Syngjum til breytinga

Austurvallarkórinn ætlar að koma saman og syngja nokkur kreppulög í Kolaportinu klukkan 14:00 í dag. Tilefnið er ekki eingöngu mótmælin úti Evrópu og víðar heldur það að vekja áheyrendur til glaðvakandi meðvitundar um óréttlætið og lýðræðishallann sem við búum við. Við höfum nefnilega ekki efni á því að sitja þegjandi undir þeim hörmungum sem stjórnsýslan og fjármálastofnanirnar eru að leggja á þjóðina.

Austuvellingar

Flestir textarnir á söngdagskránni eru við þekkt íslensk lög en hefur verið snúið þannig að þeir fjalla um alþekktar afleiðingar kreppunnar á lífskjör almennings. Auk þeirra eru tvö lög eftir Magnús Þór Sigmundsson. Annað við texta eftir Hallgrím Helgason, sem hann orti upp úr Ísland er land þitt, en hitt er við texta Magnúsar Þórs. Viðlagið á einkar vel við um þessar mundir þar sem segir: „Hvar er skjaldborgin mín, þessi skjöldur og hlíf? / Hvar er skjaldborgin mín, hvar er hús mitt og líf?“

Austurvallarkórinn skipa samfélagslega meðvitaðir einstaklingar sem hafa staðið fyrir ýmsum viðspyrnuaðgerðum frá haustinu 2008. Guðbjörg Elísa Hafsteinsdóttir, sem tók þátt í Idolinu árið 2005, syngur einsöng með kórnum en hljómborðsleikarinn Hjörtur Howser hefur útsett lögin og spilar undir.

Við syngjum því við viljum breytingar. Við hvetjum alla til að taka þátt og taka undir sameiginlegrar kröfur mótmælenda víðs vegar um jarðarkringluna:

Við viljum ekki að það verði tekið veð í framtíð okkar.
Við viljum ekki greiða niður ólöglegar skuldir.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í menntakerfinu.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
Við viljum ekki meiri skerðingu á kjörum almennra launþega.
Við viljum sanngjarnan starfslokaaldur og eftirlaunagreiðslur.
Við krefjumst þess að þeir sem ullu kreppunni gjaldi fyrir hana sjálfir.
Við krefjumst ríkisstjórna sem vinna með almenningi en ekki á móti honum.

Meðlimir Austurvallarkórsins munu dreifa söngtextahefti á staðnum þannig að allir sem vilja geta tekið undir eða rifjað upp það óréttlæti sem við búum undir að hálfu fjármálastofnanna og stjórnvalda. Þeir sem ekki komast geta kynnt sér textana í krækjunni hér að neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott hjá ykkur verð með í huganum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.7.2011 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband