Hefur þú kynnt þér eggin.is?

Ef þú ert pólitískur eða jafnvel þó þú teljir þig ekki vera það en ert annt um samfélagið þitt ættir þú að kynna þér það sem birtist á eggin.is Í umfjöllun um þennan vettvang segir ritstjórn vefritsisns eftirfarandi:

Vefritið Eggin er vettvangur fyrir rökfasta umræðu um pólitík og samfélagsmál. Tilgangur þess er að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir heimi án stéttaskiptingar, misréttis og annars óréttlætis. Eggin þiggur hvorki né gefur flokkslínu og er óháð stjórnmálahreyfingum. Við munum segja það sem við teljum réttast, af svo mikilli kurteisi eða hispursleysi sem okkur þykir hæfa umræðuefninu.

Ritstjórn vefritsins skipa þeir: Hrafn H. Malmquist, Jón Karl Stefánsson og Vésteinn Valgarðsson.

Að undanförnu, sem jafnan hingað til, hafa birts hörkugóðar greinar á síðu vefritsins sem ég hef áhyggjur af að alltof fáir njóti. M.a. er þessi sem fjallar um nokkrar ástæður þess að varast ESB. Hér ætla ég þó að vekja sérstaka athygli á nýjustu greininni á eggin.is sem heitir: Hvað er til ráða?

Greinin fjallar um þá samfélagsgerð sem við búum við nú en þar segir t.d. um það hlutverk sem almenningi er ætlað miðað við núverandi fyrirkomulag:

Okkar hlutverk er að vinna og neyta; hlýðni kunnum við. Þetta höfum við lært svo rækilega að þegar í harðbakkan slær og kreppa skellur á dettur fæstum okkar annað í hug en að mótmæla og biðla til yfirvaldsins. Við kvörtum til alþingis og viljum önnur andlit í sömu stöður. Að breyta um strúktúr eða taka málin í grundvallaratriðum í eigin hendur er ekki það fyrsta sem lagt er í. Við mótmælum kónginum og setjum nýjan í hans stað þó að við vitum það, innst inni, að grundvallarstrúktúrinn í þessu stéttskipta, stigveldisstýrða auðvaldssamfélagi, stendur eftir sem fyrr.

Í greininni sem ég vil vekja athygli á segir Jón Karl Stefánsson að til að koma á réttlátara samfélagi þurfi gagngera breytingu á uppbyggingu samfélagsins. Hann mælir með því sem hann kallar róttækt samvinnufélag. Til að svara því hvernig því verður komið á segir hann m.a. þetta:

Eins og áður segir getur samvinnufélag haft hvaða grunnvirkni sem er. En brýnast er að byrja þar sem vald almennings ætti að vera, en er ekki. Fyrsta stopp eru án efa verkalýðsfélögin. Þau eru í dag einmitt mynduð í sama form og önnur í auðvaldinu: Einskonar stétt yfirmanna, samþættara og stjórnenda hafa þar öll raunveruleg völd og móta stefnuna. Eftir að fjármálakreppan skall á varð öllum ljóst að verkalýðshreyfingin í núverandi mynd er dauð: Hún sinnir ekki hagsmunum verkalýðsins og er ekki það afl sem okkur skortir svo mjög í dag. 

Mér finnst þetta afar athyglisvert í ljósi þeirra sýndarsamninga sem stærstu verkalýðsfélögin létu hafa sig út í að undirrita fyrir skemmstu. Samninga sem voru kenndir við stöðugleikasáttmála og aðgerðaráætlun án þess að þeir fælu í sér nokkurn skapaðan hlut sem að gangi mun koma fyrir verkalýð þessa lands eða m.ö.o. þar er ekkert um það hvernig eigi að mæta því sem raunverulega ógnar lífsafkomu almennings í landinu.

Það má því segja að samningaferlið allt og samkomulagið sjálft hafi verið einhvers konar sýndargjörningur í þeim eina tilgangi að þagga niður í fólki og tryggja vinnufrið. En vinnufrið til hvers? Ég giska á að koma landinu inn í ESB. Það virðast nefnilega ótrúlega margir standa í þeirri meiningu að innganga í þetta miðevrópska skrifstofubákn muni leysa allan vanda! Mér skilst að margir innan Samtaka atvinnulífsins fái m.a.s. glýju í augun bara að því að heyra skammstöfun bandalagsins hafða yfirPinch

En nóg um það í bili! Ég hvet alla sem hafa ekki kynnst vefritinu eggin.is að kíkja þangað inn og kynna sér þann vettvang!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

athyglisvert,takk fyrir.vissi ekki af þessum vef...

zappa (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 12:42

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég held því miður að þeir séu alltof fáir en það gleður mig að mér hafi tekist að vekja athygli þína á honum

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.7.2009 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband