Frá nýliðnum borgarafundi á Akureyri
7.11.2008 | 01:21
Nú í kvöld var haldinn annar Borgarfundurinn hér á Akureyri. Fundurinn var haldinn í sal Brekkuskóla og hófst kl. 20:00. Yfirskrift fundarins var: Ákall til þjóðarinnar fundum til lýðræðis!!! Það eru akureysk grasrótarsamtök sem stóðu að þessum fundi en þau komu líka að undirbúningi mótmælagöngunnar hérna fyrir norðan sem var gengin laugardaginn 25. okt. sl. og borgarafundinum sem var haldinn í Deiglunni sl. fimmtudag.
Þessi grasrótarsamtök nefna sig Byltingu fíflanna-Revoltion of the dandelions en forsprakkar þeirra eru George Hollander og Sigurbjörg Árnadóttir*. Markmið borgarafundarins í kvöld var að fá svör við spurningum eins og:
Hvernig stendur bæjarfélagið okkar?
Hvaða aðgerða er að vænta þaðan?
Hvað er Almannaheillanefnd? Fyrir hverja, hvar og hvenær?
Eftirtaldir reyndu að svara þessum spurningum fyrst í framsöguerindum en svo með því að sitja fyrir svörum fundargesta:
Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri
Hermann Jón Tómasson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs
Gunnar Gíslason, Almannaheillanefnd
Akureyringar eru nú orðnir 17.500 manns. Á fundinum voru, þegar flestir voru, um 200 manns. Fundurinn fór í raun mjög friðsamlega fram, framan af a.m.k., og benti einn fundargesta á að honum þætti þessi fundur alveg ótrúlega krúttlegur miðað við þær alvarlegu aðstæður sem ríktu í íslensku samfélagi. Miðað við að það eru 400 á Akureyri á atvinnuleysisskrá, nú þegar og ljóst að þó nokkrir munu bætast við um næstu mánaðarmót og enn fleiri um mánaðarmót janúar/febrúar, þá er það svo sannarlega satt hjá honum. Andrúmsloftið breyttist reyndar nokkuð eftir að hann kom þessu og fleiru sem honum fannst gagnrýnisvert á framfæri við þá sem sátu fyrir svörum.
Ég get ekki ætlast til þess að fulltrúar Bæjarstjórnar Akureyrar svari fyrir gjörðir flokkssystkina sinna í ríkisstjórninni. Svör þeirra við ofangreindum spurningum voru m.a. annars þau að staða bæjarsjóðs er ágæt miðað við t.d. ýmis bæjar- og sveitarfélög á suðvesturhorninu. Þau voru spurð nánar út í það hvað það þýddi og kom þá meðal annars fram að þau þyrftu ekki að loka neinum leikskólum eða grunnskólum. Ég fékk gæsahúð...
Einhverjir gagnrýndu stefnu bæjaryfirvalda í atvinnumálum en fundur þeirra og fulltrúa atvinnulífsins hér fyrir norðan er fyrirhugaður á morgun. Það er spurning hvort einhverra stefnubreytinga er að vænta hjá Akureyrarbæ í þeim málaflokki núna. Það verður að segjast eins og er að það er reyndar mjög aðkallandi að svo verði.
Mig langar til að vekja athygli á því hér að Akureyrarbær hefur stofnað sérstaka Almannaheillanefnd. Nefndin var stofnuð 17. okt. sl. Nefndinni er ætlað að styðja og styrkja íbúa á Akureyri og nágrenni sem lenda í vandræðum vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í efnahagslífi þjóðarinnar. Þeir sem eiga fulltrúa í þessari nefnd eru Akureyrarbær, Heilsugæslustöðin, Rauði krossinn, kirkjurnar, verkalýðsfélögin, framhaldsskólarnir, Háskólinn á Akureyri, Vinnumálastofnun og Sjúkrahúsið á Akureyri. (Tekið úr upplýsingum um nefndina sem er að finna inni á heimasíðu Akureyrarbæjar og heimasíðu Verkmenntaskólans á Akureyri)
Þetta er auðvitað lofsvert framtak en það er hins vegar spurning hvort og hvernig þetta framtak komi til með að nýtast þeim sem bíða tjón í þessum efnahagshörmungum sem ríða yfir þjóðina.
Áhyggjur mínar af landi mínu og þjóð aukast dag frá degi. Þessar áhyggjur hafa knúið mig til að standa upp á þessum og síðasta borgarfundi. Að þessu sinni var ég með undirbúna ræðu.
Ég ætla að birta tvö brot úr niðurlagi ræðu minnar sem ég flutti á fundinum í kvöld. Það er e.t.v. rétt að taka það fram að ég hef lagað hana örlítið að breyttum aðstæðum (Það sem tilheyrir ræðunni er blálitað):
Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þeirri merkilegu staðreynd að ýmsir áhrifamenn og -konur í íslensku samfélagi, sem hafa látið í sér heyra af minna tilefni en því sem blasir við almenningi í dag, þegja nú þunnu hljóði. Ég spyr mig þess vegna margra spurninga í sambandi við það hvar þessir einstaklingar eru í dag og hvers vegna þeir kjósa að halda sig til hlés við þær alvarlegu aðstæður sem blasa við þjóðinni í dag. Ég bíð, og ég vona að einhver taki loks frumkvæðið og stígi fram og segi eitthvað sem má verða íslensku þjóðinni til varnar áður en allt verður farið til andskotans.
Ég lauk ræðu minni á því að stinga upp á því að Bæjarstjórn Akureyrar tæki þetta frumkvæði vegna þess að:
Það er nefnilega miklu líklegra að bæjarstjóri Akureyrarbæjar eða aðrir fulltrúar bæjarstjórnarinnar nái eyrum þeirra sem gegna stjórn landsins heldur en t.d. ég sem er bara ein smávaxin kona norður í landi. Ég beini þess vegna þeim vinsamlegu tilmælum mínum og einlægu ósk til ykkar, sem farið með stjórn Akureyrarbæjar, að þið komið eftirfarandi á framfæri við ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir mína hönd og annarra sem treysta sér til að taka undir með mér. Tilmælin eru þessi:
Að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýni heilindi í störfum sínum og framkomu.
Að þeir láti velferð almennings ganga fyrir einstaklingshagsmunum einstakra manna og kvenna.
Að þeir horfist í augu við að óeðlileg fjölskyldu- og hagsmunatengsl eru á milli þeirra sem sitja í ríkisstjórn og hinna sem stýra bönkunum og öðrum mikilvægum stofnunum efnahagslífsins.
Að þeir skipi rannsóknarnefnd skiðaða erlendum sérfræðingum nú þegar.
Ég reikna ekki með að Bæjarstjórn Akureryrar verði við þessu. Hins vegar vona ég og bið þess að ofantalið nái að lokum eyrum einhvers sem hefur áhrif og vill hlusta. Ég bið þess að það verði áður en það er of seint.
Svo það fari nú örugglega ekkert á milli mála þá ætla ég að taka það fram áður en ég lýk þessari færslu að sú skoðun mín að núverandi ríkisstjórn sé óhæf til að fara með forræði íslensku þjóðarinnar hefur alls ekkert breyst. Þvert á móti þá styrkist hún með hverjum deginum sem líður. Þess vegna ætla ég líka að kveðja að hætti Ólínu Þorvarðardóttur að þessu sinni:
Burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!
*Sigurbjörg Árnadóttir er okkar sérfræðingur í finnsku leiðinni. Sú sem stjórnmálamenn ættu að hlusta á til að skilja að sú leið er alls engin gæfuleið. Þvert á móti. Ef þið hafið ekki heyrt í henni áður þá hvet ég ykkur til að lesa þessa færslu Láru Hönnu þar sem hún hefur safnað saman útvarpsviðtölum og blaðaviðtali við Sigurbjörgu. Ég vek líka athygli á að Sibba (eins og hún er kölluð) verður í Silfri Egils núna á sunnudaginn (9.nóv)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:56 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér líka fyrir Tryggvi. Mér þykir virkilega vænt um að heyra að þér þyki gott að fá fréttir af því hvað er verið að gera hér fyrir norðan um þessar mundir
Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.11.2008 kl. 01:52
Hmm af hverju heyri ég ekkert af þessum fundum? Þ.e. sé hvergi nein fundarboð eða slíkt? Hefði ekki skipt máli í kvöld þar sem ég var að vinna en samt!
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 02:32
Ég get ekki svarað því Arinbjörn en ég var reyndar að hugsa um að vekja athygli á fundinum sem var í kvöld með einhverjum fyrirvara hérna á blogginu mínu. Ég hætti svo við það því ég veit svo sannarlega ekki hvort það hefði skilað sér til einhverra sem búa á Akureyri. Reyndar til þín en ég ekkert viss um að það séu fleiri hér á Akureyri sem fylgjast með því sem ég skrifa hér því ég hef nefnilega ekkert haft hátt um það að ég sé að blogga.
Ég hef sjálf frétt af mótmælagöngunni og borgarafundunum tveimur vegna þess að ég er inni á Facebook. Ég er reyndar líka inni á póstlista grasrótarsamtakanna sem hafa staðið að þessu öllu saman núna. Þú getur e.t.v. haft samband við t.d. Sibbu og beðið hana að bæta þér inn á þann lista. Hún gefur m.a. upp póstfangið sibbaa@gmail.com á síðunni sinni inni Facebook.
Svo langar mig til að segja þér og öðrum sem kunna að lesa þetta svolitla sögu í þessu sambandi. Ég hef sent áframsent tilkynningar um ofantalið í tölvupósti á póstlista samstarfsmanna minna. Einhverjir kvörtuðu við yfirmanninn yfir því að ég væri með þessu að stunda pólitískan áróður sem þeim fannst fullkomlega óviðunandi. Hann kom þessu svo áfram til mín í gegnum tölvupóst.
Ég tel mig hafa svarað þessu á frekar hógværan en skorinortan hátt. Það er ekki víst að málið sé búið samt. Ég veit að afstaða mín í því hver ber ábyrgðina á því hvernig er komið fyrir íslenska þjóðarbúinu er mjög lituð af pólitík en ég hef ekkert verið að blanda afstöðu minni inn í tilkynningarnar sem ég hef áframsent.
Það er líka rétt að ég taki það fram að eftir þessi bréfaskipti yfirmannsins og mín á póstlistanum hafa þó nokkrir gefið sig á tal við mig og fagnað því að ég skuli hafa fyrir því að vekja athygli þeirra á þessum aðgerðum. Þó þeir hafi ekki komist sjálfir finnst þeim a.m.k. jákvætt að vita að það sé eitthvað að gerast í þessu samhengi hérna á Akureyri.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.11.2008 kl. 03:17
Sæl Rakel. Flottur pistill og ánægjulegt að sjá að hreifing er líka á landsbyggðinni. Landsbyggðin vill oft gleymast en Akureyri er nú stórborg. Það er líka svo gott að koma meðal fólks sem sama vandamálið brennur á.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.11.2008 kl. 10:34
Takk fyrir það Jakobína Tja, stórborg Margir vilja meina að Akureyri sé stærsta þorpið en það hefur ýmislegt verið að breytast hvað það varðar en núna standa sennilega langflestir í svipuðum sporum hvar sem þeir eru búsettir
Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.11.2008 kl. 15:51
Ég held að fólk á landsbyggðinni sé víðast hvar meira sjálfsbjarga en í Reykjavík. Hefur heldur ekki verið að steypa sér í eins dýr húsnæði. En þetta er sennilega misjafnt eins og allt í þessu.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.11.2008 kl. 22:57
Það er sennilega nokkuð til í því hjá þér. Skattahækkanir og kjaraskerðing vegna hækkandi vöruverðs mun þó bitna jafnt á öllum. Auk þess sem það er ljóst að fyrirtæki víða um land fara á hausinn og þar með störfin sem þau sköpuðu.
Eins og þú segir þá eru þeir kannski hlutfallslega fleiri á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem smituðust af og tóku þátt í góðærinu og fara þess vegna verr út úr þessum efnahagshamförunum. Ég vona bara að það verði ekki til að auka þann ríg sem hefur verið á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.
Ég verð að segja fyrir mig að ég hef samúð með öllum sem þetta ástand bitnar á. Búseta þeirra skiptir ekki máli.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.11.2008 kl. 23:48
Takk fyrir þetta Rakel. Við getum ekki verið eftirbátar Reykvíkinga :-) Kreppan á líka eftir að verða slæm hér úti á landi. Ég mun með þínu leyfi Rakel kíkja á síðuna þín eftir fréttum af fundum og slíku. Því miður Rakel þá munu æði mörg fyrirtæki fara yfir um bráðlega hér á Akureyri. Jæja nóg að sinni, takk fyrir að vera til stelpur, gives me hope. Mér finnst magnað að sjá allt þetta fólk á netinu sem segir sína meiningu.
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 02:15
Arinbjörn, þó það verði ekki nema fyrir þig þá skal ég standa mig betur í því að láta vita af því hér sem ég frétti af að er að gerast hérna á Akureyri. Það munar nefnilega um hvern einstakan
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.11.2008 kl. 05:20
Takk fyrir það Rakel. kv, ari
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.