Máttlaus hræðsluáróður

Steingrímur J. Sigfússon segir, í tengdri frétt, að ef frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesavesamkomulagsins verði fellt þá komi október aftur. Ég segi eins og er að ég sé ekki allan muninn á því ástandi sem er ríkjandi í efnahagsmálunum nú og í október. Ég sé ekki einu sinni allan muninn á þeim ákvörðunum sem eru teknar af ríkisstjórninni nú og því sem ég bjóst við af þeirri sem sat þá.

Ég vildi gjarnan geta snúið til baka aftur til október en auðvitað aðeins í þeim tilgangi að breyta atburðarrás næstu vikna og mánaða þar á eftir í eftirfarandi atriðum: Eigendur og yfirmenn banka og yfirmenn eftirlitsstofnanna sem brugðust áttu að koma fram, viðurkenna ábyrgð sína og segja af sér. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar áttu að biðja þjóðina afsökunar á því hvernig þeir brugðust henni og segja af sér. Ríkisstjórnin átti að segja af sér í stað þess að sitja hjá og kalla til erlenda sérfræðinga til aðstoðar þeim margháttaða vanda sem blasti við þá og gerir enn.

Ég hefði helst viljað sjá að á þeim tíma hefði verið sett á fót neyðarstjórn til að stýra landinu en hefði sætt mig við þjóðstjórn. Það átti aldrei að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins!  Það átti aldrei að þjóðnýta Glitni! Það átti að kæra það að Bretar settu á þjóðina hryðjuverkalög fyrir gjörðir þeirra sem áttu og ráku Ice Save!
Hvítflibbaglæpamaður
Og síðast en ekki síst það átti strax að gera húsleit í bönk- unum og öðrum helstu fjármála- stofnunum landsins. Það átti að færa yfirmenn þessara stofn- anna til yfirheyrslu og setja eigendur a.m.k. Landsbanka og Kaupþings í gæsluvarðhald. Það átti að gera húsleit hjá lögfræð- ingum þessara stofnana og á heimilum yfirmanna þeirra.

Það átti að hafa samband við þá sem höfðu varað við nákvæmlega því sem gerðist, hlusta á þá og hafa þá með í ráðum. Síðast en ekki síst þá átti að tala við og hlusta á þjóðina sem í fyrsta skipti í sögu landsins þusti út á götur til að standa með afstöðu sinni. Við höfðum áhyggjur. Við höfðum grunsemdir. Okkur grunaði margt af því sem var neitað þá en hefur komið fram núna.

Ef þetta hefði verið gert í október værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag. Ég segi fyrir mig að ég skammast mín ekki fyrir þjóðernið vegna þeirrar heimsku sem stjórnsýslan gerir sig seka um aftur og aftur með forgangsröðun sinni, aðgerðum en ekki síst aðgerðarleysi. Ef framantalið væri búið að eiga sér stað hefði ég einhverja von og trú á framtíð þjóðarinnar í sínu eigin landi. Hún verður því miður veikari og veikari með hverjum deginum sem líður og ekki eru umskiptin sem hafa orðið á Steingrími til að bæta úr.

Í dag óttast ég um allt sem viðkemur því að vera sjálfstæður Íslendingur sem lifir og starfar á ættjörð sinni. Það eina sem ég sé eru vörður sem varða leiðina beint inn í gin þeirra einræðisherra sem hafa mergsogið þær heimsálfur sem nú á tímum er kenndar við þriðja heims ríki eða þróunarlönd.
Börn sem búa við skortÉg sé í raun bara tvennt í stöðunni. Annaðhvort sitjum við kyrr og aðhöfumst ekkert í trausti þess að við munum þrátt fyrir allt lifa þetta af eða rísum upp og freistum þess að snúa ofan af þeim ósköpum sem við okkur blasa. Ég heyri æ oftar í fólki sem hugsar sér til hreyfings. Það hefur ekki lengur trú á því að nokkur framtíð bíði þeirra hér heima en sumir eru bara hreinlega búnir að gefast upp á því sem viðgengst í samfélagsmálunum.

Þeim finnst óréttlætið hreinlega svo mikið að þó það sjálft hafi atvinnu, eigi heimili og hafi það þokkalegt þá getur það ekki hugsað sér að vera hluti af þeirri mynd sem umheimurinn fær að Íslendingum þessi misserin. Ég er í þessum hópi en það er auðvitað miklu meira en að segja það að flytja burt. Mér finnst líka eins og maður sé að bregðast en hvaða skyldum gegni ég umfram þá sem þjóðin kaus til forystu? Það er ekki til eitt einfalt svar við því en mér finnst mér bera skylda til að standa með landi mínu og þjóð gegn þeim sem vinna á móti hagsmunum okkar.

Ég hef áhyggjur af okkur, af landinu okkar og framtíðinni. Ég get ómögulega ýtt þeim frá mér á meðan því sem hefur farið fram á undanförnum árum og stendur enn heldur áfram. Ég gat setið á mér fram til sl. hausts en get það ekki lengur. Ég reyni sífellt að halda í vonina um að ég hafi rangt fyrir mér. Að áhyggjur mínar séu stærri en vandamálin sem þær eru vaktar af en fram að þessu hafa áhyggjur mínar reynst vera á rökum reistar. Þess vegna er mér lífsins ómögulegt að ýta þeim frá mér núna.
Þrælar til sölu
Ég leyfi mér að vona að okkur beri gæfa til að koma í veg fyrir að Icesave-samningurinn nái fram að ganga. Það myndi létta af mér töluverðum áhyggjum. Það myndi vera fyrsta skrefið til að vinda ofan af þeim landráðagjörningum sem upphófust með einkavinavæðingu bankanna. Það yrði líka stórt skref í þá átt að sýna umheiminum að við höfum bein í nefinu og látum ekki selja okkur eins og þræla. Ég vil segja auðvaldsrisunum stríð á hendur. Höfnun Icesave-samingsins væri stór áfangasigur í því stríði.

Að lokum vil ég bæta því við að það er sorglegt að sjá hvernig Icesave-málið er sett upp eins og pólitískt þrætuepli inni á þingi eins og þar skipti mestu máli hvaða stjórnmálaflokki er mest um að kenna sá viðbjóður sem þessi samningur er. Samingurinn er þvílíkur viðbjóður að hann ætti frekar að þjappa samfélaginu saman um að vera á móti honum. Í mínum huga eru það þeir sem hrundu bankaútrásinni af stað og stýrðu henni út í gjaldþrotahyldýpið sem ættu að sitja á sakamannabekknum og taka af henni alla ábyrgð!


mbl.is „Þá kemur október aftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Rakel, æfinlega !

Þakka þér; þessa þungu, en jafnframt raunsæju hugvekju, sem hver einasti Íslendingur,, hver kallast vill, skyldi ígrunda, gaumgæfilega.

Með beztu kveðjum; norður yfir heiðar, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 15:28

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heil og sæl spjallvinir góðir.

Tek undir kjartnyrt orð Óskars um þennan pistil Rakel og tek undir hvert orð.  Þetta ástand er farið að nísta inn að beini.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.7.2009 kl. 15:38

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur báðum innlitið og kraftmiklar kveðjur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.7.2009 kl. 22:58

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki vorim við mörg sem mættum á Austurvelli í gær, en það var gott fólk sem mætti.  Ertu búin að hlusta á/lesa ræðuna hans Valgeirs??  Hún var alveg frábær. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.7.2009 kl. 01:18

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já til baka til fyrsta október þannig að ég geti tekið alla peningana mína út úr bankanum og skipt þeim í Evrur.

Ég fór á Austuvöll í dag og þar var fámennt. Það vantar kraftinn í fólk.

Ég tek undir það með þér að ekki er hægt að sjá að aðstæður hafi batnað frá því að bankarnir hrundu.

Ísland er einfaldlega komið í þrot og yfirvöld verða að horfast í augu við það NÚNA

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.7.2009 kl. 01:24

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið og viðbæturnar stelpur. Ég er heima hjá mér hérna fyrir norðan núna en hefði auðvitað viljað vera með ykkur á Austurvelli í gær.

Ég er búin að hlusta á frábæra ræðu Valgeirs Skagfjörð og er hrædd um að þar sem hann talar um vonleysi og slenið, sem það leiðir yfir fólk, sé einhver hluti skýringarinnar á fámenninu. Hins vegar er það, eins sérkennilega og það hljómar, svo að enn eru þó nokkrir sem neita að horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við okkur!

Það eru a.m.k. þó nokkrir í kringum mig sem annaðhvort fylgjast ekki með því sem er að gerast eða hafa tekið meðvitaða eða ómeðvitaða ákvörðun um að trúa því sem ríkisstjórnin og valdir fjölmiðlar segja þeim. Sumir virðast frekar vilja tilheyra aðgerðalausa hópnum heldur en láta sjá sig í hópi með mótmælendum. 

En svo er auðvitað fólk sem býr úti á landi og á þess vegna ekki tök á því að standa með ykkur á Austurvelli þó það gjarnan vildi! Við megum ekki gleyma þeim! En fyrst og fremst vil ég þakka ykkur og þeim sem stóðu vaktina fyrir mig og aðra þegna þessa lands, fædda og ófædda, fyrir framan alþingishúsið og mótmælti þessum ófögnuði!!!

Ég er svo forvitin að ég má til að varpa einni spurningu hérna fram í þeirri von að einhver fróðari en ég geti svarað henni: Veit einhver hvernig það er með Þorgerði Katrínu. Ég frétti að hún ætlaði að segja af sér kl. 15:00 í gær. Var það bara kjaftasaga

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.7.2009 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband