Valdarán einkavæðingarinnar

Það reynir svo sannarlega á gjörhygli einstaklinga þessi misserin þegar allt lítur út fyrir að ganga þvert gegn viðteknum gildum mennskunnar. Þeir sem hafa verið í aðstöðu til að sölsa undir sig fjölmiðlana hafa nýtt þá til hálfvitavæðingar með botnlausri afþreyingariðnaðarframleiðslu. Í kjölfarinu fylgir svo lygafyllt þögnin um allt sem skiptir lífskjör okkar og afkomu máli. Jafnvel þegar þeir, sem hafa komið sér í þá aðstöðu að hafa áhrif, opna munninn er það til að bæta grárri lygi ofan á myrkur óvirkninnar sem þeir hafa af einhverjum ástæðum samþykkt að taka þátt í að skapa.

Í þessu ljósi er spurningin sem kviknaði við lestur tengdrar fréttar ofureðlileg: Hverju skipta orð manna sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif þegar efndirnar eru engar? Við þessa má svo bæta: Hverju breyta orðin þegar þau fara ekki saman við athafnir? Til hvaða afleiðinga er slíkt háttalag, að segja eitt en gera annað, betur fallið en skapa tvístígandi óvissu athafnaleysis?
Peningaræðið
„Give me control of á nations money supply and I care not who makes it's laws“ er ýmist haft eftir stofnanda Rothschilds bankaveldisins eða syni hans sem hann sendi til Bretlands að leggja undir sig fjármálaheiminn þar (sjá hér) Nú einni eða tveimur öldum síðar þá hefur þessi hugmyndafræði náð fullkomnun þar sem lýðræðið, frelsið og réttlætið hafa verið einkavædd og ganga kaupum og sölum um allan heim.

Ég veit ekki hvort það er einu sinni að ganga skrefinu lengra að benda á að ef almenningur tekur ekki ráðin í sínar hendur og vísar sölumönnum lands, þjóðar og framtíðar frá fyrir illan ásetning þá gætum við horft upp á þann veruleika hér á landi að „lýðveldið Ísland“ verði framleitt í Kína eins og á reyndar við um eitthvað af „alíslensku“ túristavörunum nú þegar.

Einhverjir eru enn bundnir af áróðri fjölmiðla sem upphefja framferði dólganna sem hafa sölsað þá undir sig en beita þeim til alls kyns persónulegs ofbeldis gegn þeim sem hafa eitthvað við aðstöðumuninn, sem er verið að festa í sessi, að athuga. Þannig er vinna einstaklinga og grasrótarhópa, sem benda á að peningavaldið hunsi lögin sem voru sett til að verja réttindi allra samfélagsþegnanna, hæddir og úthrópaðir í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra. En fulltrúar peningavaldsins vaða uppi með drýldinni framkomu og uppnefna þá og aðra samfélagslega meðvitaða einstaklinga sem hóflausan skríl og þaðan af verra.

Sumarþing kemur saman núna næst komandi föstudag til að fjalla um nýja stjórnarskrá, vatna- og upplýsingalögin og fleira sem færibandsstjórum steinhússins niður við Austurvöll þykir aðkallandi að verði unnið í akkorði næstu tíu daga þar á eftir. Af því tilefni hefur verið boðað til þögulla mótmæla á virkasta viðspyrnuvettvangi landsins (sjá hér) Þing verður svo sett með hefðbundnum hætti þann 1. október n.k. kl. 10:25 og stefnuræða forsætisráðherra flutt mánudaginn 3. október klukkan 19:50. 

Þegar þessi tímaáætlun var sett fór töluverður tími í að ræða það hvernig skyldi bregðast við hugsanlegum mótmælum og hvort ekki væri ástæða til að setja upp girðingar þannig að eggjakastarar næðu ekki til „skrúðgöngunnar“ milli kirkju og þinghúss eða koma boðum til mótmælenda um að hlífa þessu viðkvæma steinhúsi við eggjum og öðrum óþrifnaði sem samkvæmt hugmyndafræði einhvers innanhússmanns krefst háþrýstiþvotts sem fer illa með múrinn.

Af þessu ætti það að vera ljóst að sekir hræðast en það stendur ekki til hjá þeim að breyta um háttalag. Ég bendi á þetta til að hvetja þig til að mæta núna á föstudaginn og minna á að öll sú orka sem hefur verið sett í að tvístra og svæfa íslenskan almenning má sín einskis gagnvart þeirri meðvitund sem íslenskur almenningur hefur vaknað til varðandi framferði valdhafanna. Þolinmæðin er okkar Einkavæðingarterrorismistyrkur!

Af áróðri valdhafanna lesum við óttablandna sekt þeirra og vitum að varnir þeirra eru að hruni komnar. Við erum hvergi smeyk því við höfnum einkavæddu réttlæti, burtseldu lýðræði peningaaflanna og kostuðu frelsi bankadólga. Við höfnum stjórnmálamönnum sem bjóða okkur upp á veruleika einkavæðingar- mafíu prentsmiðjustjóranna hjá Peningar ehf!


mbl.is Sjóðurinn vildi ekki aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þennan pistil Rakel, góð eins og alltaf.  Ég kemst því miður ekki nú frekar en oft áður, en ég verð með ykkur fullkomlega í huganum.  Ég vil að síðustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði kærð af alþingi til landsdóms, og réttað verði yfir þeim fyrir embættisafglöp.  Svo djúp spor hafa þau markað í sálarlíf landsmanna að ekki verður við unað.  Þá á ég við ef Jóhanna hefur barist gegn því að skuldir landsmanna væru færðar niður, bankar vildu slíkt en hún barðist á móti, til aðbjaga íbúðalánasjóði.  Það er bara ekki hægt að líða slíkt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.8.2011 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband