Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Ég segi nei!

Mér hefur aldrei hugnast ESB-aðild. Kannski er ég afturhaldsseggur þess vegna en ég vil frekar sitja undir því en ESB! Mér finnst alltof margt mæla á móti því að ganga inn í bandalagið. Alltof margt vera reyndar alveg stórhættulegt!

Það stærsta er það hvað felst í óvissunni um það hvað verður um smáríki meðal stórvelda. Ég held að flestir búi yfir nægri lífsreynslu til að átta sig á því. Svo má líka benda á Írland sem þrátt fyrir flatarmál og mannfjölda hefur alltaf verið umgengið eins og smáríki!

Mig langar til að benda ykkur á tvo bloggara sem ég les til að fræðast um evrópumálin. Þeir eru þeir Frosti Sigurjónsson og Haraldur Hansson. Ég vil taka það fram að ég er mjög sátt við það að fólk fylgi vel rökstuddri sannfæringu sinni. Ástæðan sem þau Birgitta, Margrét og Þór gefa til að útskýra sýna afstöðu finnst mér fullkomlega ásættanleg miðað við aðstæður. Bendi ykkur á að lesa þessa færslu Haraldar Hanssonar sem fjallar um það hvenær maður sækir ekki um Evrópuaðild!

Langar að enda þetta með þessum orðum Jóns Sigurðssonar (fann þetta í athugasemd og stal þessu) þó orð Einars þveræings eigi e.t.v. betur við núna! Smáþjóð með stórþjóðum


mbl.is Enn óljóst um atkvæði þriggja þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirgengilegir and-skotar!

Eins og ég sagði hér í gær þá eru þær fréttir sem okkur berast af réttlætinu og viðreisn efnahag landsins svo á einn veg að ég verð sífellt vonminni. Réttlætisgleraugu löggjafans eru svo úr fókus að mann rekur í rogastans að ekki sé talað um aðgerðirnar sem reynt er að halda fram að eigi að verða okkur til viðreinsnar.

Það þarf ekki nema meðalskussa í listinni að leggja saman og draga frá til að sjá að allar aðgerðir fram að þessu færa okkur ekkert nema hærri mínustölur. Þær eru reyndar orðnar svo himinháar að helstu hagfræðingar ráða ekki betur við þær en svo að þeir geta ekki komið sér saman um það hvernig á að lesa út úr niðurstöðunni.
IceslaveÞegar við, þjóðin/ almenningur, getum ekki lengur treyst þeim sem þykjast vera þess umkomnir að stýra þjóðarskútunni, þegar við sjáum að þeir sem sitja undir stýri hafa enga burði til að vinna okkur gagn þá er ekki annað uppi á teningnum en svipta viðkomandi ökuréttindunum. Það þarf að gerast áður en okkur verður unninn frekari skaði að ég tali ekki um svo umfangsmikið tjón að aldrei verður hægt að bæta það!

Við höfum mörg reynt að tala um fyrir bílstjórunum. Við sem stóðum upp og mótmæltum vorum sammála um að reka þá sem sátu undir stýri þegar efnahagshrunið átti sér stað. Menn voru þó ekki sammála um það hvað ætti að taka við. Margir vildu neyðarstjórn eða svokallaða utanþingsstjórn. Einhverjir kölluðu eftir þjóðstjórn en enn aðrir vildu nýjar kosningar og einhverra hluta vegna varð það ofan á. Ég ætla að sleppa öllum kenningum í sambandi við það hvers vegna það varð svo.

Nú er svo komið að við stöndum í nákvæmlega sömu sporum og við gerðum framan af vetri. Einhverjir rassar hafa vikið og aðrir komið í staðinn. Hvort það eru stólarnir sem fara svona með þessa nýju skal ósagt látið en hitt er víst að þó ekki hafi staðið á framkvæmdum hjá þeim sem tóku við þá eru þær síst til meiri gæfu Þakkir til þeirra sem neita að gefast uppen framkvæmdaleysi þeirra sem sátu á undan.

Margir meðal þjóðarinnar hafa lagt orð í belg. Talað, hrópað, farið bónarleið og m.a.s. andskotast og sumir komið því sem þeir vilja leggja til málanna niður á blað eða í tölvutækt form á bloggi og víðar. Enn eru þeir nokkrir sem streitast við að ná til meðbræðra sinna og -systra með friðsamlegum aðferðum orðsins en enn hefur það ekki borið tilskilinn árangur...

Þá meina ég að sjálfsögðu að þingheimur allur vinni verkin sín af heilindum og með hagsmuni okkar sem þjóðar í sjálfstæðu lýðræðisríki að leiðarljósi.

Nú rétt í þessu var mér að berast bréf sem er ætlað þingmönnunum okkar og það með að leggja ritara bréfins lið við að ná til þeirra. Það að birta það hér á blogginu mínu er liður í því en eins og kemur fram í innihaldi bréfsins beinir höfundur þess orðum sínum til þingmanna enda samdi hann bréfið í þeim tilgangi að senda það á þá. Ef þér hugnast innihald eftirfarandi bréfs kem ég bón bréfritara þess hér með á framfæri og bið þig að leggja honum lið með mér.

Ég skora á þig að beita áhrifum þínum til að koma í veg fyrir að ríkisábyrgð á Icesavereikningunum verði staðfest.

Á meðan ekki liggur fyrir úrskurður til þess bærs dómstóls um að ríkinu beri að ábyrgjast innlánin er ekki ástæða til að setja þjóðarskútuna á hliðina í áratugi af þjónkun við önnur ríki. 

Það liggur nú fyrir að þeir sem völdust til þess verks að semja við Breta og Hollendinga höfðu ekki þjálfun eða reynslu af almennri samninga- og skjalagerð: 

Það er grundvallaratriði í samninga- og skjalagerð að í skriflegum samningi sé útlistun á tilurð og tilgangi þess að samningurinn er gerður (inngangur, forsaga, tilgangur, markmið).

  •  í skriflegum samningi séu forsendur sem byggt er á við samningsgerðina tíundaðar.
  • í skriflegum samningi komi fram skýr ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila.
  • í samningnum sé kveðið á um skýr úrræði ef ágreiningur kemur upp um efni samningsins.
  • í samningnum séu skýr ákvæði um úrræði, ef samningurinn er ekki efndur.
  • í samningnum sjálfum eiga að vera bókanir á öllum samningaumleitunum, athugasemdum, loforðum og viljayfirlýsingum sem fram hafa komið í samningaferlinu og hafa bein eða óbein áhrif á efni samningsins, skuldbindingar, efndir, túlkun og úrræði sem felast í undirritun hans.

Ef þess er kostur á að forðast að vitna í fylgiskjöl eða aðrar heimildir þar sem ávallt er hætta á að slík gögn verði viðskila við samninginn í tímans rás, sem er til þess fallið að skapa vandræði.

Þegar samningstexti er saminn er nauðsynlegt að hafa ávallt í huga að á því augnabliki sem hann tekur gildi öðlast hann sjálfstætt líf. Það getur enginn séð fyrir hver eða hverjir munu koma að því að túlka hann síðar, eða beita honum eftir atvikum. Það er líklegast að það verði einstaklingar sem ekki tóku þátt í gerð hans, búa ekki yfir eigin minningum um samningaferlið og muna ekki útgangspunkta eða atriði sem þóttu sjálfgefin á þeim tíma sem samningurinn var gerður, né hugsanagang og hugsanaferli sem höfðu áhrif á samningsniðurstöðuna. Þess vegna er svo gífurlega áríðandi að samningar séu ítarlegir og skýrir, þó ekki væri nema til að forðast seinnitíma misskilning.

Nú bið ég þig að lesa Icesavesamninginn vel yfir og ef þér finnst hann fullnægja þeim skilyrðum sem ég hef tíundað hér að framan og um leið að í honum felist hin rétta leið til endurreisnar góðs mannlífs á Íslandi þá skaltu greiða ríkisábyrgðinni atkvæði.

Ef þér aftur á móti finnst einhverju ábótavant um efni hans, form eða skuldbindinguna sem hann leggur okkur á herðar – og ef þú byggir ekki á fullkominni sannfæringu um að enginn önnur leið sé fær eða betri, þá skalt þú ekki greiða ríkisábyrgðinni atkvæði.

Það er þetta sem ákvæðið um að þingmenn séu aðeins bundnir af eigin sannfæringu gengur út á.

Í svona stóru og þýðingarmiklu máli er ekki rúm fyrir málamiðlun. Í þessu máli er enginn gráskali. Þetta er svart – hvítt og ef ekki er fullkomin sannfæring til staðar þá felldu málið.

Með bestu kveðju,

Magnús Axelsson, fasteignasali og matsmaður.


mbl.is Icesave-deilan vekur athygli í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu komnir yfir öll eðlileg þolmörk!

Ég ætla ekkert að reyna að eyða tíma mínum í að skilja tengda frétt eða af hverju ég skil hana ekki. Hins vegar ætla ég að nota tækifærið til að vekja athygli á þarfri upprifjun sem ég las fyrr í dag á Pressunni.
Höfupaurinn
Ég fagna því nefnilega að þar er minnt á að Björgólfi Guðmundssyni var treyst fyrir íslenskum banka þrátt fyrir sína vafasömu fortíð! Í greininni, sem ég leyfi mér að birta í heild hér að neðan, er rifjað upp að á meðan Björgólfur eldri var stjórandi Hafskips misnotaði hann almannafé á sama hátt og sonur hans, og aðrir auðvaldsklíkukollegar hans, tóku upp eftir honum síðar.

Það sorglegasta er að þeir gera það enn og það í boði hins opinbera! Spurning hvað Björgúlfsfeðgum gengur til. Ég giska á hefnd! (Sjá líka þessa grein hér sem birtist á dv.is þann 24. október á síðasta ári.)

Fréttaskýring Euromoney 2002: Er Björgólfsfeðgum treystandi til að reka banka?

Fjármálatímaritið Euromoney spyr í ítarlegri fréttaskýringu árið 2002, skömmu áður en Landsbankinn var seldur Samson, eignarhaldsfélagi Björgólfsfeðga, hvort virkilega sé hægt að treysta þeim feðgum til að reka banka? Blaðið spurði hvers vegna stjórnvöld vildu selja manni sem næstum setti banka á hausinn nýjan banka?

Í nóvember 2002 birti Euromoney fréttaskýringu sína og er óhætt að segja að greinarhöfundar skilji hvorki upp né niður í þeirri ákvörðun stjórnvalda að selja Björgólfsfeðgum bankann:

Það eru nokkrir Íslendingar sem efast - hljóðlega vegna ríkidæmis og áhrifa feðganna - hvort þeir séu hæfir til að verða eigendur banka sem er svo mikilvægur efnahagslífi landsins.

Svo segir í greininni:

Er það svo góð hugmynd að einstaklingar án nokkurra bankareynslu fái að eignast svo stóran hlut í bankanum? Og hver er bakgrunnur þessara manna sem virðast hafa orðið ríkir í drykkjarvörubransa í Rússlandi? Það má benda á að eignarhald einnar fyrstu lykilfjárfestingar þeirra í Rússlandi - gosdrykkjaverksmiðju í St. Pétursborg - hefur verið dregið í efa fyrir rússneskum og íslenskum dómsstólum frá fyrri eigendum. Nokkrir dómar hafa fallið feðgunum í óhag. En þetta er lítt þekkt staðreynd á Íslandi.

Og það er önnur spurning. Af hverju hafa forsætisráðuneytið, einkavæðingarnefnd, fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn svo litlar áhyggjur af því að Björgólfur Guðmundsson setti næstum banka á hausinn á níunda áratugnum?

Bendir Euromoney á að Björgólfur hafi fengið dóm vegna Hafskipsmálsins en Íslendingar séu nú blindaðir af aðdáun á feðgunum fyrir ríkidæmi sitt.

Euromoney segir að Björgólfur Thor hafi snúið til Íslands frá Rússlandi sem ný tegund íslensks viðskiptamanns (leturbreytingar eru mínar). Hann sé knúinn áfram af hagnaðarvon ekki stjórnmálalegum hagsmunum. Björgólfur hafnar í viðtali við tímaritið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valið Björgólfsfeðga sem eigendur Landsbankans og Framsóknarflokkurinn sinn hóp í Búnaðarbankanum.

Tímaritið segir að Hafskip sé orðið bannorð á Íslandi, þrátt fyrir að gjaldþrot þess hafi verið Enron-mál Íslands og svo er vitnað í Geir Haarde, þáverandi fjármálaráðherra:

„Kannski Hafskip hafi verið þröngvað í gjaldþrot. Ég held að þegar hann líti til baka geti Björgólfur Guðmundsson verið ánægður með sig.“

Geir Haarde, the finance minister, says: "Maybe Hafskip was forced into bankruptcy. I think when he looks back Björgólfur Gudmundsson can be pleased with himself."


Euromoney rifjar upp að Björgólfur Guðmundsson hafi verið ákærður fyrir fjárdrátt og ýmsa aðra fjármálaglæpi. Segir tímaritið að hann hafi borgað fyrir utanlandsferð Björgólfs Thors með peningum Hafskips, látið fyrirtækið borga teppahreinsun á heimili sínu, ógreiddar stöðumælasektir og keypt bíl
Sonur í hefndarhugá kostnað fyrirtækisins.

Björgólfur Thor segir í viðtali við Euromoney að engar áhyggjur þurfi að hafa yfir skorti á bankareynslu þeirra feðga og bendir á kaup þeirra á Pharmaco sem dæmi.

Við erum ekki lyfsalar heldur. Við erum venjulegir fjárfestar sem förum inn í aðstæður með venjulegum og hagstæðum hætti...Við viljum gera bankastarfsemi dýnamískari. Við verðum meira á höttunum eftir tækifærum en ríkisbanki. Ég er ekki að tala um griðarlegan vöxt. En bankinn hefur staðnað.

Grein Euromoney um kaup Björgólfsfeðga á Landsbankanum og áhyggjur greinarhöfunda má lesa HÉR.

 
mbl.is Lán veitt eftir einkavæðingu Búnaðarbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonlítil - vonminni...

Jörðin hefur verið sett á markaðÉg viðurkenni það alveg að ástæðan fyrir því að ég blogga svo lítið, sem raun ber vitni, er að ég verð sífellt vonminni. Fyrir því eru nokkrar ástæður en sú fyrst og fremst að ég verð alltaf sannfærðari um að við höfum orðið fyrir innrás efnahagsherliðs sem vinnur að því fyrir framan augun á okkur að leggja landið í rúst.

Ef einhver heldur að ég hafi nú endanlega misst það minni ég á orð Josephs Stiglitz í myndinni The Big Sellout þar sem hann ber saman nútímahernað og hagfræði nýfrjálshyggjunnar. (Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman það sem hann segir ímyndinni hér. Viðtalið við hann er aftast í færslunni).

Ástæðan fyrir því að ég tengi þetta blogg fréttinni, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst sú að hún er staðfesting á því sem var margítrekað hér á blogginu og víðar um hvað lægi að baki Icesave-samningnum. Þá hundsuðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar staðhæfingar um að þessi samningur væri í raun aðgangur að ESB-samingaborðinu en hvað segir hér?

Það segir að EES-samningur hafi verið í húfi? Hvað þýðir það? Var því hótað að honum verði sagt upp ef Icesave-samningurinn verði ekki samþykktur? Ef honum verður sagt upp hvaða líkur eru þá á því að Íslendingar komist að samninga- borðinu um ESB?

Það getur verið að ég hafi misst einhvers staðar úr mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi en mér sýnist eins og svo oft áður að fréttamaðurinn sem vann þessa frétt hafi gleymt fyrir hverja hann var að vinna. E.t.v. er fréttin líka þannig unnin vegna þess að henni er ætlað allt annað hlutverk en að upplýsa.

En eins og ég sagði hér á undan þá er það alltaf fleira og fleira sem mér finnst benda til þess að ég búi í stríðshrjáðu landi. Landið mitt er skotmark efnahagsskæruliða. Skotmörk þeirra eru bankarnir, orkufyrirtækin, fallvötnin, jarðvarminn, ræktarlandið, fiskimiðin ... Það eru engir venjulegir hermenn sem við eigum í stríði við því við erum að tala um sálfræðilegan hagfræðihernað!
Nútímahernaður

Ég veit ekki hvert bjargráðið mitt til langframa verður en undanfarna daga hef ég sótt huggun í þessa mögnuðu útsetningu á lagi sem er þekktast í flutningi hins friðelskandi réttlætissinna: Bobs Marleys. Ég má til að segja að mér finnst textinn, útsetningin og myndbandið virka eins og græðandi smyrls á mína annars blæðandi sál.


mbl.is EES-samningurinn var í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máttlaus hræðsluáróður

Steingrímur J. Sigfússon segir, í tengdri frétt, að ef frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesavesamkomulagsins verði fellt þá komi október aftur. Ég segi eins og er að ég sé ekki allan muninn á því ástandi sem er ríkjandi í efnahagsmálunum nú og í október. Ég sé ekki einu sinni allan muninn á þeim ákvörðunum sem eru teknar af ríkisstjórninni nú og því sem ég bjóst við af þeirri sem sat þá.

Ég vildi gjarnan geta snúið til baka aftur til október en auðvitað aðeins í þeim tilgangi að breyta atburðarrás næstu vikna og mánaða þar á eftir í eftirfarandi atriðum: Eigendur og yfirmenn banka og yfirmenn eftirlitsstofnanna sem brugðust áttu að koma fram, viðurkenna ábyrgð sína og segja af sér. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar áttu að biðja þjóðina afsökunar á því hvernig þeir brugðust henni og segja af sér. Ríkisstjórnin átti að segja af sér í stað þess að sitja hjá og kalla til erlenda sérfræðinga til aðstoðar þeim margháttaða vanda sem blasti við þá og gerir enn.

Ég hefði helst viljað sjá að á þeim tíma hefði verið sett á fót neyðarstjórn til að stýra landinu en hefði sætt mig við þjóðstjórn. Það átti aldrei að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins!  Það átti aldrei að þjóðnýta Glitni! Það átti að kæra það að Bretar settu á þjóðina hryðjuverkalög fyrir gjörðir þeirra sem áttu og ráku Ice Save!
Hvítflibbaglæpamaður
Og síðast en ekki síst það átti strax að gera húsleit í bönk- unum og öðrum helstu fjármála- stofnunum landsins. Það átti að færa yfirmenn þessara stofn- anna til yfirheyrslu og setja eigendur a.m.k. Landsbanka og Kaupþings í gæsluvarðhald. Það átti að gera húsleit hjá lögfræð- ingum þessara stofnana og á heimilum yfirmanna þeirra.

Það átti að hafa samband við þá sem höfðu varað við nákvæmlega því sem gerðist, hlusta á þá og hafa þá með í ráðum. Síðast en ekki síst þá átti að tala við og hlusta á þjóðina sem í fyrsta skipti í sögu landsins þusti út á götur til að standa með afstöðu sinni. Við höfðum áhyggjur. Við höfðum grunsemdir. Okkur grunaði margt af því sem var neitað þá en hefur komið fram núna.

Ef þetta hefði verið gert í október værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag. Ég segi fyrir mig að ég skammast mín ekki fyrir þjóðernið vegna þeirrar heimsku sem stjórnsýslan gerir sig seka um aftur og aftur með forgangsröðun sinni, aðgerðum en ekki síst aðgerðarleysi. Ef framantalið væri búið að eiga sér stað hefði ég einhverja von og trú á framtíð þjóðarinnar í sínu eigin landi. Hún verður því miður veikari og veikari með hverjum deginum sem líður og ekki eru umskiptin sem hafa orðið á Steingrími til að bæta úr.

Í dag óttast ég um allt sem viðkemur því að vera sjálfstæður Íslendingur sem lifir og starfar á ættjörð sinni. Það eina sem ég sé eru vörður sem varða leiðina beint inn í gin þeirra einræðisherra sem hafa mergsogið þær heimsálfur sem nú á tímum er kenndar við þriðja heims ríki eða þróunarlönd.
Börn sem búa við skortÉg sé í raun bara tvennt í stöðunni. Annaðhvort sitjum við kyrr og aðhöfumst ekkert í trausti þess að við munum þrátt fyrir allt lifa þetta af eða rísum upp og freistum þess að snúa ofan af þeim ósköpum sem við okkur blasa. Ég heyri æ oftar í fólki sem hugsar sér til hreyfings. Það hefur ekki lengur trú á því að nokkur framtíð bíði þeirra hér heima en sumir eru bara hreinlega búnir að gefast upp á því sem viðgengst í samfélagsmálunum.

Þeim finnst óréttlætið hreinlega svo mikið að þó það sjálft hafi atvinnu, eigi heimili og hafi það þokkalegt þá getur það ekki hugsað sér að vera hluti af þeirri mynd sem umheimurinn fær að Íslendingum þessi misserin. Ég er í þessum hópi en það er auðvitað miklu meira en að segja það að flytja burt. Mér finnst líka eins og maður sé að bregðast en hvaða skyldum gegni ég umfram þá sem þjóðin kaus til forystu? Það er ekki til eitt einfalt svar við því en mér finnst mér bera skylda til að standa með landi mínu og þjóð gegn þeim sem vinna á móti hagsmunum okkar.

Ég hef áhyggjur af okkur, af landinu okkar og framtíðinni. Ég get ómögulega ýtt þeim frá mér á meðan því sem hefur farið fram á undanförnum árum og stendur enn heldur áfram. Ég gat setið á mér fram til sl. hausts en get það ekki lengur. Ég reyni sífellt að halda í vonina um að ég hafi rangt fyrir mér. Að áhyggjur mínar séu stærri en vandamálin sem þær eru vaktar af en fram að þessu hafa áhyggjur mínar reynst vera á rökum reistar. Þess vegna er mér lífsins ómögulegt að ýta þeim frá mér núna.
Þrælar til sölu
Ég leyfi mér að vona að okkur beri gæfa til að koma í veg fyrir að Icesave-samningurinn nái fram að ganga. Það myndi létta af mér töluverðum áhyggjum. Það myndi vera fyrsta skrefið til að vinda ofan af þeim landráðagjörningum sem upphófust með einkavinavæðingu bankanna. Það yrði líka stórt skref í þá átt að sýna umheiminum að við höfum bein í nefinu og látum ekki selja okkur eins og þræla. Ég vil segja auðvaldsrisunum stríð á hendur. Höfnun Icesave-samingsins væri stór áfangasigur í því stríði.

Að lokum vil ég bæta því við að það er sorglegt að sjá hvernig Icesave-málið er sett upp eins og pólitískt þrætuepli inni á þingi eins og þar skipti mestu máli hvaða stjórnmálaflokki er mest um að kenna sá viðbjóður sem þessi samningur er. Samingurinn er þvílíkur viðbjóður að hann ætti frekar að þjappa samfélaginu saman um að vera á móti honum. Í mínum huga eru það þeir sem hrundu bankaútrásinni af stað og stýrðu henni út í gjaldþrotahyldýpið sem ættu að sitja á sakamannabekknum og taka af henni alla ábyrgð!


mbl.is „Þá kemur október aftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverja vinna þeir?

Mig setur hljóða við að lesa tengda frétt. Hvers vegna? Vegna þess að hér kemur nákvæmlega ekkert nýtt fram! Það er þó ljóst að sérfræðingar hagdeildar ASÍ miða við að fyrirfram sé búið að ýta öllum hugmyndum til atvinnuuppbygginar í landinu út af borðinu. Hugmyndir þeirra um lið í björgunaraðgerðunum er fólgin í álversframkvæmdum sem ég hélt að m.a.s. eingöngu leikir, hvað þá lærðir, væru búnir að átta sig á af dæmunum sem við höfum að er ekkert annað en óráð! Hver er þá tilgangur hennar?

Ég sé í raun ekkert annað í tengdri frétt en áróður! Það er hins vegar spurning fyrir hverja fulltrúar ASÍ eru að reka áróðurinn. Til þess að átta sig á því þarf að rýna svolítið í textann og þá kemur í ljós að það koma tveir herrar til greina. Annar er ríkisstjórnin. Hinn eru eigendur álfyrirtækjanna.

Það er reyndar alls ekki útilokað að einn og sami herrann standi á bak við hina tvo. Það er einfaldast að kalla hann efnahagsböðulinn.* Kannski eru þeir m.a.s. fleiri en einn efnahagsböðlarnir sem hafa náð svo sterkum tökum á öllum helstu ráðamönnum í samfélaginu að áróður af þessu tagi á greiðan aðgang í fjölmiðlana sem þjóna þeim sem hagnast á ríkjandi ástandi.
MarkmiðiðÉg ætla að byrja á því að benda á það hvernig sérfræðingar hagdeildar ASÍ standa við bakið á niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur verið kennd við svokallaðan bandorm. Í fréttinni er þetta haft eftir sérfræðingunum: „Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera.“ (leturbreytingar eru mínar)

Þetta eru aðalatriði nýgerðs stöðugleikasáttmála sem öll stærstu verkalýðsfélög landsins voru aðilar að. Með undirritun hans gerði ríkisstjórnin þau „samsek“ sér um áætlanir sínar í ríkisfjármálunum á næstu árin. Kannski áttu þau ekki annarra kosta völ en að skrifa undir. Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða neitt um það. Það sem kom á móti var svokölluð „áhersla á að styrkja lægstu laun“. Spurning hvort og hvenær af því verður.

En nóg um það í bili. Með orðalaginu sem ég hef eftir sérfræðingum hagdeildar ASÍ, hér að ofan mætti, ætla að herrarnir sem þeir gegna séu fulltrúar ríkisstjórnarinnar en þá kemur áherslan sem aðgerðaráætlunin gengur út á. Þ.e. í hverju atvinnuuppbyggingin, sem á að koma hjólum efnahagslífsins af stað aftur, skal vera samkvæmt þessum sérfræðingum. Það er ljóst að því sem fer hér á eftir að álglugginn skyggir á allt annað í því sambandi:

Í spánni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík fari á fullt skrið á þessu ári og að hafist verði handa við endurnýjun á álverinu í Straumsvík ásamt framkvæmdum við tengd raforkuver. Áætlað er að afkastageta fyrsta áfanga álversins í Helguvík verði 90 þúsund tonn og endurnýjunarinnar í Straumsvík 45 þúsund tonn og að framleiðsla hefjist í báðum verksmiðjunum á síðari hluta árs 2011. [...]

Hámark stóriðjuframkvæmda í Helguvík og Straumsvík er áætlað á næsta ári og þá gerum við ráð fyrir ríflega 80% vexti í fjárfestingum atvinnuveganna og áframhaldandi 10% vexti árið 2010. Þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur árið 2012 gerum við ráð fyrir fimmtungs samdrætti í fjárfestingum atvinnuveganna þrátt fyrir mikla aukningu í almennum fjárfestingum atvinnulífsins öðrum en stóriðjufjárfestingum."

Gráðugur álrisiMiðað við þessa takmörkuðu sýn sérfæðinga hagdeildar ASÍ mætti ætla að þeir reki áróður fyrir eigendur álversfyrirtækjanna. Eins og flestum er sennilega kunnugt hefur verið rætt um að ríkissjóður fái að láni það fjármagn sem liggur í lífeyrisstjóðunum til að styrkja lífvænleg verktakafyrirtæki til stórframkvæmda eins og virkjana- og stóriðjuuppbyggingar. Eins og ég hef margoft komið að áður þá líst mér í stuttu máli afspyrnuilla á þessar hugmynd!

Framkvæmdir við álver eru afar mannfrekar. Sem er auðvitað jákvætt en ég sé ekki fyrir mér að það verði endilega Íslendingar sem muni vinna við þessar framkvæmdir. Það er líka ljóst að þessi vinna er fyrst og fremst aðgengileg fyrir heilsuhrausta, ómenntaða karlmenn á besta aldri sem eru búsettir á suðvesturhorni landsins. Stærsti ókosturinn við þessar hugmyndir eru þó þær að ef allt fjármagnið sem fæst út úr lífeyrissjóðunum verður sett í þessi verkefni þá munu þær skila afar litlu í þjóðarbúið, og þar af leiðandi til almennings, þegar upp er staðið. 

Ég hef rakið þetta allt áður þannig að ég ætla ekki að fara mikið nánar í þetta hér en minni á dæmin um Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði til frekari rökstuðnings. Þegar allt er dregið saman get ég alls ekki séð að þær spár sem er vísað til í umræddri frétt þjóni öðrum tilgangi en hamra á því að engar leiðir séu færar aðrar en að skattpína almenning en skera niður þjónustu við hann líka og Efnahagsböðlartryggja uppgang álvera.

Útkoman sem ég fæ út úr þessari jöfnu er skelfileg. Hún er í raun svo arfavitlaus að það eina sem mér dettur í hug er það að hugmynda- fræðin sem hún er vaxin frá hafi orðið til í höfðinu á einhverjum efnahagsböðlinum sem ætlar sér með öllum ráðum að koma landinu og öllu því sem því fylgir undir sig og sína.

*Ef orðið efnahagsböðull kemur einhverjum ókunnuglega fyrir sjónir má átta sig betur á fyrir hvað þetta orð stendur í síðustu færslu.


mbl.is Spá 10% samdrætti í landsframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband