Þjóðin þarfnast grundvallarbreytinga!

Vissulega voru það einhverjir sem önduðu léttar við fall síðustu ríkisstjórnar. Einhverjum fannst það m.a.s. mikilvægast að koma Sjálfstæðisflokknum út úr stjórnarsamstarfinu. Ég get samþykkt það að núverandi ríkisstjórn hefur sýnt meiri viðleitni en sú sem hún tók við af en það er ekki nóg í núverandi aðstæðum!

Ég get alveg tekið undir það að nýja ríkisstjórnin sé ekki öfundsverð af starfsumhverfi sínu. Það kannast nefnilega allir við þann hamagang sem hefur viðgengist inni á Alþingi síðan hún tók við. Þar hafa ungir Sjálfstæðismenn haft sig mest í frammi og vaðið uppi með offorsi og látum. Fúkyrðaflaumurinn og ólætin hafa m.a.s. náð því stigi að einni skynsamri rólyndiskonu blöskraði svo mjög að hún gat ekki á sér setið lengur og atyrti óróaseggina.

Það er býsna misjafn hvað fólki finnst um hina nýju ríkisstjórn sem er mynduð af Vinstri grænum og Samfylkingu með stuðningsyfirlýsingu frá Framsóknarflokknum. Ég verð að segja það eins og er að síðan Jóhanna Sigurðardóttir tók við Forsætisráðuneytinu hefur fleira heyrst af viðleitni þingsins til að mæta efnahagshörmungunum, sem blasa við, en á þeim fjórum mánuðum sem liðu frá hruni bankanna sl. haust til þess tíma að upp úr stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði.

Það er þó langt í land að ég sé sátt. Hvað þá róleg! Það er svo margt sem vantar upp á til að ég geti andað léttar og nefni ég aðeins nokkrar ástæður fyrir því hér: Ég hef ekki séð neinar tölur um það hvað þjóðarbúið skuldar mikið! Ég hef ekki séð neinar aðgerðir sem miða að því að kalla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á hinu alvarlega efnahagshruni!

Ég hef aftur á móti séð staðfestingar á því að einhverjir innan bankanna gripu til Sérfræðingar í auðgunarbrotumaðgerða skömmu fyrir hrunið sem væru rannsakaðar ofan í kjölinn ef almennur borgari hefði gert eitthvað viðlíka til að víkjast undan fjárhagslegri ábyrgð sinni. Ég hef líka séð staðfestingar á því að gervi- fyrirtæki hafi verið stofnuð og í gengum þau hafi undarlegir eignafærslusamningar verið margítrekaðir. Það er ofvaxið mínum skilningi af hverju þeir sem komu að slíku og þvílíku skuli ekki sæta rannsókn!

Því miður er ekkert sem bendir til annars en þess að það verði íslenskur almenningur sem verði látinn blæða fyrir syndir græðgis- og fjárglæframannanna sem misnotuðu aðstöðu sína og gloppur í íslenskum lögum svo yfirgegnilega að þeir gerðu Ísland gjaldþrota! Það er skelfileg tilhugsun að vankunnátta, grandvaraleysi eða misskilin varkárni innan stjórnsýslunnar verði til þess að íslenska þjóðin verði á vonarvöl um ókomin ár!

Engill gegn spillingunniÞað er kannski eitthvað annað sem ræður því að hin nýja stjórn ræðst ekki til atlögu við spillinguna sem mér finnst blasa við að hafi viðgengist í íslensku fjármála- og viðskiptalífi. Spillingu sem mér finnst reyndar augljóst að teygi sig inn í stjórnsýsluna sjálfa! Það er þess vegna forgangsverkefni að uppræta hana en hvar á að byrja?

Það væri auðvitað ráð að byrja á því að láta seðlabankastjóranna sem neita að fara hlýða uppsögnum. Það væri líka ráð að setja agameistara inn á Alþingi þannig að þeir sem vaða þar uppi eins og illa uppaldir pörupiltar séu víttir eins og nemendur sem kunna ekki að haga sér inni í kennslustundum. Ég verð að segja að ég sé ekki muninn á því að grýta alþingishúsið að utan með matvöum og því að valda óreiðu á störfum þingsins og ástunda skítkast innan veggja þess.

Hvort tveggja er vanvirðing. En sú sem er framin innan veggja sínu verri því þar eru á ferð opinberir embættismenn sem eiga að gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóð sína. Þeir þingmenn sem vanviðra vinnustað sinn og samstarfsfólk með óvönduðum munnsöfnuði, mannorðsmeiðandi aðdróttunum og annarri vanstillingu ætti að áminna og víkja úr þingsalnum þannig að þeir sjái að sér.

Kannski er það ekki nóg. Kannski eru þeir sem haga sér af slíku offorsi svo uppteknir af því að verja eigin hagsmuni og vina sinna að það blindar dómgreind þeirra þannig að þeir gleyma því sem alþingismenn ættu að berjast fyrir. Það er þjóðarhagsmunum í stað eiginhagsmuna! Kannski þurfum við einfaldlega að hugsa það alveg upp á nýtt hvernig menn veljast inn á þing.

Mér þykir það sjálfsögð krafa að þingmenn séu heiðarlegir og kunni sig í samskiptum við andmælendur sína ekki síður en skoðanasystkin sín. Ég skammast mín þegar ég fylgist með störfum þingsins þar sem veltilhafðir ungliðar ástunda skítkast, útúrsnúninga og frammíköll. Ég sé ekki að slík framkoma stjórnist af hugsjón sem varðar þjóðarhag heldur þvert á móti! Slík framkoma minnir miklu fremur á frekjuhunda sem hafa aldrei þurft að láta neitt eftir sjálfum sér en eru nú skíthræddir um að af þeim verði tekið það sem þeir telja að ósekju sitt. Slík framkomakemur ekki aðeins óorði á þá sem haga sér þannig heldur þingið í heild og þjóðina sem þarf að búa við slíka þingvarga!

Ég vil ekki sjá slíkt lið inni á þingi! Þess vegna langar mig til að vekja athygli á hópi sem er nýstofnaður inni á Facebook. Hópurinn heitir Við viljum frjálst framboð til Alþingis. Krafa hópsins hljómar þannig:

Stjórnun byggist alltaf á trausti ekki bindingu. Alþingi á að vera málstofa margra ólíkra sjónarmiða. Við viljum að á Alþingi sitji hópur einstaklinga sem vill koma að stjórnun landsins og leggja fram krafta sína og sannfæringu án flokksaga - með eigin sannfæringu að leiðarljósi. Þeir sem bjóða sig fram undir merkjum gömlu stjórnmála- flokkana eru alltof oft ekki að bjóða þinginu krafta sína heldur starfa þeir þar sem vélbúnaður vel smurðra flokksvéla. Við viljum framboð einstaklinga sem eru óháðir öðru en sannfæringu sinni. Aðeins þannig má brjóta á bak aftur þá spillingu sem leitt hefur hörmungar yfir íslenskt samfélag.

Þórhallur Heimisson er stofnandi hópins og í þessum skrifuðu orðum eru meðlimir hans orðnir 918.  Ég vona að þú viljir sjá einstaklinga inni á þingi sem ástunda skynsamlega og yfirvegaða orðræðu til að vinna þjóð sinni gagn. Ég vona að þú viljir sporna gegn því að störf þingsins minni á ormagryfju sem étur upp heilbrigða hugsun og mannsæmandi vinnubrögð í þágu alls almennings í landinu. Ég vona að þú viljir leggja þessum málstað lið með okkur hinum sem þegar hafa skráð sig!


mbl.is Frumvarp um stjórnlagaþing úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst sárgrætilegt að þingmenn kunna ekki almenna kurteisi.  Að dónaskapur og frammíköll líðist á hinu háa Alþingi er skömm.  Vanvirðingin er eins og þú segir bæði utan og innan veggja í Alþingishúsinu, 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.2.2009 kl. 22:54

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Já, ég skil hreinlega ekki þessa taktík

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.2.2009 kl. 02:55

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

það er hreint ömurlegt að fylgjast með Alþingi.  Við eigum mikið verk óunnið. Góða helgi

Hólmdís Hjartardóttir, 21.2.2009 kl. 16:49

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Málið er að það er sífellt að koma í ljós meiri svik og undirferli.  Það er raunar með ólíkindum hvað menn leyfðu sér.  Vaðaði var yfir allt á skítugum skónum.  Ég tel raunar að frekar auðvelt verði að komast yfir peninga þeirra.  Það á að meðhöndla þessi aflandsfyrirtæki á sama hátt og um peningaþvætti sé að ræða.  Þar með er hægt að gera allar eignir þeirra upptækar án frekari málalenginga.

Marinó G. Njálsson, 21.2.2009 kl. 19:14

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þið hafið bæði rétt fyrir ykkur! Ég óska þess núna að ég hafði farið í lögfræði þá myndi ég setja alla mína krafta í að vinna að því að þeir, sem óðu yfir þjóðina á skítugum skónum á meðan þeir komust yfir meginhluta fjármuna okkar, þyrftu að svara til saka. Ég er orðin býsna langeygð að bíða þess að þessir einstaklingar verði látnir svara til saka!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.2.2009 kl. 19:32

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég lýt höfði í auðmýkt þegar ég les pistil sem þennan.

Arinbjörn Kúld, 22.2.2009 kl. 00:21

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þó bjartsýnin ráði greinilega ekki ríkjum hjá þér Þórdís mín ertu alltaf jafn yndilseg! Það er auðvitað ískyggilegt þegar annað eins bjartsýnisfólk eins og þú sér ástæðu til svartsýni Hins vegar er það alveg ómetanlegt hvernig þér tekst að segja þannig frá því að maður kemst ekki hjá því að brosa

Þú er svo skemmtilega hnyttin og orðheppin alltaf! Mér finnst þú betri en nokkur Spaugstofa enda á ég alltaf í einhverjum erfiðleikum með að sitja kyrr fyrir framan ferkantaða stofualtarið... miklu skemmtilegra að lesa jafn vel smíðaðan texta eins og þinn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.2.2009 kl. 00:30

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Arinbjörn ekkert oflof hérna

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.2.2009 kl. 00:31

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir pistilinn Rakel og ég tek undir með Þórdísi samfélagið er hannað fyrir siðleysingja.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 22.2.2009 kl. 01:40

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þórdís er snillingur! Hún er einstaklega glöggskyggn kona og fljót að greina aðalatriðin jafnvel í hinum flóknustu málum eins og kemur fram í ábendingum hennar í sambandi við íslenskt lagaumhverfi sem lýtur að þeim efnahagshörmungum sem við stöndum frammi fyrir. Þar eru víða göt sérhönnuð fyrir þá sem telja lögin réttlæta jafnvel siðlausustu athafnir eins og þá að setja eina fámenna og einangraða þjóð á hausinn! Kjöraðstæður fyrir siðleysingja sem ég vona svo sannarlega að okkur takist með sameiginlegu átaki að krefjast að verði kallaðir til ábyrgðar!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.2.2009 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband