Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Leikstjórnendurnir á Alþingi
18.3.2013 | 22:57
Framhaldsleikritið: Alþingi leiðir þjóðina til glötunar, hefur staðið yfir í þinghúsinu í allan dag og spurning hvort allir þeir sem hrópuðu snilld yfir tillegginu sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir (sjá hér) séu enn í sæluvímu eða komnir með timburmenn. Við skulum nefnilega minnast þess að á sama tíma og þetta leikrit stendur yfir renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum... eins og Goldman Sachs... (eins og vikið var að hér)
Úr þinghópi Hreyfingarinnar er það ekki bara Margrét Tryggvadóttir sem hefur lagt sitt af mörkum við að hleypa upp þingstörfum nú síðustu dagana fyrir þinglok og þreyta þannig kjósendur í aðdraganda alþingiskosninganna. Ekki er nema ein vika síðan Þór Saari lagði fram sína aðra vantrauststillögu á stuttum tíma á ríkisstjórnina en umræðan um þá seinni fór fram síðastliðinn mánudag og stóð í alls fimm klukkutíma. (sjá hér)
Sumir vilja meina að sú óvenjulega hugmynd að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina, þegar einungis fimm dagar voru eftir af þinginu, sé alls ekki frá Þór sjálfum komin heldur komi hún innan úr Samfylkingunni rétt eins og það pólitíska klofbragð sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir. (sjá hér) Sá orðrómur hefur farið nokkuð víða að einn ötulasti ráðgjafi Hreyfingarþingmannanna, Össur Skarphéðinsson, standi í raun að baki því að Þór Saari lagði fram tvær vantrauststillögur á ríkisstjórnina með stuttu millibili. Tilefni hans sé að losa ríkisstjórnina undan stjórnarskrármálinu.
Hvort sá er tilgangur Hreyfingarþingmannanna skal ekkert fullyrt enda ýmislegt sem bendir til að þau átti sig ekki á því hvað býr að baki því hvernig Samfylkingin etur þeim fram. Reyndar neita þau öllum slíkum staðhæfingum svo og meintum stuðningi þeirra við ríkisstjórnina allt síðastliðið ár og kalla allar ábendingar í þá átt rógburð eða dylgjur.
Hér verður það látið liggja milli hluta hvort um rógburð eða sannleik er að ræða enda líklegt að hið sanna komi í ljós fyrr en síðar. Aftur á móti þá er full ástæða til að vekja athygli á háttalagi utanríkisráðherrans, Össurar Skarphéðinssonar, undir ræðuhöldunum á Alþingi daginn sem seinni vantrauststillagan var til umræðu ásamt tilefninu að baki hennar; þ.e. sl. mánudag sem var 11. mars.
Á meðan þau Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerðu grein fyrir afstöðu sinni var utanríkisráðherrann með stöðug framíköll þar sem hann neri þeim því m.a. óspart um nasir að hafa gert Þór Saari að leiðtoga lífs síns með því að samþykkja vantrauststillöguna (sjá hér) Þetta keyrði um þverbak undir ræðu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.
Ræða hennar tekur rétt rúmar sjö mínútur. Þegar þrjár mínútur eru liðnar byrja framíköllin en alls gjammar hann 16 sinnum fram í ræðu þingmannsins áður en yfir lýkur. Ólína Þorvarðardóttir leggur honum reyndar lið á lokamínútunum:
Ræða Össurar sjálfs vekur svo ekki síður athygli þar sem hann beinlínis notar nafn Þórs Saaris óspart sem einhvers konar gaddakylfu á sjálfsímynd og sjálfsvirðingu þingmanna stjórnarandstöðunnar (sjá ræðuna alla hér)
Jafnvel þó að mér þyki hv. þm. Þór Saari hafa fallið í díkin verð ég að segja að ömurlegast af öllu finnst mér eigi að síður vera virkur stuðningur formanna tveggja stjórnmálaflokka við þá vantrauststillögu sem Þór Saari hefur flutt. [...]
Það sem er sérkennilegt við þá er að þeir breiða yfir nafn og númer, þeir þora ekki að koma hreint til dyranna og þeir leggja ekki fram vantraust í eigin nafni heldur kjósa að fela sig á bak við hið breiða bak hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst það nokkuð broslegt að þessir flokkar sem ganga hér reigðir um sali og telja að þeir séu um það bil að erfa landið og vinna kosningar byrja þá sigurför sína undir forustu hv. þm. Þórs Saaris.
Frú forseti. Kannski hefði ég ekki átt að nota orðið broslegt heldur grátbroslegt í ljósi þess að enginn þingmaður hefur með jafnvafningalausum hætti látið klóru sína rakast um bak og herðablöð þessara tveggja hv. þingmanna og hv. þm. Þór Saari.
Af því að fyrir framan mig situr formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, hv. þm. Illugi Gunnarsson, verð ég að segja að dapurlegast er hlutskipti Sjálfstæðisflokksins. Eru menn búnir að gleyma landsdómsmálinu? Ég er ekki búinn að gleyma því. Það var mér þungbært og erfitt og er það enn.
Ég sá formann Sjálfstæðisflokksins vikna í landsfundarræðu sinni á síðasta ári þegar hann ræddi herförina, réttilega svo nefnda, sem gerð var á hendur föllnum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hver valdi þeim ágæta manni hæðilegustu pólitísku köpuryrðin sem íslensk tunga á að geyma? Það var hv. þm. Þór Saari og það er ekki lengra síðan en í gær sem sá ágæti hv. þingmaður fór nöturlegum orðum um fallinn foringja Sjálfstæðisflokksins.
Í dag, sólarhring síðar, gerist það að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bregður á það prinsipplausa ráð að gerast málaliði hv. þm. Þórs Saaris í herleiðangri hans á hendur ríkisstjórninni. Það eru ill örlög. Menn með réttlæti og sómatilfinningu gráta ekki örlög fórnarlamba slíkra manna einn daginn og slást svo í för með þeim sem málaliðar í næsta stríði.
Mér finnst ótrúlegt að horfa upp á þetta af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ótrúlegt prinsippleysi af forustu þeirra að þora ekki að heyja þessa vantraustsumræðu á eigin grundvelli, á grundvelli eigin stefnu, heldur fela sig á bak við hv. þm. Þór Saari.
Þessi hentistefna er svo undirstrikuð af því að andlag vantrauststillögunnar er sú skoðun hv. þm. Þórs Saaris að stjórnarliðar gangi ekki nógu hart fram í að keyra í gegn frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn, nota bene, er harðastur allra á móti. Það er það skrýtnasta við þessa tragikómedíu. Í reynd eru þeir að lýsa vantrausti á ríkisstjórn fyrir að brjóta ekki með valdi á bak aftur þeirra eigið málþóf og taka með ofbeldi gegnum þingið mál sem þeir eru á móti. Ef þetta er ekki Íslandsmet í prinsippleysi hlýtur það að minnsta kosti að vera Reykjavíkurmet.
Frú forseti. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa í þessum umræðum ausið svartagalli úr öllum sínum keröldum yfir þjóðina og sjá ekki neitt jákvætt sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Það verður þó varla af henni tekið að hún hefur mokað mikið úr flórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig þegar 18 ára stjórnartíð hans lauk með afleiðingum sem munu standa hátt í Íslandssögunni næstu þúsund árin.
Það sem er hlálegast við það allt saman er að enginn hefur lýst því jafnskilmerkilega og einmitt sá maður sem þeir lúta í dag, hinn nýi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, sem aftur og aftur hefur bent á það hversu algjörlega skýrt það kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að fyrst og fremst ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins settu af stað atburðarás sem segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að ekki hafi verið hægt vinda ofan af þegar kom fram um mitt ár 2006.
Þessum manni, sem er búinn að fleiðra þá upp um herðablöð, niðurlægja, skamma og lítillækka, lúta þeir nú í dag. Þeir eru svo deigir að þeir hafa ekki einu sinni kjark til að koma fram undir eigin nafni og númeri til þess að heyja sitt stríð um vantraust á ríkisstjórnina. Það eru kjarklitlir stjórnmálamenn.
... og á meðan þessu hefur farið fram renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum... eins og Goldman Sachs... (eins og bent var á hér)
![]() |
Funda um þinglok klukkan 21:30 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2013 kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í þágu sérhagsmuna
16.3.2013 | 19:56
Þetta er níundi laugardagurinn sem frakkaklæddir efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddir draumóramenn safnast saman á Ingólfstorgi og láta sem það sé þjóðarvilji að skerða réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa ríkisstjórninni vald til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að. (sjá hér)
Að baki mótmælunum standa þeir sem hafa á einn eða annan hátt lagt sig fram um að villa þannig um fyrir innlendri viðspyrnu að sú grasrót sem varð til upp úr bankahruninu lítur nú út eins og eftir sinubruna (sjá bloggpistilinn: Vegavillt viðspyrna) Villumeistararnir hafa splittað sér upp í þrjú framboð sem öll eru eins og lélegt afrit af Samfylkingunni.
Tvö þeirra eiga þingmenn á þingi. Dögun er annað þeirra. Þingmennirnir tveir sem eru félagar þar hafa staðið fyrir hverjum öfgafarsanum á fætur öðrum á fjölum Alþingis á undanförnum vikum.
Nú síðast er það handrit sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir sem mörgum þykir lykta af þvílíkum klækjabrögðum að líkt hefur verið við pólitíkst klofbragð. Yfirlýstur tilgangur er að þvinga stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs upp á þjóðina. Reyndar eru fleiri á því að með þessu muni Margrét Tryggvadóttir ná þeim árangri að ganga frá stjórnarskrármálinu dauðu.
Þar sem það má gera ráð fyrir að þessi sé ekki ætlun Margrétar Tryggvadóttur er eðlilegt að svara þeirri spurningu hvaðan hugmyndin að handritinu er upprunninn. Auðvitað er ekkert öruggt í því sambandi en ýmsir hafa fullyrt að hugmyndin sé komin innan úr Samfylkingunni eins og fleira sem þingmenn þingflokks Hreyfingarinnar hafa haft til málanna að leggja allt síðastliðið ár í það minnsta.
Það allra versta í þessu öllu saman er að á meðan þessir og þeir sem leika sér þannig að öðrum til að halda úti leikritinu: Alþingi leiðir íslenskan almenning til glötunar renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...
Sá þráláti orðrómur hefur nefnilega farið eins og eldur um sinu að fulltrúar Goldman Sachs séu búnir að vera hér á landi síðastliðinn hálfan mánuð (sumir segja sl. níu mánuði) að semja um hvernig þeir nái eignum sínum út úr íslenska hagkerfinu; þ.e. snjóhengjunni. Síðastliðinn hálfan mánuð hafa leikstjórar núverandi ríkisstjórnar att þingmönnum Hreyfingarinnar til hvers farsaþáttarins á fætur öðrum með þeim afleiðingum að almenningur snýr sér að einhverju öðru en að fylgjast með þessari vitleysu...
Stjórnmálamennirnir sem haga sér þannig nú blekktu velflesta kjósendur í síðustu kosningum til meðvitundarleysisins um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samninga sem fólu það í sér að þjóðin skyldi borga Icesave. Strax eftir kosningar kom hið sanna í ljós og allt þetta kjörtímabil hefur farið í viðbragðsaðgerðir ýmissa sjálfboðaliðshópa til að viðhalda möguleikanum til mannsæmandi lífskjara hér á landi.
Það eru þessir sömu stjórnmálamenn ásamt þingmönnunum, sem komust inn á þing vorið 2009 í nafni mótmælaframboðsins, sem bjóða íslenskum kjósendum nú upp á endalausan farsa um stjórnarskrárfrumvarp til að blekkja kjósendur til meðvitundarleysis um samningana sem er verið að gera á bak við tjöldin við hrægammasjóðina.
Á meðan safnast frakkaklæddir efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddir draumóramenn saman á Ingólfstorgi hvern laugardag og láta sem það sé þjóðarvilji að skerða réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa ríkisstjórninni vald til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að. Á meðan renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum... eins og Goldman Sachs...
*******************************
Myndin af vaktstjóra Lýðræðisvaktarinnar og þingmanni Hreyfingarinnar er fengin að láni hjá Árna Stefáni Árnasyni
![]() |
Lágmarksreisn fyrir þingið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2013 kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Í minningu Lagarfljóts...
15.3.2013 | 13:41
Bita fyrir bita, fljót fyrir fljót, hérað fyrir hérað, sýslu fyrir sýslu í skjóli skammsýnarinnar þar til allar auðlindirnar liggja dauðar eftir í þjóðareign...
Bita fyrir bita, fljót fyrir fljót, hérað fyrir hérað, sýslu fyrir sýslu í skjóli skammsýnarinnar þar til allar auðlindirnar liggja dauðar eftir í þjóðareign...
Má ekki bjóða þér gr. í stjórnarskrá um að andvana náttúra sé eign þín - en varna þér leið til að tryggja náttúrunni líf? (tekið að láni í athugasemdakerfinu inn á Fésbókarveggnum mínum)
... hver átti og/eða á Lagarfljót? og skiptir það yfir höfuð máli varðandi það hvernig er fyrir því komið?
Hvaða máli skiptir það fyrir þjóð sem hefur verið svipt réttinum til þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum hver á náttúruna? (sjá 67. grein stjórnarskrárfrumvarpsins)
Skv. stjórnarskrárfrumvarpinu, sem Margrét Tryggvadóttir, og kollegar hennar í þingflokki Hreyfingarinnar, er svo umhugað um að knýja í gegnum þingið fyrir launagreiðenda sinn, þá mun þjóðin í framhaldinu ekki eiga neinn rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt (67. greinin)
Í 111. greininni er ríkisstjórninni gert heimilt að framselja valdi sínu: Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.
Þegar horft er til þessara greina er ekki útilokað að gera ráð fyrir að einhver Margrétin eða Össurinn láti sér detta í hug að beita öllum neðanmittisglímuaðferðunum í bókinni til að knýja slíka framsalssamninga fram til atkvæðagreiðslu.
Í þessu ljósi er eðlilegt að spyrja: Hver á Lagarfljót og hverju breytti það eignarhald varðandi örlög Lagarfljóts? Hvers virði verður lærdómurinn sem má draga af örlögum Lagarfljóts ef ríkisvaldið verður framselt til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að?
Ég spyr enn og aftur: Er þjóð sem hefur afsalað sér réttinum til að hafa nokkuð yfir sjálfu sér og landinu sínu að segja einhverju bættari með brauðmola eins og þann að eiga náttúruauðlindirnar til að mega horfa upp á þær deyja!?! Svona rétt eins og Lagarfljót sem hefur verið úrskurðað látið...
Er smánuð þjóð einhverju bættari með ákvæði í stjórnarskrá um réttinn til eignar á náttúru sem hefur verið smánuð til dauðans?!
**********************************
Myndin af þingmönnum Hreyfingarinnar er tekin að láni hjá Óskari Sigurðssyni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2013 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Á kostnað framtíðarinnar
9.3.2013 | 06:20
Það muna e.t.v. einhverjir eftir þeim gjörningi sem myndin hér að neðan sýnir en það var Katrín Snæhólm sem vakti athygli mína á honum á sínum tíma með bloggi og myndbirtingum.
Það var í desember 2008 sem aðgerðarhópur, sem hafði tekið virkan hátt í mótmælaaðgerðum haustsins, tók sig til og bætti við andlitsmyndirnar sem skreyttu barnavegginn svokallaða. Á verðmiðunum sem voru límdir yfir andlitin er upphæðin sem reiknað var út að yrði gjaldið sem þessi og önnur íslensk börn þyrftu að bera vegna bankahrunsins.
Síðan þetta var hefur þjóðinni tekist að forða því að skuldir eigenda bankanna vegna Icesave félli á framtíðarkynslóðir landsins. Baráttan var oft og tíðum tvísýn ekki síst fyrir skefjalausan hræðsluáróður bæði stjórnmálamanna og ýmissa fræðimanna í háskólum landsins.
Það er ekki ætlunin að fara í neina ýtarlega upprifjun á þessum ummælum hér. Þó finnst mér ástæða til að minna á það sem Ólína Þorvarðardóttir færði í orð á bloggi sínu. Ástæðan eru orðin sem hún lét falla á Alþingi í síðustu viku vegna þróunarinnar í stjórnarskrármálinu:
Þetta er þyngra en tárum taki og ég lýsi sorg yfir því hvernig þetta mál er statt og andúð á vinnubrögðum Alþingis, sagði Ólína Þorvarðardóttir um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi í dag. Ólína sagðist eiga erfitt með að taka til máls vegna sorgar yfir því hvernig farið hefði verið með málið í þinginu.
Hrikalegt væri að sitja undir andsvörum sjálfstæðismanna í skætingstóni eftir allt það sem á undan væri gengið. Þessi atburðarás er öll í boði Sjálfstæðisflokksins, sagði Ólína. (sjá hér)
Í þessu samhengi þykir mér verra fullt tilefni til að rifja það upp sem hún sagði um Icesave haustið 2010. Þann 19. október það ár birti hún færslu á bloggvettvangi sínum á Eyjunni sem ber heitið: Þjóðinni hollt að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave? Til að svara spurningunni í fyrirsögninni vitnar hún í niðurstöðu prófessors í heimspeki við Háskólann á Akureyri sem hann hafði opinberað í Silfri Egils deginum áður. Niðurstaða prófessorsins, sem samfylkingarkonan tók undir á blogginu sínu, er eftirfarandi:
Það er siðferðilega hollt fyrir íslenska þjóð að taka á sig Icesave-skuldbindingarnar. Þar með tekur almenningur þátt í því að þrífa til eftir hrunið og leggja drög að nýrri uppbyggingu. Þar með er einnig tryggt að þjóðin gleymir ekki því sem gerðist, a.m.k. ekki á meðan hún ber byrðarnar af því.
Þessi skrif þingkonunnar vöktu að vonum þó nokkur viðbrögð. Vegna hitans sem kom fram í sumum þeirra hefur þingkonan sennilega fundið sig nauðbeygða til að svara. Þá færslu nefndi hún Siðferði og sálarstyrkur. Í færslunni segir hún m.a. þetta:
[...] þegar hamfarir eiga sér stað, er þó skömminni skárra að taka þátt í björgunarstörfum, hreinsun á vettvangi og uppbyggingunni , heldur en að standa aðgerðalaus hjá. Það er siðferðilega og sálrænt séð betra heldur en að gnísta tönnum í bræði og finna engan farveg fyrir særða réttlætiskennd og sanngjarna reiði.
Sá sem aðstoðar á vettvangi er ekki í öfundsverðum sporum en hann er þó betur settur en hinn sem gefur sig á vald reiðitilfinningum og aðgerðaleysi.
Þeir sem hafa horfst í augu við það sem fram fer meðal þeirra sem hafa komist til valda átta sig væntanlega á því hve varasamt það getur reynst að treysta þessum einstaklingum. Það blasir þess vegna væntanlega við mörgum að það er eitthvað annað sem býr að baki þeirri tilfinningastjórnun sem Ólína og fleiri hafa brugðið fyrir sig í stjórnarskrármálinu.
Það gæti reyndar verið mjög gagnlegt að rifja það upp sem haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í þessari frétt: Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild og setja orð hennar í samhengi við þann atgang og örvæntingu sem hefur einkennt framgöngu stjórnarskrársinnanna að undanförnu.
Það gæti líka verið ganglegt að tengja það saman að margir þeirra sem hafa hæst um stjórnarskrárfrumvarpið nú eru ekki aðeins ESB-aðildarsinnar heldur voru alls ekki fráhverfir þeirri skoðun, sem kemur fram í skrifum Ólinu Þorvarðardóttur, varðandi skyldur þjóðarinnar gagnvart Icesave.
Það sem situr eftir er þetta: Við björguðum framtíðarkynslóðum Íslands undan Icesave en tekst okkur að bjarga þeim undan stjórnarskrá sem sviptir þau réttinum til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni eins og Icesave?! (sjá hér) Það er líka ástæða til að vekja athygli á möguleikanum sem er opnaður á framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana í umræddu stjórnarskrárfrumvarpi. (sjá hér)
**********************************************************************
Bloggið hér að ofan er að nokkru leyti byggt á eldri bloggfærslu frá því í október 2010
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2013 kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bankanum er sama um þig
8.3.2013 | 00:01
Haustið 2010 tóku nokkrir einstaklingar sig saman og komu upp sérstöku bloggsvæði til að vekja athygli á niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis. Bloggsíðan var stofnuð 24. ágúst 2010 og lifði fram til atkvæðagreiðslunnar um landsdóm 28. september 2010. Þar sem ekkert uppgjör hefur farið fram eftir hrunið á margt af því sem þar var skrifað fullt erindi enn.
Hér er endurbirt færsla sem fjallar um breytinguna, sem átti sér stað við einkavæðinguna, á starfsemi bankanna. Færslan sem um ræðir heitir: Takmarkalaust virðingarleysi gagnvart almenningi Hún er birt hér með minni háttar frávikum sem koma einkum fram í því að hér hafa verið settar millifyrirsagnir og sett ný lok sem eru í sérstökum kafla.
Fjárfestingabankar í stað viðskiptabanka
Það má gera ráð fyrir að eftirfarandi lýsing sé sú mynd sem flestir hafa hingað til gert sér af eðlilegri bankastarfsemi:
Hefðbundin bankastarfsemi felst í því að taka við innlánum frá sparifjáreigendum, sem vilja geyma fjármuni sína í lengri eða skemmri tíma, og lána áfram til arðbærra verkefna. Bankinn er fjárvörsluaðili þeirra sem trúa honum fyrir sparifé sínu og þarf að vera gætinn í lánum til annarra þannig að hann verði ekki fyrir of miklum útlánatöpum. Lögð hefur verið áhersla á þá ímynd að að bankinn beri umfram allt hag viðskiptavinarins fyrir brjósti og í því skyni hafa í áranna rás þróast íhaldssamar reglur í þessum samskiptum. (bls. 59)
Fyrir einkavæðinguna nutu íslenskar fjármálastofnanir trausts sem grundvallaðist á þessari mynd. Á þeim ellefu árum sem eru liðin frá því að hún átti sér stað hefur þetta heldur betur snúist við. Við einkavæðinguna hófust hinir nýju eigendur þeirra handa við að breyta bönkunum, sem þeir komust yfir, úr hefðbundnum innlánsstofnunum í fjárfestingabanka sem hafa það hlutverk að þjónusta viðskiptalíf og stóra fjárfesta. Tekjur fjárfestingabanka byggjast ekki á muninum á innláns- og útlánsvöxtum heldur þóknunum fyrir þjónustuna við viðskiptalífið og stóra fjárfesta.
Almenningur fylgdi ofangreindum breytingum ekki eftir [heldur] treysti bankanum sínum eins og hann hafði alltaf gert . Fæstir gerðu sér grein fyrir að með nýjum tímum voru komnir gjörbreyttir siðir. (bls. 59)
Almenningur varð varan sem gaf arð
Viðskiptavinirnir gerðu sér þess vegna ekki grein fyrir að ekki var lengur litið á þá sem skjólstæðinga bankanna heldur sem vöru sem gat gefið arð. Samkeppni, bæði á milli bankanna og innan þeirra, jókst gríðarlega. Bankarnir kepptust við að bjóða í viðskiptavini samkeppnisaðilanna með alls kyns gylliboðum og innan bankanna var komið upp söluhvetjandi bónuskerfi.
Þetta hafði þær afleiðingar að þjónustu- fulltrúarnir sem viðskiptavinirnir álitu að hefðu þeirra hagsmuni í huga voru oft og tíðum að veita ráðgjöf varðandi þjónustu bankans sem skilaði þeim sjálfum aukagreiðslu í vasann. Þ.e.a.s. ef kúnninn beit á agnið.
Þetta skýrir m.a. þá gífurlegu áherslu bankanna á alls konar þjónustuformum eins og t.d. það sem náms- mönnum er boðið upp á. Í þessu ljósi kemur það almenningi tæplega á óvart nú hve mikil ásókn var í að selja honum nýjar vörur eða þjónustu í bankanum. (bls. 60)
Almennt litu viðskiptavinir bankanna á þjónustufulltrúann, sem þeir voru í mestum samskiptum við, sem velgjörðarmann sinn sem þeir gátu treyst. Þjónustufulltrúar hafa líka aðgang að trúnaðarupplýsingum sem varða fjármál viðskiptavinanna þannig að það er e.t.v. ekki nema eðlilegt að almenningur vilji trúa því að þeim sé treystandi.
Þjónustufulltrúi = Aflar bankanum tekna og fær bónus fyrir
Eftir einkavæðinguna fengu þjónustu-fulltrúarnir hins vegar nýtt hlutverk sem væri nær að skilgreina sem sölumann þar sem þeim bar frekar að þjóna skammtímahagsmunum bankans fremur en hagsmunum viðskiptavinarins. Þessi nýja skilgreining hafði þær óhjákvæmilegur afleiðingar að þjónustufulltrúarnir gátu ekki lengur verið í hlutverki velgjörðamannsins sem setur hagsmuni viðskiptavinarins í öndvegi.
Þessar breyttu áherslur í starfi bankanna voru aldrei kynntar út á við. Þær komu heldur hvergi fram í samskiptum þeirra við almenna viðskiptavini. Hefðu viðskiptavinirnir t.d. verið upplýstir um það að þjónustufulltrúarnir fengu greitt fyrir hverja þá vöru sem þeir seldu þeim þá hefðu þeir eflaust litið öðruvísi á hlutverk þessara starfsmanna bankans.
Það er hins vegar ljóst að Fjármálaeftirlitið vissi af þessum nýju áherslum þó að starfsmenn þeirra hafi ekki aðhafst neitt varðandi þetta atriði fremur en önnur sem tengjast vafasömum starfsháttum bankanna á þessum árum. Því miður eru dæmin fjölmörg um það að bankarnir reyndu að blekkja einstaklinga til viðskipta þó enginn þeirra verði rakin hér.
Illráð í hagnaðarskyni
Það er að sjálfsögðu á ábyrgð einstaklingsins að taka ekki of mikla áhættu í lántöku en maður skyldi ætla að áhætta einstaklingsins á því sviði væri líka áhætta bankans. Það er líka eðlilegt að gera ráð fyrir að þeir sérfræðingar sem vinna hjá bönkunum búi yfir einhverjum starfsheiðri þannig að eðlilega gerði almenningur sér ekki grein fyrir því að oft og tíðum stríddu ráðleggingar bankanna gegn almennu siðferði og góðum starfsháttum.
Dæmi um þetta eru t.d. svonefnd barnalán Glitnis (sbr. bls. 65) og framsetning bankanna á kynningum varðandi ýmsar áhættufjárfestingar eins og í hlutabréfakaupum og kaupum á svokölluðum peningabréfum sem starfsmönnum allra bankanna var ráðlagt að kynna sem áhættulausa fjárfestingu. (sbr. bls. 63)
Þessi kúvending á starfsemi bankanna má rekja til þess að ábyrgð og raunsætt áhættumat vék fyrir voninni um áhættulausan hagnað. Hugmynd sem af öllum sólarmerkjum að dæma er runnin undan rifjum þeirra sem ráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgeirsson lögðu svo ríka áherslu á að eignuðust bankanna að þeir fóru á svig við lögin til að koma þeim ásetningi í kring.
Sjónarmið skammtímahagnaðar réðu ferðinni en ekki ábyrgð gagnvart samfélaginu. Allar leiðir til hagnaðar voru nýttar til fulls og eftirlitið stóð að mestu leyti aðgerðarlaust hjá. (bls. 67)
Takmarkalaust virðingarleysi
Það er ástæða til að vekja athygli á því að höfundar 8. bindisins taka það sérstaklega fram í lok kaflans sem þessi skrif byggja á að: Ástæða er til mun ítarlegri rannsóknar á afstöðu Fjármálaeftirlitsins til ýmissa vafaatriða í íslensku viðskiptalífi. (bls. 67 (leturbreytingar eru höfundar).
Það má hverjum vera orðið ljóst að innan bankanna var/er áhugaleysið á vönduðum starfsháttum nær takmarkalaust. Sömu sögu er að segja um virðingarleysið fyrir lögum og reglu. Stærstu eigendurnir og æðstu stjórnendur notfærðu sér stöðu sína óspart til að hygla sjálfum sér á kostnað almennra viðskiptavina bankanna.
Það er því óhætt að segja að bæði í því og því sem síðar hefur komið fram í orðum þeirra og gjörðum endurspeglist ekki síst takmarkalaust virðingarleysi gagnvart almennum borgurum svo og samfélagslegum hagsmunum.
Nægir þar að nefna viðtöl við marga þeirra svo og aðrar yfirlýsingar þeirra sjálfra á opinberum vettvangi en hér verður vikið að einu slíku dæmi úr Rannsóknarskýrslunni:
Þegar Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, baðst afsökunar í Kastljósviðtali í ágúst 2009 um tíu mánuðum eftir að bankinn hans féll, tiltók hann sérstaklega hluthafa bankans, kröfuhafa og starfsmenn. Aðspurður taldi hann sér ekki skylt að biðja þjóðina afsökunar.
Annan hóp vantaði þó tilfinnanlega í upptalningu hans: það voru sparifjáreigendur - fólk sem hafði trúað bankanum fyrir sparifé sínu og tapað hluta þess í peningamarkaðssjóðum eða öðrum sparnaðar-formum, svo ekki sé talað um þá almennu viðskiptavini sem hafði verið ráðlagt að taka erlend lán eða kaupa hlutafé í bankanum þegar best lét. (8. bd. bls. 59 (leturbreytingar eru höfundar)
Það er ekkert vafamál að ef ekki hefði komið til stefnubreyting ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þegar bankarnir voru einkavæddir þá hefðu þeir sem eignuðust bankana í kjölfarið aldrei komið til greina sem eigendur þeirra. Þess vegna ætti það að liggja í augum uppi að þeir sem ullu eiga ekkert síður að bera ábyrgð en eigendurnir og svo þeir sem stýrðu bönkunum af slíku taumleysi sem raun ber vitni.
Ofangreindar línur eru aðallega byggðar á bls. 58-67 í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar.
Einkabankar búa til peninga með lánum
Þrátt fyrir hrunið eru þeir þó nokkrir sem skilja það ekki enn hvernig það vildi til. Þeir sem eru enn í þeim sporum þurfa að horfast í augu við það að á sama tíma og bankarnir voru einkavæddir fengu eigendur þeirra einkaréttinn til peningaprentunar. Þetta hljómar ekki gáfulega en þetta er því miður staðreyndin.
Við einkavæðingu bankanna vildi svo furðulega til að ríkið var áfram ábyrgt fyrir rekstri bankanna; þ.e. ef bankinn færi í þrot. Eigendur einkareknu bankanna báru og bera ekki enn neina ábyrgð gagnvart samfélaginu. Eigendur íslensku bankanna nýttu þetta óspart og lánuðu ótæpilega þar sem lánin veittu þeim ekki einungis arð í formi ýmissa lánskostnaðarliða eins og vaxta og verðtryggingar heldur færa þeir lánin sér til eignar.
Það vita allir að slíkt bókhaldsfiff getur aldrei gengið upp nema koma einhvers staðar niður. Það að færa lán sem eignir og lifa í vellystingum af því sem ekki er innistæða fyrir er ekki aðeins fullkomið ábyrgðarleysi heldur sýnir það hið algjöra siðleysi sem hefur blómstrað við vissuna frammi fyrir því að þegar allt springur þá er það ríkið, eða réttara sagt skattborgararnir, sem sitja uppi með afleiðingarnar. Þannig var það haustið 2008 og það er ekkert sem hindrar það að sams konar hrun bankanna endurtaki sig.
Hér er að lokum myndband frá Positive Money sem dregur fram mjög skýra mynd af því hvernig peningamyndunin fer fram innan núverandi bankakerfis og með hvaða afleiðingum.
Það liggur væntanlega í augum uppi eftir áhorfið að það er ekki spurning um það hvort valdið til peningamyndunar verði tekið af einkareknu bönkunum heldur hvernig og hvenær. Þeir sem vilja fræðast um aðferðina sem hefur verið lögð fram á íslenska þinginu er bent á þessa slóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sexflokkurinn
5.3.2013 | 17:49
Þó mér sé orða vant vegna þess sem blasir við á myndum frá fundi sem sagður er vera fundur formanna flokkanna um framhald stjórnarskrármálsins þá ætla ég að gera tilraun til að orða það sem kom upp í huga minn.
Myndin var tekin að láni hjá visir.is
Það blasir væntanlega við öllum að á myndina vantar einn formann stjórnmálaflokks sem er þingmaður á Alþingi. Það er rétt að hann situr ekki inni á þingi sem þingmaður þess stjórnmálaflokks en það gera hvorki Guðmundur Steingrímsson né Birgitta Jónsdóttir heldur. Það er rétt að flokkurinn sem Lilja Mósesdóttir gegnir formennsku fyrir er ekki á leið í framboð en það er Hreyfingin ekki heldur og afar ólíklegt að Píratarnir nái því þó þeir haldi slíku fram.
Það blasir við að þessi fundur er skýr birtingarmynd þess eineltis sem hefur viðgengist á Alþingi allt þetta kjörtímabil. Hann er ekki aðeins birtingarmynd þess eineltis sem Lilja hefur þurft að þola af hendi þeirra sem sitja fyrir á myndinni heldur líka þess sem skjólstæðingar málstaðarins, sem hún hefur ein barist fyrir að einhverju marki, hafa liðið fyrir; þ.e. kjósendur sem byggja heimilin í landinu!
Þeir sem láta sem ekkert sé eru óbeinir þátttakendur í þessu einleti eins og í öðrum þeim tilvikum þar sem um einelti eða annað einstaklings-/málefnamiðað ofbeldi er að ræða! Þeir fjölmiðlar sem láta sem þeir taki ekki eftir því að það vantar einn formanninn á myndina eru skýrasta dæmið um slíka þátttakendur!
Það er rétt að taka það fram í þessu sambandi að Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, gerði athugasemd við fundarboð Samfylkingarinnar í gærkvöldi og benti á að Lilju Mósesdóttur vantaði á boðslistann. Aðrir gerðu enga athugasemd.
Eins og kemur fram á þessari mynd og öðrum sem teknar voru á fundinum þá breytti ábending Sigmundar Davíðs engu um það að sjöundi formaðurinn var ekki boðaður til fundarins og hann því haldinn án hans!
![]() |
Engin niðurstaða um stjórnarskrána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
SAMSTAÐA verður áfram baráttuafl
10.2.2013 | 01:38
Landsfundur SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar var haldinn í gær að Kríunesi við Elliðavatn. Þar var samþykkt að bjóða ekki fram í komandi alþingiskosningum. Í þess stað mun flokkurinn einbeita sér að því að hafa mótandi áhrif á stjórnmálaumræðuna.
Í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla að fundi loknum segir að: Flokkurinn mun beita sér fyrir lausnarmiðaðri umræðu á opinberum vettvangi um brýn mál sem varða lausn á skuldavanda heimilanna, afnám gjaldeyrishafta án þess að snjóhengjunni verði varpað á íslenska skattborgara, betra peningakerfi og framtíðarsýn án ESB-aðildar.
Nokkrar áskoranir komu fram á landsfundinum til Lilju Mósesdóttur um að hún gæfi kost á sér til formanns SAMSTÖÐU. Hún varð við áskoruninni og var kjörin formaður flokksins með atkvæðum allra sem voru viðstaddir fundinn.
Rakel Sigurgeirsdóttir er varaformaður en aðrir í stjórn flokksins eru: Jón Kr. Arnarson, Eiríkur Ingi Garðarsson og Jónas P. Hreinsson. Þessir eru varamenn: Hallgeir Jónsson og Helga Garðarsdóttir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Lítilsvirðing eða fíflska
2.2.2013 | 07:32
Ómar Geirsson hefur fjallað þó nokkuð um þann fámenna hóp sem hefur haldið uppi þeim málflutningi að það sé þjóðarvilji að stjórnarskrárfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi verði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þessi hópur hefur nú endurvakið reglulega laugardagsfundi á Austurvelli með Hörð Torfason í broddi fylkingar til að krefjast þess að Alþingi láti þennan vilja ná fram að ganga. (sjá hér)
Í dag verður þriðji útifundurinn haldinn og eru tveir framsögumenn á fundinum. Það eru þau Katrín Fjeldsted, heimilislæknir og Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði.
- Katrín Fjelsted var kosin formaður Evrópusamtaka lækna (CPME) á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Brussel í júní í fyrra og tók við því embætti 1. janúar síðastliðinn. (sjá hér).
- Þorvaldur Gylfason hefur á undanförnum árum verið tíður ráðgjafi AGS, framkvæmdarstjórnar ESB og EFTA auk þess sem hann hefur haldið fyrirlestra um efnahagsmál á vegum þessara í Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. (sjá hér)
Því má svo bæta við að Þorvaldur og Katrín voru bæði í stjórnlagaráði.
Eins og þeir, sem hafa fylgst með umræðunni um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs, kannast við er langt frá því að vera einhugur um ágæti frumvarpsins. Ein þeirra greina stjórnarskrárdraganna sem margir gjalda varhug við er 67. greinin sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í ljósi nýfallins dóms EFTA-dómstólsins um Icesave-málið hafa fleiri tekið að velta inntaki hennar og tilgangi fyrir sér. Greinin hljóðar þannig:
Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. (sjá hér)
Lilja Mósesdóttir, þingmaður, er ein þeirra sem hefur vakið athygli á því hvað þetta þýðir. Í ræðu sem hún flutti í sérstökum umræðutíma þingsins um niðurstöðu dómsins sem var birtur síðastliðinn mánudag sagði hún um þetta atriði:
Íslendingar hafa nú eftir EFTA-dóminn sýnt fram á mikilvægi þess að þjóð hafi stjórnarskrártryggðan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og varðandi skattaleg málefni.
Við megum því ekki samþykkja stjórnarskrártillögur sem ekki tryggja rétt kjósenda til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af sama toga og Icesave-málið. (sjá hér líka hér þar sem Lilja gerir grein fyrir afstöðu sinni til nýrrar stjórnarskrár)
Í ofangreindu ljósi orkar það mjög tvímælis að til stendur, eftir því sem kemur fram í auglýsingu inni á Fésbókinni um framangreindan útifund, að veita þeim grasrótarhópum viðurkenningu sem knúðu fram þjóðaratkvæðagreiðslurnar sem fram fóru um Icesave-málið. Texti auglýsingarinnar hljóðar þannig:
Í lok fundar mun Hróshópurinn veita þeim grasrótarhreyfingum og sjálfboðaliðum sem hafa starfað gegn IceSave-málinu viðurkenningu. Fjöldi manns hefur lagt á sig mikið starf í sjálfboðavinnu til að tryggja hagsmuni íslensks almennings. Þetta fólk á þakkir skildar. Vonumst við til að sjá fulltrúa frá þessum hópum; InDefence, Advice, kjosum.is og Samstaða þjóðar. (sjá hér)
Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hvort það sé til eitthvert kjarnyrt og lýsandi nafnorð um þá sem láta sem 67. grein stjórnarskrárfrumvarpsins snúist um eitthvað annað en útiloka það að knúnar verði fram þjóðaratkvæðagreiðslur um þjóðréttarskuldbindingar sem fram kunna að koma í framtíðinni og ganga m.a.s. svo langt í meintu skilningsleysi sínu að þeir vilja stefna þeim fjölda sem lagði á sig mikið starf í sjálfboðavinnu til að tryggja hagsmuni íslensks almennings til að taka við einhverju, sem á að heita viðurkenning, á útifundi um betri stjórnarskrá?
Ég get heldur ekki annað en spurt þess líka hvort það eru til orð til að lýsa þeirri niðurlægingu sem baráttufólkinu fyrir Icesave er sýnt með því fullkomna taktleysi að stefna þeim sem börðust fyrir Icesave til óbeinnar þátttöku í útifundi sem snýst um það að taka leiðina af komandi kynslóðum sem þessu fólki var fær til árangurs í þeirri baráttu? ... eða er þetta bara fíflska?
![]() |
Stóra stríðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Að sá til ógæfunnar
1.2.2013 | 07:08
Það hefur verið mjög sérstakt að horfa upp á hatur ýmissa fjölmiðlamanna á Lilju Mósesdóttur.
Ég er ein þeirra sem hef margsinnis undrast það hvernig hún hefur staðið á móti og haldið ótrauð áfram við að vinna að markmiði sínu og loforðinu sem hún gaf kjósendum sínum vorið 2009. Þá lofaði hún almenningi að nýta sérfræðikunnáttu sína til að vinna að almannahag, leiðrétta misréttið og jafna kjörin og síðast en ekki síst að leggja til lausnir sem tryggðu efnahagslegt sjálfstæði Íslands.
Út frá mínum bæjardyrum séð hefur hatri eins og því sem lekur úr penna Jóhanns Hauksson í skrifum hans hér að neðan verið markvisst beitt til að hindra það að þingmaðurinn, Lilja Mósesdóttir, nái fram þessu markmiði sínu. Hatrið hefur komið fram í rógburði og vefengingum sem hafa því miður verið skammarlega áberandi í fjölmiðlum allt þetta kjörtímabil.
Hvers vegna spyrja eflaust margir? Svarið liggur í því að horfa til þess hverjir tapa á því að misréttið yrði leiðrétt, jöfnuðurinn aukinn, farin yrði skiptigengisleiðin ásamt því að öðrum lausnarmiðuðum leiðum, sem Lilja hefur mælt fyrir til að vinna á afleiðingum efnahagshrunsins, yrði framfylgt. Það má líka horfa til þess hvernig þessir tengjast eignahaldi á íslenskum fjölmiðlum.
Þegar horft er til þeirrar afstöðu sem endurspeglast í orðum Jóhanns um viðvaranir Lilju Mósesdóttur varðandi Icesave-samninginn sem var til meðferðar á Alþingi undir lok ársins 2009 er ekki úr vegi að rifja upp hvernig hann brást við þeim ákvörðunum forsetans að verða við áskorunum um að leggja Icesave-samning tvö og þrjú undir dóm þjóðarinnar.
Í fyrra skiptið skrifaði hann bloggpistil þar sem afstaða hans endurspeglast best í þessum orðum: Kannski hefði Ólafur Ragnar átt að vera í fríi í dag. (sjá hér). Í seinna skiptið var hann mættur á Bessastaði þar sem óhætt er að segja að hann hafi gert sig að fífli með framgöngu sinni.
Af einhverjum ástæðum hefur þessi framganga Jóhanns Hauksonar, sem frekast minnir á rógsherferð eða illan ásetning, ekki hindrað það að hann var ráðinn blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar í upphafi árs 2012 (sjá hér) Þetta hlýtur að heita stórfurðuleg ráðstöfun ekki síst í ljósi þess hvernig Jóhann hefur beitt sér gegn því forystufólki í stjórnmálum sem mests trausts hefur notið hjá þjóðinni (sjá niðurstöður könnunar MMR frá því í febrúar 2013)
![]() |
40% vilja afsögn ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2013 kl. 05:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árangursrík samstaða gegn Icesave
30.1.2013 | 17:33
Það er reglulega yndislegt að fá tilefni til að gleðjast eins og síðastliðinn mánudag! Í gleðinni leitar hugurinn að sjálfsögðu til sundraðra byltingarfélaga og ástæðu þess að svo er komið. Það þýðir þó lítt að sýta enda ástæða til að binda vonina við að þeir sem hafa týnt sér í sundrunginni átti sig nú ásamt öðrum sem hafa aldrei dirfst til að koma sér af stað til sjálfsvarnarinnar
Það er nefnilega hægt að gera svo margt annað til varnar en það að allir hópist saman á Austurvelli og framleiði hávaða. Við getum greinilega unnið í mismunandi hópum að sameiginlegu markmiði og náð vitsmuna- legum árangri. Niðurstaðan í hinu langdregna Icesave-máli er góður vitnisburður um það.
Hér er rétt að hafa það í huga að niðurstaðan í málinu var nefnilega miklu frekar í takt þeirra raka sem komu frá öllum öðrum en þeim sem fylgdu ríkisstjórninni að málum. Þeir sem komið hefur í ljós að höfu sannleikann að leiðarljósi í málinu og lögðust á eitt við að spyrna kröftuglega við fótum gegn Icesave-ánauðinni voru m.a: villikettirnir í Vinstri grænum sumarið 2009, Indefence-hópurinn í kringum áramót 2009-2010 og kjósum.is sem safnaði undirskriftunum í byrjun árs 2011 og starfaði svo í tveimur hópum í framhaldinu; Advice-hópnum og Samstöðu þjóðar gegn Icesave.
Það er líka tilefni til að votta forsetanum dýpstu virðingu fyrir hans einstaka stuðning við þjóðarhagsmuni. Hann hefur staðið eins og klettur með þjóðinni og hefur reyndar sífellt verið að standa sig betur og betur í því óvænta hlutverki. Hann tók við hvatningu villikattanna árið 2009 og fleirum um að standa með þjóðinni og hefur ekki látið af því þrátt fyrir þær öflugu skærur og skrílslæti sem sá stuðningur hefur vakið meðal hollustuvinafélaga ríkisstjórnarinnar.
Það e ekki annað að sjá en forsetinn sé a.m.k. vel meðvitaður um þátt grasrótarhópanna sem um ræðir. Í gær bárust þær fréttir af Bessastöðum að Ólafur Ragnar Grímsson ætti þar fund með tveimur þeirra sem komu að málflutningnum fyrir Íslands hönd í lokaþætti Icesave-mörunnar. Þar ræddi hann um mikilvægi hinnar lýðræðislegu samstöðu, hreyfingarnar [svo] sem kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu. (sjá hér)
Hluti Indefence-hópsins fyrir framan Bessastaði í byrjun janúar 2010. Myndin er tekin eftir að hópurinn afhenti forsetanum undirskriftirnar sem söfnuðust vegna Icesave II. Þjóðaratkvæðagreiðslan fór svo fram 6. mars 2010. Úrslit kosninganna urðu þau að 98,1% sögðu nei og 1,9 já. (sjá hér)
Stór hluti þess hóps sem safnaði undirskriftum til að tryggja það að þriðja tilraun til Icesave-skuldbindingarinnar á hendur þjóðarinnar yrðu lögð undir hennar atkvæði. Myndin er tekin í viðhafnarsalnum á Bessastöðum eftir athendingu undirskriftalistanna þ. 19. febrúar 2011.
Eftir afhendinguna skipti þessi hópur sér í tvo: Advice og SAMSTÖÐU þjóðar gegn ICESAVE. Hóparnir unnu þó sameiginlega að því markmiði að koma rökum fyrir NEI-inu á framfæri við þjóðina. Það var mjög á brattann að sækja en þrátt fyrir dökkar horfur í byrjun fór kosningin þannig að 59,8% sögðu nei en 40,2 já. (sjá hér)
Allt þetta ómetanlega baráttufólk hlýtur að hafa fyllst einlægum fögnuði þegar því bárust fréttirnar af niðurstöðum EFTA-dómsins í Icesave-málinu rétt undir hádegið síðastliðinn mánudag. Sjálf var ég alveg í skýjunum af einlægum fögnuði og yfirþyrmandi þakklæti sem ég fann mig knúna til að fá útrás fyrir þannig að ég setti þetta inn á Facebook:
HÚRRA fyrir okkur! Húrra fyrir dómurunum! Húrra fyrir heiðarlegri baráttu fyrir réttlæti! Húrra fyrir öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að Icesave-klúðri Landsbankans yrði velt yfir á íslenskan almenning
![]()
Baráttan var löng. Hún byrjaði inni á þingi upp úr miðju sumri 2009 en út úr því dæmi urðu villikettirnir til. Þá var það Indefence-hópurinn svo kjósum.is, sem stóð að undirskriftarsöfnuninni í upphafi árs 2011, og loks Advice-hópurinn og Samstaða þjóðar gegn Icesave.
Já, baráttan var löng og ströng en samstaða þjóðar hafði betur gegn fjármálavaldinu. Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir allt þá eru til lög sem vernda þjóðríki gegn ætlan slíkra afla!
HÚRRA!!! og til hamingju öll!!! Koss og kram yndislega, dásamlega fólk!! Knús í botn til ógleymanlegra baráttufélaga!! Ég vona að þið séuð að rifna úr stolti en plís ekki svífa upp af jörðinniEs: Baráttan er nefnilega ekki búin en þetta er vonandi bensínið sem vantaði til að halda henni áfram
Fyrst að ég er byrjuð að vekja athygli á einstaklingum og hópum sem lögðu ómælt að mörkum til að þjóðin fengi að upplifa viðlíka gleðidag og nýliðinn mánudag þá má ég til að vekja athygli á þeim dásamlegu einstaklingum sem mættu niður á Austurvöll til að útskýra það frammi fyrir hljóðnema og upptökuvél af hverju það ætlaði að segja NEI við Icesave III.
Alls voru það 33 einstaklingar sem mættu og eru viðtölin öll varðveitt á You Tube. Upptökumennirnir voru Siggi Sveins hjá Lifandi mynd og Viðar Freyr Guðmundsson, upptökjustjóri og hljóðmaður hjá ÍNN. Axel Þór Kolbeinsson hannaði lógóið en hann sá líka um vefinn þar sem undirskriftunum var safnað 2011.
Allir viðmælendurnir eru algjörlega dásamlegir enda trúi ég að orðin þeirra eigi eftir að skína eins og gimsteinar langt fram í framtíðina og fylla þá sem á þau hlýða stolti yfir þeirri réttlætisfylltu og framsýnu samstöðu sem þessir bera vitni. Hér eru öll viðtölin í einni lúpu en þau spegla saman: þekkingu, innsæi, framsýni, réttlætistilfinningu, sanngirni, lýðræðisvitund, heiðarleika, samkennd, festu og síðast en ekki síst sterkum samstöðuvilja frammi fyrir kúgunarvaldi.
Einstaklingarnir sem tóku þátt vaxa við hverja hlustun og fylla mann óendanlegu stolti. Hér er þriðji hlutinn en alls eru þeir fimm og svo er einn stakur. Þessa er alla að finna í einni lúpu undir slóðinni í efnisgreininni hér að ofan.
Að síðustu er ástæða til að undirstrika það að viðspyrnuþátturinn í sögu Icesave er staðfesting á því hverju það getur skilað að fulltrúar valdsins, fulltrúar fræðimannasamfélagsins og fulltrúar allra hinna borgara samfélagsins leggi saman færni sína og krafta til grundvallarmálefna sem eru til hagsbóta fyrir framtíð samfélagsheildarinnar. Vonandi munum við öll læra af þeim árangri sem þessi samstaða skilaði og ná að vinna þannig saman aftur gegn þeim ógnum sem steðja að tilveru íslensks samfélags og framtíð.
![]() |
Tilviljun hvernig Icesave-málið þróaðist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)