Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Athyglisvert!

Það er öllum ljóst að hér ríkir efnahagskreppa en sú stjórnmálalega veldur mér þó meiri áhyggjum um þessar mundir. Á meðan við búum við hana er ekki von á neinum farsælum lausnum hvað varðar þá efnahagslegu. Það kveður reyndar svo rammt af kreppunni á stjórnmálasviðinu að hún er farin að valda mörgum andlegri kreppu líka.

Það á þó greinilega ekki við um alla því enn eru þeir þó nokkrir sem leggja nótt við dag til að vinna að raunverulegum lausnum á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Í þessu sambandi langar mig til að vekja athygli á þessum sálarlæknandi pistli Marinós G. Njálssonar og eftirfarandi grein sem ég kynntist á Facebook.

Ég vek athygli á því að þar fylgir honum líka grein Agnesar Bragadóttur sem hún byggir m.a. á viðtali við Evu Joly. Sjá hér.

Forseti Alþingis barði sér á brjóst og bað um að “elsta löggjafarsamkunda heimsins” fengi vinnufrið fyrir mótmælendum. Dag eftir dag tala ráðamenn niður til þjóðarinnar, svona líkt og þegar Jón Loftsson í Odda býsnaðist yfir því að “skillitlir menn” væru að drepa höfðingja. Þá var honum nóg boðið. En það vill nú svo til að þjóðin samanstendur af “skillitlum mönnum”, fólki sem er einfaldlega að reyna að draga fram lífið og spila eins vel úr því sem það hefur í höndunum. Ráðamenn og yfirvöld hafa ekki verið að störfum fyrir þetta fólk; ráðamenn hafa verið að hygla höfðingjunum á kostnað þjóðarinnar og ætla nú að vernda höfðingjana og streitast um leið við að sitja sem fastast. Er furða að fólki sé nóg boðið.

Við Íslendingar erum lánsöm þjóð að því leyti að í hinum gömlu bókum okkar eigum við sjálfsmynd sem við getum leitað til þegar erfiðleikar steðja að. Hver er til dæmis kjarnaboðskapur hinnar margbrotnu Njálu? Hann er í raun sá sami og fólst í orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða í þeirri ræðu sem Ari Þorgilsson fróði lagði honum í munn í Íslendingabók sinni: “Ef vér slítum í sundur lögin, slítum við og friðinn.” Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bóka sem skrifaðar voru á mestu ófriðartímum þjóðarinnar. En hvernig skildu þessir menn hugtakið lög? Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðvirðleiki. Ef lögin voru slitinn, ef samfélagið var brotið upp var ófriður skollinn á. Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa “slitið í sundur lögin.”

Hugmynd Njarðar P. Njarðvík um endurheimt lýveldisins, um tafarlausa setningu neyðarstjórnar til að semja nýja stjórnarskrá, sem síðan skal kosið eftir, er einhver besta hugmynd sem upp hefur komið í þeim Ragnarökum sem nú ganga yfir þjóðina. Hvar í flokki sem menn annars standa þá hljóta þeir að horfa blákalt á þá nöturlegu staðreynd að flokkarnir hafa brugðist þjóðinni, hvaða nafni sem þeir flokkar nefnast. Þess vegna þarf neyðarstjórnin einnig að endurskoða kosningalögin frá grunni.

Við þurfum að velja fólk í þessa neyðarstjórn sem öll þjóðin ber traust til, fólk sem við þekkjum að viti og réttlæti. Þessi stjórn þarf að verða nokkurs konar Öldungaráð, sem gjarnan mætti sitja áfram eftir að ný stjórnarskrá hefur verið samþykkt. Fólk einsog t.d. Njörður P. Njarðvík, Páll Skúlason, Guðrún Pétursdóttir, Þorvaldur Gylfason, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Haralz, svo einhverjir séu nefndir, ættu að sitja í Öldungaráði sem þessu.

Eina manneskjan sem gæti leitt stjórn eða ráð sem þetta, tel ég vera Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Ég held að engin einn einstaklingur sé þess umkomin með jafn afgerandi hætti og hún, að leiða málefnavinnu fyrir hið nýja lýðveldi til lykta. Af ráðamönnum síðustu áratuga ber hún höfuð og herðar yfir þá alla.

Ölungaráðið/neyðarstjórnin ætti að vera skipuð okkar bestu konum og körlum, fólki sem hefur langa reynslu af lífinu, fólki sem glímt hefur við sjálft sig og haft sigur; fólki sem æðrast ekki, heldur býr yfir þess konar viti og réttlæti, sem þjóðin hefur svo brýna þörf fyrir núna, ef hún á að eiga einhverja framtíðarvon.

Það er nefnilega þjóðin sjálf sem þarf vinnufrið; frið fyrir vanhæfi núverandi ráðamanna, frið fyrir valdabrölti lýðskrumara, frið til þess að byggja upp nýtt lýðveldi, sem á möguleiki á lengri og farsælli líftíma en það lýðveldi sem nú er liðið undir lok.

Friðrik Erlingsson

 


mbl.is Þingfundum frestað um viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forkastanleg vanhæfni

Það er ekki nema von að maður verði toginleitur og opinmynntur yfir því sem er að gerast í samfélagi okkar þessi misserin. Ég las það t.d. inni á visi.is fyrr í dag að Steingrímur J. Sigfússon hefði verið að átta sig á því að það væri eitthvað ákvæði til í lögunum sem heimilaði það að eigur grunaðra fjárglæframanna væru frystar!! Ég meina hvar hefur maðurinn verið????

Það var reyndar ekki að skilja að hann ætlaði að rjúka í það að nýta sér þessa heimild heldur ætlaði hann að skipa í nefnd og láta skoða það hvers vegna þessu lagaákvæði hafi ekki verið beitt!!! Ég er kannski að ýkja þetta síðasta pínulítið en...

En þá að fréttinni sem ég tengi þessari færslu. Eiginlega er ég svo gáttuð en um leið svo fjúkandi vond að ég treysti mér eiginlega ekki til að tjá mig um það allt sem þessi frétt vekur mér á yfirvegaðan, skipulegan og málefnalegan hátt. Ég get þó ekki orða bundist!

Ég verð nefnilega, í það minnsta, að minna á aðgerðaráætlun stöðugleikasáttmálans sem kveður á um endurreisn atvinnulífsins sem á að byggja á framkvæmdum eins og virkjunum, byggingu álfyrirtækja og lagningu vega... Það ætti að vera hverjum hugsandi manni fullkomlega ljóst að það eru ekki framkvæmdir af þessu tagi sem eiga eftir að skila okkur tekjum í þjóðarbúið. Mér sýnist reyndar þvert á móti!!!
HeimskaMér er skapi næst að tala um fífl og hálfvita og þaðan af verra en er ég þá ekki að setja mig á háan hest í leiðinni? En í alvöru talað er ekki möguleiki að setja einhverjar kröfur á þá sem sækjast eftir því að ráðskast með hugsmuni lands og þjóðar? Þurfum við alltaf að komast að því með sársaukafyllstu aðferðunum að þeir sem við treystum vegna ytra atgervis og talandans hafði eingöngu vitsmuni til að koma vel fyrir? Viðkomandi hafði í raun enga vitsmuni til að fara með þjóðarhagsmuni.

Niðurstaða áfangaskýrslunnar, sem hér er vísað til og birtir mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið, færir okkur heim sanninn um það að þeir sem komu að þessum samningum fyrir Íslands hönd voru fyrst og fremst vanhæfir til að fara með slíkt umboð! Ég segi ekki meira eða stærra en það!

Hins vegar er þessi niðurstaða hrópandi dæmi um það að við verðum að setja upp hæfnismat sem þeir sem sækjast eftir stöðum innan opinberrar stjórnsýlsu verða undantekningalaust að ganga í gegnum áður en þeir taka að sér embætti á vegum sveita og ríkis!


mbl.is Lítil arðsemi af orkuvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvituð aðferð

Þöggunin í kringum fyrrverandi eigendur bankanna hefur verið með slíkum eindæmum að hún getur ekki annað en vakið upp spurningar um ástæður hennar. Það er í hæsta máta undarlegt að nöfn þeirra hefur tæpast borið á góma á opinberum þingfundum. Gjörðir þeirra hafa heldur tæpast verið nefndar á nafn í þingsalnum öðru vísi en læðast í kringum þær með tvíræðu orðagjálfri.

Það er líka í hæsta máta undarlegt að ráðherrarnir sem stóðu að því að gefa útvöldum flokksgæðingum eða velunnurum þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna skuli ekki hafa þurft að svara fyrir þann verknað á opinberum vettvangi eins og í þingsölum síðastliðið haust eða í fjölmiðlum. Nei, Geir sá fyrir því með því að benda á að: Núna væri ekki rétti tíminn til að benda á sökudólga!

Það er engu líkara en einhverjir séu enn í álögum þeirra orða. Það hefur nefnilega enginn verið spurður enn! Það er heldur enginn stjórnmálamaður spurður um álit hans á glæpakóngunum sem ryksuguðu sparifé þjóðarinnar út úr bönkunum í skjóli íslenskrar löggjafarsamkundu. Mér finnst það ekki síður undarlegt að enginn sem ber ábyrgð og mark er takandi á hefur fundið sig knúinn til að skýra það út fyrir þjóðinni hvað honum finnst um þessa glæpamafíu sem hreiðraði um sig í stjórnum stærstu bankanna á Íslandi.

Yfirtaka apanna á bönkunum

Mér finnst það með ólíkindum að á alþingi okkar skuli sitja stjórnmálamenn sem greiddu götu þessa glæpalýðs án þess að hafa nokkurn tíma þurft að útskýra hvernig það gat gerst að íslenskur almenningur var rændur á þann hátt sem við öll þekkjum á vaktinni hans. Sumir gleiðgosarnir eru m.a.s. í ráðherrastól að fara með framtíð landsins á alþjóðavettvangi!!! og þeir eru aldrei spurðir og ekki útlit fyrir að þeir sem vilja kalla sig fagmenn á sviði fjölmiðlunar hafi það í hyggju einu sinni...

Það er sannarlega fagnaðarefni að glæpir íslensku auðmannamafíunnar séu loks að komast upp á yfirborðið. En það er undarlegt að sjá að þöggunin í kringum þá virðist eiga að halda áfram. Hvar er t.d. frétt af glæpum Björgúlfsfrétta á einum víðlesnasta vef landsins? Hvar eru sjálfsagðar spurningar til allra þeirra sérfræðinga sem mærðu þessa glæpamenn en hafa fyrirgert rétti sínum til að fara með hagsmuna- og velferðarmál þjóðarinnar vegna þess að þeir greiddu götu glæpamanna á kostnað þjóðar sinnar!

Hvernig væri t.d. að að spyja Össur Skarphéðinsson hvernig hann treysti sér til að vinna landi sínu gang á evrópuvettvangi þegar hann hafði ekki einu sinni dómgreind til að sjá í gegnum þann glæpalýð sem hann lagði lag sitt við í ferðinni til Qatar?! Hvernig væri að að spyrja forseta lansins hvernig það megi vera að hann treysti sér til að sitja þögull heima á Bessastöðum þegar hann lagði lag sitt við þennan sama glæpalýð og hafði ekki dómgreind til annars en sæma meðlimi þessarar glæpamafíu fálkaorðu fyrir takmarkalausa gróðafíkn þeirra?!

... og svo er það stærsta spurningin: Finnst ráðherrum núverandi ríkisstjórnar það enn réttlætanlegt að bresk og hollensk stjórnvöld dæmi íslenskan almenning til ævarandi örbirgðar vegna gjörða glæpahundanna sem fengu ótakmarkað veiðileyfi í efnahagslögsögu landsins? Það er auðvitað með ólíkindum í ljósi þess að því var haldið að okkur að glæpamennirnir væru hetjur sem við ættum að líta upp til! Sumir féllu vissulega fyrir þessari reginlygi en aðrir voru með óbragð í munni og leyfðu sér að efast um að peningar þeirra yrðu til úr engu... 

Nú hefur það komið í ljós að þjóðinni var ætlað að líta upp til óvenju forhertra gróðrafíkla sem svifust einskis í að misnota allar glufur sem þeim gáfust til að arðræna sína eigin þjóð og annarra í kringum sig. Þeir komu sjálfum sér þannig fyrir að þeir gátu teygt sína glæpahneigðu fingur inn í alla sjóði landsins. Þeir blóðmjólkuðu þá og þegar þeir voru uppurnir teygðu þeir sig lengra svo kom hrunið og þeir stungu því sem þeir höfðu sankað að sér undan ...

Er nema von að maður geti ekki ályktað annað en þöggunin sem hefur viðgengist og er viðhöfð enn sé meðvituð aðferð!?


mbl.is Millifærðu hundruð milljóna milli landa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af glópaskýjum sem verða að dimmviðrisskýjum...

Eins og ég hef vikið að hér áður líður mér vægast sagt mjög undarlega. Ég reyni að ná áttum með því að horfa til baka og rifja upp aðdragandann og nýliðna atburði. Einkanlega atburðarrás síðastliðins vetrar. Ég reyni að raða minningarbrotunum saman og fá út úr þeim heildræna en ekki síður vitræna mynd. Þrátt fyrir allt gengur mér það misjafnlega.

Orustugyðja orðsinsÉg sé út úr myndinni svikna þjóð. Fórnarlömb sem urðu fyrir barðinu á græðgi og spillingu en þau tóku sig saman og létu í sér heyra. Ég sé óreynda hermenn réttlætisins rísa upp og brýna vopn orðræðunnar. Ég sé fólk sem hrinti af stað nýrri aðferð í íslenskri þjóðmálaumræðu. Þetta eru einstaklingar sem unna friði og réttlæti en var svo nóg boðið að það gat ekki látið sem ekkert væri lengur.

Allt þetta fólk reyndi að ná til skynsemi stjórnarelítunnar og vekja athygli þeirra á skyldum þeirra gagnvart landi og þjóð. Það kostaði tíma, hugvit og orku. Lengi vel voru viðbrögðin engin. Þetta fólk var algjörlega hundsað en einhverjir voru úthrópaðir fyrir að vera eitthvað annað en það sem þeir sögðust vera. Ég gaf mér ekki mikinn tíma til að hugsa um þessa hlið málanna í hita leiksins en þetta vakti mér gjarnan bæði furðu og reiði.

Mér fannst undarlegt að bera það saman hvernig útrásarvíkingar höfðu lagt undir sig fjölmiðlana áður en þegar tími frelsishetjanna rann upp voru þær hundsaðar. Fólk sem hélt ræður uppfullar af lausnum og góðum ráðum var þagað í hel. Það var meðvitað látið sem það hefði ekkert til málanna að leggja en rokið upp til handa og fóta í hvert skipti sem einhver vildi véfengja og ófrægja tilgang þeirra sem vildu bregðast við af skynsemi við því ástandi sem upp var komið í samfélaginu.

Í stað þess að sökudólgar og klíkubræður þeirra stæðu upp og sættu ábyrgð var ákveðið að efna til nýrra kosninga í því ruglingslega ástandi sem búið var að skapa með þögninni fyrst og fremst. Strax í aðdraganda kosninganna var augljóst að það var hyldýpi á milli þess hvernig ástandið blasti við þjóðinni. Margir fögnuðu því þó að fá tækifæri til að kjósa en aðrir sáu enga lausn fólgna í þeirri ákvörðun.

Í mjög einfaldaðri mynd má segja að ástandið hafi verið og sé enn þetta: Einhverjir vilja halda í það sem var og fá aftur tækifæri til að hámarka gróða sinn við erlend spilaborð en hinir vilja umbylta hugsunarhættinum. Ég tilheyri þeim hópi sem vill bylta hugsunarhættinum og verðmætamatinu. Það má kalla mig afturhaldssegg fyrir það að segja að rót vandans sem við stöndum frammi fyrir er gróðahyggjan. Lausn vandans er því fólgin í því að setja mennskuna í öndvegi.  Kannski þurfum við að henda peningunum til að slík forgangsröðun verði að veruleika.

Ég vil að við snúum okkur að því að koma okkur saman um það hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi á eyjunni okkar Íslandi. Horfum okkur nær og hættum að góna og gapa eftir háreistum peningaveldisturnum handan við hafið. Einbeitum okkur að framleiðslu á matvælum og verðmætum sem gera okkur kleift að lifa af. Hættum að byggja skýjaborgir úr peningum því peningar eru og verða aldrei sönn verðmæti!

Peningum er ekki treystandi


Peningar eru valtir og gildi þeirra getur hrunið án nokkurs fyrirvara. Peningar verða heldur aldrei étnir frekar en málmurinn eða pappírinn sem þeir eru gerðir af. Þessi einföldu sannindi ætti öllum að vera ljós. Þess vegna er það undarlegt að horfa upp á þá sem hafa viljað kenna sig við jöfnuð og sósíalisma berjast fyrir því að allir haldi kjafti, hlýði og verði góðir gagnvart þeirri forgangsröðun sem varð ofan á eftir kosningar. Þeirri forgangsröðun sem miðar að því að þjóna peningaöflunum á kostnað okkar, íslensku vinnuafli.

Ég hafði af því gífurlegar áhyggjur að síðustu kosningar myndu fyrst og fremst snúast um það sem hefur svo komið fram svo stuttu síðar. Þetta er þetta ofurkapp að koma þjóðinni að evrópska spilavítisborðinu. Ofurkappið er svo mikið að það er rétt eins og allur vandinn fyrir kosningar hafi gufað upp! Það fór ekki hátt en miðað við úrslitin varð mörgum ljóst í hvað stefndi. Ég leyfði mér enn að vera bjartsýn en sú bjartsýni er orðin að engu...

Það er ljóst að við verðum að spyrja okkur nokkurra spurninga í sambandi við þær staðreyndir sem bankahrunið slengdi framan í okkur. Staðreyndir sem ekkert hefur verið tekist á við og er ekki útlit fyrir að eigi að takast á við. Stóra spurningin er auðvitað fyrst og fremst hvað verður næst! Henni fylgja nokkrar minni spurningar sem er vert að íhuga rækilega áður en næstu skref verða tekin:

Erum við tilbúin til að gleyma, beygja okkur undir okið og sætta okkur við það að sumir eru jafnari en aðrir? Erum við tilbúin til að sætta okkur við meðferðina á okkur sjálfum, afkomendum okkar og meðbræðrum? Erum við tilbúin til að búa við lélegri menntun, heilbrigðisþjónustu og réttargæslu um langa framtíð vegna þess að eigendur bankanna tæmdu ríkiskassann í gegnum bankanna? Erum við tilbúin að láta þetta yfir okkur ganga á meðan það fjármagn sem er til er látið ganga í hina botnlausu hagsmunahít fjármagnseigenda?

Auk þess þurfum við að velta eftirfarandi fyrir okkur líka: Erum við tilbúin til að selja erlendum stórfyrirtækjum vantsbólin okkar, ræktarlönd, virkjunarmöguleika og fiskinn í sjónum ásamt öðrum auðlindum? Erum við tilbúin til að greiða erlendum samsteypum afnotagjöld af hita, rafmangi og vatni? Erum við tilbúin til að kaupa íslenskar landbúnaðar- og fiskiafurðir af erlendum risafyrirtækjum?

Viðreisn framtíðarinnarErum við tilbúin til að selja frá okkur eignaraðild að innlendri framleiðslu? Erum við tilbúin til að vera ódýrt vinnuafl erlendra risasamsteypufyrirtækja sem reisa verksmiðjur sínar þar sem þeir geta bolað þeim niður? Erum við tilbúin til að búa í landi sem verður okkur meira og minna lokað eftir að hér hafa risið landfrekar risaverksmiðjur og virkjanir sem knýja þær áfram? Erum við tilbúin til að vera útilokuð frá þeim landssvæðum sem þær þekja ásamt helstu náttúruperlum landsins sem erlendir auðjöfrar hafa sölsað undir sig og sína sem sumarbústaðalönd?

Er þetta marklaust svartsýnishjal? Ég viðurkenni að þetta er svört framtíðarsýn en ég minni á að hún er eingöngu sprottin upp úr þeim raunveruleika sem er orðinn nú en var kallaður svartsýnishjal síðastliðið haust og langt fram á vetur! Hún er sprottin upp úr órökréttri forgangsröðun sem tekur ekki tillit til mannúðar, skynsemi eða réttlætis. Framtíðarsýn mín byggir á þeirri staðreynd að við búum við ótrúlega blint og heimskt stjórnarfar sem neitar að fara að skynsemisráðum en hleypur alltaf eftir gróðahyggjuráðum!

Ég bið guð að hjálpa landi og þjóð þannig að við eigum mannvænlegri framtíð en þá sem liggur í spilunum mínum núna!
mbl.is „Getum lifað án Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkan tifar...

Sennilega gleymi ég því seint eða aldrei þegar Geir H. Haarde laug því upp í opið geðið á okkur, þjóðinni, hvað hann og Björgólfur Thor voru að gera í Stjórnarráðinu síðla kvölds í aðdraganda bankahrunsins sl. haust. Hann komst m.a.s. upp með að halda því fram að hann og Björgólfur væru frarnir að nota Stjórnarráðið sem koníkasstofu. Fréttamaðurinn gerði enga athugasemd!

Auðvitað laug hann! en það var hvorki í fyrsta eða síðasta skiptið sem hann laug. Hann er orðinn svo vanur að ljúga að hann bliknar ekki einu sinni þegar hann bregður lyginni fyrir sig. Mér finnst það sjokkerandi hvað hann er orðinn útfarinn í því en ekki síður að enginn gerði athugasemd við það yfirgengilega siðleysi sem kemur fram í því að honum fannst það sjálfsagt að hafa Stjórnarráðið fyrir koníaksstofu fyrir sig og vin hans; hefndarþyrsta soninn!

Ég skrifaði færslu hér um daginn þar sem ég vék nokkuð ýtarlega að áliti mínu á Björgúlfsfeðgum. Brotavilji þeirra er svo einbeittur og ber að það er með ólíkindum að þeir skuli ganga lausir. Það er ótrúlegt að þeir sem greiddu götu þeirra inn í íslenskt efnahagslíf í krafti sinna rússnesku mafíupeninga geti svarið það af sér og haldið því fram að þeir hafi verið algerlega bláeygðir gagnvart ósvífni þeirra og óbilgirni. Það stenst tæplega nákvæma skoðun að þeir sem studdu þá með ráðum og dáð hafi misst af því hvernig þeir fóru á svig við reglur og lög til að drýgja sína eigin sjóði á kostnað viðskiptavina Landsbankans.
Einbeittur brotaviljiÞað er svo með ólíkindum að einhverjum detti það í hug í blákaldri alvöru að á meðan viðskiptavinir bankans horfa eftir horfnum innistæðum og sívaxandi vöxtum fyrir gjörðir þessara glæpafeðga skuli Björgólfur Thor brosa sínu flírulega brosi og tala um að taka þátt í björgun efnahags landsins!!!! Hann hefur m.a.s. talað um að hann taki fullan þátt í því að liðka um fyrir samningaviðræðum við erlenda fjárfesta sem gætu komið innlendu efnahagslífi til bjargar!!! Getur fáránleikinn orðið eitthvað mikið yfirgengilegri!?

Er von að maður klípi sig í handlegginn og spyrjir sig: Hvort mönnunum geti verið alvara?!?! Ég meina þetta er svona álíka gáfulegt og að fela minknum að bjarga hænsnabúinu í samfélagi við hina minkana, vini hans!!! Ég reikna með að einhverjum finnist það illgirni en ég segi það satt að ég hef beðið þess frá síðastliðnu hausti að þessir feðgar verði teknir fastir, yfirheyrðir og hnepptir í gæsluvarðhald. Ég er sannfærð um sekt þeirra. Reyndar ekki bara þeirra... því miður!

Ég get ekki séð að uppbyggingarstarfið hér geti farið af stað á meðan glæpamennirnir sem rupluðu hér og rændu aðallega í gegnum bankana ganga lausir. Ég hef áhyggjur af því að bandamenn þeirra og verkfæri séu meira og minna með puttana í stjórnsýslunni. Á meðan slíkur veruleiki viðgengst er ekki nema von að við horfum upp á það að á alþingi séu forgangsverkefnin þau að koma þjóðinni aftur að spilaborðum mögulegs skyndigróða í stað þess að hlúa að þeim grunnstoðum sem þarf að byggja upp til að lifa einföldu en mannsæmandi lífi í þessu landi!

Viðbót: Bendi ykkur á þessa vönduðu umfjöllun Láru Hönnu Einarsdóttur um þetta sama mál ef þið hafið ekki séð hana nú þegar.


mbl.is Skoða lánveitingar Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óráðin framtíð...

Það er undarleg tilvera að lifa í hruninni veröld. Það er enn undarlegri tilvera að vera þess fullviss að þeir sem maður treysti eru einmitt þeir sem er síst treystandi því þeir eru fullkomlega glórulausir. Glóruleysi þeirra kemur best fram í því hvernig þeir bregðast við kringumstæðunum sem blasa við hvarvetna.

Í stað þess að hlúa að þeim særðu og slösuðu fara þeir og gera sig til fyrir erlendu auðvaldi, og ekki nóg með það! þeir vinna baki brotnu að því að verja hagsmuni þeirra sem bera ábyrgðina! Framkoma þeirra, forgangsröðun, gjörðir og yfirlýsingar auka enn frekar á firringuna sem ég finn fyrir í sívaxandi mæli bæði hið innra og ytra. Ég spyr mig aftur og aftur hvað er það sem veldur þeirri kolröngu forgangsröðun sem ég horfi upp á hverjum degi?

Er það heimska, illska eða einfaldlega geðveiki? Ég veit það ekki! en eitt veit ég að ef þessir, sem eru svo gersneyddir mennskunni sem raun ber vitni, fá áfram ráðrúm til að vinna með málefni Íslands þá er landið, þjóðin og framtíð hvoru tveggja í stórkostlegri hættu! Rústirnar sem við stöndum á núna verða jafnaðar við jörðu og ummerkin fullkomlega afmáð.
Fullkominn vanmáttur
Við sjáum þetta nú þegar í því að nú er allt kapp lagt á niðurskurð og niðurskurð í almannaþjónustu. Laun eru fryst, stóru verktakafyrirtækjunum er lofað verkefnum sem voru á áætlun 2007, fjármálafyrirtækjum er tryggð framtíð og veiðileyfi á skuldugan almenning, minni fyrirtæki og almenningur eru sett út á guð og gaddinn en krafturinn er settur í flokksbundið argaþras um Icesave og ESB. Sumir trúa því m.a.s. í alvöru að þetta sé einmitt það sem er mest aðkallandi að vinna að núna!

Það er sem sagt til peningur til að halda andlitinu fyrir nágrannaþjóðunum í fjar- og nærmynd en hann er líka tekinn frá brýnum verkefnum til raunverulegrar uppbyggingar mannúðlegra lífsskilyrða fámennrar þjóðar í stóru landi. Er von að maður velti því fyrir sér hversu heillegt toppstykkið er hjá stjórnmálamönnum sem eru tilbúnir til að svelta börnin sín en stríðala sýningarhestana sína á sama tíma. Er von að maður sveiflist á milli hugmynda um fullkomna heimsku og eiginhagsmunahyggju einstaklinga sem stökkva upp á nef sér og krefjast þolinmæði okkar á meðan þjóðinni blæðir út!

Ég horfi og hlusta með furðu manns sem kemst ekki út úr áfallalostinu sínu vegna allra þeirra óskapa sem við honum blasa á blóðvellinum. Þar liggja særðir, hrjáðir og þyrstir og hrópa á miskunn og hjálp en í stað þess að þeim sé hjálpað hefur björgunarliðið einangrað sig inni í sjúkratjöldunum og ræðir um hátæknisjúkrahús sem á að reisa á tunglinu eftir tíu ár!

Ég geri ráð fyrir að skrif mín hér á undan séu svolítið sundurlaus. Það gerir vonleysið sem hefur verið að hellast yfir mig síðastliðnar vikur og daga. Ég ætla að enda þetta á orðum Þorvaldar Gylfasonar en sem betur fer þá eru þeir einn og einn sem virðast enn búa við heilbrigða hugsun eins og hann. Þessir finnst mér átta sig á hver er eðlileg forgangsröðun miðað við núverandi aðstæður.

Það nær engri átt að ríkisstjórnin og Alþingi skuli ekki hafa markað sér stöðu við hlið almennings andspænis þeim sem stofnuðu til skuldbindinganna. Sá gjörningur Landsbankans að leggja þessar skuldbindingar á skattgreiðendur þeim að óvörum virðist brjóta gegn 249. grein almennra hegningarlaga um umboðssvik og geta varðað allt að sex ára fangelsi. Bankastjóra og bankaráðsmenn Landsbankans hlýtur að þurfa að draga til ábyrgðar að lögum, það hefði átt að gerast fyrir löngu en enginn talar um það á Alþingi nema Borgarahreyfingin og einn og einn þingmaður Vinstri grænna.


Viðbætur: Verð hreinlega að bæta við krækju í þessar spurningar á Kreppuvaktinni en þær eru eins og talaðar út úr mínu hjarta. Það er full ástæða fyrir okkur öll að spyrja þeirra! Þó það væri ekki til annars en halda fókus í þeirri vitfirringu sem okkur er boðið upp á!

Og enn verð ég að bæta við og núna er það krækja í stórkostlega ræðu Jakobínu Ingunnar Ólfsdóttur sem hún flutti á mótmælum á Austurvelli laugardaginn 25. júlí sl.


mbl.is Vill að AGS leggi spilin á borðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyr, heyr!

Hér mælir Ögmundur þarft og rétt og væri óskandi að fleiri opni augu sín fyrir því hver hinn raunverulegi þjóðarhagur er í því máli sem hér um ræðir! Það er kannski fulllangt gengið að túlka orð Ögmundar í tengdri frétt að hann úttali sig um það hver hann er í tengdri frétt. Það er þó greinilegt að hann vill spyrna við fótum og skoða það ítarlega áður en lengra er haldið!

Það sem mér finnst þó markverðast í þessari frétt er að hann segir að honum finnist að Íslendingar eigi að snúa bökum saman og hugsa um þjóðarhag og aðeins þjóðarhag þegar kemur að Icesave! Ég skil þessi orð hans þannig að hann sé að hvetja þjóðina til að láta í sér heyra líka. Mér finnst að það felist jafnvel ósk um það í þessum orðum hans að við, þjóðin, mótmælum!


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég treysti honum ekki!

Ég veit að hver og einn hefur mismunandi sýn á hlutina. Miðað við mína forgangsröðun þá hef ég svimandi áhyggjur! Ég hef áhyggjur af afkomu bænda, ég hef áhyggjur af sjávarútveginum, orkubúskapnum, lýðræðinu, sjálfstæðinu og í stuttu máli framtíð okkar allra sem íslenskumælandi þjóðar sem býr yfir ómetanlegum menningararfi, landsgæðum og framtíðarmöguleikum.

Það getur vel verið að ég hafi of miklar áhyggjur. Það getur m.a.s. verið að áhyggjur mínar séu að einhverju leyti ástæðulausar. Ef sú reynist raunin þá er það svo sannarlega hið besta mál. Hins vegar ef ég lít aftur til fortíðarinnar, og þó ekki væri nema til nýliðinna áratuga, þá tel ég áhyggjur mínar óskaplega eðlilegar svo ekki sé meira sagt. Hér ætla ég að líta langt fyrir skammt og rifja upp ræðu Einar þveræings til undirstrikunar áhyggjum mínum og hverjar eru ástæður þess að ég er í raun miður mín fyrir hönd okkar allra.

Ég treysti því að allir þekki tilefni þess að Einar frá Þverá í Eyjafirði, best þekktur í sögunni undir nanfinu Einar þveræingur, flutti eftirfarandi ræðu. Ég treysti því líka að allir þekki hvaða afleiðingar það hafði fyrir þjóðina að flýja út úr Sturlungaöldinni á náðir noregskonungs. Ég treysti því að allir þekki ártalið sem Gamli sáttmáli var undirritaður, hvaða afleiðingar samkomulagsatriði hans hafði á lífsafkomu landans - þó sumar ættir lifðu vissulega góðu lífi og mökuðu krókinn allan þann hörmungatíma - og síðast en ekki síst vona ég að allir þekki hve löngu seinna þjóðinni tókst að rísa upp úr öskustónni og öðlast ákvörðunarrétt yfir eigin málefnum!

Einar þveræingur mælti fram þessa ræðu á alþingi Íslendinga, sem í þá daga var haldið á Þingvöllum, eftir að hann var inntur álits á boði Ólafs noregskonungs um að verða drottnari lands og lýðs en fá Grímsey í staðinn. Mér finnst vel við hæfi að rifja upp varnaðarorð hans á þessum degi! (Ég bendi á að leturbreytingar í textanum eru mínar)

Því er ég fáræðinn um þetta mál að engin hefir mig að kvatt. En ef ég skal segja mína ætlan þá hygg ég að sá myndi til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldrei ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sá sé góður maður, sem ég trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verða að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla ég vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti, er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða, ef þaðan er enginn hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla ég mörgum kotbændunum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum. (Heimskringla í útgáfu Máls og menningar 1991: 406-407)

 


mbl.is Fagna ákvörðun Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...

Mér líður eins og vægnbrotnum spörfugli í ljónagryfju...
Sorgardagur í lífi hrelldrar þjóðar

mbl.is Fagnar niðurstöðu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur þú kynnt þér eggin.is?

Ef þú ert pólitískur eða jafnvel þó þú teljir þig ekki vera það en ert annt um samfélagið þitt ættir þú að kynna þér það sem birtist á eggin.is Í umfjöllun um þennan vettvang segir ritstjórn vefritsisns eftirfarandi:

Vefritið Eggin er vettvangur fyrir rökfasta umræðu um pólitík og samfélagsmál. Tilgangur þess er að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir heimi án stéttaskiptingar, misréttis og annars óréttlætis. Eggin þiggur hvorki né gefur flokkslínu og er óháð stjórnmálahreyfingum. Við munum segja það sem við teljum réttast, af svo mikilli kurteisi eða hispursleysi sem okkur þykir hæfa umræðuefninu.

Ritstjórn vefritsins skipa þeir: Hrafn H. Malmquist, Jón Karl Stefánsson og Vésteinn Valgarðsson.

Að undanförnu, sem jafnan hingað til, hafa birts hörkugóðar greinar á síðu vefritsins sem ég hef áhyggjur af að alltof fáir njóti. M.a. er þessi sem fjallar um nokkrar ástæður þess að varast ESB. Hér ætla ég þó að vekja sérstaka athygli á nýjustu greininni á eggin.is sem heitir: Hvað er til ráða?

Greinin fjallar um þá samfélagsgerð sem við búum við nú en þar segir t.d. um það hlutverk sem almenningi er ætlað miðað við núverandi fyrirkomulag:

Okkar hlutverk er að vinna og neyta; hlýðni kunnum við. Þetta höfum við lært svo rækilega að þegar í harðbakkan slær og kreppa skellur á dettur fæstum okkar annað í hug en að mótmæla og biðla til yfirvaldsins. Við kvörtum til alþingis og viljum önnur andlit í sömu stöður. Að breyta um strúktúr eða taka málin í grundvallaratriðum í eigin hendur er ekki það fyrsta sem lagt er í. Við mótmælum kónginum og setjum nýjan í hans stað þó að við vitum það, innst inni, að grundvallarstrúktúrinn í þessu stéttskipta, stigveldisstýrða auðvaldssamfélagi, stendur eftir sem fyrr.

Í greininni sem ég vil vekja athygli á segir Jón Karl Stefánsson að til að koma á réttlátara samfélagi þurfi gagngera breytingu á uppbyggingu samfélagsins. Hann mælir með því sem hann kallar róttækt samvinnufélag. Til að svara því hvernig því verður komið á segir hann m.a. þetta:

Eins og áður segir getur samvinnufélag haft hvaða grunnvirkni sem er. En brýnast er að byrja þar sem vald almennings ætti að vera, en er ekki. Fyrsta stopp eru án efa verkalýðsfélögin. Þau eru í dag einmitt mynduð í sama form og önnur í auðvaldinu: Einskonar stétt yfirmanna, samþættara og stjórnenda hafa þar öll raunveruleg völd og móta stefnuna. Eftir að fjármálakreppan skall á varð öllum ljóst að verkalýðshreyfingin í núverandi mynd er dauð: Hún sinnir ekki hagsmunum verkalýðsins og er ekki það afl sem okkur skortir svo mjög í dag. 

Mér finnst þetta afar athyglisvert í ljósi þeirra sýndarsamninga sem stærstu verkalýðsfélögin létu hafa sig út í að undirrita fyrir skemmstu. Samninga sem voru kenndir við stöðugleikasáttmála og aðgerðaráætlun án þess að þeir fælu í sér nokkurn skapaðan hlut sem að gangi mun koma fyrir verkalýð þessa lands eða m.ö.o. þar er ekkert um það hvernig eigi að mæta því sem raunverulega ógnar lífsafkomu almennings í landinu.

Það má því segja að samningaferlið allt og samkomulagið sjálft hafi verið einhvers konar sýndargjörningur í þeim eina tilgangi að þagga niður í fólki og tryggja vinnufrið. En vinnufrið til hvers? Ég giska á að koma landinu inn í ESB. Það virðast nefnilega ótrúlega margir standa í þeirri meiningu að innganga í þetta miðevrópska skrifstofubákn muni leysa allan vanda! Mér skilst að margir innan Samtaka atvinnulífsins fái m.a.s. glýju í augun bara að því að heyra skammstöfun bandalagsins hafða yfirPinch

En nóg um það í bili! Ég hvet alla sem hafa ekki kynnst vefritinu eggin.is að kíkja þangað inn og kynna sér þann vettvang!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband