Hringdi einhver í Birgi eða hringdi hann bara sjálfur?

Þessi frétt er með ólíkindum! Ekki hósti né stuna um það sem kom fram í beinni útsendingu RUV á borgarafund í aðdraganda kosninganna þar sem formenn allra framboðanna hér í norðausturkjördæmi sátu fyrir svörum en svo kemur þessi frétt! Hún vekur ekki síst athygli vegna þess að eini tilgangur hennar virðist vera sá að gefa einum þingmanni Sjálfstæðisflokkins tækifæri til að ná sér niður á Steingrími J. Sigfússyni fyrir meinta gagnrýni hans á tvöföld laun Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Fréttin gefur ástæðu til að spyrja sig hvort forsíða mbl.is sé orðin að bloggsíðu fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokkinn og aðra sem gegna stefnu hans. Ég var á þessum fundi sjálf og rekur bara alls ekki minni til þess að Steingrímur hafi vikið einu orði að launamálum Kirstjáns Þórs í gagnrýni sinni á hann. Sú gagnrýni sem Birgir Ármannsson heldur fram að hafi komið frá Steingrími kom frá fyrirspyrjenda utan úr sal!

Þeir sem voru staddir á fundinum og þeir sem horfðu á útsendinguna af honum rekur sennilega minni til þess. Spurningin vakti mikil fagnaðarlæti viðstaddra þannig að það má vera að Steingrímur hafi nýtt tækifærið og hnýtt einhverju í Kristján hvað þetta varðar þó ég muni það ekki. Ég set hér inn krækju á útsendingu RUV af fundinum en einhverra hluta vegna vantar aftan á hana en þar kom m.a. þessi spurning eins Birgir Ármannssonfundargesta fram.

Tilefni þessara skrifa er ekki það að verja Steingrím J. heldur hitt að vekja athygli á fáránleika tengdrar fréttar. Á fundinum var nefnilega vakin athygli á mörgum mikilvægum málefnum sem varðar þetta kjördæmi en starfsmönnum mbl.is þykir engin ástæða til að vekja athygli á því heldur hringja þeir heim í Birgi til að spyrja hann hvernig honum hafi fundist sinn maður koma út í útsendingunni...

... eða var það öfugt?!! Hringi Birgir Ármannsson inn á mbl.is eftir að hann horfði á útsendinguna svo arfa- brjálaður að blaðamaðurinn á fréttavaktinni sá þann kost vænstan í stöðunni að birta hefndarfullt vælið upp úr honum eða lítur eftirfarandi út fyrir að vera eitthvað annað:

,,Steingrímur J. Sigfússon var að agnúast út í Kristján Þór Júlíusson í kjördæmaþætti ríkissjónvarpsins fyrr í kvöld vegna launagreiðslna sem sá síðarnefndi hefði þegið vegna starfa sinna fyrir bæjarstjórn Akureyrar samhliða þingmennsku," segir Birgir. ,,Deila má um hversu málefnalegt eða smekklegt það er af Steingrími að reyna að koma höggi á pólitískan andstæðing með þessum hætti, en ef þetta á að verða línan í kosningabaráttunni hlýtur að vera eðlilegt að eitt skuli yfir alla ganga – meðal annars margnefndan Steingrím.

Ég er alveg gáttuð á því að þetta skuli vera það eina sem blaðamönnum mbl.is þykir skipta máli að koma á framfæri varðandi þennan fund. Ég skil reyndar engan veginn í því að þetta píp rati yfir höfuð í fjölmiðla.

Mér finnst það hafa miklu meira fréttagildi að þrátt fyrir að atvinnuleysi mælist næsthæst hér á Norðurlandi höfðu fulltrúar stærstu þingflokkanna enga hugmynd um það hvernig ætti að leysa úr þessum vanda. Einu svör þeirra voru klisjur eins og styrkja atvinnulífið, tryggja betra rekstrarumhverfi eða skapa skilyrði fyrir blómlegt atvinnulíf!

Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tala greinilega máli þeirra sem lifa enn í þeim gatslitna draumi að álver á Húsavík leysi allan vanda. Kristján Möller hamraði á því að ESB-aðild og upptaka evru myndi leysa okkur úr viðjum kreppunnar eftir tvö ár. Steingrímur J. treysti hins vegar helst á atvinnuuppbyggingu tengda fiski og landbúnaði.

Ásta Hafberg, sem er efst á lista Frjálslynda flokksins í kjördæminu, talaði um að leysa fyrirtækin úr skuldaviðjunum og endurreisa stofnanir sem styddu við bakið á sprotafyrirtækjum. Herbert Sveinbjörnsson, efsti maður á lista Borgarahreyfingarinnar hér, tók nokkuð í sama streng og bætti t.d. við þeirri hugmynd að það mætti skapa þó nokkur störf með því að fullvinna álið hérlendis í stað þess að flytja það óunnið úr landi.

Ég ætla að leyfa mér að bæta við þessa umræðu þremur atriðum um það hvernig megi verja og byggja upp atvinnulífið í kjördæminu:

Í fyrsta lagi þarf að afnema flutningskostnaðinn sem er að sliga atvinnufyrirtækin á landsbyggðinni (Sjá t.d. hér). Vek líka athygli á eftirfarandi sem kom fram á síðasta borgarafundi sem var haldinn á vegum borgarafundarnefndarinnar hér á Akureyri þ. 2. apríl sl:

Fulltrúar núverandi þingflokka vöktu athygli á því af fyrra bragði að flutningsgjöldin væru að drepa niður fyrirtækin á landsbyggðinni. Kristján Möller sagðist vera búinn að margræða þetta efni í mörg ár en það hefði ekkert verið tekið á þessu. Kristján Þór benti á að fyrirtækin í Reykjavík þyrftu ekki að greiða neitt gjald fyrir að flytja vörur frá Reykjavík út á landsbyggðina en fyrirtækin á landsbyggðinni þyrftu að greiða sérstakt flutningsgjald til að flytja vörur sínar til höfuðborgarsvæðisins. (Sjá nánar hér)

Er ekki með ólíkindum að fulltrúar þingflokkana í kjördæminu skuli tala um að styrkja atvinnulífið, tryggja betra rekstrarumhverfi eða skapa skilyrði fyrir blómlegt atvinnulíf á meðan þetta óréttlæti viðgengst! Ef það væri einhver alvara á bak við þessar klisjur þá ættu þeir að sýna það í verki með því að semja frumvarp sem ver hagsmuni þeirra sem þeir treysta á að tryggi þeim áframhaldandi þingsetu í stað þess að trygja þeim sem búa í nágrenni Alþingis betri rekstrarskilyrði með slíku hrópandi ójafnrétti!

Í öðru lagi er tilvalið að nota grunninn sem búið er að byggja á Bakka undir stóra grænmetisverksmiðju. Ef Húsvíkingar eiga orku til að knýja heila álverksmiðju þá ætti þeim að vera vandalaust að finna orku til að hita upp mörg gróðurhús. Ég get ekki eignað mér heiðurinn að þessari bráðsnjöllu hugmynd því ég heyrði hana fyrst í ræðu sem Guðbergur Egill Eyjólfsson hélt á laugardagsmótmælum hér á Akureyri 24. janúar sl. Ég vek athygli á því að ég hengdi ræðu Guðbergs við þessa færslu en þar segir hann m.a. þetta:

Við framleiðum um 40% af því grænmeti sem við neytum. Við þá framleiðslu starfa um 900 manns fyrir utan þau fjölmörgu afleiddu störf sem greinin skapar. Ef við ákveddum að tvöfalda þá framleiðslu gætum við búið til ámóta mörg störf til viðbótar. Þarna er til dæmis tækifæri fyrir Húsvíkinga að reisa sér vistvæna stóriðju. (Það má lesa um mótmælafundinn þar sem þessi ræða var haldinn hér)

Í þriðja lagi vil ég minna á hvað það er mikilvægt fyrir atvinnulífið og annan uppgang í kjördæminu að Háskólanum á Akureyri sé tryggður öruggur rekstrargrundvöllur. Eins og kom fram á borgarfundi sem var haldinn hér á Akureyri 21. janúar sl. á vegum borgarafundarnefndarinnar þá hefur Háskólinn búið við afar erfið rekstrarskilyrði hingað til og stendur síst af öllu til að hlífa honum í niðurskurði nútímans og framtíðarinnar. (Það má lesa það sem kom fram á umræddum borgarafundi hér)

Ég má til að bæta því við þetta að núverandi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, sem kemur fram í því að loka deildum, leggja niður stöður heilbrigðisstarfsfólks og skerða aðra heilbrigðisþjónustu við dreifðari byggðir, er síst til þess fallinn að sporna við núverandi atvinnuleysi.


mbl.is Segir Steingrím búa í glerhúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Jóhannesson

Fordæmalaus ekki-fréttamennska hjá auðvaldspésanum mbl.is (enn og aftur).

Mikið vildi ég að þetta hefði nú verið selt til Ástralans en ekki auðvaldsins úr FLokknum hér fyrir skemmstu.

Þór Jóhannesson, 17.4.2009 kl. 01:54

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir mig, frábær færsla.  Ég horfði líka á framboðsfundinn og skil ég ekki upphlaup Birgis Ármannsonar en ég þoli manninn ekki, það er ekkert leyndarmál

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.4.2009 kl. 01:54

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega fyrir þennan pistil. Mjög fróðlegt að heyra um hvernig þetta var þarna. Vildi að ég hefði verið á fundinum.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.4.2009 kl. 01:57

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur fyrir innlit og innlegg öll og Þór þakka þér fyrir þína færslu um sama efni!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.4.2009 kl. 03:10

5 identicon

Glæsileg grein og uppfull af góðum lausnum!

Anna Sigga (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 03:17

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég ætti kannski bara að koma þeim áfram! Takk fyrir innlitið og hólið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.4.2009 kl. 04:32

7 identicon

En Birgir er bara froðusnakkur dauðans. Ekki nokkur ástæða til að taka hann alvarlega. Alltaf þegar hann opnar munninn kemur bara froða og rugl. Ég veit ekki hvort hann sé idjót en allt sem hann segir er alveg með eindæmum fíflalegt að mínu viti.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband