfir getulausu fjármálaeftirliti og spilltu embættismannakerfi sem lítur undan á meðan þjóðinni blæðir hægt út.

Í stað þess að stjórnvöld grípi inn í og stöðvi vargana virðist hún eiga sér það eina markmið að viðhalda sjálfri sér og tryggja að þeirra sé mátturinn og dýrðin áfram. Þau eiga sér varga að vinum og reyna allt hvað þau geta til að tryggja óargadýrunum sömu lífsskilyrði áfram.

Við, almenningur, verðum að spyrna almennilega við fótum til að binda endi á tíma úlfanna. Við verðum að krefjast þess að íslensk stjórnvöld hætti þessu vargsdekri og snúi sér að kjörum almennings. Við eigum heimtingu á því að mannúðin fái að ráða ríkjum í stað auðmagnsins. Öðruvísi mun okkur alltaf stafa ógn af grimmum og gráðugum úlfum sem svífast einskis þegar peningar eru annars vegar.

Jenný Stefanía JensdóttirMig langar til að vekja sérstaka athygli á greinaflokki Jennýar Stefaníu Stefánsdóttur þar sem hún veltir því fyrir sér hvort peningaþvætti hafi verið stundað hér á Íslandi. Þetta eru fimm greinar þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að íslenskt fjármálaumhverfi hafi ekki aðeins verið kjörinn vettvangur fyrir gráðuga peningaúlfa heldur dregur hún fram mörg fleiri rök fyrir því að þeir hafi ekki staðist mátið og nýtt sér reglugerðarleysi þess til peningaþvættis!

Mig langar líka til að vekja athygli á grein sem Marinó G. Njálsson segir að sé aðeins sú fyrsta af mörgum um efnahagshrunið og ástæðurnar sem liggja því að baki.


mbl.is Ár frá hruni bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáni samstöðu og vonar er tilbúinn til dreifingar:-)

Allir landsmenn eru nú farnir að finna fyrir áhrifum efnahagshruns landsins á eigin skinni. Sumir tilfinnanlega, aðrir minna. Langflestir eru líka búnir að átta sig á því hverjir bera ábyrgð á hinni gífurlegu lífskjaraskerðingu sem almenningi er ætlað að bera.

Það er því eðlilegt að óánægjan brjótist út á ýmsa vegu. Því miður er ein birtingarmynd hennar sú að þeir sem verða verst úti fara að rífast innbyrðist í stað þess að standa saman. Það er ljóst að þeir einu sem græða á slíku eru þeir sem vilja viðhalda óbreyttu ástandi.

Þess vegna er áríðandi að við sameinumst. En hvernig eigum við að fara að því? Ein leið er að við komum okkur upp sameingartákni. Tákni um það að við stöndum saman þó hugmyndir okkar séu ekki í öllum atriðum þær sömu. Við Ásta Hafberg tókum okkur saman fyrr í haust og einsettum okkur að hafa uppi á einhverju slíku. Fljótlega komum við auga á þennan fána:
1. maí-gangan á Akureyri 2009Ég setti saman sögu þessa fána með aðstoð höfundar hans, Kristjáns Ingimarssonar leikara, og birti hana hér. Þar segir höfundur fánans m.a. þetta: „Ef fífillin getur orðið tákn þess að við stöndum saman sem hópur þá er rétta takmarkinu náð.“

Færslan um söguna fékk mikil og jákvæð viðbrögð sem kom okkur, sem stöndum að baki þessari hugmynd, gleðilega á óvart. Ég birti eina athugasemdina hér:

Ég heillaðist af lestrinum um sögu fánans. Hugsjónin er svo falleg og svo mikilvæg fyrir andlegt jafnvægi þess mikla fjölda fólks sem upplifir sig utan sjóndeildarhrings stjórnmálamanna og annarra ráðamanna.

Það væri yndislegt ef hið mikla afl, sem býr í hugum allra þeirra sem upplifa sig sniðgengna, gæti fundið sameiginlega framrás undir slíku merki. Slíkt orkuflóð yrði ekki sniðgengið, takist að láta það fljóta fram af kærleika og mannvirðingu. (Þessa athugasemd, sem kemur frá Guðbirni Jónssyni, má sjá hér)

Sólgult túnNú er fáninn tilbúinn til dreifingar hjá Fánasmiðju Þórshafnar og er það von okkar sem stöndum að honum að hann eigi eftir að fá mikla dreifingu. Við vonum að á næstu vikum og mánuðum eigi hann eftir að birtast á fánastöngum, svölum, í gluggum og á bílum. Við vonum að fáninn dreifi sér jafnt ört og örugglega eins og fífillinn sem hann skartar.

Fánarnir eru til í þremur stærðum. Með þeim minnsta er hægt að kaupa svokallaða bílaflaggstöng (sjá hér) en tvær þær stærri má draga upp í fánastangir eða hengja upp þar sem hentar. Fánana er hægt að panta í gegnum vefverslun Fánasmiðjunnar og greiða með kreditkorti.

Þeir sem eiga ekki kreditkort geta pantað í gegnum netpóstfangið fanar@fanar.is eða hér. Þeir fá svo pöntunina senda í póstkröfu.

Mig langar til að biðja þig um að hjálpa okkur við að láta fréttina af fánanum berast. Það getur þú gert á blogginu þínu og inni á Facebook. (Sjá t.d. hér inni á Fésinu)

Þú mátt taka afrit af þessari færslu að hluta eða í heild. Þú mátt líka vísa í hana ef þú vilt það frekar. En mikið yrðum við þakklát ef þú stæðir með okkur í að kynna þetta samstöðutáknHeart


mbl.is Ná ekki endum saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir vilja bara ekkert læra!

Ég fylltist ónotalegri óraunveruleikakennd við lestur tengrar fréttar. Hún staðfestir það nefnilega svo vel að stjórnvöld ætla alls ekki að draga neinn lærdóm af undangegnum ósköpum. Það sýnir sig best í því að þau ætla að keyra áfram á sömu hugmyndunum og settu okkur á hausinn.

Í tengdri frétt segir m.a:

Full samstaða er meðal stjórnarflokkanna um hvaða opinberar framkvæmdir, fjármagnaðar af lífeyrissjóðunum, skuli farið í á næstunni. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lýst yfir vilja sínum til þess að hafist verði handa um framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun og Suðurlandsveg og hönnun nýs Landspítala. Önnur verkefni sem eru inni í myndinni eru til að mynda Vaðlaheiðargöng og stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður þingflokks þeirra. (leturbreytingar eru mínar)

Samkvæmt þessu er hugmyndaörbirgðin svo algjör að það eina sem stjórnvöldum dettur í hug eru óarðbærar stórframkvæmdir í stíl við þær sem keyrðu hér allt í þrot. Ég efast ekki um að ein meginástæðan er sú að þau telja það frumskyldu sína að bregðast við kröfum stóru atvinnufyrirtækjanna sem hafa hagnast á vega- og virkjanaframkvæmdum undangengina ára.

Það er útlit fyrir að með þessu eigi að leika sér að hagtölunum. Þær fara upp á meðan á framkvæmdunum stendur, en fyrr en varir verður niðurstaðan nánast sú sama og við stöndum frammi fyrir í dag.
Hagfræðihugmyndir rányrkjunnarNæsta brotlending verður bara enn verri en sú sem við stöndum frammi fyrir núna því þá munum við ekki aðeins standa frammi fyrir óarðbærum fjárfestingum í steypu og malbiki heldur galtómum lífeyrissjóðum líka!


mbl.is Samkomulag um Vaðlaheiðargöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifærin svífa hjá...

Póstmódernismi eða hver höndin uppi á móti annarriÁ þeim póstmódernísku tímum sem við lifum í dag þarf það ekki að koma á óvart að margar hugmyndir séu á lofti um það hvert skuli halda. Hugmyndirnar eru reyndar ekki aðeins margar heldur líka margvísandi og sumar ósamrýmanlegar.

Á meðan hugmyndirnar streyma fram og fá að svífa stefnulaust í lausu lofti fá þeir sem sitja við stjórnvölinn að byggja í kringum okkur samfélag sem grundvallast á úreltri hugmyndafræði. Hugmyndafræði sem leiddi til þess að hér hrundi allt til grunna.

Flestir ættu að kannast við það úr sjálfshjálparfræðunum að eftir áföll, eða hrun, þá þurfum við ákveðin tíma til að sleikja sárin en við megum ekki dvelja þar of lengi. Tilfinningalegt hrun skilur eftir sig orku sem þarf að beisla og nýta í hið bráðnauðsynlega uppbyggingarstarf sem blasir við á slíkum stundum.

Þegar við verðum fyrir tilfinnanlegu áfalli þurfum við að halda áfram hvort sem okkur líkar betur eða verr og reyna að sættast við orðinn hlut. Við verðum að vinna á móti neikvæðum tilfinningum yfir því sem kom okkur úr jafnvægi með því að koma auga á það hvað við getum gert úr reynslu okkar. M.ö.o. þá verðum við að finna eitthvað jákvætt í stöðu okkar til að byggja upp og koma aftur á tilfinningalegu jafnvægi til að takast á við okkar daglega líf.

Eitt af heilræðum sjálfshjálparfræðannaSjálfshjálparfræðin kennir að þegar myrkur óbærilegrar lífsreynslu skellur á þá sé besta leiðin sú að gefa einhverju nýju tækifæri til að byggja sig inn í ljósið að nýju. Sjálfshjálpin byggir þannig að miklu leyti á endurskoðun og endurmati á því sem áður var talið sjálfsagt og því að gefa einhverju nýju tækifæri.

Það sjá sennilega allir hvernig er hægt að yfirfæra þessa speki yfir á heilt samfélag. Því miður virðast þessi einföldu fræði ekki hafa skilað sér inn í íslenskan stjórnmála- og fjármálaheim. Það opinbera og þær fjármálablokkir sem eiga ítök hér á landi (eða hyggja á slík) hafa eytt tímanum yfir rústum þess sem var án nokkurra aðgerða til raunhæfrar björgunar. Þær björgunaraðgerðir sem við höfum orðið vitni að miða fyrst og fremst að því að ríghalda í það sem þeir þekktu áður.
Póstmódernisminn í hagfræðinniAðgerðaáætlun núverandi stjórnar er eftir sömu formúlu og kom samfélaginu í þá hörmulegu stöðu sem það er í nú. Meðlimir eldri ríkisstjórna og núverandi ríkisstjórnar reyna enn að telja okkur trú um að þeir séu hæfir og ærlegir. Enginn þeirra hefur þó komið heiðarlega fram við kjósendur sína og viðurkennt úrræða- og getuleysi sitt þótt það blasi við. Enginn þeirra hefur komið fram með raunhæfar hugmyndir um úrræði og lausnir til að koma þjóð sinni til bjargar og rétta samfélagið af.

Raunhæfar hugmyndir um slíkt verða til annars staðar. Hugmyndir sem innihalda lausnir sem byggja á nýjum viðhorfum, breyttri forgangsröðun og breyttri hugmyndafræði. Lausnum sem byggja á tækifærum til frambúðar. Tækifærum sem gefa fyrirheit um bjartari framtíð. Fyrirheit um að við getum lifað mannsæmandi lífi í sátt og samlyndi við hvert annað og umhverfi okkar.

Slíkar hugmyndir hafa komið fram hjá einstaklingum, sérfræðingum og grasrótarhópum. Einn þeirra sérfræðinga sem hefur nýlega kynnt hugmyndir sem byggja á nýjum tækifærum er Carsten Beck, framtíðarfræðingur. Mér sýnist hann vera ágætlega vel að sér í því hvernig maður lærir af erfiðleikunum. Hvernig maður byggir sig upp eftir hörmungar með því að læra af þeirri reynslu sem í þeim liggja.

Klikkaðu á greinina hér að neðan þar til þú færð textann í læsilega stærð.Margvísleg tækifæri(Grein sem birtist í Morgunblaðinu 18. september 2009)


mbl.is Atvinnuleysistryggingasjóður að tæmast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáni samstöðu og vonar

1. maí-gangan á Akureyri 2009Nú hefur saga fánans verið kynnt bæði hér og víðar. Fánans sem Kristján Ingimarsson, leikari, skapaði fyrir sýningu sína, Byltingu fíflanna. Sýningu sem á yfirborðinu var fyrst og fremst skrautleg og flott en bjó yfir boðskap sem varðar okkur öll. Boðskapur verksins snertir margt af því sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þar á meðal mátt samstöðunnar og vonarinnar.

Við sem stöndum að baki þeirrar hugmyndarinnar, að fáni Kristjáns geti orðið tákn þess að við stöndum saman, erum öll sammála um að við viljum að hver og einn tengi sig við fánann á sínum eiginn forsendum. Við urðum sammála um að segja sögu fánans. Minna á mátt fífilsins. Sjá svo hvert það leiddi.

Það er ljóst af þeim athugasemdum sem við Ásta Hafberg höfum fengið á kynningar okkar á fánanum, bæði hér á blogginu og á Facebook, að það eru margir sem tengja styrk, bjartsýni og von við þennan fána. Það hefur því þegar skapast jarðvegur jákvæðni og samstöðu í kringum fánann sem er frábært!

Nú er hægt að panta fánann í vefverslun Fánasmiðjunnar á Þórshöfn. Þú klikkar bara á krækjuna hér á undan. Pantar þá stærð sem þú ætlar að fá og greiðir með kreditkorti. Það er rétt að taka það fram að það gæti dregist fram á þriðjudaginn að fáninn verði tilbúinn til dreifingar.

                                  ><>   ><>   ><>

Myndina hér að ofan tók Mads Vegas sem er tæknimaður Kristjáns Ingimarssonar. Myndin er frá 1. maí göngunni hér á Akureyri sl. vor. Höfundur fánans var þá staddur hér í fríi og tók þátt í göngunni ásamt vinum sínum sem héldu fána hans á lofti. Nú fáum við hin tækifæri til að gera slíkt hið sama, bera út boðskap hans og bæta við hann.

Es: Það eru víst einhver vandræði með vefverslunina en það er líka hægt að panta í gegnum fanar@fanar.is. Þá þarf auðvitað að gefa upp stærðina sem stendur til að panta. Stærðirnar eru gefnar upp á vefversluninni. Svo má ekki gleyma að setja fullt nafn og heimilisfang.


Saga fánans sem er tilbúinn til að sameina okkur

Við Ásta Hafberg höfum unnið að því á undanförnum vikum að finna eitthvert tákn sem gæti sameinað alla þá sem eru óánægðir og óska eftir breytingum. Það kemur tvennt til að við fundum okkur knúnar til að hafa uppi á slíku samstöðutákni.

Í fyrsta lagi eiga alls ekki allir þess kost að komast á mótmæli eða borgarafundi þó þeir hafi fullan hug á því. Við búum dreift og hefð fyrir slíkum uppákomum hefur alls ekki náð að festast í sessi nema þá helst í Reykjavík og að einhverju leyti á Akureyri. Í örðu lagi hefur það verið nokkuð áberandi að fólk hefur ekki viljað mæta á mótmælafundi og/eða borgarafundi af ýmsum ástæðum. Sumir eiga auðvitað ekki heldur heimangengt þó það sé ekki vegalengdin sem stendur í veginum.

Þeir eru þó alltaf fleiri og fleiri sem bætast í hóp þeirra sem eru óánægðir með núverandi veruleika. Reyndar trúi ég ekki öðru en meiri hluti þjóðarinnar finni fyrir óánægju með framgang mála frá bankahruninu sl. haust. Margir hafa líka fyllst djúpri vandlætingu yfir fréttum af því sem fram fór áður en bankarnir hrundu.

Langflestir hljóta líka að óska breytinga. Breytinga sem lúta að uppbyggingu og lausnum. Breytinga þar sem hagur heildarinnar verður settur í forgang. Ég hef reyndar ekki hitt neinn á undanförnum vikum sem hefur ekki áhyggjur og finnur til vandlætingar yfir þeirri forgangsröðun sem við, almenningur, líðum fyrir.

Þrátt fyrir þetta er ekki víst að nokkur fjölgun verði í röðum þeirra sem koma sér út úr húsi til að mæta á mótmælafundi og/eða borgarafundi. Svo má ekki gleyma þeim sem hafa og eiga þess ekki kost að mæta á slíkar uppákomur af ýmsum ástæðum. Við Ásta Hafberg stóðum t.d. báðar frammi fyrir því í sumar að við komust ekki til að vera við mótmæli sem við studdum samt heilshugar en fóru fram á Austurvelli.

Við ræddum þetta heilmikið og í framhaldinu ákváðum við að leggja höfuð okkar í bleyti og finna eitthvert sameiningartákn fyrir okkur sjálfar og aðra sem hafa staðið í sömu sporum. Nú er það fundið. Það er fáni en hann á sér nokkra sögu sem mig langar til að segja ykkur með aðstoð höfundar hans og eins aðdáanda fánans sem hefur flaggað honum í allt sumar.
Fáninn blaktir við hún við heimreiðina að heimili Georges og fjölskylduÞessum fána var líka flaggað í mótmælunum hér á Akureyri sl. vetur en hann rekur rætur sínar aftur til leiksýningar sem var sett upp hér á Akureyrarvöku árið 2007. Höfundur hans er Kristján Ingimarsson, leikari (sjá upplýsingar um leikferil hans hér) en verkið sem hann var skapaður fyrir kallaði Kristján Byltingu fíflanna. Þetta segir hann sjálfur um sýninguna:

Bylting fíflanna varð til vegna þess að mér fannst það hlyti að vera einhver annar valmöguleiki í boði en þessi stefna sem við vorum á. Þegar ég fluttist til Íslands frá Danmörku fyrir rúmum þremur árum fann ég svo sterkt fyrir þessum sjúkleika í þjóðfélaginu. Firringin var svo augljós og græðgin brjálæðisleg. Mig langaði að gera eitthvað til að gefa fólki möguleika á að draga andann. Að sjá hlutina í nýju ljósi. Að hlægja að sjálfum sér. Að minnast einfaldleikans.Akureyrarvaka 2007

Akureyrarvaka 2007Þannig varð leiksýningin/ viðburðurinn Bylting fíflana að veruleika. Bylting sem byggðist á að fíflin tóku yfir. Don Quijote sigldi ásamt fríðu föruneyti á fiskibátnum Hugrúnu ÞH240 í gegnum miðbæinn. Hann var reyndar dreginn af Jóa rækju en hjólhýsi sveif yfir höfðum fólks og barist var við vindmyllur. Bæjarstjórn Akureyrar var formlega steypt af stóli við mikil fagnaðarlæti og fáni fíflanna dreginn að húni.

Það voru allir með. Öll fyrirtæki í miðbæ Akureyrar, og Akureyrarbær, flögguðu fíflinum. Kannski vegna þess að þetta var svo naivt. Það varð alveg nýr ferskleiki yfir bænum og ég verð að játa að inni í mér brosti hrekkjusvínið en það var konunni minni, Gitte Nielsen, að þakka að fáninn ber óneitanlega svip af flaggi Christiania í Kaupmannahöfn. Þetta var bylting. Þetta var bylting fíflanna.

Sýningin kom mörgum skemmtilega á óvart. Hún var flott og hún var skemmtileg og eflaust voru margir sem tóku henni bara sem slíkri. Jafnvel að þarna væri bara á ferðinni einhver fíflaskapur. (Sjá umfjöllun akureyskra vefmiðla hér, hér og hér) Sýningin bjó þó yfir dýpri boðskap eins og kemur svo vel fram í orðum Kristjáns sjálfs:

Titillinn á Byltingu fíflanna skírskotar jafnt til fífilsins og fíflsins. Þetta er bylting náttúrunnar. Á þessum síðustu og verstu tímum er ekkert eðlilegra en maður beygi sig í auðmýkt fyrir kröftum náttúrunnar. Að maður stilli sig inn á rythma hennar og gangi eftir hennar takti og syngi með henni.

Með Byltingu fíflanna langaði mig að gera eitthvað. Mig langaði að létta á fólki. Setja niður lítið fræ sem gat blómstrað. Orðið að einhverju sem fólk getur sameinast um. Verið stolt af. Flaggað án spurninga. Flaggað bara af því það finnur fyrir þörfinni. Að leyfa sér að fylgja einhverju án þess að vita hvað það er... fíflaskapnum í sjálfum sér... náttúrunni.

Rögnvaldur gáfaði og Kristján Ingimarsson (Það er rétt að geta þess að myndirnar frá Byltingu fílflanna tók Ragnhildur Aðalsteinsdóttir)

Það voru líka einhverjir sem sáu þessa dýpri merkinguí Byltingu fíflanna. Kristján hafði sáð fræjum og sumir gátu ekki gleymt skilaboðunum. Sennilega hafa þó fáir meðtekið boðskap Kristjáns eins vel og George Hollanders. Hann tók honum opnum örmum og hefur haldið uppi merki byltingarinnar æ síðan.

George og fjölskylda hans tóku nefnilega við fánanum sem Kristján skapaði fyrir þessa sýningu. Þau hafa haldið honum á lofti síðan. Ekki bara hér heima heldur víðar um Evrópu.
Fáninn á ferðalagi í EvrópuÞar sem George tengdi sig þannig við boðskap sýningarinnar þykir mér rétt að segja svolítið frá því hver hann er. George flutti hingað frá Hollandi til Íslands árið 1989. Hann segir sjálfur „að ein ástæða þess að hann ákvað að flytja til náttúruparadísar eins og Íslands hafi verið hinn mikli mannfjöldi og tilheyrandi mengun í heimalandi hans.“ Haustið 1994 stofnaði hann Leikfangasmiðjuna Stubb þar sem hann smíðar sígild tréleikföng úr íslensku timbri og málar með náttúrulegri málningu og bývaxi. En leikfangasmiðurinn er ákafur talsmaður vistvænnar framleiðslu og sjálfbærrar þróunar. (Sjá hér)

Þeim sem vilja kynna sér hugmyndir Georges enn frekar bendi ég á þessa grein hér sem er viðtal sem ber heitið „Smíðar leikföng og hugmyndir að betri heimi“ en hún birtist í Morgunblaðinu 11. janúar sl. Auk þess vil ég benda á að George stóð að stofnun einhvers konar hugmyndasmiðju hér á Akureyri sem hann gaf heitið Grasrót: inðgarðar & nýsköpun (Sjá þennan hóp hér á Facebook)

En áfram með sögu fánans. Ég tek aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið og þá er komið að haustinu 2008. Í kjölfar bankahrunsins komu nokkrir Akureyringar og nærsveitarmenn saman og ræddu stöðuna og hugsanleg viðbrögð. Einn þeirra var George Hollanders. Honum og þeim hinum óaði við afleiðingum hrunadansins sem það hafði alla tíð hafnað. Út úr fundarhöldum þessara einstaklinga urðu grasrótarsamtökin Bylting fíflanna til eða Revolution of the Dandelions.

Stofnendur grasrótarsamtakanna gáfu út eftirfarandi yfirlýsingu um tilgang samtakanna: „Bylting fíflanna er grasrótarafl sem leitar skapandi og framsýnna hugmynda og lausna um nýjan veruleika og betri framtíð.“ (Sjá t.d. hér og svo má benda á að samtökin eru með síðu inni á Facebook) George fékk ekki aðeins leyfi Kristjáns Ingimarssonar, góðvinar síns, til að kenna samtökin við sýninguna, Byltingu fíflanna, heldur varð fáninn sem var skapaður fyrir þá byltingu sem þar var sett á svið tákn mótmælanna hér á Akureyri.
Frá fyrstu mótmælunum á Akureyri undir fána Byltingar fíflannaÞessi byltingarfáni var líka áberandi í göngunni hér á Akureyri 1. maí sl. Þar sómdi hann sér vel með kröfuspjöldum og öðrum fánum. Kristján er hér á miðri mynd í lopapeysu og George honum á hægri hönd.1. maí-gangan á Akuryeri 2009(Mads Vegas, sem er tæknimaður Kristjáns Ingimarssonar, tók þessa mynd)

Allir Íslendingar þekkja túnfíflilinn. Margir líta á hann sem illgresi en þrátt fyrir baráttu bænda, bæjarstarfsmanna og garðeigenda þá finnur hann sér alltaf leið til að lifa af. Hann skýtur niður rótum við ótrúlegustu skilyrði, breiðir úr sér, blómstrar og hlær við öllum veðrum.

MalbiksblómÞetta er það blóm sem allir Íslendingar hafa tengingu við...að mínu mati fallegasta blómið í íslenskri náttúru. [...] Kemur alltaf aftur, sama hvort hann er reittur upp eða malbikað yfir hann. Áreynslulaust kemur hann aftur, brýst upp úr malbikinu. Ekki til að mótmæla neinu. Honum er nokkuð sama um malbikið. Hann kemur bara til að segja: „Ég er á lífi. Ég er hér... ég er!“ (Kristján Ingimarsson)

Það er eins með fánann. Hann kemur alltaf aftur og aftur og minnir á tilveru sína. Núna kemur hann fram enn einu sinni og er tilbúinn til að gegna því hlutverki sem hann var skapaður til.

Þrír fíflarÞað er líka rétt að ítreka að túnfífillinn er ekki bara blóm eða illgresi. Hann er nefnilega líka þekkt lækningarjurt. Íslendingar hafa notað rætur hans í seyði og smyrsl til að lækna hina ýmsu sjúkdóma. M.a. bjúg, lifrar- og gallblöðrusjúkdóma og líka við meltingartregðu, svefnleysi og þunglyndi svo fátt eitt sé taldið. Nýlegri rannsóknir hafa líka gefið vísbendingar um að vissir hlutar fífilsins dugi gegn einhverjum tegundum krabbameinsæxla.

Fíflillin var og er jafnvel enn notaður til matargerðar. Búa má til bragðgott fíflavín úr blómunum og blöðin þykja góð í salat. Seyði af fíflablöðum var notað til andlitsþvotta í fegrunarskyni og ristuð rótin var notuð í kaffibæti. (Sjá meira um túnfíflilinn á Vísindavefnum og svo er ákaflega forvitnilegt að fletta upp i Grasnytjum Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal til að lesa sér enn frekar til um það gagn sem má hafa af fíflinum)

Íslenski túnfíflillinn er ekkert venjulegt blóm. Þrátt fyrir að margir líti á hann sem illgresi í dag þá þykir öðrum hann ómissandi í ýmis náttúrlyf og sumir nýta hann líka til matargerðar. Og enn gleður hann augu margra Íslendinga sem líta á blómstrandi fífilinn sem innsigli sumarkomunnar. Hver kannast ekki líka við að fyllast undrun og jafnvel aðdáun yfir óbilandi lífseiglu hans? Hver kannast ekki við kátínublandna undrun yfir gulum kolli fífilsins sem hefur brotið sér leið í gegnum malbiksbreiðu rétt eins og hann vilji sanna að hann sé ódrepandi.
TúnfífillÍslendingum sem misbýður núverandi þjóðfélagsástand vantar gott tákn sem við getum sameinast um. Tákn sem við getum sett upp til að lýsa því yfir að þó við stöndum ekki úti á torgum og öskrum okkur hás þá stendur okkur ekki á sama. Tákn sem lýsir vandlætingu okkar yfir ríkjandi ástandi og ósk okkar um breytingar. Tákn sem sýnir að við höfum skoðun. Að við erum hér!

Við þurfum ekki að vera hundrað prósent sammála í öllum þeim atriðum sem við erum óánægð með. Við þurfum heldur ekki að vera nákvæmlega sammála um það hverju á að breyta eða hvernig. Hins vegar er ljóst að við þurfum að sameinast Fallegir samstöðufíflarum eitthvað ef við viljum ná fram breytingum til góðs.

Hvað hæfir tákni samstöðu okkar betur en þessi bjartsýnislegi fáni sem á sér nú þegar sögu. Sögu um þrautseigju og von. Sögu sem minnir á fífilinn. Tákninu sem fáninn ber. Fífillinn er nefnilega prýðilegt tákn fyrir þær meginkröfur sem við ættum öll að geta sannmælst um: Ég er hér! Ég lifi... ég er og ég vil vera það áfram!

Í þessu sambandi er kannski rétt að enda á orðum Kristjáns Ingimarssonar sjálfs sem segir: Fyrir rúmum tveimur árum sáði ég fræi sem virðist ekki geta hætt að spíra. Nú viðrist þriðja uppskeran vera að koma fram. Hann virðist getað sáð sér sjálfur þessi fáni. Ef fífillinn getur orðið tákn þess að við stöndum saman sem hópur þá er rétta takmarkinu náð.

Ef þú vilt vera með þá er ekkert annað en eignast fána. Þú getur flaggað honum í fánastönginni þinni. Sett hann á bílinn þinn eða tekið hann með á mótmæli eða aðra viðburði þar sem þér finnst fáninn eiga heima. 

Mig langar til að taka það fram að Kristján var svo höfðinglegur að gefa okkur, íslenskri þjóð í vanda, höfundarréttinn af fánanum. Fánasmiðjan á Þórshöfn ætlar að sjá um prentun hans og dreifingu. Hann verður væntanlega tilbúinn til dreifingar öðru hvoru meginn við næstu helgi. Um leið og hann verður tilbúinn verður hann settur inn á vefverslun Fánasmiðjunnar á Þórshöfn. Þeir sem hafa áhuga á að eignast fána panta hann einfaldlega í gegnum hana. Þar verða líka upplýsingar um mismunandi stærðir og verð. Þær má líka finna hér

Að lokum langar mig til að biðja alla um að taka þátt í að breiða þessa sögu út. Þú mátt krækja í þessa færslu á blogginu þínu eða annars staðar, afrita hana og birta, sytta og útfæra. Auðvitað þætti mér vænt um að þú gætir heimildar en aðalatriðið er að fáninn, sem er tilbúinn til að verða samstöðutákn allra þeirra sem eru óánægðir og óska breytinga, fái kynningu. 


Vonandi berst forsetanum þetta bréf!

Þau eru mörg vonbrigðin sem skella á íslenskri þjóð um þessar mundir. Vonbrigði á vonbrigði ofan á sama tíma og fréttirnar af viðbjóðnum sem hefur viðgengist hrannast upp. Það mætti e.t.v. hugga sig við það ef eitthvað marktækt væri að gerast sem segði okkur að það væri verið að taka alvarlega á þessum málum eða snúa ófögnuðinum við og taka upp nýjar starfsaðferðir í anda viðreisnar réttlætinu og lýðræðinu. En það er öðru nær!

Á vafri mínu um netheima hefur hver viðbjóðurinn á fætur öðrum barið sjónhimnur mínar og vitund þannig að ég var að niðurlotum komin af sorg og hugarvíli. Þá rakst ég á þetta bréf Tóta Sigfriðs sem ég ætla að leyfa mér að birta hér:

Herra forseti

Þar sem að þér hafið í dag skrifað undir samninga þá sem gengið hafa undir nafninu ICESAVE, vil ég koma eftirfarandi skoðunum mínum til yðar.

Þar sem að þér hafið nú hunsað beiðni mína og rúmlega 10.000 annarra Íslendinga um að skrifa EKKI undir þetta skjal sem að mun binda enda á sjálfstæði Íslands, þá lýsi ég því yfir að þér sitjið ekki lengur í embætti í mínu umboði.

Þér hafið talað um að það þurfi að brúa gjána sem myndast hefur á milli alþingis og Íslendinga, en með athæfi yðar þá hafið þér rifið niður brúarstólpana.

Þér hafið sannað það að það sé ekki heill almennings sem að þér berið í brjósti heldur hagur fárra fjármálamanna sem er efst á listanum.

Það var veik von mín að þér munduð sjá að þessu máli væri best skotið til þjóðarinnar en ekki rættist sú ósk mín og með því hefur þú undirstrikað að vilji þjóðarinnar er ekki marktækur í alvarlegasta máli sem komið hefur upp hér á landi.

Aðgerðir þínar munu eflaust leiða til þess að fleiri Íslendingar munu hugsa til brottflutnings frá landinu.

Ég krefst þess að þér segið af yður sem fyrst þar sem miklar efasemdir hafa vaknað hjá almenningi á Íslandi um heilindi þín í embætti yðar.

Þórður G. Sigfriðsson

 


mbl.is Bloggheimar loga vegna ákvörðunar forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband