Athyglisvert!

Það er öllum ljóst að hér ríkir efnahagskreppa en sú stjórnmálalega veldur mér þó meiri áhyggjum um þessar mundir. Á meðan við búum við hana er ekki von á neinum farsælum lausnum hvað varðar þá efnahagslegu. Það kveður reyndar svo rammt af kreppunni á stjórnmálasviðinu að hún er farin að valda mörgum andlegri kreppu líka.

Það á þó greinilega ekki við um alla því enn eru þeir þó nokkrir sem leggja nótt við dag til að vinna að raunverulegum lausnum á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Í þessu sambandi langar mig til að vekja athygli á þessum sálarlæknandi pistli Marinós G. Njálssonar og eftirfarandi grein sem ég kynntist á Facebook.

Ég vek athygli á því að þar fylgir honum líka grein Agnesar Bragadóttur sem hún byggir m.a. á viðtali við Evu Joly. Sjá hér.

Forseti Alþingis barði sér á brjóst og bað um að “elsta löggjafarsamkunda heimsins” fengi vinnufrið fyrir mótmælendum. Dag eftir dag tala ráðamenn niður til þjóðarinnar, svona líkt og þegar Jón Loftsson í Odda býsnaðist yfir því að “skillitlir menn” væru að drepa höfðingja. Þá var honum nóg boðið. En það vill nú svo til að þjóðin samanstendur af “skillitlum mönnum”, fólki sem er einfaldlega að reyna að draga fram lífið og spila eins vel úr því sem það hefur í höndunum. Ráðamenn og yfirvöld hafa ekki verið að störfum fyrir þetta fólk; ráðamenn hafa verið að hygla höfðingjunum á kostnað þjóðarinnar og ætla nú að vernda höfðingjana og streitast um leið við að sitja sem fastast. Er furða að fólki sé nóg boðið.

Við Íslendingar erum lánsöm þjóð að því leyti að í hinum gömlu bókum okkar eigum við sjálfsmynd sem við getum leitað til þegar erfiðleikar steðja að. Hver er til dæmis kjarnaboðskapur hinnar margbrotnu Njálu? Hann er í raun sá sami og fólst í orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða í þeirri ræðu sem Ari Þorgilsson fróði lagði honum í munn í Íslendingabók sinni: “Ef vér slítum í sundur lögin, slítum við og friðinn.” Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bóka sem skrifaðar voru á mestu ófriðartímum þjóðarinnar. En hvernig skildu þessir menn hugtakið lög? Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðvirðleiki. Ef lögin voru slitinn, ef samfélagið var brotið upp var ófriður skollinn á. Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa “slitið í sundur lögin.”

Hugmynd Njarðar P. Njarðvík um endurheimt lýveldisins, um tafarlausa setningu neyðarstjórnar til að semja nýja stjórnarskrá, sem síðan skal kosið eftir, er einhver besta hugmynd sem upp hefur komið í þeim Ragnarökum sem nú ganga yfir þjóðina. Hvar í flokki sem menn annars standa þá hljóta þeir að horfa blákalt á þá nöturlegu staðreynd að flokkarnir hafa brugðist þjóðinni, hvaða nafni sem þeir flokkar nefnast. Þess vegna þarf neyðarstjórnin einnig að endurskoða kosningalögin frá grunni.

Við þurfum að velja fólk í þessa neyðarstjórn sem öll þjóðin ber traust til, fólk sem við þekkjum að viti og réttlæti. Þessi stjórn þarf að verða nokkurs konar Öldungaráð, sem gjarnan mætti sitja áfram eftir að ný stjórnarskrá hefur verið samþykkt. Fólk einsog t.d. Njörður P. Njarðvík, Páll Skúlason, Guðrún Pétursdóttir, Þorvaldur Gylfason, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Haralz, svo einhverjir séu nefndir, ættu að sitja í Öldungaráði sem þessu.

Eina manneskjan sem gæti leitt stjórn eða ráð sem þetta, tel ég vera Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Ég held að engin einn einstaklingur sé þess umkomin með jafn afgerandi hætti og hún, að leiða málefnavinnu fyrir hið nýja lýðveldi til lykta. Af ráðamönnum síðustu áratuga ber hún höfuð og herðar yfir þá alla.

Ölungaráðið/neyðarstjórnin ætti að vera skipuð okkar bestu konum og körlum, fólki sem hefur langa reynslu af lífinu, fólki sem glímt hefur við sjálft sig og haft sigur; fólki sem æðrast ekki, heldur býr yfir þess konar viti og réttlæti, sem þjóðin hefur svo brýna þörf fyrir núna, ef hún á að eiga einhverja framtíðarvon.

Það er nefnilega þjóðin sjálf sem þarf vinnufrið; frið fyrir vanhæfi núverandi ráðamanna, frið fyrir valdabrölti lýðskrumara, frið til þess að byggja upp nýtt lýðveldi, sem á möguleiki á lengri og farsælli líftíma en það lýðveldi sem nú er liðið undir lok.

Friðrik Erlingsson

 


mbl.is Þingfundum frestað um viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðustu bloggin þín eru hvert öðru betra og endurspegla líðan svo marga. Síðustu mánuði hefur orðatiltækið "að vita ekki í hvorn fótinn maður eigi að stíga" orðið ljóslifandi.

Eftir lestur á pistli Friðriks Erlingssonar staldra ég enn á ný við þá hugsun að hvorki forsetinn né biskupinn hafa getað fundið sér hlutverk meðal sauðsvartrar alþýðunnar eftir að hrunið helltist yfir okkar og umlykur okkur hvert sem litið er. Hvað segir það okkur um samfélagsgerðina sem kannski gat bara virkað meðan allt lék í lyndi?

Bestu kveðjur til þín!

Helga (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 21:38

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innleggið þitt Helga mín sem ornar mér meir en þig grunar! Ég skil svo vel vangaveltur þínar um samfélagsgerðina... Það er eitthvað mikið, mikið að þegar menn geta aðeins rifist um hverjum er um að kenna og setja svo alla orkuna í erlenda saminga...

Enginn, ekki einn einasti meðal svokallaðra þjóðarleiðtoga, hefur reynt að horfast í augu við þá margháttuðu kreppu sem nú ríkir í samfélaginu, tekið af skarið og tekið sér stöðu með þjóðinni! Það er því stórkostleg hætta á að þriðja kreppan, sú sem tekur til andlega þáttarins, bresti á með ófyrirséðum afleiðingum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.7.2009 kl. 22:22

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Pistill Marinós var sálarbætandi og ættu allir alþingismenn og konur að lesa hann.  Svo ert þú sjálf alltaf góð, ég hef ekki þolinmæði til að skrifa svona mikla pistla.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.7.2009 kl. 23:07

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir Jóna mín! Marinó er snillingur! Ég vil hann í þá neyðarstjórn sem Friðrik Erlingsson fjallar um hér að ofan.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.7.2009 kl. 23:09

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Pistill Marínós er góður og ekki vafi á að við erum ekki sjálfstæð þjóð lengur. Ég er óðum að komast á þá skoðun að það muni ekkert breytast nema með byltingu.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 1.8.2009 kl. 00:15

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hugarfarsbylting er a.m.k. frumforsenda þess að eitthvað breytist...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.8.2009 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband