Yfirlit yfir borgarafundina í vetur og næstu framundan
19.3.2009 | 15:51
Ég er stolt af því að tilheyra borgarafundarnefndinni sem varð til hérna á Akureyri upp úr áramótunum. Það var Sigurbjörg Árnadóttir sem reið á vaðið og skipulagði nokkra slíka fundi fyrir áramótin. Ég mætti á tvo þeirra. Þann fyrsta sem var haldinn í Deiglunni og þann stærsta sem var haldinn í Brekkuskóla.
Eftir áramótin gengum við þrjár konur, sem höfðum verið viðloðandi grasrótarsamtökin Bylting fíflanna, til liðs við Sibbu til að halda utan um áframhaldandi borgarafundi. Síðan hefur ein bæst við þannig að í þessum hópi eru nú eftirtaldar: Siburbjörg Árnadóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Embla Ýr Oddsdóttir, ég og Fanney Kristjánsdóttir. Þetta erum við en því miður fann ég ekki nothæfa mynd af Fanneyju.
Frá því að ég kom inn í nefndina hef ég sett inn einhvers konar fundargerðir hér inn á bloggið mitt. Það eru greinilega einhverjir sem nenna að lesa þær en mig langar til að telja upp fundina sem hafa verið haldnir hérna eftir áramótin og vísa í færslurnar sem ég hef gert í sambandi við hvern þeirra. Mig langar til að geta þess að ég hef beðið þá sem eru með framsögur að senda mér ræðurnar sínar og hafa sumir getað orðið við því. Ræður þeirra hef ég svo tengt viðeigandi færslum
- Sá fyrsti var haldinn 23. janúar og fjallaði um niðurskurðinn í menntamálum.
- Næsti var haldinn 28 janúar og fjallaði um niðurskurðinn í heilbrigðismálum.
- Þriðji fundurinn var haldinn þann 8. febrúar og fékk yfirskriftina Landráð af gáleysi. Sá fundur var haldinn í samstarfi við borgarafundarnefndina í Reykjavík.
- Sá fjórði var haldinn 12. febrúar og hlaut yfirskriftina Heimilin á hrakhólum.
- Síðasti fundur var haldinn 1. mars sl. og fjallaði um það hverjum fjölmiðlar þjóna.
Nú í kvöld er svo enn einn fundurinn. Hann verður haldinn í Deiglunni og byrjar kl. 20:00. Fundurinn í kvöld fjallar um stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi á krepputímum. Hér er auglýsing með upplýsingum um frummælendur og aðra í pallborði.
Við erum svo byrjaðar að leggja drög að enn einum fundinum sem verður haldinn í byrjun apríl. Hann hefur fengið yfirskriftina Við viljum breytingar. Þangað ætlum við að bjóða efstu mönnum á þeim listum sem bjóða fram í kjördæminu svo og einum frá Borgarahreyfingunni. Það er reyndar ekki ljóst enn þá hvort hreyfingunni takist að koma saman lista hér fyrir norðan en við viljum samt fá þeirra rödd inn á þennan fund.
Hugmyndin er að tveir til þrír ræðumenn úr hópi þeirra sem hafa látið til sín taka í andófi síðastliðinna mánaða flytji framsögu þar sem þeir setja fram kröfur um breytingar og væntanlegir þingmenn bregðist síðan við þeim. Áheyrendur fá svo að sjálfsögðu tækifæri til að setja fram sínar kröfur og krefja frambjóðendur svara við þeim spurningum sem brenna á þeim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Facebook
Athugasemdir
You Go girls!!! :)
Eru engir kallar þarna með ykkur? :P
Baldvin Jónsson, 20.3.2009 kl. 15:47
Það er vona að þú spyrjir Við erum kannski svona miklar hetjur að þeir þora ekki að starfa með okkur en að öllu gríni slepptu þá erum við búnar að hafa þrjá fundarstjóra. Þeir eru allir karlmenn. Bætir það ekki svolítið upp fyrir þetta kvennaríki
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.3.2009 kl. 18:31
Vonandi gengur ykkur vel með fundinn um stöðu innflytjenda á Íslandi.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.3.2009 kl. 00:17
Hann var mjög flottur. Það var engin fantamæting samt en hann tókst samt vel. Ég mun birta fundargerð hérna fljótlega en ég er að bíða eftir að fá eina af ræðunum senda. Vonandi berst hún mér núna um helgina.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.3.2009 kl. 02:11
hmmmm nú er ég hugsi! Af hverju bara einn frá borgarahreyfingunni? Einn fulltrúa frá borgarahreyfingunni innan um alla þessa hákarla og píranafiska frá hrunflokkunum?
Arinbjörn Kúld, 21.3.2009 kl. 04:08
Einn frá hverjum flokki sem býður fram í kjördæminu þannig að það verður líka einn frá Borgarahreyfingunni hvort sem það tekst að koma saman hér lista eða ekki.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.3.2009 kl. 04:22
okei, ég skildi þig sem svo að efstu á hverjum lista kæmu fram fyrir sinn hrunflokk
Arinbjörn Kúld, 21.3.2009 kl. 05:07
Hmmm, það er einhver misskilningur einhvers staðar en ég átta mig ekki alveg á því hvar hann er. Við ætlum að fá efsta mann af hverjum lista í kjördæminu til að sitja í pallborði. Við ætlum líka að fá einhvern einn frá Borgarahreyfingunni til að sitja í pallborði hvort sem það tekst að stilla saman lista hennar hér í kjördæminu eða ekki.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.3.2009 kl. 11:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.