Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
Þeir sem vaka...
28.2.2009 | 21:55
Ég er búin að vera í Reykjavík síðan á miðvikudagskvöldið. Ég ætla ekki að gera grein fyrir tilefni ferðarinnar suður hér eða ferðalaginu í smáatriðum. Mig langar þó til að víkja nokkrum orðum að borgarafundi sem ég fór á í Iðnó á fimmtudags- kvöldið, lýðveldisgöngunni sem ég tók þátt í, í dag og mótmælafundinum á Austurvelli.
Það er ljóst að einhver værð hefur lagst yfir suma þeirra sem mættu galvaskir á hvern borgara- og mótmælafund hér fyrir nokkrum vikum en það vantar ekki kraftinn í þá sem vaka enn! Það er greinilegt að samstaðan er sterk meðal þess hóps sem lætur sig aldrei vanta þar sem tilefni gefast til að leggja orð í belg og leggjast á árarnar við að hafa jákvæð áhrif á framtíð og mótun samfélagsins.
Þetta fólk eru mótmælendurnir sem hafa staðið vörð um lýðræðið í landinum og ef það væri ekki fyrir allt þetta dugmikla fólk þá værum við sennilega stödd í sama pólitíska landslaginu og ríkti hér um og eftir bankahrunið síðastliðið haust. Með öðrum orðum við værum enn föst við sófana okkar og sennilega með höfuðið kyrfilega keyrt niður á milli hnjánna...
Þeir sem vaka enn stóðu fyrir borgarafundi í Iðnó nýliðið fimmtudagskvöld en meginefni hans var persónukjör og kosningalög. Ræðumenn kvöldsins voru tveir. Þorkell Helgason og Ómar Ragnarsson. Þorkell gerði grein fyrir sex leiðum í sambandi við kosningar þar sem kjósandinn getur haft mismunandi mikil eða lítil áhrif á röðun manna á listum. Það sem hann sagði á fundinum byggði hann á þessum skrifum sínum frá 9. febrúar sl.
Ómar Ragnarsson flutti kraftmikla og snjalla ræðu sem ég var að vona að hann hefði birt á blogginu sínu. Það hefur hann ekki gert. A.m.k. ekki enn þá en hann hefur hins vegar gert skýra grein fyrir meginefni umrædds fundar. Ég ætla því að leyfa mér að vísa á samantektina hans. Ég get þó ekki látið hjá líða að vekja sérstaka athygli á afstöðu Birgis Ármannssonar sem sat í pallborði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Mér þykja nefnilega merkileg rök hans fyrir því hvers vegna hann er á móti stjórnlagaþingi og breytingum á kosningalögunum. Þau eru í reynd mjög afturhalds- og íhaldssöm. Aðspurður hafnaði hann þeirri hugmynd að hann væri afturhaldssamur en viðurkenndi þó íhaldssemi sína. Í stuttu máli sneru rök hans einkum að því að honum þótti fáránlegt að breyta kosningalögunum með svo stuttum fyrirvara þar sem hann óttaðist að kjósendur gætu ekki tileinkað sér nýjar reglur svo stuttu fyrir kosningar.
Það kom mér á óvart að þessi borgarafundur skyldi ekki vera fjölsóttari miðað við það hvert umræðuefnið var. Þeir sem stóðu að fundinum undruðust það ekki síður. Fundurinn var hins vegar mjög góður. Ekki síst fyrir það hvað hann var upplýsandi. Tvö ný framboð voru kynnt á fundinum en það var annars vegar Borgarahreyfingin og hins vegar L-listinn.
Herbert Sveinbjörnsson sat í pallborði fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar en Bjarni Harðarson fyrir hönd L-listans. Þeir sem voru viðstaddir borgarafundinn í Háskólabíói 12. janúar sl. eða fylgdust með honum í Sjónvarpinu muna eflaust eftir Herberti og kraftmikilli ræðu hans. Hann er formaður Borgarahreyfingarinnar, sem er nýtt stjónmálafl, sem verður kynnt á blaðamannafundi n.k. mánudag. Ef ég á að segja eins og er þá kom framboð Bjarna Harðarsonar mér svo í opna skjöldu að ég treysti mér ekki að segja neitt um það hér...
Ég má hins vegar til með að birta ræðuna sem Herbert flutti í Háskólabíói fyrr á árinu hér. Ekki síst vegna þess hve efni ræðu hans þá er nátengd því sem við eigum í höggi við enn í dag. Ræða hans minnir vonandi alla, sem telja það óhætt að leggjast fyrir og sofna, á að enn er langt í land með það!
Þeir sem mættu á borgarafundinn í Iðnó síðastliðið fimmtudagskvöld eru greinilega glaðvakandi. Það eru þeir líka sem mættu í lýðveldisgönguna sem var gengin niður Laugaveginn í dag og svo þeir sem voru mættir á útifundinn á Austurvelli. Ekki síst ræðumenn dagsins!
Heiða B. Heiðarsdóttir og Valgeir Skagfjörð fluttu bæði frábærar ræður enda fengu þau bæði kröftugar undirtektir og lófaklapp á meðan þau fluttu. Þau hafa bæði birt ræður sínar á bloggunum sínum. Ræðan hennar Heiðu er hér og hér er ræða Valgeirs. Ræður þeirra ættu ekki síður að virka sem vakning en ræða Herberts hér á undan. Ég skora á alla sem voru ekki viðstödd flutning þeirra í dag eða hafa ekki lesið ræðurnar þeirra enn að gera það núna!
Við sem vökum vantar ekki eldmóðinn. Meðal okkar eru eldhugar sem viðhalda svo sannarlega vöku okkar. Það veitir ekki af því þó áfangasigrarnir séu vissulega nokkrir þá eru mörg verkin óunnin enn. Ég treysti mér ekki til að raða þeim í forgangsröð en hér að neðan eru þau atriði sem Raddir fólksins settu efst á kröfulista dagsins í dag:
1. Frystum eignir útrásarvíkinganna
2. Afnemum verðtrygginguna
3. Færum kvótann aftur til þjóðarinnar
Að lokum þakka ég mótmælendunum í Reykjavík fyrir samveru og samstöðu! Þið eruð frábær!
Hér á Akureyri var gengin fámenn ganga frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg. Á morgun er hér borgarafundur um það hverjum fjölmiðlar eiga að þjóna. Ég vona svo sannarlega að ég sjái marga glaðvakandi Akureyringa og nærsveitarmenn á þeim fundi!
Fáir þátttakendur í mótmælum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Laugardagsmótmælin endurvakin á Akureyri á morgun!
27.2.2009 | 15:48
Ég má til að vekja athygli á eftirfarandi orðsendingu sem ég var að fá senda og varða mótmæli á Akureyri á morgun. Ég vona að Akureyringar verði duglegir að mæta og sýna þessu efni stuðning. Sjálf er ég í Reykjavík og ætla að ganga frá Hlemmi niður á Austurvöll á morgun.
Orðsedning grasrótarhópsins sem stendur að baki mótmælagöngunni fyrir norðan er eftirfarandi (reyndar er hún stytt):
Við höfum áhyggjur af því að lánið frá AGS Alþjóðagjaldeyrissjóðnum muni svipta þjóðina frelsi sínu og sjálfstæði.
Við krefjumst þess að þjóðinni verði kynnt öll skilyrði fyrir AGS-láninu og áætlun um endurgreiðslu, á mannamáli.
Laugardaginn 28. febrúar verður mótmælaganga frá Samkomuhúsinu niður á Ráðhústorg á Akureyri kl 15.00.
Á torginu munu Huginn Freyr Þorsteinnson og Þórarinn Hjartarson taka til máls og í lokin munum við hugleiða réttlæti.
Fólkið í landinu
Borgarafundur á Akureyri núna á sunnudaginn
25.2.2009 | 17:27
Hverjum þjóna fjölmiðlar? - borgarafundur í Deiglunni á Akureyri sunnudaginn 1. mars kl. 15:00
Eru fjölmiðlar málgagn almennings eða vopn peningamanna og málgagn stjórnmálaflokka?
Frummælendur:
Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands
Björg Eva Erlendsdóttir, ritstjóri Smugunnar
Björn Þorláksson, fyrrverandi fréttamaður á N4 og Stöð2
Í pallborði:
Ágúst Ólafsson, forstöðumaður RÚV á Norðurlandi og væntanlega fleiri
Fulltrúum bæjarráðs og þingmönnum kjördæmisins hefur verið sent sérstakt fundarboð
Það er eitthvað mikið að!
25.2.2009 | 00:28
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að svo mikið sem minnast á Kastljósviðtalið við Davíð Oddsson en ég get ekki á mér setið! Mér finnst það svo yfirgengilegt að horfa upp á það hvað fjölmiðlar eins og mbl.is ætla að gera mikið úr þessu viðtali við Davíð að ég velti fyrir mér hvað ræður? Er það hann sjálfur eða einhver annar?
Hvers vegna vekur það svo mikla athygli þegar hann togar og teygir á sannleikanum í sjónvarpinu og gerir lítið úr öllu og öllum... og já, af hverju er það ekki fréttin? Af hverju er spuni hans hafður eftir eins og hann hafi aldrei sagt eða gert neitt sem stangast fullkomlega á við það sem hann segist hafa sagt og gert? Af hverju draga fjölmiðlarnir ekki frekar fram eðlilegar spurningar og efasemdir um það sem hann segir nú og stangast á við það sem hann sagði og gerði bara fyrir rétt um ári síðan? (Sjá t.d. þetta myndband Láru Hönnu Einarsdóttur og þetta vandaða yfirlit þeirrar sömu)
Af hverju er það svona merkilegt sem Davíð segir þegar hann fullyrðir að hann hafi sagt eitthvað sem við höfum fulla ástæðu til að efast um að sé rétt? Það er heldur ekki eins og það sem hann segist hafa sagt breyti neinu um núverandi aðstæður! Hins vegar eru margir sem hafa bent á lausnir. Af hverju eru þeir ekki í sviðljósi fjölmiðlanna? Af hverju beina fjölmiðlar ekki kröftum sínum og dálksentímetrum að því sem þetta fólk hefur að segja?
Sem dæmi nefni ég bara örfáa af handahófi: Andrés Magnússon, Lilju Mósesdóttur og Þorvald Gylfason. Þessir einstaklingar og miklu fleiri hafa komið með ábendingar og lausnir sem litla sem enga athygli njóta á meðan fjölmiðlarnir apa allt upp sem Davíð Odssson segir. En í mínum eyrum hljómar það flest sem innihaldslaust og gagnlaust sjálfsvarnarþvaður manns sem er í engu sambandi við veruleika meginþorra þjóðarinnar.
SÍ varaði í febrúar við hruni í október | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sólargeisli
22.2.2009 | 15:47
Ég verð að setja athugasemd við þessa frétt. Ég verð, vegna þess að mér finnst hún orka á mig sem sólargeisli réttlætisins og vegna þess að mig langar til að vekja athygli á því að við sem höfum talað máli réttlætisins höfum áhrif. Við sem höfum staðið fyrir mótmælum, borgarafundum og stofnum grasrótarhópa skiptum máli fyrir þróun þeirra mála sem ógna framtíð okkar í dag.
Hér á Akureyri var haldinn fundur undir yfirskriftinni Landráð af gáleysi þann 8. febrúar sl. Fundurinn var haldinn í samstarfi borgarafundarnefndanna hér á Akureyri og í Reykjavík. Frummælendur voru ekki af verri endanum enda sköpuðust líflegar umræður um þetta efni og margir í salnum komu með ábendingar sem vógu þungt.
Sumir hafa jafnvel gert því skóna að ein slík hafi ekki síst orðið til þess að Valgerður Sverrisdóttir ákvað að gefa ekki kost á sér aftur í framboð. Ég skal ekki segja til um það. Atli Gíslason, einn þeirra sem var í Silfrinu í dag, var á þessum fundi. Atli, sem er einn af okkar betri lögfræðingum, myndi ekki tala um landráð og þjóðníðinga nema að vel athuguðu máli.
Orð hans um það að þeir sem settu landið á hausinn skuli sæta ábyrgð vekja mér von. Mér finnst það liggja í augum uppi að eiginhagsmunaæði sem sökkvir heilli þjóð í hyldýpi skulda og örbirgðar er einn alvarlegasti níðingsháttur sem hægt er að hugsa sér. Slíkur níðingsháttur er svo alvarlegur glæpur að það er útilokað að lögin nái ekki yfir hann.
Mér sýnist Atli Gíslason vera á sama máli. Við skulum þess vegna halda áfram að krefjast þess að þeir sem komu þjóðinni í það alvarlega efnahagsástand sem nú blasir við með vafasömum fjármálaviðskiptum og beinni rányrkju verði rannsakaðir og sakfelldir í samræmi við glæpi sína. Þjóðin á rétt á því að allir séu jafnir fyrir lögunum. Auður og völd eiga ekki að hefja neinn yfir það að taka út refsingu ef hann gerist brotlegur við lögin.
Mér finnst vera tilefni til að hvetja þá sem hafa lagt sín mikilvægu lóð á vog réttlætisskálarinnar hingað til að halda því áfram. Höldum áfram að standa saman og biðja um réttlæti fyrir okkur sjálf og íslensku þjóðina alla. Trúum því að við höfum áhrif. Ég er sannfærð og vona að þeir séu fleiri sem eru sannfærðir með mér.
Útrásarvíkingana á válista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.2.2009 kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Til allra kvenna
22.2.2009 | 15:00
Það er konudagurinn í dag og þess vegna langar mig til að senda öllum konum sem rekast hingað inn sérstaklega hlýjar kveðjur! Ég bið karlmennina að lesa kveðjuna hér að neðan líka og velta því fyrir sér hvort það sem þar segir eigi ekki einmitt við þær konur sem þeir dást mest af.
Ég er svo heppin að ég á margar frábærar vinkonur. Þær eru sterkar og hlýjar. Þær hlusta þegar ég þarf á þeim að halda og styðja mig. Lífið væri innantómt án þeirra. Þær eru gjöf sem ég get seint fullþakkað fyrir.
Konur, nær og fjær, til hamingju með daginn! Vonandi fáið þið margar staðfestingar á því í dag hversu ómentanlegar þið eruð. Ég vona að bræður ykkar, synir, feður, afar og eiginmenn keppist um að segja ykkur hversu mikils virði þið eruð þeim en við verðum líka að muna að segja hver annarri það sama. Ég segi fyrir mig að ég gæti aldrei hugsað mér lífið án minna dásamlegu dætra og allra minna dásamlegu, kraftmiklu, hugmyndaríku og sterku vinkvenna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2009 kl. 03:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Get bara ekki á mér setið...
22.2.2009 | 04:27
Ég hef oft furðað mig á þeim sem virðast ekki hafa annað að gera en snúa út úr og setja út á fréttaskrifin á mbl.is en núna get ég bara ekki á mér setið og dett þar með væntanlega í sama pytt og slíkir. Þessi frétt vakti sem sagt fyrst og fremst athygli mína fyrir innhaldið í innihaldssleysi sínu.
Í fréttinni eru sem sagt hinar og þessar upplýsingar um algengi og orsakir húðkrabbameins en það sem vakti mesta athygli mína er þetta upphaf fréttarinnar: Mikil fækkun utanlandsferða mun væntanlega draga úr því að Íslendingar sólbrenni. Það gæti síðan leitt til fækkunar húðkrabbameinstilfella.
Síðan kemur frekar ruglingsleg miðja þar sem kemur m.a. fram að ljósabekkjanotkun getur valdið húðkrabbameini en tíðni þess er ekkert borin saman við það sem hlýst að því að liggja á sólarströnd. Fréttinni klikkir svo út með þeim upplýsingum að útlit er fyrir að sólarlandaferðir Íslendinga muni dragast saman um 40%!!
Pirringur minn í sambandi við þessa frétt stafar fyrst og fremst af því að einhvern veginn finnst mér að það megi túlka þessa frétt þannig að þeir sem gráta það að þeir komist ekki í ferðalög til sólríkari landa ættu bara að láta huggast við það að þessi staðreynd minnkar líkurnar á því að þeir fái húðkrabbamein
Ég meina mér finnst þessi framsetning út í hött! En kannski er ég bara að misskilja þetta allt saman vegna þess að ég er eitthvað meira pirruð en venjulega á því hvernig fjölmiðlar viðhalda meðvitunarleysi þjóðarinnar ýmist með þögn eða stórfurðulegu fréttamati.
Minna húðkrabbamein vegna fækkunar ferða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Borgarafundur á Akureyri: Heimilin á hrakhólum
22.2.2009 | 03:54
Fimmtudaginn, 12. febrúar sl. var haldinn, enn einn borgarafundurinn hér á Akureyri. Fjallað var um stöðu heimilanna að þessu sinni. Fundarstjóri var Benedikt Sigurðarson og kom hann að undirbúningi fundarins líka. Frummælendur voru fjórir. Það voru þau: Gísli Tryggvason, Ólafur Garðarsson, Sigurður Sveinn Sigurðsson og Svahildur Guðmundsdóttir. Frummælendur sátu allir í pallborði en auk þeirra sat Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa fyrir svörum líka. Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigurðsson, hafði þegið boð á fundinn en afboðaði sig á síðustu stundu vegna anna.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, reið á vaðið. Hann ræddi um húsnæðislánin, bæði gengistryggðu lánin og þau erlendu, út frá réttindum lántakenda. Hann dró fram fjögur rök fyrir því að þessi lán verði endurskoðuð en þau kallaði hann: forsendubrest, sanngirnisrök, eignaréttarrök og hagfræðileg rök.
Það sem hann benti á að hefði valdið því sem hann kallaði forsendubrest þessara lána er m.a. það að áhættustigið hefur margfaldast. Hann undirstrikaði það að neytandinn væri látinn bera alla áhættuna hvað forsendur lánanna varðar. Þar vakti hann athygli á því hvað gerðist í sambandi við erlendu lánin þegar ríkinu mistókst að viðhalda genginu.
Það sem vakti mesta athygli mína af því sem Gísli nefndi í sambandi við sanngirnisrökin er að hann velti því fyrir sér hve sanngjörn markaðssetning erlendu lánanna hafi verið. Ég er ein þeirra sem get nefnt dæmi um það að kostir erlends myntkörfuláns voru mjög tíundaðir í mín eyru. Þetta var þegar ég þurfti á láni að halda árið 2004.
Ég var mjög treg en lét tilleiðast eftir að yfirmaðurinn í bankanum hafði gefið mér persónulegt loforð um skuldbreytingu lánsins yfir í íslenskt lán ef ég gæti rökstutt það að það sem mér hefði verið sagt um kosti lánsins stæðist ekki. Tveimur árum seinna fékk ég láninu breytt. Reyndar eftir eins árs jarm af minni hálfu um skuldbreytinguna. Veit ekki hvort rök mín voru nokkurn tímann tekin gild en þau blöstu við mér. Það skipti mig sem sagt meira máli að minnka skuldabyrðina í nútímanum en það að hafa borgað minna þegar upp var staðið og lánið uppgreitt einhvern tímann í framtíðinni.
Þriðju rökin, sem Gísli dró fram sem lögfræðileg - og neytendapólitísk rök fyrir því að húsnæðislánin og þá einkunn erlendu lánin væru tekin til rækilegrar endurskoðunar, nefndi hann eignaréttarrök. Þar benti hann á að greiðslugeta húsnæðiskaupenda færi minnkandi um leið og veðhæfi eignarinnar sem stæði undir láninu færi lækkandi líka.
Að lokum voru það hagfræðileg rök sem Gísli nefndi máli sínu til stuðnings. Þar benti hann á að ástæða væri til að endurskoða og -reikna þessi lán til að vernda aðra markaði samfélagsins. Hann sagði að ef allar ráðstöfunartekjur húsnæðiskaupenda færu í að greiða af húsnæðislánunum þá yrði lítið sem ekkert eftir til að viðhalda öðrum mörkuðum sem þyrfti að viðhalda svo samfélagið fúnkeraði.
Gísli lauk máli sínu með því að benda á að, að óbreyttu þá myndu neytendur, þ.e. lántakendur og þá aðallega þeir sem skulda húsnæðislán, bera allan skellinn sem hrun bankanna olli.
Næstur tók Ólafur Garðarsson, talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, til máls. Ræða hans hefur verið birt á heimasíðu samtakanna en auk þess er krækja í hana neðst í þessari færslu. Í upphafi ræðu sinnar sagði hann að heimilin væru: verðmætasta sparifé samfélagsins og [stæðu] undir stærstum hluta þeirra veða beint og óbeint sem atvinnuvegirnir byggja á. Ræða hans er svo flott skrifuð að mig langar til að birta hana alla en þá yrði þetta alltof langt hjá mér. Þess vegna ætla ég að stikla á stóru en hvet alla til að lesa hana í heild. Kjarninn í því sem Ólfur sagði á fundinum er þetta:
Nú er komin upp sú staða, enn einu sinni að lánastofnanir sækja á heimilin í krafti einhliða samninga. Kerfið okkar er þannig uppbyggt að heimilin eru varnarlaus gegn ofríki lánastofnana. [...] Ef marka má það sem hefur verið að gerast undanfarin ár eru lánastofnanir byggðar upp fyrir afmarkaðan hluta af þjóðinni. Þúsundum heimila er nú ógnað með eignaupptöku.
Hver aðilinn á fætur öðrum rís upp og segist ætla að bjarga heimilunum. En hvað gera þeir? Þeir segjast ekki hafa efni á því þegar á hólminn er komið. [...] Sú stórfellda eignaupptaka og gjaldþrotahrina sem hafin er mun hafa mun verri afleiðingar en að gefa eftir af kröfunum eins og við leggjum til. Við lítum á hækkanir á gjaldeyristryggðum lánum og vísitölulánum síðustu 18 mánuði sem þýfi sem þarf að skila.
Hér er verið að nota samninga sem voru miðaðir við stöðugleika í efnahagsstjórn til þess að kúga heimilin til að borga brúsann. Alls kyns aðilar rísa upp á afturlappirnar og verja þetta afleita kerfi. Þeir nefna lífeyrissjóði og alskyns aðrar fráleitar réttlætingar. Við sem eigum lífeyrissjóðina í reynd teljum þá lítils virði í samanburði við stærsta lífeyrissjóðinn okkar, íbúðina, heimilið.
Undir lok ræðu sinnar lagði Ólafur áherslu á mikilvægi heimilisins þar sem hann sagði: Heimilin eru lykillinn að árangri í að byggja upp nýtt fjármálakerfi og halda atvinnuvegunum gangandi. Það gerist þó ekki með því að lama og leysa upp stóran hluta þeirra. Hann lauk svo máli sínu með eftirfarandi:
Heimilin eru ekki að biðja um ölmusu. Heimilin eru ekki að biðja um niðurfellingu allra skulda. Þau vilja bara að ríki og lánastofnanir taki ábyrgð á þeim skaða sem þau hafa valdið. Ekki velta skaðanum yfir á íbúðareigendur eina. Ef það verður gert verður seint friður í þessu landi og margir munu yfirgefa það fyrir fullt og fast.
Sigurður Sveinn Sigurðsson, fasteignasali hér á Akureyri, var þriðji ræðumaðurinn á þessum borgarafundi um stöðu heimilanna í landinu. Því miður hefur hann ekki sent mér ræðuna sína eins og ég reiknaði með að hann myndi gera. Ég treysti mér þess vegna ekki til að hafa eins mikið eftir honum eins og t.d. Ólafi hér að ofan.
Sigurður ræddi stöðu fasteignamarkaðarins sem hann sagði afar slæma. Þannig benti hann á að margir væru eins og í stofufangelsi sinnar eigin fasteignar þar sem enginn gæti selt við núverandi aðstæður. Hann vék einnig að þeim lausnum sem helst hafa verið í umræðunni af hálfu stjórnvalda en það er greiðslufrestur af ýmsu tagi. Hann benti á að hvers kyns frestur á greiðslum húsnæðislaána, sem hafa vel að merkja veð í fasteigninni sem verið er að borga af, hefði þær afleiðingar að eignin ætist upp.
Þegar kom að fyrirspurnum úr sal vakti svar Sigurðar við einni slíkri mikla athygli þegar hann benti á að fasteignasalar hefðu margsinnis furðað sig á því þegar tvítugir einstaklingar sem væru nýskriðnir úr skóla hefðu á tveimur dögum fengið samþykkt 90% húsnæðislán hjá bönkunum. Hann var líka spurður að því hvort fasteignasalar bæru ekki meginábyrgð á þeirri ofþenslu sem hefði orðið á fasteignaverði undangenginna ára en hann firrti sig og starfssystkini sín þeirri ábyrgð og benti á að að fasteignasalar hefðu alls ekki ýtt undir hana þvert á móti hefði það í mörgum tilfellum verið kaupendurnir sjálfir.
Máli sínu til áréttingar nefndi hann ónafngreind dæmi um það að óþolinmóðir kaupendur hefðu oftar en einu sinni boðið allt upp í einni og hálfri milljón yfir ásett verð í eign sem þeir höfðu áhuga á. Þetta hafi gert það að verkum að seljandi sem vildi selja sambærilega eign miðaði við verð sem var þannig tilkomið. Seljendur treystu m.ö.o. betur á slíkt verðmætamat en verðmat fasteignasalans. Ef einhver fasteignasalinn vildi halda sig við eitthvað annað verðmætamat þá varð hann tortryggilegur um leið og auðvitað auðvelt að snúa sér til annarrar fasteignasölu þar sem eignir höfðu farið á yfirverði. Ég man ekki hvort Sigurður notaði orðið vítahringur en svo sannarlega var hann að lýsa einum slíkum!
Síðasti frummælandinn á þessum fundi var Svanhildur Guðmundsdóttir, sviðstjóri þjónustusviðs Íbúðalánasjóðs. Hún kynnti þau úrræði sem Íbúðalánasjóður býður þeim sem eru í greiðsluvandræðum upp á. Þær eru nokkrar og fleiri í bígerð en þar sem hún sagði lítið umfram það sem kemur fram á glærunum, sem er krækt neðst í þessa færslu, ætla ég ekki að rekja þær sérstaklega hér en hvetja alla til að líta á þær. Sérstaklega fyrstu fjórar.
Mér sýnist á því sem Svanhildur sýndi og sagði að Íbúðalánasjóður bjóði upp á miklu fleiri leiðir fyrir húsnæðis- kaupendur í greiðsluerfiðleikum en bankarnir. Eftir að opnað var fyrir fyrirspurnir var flest- um fyrirspurnunum beint til hennar en þar sem ég var í því hlutverki að ganga með hljóðnemann á milli man ég þær fæstar. Það sem sló mig mest voru tölurnar sem hún nefndi um það hve margir væru nú þegar komnir í þrot með afborganir af húsnæðislánunum sínum. Ég þori hins vegar ekki hafa töluna eftir sem mig minnir að hún hafi nefnt. Hún er svo ískyggilega há að ég vona að mig misminni.
Það vakti líka athygli mína að hún sagði að aðeins eitt lán frá bönkunum væri komið yfir til þeirra. Ég er ekki viss um að ég muni það rétt en ef ég skildi hana rétt þá er það bankinn en ekki lántakinn sem getur óskað eftir því að færa lánið á milli. Ef þetta er rétt skilið þá er ástæða til að undirstrika það sem Gísli Tryggvason tók fram í ræðu sinni um að í viðskiptum neytenda við bankanna er það lántakinn sem ber alla áhættuna. Maður spyr sig eðlilega hvaða réttlæti er eiginlega í því? Þekkist slík einhliða ábyrgð einhvers staðar annars staðar í tvíhliða viðskiptum?
Auk frummælendanna var Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa, líka í pallborði eins og áður hefur komið fram. Sumir hafa sagt mér að Kári sé þekktur fyrir einstaka svartsýni í afstöðu sinni til flestra mála. Ég verð að segja það fyrir mig að það sem hann sagði um að sagan sýndi að við myndum ekkert læra af efnahagshruninu núna finnst mér rökstyðja það mat á honum. Hann sagði að því miður gerðist það á velmegunartímum eins og þeim sem væru nýliðnir að öll varúðarsjónarmið brystu en framundan væri tímabil reglna og aðhalds en svo þegar settum markmiðum verður náð þá færi allt í sama farið. Þannig endurtekur sagan sig þrátt fyrir dýrt námskeið eins og kreppan væri þjóðinni nú.
Það olli okkur sem höldum utan um borgarafundina hérna fyrir norðan þó nokkrum vonbrigðum hve fáir mættu á þennan fund. Við veltum auðvitað vöngum yfir hugsanlegum ástæðum þess að aðeins um þrjátíu manns komu til að hlýða á frummælendur og spyrja spurninga um þann vanda sem við héldum að flestir fyndu mest fyrir. Auðvitað komumst við ekki að neinni endanlegri niðurstöðu varðandi skýringar á þessari dræmu mætingu.
Hins vegar ákváðum við að halda eftirleiðis fundi á hálfsmánaðarfresti í stað vikulegra fundarhalda framan af árinu. Næsti fundur verður því ekki fyrr en 1. mars n.k. en þá ætlum við að halda fund í Deiglunni undir yfirskriftinni: Hverjum eiga fjölmiðlar að þjóna? Þar sem frummælendur og aðrir í pallborði eru flestir að sunnan ákváðum við að halda fundinn um miðjan dag á sunnudegi og í ljósi þess hve fáir mættu á síðasta fund ætlum við að vera í Deiglunni að þessu sinni. Það er þó von okkar að fleiri sýni þessu málefni áhuga en því sem var til umræðu á þeim fundi sem hér hefur verið lýst.
Að lokum langar mig til að benda á ræðu Marinós G. Njálssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær og birti á bloggi sínu. Marinó er varamaður í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og hefur sett fram margar afar skynsamlegar tillögur um það hvernig megi mæta vanda heimilanna á blogginu sínu. Í gær dró hann þær fram í ræðu sem hann flutti mótmælendum í höfuðstaðnum. Það er von mín að fleiri leggi sig eftir því sem hann hefur fram að færa í sambandi við lausn á vanda húsnæðiskaupenda sem því miður virðist vera ætlað að borga allt tap bankanna upp í topp.
Svigrúm skuldara aukið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.2.2009 kl. 03:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þjóðin þarfnast grundvallarbreytinga!
20.2.2009 | 18:26
Vissulega voru það einhverjir sem önduðu léttar við fall síðustu ríkisstjórnar. Einhverjum fannst það m.a.s. mikilvægast að koma Sjálfstæðisflokknum út úr stjórnarsamstarfinu. Ég get samþykkt það að núverandi ríkisstjórn hefur sýnt meiri viðleitni en sú sem hún tók við af en það er ekki nóg í núverandi aðstæðum!
Ég get alveg tekið undir það að nýja ríkisstjórnin sé ekki öfundsverð af starfsumhverfi sínu. Það kannast nefnilega allir við þann hamagang sem hefur viðgengist inni á Alþingi síðan hún tók við. Þar hafa ungir Sjálfstæðismenn haft sig mest í frammi og vaðið uppi með offorsi og látum. Fúkyrðaflaumurinn og ólætin hafa m.a.s. náð því stigi að einni skynsamri rólyndiskonu blöskraði svo mjög að hún gat ekki á sér setið lengur og atyrti óróaseggina.
Það er býsna misjafn hvað fólki finnst um hina nýju ríkisstjórn sem er mynduð af Vinstri grænum og Samfylkingu með stuðningsyfirlýsingu frá Framsóknarflokknum. Ég verð að segja það eins og er að síðan Jóhanna Sigurðardóttir tók við Forsætisráðuneytinu hefur fleira heyrst af viðleitni þingsins til að mæta efnahagshörmungunum, sem blasa við, en á þeim fjórum mánuðum sem liðu frá hruni bankanna sl. haust til þess tíma að upp úr stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði.
Það er þó langt í land að ég sé sátt. Hvað þá róleg! Það er svo margt sem vantar upp á til að ég geti andað léttar og nefni ég aðeins nokkrar ástæður fyrir því hér: Ég hef ekki séð neinar tölur um það hvað þjóðarbúið skuldar mikið! Ég hef ekki séð neinar aðgerðir sem miða að því að kalla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á hinu alvarlega efnahagshruni!
Ég hef aftur á móti séð staðfestingar á því að einhverjir innan bankanna gripu til aðgerða skömmu fyrir hrunið sem væru rannsakaðar ofan í kjölinn ef almennur borgari hefði gert eitthvað viðlíka til að víkjast undan fjárhagslegri ábyrgð sinni. Ég hef líka séð staðfestingar á því að gervi- fyrirtæki hafi verið stofnuð og í gengum þau hafi undarlegir eignafærslusamningar verið margítrekaðir. Það er ofvaxið mínum skilningi af hverju þeir sem komu að slíku og þvílíku skuli ekki sæta rannsókn!
Því miður er ekkert sem bendir til annars en þess að það verði íslenskur almenningur sem verði látinn blæða fyrir syndir græðgis- og fjárglæframannanna sem misnotuðu aðstöðu sína og gloppur í íslenskum lögum svo yfirgegnilega að þeir gerðu Ísland gjaldþrota! Það er skelfileg tilhugsun að vankunnátta, grandvaraleysi eða misskilin varkárni innan stjórnsýslunnar verði til þess að íslenska þjóðin verði á vonarvöl um ókomin ár!
Það er kannski eitthvað annað sem ræður því að hin nýja stjórn ræðst ekki til atlögu við spillinguna sem mér finnst blasa við að hafi viðgengist í íslensku fjármála- og viðskiptalífi. Spillingu sem mér finnst reyndar augljóst að teygi sig inn í stjórnsýsluna sjálfa! Það er þess vegna forgangsverkefni að uppræta hana en hvar á að byrja?
Það væri auðvitað ráð að byrja á því að láta seðlabankastjóranna sem neita að fara hlýða uppsögnum. Það væri líka ráð að setja agameistara inn á Alþingi þannig að þeir sem vaða þar uppi eins og illa uppaldir pörupiltar séu víttir eins og nemendur sem kunna ekki að haga sér inni í kennslustundum. Ég verð að segja að ég sé ekki muninn á því að grýta alþingishúsið að utan með matvöum og því að valda óreiðu á störfum þingsins og ástunda skítkast innan veggja þess.
Hvort tveggja er vanvirðing. En sú sem er framin innan veggja sínu verri því þar eru á ferð opinberir embættismenn sem eiga að gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóð sína. Þeir þingmenn sem vanviðra vinnustað sinn og samstarfsfólk með óvönduðum munnsöfnuði, mannorðsmeiðandi aðdróttunum og annarri vanstillingu ætti að áminna og víkja úr þingsalnum þannig að þeir sjái að sér.
Kannski er það ekki nóg. Kannski eru þeir sem haga sér af slíku offorsi svo uppteknir af því að verja eigin hagsmuni og vina sinna að það blindar dómgreind þeirra þannig að þeir gleyma því sem alþingismenn ættu að berjast fyrir. Það er þjóðarhagsmunum í stað eiginhagsmuna! Kannski þurfum við einfaldlega að hugsa það alveg upp á nýtt hvernig menn veljast inn á þing.
Mér þykir það sjálfsögð krafa að þingmenn séu heiðarlegir og kunni sig í samskiptum við andmælendur sína ekki síður en skoðanasystkin sín. Ég skammast mín þegar ég fylgist með störfum þingsins þar sem veltilhafðir ungliðar ástunda skítkast, útúrsnúninga og frammíköll. Ég sé ekki að slík framkoma stjórnist af hugsjón sem varðar þjóðarhag heldur þvert á móti! Slík framkoma minnir miklu fremur á frekjuhunda sem hafa aldrei þurft að láta neitt eftir sjálfum sér en eru nú skíthræddir um að af þeim verði tekið það sem þeir telja að ósekju sitt. Slík framkomakemur ekki aðeins óorði á þá sem haga sér þannig heldur þingið í heild og þjóðina sem þarf að búa við slíka þingvarga!
Ég vil ekki sjá slíkt lið inni á þingi! Þess vegna langar mig til að vekja athygli á hópi sem er nýstofnaður inni á Facebook. Hópurinn heitir Við viljum frjálst framboð til Alþingis. Krafa hópsins hljómar þannig:
Stjórnun byggist alltaf á trausti ekki bindingu. Alþingi á að vera málstofa margra ólíkra sjónarmiða. Við viljum að á Alþingi sitji hópur einstaklinga sem vill koma að stjórnun landsins og leggja fram krafta sína og sannfæringu án flokksaga - með eigin sannfæringu að leiðarljósi. Þeir sem bjóða sig fram undir merkjum gömlu stjórnmála- flokkana eru alltof oft ekki að bjóða þinginu krafta sína heldur starfa þeir þar sem vélbúnaður vel smurðra flokksvéla. Við viljum framboð einstaklinga sem eru óháðir öðru en sannfæringu sinni. Aðeins þannig má brjóta á bak aftur þá spillingu sem leitt hefur hörmungar yfir íslenskt samfélag.
Þórhallur Heimisson er stofnandi hópins og í þessum skrifuðu orðum eru meðlimir hans orðnir 918. Ég vona að þú viljir sjá einstaklinga inni á þingi sem ástunda skynsamlega og yfirvegaða orðræðu til að vinna þjóð sinni gagn. Ég vona að þú viljir sporna gegn því að störf þingsins minni á ormagryfju sem étur upp heilbrigða hugsun og mannsæmandi vinnubrögð í þágu alls almennings í landinu. Ég vona að þú viljir leggja þessum málstað lið með okkur hinum sem þegar hafa skráð sig!
Frumvarp um stjórnlagaþing úr ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Látum þá ekki spilla fyrir heldur skrifum undir
18.2.2009 | 01:06
Ég leyfi mér að birta nær orðrétt ákall til þjóðarinnar sem hefur gengið á Facebook og ýmsum póstlistum í dag:
Ástæða er til að óttast að bakslag sé komið í áform stjórnarflokkanna um að efna til stjórnlagaþings um nýja stjórnarskrá. Þjóðin má ekki við því að glata þessu tækifæri! Það liggur alltof mikið undir. Lífsafkoma okkar og framtíðarheill! Verði ekki boðað til stjórnlagaþings nú eru líkur til þess að tækifærið til þess glatist og komi ekki aftur fyrr en manngerðar hamfarir hafi á ný dunið á þjóðinni.
Verið er að safna undirskriftum á vefnum Nýtt lýðveldi þar sem farið er fram á eftirfarandi:
Við, undirritaðir Íslendingar, skorum á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi.
Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a:Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.
- endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan.
- skýr aðgreining milli framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómstóla.
Undirskriftirnar verða afhentar fulltrúum stjórnvalda í byrjun mars næstkomandi. Þá hefur Alþingi enn tíma til að samþykkja frumvarp um stjórnlagaþing.
Við getum ekki látið þetta tækifærið okkur renna úr greipum! Núna er það samstaðan sem gildir! Nýtum tímann sem við höfum til að tryggja að stjórnlagaþing verði að veruleika! En hvað getum við gert til þess?
1. Safnað fleiri undirskriftum. Sendu póst á alla sem þú þekkir með hvatningu um að skrifa undir á slóðinni: http://www.nyttlydveldi.is/index.php?option=com_wrapper&view=wrapper&Itemid=5
2. Hafðu samband við þingmenn og spurðu hvort þeir muni styðja eða beita sér fyrir lagasetningu um stjórnlagaþing. Hér er listi yfir þingmenn, netföng og símanúmer.
3. Hengdu upp eða settu hvatningu á vinnustað, skóla, blogg eða annars staðar. Þar má t.d. nota það sem kemur fram á forsíðu Nýs lýðveldis.
4. Ef þig langar til að taka þátt í baráttunni eða hefur hugmyndir hafðu þá samband.
Tökum höndum saman því samstaða er afl sem ekkert fær staðist!
Sjálfstæðismenn gagnrýna stjórnlagaþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.2.2009 kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)