Til fjarstýrðrar handstýringar
2.4.2014 | 06:41
Enn einu sinni reyndist efnið svo umfangsmikið að horfið var til þess að setja aðdraganda að meginverkefninu; þ.e. samanburði á ferilskrám þeirra tveggja ráðherra sem eru eftir. Eins og þeir sem hafa fylgst með þessum bloggvettvangi er væntanlega kunnugt um þá hefur hann verið helgaður því að bera saman ferilsskrár þeirra einstaklinga sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem sátu í sömu stólum í þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili.
Það er aðeins eitt ráðuneyti eftir en það er Innanríkisráðuneytið. Það hefur heitið svo frá 1. janúar 2011. Þau ráðuneyti og verkefni sem eru komin undir það hétu áður Dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Samgönguráðuneytið (sjá hér). Heiti dóms- og kirkjumálaráðherra var reyndar breytt á síðasta kjörtímabili og nefndist dóms- og mannréttindaráðherra frá 1. október 2009. Heiti samgönguráðherra var aukið á sama tíma í samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (sjá hér).
Það segir sig e.t.v. sjálft að af þessum sökum er saga Innanríkisráðuneytisins svolítið flóknari og efnismeiri en þeirra ráðuneyta sem hafa farið með afmarkaðri málaflokka eða eru yngri. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið er eitt af elstu ráðuneytunum en málefni þess eru eitt af mörgum öðrum sviðum sem heyra undir Innanríkisráðuneytið nú. Yngstu málaflokkarnir eru mannréttinda- og sveitarstjórnarmál sem voru sett undir ráðuneyti innanríkismála á síðasta kjörtímabili.
Hér í framhaldinu verður farið yfir hverjir voru fyrstir til að gegna þeim ráðherraembættum yfir þeim málaflokkum sem nú heyra undir Innanríkisráðuneytið og nokkur verkefni fyrrverandi samgöngu- og mannréttindaráðherra. Samburður á starfsferlum Ögmundar Jónassonar og Hönnu Birnu Kristjánssonar bíður næstu færslu.
Fyrstu dóms- og kirkjumálaráðherrarnir
Embætti dóms- og kirkjumálaráðherra er eitt af elstu ráðherraembættunum í sögu ráðuneyta á Íslandi. Við myndun fyrstu fjölskipuðu heimastjórnarinnar voru þeir þrír sem skiptu eftirtöldum embættum á milli sín: forsætis-, fjármála-, atvinnumála- og dóms- og kirkjumálaráðherra. Frá árinu 1917 fram til 1926 var það forsætisráðherra sem fór yfir innlendum dóms- og kirkjumálum.
Jón Magnússon var fyrsti forsætisráðherra fyrstu þriggja ráðuneyta heimastjórnarinnar sem var mynduð 4. janúar 1917 en hann er líka fyrsti dóms- og kirkjumálaráðherrann. Hann gegndi báðum embættum í alls 6 ár; fyrst frá 1917 til 1922 og síðar frá 1924 til 1926 eða þar til hann lést (sjá hér).
Jón Magnússon var fæddur árið 1859. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum í Reykjavík árið 1881 þá 22ja ára gamall. Tíu árum síðar lauk hann lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla. Eftir stúdentsprófið var hann skrifari í fimm ár (1884-1889) hjá Júlíusi Havsteen amtmanni á Akureyri.
Þegar Jón sneri heim frá námi við Hafnarháskóla var hann sýslumaður í Vestmannaeyjum í sex ár. Í framhaldinu starfaði hann sem ritari landshöfðingjaembættisins frá árinu 1896 til 1904, þá skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til ársins 1908 og síðan bæjarfógeti í Reykjavík frá 1909 til 1917.
Jón var þingmaður Vestmannaeyinga frá árinu 1902 til 1913. Við myndun heimastjórnarinnar í upphafi ársins 1917 var hann inni á þingi sem þingmaður Reykvíkinga. Hann gegndi embætti dóms- og kirkjumálaráðherra í alls sex ár en hann lést á meðan hann var enn í embætti. Magnús Guðmundsson, þáverandi atvinnumálaráðherra, tók við embættisskyldum hans (sjá hér).
Eftir 1926 lagðist sú níu ára hefð af að forsætisráðherra færi jafnframt með dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Það gerðist með þeirri tveggja ráðherra stjórn sem tók við eftir fráfall Jóns Magnússonar. Magnús Guðmundsson var skipaður atvinnu- og dóms- og kirkjumálaráðherra en Jón Þorláksson var forsætis- og fjármálaráðherra (sjá hér).
Magnúsar hefur verið getið áður í þessu verkefni fyrir það að hann var sá fyrsti sem var skipaður yfir bæði iðnaðar- og sjávarútvegsmálin sérstaklega. Þetta var þegar Ásgeir Ásgeirsson tók við forsætisráðuneytinu vorið 1932 (sjá hér). Þá skipaði hann Magnús dómsmálaráðherra ásamt því að setja hann yfir framangreinda málaflokka og svo samgöngu- og félagsmálin. Magnús var þar með líka sá fyrsti sem var skipaður yfir félagsmálin þó það hafi láðst að geta hans hér.
Það er vert að benda á það að Magnús var með sömu menntun og forveri hans yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Jón Magnússon, þegar hann var kosinn inn á þing árið 1916 en áður en hann tók við stjórnartaumunum í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafði hann bætt við sig réttindum hæstaréttarlögmanns (sjá hér). Magnús var dóms og kirkjumálaráðherra í alls þrjú ár. Fyrst árið 1926 til 1927 og síðar frá 1932 til 1934 (sjá líka síðu Innanríkisráðuneytisins).
Það var Jónas Jónsson, jafnan kenndur við Hriflu, sem fór með embætti dóms- og kirkjumálaráðherra á árunum 1927 til 1932. Jónasar er getið hér fyrir það að það vekur athygli að þeir þrír sem höfðu gegnt þessari stöðu á undan honum voru allir útskrifaðir lögfræðingar. Magnús Guðmundsson og Sigurður Eggerz, sem gegndi embættinu á árunum 1922 til 1924, höfðu auk þess báðir aflað sér málflutningsréttinda en allir þrír höfðu líka einhverja reynslu sem sýslumenn, bæjarfógetar eða málaflutningsmenn áður en þeir voru skipaðir ráðherrar yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
Jónas hafði enga slíka þekkingu eða reynslu þegar hann var skipaður ráðherra dóms- og kirkjumála í forsætisráðuneyti Tryggva Þórhallssonar haustið 1927 (sjá hér). Hann var með gagnfræðapróf og tveggja ára framhaldsnám frá Danmörku. Annað árið tók hann í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn en þess er ekki getið að hann hafi lokið náminu. Í framhaldinu tókst hann á hendur ársferðalag um Þýskaland, Frakkland og England með styrk úr landssjóði í þeim tilgangi að kynna sér þarlend skólamál.
Heimkominn varð hann kennari við Kennaraskólann í Reykjavík í níu ár eða fram til ársins 1919 er hann var skipaður skólastjóri Samvinnuskólans, sem þá var í Reykjavík (sjá hér), en hann var skólastjóri hans í rúm 30 ár. Þar af var hann þingmaður í rúm tuttugu ár auk þess að vera dóms- og kirkjumálaráðherra í fimm ár og formaður Framsóknarflokksins í tíu ár (sjá nánar hér).
Auður Auðuns er fyrsta konan sem var skipuð ráðherra á Íslandi. Það var Jóhann Hafstein sem skipaði hana i embætti dóms- og kirkjumálaráðherra 10. október 1970 eða þremur mánuðum eftir að ríkisstjórn hans tók við völdum (sjá hér). Auður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 18 ára gömul. Sex árum síðar lauk hún lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands fyrst kvenna. Þetta var árið 1935.
Í framhaldinu stundaði hún málflutning í heimabæ sínum, Ísafirði, í eitt ár. Síðar varð hún lögfræðingur mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur í tuttugu ár eða á árunum 1940 til 1960. Hún var kosin inn á þing árið 1959 og átti sæti þar í 15 ár. Fyrsta árið inni á þingi var hún samtímis fyrst kvenna til að gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík en hún deildi stöðunni með Geir Hallgrímssyni.
Þegar Auður var kosin inn á þing hafði hún verið í borgarpólitíkinni í þrettán ár eða frá árinu 1946. Hún var áfram borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar í ellefu ár eftir að hún var kosin inn á Alþingi (sjá hér). Allt þar til hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra. Þeirri stöðu gegndi hún í eitt ár (sjá hér).
Fyrstu samgönguráðherrarnir
Tryggvi Þórhallsson var fyrsti samgönguráðherrann en hann var jafnframt ráðherra atvinnumála og forsætisráðuneytisins á sama tíma. Sigurður Kristinsson leysti hann undan embætti atvinnu- og samgönguráðherra í fimm mánuði árið 1931 en að öðru leyti gegndi hann þessum embættum óslitið frá 1927 til 1932 (sjá hér).
Tryggvi hefur komið áður við sögu í þessu verkefni en það var í færslunni Til kvótastýrðs sjávarútvegs þar sem segir að í forsætisráðherratíð hans jukust opinber hagstjórnarafskipti ríkisins verulega. Það var í ríkisstjórn hans sem Jónas Jónsson frá Hriflu var dóms- og kirkjumálaráðherra. Það er óhætt að segja að Jónas var með litríkari einstaklingum á sinni tíð og umdeildur eftir því (sjá hér).
Tryggvi og Jónas höfðu haldið uppi harðri stjórnarandstöðu við íhaldsstjórn Jóns Þorlákssonar [og] skipulögðu kosningafundi og riðu til þeirra um fjallvegi og vegleysur. (sjá hér) Framsóknarflokkurinn tók við stjórnartaumunum haustið 1927 og hófst þegar handa við að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Eitt þeirra voru stórfelldar samgöngubætur og voru tugir brúa byggðar víðs vegar á landinu og reynt að gera vegi sem víðast bílfæra (sjá hér) á þessum tíma.
Áður en Tryggvi var kjörinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn hafði hann starfað sem biskupritari og barnakennari í Reykjavík í eitt ár og gegnt prestsembætti í Borgarfirði í fjögur ár. Hann var settur dósent í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1916 til 1917 en tók þá við ritstjóri Tímans. Því starfi gegndi hann þar til hann varð forsætisráðherra árið 1927. Sama ár varð hann formaður Framsóknarflokkinn (sjá nánar hér).
Á þeim árum sem Tryggvi Þórhallsson var samgönguráðherra var ekki eingöngu ráðist í að leggja bílfæra vegi og byggja brýr. Stórátak var gert í því að koma sveitum landsins í símasamband. Byrjað var að senda póst með flugi innanlands. Árið 1930 tók svo hljóðvarpið til starfa (sjá hér).
Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson sem sat síðar á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn eða á árunum 1931 til 1934. Hann hafði verið ritstjóri Dags á Akureyri og Tímans í Reykjavík áður en hann tók við starfi útvarpsstjóra. Hann tók við ritstjórastöðunni á Tímanum af Tryggva Þórhallssyni en gegndi þeirri stöðu aðeins í tvö ár. Jónas var útvarpsstjóri í 23 ár.
Það er líklegt að þeir séu margir sem kannast við nafn Jónasar Jónssonar frá Hriflu en Tryggvi Þórhallsson er sennilega fáum kunnur þó hann hafi verið vel þekktur á sinni tíð. Hann útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1912. Þremur árum síðar útskrifaðist tilvonandi mágur hans, Ásgeir Ásgeirsson síðar forseti, úr sama námi. Þeir voru samferða á Alþingi í ellefu ár og sögðu sig úr Framsóknarflokknum á sama tíma vegna óánægju sem stafaði m.a. af framgöngu Jónasar frá Hriflu (sbr. Íslenskan söguatlas III bd: bls. 61)
Þegar rýnt er í ferilskrá Tryggva vekur það sérstaka athygli að faðir hans, móðurafi, tengdafaðir, mágur og tengdasonur voru allir alþingismenn í mislangan tíma: Móðurafi hans, Tryggvi Gunnarsson, lengst eða í 30 ár. Þórhallur Bjarnason, faðir hans, sat í 12 ár á þingi. Tengdafaðir hans, Klemens Jónsson, mágur, Ásgeir Ásgeirsson og Magnús Torfason, sem var giftur systur tengdamóður Tryggva, voru allir flokksbræður Tryggva Þórhallsson og samtíða honum inni á þingi. Tengdafaðir hans var reyndar horfinn út af þingi þegar Tryggvi varð forsætisráðherra.
Mágur Tryggva Þórhallssonar, Ásgeir Ásgeirsson, varð næsti forsætisráðherra á eftir honum. Hann skipaði Magnús Guðmundsson, sem er getið í kaflanum hér á undan, yfir samgöngumálin en hann fór jafnframt með sjávarútvegs-, iðnaðar- og félagsmál og var dóms- og kirkjumálaráðherra eins og fram hefur komið áður. Magnús var samgönguráðherra í tvö ár. Embættisheitið kemur ekki fyrir aftur fyrr en í þriðja og fjórða ráðuneyti Hermanns Jónassonar (sjá hér) en þá er Ólafur Thors atvinnu- og samgönguráðherra á árunum 1939-1942.
Það er þó ekki fyrr en með þeirri ríkisstjórn sem Steingrímur Steinþórsson fór fyrir sem Samgönguráðuneytið fær fastan sess í ráðuneytisskipaninni (sjá hér). Þetta var árið 1950 en þá var Hermann Jónasson skipaður landbúnaðar- og samgönguráðherra en hann fór einnig með kirkju- og orkumál. Ólafur Thors og Hermann Jónasson komu ítrekað fyrir í aðdragandafærslum sem voru settar að færslunni um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið (sjá hér, hér og hér).
Þeir sem hafa setið lengst í Samgönguráðuneytinu hafa allir komið úr Sjálfstæðisflokknum. Þetta eru þeir Ingólfur Jónsson sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1959 til 1971. Hann fór einnig með orkumál fram til ársloka 1969 (sjá hér). Annar er Halldór Blöndal sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1991 til 1995 og síðan áfram samgönguráðherra frá 1995 til 1999 (sjá hér). Sturla Böðvarsson tók við Samgönguráðuneytinu af Halldóri og var yfir því til vorsins 2007 (sjá hér) en þá tók samfylkingarþingmaðurinn, Kristján L. Möller, við sem ráðherra samgöngumála (sjá hér). Hann gegndi því embætti til haustins 2010.
Árið 1959 skipaði Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, Ingólf Jónsson yfir samgöngumálin í fimmtu og síðustu ríkistjórninni sem hann fór fyrir. Ingólfur var líka yfir landbúnaðarráðuneytinu. Þessum embættum gegndi Ingólfur til ársins 1971. Ingólfur, sem var fæddur árið 1909, sat í þrjá og hálfan áratug inni á þingi. Þennan tíma var hann yfir tveimur ráðuneytum, fyrst viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu í þrjú ár (sjá hér) og síðan landbúnaðar- og samgönguráðuneytinu í ellefu, þrátt fyrir að hafa aðeins lokið tveggja ára námi frá Hvítárbakkaskóla.
Þess má geta að á meðan Ingólfur var í Samgönguráðuneytinu var Reykjanesbrautin malbikuð/steypt (sjá hér) og var þeirri vinnu lokið haustið 1965. Þetta var fyrsti akvegurinn utan þéttbýlis sem fékk bundið slitlag. Þess má svo geta að hringvegurinn var opnaður formlega þ. 14. júlí árið 1974 þegar Skeiðarárbrú var opnuð (sjá hér). Magnús Torfi Ólafsson var samgönguráðherra á þessum tíma en hann gegndi því embætti aðeins í þrjá mánuði undir lok kjörtímabilsins. Annað sem vekur athygli er að þeir voru alls þrír sem gegndu embætti samgönguráðherra kjörtímabilið sem hringvegurinn varð að veruleika (sjá hér).
Undirbúningurinn hafði staðið í allnokkur ár en framkvæmdin var dýr og þess vegna ekki orðið af henni. Það var Jónas Pétursson, þingmaður Austurlands, sem fékk hugmynd að því hvernig mætti afla fjármagns til að ljúka við hringveginn. Árið 1971 lagði hann fram frumvarp um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið (sjá hér) sem var samþykkt sem lög frá Alþingi 23. mars 1971 (sjá hér).
EES-aðlögun innlendra samgöngumála
Tuttugu árum eftir að Ingólfur Jónsson sat í Samgönguráðuneytinu skipaði Davíð Oddsson Halldór Blöndal yfir bæði landbúnaðinum og samgöngunum í fyrstu ríkisstjórninni sem hann fór fyrir. Halldór fór með landbúnaðarmálin samhliða samgöngumálunum í fjögur ár. Þegar nýtt kjörtímabil rann upp vorið 1995 setti Davíð Halldór yfir samgöngumálin sem hann stýrði fram til ársins 2003 (sjá hér).
Halldór varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959. Í framhaldinu reyndi hann við tvenns konar nám við Háskólann en lauk hvorugu. Hann kom fyrst inn á þing sem varamaður árið 1971 og hafði setið þar eitthvað flest árin þegar hann fékk fast sæti árið 1979. Halldór var fastur þingmaður í tæpa þrjá áratugi.
Í tveimur síðustu færslum var gerð nokkuð ýtarleg grein fyrir því hvernig og hvenær íslenska þjóðin var gerð aðili að þjóðréttarskuldbindingum EFTA- og EES-samningsins (sjá hér og hér). Aðlögun landsréttar (sjá hér) hófst í upphafi sama þings og frumvarpið um að Ísland yrði gert aðili að evrópska efnahagssvæðinu var lagt fram (sjá hér); þ.e. 116. löggjafarþingi (1992-1993). Þetta er á þeim tíma sem Halldór Blöndal var samgönguráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (sjá hér).
Þremur dögum eftir að frumvarpið um aðild Íslands að EES-samningnum lagði Halldór fram frumvarp til breytinga á lögum um samgöngumál vegna væntanlegrar aðildar (sjá feril málsins hér). Halldór Blöndal mælti fyrir frumvarpinu tæpum mánuði síðar sem var 16. september 1992. Þar sagði hann m.a:
Eins og kunnugt er krefst samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði þess að löggjöf einstakra aðildarríkja verði aðlöguð þeim réttarreglum sem aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA hafa komið sér saman um að eigi að gilda á svæðinu. (sjá hér).
Nokkur umræða skapaðist bæði um orð samgönguráðherra og innihald og eðli frumvarpsins sem hann mælti fyrir. Kristinn H. Gunnarsson, sem var í Alþýðubandalaginu á þessum tíma, var einn þeirra sem tók til máls þar sem hann velti fram eftirfarandi spurningum í þeim tilgangi að draga fram það sem honum þótti óeðlilegt við innihald frumvarpsins:
Hver fer með löggjafarvaldið hér? [...] Er hér þingbundin ríkisstjórn eða er þingið þræll ríkisstjórnarinnar? Það sem endurspeglast í þessu fr[um]v[arpi] er hið síðastnefnda. Í 11 greinum fr[um]v[arpsins] eru 13 heimildir til ráðherra til að gefa út reglugerðir og nánast allar heimildirnar eru orðaðar þannig að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði. [...]
Ég vil segja það, virðulegi forseti, að mig undrar að ráðherra í ríkisstjórn skuli leyfa sér að koma inn á þing með fr[um]v[arp] af þessu tagi. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Svar Halldórs Blöndal við þessu segir e.t.v. allt sem segja þarf: Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir [...] að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu (sjá hér) en flokksbróðir Kristins, Jóhann Ársælsson, fylgir því sem þótti athugavert betur eftir. Í ræðu sinni bendir Jóhann á hvers er að vænta verði aðildin að EES-samningnum samþykktur.
Þetta fr[um]v[arp] til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu upplýsir kannski skýrt við hverju menn eiga að búast á næstu árum ef þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. Hér er fr[um]v[arp] lagt fram þar sem nánast er ekki gert ráð fyrir öðru en að ráðherra gefi út reglugerð og hæstv[irtur] samg[öngu]r[áð]h[erra] lýsti því þannig áðan að menn ættu ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að svigrúmið sem hann hefði sem ráðherra væri svo lítið að það væri ekki verið að framselja neitt vald til hans.
En hvert er verið að framselja valdið úr því að það fer ekki til hans? Það er auðvitað verið að framselja það úr landi. Það er verið að framselja það til EB [nú ESB] vegna þess að gert er ráð fyrir því í þessu fr[um]v[arpi] [...], orðalagið segir okkur að ekki eigi bara að setja reglur Efnahagsbandalagsins sem nú eru í gildi í lög á Íslandi eða láta þær taka hér gildi heldur að það nægi að setja allar nýjar reglugerðir á flæðilínuna sem liggur í gegnum samg[öngu]r[áðu]n[eytið] (sjá hér).
Á meðan Halldór Blöndal var samgönguráðherra lagði hann fram tólf lagafrumvörp sem áttu rætur að rekja til samningsins um evrópska efnahagssvæðið (sjá hér). Þessi lög lögðu grunninn að því að strandsiglingar lögðust niður og vöruflutningar færðust yfir á þjóðvegi landsins (sjá hér).
Þessi breyting komst reyndar ekki til fullra framkvæmda fyrr en í tíð Sturlu Böðvarssonar. Hún mætti allmikilli gagnrýni þegar hún var kynnt í ráðherratíð Halldórs. Þá og hingað til hefur hvað eftir annað verið bent á að vegakerfið sé hvorki gert fyrir svo mikla umferð sem landflutningarnir útheimta né eru vegirnir nógu breiðir til að vörubílar geti mæst með góðu móti alls staðar á algengustu leiðunum.
Nú er útlit fyrir að strandsiglingar fái aftur aukið vægi. Í þessu sambandi má benda á að Evrópusambandið gaf það út um svipað leyti og strandflutningar lögðust af hér að það hygðist efla sjósamgöngur og auka flutninga á sjó, ám og vötnum og siglingaleiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun og létta álagi af vegunum (sjá hér).
Það hefur komið fram áður að Sturla Böðvarsson tók við Samgönguráðuneytinu af Halldóri Blöndal. Hann sat yfir ráðuneytinu til vorsins 2007. Af þeim þremur, sem hafa setið lengst yfir samgöngumálunum, er hann óvefengjanlega með mestu menntunina. Hann lauk sveinspróf í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík tvítugur að aldri og varð síðar húsasmíðameistari. Fjórum árum eftir sveinsprófið lauk hann raungreinaprófi frá Tækniskóla Íslands og BS-prófi í byggingatæknifræði frá sama skóla 28 ára.
Sturla var kosinn inn á þing árið 1991 en hafði setið inni á þingi sem varamaður á árunum 1984 til 1987. Hann var sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í Stykkishólmi á árunum 1974 til 1991. Eftir að hann tók við embætti samgönguráðherra hélt hann starfi Halldórs Blöndal áfram við að aðlaga lög um samgöngur, vöruflutninga og fjarskipti að reglum EES-samningsins. Alls lagði hann fram tuttugu frumvörp að slíkum lögum.
Þekktasta embættisverk Sturlu Böðvarssonar er væntanlega frumvarp til umferðalaga sem hann kom í gegnum þingið rétt fyrir þinglok vorið 2007 (sjá hér) eða skömmu áður en annað kjörtímabilið sem hann gegndi embætti samgönguráðherra leið undir lok. Frumvarpið tók m.a. til ökuskírteina sem með lögunum urðu tvö; fyrra er bráðabirgðaskírteini til þriggja ára og það síðara fullnaðarskírteini sem gildir til sjötugs.
Það sem mestrar athygli hefur hlotið kemur ekki fram í lögunum en miðað við það sem Ögmundur Jónasson svarar fyrirspurn um ökugerði í mars 2012 þá hafa reglur um þjálfun ökunema í ökugerði komið fram í reglugerð með þessum lögum (sjá hér). Það er þó ekki ökugerðið sjálft sem hefur kallað á háværustu gagnrýnina heldur það að Sturla var ekki aðeins stjórnarformaður í Ökugerði Íslands heldur var hann í stjórn Byggðastofnunar þegar fyrirtækið fékk þaðan 200 milljóna stofnlán (sjá hér).
Nýleg skýrsla sem nefnist: Eignastýring þjóðvegakerfisins: Greining áhrifa og ávinnings gefur jafnvel tilefni til að álykta að framtíðin feli það í skauti sér að enn frekari einkavæðingar á sviði samgöngumála sé að vænta í framtíðinni. Í inngangi skýrslunnar er vísað til samgönguáætlunar fyrir árin 2011-2020 sem lögð var fram á Alþingi í lok ársins 2011 (sjá hér). Þar segir: Greindur verði ávinningur af áhrifum aukinnar notkunar eignastýringar (e. asset management), þ.e. kerfisbundnu bókhaldslegu utanumhaldi samgöngumannvirkja. (sjá hér) Samkvæmt skýrslunni er einn ávinningur sá að gert er ráð fyrir að þeir sem gegni embætti samgönguráðherra séu læsari á virði samgöngumála ef það er sett fram í tölum:
Vegakerfið er byggt upp til langs tíma, en ráðherrar samgöngumála eru yfirleitt bara skipaðir til fjögurra ára í senn (aðeins 5 af 15 fyrstu ráðherrum samgöngumála náðu því að vera heilt kjörtímabil í embætti). Þeir sem mestu ráða þegar kemur að uppbyggingu og rekstri vegarkerfisins eru því oftar en ekki stutt í starfi, sumir bara nokkra mánuði, og því mjög mikilvægt að hægt sé að koma þeim inn í hlutina fljótt og vel og á auðskiljanlegan hátt.
Með stöðluðum mælingum og ástandsvísun öðlast stjórnendur nokkurs konar mælaborð sem gefa til kynna þróunina. Fáir mælikvarðar eru jafn auðskiljanlegir og fjárhagslegt virði eigna. (sjá hér)
Það má kannski benda á það hér að aðeins einn ráðherra sat á stóli samgönguráðherra í nokkra mánuði en það var Magnús Torfi Ólafsson sem opnaði Skeiðarárbrú sumarið 1974. Tíð stjórnarskipti á árunum 1971 til 1991 hafði þær afleiðingar að tíð ráðherraskipti voru í öllum ráðuneytum íslensku stjórnsýslunnar og hefur þá væntanlega komið niður á öllum sameiginlegum málaflokkum samfélagsins. Það er svo líka alls óvíst að þeir séu margir sem vilji meina að hagur samgöngumála hafi vænkast mjög á Íslandi á síðustu áratubum við það að þeir Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson sátu í Samgönguráðuneytinu lengur en forverar þeirra eða samtals í 16 ár.
Fyrsti mannréttindaráðherrannEitt af stefnumálum síðustu ríkisstjórnar sneri að fækkun ráðuneyta til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. (sjá hér) Í stjórnarsáttmála Samfylkingar og VG kemur ekki beinlínis fram að til standi að leggja kirkjumálaráðuneytið niður en það felst þó væntanlega í þessu hér:
Í nýju ráðuneyti mannréttinda og dómsmála verður til viðbótar við verkefni sem fyrir eru, lögð áhersla á verkefni á sviði lýð- og mannréttinda auk þess sem öll framkvæmd almennra kosninga færist þangað, en hún er nú dreifð á þrjú ráðuneyti. Þangað færast ennfremur neytendamál. (sjá hér)
Haustið 2009 var fyrsta skrefið stigið þegar embættisheiti Rögnu Árnadóttur, sem var skipuð dóms og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, var breytt í dóms- og mannréttindaráðherra (sjá hér). Ragna Árnadóttir er því fyrsti mannréttindaráðherrann. Um feril Rögnu var fjallað í upphafsfærslu þessa verkefnisins sem ber heitið: Mönnun brúarinnar.
Þar kemur m.a. fram að Ragna útskrifaðist frá Háskólanum í Lundi með LL.M.-gráðu í Evrópurétti árið 2000. Á árunum 1991 til 1995 starfaði hún sem lögfræðingur við nefndadeild Alþingis. Eftir að hún lauk meistaragráðunni í Lundi starfaði hún sem skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á árunum 2002 til 2009. Á þeim tíma var hún staðgengill ráðuneytisstjóra þrjú síðustu árin.
Á sama tíma og Ragna var í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu starfaði hún auk þess í fjölda nefnda. Þar á meðal var hún i stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi (CDDH) frá upphafi starfstímans og til ársins 2005. Árið 2005 var hún í sendinefndum Íslands við fyrirtökur hjá eftirlitsnefndum Sameinuðu þjóðanna eða mannréttindanefnd (CCPR) og nefnd um framkvæmd samnings um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) 2005.
Þrátt fyrir að Ragna væri langvinsælasti ráðherra síðustu ríkisstjórnar samkvæmt ánægjuvog Gallups (sjá hér) var hún látin víkja fyrir Ögmundi Jónassyni haustið 2010. Ögmundur tók reyndar ekki aðeins við dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á þessum tíma heldur líka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu af Kristjáni L. Möller.
Í upphafi ársins 2011 var þessum ráðuneytum steypt saman í eitt og gefið nýtt heiti; þ.e. Innanríkisráðuneytið. Það var líka eftir stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar þar sem segir: Fyrir lok kjörtímabilsins er gert ráð fyrir því að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmála ráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti. (sjá hér)
Það er næsta víst að sú áhersla, sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka, á mannréttinda- og innflytjendamál standi í beinum tengslum við þá ætlan að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Sú aðlögun sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili að regluverki alþjóðlegra skuldbindinga um mannréttindamál var þó hafin nokkru áður.
Eins og kom fram í færslunni um Utanríkisráðuneytið og aðdraganda hans voru Íslendingar gerðir aðilar að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna undir lok ársins 1948 og Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins haustið 1953 (sjá hér). Með aðildinni að EES-samningnum í upphafi ársins 1994 jókst þrýstingurinn að hálfu þeirra Evrópustofnana sem íslensk stjórnvöld höfðu framselt vald sitt til með framantöldum samningum og öðrum viðlíka á áratugunum sem eru liðnir frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur þegar árið 1994 (sjá hér). Ári síðar voru gerðar breytingar á Stjórnarskránni í þeim tilgangi að færa ákvæði mannréttindakafla hennar til samræmis við alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Í flutningsræðu með lagafrumvarpinu um breytingar á stjórnskipunarrétti landsins telur Geir H. Haarde þá helstu upp hér:
Þeir alþjóðlegu mannréttindasamningar sem mestu máli skipta í þessu tilliti eru mannréttindasáttmáli Evrópu sem var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994, tveir samningar á vegum Sameinuðu þjóðanna, annars vegar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hins vegar samningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, svo og félagsmálasáttmáli Evrópu. (sjá hér)
Á sama tíma og Mannréttindasáttmáli Evrópu fékk lagagildi á Íslandi (sjá hér) voru viðaukar hans, sem höfðu orðið til frá árinu 1950, lögfestir. Síðan hafa bæst við fjórir sem hafa líka öðlast lagagildi hér á landi. Sá síðasti árið 2010 (sjá hér). Aðrir áfangar sem eru í beinu samhengi og vert er að nefna hér eru lög um útlendinga frá árinu 2002 (sjá feril málsins hér) og frumvarp að lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem var afgreitt frá Alþingi það sama ár (sjá feril málsins hér). Það má vekja athygli á því að árið eftir hófust framkvæmdir við Kárahnjúka eins og hefur verið rakið hér.
Framantalið stendur í beinu samhengi við þær þjóðréttarskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld höfðu undirgengist fyrir Íslands hönd með aðild að alþjóðlegum samningum um mannréttindi en þó virðist einsýnt að í aðildinni að EES-samningnum liggi meginskuldbindingin. Þetta leiðir óneitanlega hugann að þeim orðum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði eftir Lúðvík Ingvarssyni, fyrrverandi lagaprófessor við Hásóla Íslands, í fyrstu umræðu um EES-samninginn þegar hann lá fyrir Alþingi sumarið 1992 (sjá feril málsins hér).
Í grein sem Lúðvík skrifaði í Morgunblaðið af þessu tilefni bendir hann á að þegar Íslendingar voru gerðir aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1950 hafi verið brotið gegn Stjórnarskránni með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig. og í öðru lagi fyrir það að Alþingi samþykkti gildistöku mannréttindasáttmálans með þingsályktun en í 59. gr. Stjórnarskrárinnar segir: Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum. (sjá hér) Í grein Lúðvíks Ingvarssonar segir ennfremur:
,,Frá upphafi bar Mannréttindasáttmáli Evrópu það með sér, [...] ,,að í honum fólst afsal ríkisvalds, þ.e. dómsvalds á því réttarsviði sem hann fjallar um. Má t.d. um þetta benda á 49., 52. og 53. gr. sáttmálans. Hann geymir reyndar líka ákvæði sem fela í sér að erlent stjórnvald er að nokkru leyti sett yfir íslenska handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sbr. 32. gr. (sjá hér)
Það er ekki að sjá að nokkur þeirra stjórnmálamanna sem voru á þingi sumarið 1992 eða þeir sem hafa setið þar síðan hafi tekið nokkurt mark á ábendingum Lúðvíks Ingvarssonar. Dómsmálaráðherrarnir: Þorsteinn Pálsson, Sólveig Pétursdóttir og Björn Bjarnason lögðu fram frumvörp sem urðu að lögum sem hafa grundvallað forgangsáhrif ESB-réttar og bein réttaráhrif gagnvart réttarkerfi (sjá hér) landsins hvað varðar mannréttindi hvers konar. Samkvæmt því sem segir hér hefur það m.a. leitt til þess að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur stöðu nokkurs konar stjórnarskrárígildis á Íslandi (sjá hér).
EB-tilskipanir skera niður velferðarkerfið
Samstarfsyfirlýsing Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gaf fyrirheit um að áfram yrði haldið á þessari sömu braut þar sem segir: Mannréttindasamningar sem Ísland hefur undirritað og fullgilt verði leiddir í lög ásamt því að gerð verði áætlun í mannréttindamálum að norrænni fyrirmynd. (sjá hér) Það kom í hlut vinsælasta ráðherrans í síðustu ríkisstjórn að uppfylla þessi markmið svo og Ögmundar Jónassonar sem tók við af Rögnu Árnadóttur sem dóms- og mannréttindaráðherra haustið 2010 eins og áður hefur komið fram.
Tæpum mánuði áður en Ragna Árnadóttir yfirgaf Dóms- og mannréttindaráðuneytið voru þrjú frumvörp hennar um breytingar á lögum nr. 96/2002 samþykkt á Alþingi. Frumvörpin vörðuðu dvalarleyfi fórnarlamba mannssals, hælismál og Schengen-samstarfið. Það vekur athygli að í greinargerðum með frumvörpunum er almennt ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna þessara lagabreytinga ef það sem snýr að hælisleitendum er undarskilið. Þar segir m.a:
Kostnaður ríkissjóðs vegna hvers einstaklings sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum hefur verið rúm 1 m.kr. á ári hafi viðkomandi verið tekjulaus í sex mánuði en tæpar 2 m.kr. hafi tekjuleysið varað í heilt ár. Á árinu 2009 var 10 hælisleitendum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum og 7 á árinu 2008. Fyrir aukningu um hverja 10 hælisleitendur vegna frumvarpsins gætu útgjöld ríkisins því aukist um 1020 m.kr. á ári. [...]
Auk þess má gera ráð fyrir að kostnaðarauki vegna annarra úrræða í frumvarpinu geti verið á bilinu 812 m.kr. (sjá hér)
Þegar þetta var voru liðin tæp tvö ár frá bankahruninu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði haldið um stjórnartaumana í rúmt eitt og hálft ár. Þrátt fyrir tvær tilraunir ríkisstjórnarinnar til að velta Icesave-skuldum Landsbankans yfir á herðar almennings og þó ekkert bólaði enn á raunhæfum úrræðum varðandi leiðréttingar og afleiðingar efnahagshrunsins voru þeir enn þó nokkrir sem treystu á að uppgjörið sem var lofað í kjölfar útkomu Rannsóknarskýrslunnar væri skammt undan (sjá hér).
Í ljósi þeirra afleiðinga sem bankahrunið hafði haft á kjör almennings, með samdrætti á öllum sviðum ásamt niðurskurði á mennta- og velferðarkerfinu, hefði mátt búast við að lagafrumvörp með óljósum og/eða vanáætluðum kostnaðarauka fyrir ríkissjóð hefði mætt einhverri andstöðu á Alþingi. Það var öðru nær. Þvert á móti hlutu frumvörpin tiltölulega fyrirstöðulausa meðferð og sumir höfðu m.a. hástemmd orð um gildi frumvarpsins um hælisleitendur fyrir orðspor Alþingis.
Miðað við samstarfsyfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar kemur það e.t.v. ekki á óvart að einn þingmaður Samfylkingarinnar taldi að: þegar litið verður yfir þingið nú, [...] verði þessi lög, ef samþykkt verða, talin eitt af því merkasta sem það hefur gert. (sjá hér) Hins vegar vekur það e.t.v. furðu einhverra að einn þingmaður Hreyfingarinnar tók jfnvel enn dýpra í árinni þar sem hann hélt því fram að: þetta mál er rós í hnappagatið fyrir Alþingi og fyrir Ísland og við megum öll vera stolt af því (sjá hér).
Vorið eftir sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) Innanríkisráðuneytinu bréf með fyrirspurn í 28 liðum. Spurningarnar sneru að stöðu innleiðingar Íslands á tilskipun 2004/38/EB um frjálsa för, þar sem gerðar voru nokkrar athugasemdir við innleiðingu Íslands á tilskipuninni. Til stóð að gera úrbætur strax haustið eftir en það reyndist ekki raunhæft. Ári síðar mælti Ögmundur Jónasson fyrir frumvarpi til laga um réttaraðstoð fyrir hælisleitendur. Samkvæmt því sem kemur fram í frumvarpinu fól það í sér þær breytingar á lögum um útlendinga sem telja má óhjákvæmilegar á þessu stigi í ljósi athugasemda ESA. (sjá hér)
Það vekur sérstaka athygli að í lok fylgiskjalsins með frumvarpinu segir að: Verði frumvarpið að lögum er ekki ástæða til að ætla að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. (sjá hér) Í umræðum um frumvarpið benti Ragnheiður Ríkharðsdóttir á að þetta gæti ekki staðist:
Ætlunin með frumvarpinu er sögð sú að tryggja hælisleitendum réttaraðstoð frá fyrstu stigum málsmeðferðar á hælisumsókn þeirra hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er af hinu góða [...] Hins vegar er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins ekki talið að þetta muni hafa neinn kostnað í för með sér. Það stenst ekki. Það stenst ekki að það eigi að veita hælisleitendum réttaraðstoð frá fyrstu stigum og að í frumvarpinu og hjá fjárlagaskrifstofunni sé ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna þess. (sjá hér)
Þeir fáu sem tóku þátt í umræðum um þetta frumvarp í þingsal gagnrýndu það reyndar fyrir fleiri þætti en ekki verður farið ýtarlegar í þá hér þar sem staðhæfingar um óveruleg áhrif á ríkissjóð verða áfram í brennidepli. Í kjölfar framangreinds lagafrumvarps um hælisleitendur og vegabréfsáritanir mælti Ögmundur Jónasson fyrir öðru frumvarpi um Fjölmenningarsetur og innflytjendaráð. Í fylgiskjali með frumvarpinu segir:
Ef frumvarpið verður lögfest óbreytt er ekki ástæða til að ætla að það hafi í sjálfu sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Verði talin ástæða til að auka umsvif og fjölga störfum á næstu árum hjá Fjölmenningarsetrinu vegna nýrra áforma um uppbyggingu málaflokksins verður að gera ráð fyrir að velferðarráðuneytið mæti útgjaldaaukningu á því sviði innan síns útgjaldaramma með forgangsröðun fjárheimilda frá öðrum verkefnum. (sjá hér)
Sá fyrirvari sem er settur um að kostnaður kunni að aukast stendur í beinu samhengi við fyrirhugaðar innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsins um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis nr. 2000/43/EB [...] og tilskipun um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi nr. 2000/78/EB (sjá hér).
Vigdís Hauksdóttir tók virkan þátt í umræðum um þetta frumvarp þar sem hún benti m.a. á samhengi þessara laga við það sem kom fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og VG, þar sem segir að Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð. Ný lög sett um málefni innflytjenda. (sjá hér) Jafnframt bendir hún á að:
árið 2000 voru tæplega 8.500 innflytjendur hér á landi en núna 11 árum seinna eru þeir orðnir 25.693 [25.926 árið 2013]. Ásóknin í að koma hingað er augljóslega að aukast. Samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun hefur orðið stórkostleg fjölgun á innflytjendum hingað til landsins síðan umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var lögð inn sumarið 2009, sem er athyglisvert. (sjá hér)
Í skýrslu sem kom út í júlí á síðasta ári kemur fram að þegar börn innflytjenda eru talin með eru þeir 29.130. Það þýðir að 9,1% landsmanna er annaðhvort innflytjandi eða af annarri kynslóð innflytjenda. (sjá hér) Til samanburðar voru innflytjendur 12% landsmanna í Noregi fyrri hluta árs 2012 en Noregur er það land sem hefur verið talað um að nýbúum hafi fjölgað mest (sjá hér). Í samhengi við framantalið er e.t.v. rétt að minna á að:
Flóttamannasamningurinn sem gerður var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1951 varðandi stöðu flóttamanna er lykilskjal sem ætlað er að ákvarða hver sé flóttamaður, hver réttur þeirra sé og hverjar séu lagalegar skuldbindingar ríkja þegar kemur að málefnum flóttamanna. Viðauki frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna lagði af landfræðilegar og tímabundnar takmarkanir úr samningnum frá 1951. (sjá hér)
Af einhverjum ástæðum hefur Evrópusambandið þrýst mjög á ríki Evrópu nú rúmlega hálfri öld síðar að veita meintum flóttamönnum fyrirmyndar þjónustu. Íslensk stjórnvöld hafa gengið svo hart fram í að þóknast þessari tilskipun á nýliðnum árum að það hefur komið alvarlega niður á annarri þjónustu. Einhverjir hafa jafnvel bent á að sú skerðing sem er farin að blasa við á ýmsum sviðum þeirrar velferðarþjónustu, sem áður mátti kenna við norræna velferð, bitni svo hart á þeim sem þurfa á henni að halda að það megi kallast mannréttindabrot á íslenskum borgurum (sjá hér).
Fjölgun hælisleitenda á Íslandi hefur farið stigvaxandi í kjölfar þess að lagafrumvörpin sem Ragna Árnadóttir mælti fyrir voru samþykkt haustið 2010. Kostnaðurinn átti líka eftir að fara umtalsvert fram yfir þær 10-20 milljónir sem Ragna hafði áætlað sem kostnaðarauka (sjá hér). Þó kostnaður væri ekki allur kominn í ljós árið 2012 þá var álagið á Útlendingastofnun orðið slíkt að það var afar óraunsætt að ætla að aðlögun íslenskra laga um hælisleitendur að reglugerðum Evrópusambandsins hefði engin eða óveruleg áhrif á stöðu ríkissjóðs.
Mánuði eftir að rýmkunin, sem fólst í lagafrumvarpinu, sem Ögmundur Jónasson áætlaði að hefði engan kostnað í för með sér, var samþykkt birtist viðtal við Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, þar sem hún sagði:
Íslenska ríkið kostar uppihald og umönnun hælisleitenda og sú umönnun er miklu dýrari en launakostnaður eins starfsmanns og einn starfsmaður getur alltaf klárað fleiri en eitt mál í mánuði. Þetta er einfalt reikningsdæmi, þannig að því fleiri starfsmenn sem sinna þessu, því ódýrara verður þetta fyrir ríkið og öllum líður betur, bæði umsækjendum og starfsfólki. (sjá hér)
Í byrjun árs 2013 brast á enn stærri flóðbyglja hælisleitenda en hafði sést hér á landiáður. Í mars varð ekki lengur horft fram hjá því að löggjöfin hafði óhjákvæmilegan kostnaðarauka í för með sér. Ljóst er að meira fjármagn þarf til að greiða úr hælisleitendamálum á Íslandi og hugsanlega verður fjölgað í mannaflanum sem sinnir málaflokknum. (sjá hér) Ekki er samt að sjá að þó þetta sé viðurkennt að það hafi verið sett í samhengi við innleiðingu þeirra tilskipana Evrópusambandsins sem hér hafa verið raktar.
Miðað við upplýsingar Innanríkisráðuneytisins frá því í ágúst 2013 er kostnaður ríkisins vegna hælisleitenda meðan umsóknir þeirra eru gaumgæfðar [...] 7.449 kr. á dag. (sjá hér) Kostnaðurinn við umönnun hælisleitenda nam 220 milljónum fyrir árið 2012 (sjá hér) og 600 milljónum króna árið 2013 (sjá hér).
Hér má benda á að á meðan kostnaður vegna þeirra 172 sem sóttu um hæli hér á landi nam 600 milljónum króna á síðasta ári benda gögn Reykjavíkurborgar til þess að 179 einstaklingar séu heimilislausir og hafist við á götum borgarinnar. (sjá hér) Í samhengi við þessar upplýsingar voru sett saman drög að stefnu sem var kynnt í upphafi þessa árs. Heiða Kristín Helgadóttir, formaður starfshóps sem vann stefnuna, segir heildarkostnað við málaflokkinn í kringum 400 milljónir króna. (sjá hér)
Það má minna á að gerður var samningur við Reykjanesbæ um að taka á móti þeim sem sækja um hæli hér á landi og sjá um nú lögbundna þjónustu við þá. Vorið 2013 voru hælisleitendurnir sem voru á vegum Reykjanesbæjar orðnir 190. Þá lýstu forsvarsmenn bæjarins því yfir að ekki væri svigrúm til að taka við fleiri hælisleitendum. (sjá hér) Í þessu ljósi lýsti Innanríkisráðuneytið eftir fleiri sveitarfélögum sem væru viljug til að taka að sér sams konar þjónustu og Reykjanesbær við hælisleitendur (sjá hér)
Um áramót tóku gildi þjónustusamningar innanríkisráðuneytisins við Reykjavíkurborg og Reykjanesbæ um þjónustu við hælisleitendur á meðan mál þeirra eru til meðferðar hér á landi. Í þeim felst að Reykjavík tekur við þjónustunni við fimmtíu einhleypa karlmenn, en í Reykjanesbæ, sem þjónustaði áður alla hælisleitendur, eru nú að því er fram kemur á vef bæjarins 79 manns, aðallega fjölskyldufólk, enda eru þar á meðal 20 börn. (sjá hér)
Þeir 50 hælisleitendur sem eru í Reykjavík búa í um fimmtán íbúðum sem borgin leigir á almennum markaði með húsgögnum. (sjá hér) Miðað við gögn Reykjavíkurborgar eru á sama tíma a.m.k. 64 konur og 112 karlar heimilislausir í Reykjavík. Flestir þeirra eiga uppruna sinn hér á landi eða 89,4%. Aðrir koma frá öðrum ríkjum Evrópu. Flestir frá Austur-Evrópu (sjá hér).
Yngsti einstaklingurinn meðal heimilislausra í Reykjavík er 18 ára og sá elsti 75 ára. Fjölmennustu aldurshóparnir sem hafast að stórum hluta á götunni eru á aldursbilinu 21 til 30 (24%) og 51 til 60 ára (22%). Af þeim 179 sem samkvæmt gögnum Reykjavíkurborgar tilheyra þeim hópi sem stundum er nefndur útigangsfólk hafa a.m.k. 38% verið á götunni í yfir tvö ár en yfir helmingur hópsins segist gista við ótryggar aðstæður (sjá hér). Fyrir þá sem ekki skilja hvað í slíkri staðhæfingu felst má benda á að aðeins eru til 34 gistirými fyrir karla sem eru á götunni. Þegar 112 eru heimilislausir er ljóst að það komast ekki allir í rúm þannig að einhverjir verða að finna önnur ráð til að komast í skjól yfir nóttina.
Það ber að athuga að ofangreind gögn eru byggð á skýrslu frá haustinu 2012 en vorið 2012 segir Þorleifur Gunnlaugsson um aðstæður útigangsfólks í Reykjavík: Öll úrræðin eru nú fullnýtt og eins og áður sagði er nú stöðugt verið að vísa frá neyðarskýli fyrir karla. Árið 2007 dugðu 16 rúm en í dag duga ekki 34 og við þessu verður að bregðast. (sjá hér) Hann bendir líka á að haustið 2008 var samþykkt stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2008 2012. Í plagginu segir skýrum stöfum: Markmið með stefnumótun í málefnum utangarðsfólks er að koma í veg fyrir útigang og tryggja öllum viðunandi húsaskjól (sjá hér)
Helstu heimildir
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Heimildir úr laga- og ræðusafni
Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)
Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Málefni innflytjenda (stjórnsýsla, Fjölmenningarsetur, innflytjendaráð o.fl). frá 13. september til 13. nóvember 2012.
Útlendingar (vegabréfsáritanir, hælisleitendur og EES-reglur). frá 31. mars til 19. júní 2012.
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands (sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.
Útlendingar (dvalarleyfi fórnarlamba mannsals). frá 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (hælismál). 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (þátttaka í samstarfi á ytri landamærum, framfærsla o.fl.) frá 31. mars til 9. september 2010.
Strandsiglingar (uppbygging). frá 15. október til 11. nóvember 2008.
Mannréttindasáttmáli Evrópu (eftirlitskerfi samningsins) frá 16. mars til 4. maí 2005
Mannréttindasáttmáli Evrópu (13. samningsviðauki) frá 13. október til 5. desember 2003.
Strandsiglingar. frá 5. febrúar til 19. apríl 2002.
Schengen upplýsingakerfið á Íslandi. frá 30. nóvember 1999 til 7. apríl 2000.
Stjórnskipunarlög (mannréttindaákvæði) frá 17. maí til 15. júní 1995
Mannréttindasáttmáli Evrópu. frá 18. október 1993 til 6. maí 1994.
Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs. frá 27. nóvember til 20 maí 1992.
Hringvegurinn. frá 19. nóvember 1991 til 10. mars 1992.
Heimildir úr fjölmiðlum (um samgöngumál)
Strandsiglingar spara fyrirtækjum stórfé. visir.is 28. febrúar 2014.
Oftast innanbúðarmaður. mbl.is 1. febrúar 2014.
Eimskip hefur strandsiglingar með viðkomu á Ísafirði. BB.is 7. mars 2013
Brýnt að gera úttekt á úrbótum í vöruflutningum. BB 7. október 2011
Þögn um veð ökugerðis. DV.is 23. júlí 2011.
Kennitöluflakkara lofað hámarksláni. DV.is 19. júlí 2011.
Sturla beggja vegna borðs. DV. 11. júní 2011.
Helmingur viðhaldskostnaðar vegna vöruflutningabíla. mbl.is 23. febrúar 2011.
Flutningabíll slítur vegum á við 9 þúsund fólksbíla. mbl.is 6. maí 2008
Þrýst á þjóðvegina. mbl.is 12. febrúar 2006.
Slysum í landflutningum fjölgar ört. visir.is 9. febrúar 2006.
Ökugerði í sjónmáli. mbl.is 15. júlí 2005.
Eimskip hætta strandsiglingum. mbl.is 31. júlí 2004.
Mikill sigur að fá ökugerði. mbl.is 8. apríl 2004
Guðmundur Rúnar Svansson. Söguleg ákvörðun. Deiglan 6. október 2003.
Ákvörðun um strandsiglingar fyrir áramót. mbl.is 28. september 2006.
Nú stækkar landið. Morgunblaðið 12. júlí 1974.
Heimildir úr fjölmiðlum (um málefni hælisleitenda og útigangsfólks)
Metfjöldi hælisumsókna hér á landi á síðasta ári. mbl.is 16. mars 2014.
Auðveldari félagsleg aðlögun hælisleitenda í borginni. visir.is 20. febrúar 2014.
Útigangsfólk kemur víða að. ruv.is 14. febrúar 2014.
Umsóknum hælisleitenda fjölgaði nærri um 130 prósent á tveimur árum. visir.is 28. janúar 2014.
Hefur safnað 200.000 krónum fyrir útigangsfólk í Reykjavík. dv.is 16 október 2013.
Sveitarfélög viljug til að þjónusta hælisleitendur. visir.is 24. ágúst 2013.
Neyðarástand í Reykjavík. eyjan.is 15. maí 2013.
Samið um aðstoð við hælisleitendur. mbl.is 23. apríl 2013.
Hafa ekki undan að útvega fjölskyldum íbúðir. mbl.is 8. apríl 2013.
Meira fjármagn þarf til hælisleitenda. mbl.is 23. mars 2013.
Geti áfram ákært vegna falspappíra. mbl.is 8. mars 2013.
Janúar ekki lengur rólegur mánuður. mbl.is 9. febrúar 2013.
Endurskoða hælisumsóknarferlið. mbl.is 21. janúar 2013.
Orð tekin úr samhengi. mbl.is 19. janúar 2013.
Sækja til Íslands til að fá frítt uppihald. ruv.is 18. janúar 2013
Harður heimur vímusjúkra á götunni. SÁÁ-blaðið 9. október 2012
Hælisleitendur flytja í Klampenborg. Víkurfréttir 30. júlí 2012
Forstjóri Útlendingastofnunar: Þetta er ekki boðlegt. mbl. 23. júlí 2012.
Aukin fjárframlög til Útlendingastofnunar rædd. mbl.is 15. maí 2012.
Borgarverðir aðstoði útigangsfólk. visir.is 19. mars 2012.
Sjá fréttaknippi um hælisleitendur á mbl.is
Heimildir frá Innanríkisráðuneytinu (og eldri ráðuneytum sem heyra undir það nú)
Fyrri ráðherrar. Innanríkisráðuneytið.
Greinargerð um breytingar á flutningum innanlands. Samgönguráðuneytið o.fl. október 2004.
Mat á hagkvæmni strandflutninga á Íslandi. Innanríkisráðuneytið. 2011
Málaflokkar. Innanríkisráðuneytið.
Reglugerð um vöruflutninga á vegum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. 1995.
Reglugerð um ökuskírteini. Innanríkisráðuneytið. 2011.
Samanburður á beinni gjaldtöku og samfélagslegum kostnaði við flutninga. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. 2005
Samgöngur í tölum. Samgönguráðuneytið 1999.
Samgöngur í þágu þjóðar. Samgönguráðuneytið 2007.
Skýrsla nefndar um flutningskostnað. Samgönguráðuneytið janúar 2003.
Undirbúa ökugerði á Akranesi. Innanríkisráðuneytið. 24. apríl 2006.
Yfirlit yfir lög og reglugerðir eftir málaflokkum. Innanríkisráðuneytið.
Heimildir úr ýmsum áttum
Athugasemdir SVÞ vegna strandsiglinga sendar á Eftirlitsstofnun EFTA. Samtök verslunar og þjónustu.
Aukin hagkvæmni í landflutningum. Samtök atvinnulífsins.
Eignastýring þjóðvegakerfisins. Janúar. 2014.
Erla Björg Sigurðardóttir. Kortlagning á fjölda og högum útigangsfólks í Reykjavík. 2012.
Fjölþættur ávinningur strandsiglinga. Landvernd 3. ágúst 2004.
Flóttamenn og hælisleitendur. Mannréttindaskrifstofa Íslands.
Fækkun ráðuneyta úr 12 í 9. Forsætisráðuneytið.
Hringvegur um Ísland. Þjóðaskjalasafn Íslands.
Jón Valur Jensson. Tryggvi Þórhallsson. gardur.is [án árs]
Mannréttindasáttmáli Evrópu (öðlaðist gildi á Íslandi 3. september 1953)
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna (samþykkt 10. desember 1948)
Samningur um réttarstöðu flóttamanna (Genf 28. júlí 1959)
Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Tölfræðilegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi. Fjölmenningarsetur. júlí 2013
Um Ökugerði Íslands
Verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinsri grænna
Vöruflutningar á íslenskum þjóðvegum i aldarlok. Skýrsla Vegargerðarinnar. 2003.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2014 kl. 15:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.