Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stundin er runnin upp!

Næst komandi mánudagskvöld ætlar Jóhanna Sigurðardóttir að bjóða þjóðinni upp á endurflutning söngsins um áunninn árangur eins og hann horfir við hennar ljósfælnu augum. Tunnunum þykir tilefni til að búa stefnuræðu forsætisráðherrans sömu umgjörð og í fyrra. Nú þegar hafa safnast um 50 tunnur og búið að draga fram eitthvað af ásláttartólunum frá í fyrra.

Viðburður hefur verið settur upp á Fésbókinni (sjá hér) þar sem rúmlega 500 manns hafa skráð sig. Í fyrra var viðburðurinn ekki settur upp fyrr en seinni part 1. október. Þremur dögum síðar troðfylltist Austurvöllur! Það sem kom þeim sem settu viðburðinn í loftið mest á óvart var það hvað allur sá fjöldi sem var talað við þá var í raun sammála. Flestir sögðust nefnilega ekki aðeins óánægðir með ríkisstjórnina heldur höfðu þeir glatað öllu trausti til stjórnmálastéttar- Hverjum TUNNAN glymurinnar!

Þeir sem fylgdust með vinnu og mál- flutningi Tunnanna, frá 4. október á síðasta ári fram til 17. janúar á þessu, er væntanlega fullkunnugt um að Tunnurnar snerust um miklu meira en bara það að  berja tunnur. Fyrir þá sem vilja rifja þetta upp bendi ég m.a. á þessa samantekt. Í eðlilegu framhaldi af kröfum Tunnanna í fyrra settu þær fram svohljóðandi kröfulista fyrir 3. október n.k:

* Við krefjumst þess að tekið verði á skuldavanda landsmanna með réttlætið að leiðarljósi en ekki sérhagsmunagæslu og klíkuskap.
* Við krefjumst þess að þeir sem ekki hafa lært af reynslunni víki úr embættum fyrir nýrri hugmyndafræði sem er óbundin flokkspólitískri hagsmunagæslu.
* Við krefjumst þess að þeir sem bera ábyrgð á því samfélagshruni sem ekki sér fyrir endann á verði dregnir fram undan tjöldunum og réttað í málum þeirra eins og öðrum Jónum Jónssonum.
* Við krefjumst gagngerrar endurskoðunar á stjórnsýslu og efnahagskerfi landsins.
* Við bjóðum fram lýðræðislega samvinnu við að leita lausna og byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir mannsæmandi kjörum fyrir alla.
(sjá hér)

 Þessum kröfulista lýkur svo með svhljóðandi ákalli:

Stundin er runnin upp þar sem 99% þjóðarinnar rís upp gegn því 1%-i sem hefur sölsað undir sig öll auðæfi landsins og nýta sér eignarhaldsvaldið til að gera það sem því sýnist án athugasemda löggjafans eða dómstólanna. Við skulum því sameinast, systur og bræður, úr öllum sveitum landsins og láta réttlætiskröfur okkar heyrast!

Mér þykir það við hæfi að ljúka þessari færslu með því að benda á að kröfur Tunnanna eru mjög í anda þeirra krafna sem hafa hljómað víðs vegar um jarðarkringluna frá síðastliðnu vori eins og kemur m.a. fram í þessu myndbandi:


mbl.is Hækka skatta á bensín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnumót við stjórnvöld

Það hefur spurst út að lögreglan ætlar ekki að standa heiðursvörð við alþingishúsið við þingsetninguna 1. okt. n.k. Þetta veldur mörgum siðvilltum þingmanninum sakbitnum kvíðahnútum. Einhverra hluta vegna hefur Ólína Þorvarðardóttir verið sett í það hlutverk að miðla þessum titringi og biðla til björgunarsveitarmanna um að þeir taki hlutverkið að sér. Hún blandar líka hugtakinu virðingu fyrir sjálfri sér og öðrum, sem sitja með henni á þingi, við þessa furðulegu málaumleitan.

Ég velti því fyrir mér hvort þessi ódáðaverkahópur hafi alveg misst af því að nú þegar hefur stór hópur boðið sig fram til heiðursvarðar niður við alþingishúsið. Síðast þegar ég gáði (sjá hér) voru þeir komnir upp í rúm 3.000 sem ætla að taka þetta hlutverk að sér. Ég treysti þessum hópi til að sýna Ólínu Þorvarðardóttur og öllu hennar hyski tilhlýðilega virðingu

Það er virkilega dapurlegt að verða vitni af allri þeirri firringu sem virðist nær allsráðandi innan veggja Alþingis en það er ljóst af öllu þeirra látbragði að stjórnmálastéttin veit upp á sig skömmina. Grasrótin og ávextir hennar er sá jarðvegur sem eina von þessarar þjóðar liggur í. Einn blómlegasti ávöxturinn eru Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa barist ötulega fyrir réttlæti til handa heimilunum í landinu.

Frá miðju sumri hafa þau staðið fyrir undirskriftarsöfnun undir eftirfarandi kröfu: 

Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hafi stjórnvöld ekki orðið við þessari kröfu fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskrift mín kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina. (sjá hér)

Það eru síðustu forvöð að skrifa undir en undirskriftarlistinn verður afhentur á morgun (þ.e. 1. okt). Viðburðurinn Samstaða Íslendinga var settur upp til stuðnings framtakinu. Fjölmargar hljómsveitir og tónlistarmenn munu koma fram. Þar á meðal Magnús Þór Sigmundsson ásamt Fjallabræðrum sem munu syngja meðfylgjandi lag þar sem þetta hljómar: „HVAR ER SKJALDBORGIN MÍN? HVAR ER HÚS MITT OG LÍF?“



Svo er það stefnuræða Jóhönnu Sigurðardóttur sem verður flutt 3. októrber Stefnuræða forsætisráðherraen af því tilefni munu TUNNURNAR koma saman aftur og minna á kröfur sínar sem í stuttu máli má segja að snúist um vantraust á alla sjórnmálastéttina sem hefur ekkert gert frá hruni nema staðfesta getuleysi sitt til annars en þjóna peningaöflunum á kostnað almennings. Settur hefur verið upp viðburður á Fésbók af þessu tilefni ásamt kröfulista sem má nálgast hér.

Að lokum er vert að taka það fram að ný Grasrótarmiðstöð verður tekin í notkun nú um mánaðarmótin. Hún er til húsa í Brautarholti 4. Ég hvet ykkur til að fylgjast með hér og kíkja við. Fyrsta tækifærið til þess verður upp úr hádeginu 1. okt. n.k.


mbl.is Óheiðarlegur og ósanngjarn rógburður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmönnum og ráðherrum boðið á borgarafund

Undirbúningshópur um borgarafundinn í kvöld bauð ríkisstjórn og stjórnarandstöðu á fundinn með þessu bréfi:

Ég geri ráð fyrir því að þú sem þingmaður áttir þig á því að þessi spurning skiptir máli og þiggir boð á borgarafund um þetta efni. Það er undirbúningshópurinn sem stendur að þessum fundi sem býður. Fundurinn verður haldinn í Háskólabíói nú í kvöld og hefst klukkan 20:00 og er áætlað að honum ljúki klukkan 22:00. Að fundinum standa, auk Sturlu Jónssonar, einstaklingar sem stóðu að skipulagningu reglulegra borgarafunda bæði á Akureyri og Reykjavík í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Framsögur flytja Sturla Jónsson, fyrrverandi vörubílstjóri, Jóhannes Björn, höfundur bókarinnar Falið vald, Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður og Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR. Þessir munu líka sitja í pallborði ásamt Bergþóru Sigmundsdóttur, deildarstjóra Þinglýsinga- og skráningadeildar Sýslumannsins í Reykjavík.

Sturla mun útskýra sinn skilning á þinglýsingalögunum http://www.althingi.is/lagas/132b/1978039.html og lög um samningsveð: http://www.althingi.is/lagas/135a/1997075.html Jóhannes Björn veltir fyrir sér hvernig hagnaður bankanna hefur orðið til. Björn Þorri Viktorsson mun segja frá sínum skilningi á framangreindum lögum út frá lögfræðilegri sérþekkingu og Ragnar Þór Ingólfsson lokar framsögunum með umfjöllun um lánskjarabaráttuna.
 
Að loknum framsögum verður orðið gefið laust og þá gefst fundargestum tækifæri til að spyrja pallborðið spurninga eða koma með athugasemdir.

Draumur skipuleggjenda þessa fundar var að skapa breiðan umræðuvettvang á borgarafundi um ofangreind atriði. Þín mæting myndi svo sannarlega styrkja það að sá draumur verði að veruleika.

Fyrir hönd undirbúningshóps að borgarafundum um lög sem varða neytendalán,

Rakel Sigurgeirsdóttir.


Vetur vaxandi viðspyrnu

Þegar allt snýr á haus, þegar græðgin er leiðarljósið, þegar forgangsröðunin hossar hrunelítunni, þegar réttlætið er blindað af siðvillunni, þá er ekki nema von að það hrikti í stoðum samfélagsins. Sú vaxandi óánægja sem breiðir úr sér meðal almennings kemur varla nokkrum meðvituðum einstaklingi á óvart en hún kemur fram á mörgum sviðum.

Nú með haustinu hafa margir þeirra sem komu saman haustið 2008 orðið meðvitaðri um að okkur miðar ekkert áleiðis nema með þrotlausri vinnu. Það hyllir loksins undir það að sú grasrót sem kom fram á þessum tíma komist í varanlegt húsnæði. (sjá hér) Fyrsti fundur í borgarafundarröð um neytendalánalögin verður haldinn n.k. mánudagskvöld. Svo er þingsetningin framundan og stefnuræða forsætisráðherra.

Viðburður hefur verið settur upp vegna þingsetningarinnar 1. október (sjá hér) en þann dag munu Hagsmunasamtök heimilanna afhenda undirskriftir við eftirfarandi áskorun samtakanna til stjórnvalda: 

Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hafi stjórnvöld ekki orðið við þessari kröfu fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskrift mín kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina. 

 Þegar hafa safnast rúmlega 30.000 undirskriftir en ég leyfi mér að lýsa eftir hinum 70.000 sem hafa enn ekki sett nafn sitt undir þessa áskorun. Það má bæta úr þessu hér. Þeir sem eiga aðstandendur sem ekki hafa aðgang að tölvum eru sérstaklega hvattir til að kynna þeim þessa undirskriftarsöfnun og bjóða þeim að setja nafn sitt á listann.

Svo er það borgarafundurinn (viðburður inni á Facebook) en hér að neðan er auglýsing um hann en áhangandi við þessa færslu eru tvö pdf-skjöl. Annað sem er plakat sem má prenta út og hengja upp og svo dreifildi til fjölföldunar og dreifingar í póstkassa eða hvar sem næst til fólks.

Borgarafundur 26. september 2011


mbl.is Mikil reiði í lögreglumönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meðvituð afneitun

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að sumarþing var sett í gær. Fréttir þaðan voru líka fyrirferðarmiklar í allflestum miðlum þó lítið sem ekkert hafi verið gert af því að benda á þá hróplegu staðreynd að hér er allt við það sama. Kyrrstaðan og afneitunin er æpandi en allir stærstu fjölmiðlarnir þykast ekkert sjá. Á vellinum fyrir framan Alþingishúsið birtist þó samfélagsleg meðvitund í formi táknræns gjörnings sem vakti verðskuldaða athygli allra hugsandi einstaklinga.
Grafreitur svikinna loforðaInnan úr þinginu bárust spurnir af því að sumir þingmenn þóttust ekkert skilja fyrir hvað þessi gjörningur stæði en giskuðu helst á að þetta væri eitthvert uppátæki nemenda Kvikmyndaháskólans. Slík rörsýn og afneitun vakti furðu fleiri en mín og hafði einn það á orði að þessi tilgáta svo og fleira sem frá stjórnarheimilinu hefur komið beri meðvitaðri afneitun innanbúðarmanna gleggst vitni.

Mikill meiri hluti stærstu fjölmiðlanna opinberuðu slíka afneitun líka skýrt og greinilega með því að fjalla annaðhvort ekki um þennan myndræna og táknræna gjörning eða gæta þess að setja hann í ekkert samhengi við raunverulegar aðstæður úti í samfélaginu sem full ástæða er til að fái ýtarlega umfjöllun. ruv.is og pressan.is eru þeir miðlar sem sýndu einhverja viðleitni (Sjá fréttir á ruv.is: hér hér og hér  og á pressan.is: hér. Það skal tekið fram að einhverra hluta vegna er fjöldi krossanna lækkaður um helming á pressan.is) 

Fyrir þá sem eru haldnir sama skilningsleysi og umræddir má kannski gera tilraun til að varpa örlitlu ljósi á merkingu þessa gjörnings með samanburðarmynd. Sú er valin vegna textans sem ætti að gera það að verkum að ekkert fer á milli mála.
FórnarkostnaðurinnFyrir þá sem af einhverjum ástæðum hafa misst af þessum gjörningi þá fylgja hér fleiri myndir sem voru teknar niður á Austurvelli í gærmorgun. Ljósmyndarnir sem tóku þær heita: Halldór Grétar Gunnarsson, Indriði Helgason og Kristján Jóhann Matthíasson. Þessa myndaröð nefni ég Minningargrafreit um fórnarkostnaðinn:

Minningargrafreitur um fórnarkostnaðinn
Minningargrafreitur um fórnarkostnaðinn
 Minningargrafreitur um fórnarkostnaðinn Minningargrafreitur um fórnarkostnaðinn
 Minningargrafreitur um fórnarkostnaðinn Minningargrafreitur um fórnarkostnaðinn

mbl.is Fagnar kínverskum fjárfestingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdarán einkavæðingarinnar

Það reynir svo sannarlega á gjörhygli einstaklinga þessi misserin þegar allt lítur út fyrir að ganga þvert gegn viðteknum gildum mennskunnar. Þeir sem hafa verið í aðstöðu til að sölsa undir sig fjölmiðlana hafa nýtt þá til hálfvitavæðingar með botnlausri afþreyingariðnaðarframleiðslu. Í kjölfarinu fylgir svo lygafyllt þögnin um allt sem skiptir lífskjör okkar og afkomu máli. Jafnvel þegar þeir, sem hafa komið sér í þá aðstöðu að hafa áhrif, opna munninn er það til að bæta grárri lygi ofan á myrkur óvirkninnar sem þeir hafa af einhverjum ástæðum samþykkt að taka þátt í að skapa.

Í þessu ljósi er spurningin sem kviknaði við lestur tengdrar fréttar ofureðlileg: Hverju skipta orð manna sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif þegar efndirnar eru engar? Við þessa má svo bæta: Hverju breyta orðin þegar þau fara ekki saman við athafnir? Til hvaða afleiðinga er slíkt háttalag, að segja eitt en gera annað, betur fallið en skapa tvístígandi óvissu athafnaleysis?
Peningaræðið
„Give me control of á nations money supply and I care not who makes it's laws“ er ýmist haft eftir stofnanda Rothschilds bankaveldisins eða syni hans sem hann sendi til Bretlands að leggja undir sig fjármálaheiminn þar (sjá hér) Nú einni eða tveimur öldum síðar þá hefur þessi hugmyndafræði náð fullkomnun þar sem lýðræðið, frelsið og réttlætið hafa verið einkavædd og ganga kaupum og sölum um allan heim.

Ég veit ekki hvort það er einu sinni að ganga skrefinu lengra að benda á að ef almenningur tekur ekki ráðin í sínar hendur og vísar sölumönnum lands, þjóðar og framtíðar frá fyrir illan ásetning þá gætum við horft upp á þann veruleika hér á landi að „lýðveldið Ísland“ verði framleitt í Kína eins og á reyndar við um eitthvað af „alíslensku“ túristavörunum nú þegar.

Einhverjir eru enn bundnir af áróðri fjölmiðla sem upphefja framferði dólganna sem hafa sölsað þá undir sig en beita þeim til alls kyns persónulegs ofbeldis gegn þeim sem hafa eitthvað við aðstöðumuninn, sem er verið að festa í sessi, að athuga. Þannig er vinna einstaklinga og grasrótarhópa, sem benda á að peningavaldið hunsi lögin sem voru sett til að verja réttindi allra samfélagsþegnanna, hæddir og úthrópaðir í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra. En fulltrúar peningavaldsins vaða uppi með drýldinni framkomu og uppnefna þá og aðra samfélagslega meðvitaða einstaklinga sem hóflausan skríl og þaðan af verra.

Sumarþing kemur saman núna næst komandi föstudag til að fjalla um nýja stjórnarskrá, vatna- og upplýsingalögin og fleira sem færibandsstjórum steinhússins niður við Austurvöll þykir aðkallandi að verði unnið í akkorði næstu tíu daga þar á eftir. Af því tilefni hefur verið boðað til þögulla mótmæla á virkasta viðspyrnuvettvangi landsins (sjá hér) Þing verður svo sett með hefðbundnum hætti þann 1. október n.k. kl. 10:25 og stefnuræða forsætisráðherra flutt mánudaginn 3. október klukkan 19:50. 

Þegar þessi tímaáætlun var sett fór töluverður tími í að ræða það hvernig skyldi bregðast við hugsanlegum mótmælum og hvort ekki væri ástæða til að setja upp girðingar þannig að eggjakastarar næðu ekki til „skrúðgöngunnar“ milli kirkju og þinghúss eða koma boðum til mótmælenda um að hlífa þessu viðkvæma steinhúsi við eggjum og öðrum óþrifnaði sem samkvæmt hugmyndafræði einhvers innanhússmanns krefst háþrýstiþvotts sem fer illa með múrinn.

Af þessu ætti það að vera ljóst að sekir hræðast en það stendur ekki til hjá þeim að breyta um háttalag. Ég bendi á þetta til að hvetja þig til að mæta núna á föstudaginn og minna á að öll sú orka sem hefur verið sett í að tvístra og svæfa íslenskan almenning má sín einskis gagnvart þeirri meðvitund sem íslenskur almenningur hefur vaknað til varðandi framferði valdhafanna. Þolinmæðin er okkar Einkavæðingarterrorismistyrkur!

Af áróðri valdhafanna lesum við óttablandna sekt þeirra og vitum að varnir þeirra eru að hruni komnar. Við erum hvergi smeyk því við höfnum einkavæddu réttlæti, burtseldu lýðræði peningaaflanna og kostuðu frelsi bankadólga. Við höfnum stjórnmálamönnum sem bjóða okkur upp á veruleika einkavæðingar- mafíu prentsmiðjustjóranna hjá Peningar ehf!


mbl.is Sjóðurinn vildi ekki aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsunarháttur sem ýtir undir alvarlega firringu

Mér var bent á myndbandið, sem ég ætla að vekja athygli á hér, fyrir allnokkru. Mér var brugðið og ekki síst fyrir það að þetta á að vera fyndið. Mér fannst þá, og finnst enn, það grafalvarlegt mál að það „eigi að vera“ fyndið að grípa til „hreinsana“ á þeim sem eru fyrir. Mér finnst það líka grafalvarlegt mál að þeir sem skilja ekki svona „grín“ séu sakaðir um „húmorsleysi“ því hér á það við eins og annars staðar að öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Að mínum dómi er þetta ekki dæmi um grín heldur firringu. Ég velti því líka óneitanlega fyrir mér hvort það sé ekki þannig komið að við verðum að horfast í augu við það að þegar morð „á að vera“ fyndið þá hefur eitthvað mikilvægara glatast? Þarf ekki að velta því fyrir sér líka hvort það hafi ekki afleiðingar? Í mínum augum er alvarleiki þess sem „grínið“ hér á að snúast um það mikill að mér finnst það jaðra við ábyrgðarleysi að finnast það fyndið.

Fyrir þá sem þekkja ekki „Steindann okkar“ þá skal það tekið fram að þetta er sjónvarpsþáttur sem var, og kannski er, sýndur á Stöð 2. (Sjá nánar hér) Þátturinn er með Fésbókarsíðu sem á yfir 15.000 aðdáendur.

Hérna er myndbandið. Þegar tvær mínútur eru liðnar af myndbandinu hefst það sem ég vil vekja athygli á og setja spurningarmerki við. Ég tek það fram að það þarf enginn að ómaka sig við að reyna að útskýra fyrir mér hvað á að vera fyndið við þetta. Það hefur þegar verið reynt með nákvæmlega engum árangri.


mbl.is Slapp lifandi úr hildarleiknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syngjum til breytinga

Austurvallarkórinn ætlar að koma saman og syngja nokkur kreppulög í Kolaportinu klukkan 14:00 í dag. Tilefnið er ekki eingöngu mótmælin úti Evrópu og víðar heldur það að vekja áheyrendur til glaðvakandi meðvitundar um óréttlætið og lýðræðishallann sem við búum við. Við höfum nefnilega ekki efni á því að sitja þegjandi undir þeim hörmungum sem stjórnsýslan og fjármálastofnanirnar eru að leggja á þjóðina.

Austuvellingar

Flestir textarnir á söngdagskránni eru við þekkt íslensk lög en hefur verið snúið þannig að þeir fjalla um alþekktar afleiðingar kreppunnar á lífskjör almennings. Auk þeirra eru tvö lög eftir Magnús Þór Sigmundsson. Annað við texta eftir Hallgrím Helgason, sem hann orti upp úr Ísland er land þitt, en hitt er við texta Magnúsar Þórs. Viðlagið á einkar vel við um þessar mundir þar sem segir: „Hvar er skjaldborgin mín, þessi skjöldur og hlíf? / Hvar er skjaldborgin mín, hvar er hús mitt og líf?“

Austurvallarkórinn skipa samfélagslega meðvitaðir einstaklingar sem hafa staðið fyrir ýmsum viðspyrnuaðgerðum frá haustinu 2008. Guðbjörg Elísa Hafsteinsdóttir, sem tók þátt í Idolinu árið 2005, syngur einsöng með kórnum en hljómborðsleikarinn Hjörtur Howser hefur útsett lögin og spilar undir.

Við syngjum því við viljum breytingar. Við hvetjum alla til að taka þátt og taka undir sameiginlegrar kröfur mótmælenda víðs vegar um jarðarkringluna:

Við viljum ekki að það verði tekið veð í framtíð okkar.
Við viljum ekki greiða niður ólöglegar skuldir.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í menntakerfinu.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
Við viljum ekki meiri skerðingu á kjörum almennra launþega.
Við viljum sanngjarnan starfslokaaldur og eftirlaunagreiðslur.
Við krefjumst þess að þeir sem ullu kreppunni gjaldi fyrir hana sjálfir.
Við krefjumst ríkisstjórna sem vinna með almenningi en ekki á móti honum.

Meðlimir Austurvallarkórsins munu dreifa söngtextahefti á staðnum þannig að allir sem vilja geta tekið undir eða rifjað upp það óréttlæti sem við búum undir að hálfu fjármálastofnanna og stjórnvalda. Þeir sem ekki komast geta kynnt sér textana í krækjunni hér að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grafskrift þjóðar

BlóðmjólkunKveikjan að þessum skrifum er Fésbókarstatus sem Daði Ingólfson setti á vegginn hjá sér sl. miðvikudag. Þar sagði hann: „Að lesa fyrirsagnir netmiðla í dag er að lesa grafskrift þjóðar.“ Í framhaldinu vísaði hann í nokkrar fréttir frá þessum sama degi.

Sú sem ber hæst í þessari upptalningu hans er fréttin af sýknu, fyrrum yfirmanna í íslensku fjármálalífi, í svoköllluðu Exeter-máli af öllum ákærum sérstaks saksóknara. Einn af þeim sem tjáir sig í framhaldinu bendir á enn eina fréttina af starfsglöpum hins vanhæfa Alþingi.

Málið snýr að greiðslu hlutabóta til þeirra sem ekki eru í fullri vinnu. Þessar bætur falla niður um næstu mánaðarmót vegna þess að í öllum atganginum sem einkenndi störf þingsins fyrir þinglok núna í júní þá gleymdist að framlengja bráðbirgðaákvæði sem hafði verið sett um þess konar bætur.

„Þetta bara gleymdist,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra „og var alveg sameiginlegt klúður allra.“ Meginvandinn í þessu máli virðist vera spurningin um það hvort skiptir meira máli að þingmenn haldi sumarfríi sínu óröskuðu eða að þeir sem þurfa að treysta á þessar bætur haldi þeim. Það er rétt að taka það fram að þær falla niður nema þing komi saman fyrir þennan tíma og samþykki framlengingu.

Það væri endalaust hægt að bæta við og dettur mér þá ekki síst í hug frétt á DV um að rússnesnka mafían hefur fengið forsvarsmann í Geira í Goldfinger til að atast í því að hún fái að opna spilavíti í Perlunni.

Rússneska mafían
Og svo var það viðtalið við Michael Porter í Kastljósþættinum á þriðjudagskvöldið. Mér var svo lokið að mér datt helst í hug að græðgisöflin væru að auka í áróðursstríðið gegn hrelldri þjóð til að keyra hana endanlega með höfuðið niður á milli hnjánna. Það er a.m.k. ljóst að þannig verður auðveldara að koma því tvennu í kring sem er opinbert um fyrirætlanir stjórnvalda til að blása lífi í næstu bólu.

Samkomulag um græðgi

Það var örugglega engin tilviljun að Porter fékk þetta drottningarviðtal í Kastljósinu í sömu viku og formlegar aðildarviðræður Íslands að ESB hófust. Það er líka ljóst hverjum eftirfarandi orð hans eru ætluð: „Möguleikar Íslendinga eru svo óendanlega miklir á sviði jarðvarma að það væri mikil synd og skömm að bíða með framkvæmdir þar til aðrir hafa tekið fram úr ykkur." Þeir sem hann talar til eru þeir hinir sömu sem trúa því enn að varanleg verðmæti verði til með því að eyða því sem er ekki til!

Þetta er stjórnmálamannakynslóðin sem tekst ekki að þroskast upp úr minnimáttarkenndinni gagnvart smæð okkar og sögu. Þetta er stjórnmálastéttin sem berst fyrir því að koma fulltrúum sínum að við það háborð sem minnimáttarkenndin gerir Evrópusambandið að í hugum þeirra.

Hin minnmáttarkomplexaða og nýríka valda- og eignastétt landsins hefur nýtt sér áróðursmiðla sína af miklu móð í þessari viku til að halda fríðindunum af því að ganga inn í ESB á lofti. Þetta sást m.a. á forsíðu Fréttablaðsins sl. miðvikudag þar sem ein fyrirsögnin segir: „Vísinda- og menntasamstarf Ísland við ESB skilar miklu meiru en það kostar: Ávinningurinn tíu milljarðar“ Það skiptir auðvitað engu hvað Ísland greiðir í þáttökugjald eða í hverju þessu ávinningur er fólgin fyrir aðra en styrkþegana sjálfa.

VandamálagreiningSamkvæmt þeim sem reka áróður sinn í gegnum fjölmiðla þá er peningaupphæðin ein og sér ávinningur en við lesendur kunnum að sjálfsögðu að lesa á milli línanna. Það  kemur nefnilega í ljós við lestur þessarar fréttar hverjir eru stærstu styrkþegarnir. Í tilfelli næststærsta styrkþegans er ávinningurinn fyrir þá sem vilja ganga í Evrópusambandi a.m.k. greinilegur spurning með þann stærsta.

Stærsti styrkþeginn er Íslensk erfðagreining sem er í mínum huga eitt dularfyllsta fyrirtæki landsins. Þrátt fyrir að nú séu liðin 10 ár frá því að Kári Stefánsson, vinur Davíðs Oddssonar, barði þetta fyrirtæki fram þá er ekkert hægt að segja um starfsemi þessa fyrirtækis sem byggjandi er á. Það eru alltaf sömu innantómu klisjurnar um það hvað þetta er einstakt fyrirtæki og mikilvægt en aldrei neitt um raunveruleg dæmi sem rökstyðja markvirði þess!

Hvers vegna ætli þetta fyrirtæki fái 1,4 milljarð í styrk í gegnum ESB? Ég man ekki eftir einni einustu stóruppgötvun sem hefur verið gerð í glerhýsinu úti í mýrinni sem hefur breytt neinu nema maður eigi að telja Hannes Smárason til slíkra. Er það ekki annars rétt munað að hann hóf feril sinn þar? Það skyldi þó aldrei vera að það í hverju markvirði Íslenskrar erfðagreiningar liggur þoli ekki frekar dagsins ljós en starfs- og fjármálaferill Hannesar Smárasonar.

Næstsærsti styrkþeginn er svo Háskóli Íslands með rúman milljarð (eða eitthvað svolítið minna en Íslensk erfðagreining) Hér er kannski komin skýringin á því að það heyrast engar alvöru gagnrýnisraddir úr fræðimannasamfélaginu varðandi það sem fram fer í samfélaginu. Mér, eins og mörgum, hefur fundist þögn þess skerandi en meðvirkni þeirra sem opna munninn er eiginlega hálfu verri.

Mennska framtíðÞað er ekki síður undarlegt að þeir fáu sem hafa tekið sig til og gagnrýnt hafa aldrei horft á heildarsamhengið heldur taka einungis afstöðu til vel valinna og þægilegra smápúsla í heildarmyndinni. Það vantar alltaf einhvern grundvöll í málflutnning þeirra eða þeir þora ekki að taka alla samfélagsgerðina ásamt uppbyggingu fjármálakerfisins til gagn- gerrar umræðu. Það er þess vegna lítið eða ekkert gagn af innleggjum þeirra í samfélagsumræðuna og nú ætti það að vera ljóst hvers vegna.

Það er fínt að fá ESB til að kosta rannsóknarleyfin þeirra. Skítt með hitt pakkið! Ég gef lítið fyrir menntun og sérfræðinþekkingu þeirra sem sjá ekki samhengið á milli sinna eigin styrkveittu leyfa og þess hvaðan peningarnir koma?

Ef menntun er orðin einn helsti útvörður græðginnar þá er ljóst að mennskan, sem orðið er dregið af, hefur verið úthýst og því varla hægt að tala um neina menntun lengur! en sérhæfð vanhæfing á hins vegar afar vel við um fræðimann sem sér ekki út fyrir þann fílabeinstrun sem Evrópubáknið hefur kostað utan um hann.

Verðmætasköpunin sem kemur út úr ofantöldum styrkjum er ekki tíunduð í Fréttablaðinu enda fréttin greinilega byggð á skrifum forstöðumanns þeirrar Rannskóknarþjónustu Háskólans sem rannsóknarstyrkir Evrópusambandisins fara í gegnum. Þar er aðeins talað um mikilvægar upphæðir til reksturs og reyndar til rannsókna.

Ég er hædd um að verðmætin sem hægt er að telja séu heldur rýr og leyfi ég mér því að halda því fram það að tala um ávinning í þessu sambandi sé hrein og bein glópska! Nema það væri nær að kalla slíkan málfltuning um ofangreind atriði hreinan áróður!

Minn tími er núna!

Allt leiðir til þeirra niðurstöðu að það er við hæfi að tala um grafskrift þjóðar og rétt að árétta það að þeir sem trúa því enn að varanleg verðmæti verði til með því að eyða því sem er ekki til í eitthvað sem verður ekki að neinu hafa ekkert lært frá því þeir prentuðu peninga fyrir óhrygnda fiska!


mbl.is Aukin samþjöppun hefur jákvæð áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafan er ósvikið lýðræði!

Það var ekki hægt að kvarta undan verðrinu í gær en sólin máir þó ekki burt það sem ógnar framtíð okkar; hvorki hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Í gær söfnuðust mótmælendur líka saman bæði í Evrópu og víðar í heiminum; eins og Argentínu, Mexíkó og Japan, og mótmæltu þeirri forgangsröðun sem viðgengst orðið í heiminum í dag. Forgangsröðun sem minnir um margt á lénstímabilsið og/eða aflátssölu kaþólsku kirkjunnar.

Enn og aftur hafa letidýrin sem nenna ekki að hafa fyrir lífinu sjálf, en sætta sig þó við ekkert minna en óhóf og vellystingar, komið hlutunum þannig fyrir að þau geti lifað snýkjulífi á almenningi líkt og á fyrrgreindum tímabilum. Valda- og eignastéttin hefur m.a. gengið svo langt að hún hefur búið til alls konar kerfisbundnar stofnanir til að viðhalda sjálfum sér en fyrirgera um leið réttindum almennings til mannsæmandi lífs.

Á sama tíma hafa hugtök eins og lýðræði og réttlæti orðið að innantómum orðum. Lýðræðið er í dauðateygunum og réttlætið er ekki til nema fyrir sjálfskipaða aðalsstétt eigna og valda. Grundvöllur þessa skipulags er geggjað fjármálakerfi sem hefur úthlutað einkabönkum einkaleyfi til að prenta peninga. Leyfið er nýtt þannig að þeir prenta peninga til útlána og reikna sér þau síðan til eigna. Þannig hefur fjármálakerfið í reynd lagt undir sig hvert samfélagið á fætur öðru uns svo er komið að það þykist í rauninni eiga allt! Hver man ekki eftir nýlegri frétt um það að einhver af þessu sauðahúsi ætlaði sér að kaupa fjallstindana í Austurríki?!

Nú hafa margir risið upp og séð í gegnum þessa svikamyllu. Spænska byltingin snýst m.a. um þetta. Í dag eru fimm vikur síðan byltingin á Spáni braust út en þar í landi hefur verið mótmælt nær linnulaust síðan. Mótmæli dagsins í dag beindust gegn stefnu Evrópusambandsins varðandi björgunaraðgerðir út úr þeirri óumflýjanlegu kreppu sem þetta kerfi skapar.

Það gefur kannski augaleið að í reynd eru ráð þeirra sem byggja á björgun innantóms fjármálakerfis fyrst og síðast aðeins kreppudýpkandi. Íslendingar hafa fengið að kynnast þessum sama aðgerðarpakka og afleiðingum hans í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem var sendur hingað og tókst með lítilli fyrirhöfn að fá íslenska valdhafa og fjármagnseigendur til liðs við aðferðir þessa gjörspillta kerfis sem gegnir því hlutverki að mergsjúga almenning í þeim tilgangi að viðhalda sjálfu sér.

Ég hvet þá sem lesa þetta til að horfa á þetta myndband og lesa skilaboð spænsku mótmælanna í gær. Ég reikna með að þeir sem gera það komist ekki hjá því að sannfærast um það að aðgerðarpakki Evrópusambandsins inniheldur  sömu verkfæri og sá sem íslenska ríkisstjórnin neyddi upp á okkur Íslendinga með samningi sínum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.



Í lauslegri þýðingu eru meginskilaboðin þessi:

Við viljum ekki að það verði tekið veð í framtíð okkar.
Við viljum ekki greiða niður ólöglegar skuldir.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í menntakerfinu.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
Við viljum ekki meiri skerðingu á kjörum almennra launþega.
Við viljum sanngjarnan starfslokaaldur og eftirlaunagreiðslur.
Við krefjumst þess að þeir sem ullu kreppunni gjaldi fyrir hana sjálfir.
Við krefjumst ríkisstjórna sem vinna með almenningi en ekki á móti honum.

Það skiptir engu hversu mikið verður reynt til að stöðva okkur.
Það skiptir engu hvað verður lagt á sig til að þagga niður í okkur.

Ofbeldi þeirra er okkar styrkur!

Leggjum undir okkur götur og torg borga og bæja um alla Evrópu [...] og fylgjum þessum kröfum eftir!

Íslenskur almenningur ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að heimfæra þessar kröfur upp á þann raunveruleika sem blasir við okkur; íslenskri þjóð. Það er þó greinilegt að það er einhver alvarleg geðlægð sem hefur lagst yfir landann þegar kemur að mótmælum. Á sama tíma og mótmælendur rísa upp á Spáni, og miklu víðar, innblásnir af árangri íslenskra mótmælenda fækkar þeim stöðugt sem „nenna“ að hafa fyrir því að spyrna á móti því gengdarlausa óréttlæti sem viðgengst hér á landi.

Þeir eru þó nokkrir sem láta slíkt ekkert á sig fá, og standa með kröfum þeirrar mótmælendabylgju sem nú ríður yfir heiminn, af því að það er ekkert sem fær stöðvað þeirra samfélagslegu meðvitund. Þessir eru óstöðvandi í hugmyndaauðginni við að hrífa aðra með til að rísa upp og taka þátt. Í dag var það u.þ.b. tuttugu manna hópur sem söng bæði á Ingólfstorgi og Austurvelli. Andres Zoran Ivanovic festi þetta á myndband.



Hér er textinn sem er sunginn í þessu myndbandi:

Lag: Drottinn er minn Hirðir
Steinki af mér hirðir, næstum hverja krónu
í löngum röðum, má maður nú hírast
þar til að þar fæ ég, eitthvert lítilræð´í poka.
Slíkt beygir sál mína, er ég fer um langan veg
í roki og kulda, til að standa í biðröð, buguð af sorg
skynja ég allt svo illt, og skömmin nærri.
Ekki er bankinn svo að hugga mig, býður ei lán
eða neina skuldbreytingu.
Sýslumaður hótar útburði, mælirinn er NÚNA fullur.
Já rukkararnir hundelta mig, alla ævidaga mína
og að boði Steinka, svelt ég langa ævi
Steinki af mér hirðir, næstum hverja krónu

                                                  (Tholly Rosmunds)

Þess má geta að þetta framtak okkar hefur orðið til þess að einhverjir hafa fengið andann yfir sig og sett saman texta við þekkt lög og komið þeim á framfæri við okkur og boðið okkur að bæta í textasafnið. Ef til vill eigum við eftir að birtast aftur niður í miðbæ Reykjavíkur og taka einhver þeirra en það þarf meira til að bylta við þeirri græðgismafíu sem er að leggja Ísland undir sig!

Það eina sem getur orðið okkur til bjargar er samtakamáttur almennings og hvenær er betra tækifæri en núna þegar almenningur víðs vegar um heiminn er að vakna til meðvitundar um það sem á sér ekki bara stað hér á landi heldur alls staðar í heiminum líka!


mbl.is „Kreppulög“ á Ingólfstorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband