Búsáhalda- og dráttarvélamótmæli á Akureyri!

Mótmælin á Akureyri voru svo sannarlega ekki þögul í dag. Ég er reyndar sannfærð um að það voru gott fleiri en 300 sem fylltu mótmælakórinn en ég er búin að fá nóg af þessari talnaspeki fjölmiðlanna og ætla því ekki að tala meira um þátttökufjölda í þessari færslu.
Mótmæli á Akureyri 24.01.09Myndirnar sem ég tók í dag mistókust af einhverjum ástæðum allar þannig að ég fékk leyfi hjá Huga Hlynssyni til að nota myndir frá honum í staðinn. Myndirnar hans Skapta Hallgrímssonar, sem fylgja fréttinni á mbl.is um mótmælin hérna fyrir norðan, eru líka mjög upplýsandi.

Það má geta þess að Arinbjörn Kúld dreifði appelsínum borðum til stuðnings yfirlýsingu mótmælanda í Reykjavík um friðsöm mótmæli. Mótmælin hér fyrir norðan hafa reyndar aldrei fengið á sig neinn stimpil um ófrið. Enda hefur lögreglan á Akureyri verið einstaklega liðleg og hjálpleg í sambandi við mótmælin hér eins og ég hef vikið að áður.

Það voru ekki bara dráttavélarnar sem ljáðu mótmælum dagsins rödd sína heldur búsáhöldin líka. Gangan fór frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg á hægagangi dráttarvélanna undir taktfastri tónlist búsáhaldanna. Það var líka greinilegt að gangan vakti miklu meiri athygli nú en undanfarna laugardaga. Kannski þorir einhver þeirra sem stóðu álengdar og horfðu bara á að taka þátt næst.

Á meðan á mótmælafundinum stóð gátu mótmælendur gætt sér á grilluðum pulsum í boði dráttarvélaeigendanna sem eru bændur víðs vegar af Eyjafjarðarsvæðinu. Tveir framsögumenn voru á fundinum í dag og kem ég nánar að ræðum þeirra hér á eftir. Í lok ræðuhaldanna flutti Þórarinn Hjartarson frumort kreppuljóð.
Wolfgang Frosti SahrAð framsögunum loknum var ljóst að það voru ekki allir tilbúnir til að storma beinustu leið heim til sín. Það var því þó nokkur fjöldi sem dvaldist á Torginu og ræddu málin sín á milli, slógu taktinn á búsáhöld og Wolfgang Frosti Sahr fullkomnaði svo stemminguna í kjölfar mótmælafundarins með harmonikuleik sínum.

Enn aftur að framsögumönnum dagsins. Ég hef lýst því yfir áður hvað ég er ánægð með framsögumennina okkar sem blása okkur ekki aðeins eldmóði í brjóst heldur upplýsa okkur gjarnan um mikilvæg atriði. Ég var sérstaklega ánægð með framsögumennina í dag hvað þetta varðar. Bendi á að ræður þeirra beggja eru tengdar þessari færslu með góðfúslegu leyfi frá þeim.

Bændur settu svo sannarlega sinn svip á laugardagsmótmælin að þessu sinni með því að leiða gönguna á dráttarvélunum. Í lok göngunnar lögðu þeir svo dráttarvélunum hringinn í kringum Ráðhústorgið. Einn úr þeirra röðum var meðal frummælendanna. Mér finnst það mikið fagnaðarefni að rödd bændastéttarinnar sé komin inn í þessi mótmæli. Það er svo sannarlega tímabært að þeirra rödd fái að heyrast.
Guðbergur Egill EyjólfssonGuðbergur Egill Eyjólfsson, sem er bóndi og nemandi við Háskólann á Akureyri, upplýsti áheyrendur um þann veruleika sem bændur búa við í dag. Við vissum að bændur hafa átt undir högg að sækja á liðnum árum og margir hafa óttast að íslensk stjórnvöld stefni hreinlega að því að þurrka bændastéttina út. Það er aldrei að vita nema að sú fyrirætlun þeirra takist í skugga kreppunnar verði ekkert að gert. 

Guðbergur benti á að margir bændur væru orðnir svo aðþrengdir að þeir myndu ekki hafa efni á að kaupa áburð á túnin sín næsta vor. Ríkisstjórnin lætur sér fátt um neyð bændastéttarinnar finnast og sýna það svo sannarlega í verki því enn einu sinni hefur hið umdeilda matvælafrumvarp verið lagt fram á Alþingi. Í því samhengi sagði Guðbergur:

Þess má einnig geta hér að bæjarstjórn Akureyrar, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, bæjarstjórn þessa mikla matvinnslubæjar skilaði ekki inn umsögn um frumvarpið og hefur ekki mótmælt því á nokkurn hátt. Þrátt fyrir að lögleiðing þess gæti haft afdrifarík áhrif á atvinnulífið á Akureyri.

 

Þegar bændur standa svo höllum fæti sem og samfélagið allt þá er matvælafrumvarpið eina framlag ríkisstjórnarinnar til málanna. Þeir hafa jú mælst til þess við bankanna að veita frest á afborgunum af lánum bænda en það er bara frestur, engin lausn. Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar er því algert. Bágur efnahagur bænda er ekkert nýtt fyrirbæri. Framkoma ríkisvaldsins hefur verið með þeim hætti í garð sauðfjárbænda að nýliðun er nánast engin í greininni og meðalaldur sauðfjárbænda er kominn í 58 ár. Nútíma Íslendingar sætta sig ekki við þau kjör sem sauðfjárbændum er boðið upp á. Mér er spurn er það virkilega ætlun ríkisvaldsins að ganga af þessari atvinnugrein dauðri?


Í framhaldinu lagði Guðbergur áherslu á firringuna sem kemur ekki síst fram í því að í vaxandi atvinnuleysi skuli ríkisstjórnin vinna að því að stefna atvinnuöryggi allra, sem koma að landbúnaðarframleiðslu í landinu, í stórkostlega hættu með fyrrgreindu matmælafrumvarpi. Hann minnti á að í dag framleiða Íslendingar ekki nema u.þ.b. helming þeirra matvæla sem við neytum. Miðað við aðstæður væri því miklu nær að auka hlutfall þessarar framleiðslu og skapa fleirum atvinnu í leiðinni en auka innflutning á búvöruafurðum. Guðbergur tók grænmetisframleiðsluna sem dæmi:

Við framleiðum um 40% af því grænmeti sem við neytum. Við þá framleiðslu starfa um 900 manns fyrir utan þau fjölmörgu afleiddu störf sem greinin skapar. Ef við ákveddum að tvöfalda þá framleiðslu gætum við búið til ámóta mörg störf til viðbótar. Þarna er til dæmis tækifæri fyrir Húsvíkinga að reisa sér vistvæna stóriðju. 

Ég ætti ekki að þurfa að taka það fram en málflutningur Guðbergs fékk að sjálfsögðu afar góðar undirtektir!Embla Eir OddsdóttirNæst á mælendaskrá var Embla Eir Oddsdóttir sem er líka nemandi við Háskólann á Akureyri. Ræða hennar var ekki síður hugvekjandi en Guðbergs. Hún minnti á að þó mótmælendur mættu vissulega fagna ákveðnum áfangasigrum þá væri baráttan langt í frá unnin. Meðal þeirra mikilvægu krafna sem hún minnti okkur á að engin viðbrögð hefðu fengist við eru eftirfarandi:

Stjórnin sem vildi ekki fara, er ekki farin.... krafan hefur verið sú að ríkistjórnin víki.....hefur sú krafa eitthvað breyst í ljósi atburða síðustu daga?.... Enn stendur eftir að draga þá til ábyrgðar sem það eiga skilið og greiða úr þeim litlu og stóru hnútum sem eru á þessu pólitíska peningaflækta neti sem hefur verið riðið hér. Enn á eftir að finna smugur til að leita réttlætis fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem hafa jafnvel misst allt sitt. [...] Enn þarf að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins og þar þarf landsbyggðin ekki síst að þjappa sér saman ef hún vill ekki standa eftir skugginn af sjálfri sér eftir örfá ár.

Mótmæli virkaAð lokum langar mig til að segja frá því að það hefur vakið athygli mína að akureyskir fjölmiðlar hafa veitt mótmælunum hér sáralitla athygli. Ég hef velt því töluvert fyrir mér hvers vegna þeir fjalla nánast ekkert um mótmælin í sinni heimabyggð. Þetta eru einstakir tímar og þeir geta svo sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar og tekið þátt í að skrásetja atburðarrásina hér á Akureyri a.m.k.
 
Vikudagur gerði reyndar undantekningu í dag og birti þessa frétt. Þar segir líka frá Mývetningum sem halda áfram að vera fjölmennir (miðað við höfðatölu) og frumlegir í mótmælum sínum. Þeir eru líka greinilega með  öflugan fjölmiðlafulltrúa. Á Smugunni er svo mótmælum dagsins vítt og breitt um landið gerð góð skil.

 


mbl.is Sextán dráttarvélar á torginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir þetta frábæra yfirlit kæra Rakel. Bestu baráttukveðjur!

Hlynur Hallsson, 25.1.2009 kl. 02:25

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Myndir sonar þíns eiga stóran þátt Ég er honum líka afar þakklát fyrir að leyfa mér að nota þær! Baráttukveðjur til ykkar beggja

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2009 kl. 02:29

3 Smámynd: Páll Gröndal

Kæra Rakel,

Þakka þér fyrir að taka við mér sem bloggvin. Hefi alllengi fylgst með Láru Hönnu og ég dáist að því hvað þið eruð málefnalegar. Blogg ykkar eru ómetanleg fyrir okkur Íslendinga sem búum erlendis. Hafðu mikla þökk fyrir.

Með baráttukveðju

Páll

Páll Gröndal, 25.1.2009 kl. 03:40

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Páll! Þakka þér fyrir þín hlýlegu og uppörvandi orð sem gleðja mig svo sannarlega Mér þykir vænt um að fá komment um það að vera málefnaleg en verð þó að segja, eins og mér finnst, að Lára Hanna stendur mér og öðrum bloggurum, sem ég hef a.m.k. kynnst, langum framar hvað málefnanlegan málflutning og aðra framsetningu á bloggskrifum varðar.

Þú getur þess vegna rétt ímyndað þér hvað mér finnst það mikið hrós að þú skulir nefna hana í sömu andrá og þú nefnir skrifin mín!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2009 kl. 04:43

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Já, við íslendingar erum afar heppnir með að nú hafa stigið fram nokkar valkyrjur sem bjarga munu landinu. Kannski ég bloggi smá um það í kvöld, hvernig valkyrjur nútímans munu bjarga landinu og afla því á ný þess heiðurs og virðingar sem því ber? Hver veit!

Arinbjörn Kúld, 25.1.2009 kl. 11:58

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Núh! Það er naumast að þú ætlar að dásama okkur konurnar! Mér sýnist að þú sést þegar búinn að lofa okkur svo í hástert (sbr. blogggið þitt í gærkvöldi) að önnur loffærsla myndi vekja upp ákveðnar grunsemdir

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2009 kl. 14:51

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Valdimar takk fyrir innlitið og mér finnst vænt um að fá staðfestingu á því að einhverjum þyki það einhvers vert að fá upplýsingar um framgang mála hérna fyrir norðan þannig að þakka þér ekki síður!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2009 kl. 17:53

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þetta Rakel.  Það er gott að fá að fylgjast með mótmælunum norðan heiða.

Sigrún Jónsdóttir, 26.1.2009 kl. 00:20

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir fréttir frá Akureyri Rakel. Ég var á fundum í allan dag og var svo að horfa á Silfrið í kvöld. Það er nokkuð síðan ég áttaði mig á því hvað gerðist í bönkunum en það var samt hriklegt að hlusta á Gylfa Magnússon og Vilhjálm Bjarnason gera grein fyrir þessu.

Áfram með baráttuandann.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.1.2009 kl. 00:37

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og kveðjur Jakobína, ég verð augljóslega að finna mér tíma til að hlusta á þetta. Við erum að undirbúa borgarafund hérna fyrir norðan í samstarfi við borgarafundanenfdina fyrir sunnan þannig að ég má eiginlega til! Takk fyrir ábendinguna!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.1.2009 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband