Það er eitthvað mikið að!

Drottnarinn og hirð hansÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að svo mikið sem minnast á Kastljósviðtalið við Davíð Oddsson en ég get ekki á mér setið! Mér finnst það svo yfirgengilegt að horfa upp á það hvað fjölmiðlar eins og mbl.is ætla að gera mikið úr þessu viðtali við Davíð að ég velti fyrir mér hvað ræður? Er það hann sjálfur eða einhver annar? 

Hvers vegna vekur það svo mikla athygli þegar hann togar og teygir á sannleikanum í sjónvarpinu og gerir lítið úr öllu og öllum... og já, af hverju er það ekki fréttin? Af hverju er spuni hans hafður eftir eins og hann hafi aldrei sagt eða gert neitt sem stangast fullkomlega á við það sem hann segist hafa sagt og gert? Af hverju draga fjölmiðlarnir ekki frekar fram eðlilegar spurningar og efasemdir um það sem hann segir nú og stangast á við það sem hann sagði og gerði bara fyrir rétt um ári síðan? (Sjá t.d. þetta myndband Láru Hönnu Einarsdóttur og þetta vandaða yfirlit þeirrar sömu)

Af hverju er það svona merkilegt sem Davíð segir þegar hann fullyrðir að hann hafi sagt eitthvað sem við höfum fulla ástæðu til að efast um að sé rétt? Það er heldur ekki eins og það sem hann segist hafa sagt breyti neinu um núverandi aðstæður! Hins vegar eru margir sem hafa bent á lausnir. Af hverju eru þeir ekki í sviðljósi fjölmiðlanna? Af hverju beina fjölmiðlar ekki kröftum sínum og dálksentímetrum að því sem þetta fólk hefur að segja?

Sem dæmi nefni ég bara örfáa af handahófi: Andrés Magnússon, Lilju Mósesdóttur og Þorvald Gylfason. Þessir einstaklingar og miklu fleiri hafa komið með ábendingar og lausnir sem litla sem enga athygli njóta á meðan fjölmiðlarnir apa allt upp sem Davíð Odssson segir. En í mínum eyrum hljómar það flest sem innihaldslaust og gagnlaust sjálfsvarnarþvaður manns sem er í engu sambandi við veruleika meginþorra þjóðarinnar.


mbl.is SÍ varaði í febrúar við hruni í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Margt fjölmiðlafólk er ennþá að matreiða ofan í okkur falskan fréttaflutning, það er kannski það eina sem ég gat verið sammála DO um.

Sigrún Jónsdóttir, 25.2.2009 kl. 00:54

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hrópum ferfalt húrra fyrir Davíð, hann söng aldrei þennan útrásarsöng. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.2.2009 kl. 00:57

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sigrún: Spurning hvort Davíð sér það ekki í því ljósi að fjölmiðlar fari ekki rétt með það sem hann vill að þeir segi Ekki gott að segja

Jóna Kolbrún: Myndbandið hennar Láru Hönnu er virkilega gott

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 00:59

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Vald Davíðs yfir þjóðinni er með ólíkindum. Tjái hann sig fara fjölmiðlar hamförum og helsta umræðuefni landans er hvað mönnum finnst eða fannst. Hann sagði kvitt og klárt að síðasta ríkisstjórn hefði ekki hlustað. Því er hún, samfylking og sjálfstæðisflokkur sek um að hafa ekki lagt við eyru og leyft hruninu að gerast. Hann sem sagt sagði að Flokkurinn væri ábyrgur. Hann ýaði einnig að því að ýmsir stjórnmálamenn og aðrir áhrifamenn hefðu þegið óeðlilegar fyrirgreiðslur frá bönkunum. Svo er nú það.

Arinbjörn Kúld, 25.2.2009 kl. 02:55

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eins og ég sagði þá finnst mér flest það sem Davíð sagði: innihaldslaust og gagnlaust sjálfsvarnarþvaður manns sem er í engu sambandi við veruleika meginþorra þjóðarinnar. Ég vildi að fjölmiðlar færu að beina kröftum sínum að því að ræða við fólk sem segir eitthvað sem kemur þjóðinni að gangi í þeim hörmungum sem við stöndum frammi fyrir.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 03:01

6 identicon

Sæl Rakel,

Ég er nú enginn Davíðs-sinni, en mér fannst þetta viðtal mjög athyglisvert.  Það er í mínum huga orðið ljóst að Seðlabankinn varaði við ástandinu aftur og aftur.  Það er ekki Seðlabankans að opinbera þær aðvaranir, heldur þeirra sem eru varaðir við að bregðast við þessum viðvörunum.  Það var einfaldlega ekki gert eða það sem var gert kom ekki að haldi.  Hvað GAT Seðlabankinn gert meira í stöðunni?  Einhverjum vikum fyrir bankahrunið varaði einhver erlendur sérfræðingur við að íslenska bankakerfið væri að hrynja.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét þau orð falla um þetta að maðurinn væri beinlínis ruglaður og hefði horn í síðu íslendinga.  Nokkrum vikum síðar baðst hún afsökunar á þessum ummælum þar sem þau voru nú orðin að staðreynd!  Ummæli Geirs H. Haarde voru svipuð allt fram á síðsta kvöld: bankakerfið var í góðu lagi.  Mér virðist að þrátt fyrir allt þá hafi Davíð hafi verið í nokkuð góðu jarðsambandi og í sambandi við veruleikan eftir að öll kurl voru til grafar komin.  Þeir sem stjórnuðu voru hinsvegar í lausu lofti og ekkert var gert . 

Kveðja

Arnor Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 05:32

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er ekki að firra neinn sök eða að reyna að varpa allri sök á Davíð. Hins vegar leyfi ég mér að efast um að hann fari rétt með þegar hann fullyrðir að hann hafi margvarað við hruni bankanna.

Skoðaðu færsluna sem ég vísa í hjá Láru Hönnu. Þar er hún með safn af nokkrum viðtölum við Davíð þar sem Davíð lætur í verði vaka að allt sé í ágætu standi hér og blæs jafnvel á hrakspár erlendra fræðinga um hrun bankanna. Eitt þeirra er tekið ellefu dögum fyrir hrun!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 06:06

8 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Það er auðvitað ekki hægt að fara í fjölmiðla með svona aðvaranir... hefði allt farið á kúpuna sama daginn. En mér finnst reyndar merkilegt að hann sé eini embættismaðurinn sem getur sýnt fram á að hafa varað við atburðunum... hitt er svo annað mál...ef ekki hann, hver þá! Ef Seðlabankastjóri er ekki með á nótunum við svona aðstæður, þá hver??

En dj...... er ég orðin þreytt á mannfýlunni! 

Heiða B. Heiðars, 25.2.2009 kl. 09:00

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Og þeir eru sannarlega fleiri

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband