Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Virkar lýðræðið í reynd

Í tilefni að því að „74,9% svarenda eru ekki mjög eða alls ekki ánægðir með hvernig lýðræðið virkar á Íslandi“ skv. tengdri frétt langar mig til að birta ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum sem ég rakst á hjá Sigurlaugu Ragnarsóttur. Þetta er magnað ljóð sem mér finnst vel við!

Ekki síst í ljósi þess að þrátt fyrir þessa háu prósentu þeirra sem eru í raun óánægðir með það hvernig lýðræðið virkar þá er ljóst að meiri hluti þjóðarinnar ætlar að kjósa það sama aftur. Ótrúlega margir tala reyndar um að skila auðu en í reynd kemur það á sama stað niður! Það eina jákvæða við það sem skoðanakannanir benda til er að Vinstri grænir auka verulega við sig fylgi. Það er ekki síst jákvætt vegna þess að lengi vel var því haldið fram að framboð Borgarahreyfingarinnar myndi „stela“ þeirra atkvæðum.

Hins vegar get ég ekki sætt mig við þann málflutning Vinstri grænna að eini valkosturinn í stöðunni sé að borga skuldirnar sem óráðsíumennirnir létu falla á þjóðina og lengja í skuldum heimilanna í stað þess að leiðrétta þær. Verði það þá verður tómt mál að tala um lýðræði hér á landi. Til að tryggja áframhaldandi lýðræði en ekki síður það að það verði unnið markvisst að viðreisn þess og grundvelli þá er aðeins einn augljós kostur í stöðunni! 

XO

Landráð

Þú ert ekki Íslendingur!
æpa þeir að mér,
ef ég sára saklaust vitni
sannleikanum ber.

Ekki mega iljar mínar
íslenskt snerta grjót,
ef ég blekktum bróður mínum
bendi á svikin ljót.

Ekki má mitt auga skoða
íslenskt blóm í hlíð,
ef ég harma örbrigð vora,
ómenningu og stríð.

Ekki má mitt eyra hlusta
á íslenskt lindarhjal,
ef ég þrái að þekkja og boða
það, sem koma skal.

„Báran kveður eins og áður
út við fjörusand -
en ég á orðið einhvernveginn
ekkert föðurland.“


Úr ljóðabókinni Eilífðar smáblóm frá 1940 eftir Jóhannes úr Kötlum

XO


mbl.is Fylgið við VG eykst enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fýluhundarnir með gjammréttindi á mbl.is

Ég get endalaust furðað mig á því hvernig í ósköpunum standi á því að blaðamenn mbl.is eru að lepja upp fýluna og fordómana sem gusast upp úr meðlimum Sjálfstæðisflokksins bæði á bloggi og í símtölum. Undanfarna daga og vikur er ég búin að rekast á gagnrýnislausar og orðréttar eftirapanir sem eru hafðar eftir bæði Birgi Ármannssyni og Birni Bjarnasyni á forsíðu þess. 

Ég skil bara ekki fréttagildið í þessum vafasama málflutningi þeirra um leiðtoga þeirra sjórnmálaflokka sem þeir líta á sem pólitíska andstæðinga sína. Ég hefði haldið að það væri margt annað sem kæmi þjóðinni meira við en fyrirtíðarspenna Björns Bjarnasonar og Birgis Ármannssonar. Ég held blaðamönnum mbl.is væri t.d. miklu nær að upplýsa kjósendur um það hverjar efndir Sjálfstæðisflokks á kosningaloforðum sínum fyrir síðustu kosningar hafa orðið en hlýða geðvonskunni í þeim tveimur.
Stefnan í reyndÞað væri líka sjálfsagt að upplýsa kjósendur um það hvort og hvernig Samfylkingin stóð við sín kosningaloforð og svo mætti horfa enn lengra aftur í tímann og skoða hvort Framsóknarflokkurinn hafi staðið við sín fram að þessu og með hvaða afleiðingum. Slík fréttamennska væri eitthvað sem þjónaði kjósendum en ekki vafasamar dylgjur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þau Jóhönnu og Steingrím.

Það ættu nefnilega flestir að vera búnir að átta sig á því að það er lítið að marka orð þeirra sjálfstæðismanna sem hafa setið á þingi undanfarin ár. Alla vega er það niðurstaðan þegar mið er tekið aforðum þeirra og loforðum undangengin misseri! 

Verð svo að bæta því við að mér finnst Jóhanna Sigurðardóttir hafa miklu meira til brunns að bera sem forsætisráðherra en Davíð Oddsson og Geir H. Harrde báðir til saman! Mér þykir þess vegna miklu forvitnilegra að fá úr því skorið hvað kom þeim í það sæti en hvort Björn álítur helsta kost Jóhönnu vera þvermóðsku!


mbl.is Þvermóðska Jóhönnu gerði hana að forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álið er svo sannarlega ekki lengur málið!

Það er sorglegt að enn skuli vera til einstaklingar sem sjá fjölgun álvera sem draumalausn fyrir íslenskt efnahagslíf. Það er sannast sagna eins og þeir sem trúa slíku lifi í einhverjum öðrum heimi en raunheimi þar sem hafa verið færð fram gild rök fyrir því að uppbygging hvers álvers kosti margfalt meira en arðurinn sem það skilar. Það er eins og þeir neiti að horfast í augu við það hve litlum tekjum álver skilar til þjóðarbúsins. Það er eins og þeir vilji ekki átta sig á því hvað er að gerast á heimsmörkuðunum varðandi ál. Ég vísa til færslu minnar frá í gær um þetta sama mál en þar eru færð frekari rök fyrir því að ál er dautt mál!

Horfum til þess sem við eigum og höfum í kringum okkur og reynum að byggja á því. Eflum matvælaframleiðslu, ferðamannaiðnaðinn og iðnað sem byggir á hugviti og sköpunargleði. Gerum þeim hugvitssömu einstaklingum sem hafa þurft að leita sér atvinnutækifæra utan landssteinanna kleift að snúa heim og koma upp fata- og hönnunariðnaði. Það er sárgrætilegt að draumasýn álverssinnanna felst fyrst og fremst í því að gera íslenskan almenning af verksmiðjuþrælum erlendra álrisa!! Þetta er ekki aðeins niðurdrepandi framtíðarsýn heldur fyrst og fremst skaðleg bæði landi og þjóð!!


mbl.is Setning álverslaga mikilvægur áfangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustum á mismunandi sjónarhorn Austfirðinga!

Langar til að vekja athygli á þessum fundi sem verður haldinn á Egilsstöðum n.k. þriðjudag:

Stjórnmálafundur á Austurlandi


Það er margt sem þarfnast lagfæringar

Það er margt sem þarf að skoða í sambandi við kosningalöggjöfina, stjórnarskrána, stjórnsýsluna og ég tala nú ekki um lýðræðið sjálft. Ég trúi ekki öðru en það sé hægt að ná kostnaði vegna kosninga langt niður fyrir 200 milljónir. Væri t.d. ekki hægt að spara pappír með því að láta kjósa í tölvum? Ég er ekki endilega að meina að kjósendur kysu heima hjá sér heldur færu inn í kjörklefa þar sem kjörseðillinn biði þeirra á tölvuskjá.

En þar sem kosningarnar eru svona dýrar þá er mikilvægt að fá eitthvað almennilegt út úr þeim. Það er mikilvægt að kosningarnar skili einhverjum Kosningaskrifstofa Borgarahreyfingarinnarbreytingum fyrir íslenskt samfélag. Það er reyndar lífsnauðsynlegt!

Þess vegna langar mig til að nota tækifærið og vekja athygli á því að Borgarahreyfingin hefur opnað kosningaskrifstofu á Akureyri. Skrifstofan er til húsa að Brekkugötu 3. Það er ekki amaleg staðsetning, þar sem Ráðhústorgið sem var hjarta laugardagsmótmælanna hér fyrir norðan, blasir við út um gluggana.

Við fengum skrifstofuna afhenda á fimmtudaginn en hún var opnuð í dag. Það tók því ekki langan tíma að koma húsnæðinu í gagnið en heiðurinn af því á Sigurbjörg Árnadóttir sem útvegaði húsgögn, þreif, innréttaði og hannaði gluggaútstillingar!

Það voru þó nokkrir sem komu við á skrifstofunni í dag og ræddu við Herbert Sveinbjörnsson sem er í efsta sæti listans hér í norðausturkjördæmi.
Herbert Sveinbjörnsson útskýrir stefnuskránaAðrir af framboðslistanum lögðu líka sitt af mörkum. Bjarki Hilmarsson dreifði kynningarblöðum í göngugötunni en Ragnhildur Arna Hjartardóttir bakaði vöfflur og hellti upp á kaffi.
Vöfflurnar hennar Ragnhildar vöktu mikla lukku Skrifstofan verður opin á morgun og alla daga fram að kosningum frá kl. 12:00 til 18:00. Ég hvet alla sem eiga leið um að kíkja við og ræða málin. Það er líka kjörin leið til að kynnast frambjóðendum. Herbert verður á skrifstofunni á morgun og sennilega eitthvað á mánudaginn. Hjálmar Hjálmarsson, sem er í þriðja sæti framboðslistans, verður svo á þriðjudaginn og sennilega eitthvað á miðvikudaginn líka. Við Ragnhildur, sem erum í fjórða og fimmta sæti, verðum svo flesta dagana á milli kl. fjögur og sex.

Bendi þeim sem hafa ekki kynnt sér frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar í kjördæminu eða stefnuskrána á að hér er að finna lista yfir frambjóðendurna en stefnuskrá hreyfingarinnar er hér.


mbl.is Kosningar kosta 200 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gatslitinn draumur

Ég varð svo miður mín eftir lestur tengdrar fréttar og þá um hörmuleg afdrif stjórnarskrárfrumvarpsins í gær að ég sat hjá þeirri umræðu sem þær vöktu. Ég er í raun enn þá miður mín en ákvað samt að leggja frétt úr Fréttablaðinu frá því gær inn í umræðuna um álver í Helguvík.

Álið er ekki lengur málið

Ég spyr mig hvort álverssinnar fylgist ekki með þeirri þróun sem á sér stað á heimsmörkuðunum eða hvort þeir séu svo uppteknir af því að selja landið í eigingróðaskyni að þeir láti sér fátt um finnast?!

Þeir sem telja sér trú um að þeir séu að vinna einhverju öðru en eigin pyngju gagn með því að eltast við úreltan draum ættu að kynna sér ástandið á Austfjörðum og bera það saman við loforðin og skýjaborgirnar sem Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði voru reist á! Svo hvet ég alla sem ganga enn með álglýjuna í augunum að sjá heimildamyndina Draumalandið við fyrsta tækifæri.

Það ætti reyndar öllum að vera orðið ljóst að hugmyndir um fleiri álver verður landi og þjóð ekki til framdráttar. Í versta falli eru þær okkur líka stórhættulegar! Þess vegna er áríðandi að þeir sem styðji þessar stórvarasömu álverseinstefnuhugsjón hverfi út af þingi við næstu kosningar!


mbl.is Lög um Helguvíkurálver samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringdi einhver í Birgi eða hringdi hann bara sjálfur?

Þessi frétt er með ólíkindum! Ekki hósti né stuna um það sem kom fram í beinni útsendingu RUV á borgarafund í aðdraganda kosninganna þar sem formenn allra framboðanna hér í norðausturkjördæmi sátu fyrir svörum en svo kemur þessi frétt! Hún vekur ekki síst athygli vegna þess að eini tilgangur hennar virðist vera sá að gefa einum þingmanni Sjálfstæðisflokkins tækifæri til að ná sér niður á Steingrími J. Sigfússyni fyrir meinta gagnrýni hans á tvöföld laun Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Fréttin gefur ástæðu til að spyrja sig hvort forsíða mbl.is sé orðin að bloggsíðu fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokkinn og aðra sem gegna stefnu hans. Ég var á þessum fundi sjálf og rekur bara alls ekki minni til þess að Steingrímur hafi vikið einu orði að launamálum Kirstjáns Þórs í gagnrýni sinni á hann. Sú gagnrýni sem Birgir Ármannsson heldur fram að hafi komið frá Steingrími kom frá fyrirspyrjenda utan úr sal!

Þeir sem voru staddir á fundinum og þeir sem horfðu á útsendinguna af honum rekur sennilega minni til þess. Spurningin vakti mikil fagnaðarlæti viðstaddra þannig að það má vera að Steingrímur hafi nýtt tækifærið og hnýtt einhverju í Kristján hvað þetta varðar þó ég muni það ekki. Ég set hér inn krækju á útsendingu RUV af fundinum en einhverra hluta vegna vantar aftan á hana en þar kom m.a. þessi spurning eins Birgir Ármannssonfundargesta fram.

Tilefni þessara skrifa er ekki það að verja Steingrím J. heldur hitt að vekja athygli á fáránleika tengdrar fréttar. Á fundinum var nefnilega vakin athygli á mörgum mikilvægum málefnum sem varðar þetta kjördæmi en starfsmönnum mbl.is þykir engin ástæða til að vekja athygli á því heldur hringja þeir heim í Birgi til að spyrja hann hvernig honum hafi fundist sinn maður koma út í útsendingunni...

... eða var það öfugt?!! Hringi Birgir Ármannsson inn á mbl.is eftir að hann horfði á útsendinguna svo arfa- brjálaður að blaðamaðurinn á fréttavaktinni sá þann kost vænstan í stöðunni að birta hefndarfullt vælið upp úr honum eða lítur eftirfarandi út fyrir að vera eitthvað annað:

,,Steingrímur J. Sigfússon var að agnúast út í Kristján Þór Júlíusson í kjördæmaþætti ríkissjónvarpsins fyrr í kvöld vegna launagreiðslna sem sá síðarnefndi hefði þegið vegna starfa sinna fyrir bæjarstjórn Akureyrar samhliða þingmennsku," segir Birgir. ,,Deila má um hversu málefnalegt eða smekklegt það er af Steingrími að reyna að koma höggi á pólitískan andstæðing með þessum hætti, en ef þetta á að verða línan í kosningabaráttunni hlýtur að vera eðlilegt að eitt skuli yfir alla ganga – meðal annars margnefndan Steingrím.

Ég er alveg gáttuð á því að þetta skuli vera það eina sem blaðamönnum mbl.is þykir skipta máli að koma á framfæri varðandi þennan fund. Ég skil reyndar engan veginn í því að þetta píp rati yfir höfuð í fjölmiðla.

Mér finnst það hafa miklu meira fréttagildi að þrátt fyrir að atvinnuleysi mælist næsthæst hér á Norðurlandi höfðu fulltrúar stærstu þingflokkanna enga hugmynd um það hvernig ætti að leysa úr þessum vanda. Einu svör þeirra voru klisjur eins og styrkja atvinnulífið, tryggja betra rekstrarumhverfi eða skapa skilyrði fyrir blómlegt atvinnulíf!

Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tala greinilega máli þeirra sem lifa enn í þeim gatslitna draumi að álver á Húsavík leysi allan vanda. Kristján Möller hamraði á því að ESB-aðild og upptaka evru myndi leysa okkur úr viðjum kreppunnar eftir tvö ár. Steingrímur J. treysti hins vegar helst á atvinnuuppbyggingu tengda fiski og landbúnaði.

Ásta Hafberg, sem er efst á lista Frjálslynda flokksins í kjördæminu, talaði um að leysa fyrirtækin úr skuldaviðjunum og endurreisa stofnanir sem styddu við bakið á sprotafyrirtækjum. Herbert Sveinbjörnsson, efsti maður á lista Borgarahreyfingarinnar hér, tók nokkuð í sama streng og bætti t.d. við þeirri hugmynd að það mætti skapa þó nokkur störf með því að fullvinna álið hérlendis í stað þess að flytja það óunnið úr landi.

Ég ætla að leyfa mér að bæta við þessa umræðu þremur atriðum um það hvernig megi verja og byggja upp atvinnulífið í kjördæminu:

Í fyrsta lagi þarf að afnema flutningskostnaðinn sem er að sliga atvinnufyrirtækin á landsbyggðinni (Sjá t.d. hér). Vek líka athygli á eftirfarandi sem kom fram á síðasta borgarafundi sem var haldinn á vegum borgarafundarnefndarinnar hér á Akureyri þ. 2. apríl sl:

Fulltrúar núverandi þingflokka vöktu athygli á því af fyrra bragði að flutningsgjöldin væru að drepa niður fyrirtækin á landsbyggðinni. Kristján Möller sagðist vera búinn að margræða þetta efni í mörg ár en það hefði ekkert verið tekið á þessu. Kristján Þór benti á að fyrirtækin í Reykjavík þyrftu ekki að greiða neitt gjald fyrir að flytja vörur frá Reykjavík út á landsbyggðina en fyrirtækin á landsbyggðinni þyrftu að greiða sérstakt flutningsgjald til að flytja vörur sínar til höfuðborgarsvæðisins. (Sjá nánar hér)

Er ekki með ólíkindum að fulltrúar þingflokkana í kjördæminu skuli tala um að styrkja atvinnulífið, tryggja betra rekstrarumhverfi eða skapa skilyrði fyrir blómlegt atvinnulíf á meðan þetta óréttlæti viðgengst! Ef það væri einhver alvara á bak við þessar klisjur þá ættu þeir að sýna það í verki með því að semja frumvarp sem ver hagsmuni þeirra sem þeir treysta á að tryggi þeim áframhaldandi þingsetu í stað þess að trygja þeim sem búa í nágrenni Alþingis betri rekstrarskilyrði með slíku hrópandi ójafnrétti!

Í öðru lagi er tilvalið að nota grunninn sem búið er að byggja á Bakka undir stóra grænmetisverksmiðju. Ef Húsvíkingar eiga orku til að knýja heila álverksmiðju þá ætti þeim að vera vandalaust að finna orku til að hita upp mörg gróðurhús. Ég get ekki eignað mér heiðurinn að þessari bráðsnjöllu hugmynd því ég heyrði hana fyrst í ræðu sem Guðbergur Egill Eyjólfsson hélt á laugardagsmótmælum hér á Akureyri 24. janúar sl. Ég vek athygli á því að ég hengdi ræðu Guðbergs við þessa færslu en þar segir hann m.a. þetta:

Við framleiðum um 40% af því grænmeti sem við neytum. Við þá framleiðslu starfa um 900 manns fyrir utan þau fjölmörgu afleiddu störf sem greinin skapar. Ef við ákveddum að tvöfalda þá framleiðslu gætum við búið til ámóta mörg störf til viðbótar. Þarna er til dæmis tækifæri fyrir Húsvíkinga að reisa sér vistvæna stóriðju. (Það má lesa um mótmælafundinn þar sem þessi ræða var haldinn hér)

Í þriðja lagi vil ég minna á hvað það er mikilvægt fyrir atvinnulífið og annan uppgang í kjördæminu að Háskólanum á Akureyri sé tryggður öruggur rekstrargrundvöllur. Eins og kom fram á borgarfundi sem var haldinn hér á Akureyri 21. janúar sl. á vegum borgarafundarnefndarinnar þá hefur Háskólinn búið við afar erfið rekstrarskilyrði hingað til og stendur síst af öllu til að hlífa honum í niðurskurði nútímans og framtíðarinnar. (Það má lesa það sem kom fram á umræddum borgarafundi hér)

Ég má til að bæta því við þetta að núverandi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, sem kemur fram í því að loka deildum, leggja niður stöður heilbrigðisstarfsfólks og skerða aðra heilbrigðisþjónustu við dreifðari byggðir, er síst til þess fallinn að sporna við núverandi atvinnuleysi.


mbl.is Segir Steingrím búa í glerhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Það er ekki hægt að sleppa þessu tækifæri!

NorðaustukjördæmiÞað sem vekur einkum athygli mína í könnuninni, sem sagt er frá í tengdri frétt, er fylgi DBS-flokkanna. Mér finnst líka athyglisvert að Borgarahreyfingin skuli ekki koma neinum manni að samkvæmt könnuninni. Ég held reyndar að það séu þó nokkrir í þessu stóra kjördæmi sem eru ekki enn búnir að átta sig á þessu nýja stjórnmálaafli.

Sumir hafa m.a.s. misst af því að Borgarahreyfingin sé yfir höfuð til. Þess vegna ætla ég að nýta tækifærið og vekja athygli á henni. Fyrst bendi ég á heimasíðu Borgarahreyfingarinnar sem er að finna undir þessari krækju. Þar er líka að finna kynningu á stefnuskrá hreyfingarinnar. En hún er í aðalatriðum svohljóðandi:

  1. Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.
  2. Landsmenn semji sjálfir sína eigin stjórnarskrá.
  3. Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.
  4. Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.
  5. Lýðræðisumbætur STRAX. (sjá nánari útfærslu stefnuskrárinnar hér)
Þar er líka að finna lista yfir frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar í öllum kjördæmum landsins. Á þessum listum eru nöfn þeirra sem hafa sent inn kynningar á sjálfum sér appelínugul. Undanfarna daga hef ég birt kynningar tveggja efstu manna í norðausturkjördæmi. Það eru Herbert Sveinbjörnsson og Björk Sigurgeirsdóttir. Núna langar mig til að kynna þriðja mann á lista Borgarahreyfingarinnar en ég bendi á að listann yfir alla frambjóðendur hreyfingarinnar í þessu kjördæmi og kynningar þeirra er að finna hér.

Hjálmar Hjálmarsson

Hjálmar HjálmarssonFæðingardagur og ár: 28. ágúst 1963

Heimilisfang: Reynigrund 83 Kópavogi

Hjúskaparstaða: Giftur

Staða og laun fyrir núverandi starf: Sjálfstætt starfandi leikari, leikstjóri og höfundur. Laun breytileg frá 100 þús-800 þús kr. á mánuði

Stjórnarseta í fyrirtækjum: Nei

Nefndarstörf: Engin

Hlutabréfaeign frambjóðenda, maka og barna: Verðbréfaeign er neikvæð um 1200 kr

Fasteignir í eigu frambjóðenda, maka og barna: 130 m2 raðhúsaíbúð í Kópavogi. Verðgildi óljóst. Skuldir um 20 mill

Hagsmunatengsl við atvinnulíf eða félög: Nei

Hlunnindi, ef einhver eru: Engin

  
Minni að lokum á Borgarafund hér á Akureyri sem verður haldinn í sal Menntaskólans hér á Akureyri (Hólum) með efstu mönnum allra framboða í kjördæminu. Sjónvarpað verður beint frá fundinum og hefst útsendingin kl. 19:35 í kvöld. (Sjá dagskrá RUV. Get svo ekki látið hjá líða að segja frá því að enginn norðlensku netmiðlanna vekur athygli á þessum viðburði!)
mbl.is VG stærst í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú ætla ég að bregða út af vananum og hrósa!

Trúin á að ljósið muni sigraAf því að ég á það til að setja út á blaðamennskuna á mbl.is og ekki síður út á það sem fréttirnar fjalla um þá get ég ekki staðist mátið að segja eitthvað jákvætt líka. Mig langar sérstaklega til að hrósa þeim samtökum sem stóðu að þessum fundi fyrir þeirra framtak.

Það er svo sannarlega þörf á því að spyrja þá, sem sátu í stjórn og þá sem sækjast eftir því að taka við stjórnartaumunum, um þann þátt velferðarkerfisins sem snýr að heilbrigðismálum! Ég var af eðlilegum ástæðum ekki á þessum fundi enda búsett á Akueyri en mér sýnist þó á fréttinni af þessum fundi að sá sem skrifar hana hafi flutt vandaða samantekt af fundinum. Ég fanga því ekki síður og því líka að um hann hafi verið fjallað.

Mig langar svo til að taka það fram að ég tek heilshugar undir orð Jóhönnu þar sem hún segir „ámælisvert að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefðu ekki nýtt góðærið til þess að byggja upp og huga að velferðarkerfinu heldur hafi það verið veikt.“ Þessu kynntust margir á þeim tíma sem heilaþvottasöngurinn „góðæri“ glumdi í eyrum.

Þess vegna er það grafalvarlegt mál að nú skuli enn vera skorið niður í þjónustu og gæðum heilbrigðisþjónustunnar og stendur til að skera niður meira!! Þetta gerist á sama tíma og sumir vilja að byggingu hátæknistúkrahúss sé hraðað!!


mbl.is Vilja verja velferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað bíður...

Það er í rauninni svo margt sem engin svör hafa fengist við enn. Þá er ég að tala um svör við eðlilegum spurningum sem tengjast efnahagshruni landsins á síðasta ári. Ég spyr sjálfa mig svo margra spurninga en það ríkir dauðaþögn um það sem mig þyrstir mest að vita. Þeir sem ættu að vera að upplýsa mig eru a.m.k. dauðahljóðir.

Þetta eru þó allt upplýsingar sem kjósendur eiga heimtingu á að fá að vita svo þeir geti gert upp hug sinn og áttað sig á því hverjum þeir geti treyst til að gegna umboði atkvæðis síns. Ein mikilvægasta spurningin í því sambandi er staða ríkisstjóðs en það er ljóst að hún er slík að boðaður hefur verið gífurlegur niðurskurður og samdráttur á flestum sviðum. 

Sumir spáðu því stax í upphafi að miðað við áætlað umfang hrunsins væri ljóst að ríkið þyrfti að draga verulega úr allri þjónustu, segja upp starfsfólki og jafnvel lækka laun starfsmanna sinna. Einhverjir fussuðu yfir slíkum hrakspám og töluðu um niðurdrepandi svartsýni en nú blasir launalækkun opinberra starfsmanna við. Hugmyndin hefur a.m.k. verið viðruð eins og kemur m.a. fram í tengdri frétt.

Viðbrögð miðstjórnar Bandalags háskólamanna eru ósköp eðlileg þar sem fulltrúar hennar segja: „að yfirlýsingar ráðamanna um lækkun launa opinberra starfsmanna séu marklausar meðan upplýsingar um stöðu ríkissjóðs fáist ekki.“ Samkvæmt kjarasamningum getur launagreiðandi ekki lækkað laun einhliða án þess að koma með haldbær rök fyrir slíku. Í þessu máli hlýtur því að teljast eðlilegt að krefjast þess að ríkið leggi fram tölur um stöðu ríkisstjóðs sem rökstyðji kjaraskerðingu þeirra sem eru á launum hjá ríkinu.

Hin spurningin varðar samninginn sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það muna væntanlega allir eftir fljótaafgreiðslunni á því máli en það má rifja upp umræðurnar í kringum hana hér. Þingskjalið frá 5. desember er undir þessari krækju.

Báðar spuningarnar eru í rauninni grundvallarspurningar varðandi stöðu þjóðarinnar og framtíð. Það er þess vegna mjög brýnt að almenningur fái þeim svarað ekki síst í ljósi þess að framundan eru mjög mikilvægar kosningar. Er það kannski þess vegna sem slík dauðans kyrrð ríkir um þessi efni?

Getur verið að samningurinn sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrisstjóðinn leiði okkur til þeirrar framtíðar sem bloggarinn Jón Þór Ólafsson setur fram i meðfylgjandi færslu sinni sem hann birti í nóvember á síðasta ári? Það er a.m.k. full ástæða til að spyrja sig þeirrar spurningar!!

Mig langar til vekja athygli á því að það hefur ekki verið gefið upp hverjir eiga jöklabréfin þannig að það er ekkert víst að það séu erlendir fjárfestar eins og flestir gerðu ráð fyrir sl. haust. Það er nefnilega allt eins víst að eigendur þeirra geti verið Íslendingar! 

IMF mun gera Ísland auðlindalaust í 8 skrefum ef þú gerir ekkert.

1. IMF krefst þess að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti í 18% til að styrkja krónuna, sem mun í raun sliga fjölskyldur og fyrirtæki landsins, sem endar í miklum gjaldþrotum og efnahagserfiðleikum.

2. IMF krefst þess að íslenska ríkið gangi í ábyrgð fyrir Icesave-reikningum Landsbankans sem eykur skuldir Íslands.

3. IMF lánar íslenska ríkinu álíka upphæð (250 til 300 milljarðar króna) og erlendir bankar eiga í svokölluðum jöklabréfum sem þeir gáfu út í íslenskum krónum í þeim tilgangi að styrkja krónuna. 

4. Þegar krónan fer á flot verður íslenska ríkið að nota IMF lánið til að kaupa og styrkja hana. Sem þýðir að þegar jöklabréfin falla á gjalddaga á næstu vikum og mánuðum og erlendu fjármagnseigendurnir fara að selja krónurnar sínar fá þeir meira fyrir þær.

5. Á nokkrum mánuðum selja eigendurnir jöklabréfa krónur fyrir um 200 til 300 milljarða króna meðan íslenska ríkið kaupir fyrir svipaða upphæð. En á þeim tíma eru stýrivextirnir búnir að rústa efnahag landsins og flóttinn úr krónunni verður svo mikill að ríkið verður á einhverjum tímapunkti að hætta að kaupa krónu og leyfa henni að falla.

6. Þegar hér er komið eru sömu stjórnmálamenn, og sögðu að bankakerfi landsins væri traust rétt fyrir hrunið búnir, að fara að ráðum IMF og skuldsetja Ísland, sólunda láninu og brenna efnahaginn með ofurstýrivöxtum til að halda uppi krónunni sem bjargaði erlendum fjármagnseigendum úr krónunni áður en hún hrynur fyrir rest.

7. Eftir algert hrun krónunnar koma erlendir fjármagnseigendur til að kaupa íslensk fyrirtæki á brunaútsölu og svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Ónýtur efnahagur Íslands stendur ekki undir afborgununum til IMF svo þeir krefjast einkavæðingar og sölu á auðlindum Íslands!

8. Ríkisstjórn Íslands byrjar að selja kvótann sem við eignuðumst með yfirtöku á bönkunum og eftir það byrjar einkavæðingin: Orkuiðnaðurinn m.a. Landsvirkjun, land undir jarðvarma- og fallvatnsvirkjanir og réttindi yfir hugsanlegri olíu sem finnst á Drekasvæðinu ásamt Gvendarbrunnunum.

Þetta er ekki endilega nákvæmleg framvindan en þeir sem þekkja sögu IMF vita að sjóðurinn hugsar um hagsmuni erlendra fjármagnseigenda og skapar oft kringumstæður í ríkjum sem hann lánar til þess að auðvelda erlendum fjármagnseigendum að komast yfir auðlindir ríkisins. (Tekið af bloggi Jóns Þórs Ólafssonar)


mbl.is Ósátt við yfirlýsingar um kjaraskerðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband