Fyrir hverja vinna þeir?

Mig setur hljóða við að lesa tengda frétt. Hvers vegna? Vegna þess að hér kemur nákvæmlega ekkert nýtt fram! Það er þó ljóst að sérfræðingar hagdeildar ASÍ miða við að fyrirfram sé búið að ýta öllum hugmyndum til atvinnuuppbygginar í landinu út af borðinu. Hugmyndir þeirra um lið í björgunaraðgerðunum er fólgin í álversframkvæmdum sem ég hélt að m.a.s. eingöngu leikir, hvað þá lærðir, væru búnir að átta sig á af dæmunum sem við höfum að er ekkert annað en óráð! Hver er þá tilgangur hennar?

Ég sé í raun ekkert annað í tengdri frétt en áróður! Það er hins vegar spurning fyrir hverja fulltrúar ASÍ eru að reka áróðurinn. Til þess að átta sig á því þarf að rýna svolítið í textann og þá kemur í ljós að það koma tveir herrar til greina. Annar er ríkisstjórnin. Hinn eru eigendur álfyrirtækjanna.

Það er reyndar alls ekki útilokað að einn og sami herrann standi á bak við hina tvo. Það er einfaldast að kalla hann efnahagsböðulinn.* Kannski eru þeir m.a.s. fleiri en einn efnahagsböðlarnir sem hafa náð svo sterkum tökum á öllum helstu ráðamönnum í samfélaginu að áróður af þessu tagi á greiðan aðgang í fjölmiðlana sem þjóna þeim sem hagnast á ríkjandi ástandi.
MarkmiðiðÉg ætla að byrja á því að benda á það hvernig sérfræðingar hagdeildar ASÍ standa við bakið á niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur verið kennd við svokallaðan bandorm. Í fréttinni er þetta haft eftir sérfræðingunum: „Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera.“ (leturbreytingar eru mínar)

Þetta eru aðalatriði nýgerðs stöðugleikasáttmála sem öll stærstu verkalýðsfélög landsins voru aðilar að. Með undirritun hans gerði ríkisstjórnin þau „samsek“ sér um áætlanir sínar í ríkisfjármálunum á næstu árin. Kannski áttu þau ekki annarra kosta völ en að skrifa undir. Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða neitt um það. Það sem kom á móti var svokölluð „áhersla á að styrkja lægstu laun“. Spurning hvort og hvenær af því verður.

En nóg um það í bili. Með orðalaginu sem ég hef eftir sérfræðingum hagdeildar ASÍ, hér að ofan mætti, ætla að herrarnir sem þeir gegna séu fulltrúar ríkisstjórnarinnar en þá kemur áherslan sem aðgerðaráætlunin gengur út á. Þ.e. í hverju atvinnuuppbyggingin, sem á að koma hjólum efnahagslífsins af stað aftur, skal vera samkvæmt þessum sérfræðingum. Það er ljóst að því sem fer hér á eftir að álglugginn skyggir á allt annað í því sambandi:

Í spánni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík fari á fullt skrið á þessu ári og að hafist verði handa við endurnýjun á álverinu í Straumsvík ásamt framkvæmdum við tengd raforkuver. Áætlað er að afkastageta fyrsta áfanga álversins í Helguvík verði 90 þúsund tonn og endurnýjunarinnar í Straumsvík 45 þúsund tonn og að framleiðsla hefjist í báðum verksmiðjunum á síðari hluta árs 2011. [...]

Hámark stóriðjuframkvæmda í Helguvík og Straumsvík er áætlað á næsta ári og þá gerum við ráð fyrir ríflega 80% vexti í fjárfestingum atvinnuveganna og áframhaldandi 10% vexti árið 2010. Þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur árið 2012 gerum við ráð fyrir fimmtungs samdrætti í fjárfestingum atvinnuveganna þrátt fyrir mikla aukningu í almennum fjárfestingum atvinnulífsins öðrum en stóriðjufjárfestingum."

Gráðugur álrisiMiðað við þessa takmörkuðu sýn sérfæðinga hagdeildar ASÍ mætti ætla að þeir reki áróður fyrir eigendur álversfyrirtækjanna. Eins og flestum er sennilega kunnugt hefur verið rætt um að ríkissjóður fái að láni það fjármagn sem liggur í lífeyrisstjóðunum til að styrkja lífvænleg verktakafyrirtæki til stórframkvæmda eins og virkjana- og stóriðjuuppbyggingar. Eins og ég hef margoft komið að áður þá líst mér í stuttu máli afspyrnuilla á þessar hugmynd!

Framkvæmdir við álver eru afar mannfrekar. Sem er auðvitað jákvætt en ég sé ekki fyrir mér að það verði endilega Íslendingar sem muni vinna við þessar framkvæmdir. Það er líka ljóst að þessi vinna er fyrst og fremst aðgengileg fyrir heilsuhrausta, ómenntaða karlmenn á besta aldri sem eru búsettir á suðvesturhorni landsins. Stærsti ókosturinn við þessar hugmyndir eru þó þær að ef allt fjármagnið sem fæst út úr lífeyrissjóðunum verður sett í þessi verkefni þá munu þær skila afar litlu í þjóðarbúið, og þar af leiðandi til almennings, þegar upp er staðið. 

Ég hef rakið þetta allt áður þannig að ég ætla ekki að fara mikið nánar í þetta hér en minni á dæmin um Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði til frekari rökstuðnings. Þegar allt er dregið saman get ég alls ekki séð að þær spár sem er vísað til í umræddri frétt þjóni öðrum tilgangi en hamra á því að engar leiðir séu færar aðrar en að skattpína almenning en skera niður þjónustu við hann líka og Efnahagsböðlartryggja uppgang álvera.

Útkoman sem ég fæ út úr þessari jöfnu er skelfileg. Hún er í raun svo arfavitlaus að það eina sem mér dettur í hug er það að hugmynda- fræðin sem hún er vaxin frá hafi orðið til í höfðinu á einhverjum efnahagsböðlinum sem ætlar sér með öllum ráðum að koma landinu og öllu því sem því fylgir undir sig og sína.

*Ef orðið efnahagsböðull kemur einhverjum ókunnuglega fyrir sjónir má átta sig betur á fyrir hvað þetta orð stendur í síðustu færslu.


mbl.is Spá 10% samdrætti í landsframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband