Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið

Þetta er fimmta færslan þar sem menntun og starfsreynsla ráðherranna í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn eru borin saman í þeim tilgangi að draga það fram til hvers formenn stjórnmálaflokkanna horfa við skipun framkvæmdavaldsins. Markmiðið er eins og áður hefur komið fram að vekja til umhugsunar um það hvort núverandi aðferð við skipun æðstu manna ráðuneytanna sé líkleg til að skila kjósendum heillavænlegri niðurstöðu. Hér er einkum átt við meðferð sameignarsjóðs allrar þjóðarinnar og stefnu varðandi þá samfélagsþjónustu sem liggur skattskyldunni sem myndar hann til grundvallar.

Nú þegar hafa ráðherrar fjögurra ráðuneyta verið bornir saman en með þessari færslu er samanburðurinn hálfnaður. Að þessu sinni snýst samanburðurinn um  ráðherra iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Á síðasta kjörtímabili var ráðherraembættunum fækkað úr tólf niður í átta. Þetta var gert í nokkrum skrefum þar sem einstaklingum var vísað út og nýir jafnvel teknir inn. Það er e.t.v. meðal annars af þessum ástæðum sem heitin á ráðherraembættunum voru nokkuð á hreyfingu. 

Marie Guire

Í upphafi kjörtímabilsins var Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra en Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Í lokin var Steingrímur J. Sigfússon komin með bæði ráðuneytin auk landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins. 1. september 2012 var heiti embættis hans breytt í atvinnu- og nýsköpunarráðherra. Þetta er nýtt embættisheiti en hins vegar er atvinnumálaráðherra eitt af þremur elstu ráðherraembættunum. Hin tvö eru forsætisráðherra og fjármálaráðherra (sjá hér).

Magnús GuðmundssonÍ sjöunda skipti sem ríkisstjórn var skipuð á Íslandi var það í höndum Ásgeirs Ásgeirssonar (síðar forseta) sem var forsætisráðherra á árunum 1932 til 1934. Hann skipaði Magnús Guðmundsson til að fara með iðnaðarmál. Magnús var dómsmálaráðherra en fór auk þess með sjávarútvegs-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmál. Lesendur eru hvattir til að kynna sér athyglisverða ferilskrá hans á vef Alþingis hér. Meðal mjög margra forvitnilegra þátta sem þar er getið vekur það sérstaka athygli að meðal verkefna sem Magnús hefur verið skipaður til eftir að hann var kosinn inn á þing er staða skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu.

Emil JónssonFyrstur til að gegna stöðu iðnaðarráðherra var Emil Jónsson. Það var í fjórtándu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1944 til 1947. Ólafur Thors var forsætisráðherra hennar en Emil samgöngu- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það er rétt að taka það fram enn og aftur að heimildum Alþingis, Stjórnarráðs og í þessu tilviki ráðuneytisins ber reyndar ekki saman hvað embættisskyldur ráðherra fortíðarinnar varðar en í þessari samantekt hef ég miðað við það sem segir hér. Það má svo geta þess að  Emil stofnaði iðnskóla í Hafnarfirði 1926 og var skólastjóri hans til 1944 (sjá hér).

Eysteinn JónssonEysteinn Jónsson var fyrsti viðskiptaráðherrann. Hann gegndi því embætti á árunum 1939 til 1941. Þetta var í tíundu ríkisstjórn Íslands en Hermann Jónasson var forsætisráðherra hennar. Eysteinn fór eingöngu með viðskiptaráðuneytið en áratugina á eftir var algengast að ráðherrarnir sem fóru með viðskipta- og iðnaðarmálin færu með eitt til þrjú önnur stjórnarmálefni samhliða. Í því sambandi má t.d. benda á að Gylfi Þ. GíslasonGylfi Þ. Gíslason sem var viðskiptaráðherra frá 1958 til 1971, eða alls í 13 ár, fór með menntamálin samhliða því.

Sjálf þykist ég muna svo langt aftur að einhverjum hafi fundist að menntamálin hafi setið óþarflega mikið á hakanum fyrir árvökulum áhugi Gylfa á hvers kyns nýlundu umheimsins í viðskiptaháttum sem hann vildi taka upp hérlendis. Það má þó vera að um bernskan misskilning sé að ræða á þeim skoðunum sem látnar voru uppi á þeim tíma um áherslur hans í embætti.

Árið 1978 tók Ólafur Jóhannesson upp á þeirri nýbreytni að skipta iðnaðar- og viðskiptamálunum á tvo ráðherra. Þá  var Svavar Gestsson skipaður viðskiptaráðherra og Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra (sjá hér). Áratug síðar leiddi Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórnarsamstarfið og setti málflokkana tvo undir einn ráðherra að fyrirmynd Ólafs Thors (sjá hér). Þessi skipting hélst næstu 19 árin eða þar til hrunstjórnin tók við vorið 2007. Þá fór Össur Skarphéðinsson með iðnaðarmálin eingöngu á meðan Björgvin G. Sigurðsson fór með viðskiptaráðuneytið eins og frægt er orðið. Þekktustu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir eru þó án efa þrjú þeirra sem stýrðu ráðuneyti þessara málaflokka á því tímabili sem af sumum hefur verið kennt við góðæri.

Fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherrar

Hér er átt við þau Jón Sigurðsson (síðar seðlabankastjóra), Finn Ingólfsson og Valgerði Sverrisdóttur. Jón var kjörinn inn á þing árið 1987 og var skipaður viðskipta- og iðnaðarráðherra árið eftir eða 1988. Hann gegndi því í fimm ár áður en hann fékk lausn undan því á miðju ári 1993. Finnur Ingólfsson kom inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins árið 1991. Árið 1995 var hann skipaður til að fara með málefni viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins. Hann gegndi embættinu í fjögur ár eða þar til hann fékk sig lausan undan því í lok árs 1999. Valgerður Sverrisdóttir kom ný inn á þing á sama tíma og Jón Sigurðsson. Hún var skipuð viðskipta- og iðnaðarráðherra árið 2003 og fór með embættið í þrjú ár.

Það sem vekur væntanlega meiri athygli en annað í ferilskrá Jóns Sigurðssonar er að hann var „í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1980—1983“ og að hann var „varafulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1974—1987“ eða þar til hann var kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Það vekur svo væntanlega líka athygli að í framhaldi þess að hann fékk lausn frá viðskipta- og iðnaðarráðherraembættinu var hann fyrst „bankastjóri Seðlabanka Íslands og formaður bankastjórnar 1993—1994.“ og í framhaldinu: „Aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans 1994—2005.“ (sjá hér) Kannski er ástæða til að vekja athygli á því að Jón Sigurðsson var skipaður dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra sama ár og hann var kjörinn inn á þing en Friðrik Sophusson, síðar forstjóri Landsvirkjunar (sjá hér), fór þá með iðnaðarmálin (sjá hér)

Finnur Ingólfsson  hefur verið mikið í viðskiptafréttum eftir hrun (sjá t.d. hér) en það væri synd að segja að einhverjum ljóma stafaði af þeim fréttum. Þvert á móti er útlit fyrir að full ástæða væri til að skoða viðskiptasögu hans gaumgæfilegar m.a. með tilliti til þess hvort og þá hvernig staða hans sem stjórnmálamanns hefur haft áhrif á uppgang hans í viðskiptalífinu. Þetta er ekki aðeins mikilvægt til að hreinsa hann sjálfan ef sakargiftir almannarómsins eru rangar heldur ekki síður til að bæta ímynd annarra þingmanna og endurreisa traust almennings á siðferði íslenskrar pólitíkur.

Valgerðar Sverrisdóttur verður að öllum líkindum helst minnst fyrir það að hún var viðskipta- og iðnaðarráðherra þegar fyrsta sprengingin vegna Kárahnjúkavirkjunar var sprengd og samningurinn við Alcoa um byggingu álvers á Reyðarfirði var undirritaður (sjá hér). Dauði Lagarfljóts mun væntanlega vernda minninguna um hennar störf og ríkisstjórnarinnar sem veitti henni umboðið næstu áratugina ef ekki árhundruðin.

Það er óskandi að það þurfi ekki fleiri slys af líku tagi til að kjósendur ranki við sér, og vonandi stjórnsýslan líka, gagnvart því að próf úr framhaldsskóla auk tungumálanámskeiða (sjá hér) eru ekki líklegur grunnur til að valda ráðherraembætti jafnvel þó viljinn standi allur til afburða árangurs og góðra verka. Hér er rétt að árétta að það eru formenn flokkanna sem sitja í ríkisstjórn sem skipa í embætti hvers ráðuneytis. Allt bendir til þess að skipunin miðist fyrst og fremst við pólitíska stöðu óháð menntun og/eða starfsreynslu sem tengist þeim málaflokkum sem viðkomandi er ætlað að fara fyrir sem æðsti umboðsaðili kjósenda.

John Adams

Eins og upprifjunin hér að ofan gefur væntanlega tilefni til að gera sér í hugarlund þá hefur mörgum kjósandanum þótt ærin ástæða til að gagnrýna atvinnumálastefnu stjórnvalda sem þykir alltof upptekin af stóriðjuframkvæmdum og skyndigróða. Þó nokkrir vöruðu ítrekað við afleiðingum þessa fyrir hrun en hagsveifluvagninn var í slíkri uppsveiflu að þeim sem bar að hlusta sinntu ekki þeirri skyldu að velta ofsahraðanum fyrir sér eða því hvað tæki við þegar toppnum yrði náð. Það var rétt eins og stjórnvöld ímynduðu sér að þeir væru staddir um borð í rússíbana með öryggisgrindum sem tryggir það að allir sem eru um borð komast upp úr hyldýpi niðursveiflunar aftur með sama vagninum.

Rússíbani nýfrjálshyggjunnar

Undir lok síðasta kjörtímabils gerðist þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sporgöngumaður þeirra sem sátu undir forsætisráðherrum Sjálfstæðisflokksins síðustu tvo áratugina fyrir hrun, með því að leggja fram frumvarp til laga um fjárfestingarsamning og ívilnanir vegna kísilvers á Bakka við PCC SE sem verður þar með eigandi kísilversins:

Ef áætlanir standast gæti framleiðslan hafist 2016 og gert er ráð fyrir að hún verði aukin upp í 66 þúsund tonn síðar. Félagið fær sérstakar skattaívilnanir vegna nýfjárfestinga umfram aðrar heimildir í lögum. Til dæmis hvað varðar tekjuskatt, tryggingagjald, stimpilgjöld, fasteignagjöld og fleira. Samtals um 1,5 milljarða á tíu ára tímabili. Ríkið greiðir einnig nærri 800 milljónir vegna framkvæmda við lóðina og þjálfun nýs starfsfólks.

Þá samþykkti Alþingi einnig frumvarp um þátttöku ríkisins í gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og Bakka fyrir 1.800 milljónir króna. Ríkissjóður veitir síðan víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda fyrir  819 milljónir króna. (sjá hér)

Þó einhverjir létu vonbrigði sín í ljós yfir þessari nýfrjálshyggju fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra þá fór ótrúlega lítið fyrir umræðu um innihald þessara laga. Líklega eru þeir þó allnokkrir sem sjá líkindi þess sem hér er borið á borð og þess sem haldið var fram við samningsundirrituna varðandi álversbygginguna á Reyðarfirði.

Í þessu samhengi þykir rétt að geta þess að Atli Gíslason hélt reyndar mjög eftirminnilega ræðu í tilefni þess að kísilversfrumvarp Steingríms J. Sigfússonar var til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Tveimur myndböndum með ræðu hans var deilt á You Tube þar sem hún hefur fengið eitthvert áhorf. Myndbandið hér að neðan og annað sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti og deildi hafa alls fengið yfir 4.000 heimsóknir:

Frumvarp fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra um fjárfjárfestingarsamning og ívilnanir vegna kísilvers á Bakka við PCC SE var síðasta máið sem var tekið fyrir á lokadegi þinghalds fyrrverandi ríkisstjórnar. Ragnheiður Elín studdi það að frumvarpið yrði að lögum eins og aðrir Sjálfstæðismenn sem voru viðstaddir að Pétri H. Blöndal og varaþingmanninum Sigríði Á. Andersen undanskildum (sjá hér)

Á júníþingi nýkjörinnar ríkisstjórnar lét Ragnheiður Elín hafa það eftir sér að hún geti hugsað sér að fara eftir því fordæmi sem Steingrímur gaf „með ívilnandi samningum gagnvart framkvæmdum við kísilver á Bakka“ (sjá hér). Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um það „hvort ekki væri kominn tími til að horfast í augu við að ómögulegt væri að ná samningum um raforkusölu til álvers í Helguvík.“

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Iðnaðar- og viðskiptaráðherrar

Steingrímur, sem er fæddur árið 1955, á sér afar sérstæða sögu sem ráðherra á síðasta kjörtímabili. Fyrsta ráðherraembættið sem hann tók í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var staða fjármálaráðherra sem hann gegndi í rúmlega tvö og hálft ár eða til 31. desember 2011. Þá upphófst einn sérstæðasti ráðherrakapall sem sést hefur hérlendis. Á árlegum ríkisráðsfundi á Bessastöðum þennan gamlársdag fyrir tæpum tveimur árum var Árna Páli Árnasyni, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jóni Bjarnasyni, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vikið úr ráðherrastóli en Steingrímur tók við stöðum beggja.

Hálfu ári síðar bætti Steingrímur við sig afleysingu fyrir Katrínu Júlíusdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, á meðan hún var í fæðingarorlofi. 1. október 2012 tók hann svo iðnaðarráðuneytið formlega yfir. Við þetta tækifæri voru framantalin embætti gerð að einu og hálfu. Katrín Júlíusdóttir, sem hafði tekið við fjármálaráðuneytinu þegar hún sneri aftur úr fæðingarorlofinu, tók  efnahagsmálin en  Steingrímur sat áfram yfir hinum sem voru sett undir eitt ráðuneyti. Við þetta tilefni var embættisheitinu breytt í atvinnu- og nýsköpunarráðherra (sjá hér).

Með því að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur tóku við stjórnartaumunum nú í vor varð sú breyting gerð að iðnaðar- og viðskiptamálin voru tekin saman og sett undir einn ráðherra líkt og tíðkaðist á árunum 1988 til 2007. Það er Ragnheiður Elín Árnadóttir sem gegnir þessu embætti nú. Hún er fædd 1967 og var því 46 ára þegar hún tók við embættinu. Steingrímur var skipaður ráðherra í fyrsta skipti fyrir 25 árum.

Menntun og starfsreynsla:
Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 21s árs og BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands fimm árum síðar. Árið eftir, eða þegar hann var 27 ára, lauk hann uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla.

Meðfram háskólanáminu keyrði hann vörubíla á sumrin en eftir útskriftina þaðan vann hann í eitt ár við jarðfræðistörf jafnframt því sem hann var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Árið eftir var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið, þá 28 ára

Ragnheiður Elín var tvítug þegar hún útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Fjórum árum síðar útskrifaðist hún með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Samkvæmt ferilskrá hennar sem er á vef Alþingis er hún með mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum en útskriftarársins er ekki getið.

Þegar Ragnheiður var 28 ára hóf hún störf hjá Útflutningsráði þar sem hún var í þrjú ár eða til ársins 1998. Við upphaf starfsferilsins þar var hún aðstoðarviðskiptafulltrúi, þá viðskiptafulltrúi í New York og síðast verkefnisstjóri í Reykjavík. Í framhaldinu var hún ráðin aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, fyrst í Fjármálaráðuneytinu (1998-2005, þá í Utanríkisráðuneytinu (2005-2006) og síðast í Forsætisráðuneytinu (2006-2007) eða uns hún var kjörin inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá 40 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í háskólapólitíkinni í Háskólanum þar sem hann átti sæti í stúdentaráði á árunum 1978-1980. Frá því að hann var kjörinn inn á þing fyrir þremur áratugum hefur Steingrímur átt sæti í ellefu stjórnum, ráðum og nefndum utan Alþingis. Flestum ábyrgðarstöðunum af þessu tagi gegndi hann árin 1999 og 2000. Það sem vekur sérstaka athygli í þessum hluta ferilskrár hans er hve mörg þessara verkefna tengjast setum á samráðsþingum ráðamanna utan landssteinanna.

Steingrímur var varaformaður Alþýðubandalagsins um sex ára skeið eða frá árinu 1989 til ársins 1995. Fjórum árum síðar var hann kjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar- græns framboðs við stofnun flokksins í febrúar 1999. Steingrímur gegndi þessu embætti fram til síðasta landsfundar VG sem var í febrúar á þessu ári. Þegar hann lét formannsembættið eftir hafði hann stýrt flokknum í fjórtán ár.

Eins og áður hefur komið fram var Ragnheiður Elín aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár í þremur ráðuneytum áður en hún settist inn á þing. Á þeim tíma sat hún í tveimur til fimm nefndum og ráðum á ári eða alls níu yfir tímabilið. Flestum árið 2005. Hún átti m.a. sæti í samninganefnd ríkisins sem sér um samningagerð fyrir hönd ríkisins við opinbera starfsmenn. Árið 2005 var hún líka skipuð í fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar þar sem hún átti sæti þar til hún var kjörin inn á þing tveimur árum síðar. Ragnheiður var formaður þingflokks sjálfstæðismanna frá 2010 til ársins 2012.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Steingrímur hefur setið ósliðið á þingi frá árinu 1983 eða frá 28 ára aldri til 58 ára aldurs. Hann hefur því setið á þingi í 30 ár. Þennan tíma hefur hann starfað undir alls þremur þingflokkum. Fyrst þingflokki Alþýðubandalagsins (1983-1998), þá Óháðum (1998-1999) og svo Vinstri grænum undanfarin 14 ár. Upphaflega kom Steingrímur inn á þing sem alþingismaður Norðurlands en eftir breytingar á kjördæmaskiptingunni (sjá
hér) hefur hann verið  þingmaður Norðausturkjördæmis eða frá árinu 2003. 

Þegar litið er til setu Steingríms í þingnefndum kemur í ljós að hann sat í efnahags- og viðskiptanefnd á árunum 1991 til 1999, eða í átta ár, sem má gera ráð fyrir að hafi aflað honum einhverrar þekkingar- og reynslu af málflokknum sem hann stýrði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn.

Ragnheiður Elín kom ný inn á þing vorið 2007 sem alþingismaður Suðvesturkjördæmis en hefur verið þingmaður Suðurlands frá alþingiskosningunum 2009. Hún hefur því setið á þingi í 6 ár. Frá því að Ragnheiður Elín tók sæti á Alþingi hefur hún verið skipuð í fimm þingnefndir. Þar af sat hún tvö ár í iðnaðarnefnd og eitt ár í viðskiptanefnd.

Ráðherraembætti:
Steingrímur var 33 ára þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti. Þá var hann skipaður landbúnaðarráðherra í öðru ráðuneyti
Steingríms Hermannssonar (sjá hér). Átta árum síðar, með stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna, var hann lengst fjármálaráðherra en auk þess gegndi hann fjórum öðrum embættum í mislangan tíma. Síðast embætti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem var nýtt heiti en með því voru málefni landbúnaðarins, sjávarútvegsins, iðnaðarins og viðskiptanna felld undir eitt ráðuneyti. Steingrímur var 56 ára þegar hann tók við ráðherraembætti iðnaðar og viðskipta (sjá nánar hér)

Ragnheiður Elín er nýskipaður ráðherra þessara stjórnarmálefna. Hún er 46 ára þegar hún er skipuð iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða tíu árum yngri en Steingrímur þegar hann tók við embættinu (sjá nánar hér).

Samantekt
Steingrímur og Ragnheiður Elín eru bæði með stúdentspróf og háskólanám að baki en þar með er það sem ferilskrár þeirra eiga sameiginlegt nánast upptalið. Steingrímur er 26 ára þegar hann lýkur BS-prófi í jarðfræði og tekur svo eins árs viðbótarnám til kennsluréttinda í beinu framhaldi. Ragnheiður Elín er 24 þegar hún útskrifast úr stjórnmálafræðinni en ekki kemur fram hvenær hún lauk meistaranáminu í alþjóðasamskiptum. 

Steingrímur hefur um fimm ára starfsreynslu utan stjórnmálanna. Starfsreynslunnar aflar hann sér aðallega meðfram námi. Ári eftir námslok var hann kominn inn á þing 28 ára gamall og hefur setið þar síðastliðna  þrjá áratugi.

Þar sem það er ekki gefið upp hvenær Ragnheiður Elín tók MS-prófið í Bandaríkjunum er ekki alveg ljóst hvort þriggja ára starfsreynsla hennar hjá Útflutningsráði er meðfram því námi eða að því loknu. Starfsreynsla Ragnheiðar Elínar liggur hins vegar aðallega innan stjórnsýslunnar þar sem  hún var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde níu ár áður en hún var kjörin þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref hins vegar í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í Háskólanum. Steingrímur var kjörinn varaformaður Alþýðubandalagsins sex ára þingveru og gegndi því embætti í önnur sex ár eða til ársins 1995. Hann var kjörinn formaður Vinstri grænna við stofnun flokksins árið 1999. Fyrir síðasta landsfund VG sem var haldinn í upphafi þessa árs gaf Steingrímur út þá yfirlýsingu að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku flokksins (sjá hér).

Á því níu ára tímabili sem Ragnheiður Elín var aðstoðarmaður ráðherra átti hún sæti í átta nefndum og ráðum. Þ.á m. var hún varamaður í bankaráði Norræna fjárfestingarbankans í fjögur ár. Steingrímur sem var  kominn inn á þing laust fyrir þrítugt hefur reyndar líka aflað sér einhverrar reynslu af stjórnmálastörfum utan alþingis. Auk forystuhlutverka í þeim flokkum sem hann hefur starfað með hefur hann einkum starfað með nefndum og átt sæti á þingum með ráðamönnum víðsvegar frá Evrópu.

Þrátt fyrir að Steingrímur eigi fimm sinnum lengri þingferil á Alþingi en Ragnheiður Elín hefur hún starfað með jafnmörgum þingnefndum og hann. Hér er reyndar rétt að geta þess að núverandi fyrirkomulag þingnefnda var ekki leitt í lög fyrr en árið 1991 (sjá hér). Sama ár var Steingrímur skipaður til sætis í þremur slíkum. Ein þeirra var efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hann átti sæti næstu átta árin. Ragnheiður Elín hefur átt sæti bæði í iðnaðarnefnd og viðskiptanefnd. Samanlögð seta hennar í þessum nefndum eru þrjú ár.

Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því að vera í þingnefndum veiti þingmönnum ákveðna innsýn í þá málaflokka sem eru á hennar sviði en það er hæpið að reikna með að hún sé nógu yfirgripsmikil til að hún komi að miklu haldi þegar kemur að því að fara með framkvæmdavald málefnisins úr ráðherrastóli viðkomandi málaflokks. Þegar litið er til annars bakgrunn sem liggur skipun þessara í embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur þingreynsla og þáverandi staða Steingríms innan síns eigin flokks væntanlega ráðið mestu.

Væntanlega hefur bæði menntun og atvinnureynsla Ragnheiðar Elínar skipt miklu við skipun hennar í núverandi embætti hennar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra en þó hefur reynsla hennar sem aðstoðarmanns Geirs H. Haarde og formanns þingflokks sjálfstæðismanna til tveggja ára að öllum líkindum haft töluvert um það að segja að hún hlaut embættið. 

Frá kynslóð til kynslóðar

Þegar horft er til síðustu aðgerða Steingríms J. Sigfússonar undir lok síðasta kjörtímabils og þess hvernig Ragnheiður Elín svaraði fyrirspurn hans um málefni Helguvíkur (sjá hér), sem sagt var frá hér í aðdraganda, kann að vera forvitnilegt að rýna í það sem Steingrímur sagði í blaðaviðtali um hlutverk stjórnarandstöðu gagnvart þeim sem sitja í stjórn. Tilefni blaðaviðtalsins er það að þau: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsson, Steingrímur og Ögmundur Jónasson stofnuðu þingflokk óháðra haustið 1998. Steingrímur hafði þetta að segja um tilgang stofnunar hans: 

Steingrímur sagði að þingflokkarnir væru mjög mikilvæg grunneining í öllu starfi og skipulagi þingsins og það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt mál að hópur þingmanna, sem væru eins settir, skipulegði sín störf saman. "[...] Við erum allt þingmenn í stjórnarandstöðu og þar af leiðandi sömu megin meginvíglínunnar í stjórnmálabaráttunni sem skiptir stjórn og stjórnarandstöðu og við erum öll eins sett hvað það snertir að við höfum sagt skilið við okkar flokka.“ (sjá hér)

Það vekur væntanlega athygli að Steingrímur víkur hvergi að því hvernig þingflokkurinn muni þjóna hagsmunum þjóðarinnar eða því hlutverki hans að standa vörð um kosningaloforð Alþýðubandalagsins sem var að leysast upp á þessum tíma með Kvennalistanum. Þess má geta að fylkingarnar sem báru ábyrgðina að upplausn framantalinna flokka stofnuðu síðar Samfylkinguna.

Orðaskipti þeirra Steingríms og Ragnheiðar Elínar undir þinghaldi nýskipaðrar ríkisstjórnar í júní síðastliðnum gefa ekki tilefni til að ætla að sú hugmyndafræði sem kemur fram í svari Steingríms í blaðaviðtalinu hér að ofan hafi breyst til batnaðar. Sú kerskni sem kemur síðan fram í tilsvari Ragnheiðar Elínar bendir heldur ekki til annars en hún sé undir sömu hugmyndir og Steingrímur seld varðandi það hvaða samskiptamáti sé við hæfi þegar kemur kemur að samskiptum þeirra sem skipa ríkisstjórn og hinna sem eru í stjórnarandstöðunni.

Hér má vissulega ekki gleymast að allir meðvitaðir einstaklingar ætlast til vandaðra vinnubragða af þeim sem þeir kjósa inn á þing og þá ekki síst þeirra sem fara með framkvæmdavaldið í sameiginlegum málaflokkum samfélagsins alls. Orðaskipti sem minna á vígaferli eru ekki líkleg til að vekja kjósendum trausts á hæfileikum til trúnaðarstarfa á borð við málaflokk sem er í jafn viðkvæmri stöðu og atvinnumál þjóðarinnar.

Hins vegar er ljóst að þegar menntun og starfsreynsla þessara tveggja er skoðuð þá stendur ferill Ragnheiðar Elínar starfsviði þess ráðuneytis sem hún stýrir nokkuð nær en ferill forvera hennar. Þar af leiðandi hlýtur hún a.m.k. að teljast hæfari til að verða æðstráðandi í þessum málaflokkum en hann.

Burtséð frá því hvort er hæfara, Steingrímur eða Ragnheiður Elín, til að fara með embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur núverandi aðferð við skipun þess ekki skilað sér til neinnar farsældar fyrir samfélagið. Nægir þar að minna á árangrinum af stóriðjustefnu þeirra sem gegndu þessari sömu stöðu áratugina fyrir efnahagshrunið haustið 2008.

Albert Einstein

Ef fram heldur sem horfir þá er þó hætt við að framhald verði á þeirri áherslu sem hefur verið í stefnu stjórnvalda varðandi iðnaðar- og viðskiptamálin þar sem stórfyrirtæki á sviði stóriðju fara sínu fram á kostnað heildarhagsmuna. Því miður virðist það vera rótgróinn hugsunarháttur innan ráðuneytisins að það þjóni samfélaginu best að setja gróðavonina í forgang.

Helstu heimildir

Ráðherratal Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Fastanefndir Alþingis: Sögulegt yfirlit
Stjórnkerfisbreytingar

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2012: Mat á störfum ráherra
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Heimildir um frumvarp Steingríms J. Sigfússonar vegna Bakka:

Samstarfsyfirlýsing um kísilver á Bakka (fréttatilkynning á vef Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frá 15. febrúar 2013)
Samkomulag um kísilver á Bakka. mbl.is:
15. febrúar 2013
Steingrímur J. Sigfússon: Nokkur orð um stuðning við uppbyggingu á Bakka. 641.is: 22. mars 2013
Skiptar skoðanir um kísilver á Bakka. ruv.is: 28. mars 2013
Lög um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi (lög nr. 52 8. apríl 2013)

Aðrar heimildir sem varða iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið:

Öflug sprenging við Kárahnjúka. mbl.is: 13. mars 2003
Undirritun samninga um byggingu álvers Fjarðaráls sf. í Reyðarfirði
(fréttatilkynning frá ráðuneytinu 14. mars, 2003)

Jóhann Páll Jóhannsson: Alræmdur iðnaðarrisi myndi græða á ívilnunum Ragnheiðar. dv.is: 25. júní 2013


mbl.is Þingið kemur saman 10. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hér verður samanburði á menntun og starfsreynslu ráðherra í fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn framhaldið. Þetta er fjórða færslan með slíkum samanburði en áður hafa forsætisráðherrarnir, fjármálaráðherrarnir og heilbrigðisráðherrarnir verði bornir saman. Þegar samanburði ráðherra allra ráðuneytanna verður lokið er líklegt að einhver heildarmynd hafi náðst fram varðandi þau viðmið sem formenn ríkisstjórnarflokkanna fara eftir við skipun í ráðherrastólana. 

Hefðin hefur verið sú að skipa þingmenn úr þingflokkunum sem sitja í ríkisstjórn sem þýðir að viðkomandi eiga sæti á löggjafarsamkundunni jafnframt því að fara með framkvæmdavaldið. Nokkur umræða kviknaði um þetta fyrirkomulag í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 meðal annars út frá því hvort það kynni ekki að grafa undan lýðræðinu að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið væri í reynd orðin sama samkundan. Ekkert fór hins vegar fyrir þessari umræðu þegar kom að alþingiskosningunum síðastliðið vor.

John Adams

Þó bæði stjórnmálamennirnir og þeir sem starfa inni á fjölmiðlunum hafi látið sem þessi umræða væri ekki þess verð að taka hana upp í aðdraganda kosninganna reikna ég með að það sama eigi alls ekki við um alla kjósendur. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem hér hefur verið ráðist í það verkefni að endurvekja þessa umræðu þó það sé gert með væntanlega frekar óvæntri nálgun.

Að þessu sinni verður fjallað um mennta- og menningarmálaráðuneytið með svipuðum hætti og þau á undan. Hér verður þess vegna byrjað á því að líta til þess hvenær framkvæmdavaldið byrjaði að láta mennta- og menningarmálin sig einhverju varða en í framhaldinu verða núverandi og fyrrverandi ráðherra þessara málaflokka bornir saman.

Þorsteinn BriemFyrsta íslenska ríkisstjórnin var sett saman á árinu 1917 (sjá hér). Tveimur og hálfum áratug síðar fékk Ásgeir Ásgeirsson (síðar forseti) umboð til myndunar sjöundu ríkisstjórnarinnar þar sem hann setti Þorstein Briem yfir kennslumál. Þorsteinn var atvinnumálráðherra í þessari ríkisstjórn Ásgeirs sem sat á árunum 1932 til 1934. Auk þess að fara með kennslumálin fór hann líka með kirkjumálin.

Kennslumálin heyrðu aftur undir atvinnumálaráðherra næstu ríkisstjórnar sem sat á árunum 1934 til 1938. Atvinnu- og viðskiptaráðherra var með þau á sinni könnu í ríkisstjórn Ólafs Thors sem sat aðeins í sjö mánuði á árinu 1942 áður en utanflokkastjórn Björns Þórðarsonar var skipuð af þáverandi forseta til að fara með framkvæmdavaldið. Með ríkisstjórn Björns verður sú breyting á að heiti málaflokksins verða menntamál.

Brynjólfur BjarnasonFyrsti menntamálráðherrann var svo skipaður í ríkisstjórn Ólafs Thors sem tók við af utanflokkastjórninni. Það var Brynjólfur Bjarnason sem gegndi embættinu. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að þetta var fyrsta þjóðkjörna ríkisstjórnin sem sat eftir að Ísland varð fullvalda.

Næstu áratugina, eða á árunum 1947 til 1980, fóru þeir sem voru skipaðir menntamálaráðherrar með ýmis önnur ráðuneyti samhliða. Kjörtímabilið 1974 til 1978 er þó undantekning en þá var Vilhjálmur Hjálmarsson skipaður yfir Vilhjálmur Hjálmarssonmenntamálráðuneytið eingöngu af Geir Hallgrímssyni. Það vekur líka athygli þegar horft er til þessara ára hve lengi Gylfi Þ. Gíslason fór yfir ráðuneyti menntamála eða í einn og hálfan áratug.

Allan tímann sem Gylfi gegndi þessu embætti var hann viðskiptaráðherra líka. Árin 1958 og 1959 fór hann jafnframt með iðnaðarmál. Það er reyndar rétt að taka fram að heimildunum þremur, sem eru hafðar til hliðsjónar hér, ber ekki saman hvað þetta varðar en þessar upplýsingar eru teknar héðan.

Á árunum 1980 til 2009 verður það að hefð að sá sem fer með menntamálaráðuneytið fer ekki með önnur mál enda um umfangsmikinn málaflokk að ræða þar sem skólastigin eru mörg, aldurshópurinn sem sækir skóla afar breiður og menntunin sem hann sækist eftir margvísleg. Auk nemenda eru það svo foreldrar nemenda upp til 18 ára og starfsfólk skólanna sem eru ótvíræðastir skjólstæðingar Menntamálaráðuneytisins.

Framan af blandaðist fáum innan þessa fjölbreytta hóps hugur um að hlutverk Menntamálaráðuneytisins væri að veita skólunum og menntuninni sem þar fer fram ákveðið skjól. Miðað við þróun síðustu ára eru þeir þó væntanlega sífellt fleiri sem vita tæplega hvaðan á sig stendur veðrið.

Forgangsröðunin í mennta- og skólamálum

Í ráðherratíð Ólafs G. Einarssonar, sem var menntamálaráðherra á árunum 1991 til 1995, skipaði hann nefnd um mótun menntastefnu. Nefndin skilaði af sér skýrslu í júní 1994. Skýrslan markaði upphaf þerrar stefnu sem menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þau Björn Bjarnason (gegndi embættinu frá 1995 til 2002), Tómas Ingi Olrich (ráherra frá 2002-2003) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (menntamálaráðherra frá 2003-2009), unnu að að hrinda í framkvæmd með lögum sem urðu að veruleika sumarið 2008.

Strax árið 1996 var reyndar tekinn stór áfangi með því að rekstur grunnskólanna var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þessi aðgerð er í fullu samræmi við það sem kemur fram í skýrslunni frá 1994 samber þennan texta:

Ríki og sveitarfélög reka nú grunnskóla í sameiningu. Sveitarfélög greiða allan rekstrarkostnað grunnskóla, annan en laun vegna kennslu og stjórnunar sem eru greidd af ríkinu. Skólastjórar eru ríkisstarfsmenn, en hafa forræði fyrir starfsfólki sem ýmist er ráðið af sveitarstjórnum (s.s. ræstingarfólk og húsverðir) eða ríki (kennarar). Þeir ráðstafa því fjármunum sem ýmist koma frá sveitarfélagi eða ríki.

Augljóst hagræði er að því að rekstur grunnskóla verði fullkomlega í höndum eins aðila. Slíkt einfaldar stjórnun, auk þess sem hægt verður að líta á grunnskólahald sem hluta af þjónustu sveitarfélaga og tengja það þannig öðrum verkefnum sveitarfélagsins, t.d. á sviði ýmiss konar sérfræðiþjónustu eða annarrar þjónustu sveitarfélaga við ungt fólk (svo sem vinnuskóla og tómstundastarf). (sjá hér)

Í skýrslunni er líka lögð til lenging skólaársins bæði í grunn- og framhaldsskólum, samræmd próf, styttingu framhaldsskólans niður í þrjú ár auk margs annars sem var lögfest með nýjum fræðslulögum í júní 2008. Að sjálfsögðu voru og eru viðhorf kennara og annars skólafólks til laganna mismunandi en margir vöruðu við og vara við enn. Þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir þann tíma sem lögin voru í mótun fór Þorgerður Katrín ásamt starfsfólki Menntamálaráðuneytisins sínu fram og hrinti kjarna þess í framkvæmd sem lagt var til af nefndinni um mótun menntastefnu árið 1994.

Margir töldu að með því að Katrín Jakobsdóttir tæki við Menntamálaráðuneytinu í byrjun árs 2009 hefði menntunin eignast málsvara þar innandyra að nýju. Það væri ósanngjarnt að halda því fram að viðmótið hafi ekki breyst eitthvað en lausnin á þeim erfiðleikum sem menntuninni í landinu var sett, með nýjum lögum um skóla, er óleyst. Ástæðan er ekki síst sú að lögin bera þess merki að vera sett saman af hópi sem er uppteknari af rekstri skólanna en menntunarhlutverki þeirra.

Marian Wright Edelman

Hér áður var vikið að því þegar rekstur grunnskólanna var færður frá ríki yfir til sveitarfélaga árið 1996. Með nýju lögunum um skólaskyldustigið var stjórnvöldum gert kleift að fara sömu leið og nýju lögin um heilbrigðisþjónustu opnuðu fyrir varðandi heilbrigðisstofnanir. Dæmið er tekið úr 10. kafla laga um grunnskóla

45. gr. Samrekstur.
Sveitarfélögum, tveimur eða fleiri, er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur grunnskóla, sbr. VIII. kafla sveitarstjórnarlaga. [...]
Sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. [...] Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð, sbr. 8. gr., og foreldraráð, sbr. 11. gr. laga um leikskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. [...]  

Niðurskurðurinn í menntamálunum var sannarlega hafinn fyrir efnahagshrunið þannig að foreldrar grunnskólabarna í dreifðari byggðum landsins kusu jafnvel að búa aðskildir yfir vetrartímann þannig að annað foreldrið gæti haldið börnunum heimili í nágrenni við a skóla í stað þess að láta þau búa inni á ókunnugum. Við efnahagshrunið var gengið enn lengra í niðurskurðinum og fleiri skólar sameinaðir þó niðurskurðurinn hvað þetta varðar hafi ekki náð að ganga eins langt og í heilbrigðisþjónustunni.

Það er hins vegar fleira sem vekur athygli í 10. kafla grunnskólalaganna frá 2008. Annað vísar til einkareksturs, ekki síður en ýmislegt í lögunum um heilbrigðisþjónustuna, og líklegra að seinni greinin geri það líka.

43. gr. Viðurkenning grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 1. gr., sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. [...] Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr., eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 47. gr. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku.[...]

46. gr. Undanþágur.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan. [...] (sjá hér)

Það væri vissulega full ástæða til að fjalla ýtarlegar um markmið og afleiðingar þeirrar menntastefnu sem var komið á með lögunum um skólastigin í upphafi sumars árið 2008. Hér verður þó látið staðar numið en minnt á að menntamál hafa verið undir sérstöku ráðuneyti frá árinu 1980. Það varð hins vegar breyting á þessu með ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttir með því að 1. október 2009 var menningarmálunum aukið við embættið og er Katrín Jakobsdóttir því fyrsti mennta- og menningamálaráðherrann.

Um þessa stjórnkerfisbreytingu segir þetta á vef Stjórnarráðsins: „Nýtt ráðuneyti mennta- og menningarmála fær auk fyrri verkefna umsjón menningarstofnana og verkefna er nú heyra undir forsætisráðuneyti.“ (sjá hér) Tíminn mun væntanlega leiða það í ljós á hvorum staðnum fer betur um menninguna en vissulega er menntun og menning náskyld enda bæði komin af orðinu maður.

Mennta- og menningarmálaráðherra

Mennta- og menningarmálaráðherrar

Katrín Jakobsdóttir var skipuð menntamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar. Auk þess að fara með menntamálaráðuneytið var hún samstarfsráðherra Norðurlanda frá upphafi síðasta kjörtímabils. Frá Eins og áður hefur komið fram var ábyrgð hennar aukin 1. október 2009 og embættisheiti hennar breytt í mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín er fædd 1976 og var því 33 ára þegar hún var skipuð ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Illugi er nýskipaður ráðherra mennta- og menningarmála í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann er fæddur árið 1967 og er því 46 ára. Bæði komu ný inn á þing árið 2007. Katrín hafði því tveggja ára þingreynslu þegar hún tók við ráðherraembætti en Illugi er með sex ára reynslu af þingstörfum.

Menntun og starfsreynsla:
Katrín varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund tvítug að aldri. Þremur árum síðar lauk hún BA-prófi í íslensku með frönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Í beinu framhaldi var hún ráðin sem málfarsráðunautur hjá RÚV og starfar sem slíkur næstu fjögur ár. Ári síðar lýkur Katrín meistaraprófi í íslenskum bókmenntum, þá 28 ára.

Að meistaraprófinu loknu vann hún að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og ritstörf fyrir ýmsa prentmiðla auk kennslu fyrir endurmenntunarstofnanir og símenntunarmiðstöðvar. Þau þrjú ár sem liðu frá því að Katrín lauk meistaraprófinu og þar til hún var kosin inn á þing annaðist hún líka ritstjórnarstörf fyrir Eddu- og JPV-útgáfu og stundakennslu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík. Katrín var 31s þegar hún var kosin inn á þing vorið 2007.

Illugi útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík tuttugu ára gamall. Frá 16 ára aldri og næstu tíu árin vann hann við fiskvinnslu hjá Hjálmi hf á Flateyri eða til ársins 1993. Eftir stúdentspróf starfaði Illugi sem leiðbeinandi við Grunnskóla Fateyrar í eitt ár. Þá sneri hann sér að námi í hagfræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1995.

Eftir útskriftina var hann skrifstofumaður hjá Vestfirskum skelfiski á Flateyri í tvö ár en stundaði síðan rannsóknir í fiskihagfræði við Háskóla Íslands í eitt ár. Árið 2000 lauk Illugi MBA-prófi (Master of Business Administration) frá London Business School, þá 33ja ára. Í framhaldinu starfaði hann sem aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í fimm ár eða til ársins 2005. Hins vegar er þess ekki getið í ferilskrá Illuga við hvað hann starfaði næstu tvö árin eða þar til hann var kosinn inn á þing 40 ára gamall.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Katrín byrjaði stjórnmálaþátttöku sína í Háskólanum og var bæði í stúdentaráði og háskólaráði á árunum 1998 til 2000. Tveimur árum síðar var hún kjörinn formaður Ungra vinstri grænna og gegndi því embætti í eitt ár eða þar til hún var kjörinn varaformaður Vinstri grænna. Frá árinu 2002 var Katrín fulltrúi í fræðsluráði, síðar menntaráði, Reykjavíkur, formaður nefndar um barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann. Þessum embættum gegndi hún í þrjú til fjögur ár. Árið 2004 var hún auk þessa formaður bæði samgöngunefndar og umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

Miðað við ferilskrá Katrínar hefur árið sem Katrín varð 28 ára, þ.e. 2004, því verið afar annasamt. Auk útskriftar úr meistaranámi í íslenskum bókmenntum hefur hún verið varaformaður Vinstri grænna, varaborgarfulltrúi, formaður þriggja nefnda og fulltrúi í þeirri þriðju. Auk þessa hefur hún sinnt dagskrárgerð, ritstörfum og kennslu. Katrín var kjörin formaður Vinstri grænna í febrúar á þessu ári. Þá hafði hún gegnt embætti varaformanns flokksins í tíu ár eða frá því hún var 27 ára.

Eins og Katrín hóf Illugi stjórnmálþátttöku sína í gegnum stúdentapólitíkina í Háskólanum. Hann sat í  stjórn Vöku á árunum 1989 til 1990 og var oddviti þeirra í eitt ár eða frá 1993 til 1994. Hann sat í stúdentaráði á svipuðum tíma eða frá 1993 til 1995 auk þess sem hann var fulltrúi stúdenta í háskólaráði á sama tíma.

Þegar Illugi var þrítugur var hann kjörinn formaður Heimdallar og gegndi hann því embætti í eitt ár. Eins og áður hefur komið fram var hann aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar á árunum 2000 til 2005. Davíð var þá forsætisráðherra. Eftir að Illugi var kosinn inn á þing átti hann sæti í nefnd um eflingu græna hagkerfisins síðastliðin þrjú ár. Illugi var formaður þingflokks Sjálfstæðismanna árin 2009-2010 og 2012 og 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Katrín var kjörinn inn á þing fyrir Reykjavík norður árið 2007 og hefur því setið inni á þingi í sex ár. Þennan tíma hefur hún átt sæti í þremur þingnefndum. Þar af sat hún í menntamálanefnd í tvö ár eða á árunum 2007 til 2009.

Illugi var líka kjörinn inn á þing árið 2007. Fyrstu tvö árin sat hann inni á þingi fyrir Reykjavík suður en frá árinu 2009 hefur hann setið inni á þingi fyrir hönd sama kjördæmis og Katrín. Illugi hefur því líka setið inni á þingi í sex ár. Frá því að hann settist inn á þing hefur hann átt sæti í þremur til fjórum nefndum á hvoru kjörtímabili. Þar af átti hann sæti í menntamálanefnd árin 2007 til 2009.

Hann og Katrín voru því samtíða í nefndinni sem fór með frumvörpin að núgildandi lögum um skólastigin sem voru samþykkt á Alþingi í júnímánuði ársins 2008.

Ráðherraembætti:
Katrín gegndi stöðu menntamálaráðherra frá árinu 2009 en heiti embættisins var breytt haustið 2009 í mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín gegndi auk þess embættinu samstarfsráðherra Norðurlanda á síðasta kjörtímabili. Þegar hún tók við þessum embættum hafði hún setið inni á þingi í tvö ár. Katrín var 33ja þegar hún var skipuð mennta- og menningarmálaráðherra (sjá nánar hér).

Illugi var skipaður í þetta embætti í núverandi ríkisstjórn. Eins og áður hefur komið fram á hann sex ára þingreynslu að baki og er 46 ára þegar hann er skipaður mennta- og menningarmálaráðherra (sjá nánar hér).

Samantekt
Þó tíu ára aldursmunur skilji þau Illuga og Katrínu að er ferilskrá þeirra ekki ósvipuð í mörgum atriðum. Bæði útskrifuðust sem stúdentar þegar þau voru tvítug. Í framhaldinu lá leið beggja í Háskóla Íslands þar sem þau tóku virkan þátt í stúdentapólitíkinni þó annað hafi fylgt Röskvu en hitt Vöku. Bæði hafa svo gengt forystuhlutverkum í ungliðahreyfingum þeirra flokka sem komu þeim til áhrifa.

Katrín hafði unnið að kennslu og öðrum menningartengdum verkefnum áður en hún settist inn á þing enda bundu margir vonir við að vera hennar í Menntamálaráðuneytinu myndi breyta bæði viðmótinu og stefnunni sem hefur þótt bitna á bæði menntuninni og menningunni í landinu. Þær vonir brugðust að mestu en rétt er að geta þess að Katrín var sá flokksbundni ráðherra sem mest ánægja var með meðal kjósenda á síðasta kjörtímabili ef marka má mælingar Gallups. Lægst mældist ánægja kjósenda með störf hennar í nóvember 2010 eða 32% (sjá hér) en í fyrstu könnuninni og þeirri síðustu sagðist helmingur kjósenda ánægður með hennar störf.

Nú er Illugi tekinn við ráðuneytinu og ljóst að sá niðurskurður sem var á stefnuskrá menntamálayfirvalda fyrir hrun hefur í engu hopað. Katrín fór sér vissulega hægar og sýndi málstað bæði nemanda og kennara sannarlega meiri skilning í orði en sá sem sat á undan henni en hún gerði hins vegar lítið til að leiðrétta það flækjustig sem menntastefnan er rötuð í eftir innleiðingu laganna sumarið 2008.

Illugi er með menntun í hagfræði en hefur starfað sem leiðbeinandi í grunnskóla í eitt ár. Katrín og Illugi voru samtíða í menntamálanefnd árin sem ný fræðslulög voru lögfest þar sem gert er ráð fyrir verulegri uppstokkun á samsetningu og skipulagi náms. Kennarar hafa ítrekað bent á ýmsa galla nýju laganna en bæði foreldrar og nemendur hafa að mestu verið hljóðir hingað til.

Við mótun menntastefnu þarf að taka afstöðu til þess hvaða hlutverki skólarnir skuli gegna. Samfélagið þarf að gera það upp við sig hvort það ætlar skólunum að vera geymslu-, uppeldis-, þjónustu- eða fræðslustofnanir. Menntamálayfirvöld þurfa ekki síður að gefa út skýr skilaboð um það hvort þau ætli skólunum frekar að vinna að innrætingu eða menntun sem lýtur að þekkingu og mennsku eða hvort áherslan á fyrst og fremst að miða að útgáfu prófskírteina. Sumir sem hafa gagnrýnt lögin frá 2008 hafa reyndar bent á að með þeim sé stigið stórt afturfararskref varðandi menntunarhlutverk skólanna um leið og innrætingar - og framleiðnihlutverkið hafi verið gert að forgangsverkefnum.

Bókvitið

Það er engum vafa undirorpið að embætti mennta- og menningarmálaráðherra er ekki síður umfangsmikið en heilbrigðisráðherrans. Í tilviki beggja er grundvallarspurningin samt sú hvort þeim er frekar ætlað að þjóna peningunum eða fólkinu. Rétt eins og langflestir sem starfa innan heilbrigðisstofnana telja sitt meginhlutverk vera það að sinna heilsu landsmanna við sæmandi aðstæður sem stuðla að góðum árangri til bættrar heilsu þá berjast kennarar og námsráðgjafar við að skapa skilyrði til þess að nemendur skólanna njóti menntunar og útskrifist með hagnýta þekkingu sem nýtist þeim til góðra verka. 

Þegar það er haft í huga að fagþekking þeirra sem stjórna innan Menntamálaráðuneytisins lýtur miklu fremur að hagræðingu í rekstri en því að styðja við mannvænleg skilyrði til menntunar nemenda er líklegt að menntamálin haldi áfram að vera í þeim hnút sem þau eru í nú. Það má svo árétta að áreksturinn milli heilbrigðisráðuneytisins og fagvitundar heilbrigðisstarfsfólks er ekki af óskyldum toga og því ekki ofmælt að það er líkt komið fyrir menntuninni og heilsugæslunni í landinu. 

Það er líka rétt að undirstrika það að menntamálin, líkt og  heilbrigðismálin, eru afar yfirgripsmikill grundvallarþáttur sem varða alla sem byggja samfélagið. Langflestir skattgreiðendur eru þess vegna á þeirri skoðun að það beri að hlífa menntuninni og heilsugæslunni umfram ýmsa aðra þætti samfélagsþjónustunnar sem snerta færri og minni hagsmuni. Varðandi menntamálin þurfa allir sem vilja hlúa að þessum grunni heilbrigðs samfélags að átta sig á að rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað.

Aristoteles

Þegar á allt er litið er líklega ljóst að mennta- og menningarmálaráðherra þarf ekkert síður en heilbrigðisráðherrann að hafa hæfileika til samvinnu við þann fjölbreytilega hóp, sem skjólstæðingar ráðuneytisins eru, og kunna að setja hagsmuni þeirra í forgang frekar en fjármagnsins. Vænlegur kostur er því að hafa skilning á gildi menntunar (og reyndar menningar líka) ekki aðeins fyrir samfélagið allt heldur ekki síður fyrir mennskuna sem býr í hverjum einstaklingi.

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Stjórnkerfisbreytingar

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2012: Mat á störfum ráherra
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Nokkrar heimildir varðandi flutning á rekstri grunnskóla yfir til sveitarfélaga:

Nefnd um mótun menntastefnu (skýrsla nefndarinnar útgefin í júní 1994)

Flutningur á rekstri grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Skýrsla KPMG Endurskoðun hf gefin út í nóvember 2000.
Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga. Rannsóknarstofnun KÍ. 1. nóvember 2004
Skólamálastefna Sambands íslenskra sveitarfélaga
(frá 2008)

Krækjur í ný lög um skólastigin frá því í júní 2008:

Lög um leikskóla
Lög um grunnskóla
Lög um framhaldsskóla

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla

Mástofa um menntafrumvörpin (aðgengileg samantekt sem gefur örlitla innsýn í ábendingar KÍ frá 10. apríl 2008 varðandi núgildandi lög)

Kynning á frumvarpi til laga um tónlistarskóla (janúar 2013)


Heilbrigðisráðuneytið

Hér verður haldið áfram að bera saman ferilskrár þeirra sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili og þeirra sem sitja þar nú. Áður hefur verið settur fram einhvers konar inngangur og í framhaldi hans það sem mætti kalla aðdraganda þar sem tíðar breytingar á ráðuneytunum í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur voru rifjaðar upp og minnt á hverjir eru ráðherrar núverandi ríkisstjórnar.

Í síðustu færslum voru svo ferilskrár fyrrverandi og núverandi forsætisráðherra bornar sama, þá fjármála- og efnahagsráðherranna en hér verða það heilbrigðisráðherrarnir. Eins og áður hefur komið fram er það von mín að þessi samanburður megi vekja til umhugsunar og umræðna um það hvernig ráðherrar eru skipaðir og hvað liggur skipuninni til grundvallar. Hver færsla hefst því og lýkur á einhverju sem mætti líta á sem umhugsunarpunkta. Þegar samanburðinum á ferilskrám ráðherra allra ráðuneytanna verður lokið kemur hins vegar að umfjöllun og loks einhverri tilraun að niðurstöðu.

Marthin Luther King jr.

Það er líka forvitnilegt að líta til baka yfir sögu ráðuneytanna og velta því jafnframt fyrir sér hvort núverandi aðferðafræði í stjórnsýslunni byggi ef til um of á hefðum og venjum sem urðu til á fyrstu árum ráðuneytanna. Þ.e. áður en Íslendingar fengu full yfirráð yfir málefnum landsins. Það sem vekur sérstaka athygli í sambandi við heilbrigðismálin er að þau fá ekki rúm innan ráðuneytanna fyrr en tæpum tveimur áratugum eftir að það fyrsta var stofnað.

Þegar horft er til baka er líka greinilegt að heilbrigðismál landsmanna hafa ekki þótt nægilega stór eða merkilegur málaflokkur til að setja þau undir sérstakt ráðuneyti. Á þessu eru reyndar þrjá undantekningar sem eru meðal ráðuneyta síðustu ríkisstjórna.

Haraldur GuðmundssonMeð fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar árið 1934 komust heilbrigðismál í fyrsta skipti á dagskrá sérstaks ráðherra. Haraldur Guðmundsson (sjá hér) var  atvinnumála- og samgönguráðherra í þessari áttundu ríkisstjórn sem hefur gjarnan verið kennd við stjórn hinna vinnandi stétta (sjá hér). Hann fór einnig með utanríkis-, heilbrigðis- og kennslumál. Haraldur fékk lausn frá ráðherraembætti sínu mánuði áður en kjörtímabilinu lauk og tók þá Hermann Jónasson við embætti hans og væntanlega málefnaflokkum líka.

Það má láta það fylgja hér með að Hermann Jónasson (sjá hér), sem var forsætisráðherra, fór líka með dóms- og kirkjumálaráðuneytið ásamt landbúnaðar- og vegamálum. Hann fór með embætti Haraldar í tvær vikur þannig að þennan hálfa mánuð var hann yfir þremur ráðuneytum og fimm málefnaflokkum að auki.

Hermann var aftur á móti forsætis- og dóms- og kirkjumálaráðherra auk þess að fara með landbúnaðarmálin í átta ár eða frá 1934-1942. Þennan tíma stóð hann að myndun fjögurra ríkisstjórna. Í tveimur fyrstu hafði sá, sem var skipaður atvinnumálaráðherra, heilbrigðismálin líka á sinni könnu en enginn í næstu tveimur.

Heimildum Alþingis og Stjórnarráðsins virðist ekki bera saman varðandi það hvenær heilbrigðismálin voru sett undir ráðherra. Samkvæmt því sem kemur fram á stjórnarráðsvefnum var fyrsti heilbrigðisráðherrann skipaður í utanflokkastjórn Björns Þórðarsonar (sjá hér). Frá miðjum desember 1942 var hann forsætis-, heilbrigðis- og kirkjumálaráðherra en eftir 19. apríl 1943 fór hann auk þess með félagsmálaráðuneytið en lét af því síðasta mánuðinn sem stjórnin sat en tók við dómsmálaráðherra- og menntamálaráðherraembættinu í  staðinn.

Samkvæmt heimildum Stjórnarráðsins fór Björn Þórðarson því með með fimm ráðuneyti síðasta mánuðinn sem utanflokkastjórnin sat (sjá hér). Samkvæmt heimildum Alþingis heyra heilbrigðismálin alltaf undir einhvern ráðherra á árunum 1947 til 1958 þó þeim séu ekki ætlað ráðuneyti.

Eggert G. ÞorsteinssonÞetta breytist hins vegar 1. janúar 1970 en þá var Eggert G. Þorsteinsson skipaður fyrsti heilbrigðis- og tryggingamála-ráðherrann. Hann fór líka með sjávarútvegsráðuneytið (sjá hér). Næstu kjörtímabil á eftir er ekki óalgengt að sá ráðherra sem fer með heilbrigðis- tryggingamálaráðuneytið sé settur yfir annað alveg óskylt ráðuneyti líka eins og sjávarútvegs- iðnaðar- eða samgönguráðuneytið. Kjörtímabilið 1980-1983 heyrir til undantekninga en þá eru félagsmálin sett undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Það var ekki fyrr en 1. janúar 2008 sem heilbrigðismálunum var skipaður sérstakur ráðherra í fyrsta skipti. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson sem gegndi embættinu (sjá hér). Í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar var félags- og tryggingaráðuneytinu ásamt heilbrigðisráðuneytinu svo aftur skipað undir einn ráðherra, eins og kjörtímabilið 1980-1983, með því að Guðbjartur tók við báðum ráðuneytunum 2. september 2010. Þessir málaflokkar voru svo settir undir nýtt ráðuneyti, Velferðarráðuneytið, 1. janúar 2011 og fór Guðbjartur fyrir því. Með nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru heilbrigðismálin aftur komin undir sérstakt ráðuneyti.

Það á eftir að koma í ljós hvort það verður heilbrigðisþjónustunni til framdráttar. Hér er rétt að hafa í huga að í tíð síðustu ríkisstjórnar var engin viðleitni uppi um að bæta ný lög um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi í mars 2007 (sjá hér). Þegar Guðlaugur Þór var gerður að heilbrigðisráðherra eingöngu af þeirri ríkisstjórn sem sat þegar lögin voru innleidd voru uppi kenningar um að tilefnið væru stóraukin afskipti ráðuneytisins af heilbrigðisþjónustunni í þeim tilgangi að leiða hana til meiri einkavæðingar.

Þeir sem gangrýndu nýju heilbrigðislögin þóttust lesa þar á milli lína að framundan væri aukinn niðurskurður í opinberri heilbrigðisþjónustu. Tilefnið er t.d. 5. grein þessara laga sem er svohljóðandi: „Ráðherra getur, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæmis með reglugerð.“

Auðvitað má túlka þessa grein á a.m.k. tvo vegu og nota orðið hagræðingu í stað niðurskurðar en þeir sem gleggst þekkja til í heilbrigðismálunum blandast vart hugur um það að þær aðgerðir sem hefur verið gripið til í kjölfar efnahagshrunsins hafa m.a. sótt stoð í þessa lagagrein. Sá tónn sem hefur verið gefinn í upphafi nýs kjörtímabils varðandi aukna einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar styðst einnig við í lögin frá vorinu 2007:

Ráðherra er heimilt að bjóða út rekstur heilbrigðisþjónustu og kaup á heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum. (úr 30. grein)

Heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur er heimilt að gera samninga um afmörkuð rekstrarverkefni samkvæmt ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. (úr 31. grein. Sjá nánar hér)

Ég reikna með að allir leggi þann skilning í skattskyldu allra, sem hafa tekjur og eiga eignir, að hún sé nauðsynleg þannig að hægt sé að byggja undir skatttekjur ríkisins til að halda uppi rekstri samfélagsins. Í þeim rekstri eru svo mismikilvægir þættir. Væntanlega ætla margir að þeir sem stýra tekjustofnum ríkisins hafi  það ávallt að leiðarljósi að þeim hafi verið trúað fyrir því að ráðstafa sameignarsjóði allra sem byggja samfélagið. Flestir gera þar af leiðandi ráð fyrir að bæði ráðherrar og aðrir sem sýsla með þessa sjóði deili sömu hugmyndum og aðrir skattgreiðendur um það hver forgangsverkefnin eru.

Markaðs- og skrifstofuvæðing heilbrigðisþjónustunnar

Í mínum huga er eitt af þessum forgangsverkefnum að viðhalda góðri heilbrigðisþjónustu sem þjónar öllum almenningi jafnt. Reyndar tel ég að þeir séu allnokkrir sem deila þeirri hugmynd að þetta sé sú grunnþjónusta sem skatttekjur ríkisins ber að halda uppi á meðan skattgreiðendur skila sínu í þennan sameiginlega sjóð. Það er þess vegna líklegt að þeir séu allnokkrir sem geta tekið undir orð Martins Luthers Kings hér í upphafi þar sem hann segir: „Of all the forms of inequality, injustice in health care is the most shocking and inhumane.“ (sjá líka hér)

Heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðherrar

Í síðustu ríkisstjórn var Ögmundur Jónasson fyrst skipaður heilbrigðisráðherra, þá Álfheiður Ingadóttir og svo Guðbjartur Hannesson frá 2. september 2010. Guðbjartur er fæddur 1950 og var því sextugur þegar hann tók við heilbrigðisráðherraembættinu. Reyndar gegndi hann embætti félags- og tryggingaráðherra samhliða en þeim var síðan steypt saman í eitt 1. janúar 2011 og hét upp frá því velferðarráðherra.

Við það að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur tóku við völdum hafa heilbrigðismálin aftur fengið sérstakt ráðuneyti. Það er Kristján Þór Júlíusson sem gegnir ráðherraembætti þessa málflokks. Kristján er fæddur 1957 og er því 56 ára þegar hann tekur við sínum fyrsta ráðherrastóli.

Menntun og starfsreynsla:
Guðbjartur er með nokkuð fjölbreytta menntun á sviði kennslufræða og skólamála. Þegar hann er 21s árs öðlast hann grunnskólakennararéttindi með prófi frá Kennaraskóla Íslands og sjö árum síðar lauk hann tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku. 41s árs settist Guðbjartur aftur á skólabekk og þá í framhaldsnám í skólastjórn við Kennaraháskóla Íslands. Hann var skráður í það nám næstu þrjú árin. Síðast lauk hann svo meistaraprófi frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) árið 2005, þá 55 ára.

Í framhaldi af kennaraprófinu frá Kennaraskólanum kenndi Guðbjartur við Grunnskóla Akraness. Þar var hann í þrjú ár en varð þá erindreki Bandalags íslenskra skáta næstu tvö árin. Eftir að hann lauk tómstundakennaraprófi í Danmörku kenndi hann við Peder Lykke Skolen á Amager í Kaupmannahöfn í eitt ár en sneri þá aftur heim þar sem hann réðst aftur að Grunnskóla Akraness. Hann kenndi þar í tvö ár en var þá ráðinn skólastjóri við skólann 31s árs og gegndi þeirri stöðu uns hann var kosinn inn á þing árið 2007. Guðbjartur hafði þá verið skólastjóri í 26 ár. Guðbjartur var 57 ára þegar hann var kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna.

Kristján Þór varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri tvítugur að aldri. Einu ári síðar tók hann skipstjórnarpróf (1. og 2. stig) frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. 24 ára skráði hann sig í nám í íslensku og almennum bókmenntum sem hann hefur stundað næstu þrjú árin en próflok úr þessu námi eru ekki skráð í ferilskrá hans. Þegar Kristján Þór er 27 ára lauk hann kennsluréttindaprófi frá Háskóla Íslands.

Eftir að Kristján lauk skipstjórnarprófinu vann hann sem stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík eða þar til hann innritaðist í Háskólann, þá 24. Á meðan hann var í Háskólanum heldur hann þó þessum stöðum yfir sumarið en er kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík á veturna. Eftir að hann lauk kennsluréttindanáminu er hann líka almennur kennari við Dalvíkurskóla eða frá 1984 til 1986. 

Árið 1986 var Kristján kosinn bæjarstjóri á Dalvík, þá 29 ára. Næstu tuttugu árin var hann bæjarstjóri á þremur stöðum á landinu: Á Dalvík frá 1986 til 1994, þá á Ísafirði frá 1994 til 1997 og loks á Akureyri frá 1998 til 2006. Ári síðar var Kristján kosinn inn á þing, þá 50 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Guðbjartur sat í bæjarstjórn og bæjarráði Akraness í 12 ár. Á þessum tíma var hann tvisvar sinnum formaður bæjaráðs, fyrst 1986 og síðast 1997, eða alls í fimm ár, og þrisvar sinnum forseti bæjarstjórnar, fyrst 1988 og síðast 1998, eða alls í þrjú ár. Á þessum tíma sat Guðbjartur í fjölda stjórna og nefnda á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt.

Þessi þáttur í ferilskrá Guðbjarts nær frá því að hann verður skólastjóri Grunnskóla Akraness þar til hann sest inn á þing. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskráar hans eru skóla- og félagsmál ungmenna. Allan tímann sem Guðbjartur er skólastjóri Grunnskólans á hann sæti í einni til tólf stjórnum eða ráðum. Flest sæti af þessu tagi átti hann á þeim tíma sem hann var í bæjarstjórnarmálunum á Akranesi auk þess að stýra skólanum.

Á þeim tíma átti Guðbjartur 9 nefndar- og stjórnarsæti að meðaltali á ári; þ.e. á árunum 1986 til 1998. Stjórnirnar og nefndirnar þar sem Guðbjartur átti sæti urðu flestar árið 1994 og 1998 eða 12 talsins. Árið 1994 átti hann sæti í eftirtöldum stjórnum og nefndum:

Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998.
(Forseti bæjarstjórnar þrisvar sinnum. M.a. 1994-1995.)
Í bæjarráði 1986-1998.
Í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981-2001.
Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981-2007.
Fulltrúi á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1986-1994.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1986-1998.
Í stjórn Rafveitu Akraness tvisvar sinnum. Í seinna skiptið 1994-1995.
Í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 1994-1998.
Í samstarfsnefnd um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar 1990-1996.
Í starfshópi um vinnu við mótun markmiða og stefnu í málefnum leikskóla á Akranesi 1992-1994,
í samstarfsnefnd um mótun tillagna um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Akranesi 1993-1994.
Í stjórn útgerðarfélagsins Krossavíkur hf. 1994-1996.

Árið 1998 átti Guðbjartur aftur sæti 12 í ýmsum stjórnum og nefndum. Sex þeirra voru þau sömu og árið 1994. Hinn helmingurinn var nýr. Það sem vekur e.t.v. athygli í yfirlitinu hér að framan er að engin þeirra nefnda eða stjórna þar sem hann átti sæti tengist heilbrigðismálum. Eina tengingin við heilbrigðismál í þessari sögu Guðbjarts er að hann sat í stjórn Sjúkrahúss og Heilsugæslustöðvar Akraness á árunum 1996-1998.

Árið 1998 var Guðbjartur líka formaður Akraneslistans, sem var forveri Samfylkingarinnar á Akranesi skv. því sem segir hér. Hann gegndi því embætti frá árinu 1998 til 2000. Þegar Guðbjartur kemst ekki að í bæjarstjórnarkosningunum á Akranesi fækkar nefndar- og stjórnarsetum hans verulega. Hann var reyndar formaður skipulagsnefndar Akranesbæjar frá 1998-2002 en samkvæmt ferilskrá hans á alþingisvefnum er eina staðan sem hann heldur á sviði stjórnmála fram til þess að hann er kosinn inn á þing sú að hann er fulltrúi skólastjórnenda í skólanefnd Akranesbæjar.

Það er þó rétt að benda á að skv. því sem kemur fram hér sat hann í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og gegndi þar formennsku. Það kemur ekki fram hvenær þetta var eða hversu lengi. Því má svo bæta við að eftir að bæjarstjórnarferli Guðbjarts lauk var hann í bankaráði Landsbanka Íslands í fimm ár eða frá  árinu 1998 til 2003 og bankaráði Heritable-bankans í London (eign Landsbankans síðan 2000) í eitt ár eða frá 2002 til 2003.

Kristján Þór hefur líka  setið í afar mörgum nefndum og ráðum á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem snerta ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt. Þessi þáttur í ferilskrá Kristjáns nær frá því að hann verður bæjarstjóri á Dalvík og til ársins 2009. Í byrjun þessa ferils eru sjávarútvegsmálin áberandi málaflokkur eða á meðan hann er bæjarstjóri á Dalvík og Ísafirði en eftir að hann sest í bæjarstjórastólinn á Akureyri á hann einkum sæti í stjórnum og ráðum sem fara með fjármál.

Þessi ferill Kristjáns nær yfir 22 ár eða frá 1987 til ársins 2009. Á þessu tímabili sat hann í einni til tólf nefndum yfir árið. Flestar urðu stjórnar- og nefndarsetur hans á árunum 1999 til 2007 en þá voru þær á bilinu 8-12 eða 9 að meðaltali. Árið 2002 var toppár í þessum efnum en þá sat hann í eftirtöldum stjórnum og ráðum:

Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar 1998-2007.
Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands 1999-2008.
Í stjórn Landsvirkjunar 1999-2007.
Í stjórn Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999-2000.
Í Ferðamálaráði Íslands 1999-2003.
Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000-2007.
Í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000-2007.
Í stjórn Íslenskra verðbréfa 2002-2009.
Formaður stjórnar Eyþings 1998-2002.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1998-2007.
Í bæjarstjórn Akureyrar 1998-2009.
Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2002.
Formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins 2002-2009.

Árið sem Kristján Þór var kosinn inn á þing var hann í 9 stjórnum og ráðum en það dregur verulega úr strax árið eftir. Það vekur hins vegar athygli að hann á áfram sæti í bæjarstjórn Akureyrar eftir að hann var kosinn inn á þing eða fram til ársins 2009. Kristján var kosinn annar varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2012.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Guðbjartur kom nýr inn á þing vorið 2007, þá 57 ára gamall. Hann situr inni á þingi fyrir Samfylkinguna sem þingmaður Norðvesturlands. Hann hefur setið á þingi í 6 ár. Á þessu tímabili hefur hann átt sæti í fjórum þingnefndum. Þ.á m. sat hann í félags- og tryggingamálanefnd á árunum 2007 til 2010. Árið 2009-2010 var hann formaður hennar.

Kristján Þór kom líka inn á þing vorið 2007, þá fimmtugur að aldri. Hann er þingmaður Norðausturlands og hefur setið inni á þingi í sex ár. Frá því hann kom inn á þing hefur hann setið í þremur þingnefndum. Engin þeirra tekur til heilbrigðismála sérstaklega.

Ráðherraembætti:
Guðbjartur var skipaður félags- og trygginga- og heilbrigðisráðherra 2. september 2010. Ráðuneytin voru svo sameinuð 1. janúar 2011 og við sama tilefni nefnt velferðarráðherra. Guðbjartur gegndi þessu embætti til loka síðasta kjörtímabils. Hann hafði setið í þrjú ár á þingi þegar hann var skipaður til embættisins. Guðbjartur var 60 ára þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra (sjá nánar hér).

Kristján Þór er núverandi heilbrigðisráðherra. Eins og áður hefur komið fram hefur hann setið á þingi í sex ár eða eitt og hálft kjörtímabil. Kristján var 56 ára þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra. (sjá nánar hér)

Samantekt
Það hlýtur að vekja athygli hversu margt er áþekkt í ferilskrám Guðbjarts Hannessonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Báðir eru t.d. með kennaramenntun og einhverja kennslureynslu. Þeir eru á svipuðum aldri þegar þeir ljúka kennsluréttindanáminu en síðan hefur Guðbjartur aukið við menntun sína á sviði kennslu- og skólastjórnunar.

Guðbjartur og Kristján byrjuðu báðir að hasla sér völl á atvinnumarkaðinum samhliða námi. Kristján við sjómennsku en Guðbjartur m.a. virkjanastörf. Þeir byrja svo báðir að kenna rúmlega tvítugir. Guðbjartur er kennari í sjö ár áður og verður síðan skólastjóri við Grunnskóla Akraness. Því embætti gegnir hann í 16 ár. Kristján er kennari í fimm ár áður en bæjarstjóraferill hans tekur við en hann var bæjarstjóri í 20 ár á þremur stöðum á landinu; Þ.e. Dalvík, Ísafirði og Akureyri. Þar af 16 ár á heimaslóðum í Eyjafirðinum.

Guðbjartur hefur reyndar líka umtalsverða reynslu af bæjarstjórnarmálum. Þó Guðbjartur hafi aldrei verið bæjarstjóri eins og Kristján hefur hann 12 ára reynslu af bæjarstjórnarmálum. Báðir sátu samtals í rúmlega 20 stjórnum og nefndum á þeim tíma sem þeir fara með embætti í bæjarstjórnum. Guðbjartur og Kristján sátu m.a. báðir  í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þó það hafi ekki verið á sama tíma.   

Báðir komu inn á þing á sama tíma og hafa setið þar jafnlengi eða í sex ár. Guðbjartur hafði verið þingmaður í þrjú ár þegar hann var skipaður heilbrigðisráðherra en Kristján í sex. Hvorugur hefur neina menntun sem lýtur að rekstri eða skipulagi heilbrigðismála en vissulega má þó gera ráð fyrir að störf beggja á sviði bæjarmála geri þá hæfari til ráðherraembættis en marga samráðherra sína.

Miðað við menntun og reynslu mætti reyndar ætla að ráðuneyti menntamála hefði hæft Guðbjarti betur og sennilega Kristjáni líka. Það er líka spurning hvort sjávarútvegsráðuneytið standi þekkingu hans og reynslu nær en heilbrigðisráðuneytið. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga hvert markmið heilbrigðisþjónustunnar á að vera. Það má líka spyrja sig hvort markmið stjórnvalda og þeirra sem vinna að heilbrigðismálum fer saman.

Það er ekki spurning að embætti heilbrigðisráðherra er mjög umfangsmikið en grundvallarspurningin er hvort ráðuneytinu er  ætlað að þjóna fjármagninu eða fólkinu. Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað er hægt að setja niður hvaða hæfileikar skipta mestu við skipun ráðherra heilbrigðismála í landinu.

Ég reikna með að meiri hluti almennings og þeirra sem starfa innan heilbrigðisstofnananna líti svo á að verkefnið snúist um að að veita öllum sem þurfa jafna og góða þjónustu. Hins vegar er ansi margt sem bendir til að stjórnvöld vilji reka heilbrigðisþjónustuna eins og hvert annað markaðsfyrirtæki þar sem megináherslan liggur á því að skila peningalegum hagnaði. Af þessum ástæðum er líklegt að hugmyndir meirihluta almennings og stjórnvalda um það hvaða hæfileikum heilbrigðisráðherra þarf að vera búinn fari alls ekki saman.

Væntanlega lítur meirihluti skattgreiðenda svo á að rekstrargrundvöllur heilbrigðisþjónustunnar sé þegar tryggður í gegnum skattlagningu ríkisins á tekjur þeirra og eignir. Þess vegna er líklegt að flestir séu sammála um að það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda að tryggja að ætlað hlutfall skattteknanna fari til þessarar nauðsynlegu grunnþjónustu en ekki í eitthvað annað sem þjónar minni hagsmunum.

Af þessu leiðir að heilbrigðisráðherra þarf að hafa hæfileika til samvinnu við starfsfólk og skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja góða sátt á milli almennings og heilbrigðisyfirvalda. Vænlegur kostur er því frekar hugsjón sem er bundinn velferð og hagsmunum samfélagsins en flokkspólitískum hagsmunum eða eigin frama innan stjórnmálaflokka.

Setjum heilbrigðisþjónustuna í forgang

Því má svo við þetta bæta að einhverjir þeirra sem hafa varað við þróuninni sem er að verða í heilbrigðismálum hér á landi hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því að með nýjum heilbrigðislögum frá 2007 (sjá hér) hafi markið verið sett á aukna markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þessir hafa jafnframt varðað við því hvert þetta muni leiða heilbrigðisþjónustuna sem muni í framtíðinni snúast í enn meira mæli um fjármagn en ekki aðhlynningu. Teiknin eru væntanlega orðin öllum ljós nú þegar.

____________________________________

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Örfáar heimildir um umræðuna um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar

Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu. Lagt fram á 135. löggjafarþinginu (2007-2008) af þingmönnum VG. Flutningsmenn: Ögmundur Jónasson.
Markaðsvæðing mannslíkamans. mbl.is: 31. janúar 2012.
Vilhjálmur Ari Arason: Neyðarþjónustan, þegar lífið sjálft er í húfi. Bloggpistill á eyjan.is: 15. ágúst 2013.


Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þetta er annar þáttur af tíu af samanburði á menntun og starfsreynslu þeirra sem voru ráðherrar undir lok síðasta kjörtímabils og þeirra sem gegna þessum embættum nú.  Í síðasta pistli voru forsætisráðherrarnir bornir saman. Hér verða það fjármála- og efnahagsráðherrarnir.

Björn KristjánssonFjármálaráðherra er eitt af elstu embættisheitum núverandi stjórnarfyrirkomulags. Fyrsti fjármálaráðherrann var Björn Kristjánsson (sjá hér) en hann gegndi embættinu aðeins í eitt ár eða árið 1917. Þetta var í fyrstu innlendu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1917 til 1920. Auk fjármálaráðuneytisins voru þar  forsætis-, og dóms- og kirkjumála- og atvinnumálaráðuneyti (sjá hér) eða alls fjórir málefnaflokkar þar sem dóms- og kirkjumálin voru saman.

Fram til ársins 1939 voru þeir sem gegndu stöðu ráðherra aldrei fleiri en tveir eða þrír. Það var því ekkert óvanalegt að sami ráðherra færi með tvö ráðuneyti. Þó málefnunum sem ráðherrarnir höfðu á sinni könnu taki að að fjölga upp úr 1932 þá er það ekki fyrr en við hernámið sem ráðherrum tekur að fjölga og eru almennt fjórir til fimm næstu kjörtímabil á eftir. 

Jón ÞorlákssonFrá upphafi hefur það verið langalgengast að sá ráðherra sem fer með fjármálin hafi ekki fleiri málefnaflokka á sinni könnu en þó kom það fyrir á fyrstu árum ráðuneytanna að forsætisráðherra færi líka með fjármálaráðherraembættið. Þessi háttur var hafður á í fyrsta skipti árið 1926 en þá var Jón Þorláksson bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra (sjá hér).

Það er vissulega forvitnilegt að skoða menntun og starfsreynslu þeirra manna sem áttu sæti sem ráðherrar í fyrstu innlendu ráðuneytunum á árunum 1917 til 1944 sem mætti ef til vill kalla fullveldistímabilið þar sem lýðveldið var ekki stofnað fyrr en árið 1944. Þar sem Íslendingar öðluðust ekki full yfirráð yfir eigin málum fyrr en við lýðveldisstofnunina er ekki fráleitt að tala um þennan tíma sem einhvers konar æfingartímabil.

Að öllu gamni slepptu þá er rífleg ástæða til að velta því fyrir sér af fullri alvöru hvaða áhrif hefðir og venjur, sem urðu til á þeim mótunartíma áður en Íslendingar höfðu öðlast full yfirráð yfir sínum eigin málum, eru hafðar í heiðri enn í dag varðandi embættisskipan og annað sem lýtur að stjórnskipan landsins. Það verður þó ekki staldrað við þetta atriði frekar að sinni en það er ekki ólíklegt að því verði velt upp síðar í þessu verkefni og meira gert úr því þá.

Benjamin Franklin

Eins og áður segir er fjármálaráðherra eitt af elstu embættisheitunum innan ráðuneyta íslenskrar stjórnsýslu. Frá upphafi hefur það líka verið algengast að sá sem gegnir ráðherraembættinu í fjármálaráðuneytinu fari ekki með fleiri málaflokka.

Í desember 2009 skipaði þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, nefnd sem var „falið [...] það verkefni að gera tillögur um endurskoðun laga nr. 73“ sem eru frá árinu1969, „um Stjórnarráð Íslands, og eftir atvikum aðrar lagareglur sem lúta að starfsemi Stjórnarráðsins og stjórnsýslu hér á landi“ (sjá hér).

Nefndin skilaði tillögum sínum ári síðar þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

Nefndin telur að fella eigi brott ákvæði laganna [frá 1969] þar sem heiti ráðuneyta eru tilgreind og að með því skapist svigrúm fyrir ríkisstjórn hverju sinni, einkum við stjórnarmyndun, að ákveða fjölda ráðuneyta og heiti þeirra. (sjá sama)

Ný lög um Stjórnarráð Íslands voru svo samþykkt frá Alþingi í september 2011 (sjá hér). Þar er að finna lagagrein sem byggir á ofangreindri tillögu nefndarinnar um þetta atriði:

Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. (sjá hér)

15. grein Stjórnarskrárinnar er svohljóðandi: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“ (sjá hér)

Ári síðar, eða 1. september 2012, voru þær breytingar gerðar á embætti þáverandi fjármálaráðherra, sem á þeim tíma var Oddný G. Harðardóttir, að það var aukið í fjármála- og efnahagsráðherra. Þess má geta að þessar breytingar fóru fram við fjórðu og næstsíðustu breytingarnar sem voru gerðar á mönnun og málefnaskiptingu innan ráðuneytanna á síðasta kjörtímabili.

Fjármála- og efnahagsráðherra

Fjármála- og efnahagsráðherraEmbætti fjármálaráðherra var fyrst í höndum Steingríms J. Sigfússonar (hann tók við öðrum ráðuneytum í desember 2011), þá Oddnýjar G. Harðardóttur (hún vék fyrir Katrínu Júlíusdóttur 1. október 2012) en síðasta þingvetur kjörtímabilsins var það Katrín Júlíusdóttir sem gegndi því. Katrín er fædd 1974 og var því 38 ára þegar hún tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta ári. Áður hafði hún verið iðnaðarráðherra en hún tók við því embætti í upphafi síðasta kjörtímabils þá 35 ára að aldri. Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar var hún svo kjörin varaformaður flokksins.

Bjarni Benediktsson er fæddur 1970 og er því 43 ára. Hann er fjármála- og efnahagsráðherra í nýskipaðri ríkisstjórn. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá því hann var 39 eða frá árinu 2009. 

Menntun og starfsreynsla:
Katrín útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1994. Ári síðar innritaðist hún í mannfræði við Háskóla Íslands. Næstu fjögur árin var hún skráð í mannfræðina en hefur ekki lokið prófi. Annað nám sem kemur fram á ferilskrá hennar á vef Alþingis er námskeið sem hún hefur tekið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í hugbúnaðargerð. Það var árið 2001.

Sama ár og hún útskrifaðist sem stúdent frá MK var hún ráðin sem innkaupastjóri hjá G. Einarsson & co. ehf. „Fyrirtækið flytur inn barnafatnað aðallega frá Þýskalandi.“ (sjá hér). Hún var í þessari stöðu næstu fimm árin. Þar af fjögur samhliða háskólanáminu. Síðasta árið sem Katrín var skráð í mannfræðina var hún framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands, þá 24 ára.

Árið eftir, eða árið 1999, tók hún við framkvæmdastjórastöðu hjá innflutningsfyrirtækinu G. Einarsson & co. ehf en ári síðar var hún ráðin sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf (sjá hér um fyrirtækið). Þessari stöðu gegndi hún næstu þrjú árin eða þar til hún var kosin inn á þing árið 2003, þá 29 ára.

Bjarni er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann útskrifaðist þaðan 19 ára gamall. Þegar hann var 25 útskrifaðist hann úr lögfræðinámi frá Háskóla Íslands. Árið eftir var hann í þýsku- og lögfræðinám í Þýskalandi en í framhaldinu tók hann sérhæfða meistaragráðu í lögum (LL.M.-gráðu) frá University of Miami School of Law í Bandaríkjunum. Árið 1998 bætir hann við sig réttindum hæstaréttarlögmanns og löggilts verðbréfamiðlara, þá 28 ára.

Árið sem hann útskrifaðist úr lögfræðinni vann hann sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Keflavík. Heimkominn frá Bandaríkjunum, árið 1997, gerist hann lögfræðingur hjá Eimskip og var þar í tvö ár. Þá fór hann út í eigin rekstur sem lögmaður hjá Lex lögmannsstofu og viðheldur þeim rekstri fram til þess að hann er kosinn inn á þing árið 2003, þá 33 ára.

Félagsstörf af ýmsu tagi:
Katrín byrjaði snemma að feta sig upp metorðastigann í pólitíkinni. Sama ár og hún varð stúdent var hún í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, og ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi. Þessum embættum gegndi hún þar til hún varð framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hins vegar var hún áfram í miðstjórn Alþýðubandalagsins, fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði Háskóla Íslands og kennslumálanefnd Háskóla Íslands 1997-1999.

Sama ár og hún tók við verkefnastjóra- og ráðgjafastöðunni hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf. var hún komin í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, stjórn Evrópusamtakanna og orðin varaformaður ungra jafnaðarmanna. Þess má geta að hún sat í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar og stjórn Evrópusamtakanna þar til hún var kosin á þing. Auk þess má geta þess að hún var formaður ungra jafnaðarmanna árin 2000-2001 og varaformaður í framkvæmdaráði Samfylkingarinnar árin 2001-2003. Hún var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar í febrúar á þessu ári.

Miðað við ferilskrá Bjarna á hann sér svolítið fjölbreyttari bakgrunn á sviði félagsstarfa. Hann var t.d. framkvæmdastjóri lögfræðiaðstoðar Orators, félags laganema síðasta árið sitt í lögfræðinni við Háskólann og formaður knattspyrnudeildar Ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ fyrstu tvö árin eftir að hann var kosinn inn á þing.

Líkt og Katrín byrjaði Bjarni ungur að feta sig upp pólitíska metorðastigann. Þegar hann var 21s árs var hann kominn í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ og átti þar sæti næstu þrjú árin. Síðast sem formaður þess. 

Frá 28 ára aldri og fram til 32 átti hann sæti í stjórn Heilsugæslu Garðabæjar og þá í skipulagsnefnd sama bæjar um skamma hríð. Eftir að hann settist inn á þing var hann varaformaður Flugráðs á árunum 2003-2007 og átti sæti í stjórnarskrárnefnd á árunum 2005-2007. Hann var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2009, þá 39 ára.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Katrín kom ný inn á þing vorið 2003 og hefur því setið inni á þingi í einn áratug. Hún hefur verið þingmaður suðvesturkjördæmis frá upphafi. Á ferlinum hefur hún átt sæti í fjölmörgum nefndum; eða tveimur til þremur á hverjum tíma að undanskildu síðasta kjörtímabili þar sem hún var ráðherra.

Meðal þeirra nefnda sem hún hefur átt sæti í eru allsherjarnefnd þar sem hún sat fyrsta þingárið, fjárlaganefnd þar sem hún sat á árunum 2005-2007, iðnaðarnefnd á árunum 2005-2009 og umhverfisnefnd árin 2007-2009. Þess má svo geta að hún var formaður iðnaðarnefndar árin 2007-2009.

Bjarni kom inn á þing á sama tíma og Katrín og hefur því líka setið inni á þingi í einn áratug. Eins og Katrín hefur hann verið þingmaður suðvesturkjördæmis frá upphafi. Frá því að hann kom inn á þing hefur hann átt sæti í fjölda þingnefnda; eða þremur til fjórum á hverjum tíma að undanskildu síðasta kjörtímabili. Þá átti hann eingöngu sæti í utanríkismálanefnd þar sem hann hefur setið frá árinu 2005.

Aðrar nefndir sem hann hefur átt sæti í, og verða dregnar hérna fram, er allsherjarnefnd þar sem þau Katrín voru samtíða í eitt ár. Bjarni átti sæti í þessari nefnd á árunum 2003-2007 og var formaður hennar líka. Á sama tíma sat hann í fjárlaganefnd. Árin 2004-2005 átti hann sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd og svo efnahags- og skattanefnd í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða árin 2007-2009.

Ráðherraembætti:
Katrín var 35 ára þegar hún var skipuð iðnaðarráðherra í upphafi síðasta kjörtímabils. Því embætti gegndi hún til haustsins 2012. Það er þó rétt að geta þess að hún var í fæðingarorlofi frá 24. febrúar 2012 til þess tíma að hún var skipuð fjármála- og efnahagsráðherra 1. október 2012. Katrín var því 38 ára þegar hún tók við fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þess má geta að Oddný G. Harðardóttir gegndi ráðherraembætti hennar frá 24. febrúar til 6. júlí 2012 en þá tók Steingrímur J. Sigfússon við því embætti og gegndi því til til 1. september 2012. Við það tækifæri var þriðja og síðasta verulega breytingin á ráðuneytunum í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem fólst m.a. í því að Steingrímur J. Sigfússon var gerður að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og tók þannig yfir ráðuneytið sem Katrínu hafði verið úthlutað. 

Þegar Katrín sneri aftur úr fæðingarorlofinu fékk hún ráðuneytið sem hann hafði stýrt áður í staðinn en Oddný G. Harðardóttir, sem tók við ráðuneyti Steingríms 31. desember 2011, vék fyrir Katrínu (sjá hér). Katrín hafði setið í níu ár á þingi þegar hún tók við stjórn efnahags- og fjármála í landinu (sjá nánar hér).

Með nýrri stjórn tók Bjarni við fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Eins og áður hefur komið fram hefur hann setið á þingi í 10 ár eða tvö og hálft kjörtímabil (hér er vísað til kjörtímabilsins sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokkur sátu bara hálft). Bjarni er 43ja ára þegar hann tekur við embætti fjármála- og efnahagsráðherra (sjá nánar hér).

Samantekt
Katrín var tvítug þegar hún lauk stúdentsprófi. Strax að stúdentsprófi loknu gerðist hún innkaupastjóri hjá innflutningsfyrirtæki sem flutti inn barnafatnað. Á sama tíma byrjaði hún að hasla sér völl í pólitíkinni. Hún var skráð í mannfræði við Háskóla Íslands á árunum 1994-1999 en hefur ekki útskrifast úr því námi enn.

Áður en hún settist inn á þing, 29 ára gömul, var hún framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands í eitt ár og annað hjá innflutningsfyrirtækinu G. Einarsson & co. auk þess sem hún starfaði sem verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá Ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf. í þrjú ár. Á sama tíma vann hún sig áfram upp metorðastigann á sviði stjórnmála. Fyrst innan Alþýðubandalagsins og svo Samfylkingarinnar.

Frá því að hún settist inn á þing hefur hún verið í tveimur til þremur þingnefndum á hverju kjörtímabili að síðasta kjörtímabili undanskyldu en þá var hún fyrst iðnaðarráðherra og síðar fjármála- og efnahagsráðherra. Þegar hún tók við embætti iðnaðarráðherra hafði hún setið á þingi í sex ár. Þremur árum síðar tók hún við embætti fjármála- og efnahagsráðherra.

Bjarni var 19 ára þegar hann lauk stúdentsprófi en ólíkt Katrínu útskrifaðist hann úr sínu námi í Háskólanum og bætti við sig gráðu og réttindum að því loknu. Þegar hann var 28 ára var hann kominn með réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari og héraðsdómslögmaður.

Árið sem Bjarni varð 25 ára starfaði hann sem fulltrúi hjá lögmanninum í Keflavík en frá 1997 til 1999 var hann lögfræðingur hjá Eimskip. Næstu fjögur ár var hann lögmaður með eigin rekstur á Lex lögmannsstofu en var þá kosinn inn á þing sama ár og Katrín Júlíusdóttir eða árið 2003.

Frá því að hann settist inn á þing hefur hann verið í þremur til fjórum þingnefndum á kjörtímabili ef það síðasta er undanskilið en þá átti hann aðeins sæti í utanríkismálanefnd. Eftir að Bjarni settist inn á þing gerðist hann virkur í viðskiptalífinu og var stjórnarformaður N1 og BNT á árunum 2005 – 2008 en BTN var það sem hefur verið kallað „móðurfélag“ N1s (sjá sérstakan heimildalista hérna neðst varðandi þennan þátt á ferli Bjarna).

Bæði, Katrín og Bjarni, hafa stundað einhverja atvinnu samhliða námi ásamt stjórnmálatengdum félagsstörfum. Katrín er þó öllu stórtækari á því sviði en Bjarni þar sem hún vann við innflutning hjá  G. Einarssyni & co. ehf allan tímann sem hún er skráð í nám í háskólanum auk þess að sitja í ýmsum pólitískum stjórnum, ráðum og nefndum öll háskólaárin. Mest fimm á sama tíma.

Árin 1998 var Katrín í sex hlutverkum þar sem hún var innkaupastjóri innflutningsfyrirtækisins sem hún vann hjá, framkvæmdastjóri stúdentaráðs HÍ, í miðstjórn Alþýðubandalagsins, fulltrúi í stúdentaráði - og háskólaráði HÍ og í kennslumálanefnd sama skóla. Af ferilskrá Katrínar inni á vef Alþingis að dæma hefur hún verið ólétt á þessum tíma þannig að það er útlit fyrir að hún hafi fyllst einhverjum ofurkrafti með meðgöngunni. Það er ef til vill sanngjarnt að minna á að á þessum tíma var Katrín á 25. aldursári og þess vegna ung og væntanlega vel frísk.

Þegar kemur að mati á því hvort þessara tveggja, Katrín eða Bjarni, er hæfara til að gegna stöðu fjármála- og efnahagsráðherra þá hlýtur skortur beggja á námi í efnahagstengdum greinum að vekja sérstaka athygli. Ef hins vegar pólitískur metnaður skiptir meginmáli varðandi embættisskipunina þá eru þau væntanlega bæði metin vel hæf.

Þegar menntunarþátturinn er skoðaður nánar er líklegra að Bjarni geti sótt eitthvað, sem kemur honum að notum í embættinu, í átta ára nám í lögfræði en Katrín hafi fundið eitthvað úr háskólakúrsunum, sem hún tók í mannfræðinni, sem hafi verið hald í. Starfsreynslulega séð er það heldur ekki ólíklegt að Bjarni geti sótt fleira í sinn reynslubanka sem nýtist honum í núverandi embætti en Katrín gat á meðan hún gegndi þessu sama embætti.

Þegar kemur að trausti er líklegra að Katrín hafi vinninginn en sennilega vegur trúverðugleikinn eitthvað á móti þannig að ef til vill koma þau jafnt út hvað þennan þátt varðar þegar upp er staðið. Ef marka má ánægjumælingar Gallups mældist ánægja þátttakanda með störf Katrínar sem ráðherra hæst 29,9%. Þessi mæling er frá því í mars 2012 eða þegar Katrín var í fæðingarorlofi.

Á meðan hún gegndi embætti fjármála- og efnahagsráðherra mældist ánægjan með hennar störf hæst 29% en það var undir lok kjörtímabilsins eða í janúar 2013. Katrín var þá í fimmta sæti en miðað við könnunina voru þátttakendur ánægðastir með störf Katrínar Jakobsdóttur en 49,7% aðspurðra sögðust ánægðir með hennar störf.

Miðað við þá miklu ábyrgð sem hvílir á herðum fjármála- og efnahagsráðherra þá hlýtur að liggja beinast við að velta menntunarþættinum alvarlega fyrir sér. Væntanlega dytti engum í hug að ráða einhvern í stöðu fjármálastjóra hjá öðrum stofnunum eða fyrirtækjum ef umsækjandi væri hvorki með menntun eða reynslu af fjármálastjórn. Þegar það er haft í huga að hér er verið að tala um ráðuneyti sem er yfir rekstri heils samfélags þá er það vissulega stór spurning: Af hverju eru ekki gerðar meiri kröfur til æðsta yfirmanns þess en raun ber vitni?

Að öllum líkingum má gera ráð fyrir að þeir séu mjög margir sem gera sér grein fyrir því að útkoman út úr núverandi fyrirkomulagi við skipunina í embættið getur tæplega orðið önnur en slysakennd. Það þarf reyndar ekki að horfa mörg ár aftur í tímann til að finna stórslys sem hlaust af þessu og bitnaði á öllu samfélaginu með hörmulegum afleiðingum. Það sér reyndar ekki fyrir endalok hörmunganna enn.

____________________________________

Helstu heimildir

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Heimildir sem varða viðskiptasögu Bjarna Benediktssonar 

Bjarni Benediktsson: Lætur af stjórnarformennsku í N1. vb.is: 10. desember 2008
Stýrði og átti í BTN. dv.is:
9. desember 2009
BTN lagði milljarð í Vafningsfléttu
. dv.is:
24. mars 2010
Viðskiptasaga Bjarna Benediktssonar
. eyjan.is:
15. ágúst 2011
4,3 milljarða gjaldþrot BTN
. mbl.is: 22. janúar 2013
Milljarðaafskriftir vegna gjaldþrots BTN
. dv.is: 22. janúar 2013
Ekkert fékkst upp í milljarðakröfur í BTN. ruv.is: 22. janúar 2012

Wikipedia: Bjarni Benediktsson


Forsætisráðuneytið

Þetta er framhald þess sem hófst á færslunni Loforð og efndir og svo Mönnun brúarinnar. Sú fyrri er hugsuð sem eins konar inngangur en þá seinni má líta á sem áframhaldandi innsetningu. Þessi færsla er þess vegna fyrsti hluti þess sem  þeirri rannsóknarvinnu sem var upphaf þessara skrifa var ætlað að snúast um. Kveikjan er ekki síst hverjar afleiðingar íslenskrar stjórnmálamenningar hafa orðið og hvernig þær birtust þjóðinni haustið 2008.

Eins og áður hefur komið fram hefur það orðið að hefð í íslenskri stjórnskipan að það er í höndum æðstráðandi innan þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverjir verða ráðherrar. Þannig hefur það orðið að einhvers konar ófrávíkjanlegri reglu að ráðherrar hverrar ríkisstjórnar eru úr röðum þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Samkvæmt þessari hefð hefur það fests í sessi að formenn viðkomandi flokka taka embætti forsætis- og fjármálaráðherra.

Ráðherrar 2013Núverandi ráðherraskipan

Einhverjir sjá það væntanlega í hendi sér hvurs lags álag hlýtur að hljótast af því að vera formaður fjölmenns stjórnmálaflokks, þingmaður löggjafarsamkundunnar á Alþingi og bæta svo embætti ráðherra ofan á þau margháttuðu hlutverk. Það má gera ráð fyrir að ný lög sem voru sett um Stjórnarráð Íslands á síðasta þingi hafi að einhverju leyti tekið mið af þessu en þar er ráðherrum gert heimilt að ráða til sín tvo til þrjá aðstoðarmenn í stað eins áður. 

Samkvæmt lögunum verður hverjum ráðherra heimilt að ráða allt að tvo aðstoðarmenn til starfa í ráðuneyti sínu í stað eins áður. Auk þess getur ríkisstjórnin ákveðið að fjölga aðstoðarmönnum um þrjá til viðbótar ef þörf krefur.  (sjá hér)

Miðað við umfang og samfélagslegt mikilvægi þeirra málefna sem ráðherrarnir sitja yfir er tæplega hægt að gera ráð fyrir öðru en þeir hafi aðstoðarmenn. Þó hlýtur að teljast eðlilegt að störf þeirra séu auglýst og þekking og færni þeirra sem eru ráðnir standi undir því sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að kröfur séu gerðar um varðandi starfsemi og sérsvið hvers ráðuneytis. Hins vegar er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvers vegna svo mörgum pólitískt mikilvægum verkefnum er hlaðið á einn einstakling og hvernig slíkt fyrirkomulag fari með þetta marglofaða lýðræði?

Franklin D. Roosevelt

Það er hins vegar ekki lýðræðið sem slíkt sem stendur til að fjalla um sérstaklega hér heldur verður menntun og starfsreynsla hvers ráðherra fyrir sig dregin fram og lagt á það eitthvert mat hvort og hvernig þessir þættir standi undir þeim samfélagslega mikilvægu og sérhæfðu sviðum sem heyra undir ráðuneytin sem þeir sitja yfir.

Ég þarf væntanlega ekkert að taka það fram að þeir sem gegna ráðherraembætti eru í einu af valdamestu embættum landsins samkvæmt íslenskum valdastrúktúr. Miðað við það má gera ráð fyrir að mikillar vandvirkni sé gætt við skipun ráðherra og vandlega passað upp á það að þeir sem gegna þeim hafi menntun, þekkingu og reynslu sem samræmist þeim viðfangsefnum sem heyra undir þá. Það er a.m.k. eðlilegt að gera ráð fyrir því að skipun í æðstu embætti hvers ráðuneytis stýrðist af metnaði fyrir málaflokknum sem heyrir undir það svo og þeim almannahagsmunum sem þeim er ætlað að fara með. 

Þeir ráðherrar sem verða bornir saman hér í framhaldinu eru alls sautján. Við samanburðinn er ferilskrá hvers og eins lögð til grundvallar en þar er tíunduð skólaganga og próf, reynsla af vinnumarkaði auk annarrar reynslu- og/eða þekkingarmyndandi samfélagsvirkni.  Þeir sautján sem stendur til að skoða út frá þessum atriðum eru allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og þeir átta ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem létu af embætti 23. maí sl. (sjá hér). 

Til að stilla lengd hverrar færslu í eitthvert hóf verður hvert embætti tekið fyrir sig og byrjað á forsætisráðherraembættinu. Eins og áður hefur komið fram er tilgangurinn með þessu framtaki ekki síst sá að fá lesendur til að velta því fyrir sér hvort aðferðafræði flokkanna við skipun í ráðuneytin sé líklegust til að hagsmunir samfélagsheildarinnar séu best tryggður?

Forsætisráðherra

Forsætisráðherrar

Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar. Hún er fædd 1942 og var því 67 ára þegar hún tók við embætti forsætisráðherra fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nýorðinn forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann er fæddur 1975 og hefur því náð 38 ára aldri þegar hann tekur við einu æðsta embætti landsins. Þegar menntun þessara tveggja, starfsreynsla þeirra utan þings auk þing- og nefndarstarfa eru borin saman kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Menntun og starfsreynsla
Þegar Jóhanna var 18 ára lauk hún verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands. Tveimur árum síðar var hún ráðin sem flugfreyja hjá Loftleiðum og starfaði þar í níu ár áður en hún gerðist skrifstofumaður hjá Kassagerð Reykjavíkur þar vann hún í sjö ár en þá var hún kosin inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn, þá 36 ára.

Sigmundur Davíð var stúdent frá MR árið 1995. Tíu árum síðar lauk hann BS-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Það kemur og fram á ferilskrá hans að hann hafi stundað hlutanám í fjölmiðlafræði við skólann og hann hafi farið út til Moskvu í skiptinám. Auk þessa hefur hann stundað nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu og framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála.

Eina starfsreynslan sem getið er á ferilskrá hans á alþingisvefnum er að hann hefur verið þáttastjórnandi og fréttamaður í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu á árunum 2000-2007. Hann var kjörinn inn á þing vorið 2009 þá 34 ára.

Félagsstörf af ýmsu tagi
Jóhanna byrjaði snemma að taka þátt í ýmis konar félagsstarfi. 24 ára er hún orðin formaður stjórnar Flugfreyjufélags Íslands. Því embætti gegndi hún í fjögur ár. Eftir að hún lét að störfum sem flugfreyja hélt hún tengslum við félagsskapinn í gegnum góðgerðarsamtök á þeirra vegum þar sem hún var formaður í eitt ár. Frá 34 ára aldri átti hún sæti í stjórn VR þar sem hún sat til ársins 1983.

Eins og áður sagði var Jóhanna 36 ára þegar hún var kjörin inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Sex árum eftir að hún tók sæti á þingi var hún kjörin varaformaður flokksins og gegndi því í níu ár. Árið 1995 stofnaði Jóhanna flokkinn Þjóðvaka (sjá hér) og var formaður hans uns þingflokkur hans gekk inn í Alþýðuflokkinn aftur ekki löngu eftir alþingiskosningar. Jóhanna var kjörin formaður Samfylkingarinnar árið 2009 og gegndi því embætti nær allt síðasta kjörtímabil.

Eftir að Jóhanna var kjörin inn á þing hefur hún setið í nokkrum nefndum og ráðum utan þings. Strax og Jóhanna varð þingmaður tók hún að hasla sér völl á vettvangi félags- og tryggingamála. Sama ár og hún komst inn á þing var hún í nefnd sem var falið að endurskoða lög um almannatryggingar auk þess að eiga sæti í tryggingaráði. Hún sat þar í níu ár. Þar af var hún formaður þess í eitt ár eða frá 1979 til 1980. Árið 1979 var hún líka formaður í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja. Því embætti gegndi hún í fjögur ár.

Á ferilskrá Sigmundar Davíðs kemur fram að hann hefur verið forseti Nordiska Ekonomie Studerandes Union í tvö ár eða frá því hann var 25 til 27. Árin 2008 til 2010 var hann fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Frá árinu 2009 hefur hann verið formaður Framsóknarflokksins.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess
Jóhanna
á langan þingferil að baki. Hún var einn þeirra þingmanna sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs til síðustu alþingiskosninga. Þá hafði hún setið á þingi í alls 35 ár. Á þessum tíma hefur hún verið fulltrúi fjögurra flokka auk þess sem hún var utan flokka um hríð. Það er frá haustinu 1994 fram til alþingiskosninganna 1995 (sjá hér).

Þennan tíma hefur hún setið í nokkrum þingnefndum þ.á m. þrisvar sinnum í sérnefnd um stjórnarskrármál  eða árin: 1995-1997 og 1999-2000 og 2004-2007, allsherjarnefnd á árunum 1996-1999 og kjörbréfanefnd þar sem hún sat á árunum 1999-2003. Þess má geta að Jóhanna hefur aðeins einu sinni átt sæti í félagsmálanefnd eða á árunum 2003-2007.

Sigmundur Davíð kom nýr inn á þing vorið 2009 og hefur því setið inni á þingi í fjögur ár. Á síðasta kjörtímabili var hann þingmaður fyrir Reykjavík norður nú fyrir Norðausturland. Allt síðasta kjörtímabil sat hann í utanríkismálanefnd.

Ráðherraembætti
Jóhanna
hafði tvisvar gegnt ráðherraembætti áður en hún tók við forsetaembættinu í fyrsta skipti 1. febrúar 2010. Hún var félagsmálaráðherra á árunum 1987-1994 og 2007-2008, síðan félags- og tryggingamálaráðherra í eitt ár eða til stjórnarslita Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í janúarlok 2009. 

Jóhanna var 45 ára þegar hún tók við ráðherraembætti í fyrsta skipti en 67 ára þegar hún tók við embætti forsætisráðherra sem hún gegndi til 23. maí sl. Hún var því 71s þegar hún lét af embætti og hafði setið á Alþingi í 31 ár áður en það kom að því að hún tæki það sæti. (sjá nánar hér)

Sigmundur Davíð er núverandi forsætisráðherra. Eins og áður hefur komið fram þá hefur hann setið á þingi í fjögur ár, eða eitt kjörtímabil, og er 38 ára þegar hann tekur embætti forsætisráðherra. (sjá nánar hér)

Samantekt
Jóhanna var 18 ára þegar hún lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands. Sigmundur þrítugur þegar hann lauk BS-námi frá Háskóla Íslands. Önnur próflok eru ekki skráð. Samkvæmt ofangreindri ferilskrá er Jóhanna tvítug þegar hún fer út á atvinnumarkaðinn þar sem hún vinnur í 16 ár; fyrst sem flugfreyja en síðan sem skrifstofumaður. Þennan tíma er hún virk í viðkomandi stéttarfélögum.

Hún er 36 ára þegar hún sest inn á þing. 71 þegar hún lætur af þingmennsku og hefur því setið inni á þingi í 35 ár eða þrjá og hálfan áratug! Á þeim tíma hefur hún verið formaður tveggja flokka og varaformaður þess þriðja.

Miðað við ferilskrá Sigmundar Davíðs er reynsla hans af atvinnulífinu bundin við Ríkisútvarpið þar sem hann hefur gengt hlutastarfi sem þáttastjórnandi og fréttamaður í sjö ár eða frá því að hann var 25 ára. Hann var kosinn formaður Framsóknarflokksins í upphafi ársins 2009 og settist inn á þing skömmu síðar. Hann hefur því setið á þingi í rétt rúm fjögur ár.

Sennilega eru skiptar skoðanir á því hvort þeirra er betur hæfara til að taka eitt af þremur æðstu embættum þjóðarinnar. Ef reynsla af pólitík er eini mælikvarðinn hlýtur það að vera Jóhanna sem er hæfari. Miðað við ánægjukönnun Callups frá því í febrúar 2009 voru miklar væntingar gerðar til hennar og mældist ánægja þátttakenda 65,4%. Í janúar 2013 var þessi tala komin niður í 25,9%. Fór lægst niður í 18,4% í mars 2012 (sjá hér).

Það vekur athygli í þessari könnun hvað ánægja þeirra sem segjast kjósa Samfylkinguna er í litlu samhengi við skoðun þeirra sem segjast styðja aðra flokka. Af því má gera ráð fyrir að kjósendur hennar séu enn þá á því að hún hafi staðið sig vel. Líklega eru þeir þó í töluverðum minni hluta sem væru tilbúnir til að mæla með henni aftur í þetta embætti. Miðað við ferilskrá hennar er nokkuð víst að engin hæfnisnefnd hefði mælt með henni til starfans.

Í þessu samhengi er rétt að vísa til Skýrslu um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands þar sem segir m.a: „Verklag við ráðningu æðstu embættismanna og annarra starfsmanna verði bætt s.s. með hæfnisnefndum og samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi.“ (sjá hér)

Þrátt fyrir akademískt nám þá verður ekki séð af ferilskrá Sigmundar Davíðs að þar séu afgerandi þættir sem mæli tvímælalaust með honum í embætti forsætisráðherra. Þar sem hann á aðeins stuttan þingferil að baki eru sennilega margir sem hafa ákveðið að gefa honum ekkert síður séns en Jóhönnu í upphafi síðasta kjörtímabils. Væntanlega geta margir tekið undir það að það er óskandi að hann standi betur undir þeim en Jóhönnu auðnaðist.

Þegar það er skoðað hversu frambærileg annaðhvort eða bæði eru í embættið þarf að huga að starfssviði og -skyldum forsætisráðherra. Miðað við það að þetta er ein af þremur valdamestu stöðum íslensks samfélags er vissulega eðlilegt að setja fyrst spurningarmerki við það hvort það sé eðlilegt að formenn stjórnmálaflokka gegni því?

Aðrar spurningar sem vert er að skoða nákvæmlega eru: Hvort eigi að ráða mestu þegar kemur að vali forstæðisráðherra árafjöldi í pólitík eða menntun? eða hvort aðrir þættir skipti jafnvel enn meira máli? svo sem: færni í mannlegum samskiptum, tungumálakunnátta eða víðtæk þekking á íslensku samfélagi?

____________________________________

Helstu heimildir

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)


Mönnun brúarinnar

Eins og ég benti á í síðustu færslu er ætlunin að nota þennan vettvang til að bera saman menntun og reynslu ráðherranna í núverandi og síðustu ríkisstjórn. Tilgangurinn er að fylgja því eftir sem ég setti fram þar „en líka sú bjartsýnislega von að samanburðurinn veki einhverja til umhugsunar um það hvort núverandi kerfi við skipun ráðherra sé heillavænleg leið til reksturs samfélags sem er ætlað að þjóna öllum einstaklingunum sem það byggja.“ (sjá hér)

Hér á landi hefur sá háttur verið hafður á að allir sem hafa náð kosningaaldri ganga til alþingiskosninga á fjögurra ára fresti til að kjósa á milli stjórnmálaflokka sem hafa stillt upp einstaklingum sem að þeirra mati eru frambærilegastir til að fara bæði með löggjafar- og framkvæmdavaldið á því kjörtímabili sem tekur við að kosningunum loknum. Eftir kosningarnar eru það svo formenn þeirra flokka sem koma sér saman um ríkisstjórnarsamstarf sem sjá um að velja og skipa þá fulltrúa sem fara með framkvæmdavaldið. Í langflestum tilvikum hefur val þeirra takmarkast við þau flokkssystkini sem náðu með þeim inn á þing.

Það er í sjálfu sér kannski lýðræðislegt að gera ekki stærri kröfur til þeirrra, sem koma sér áfram af eigin rammleik innan viðkomandi stjórnmálaflokks, en að þeir hafi eitthvað til þess að bera að geta lagt a.m.k. mat á og tekið afstöðu til frumvarpa til laga en er það eðlilegt að þeir sem fara með framkvæmdavaldið hafi fátt annað á ferilskránni en vera eitilharðir við að koma sér til metorða í stjórnmálum eða njóta velvildar innan síns eigin flokks? Hér má heldur ekki gleyma því hvaða áhrif það hefur ef það eru fyrst og fremst peningastyrkir og -stuðningur fjársterkra aðila úr fjármálaheiminum sem hafa komið viðkomandi einstaklingum áfram innan flokkanna.

Thomas Jefferson

Allir þessir þættir voru eitthvað í umræðunni í kjölfar bankahrunsins 2008 en nú er eins og hún sé öllum gleymd. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sagði af sér í janúarlok 2009 var Jóhönnu Sigurðardóttur falið að mynda minnihlutastjórn sem skyldi sitja fram að kosningum sem voru boðaðar í aprílok það sama ár. Það má væntanlega líta á það sem viðbrögð við þeirri gagnrýni sem var uppi á þessum tíma um skipun æðstu manna ráðuneytanna að tveir utanþingsráðherrar voru skipaðir. Þeir héldu þó ekki sætum sínum nema fyrsta árið eftir kosningar. 

Það er sennilega mörgum í fersku minni hversu tíð ráðherraskiptin voru í síðustu ríkisstjórn. Af einhverjum ástæðum hafa ástæður þessara tíðu mannabreytinga nýliðins kjörtímabils aldrei farið neitt sérstaklega hátt í opinberri umræðu. Sennilega vita þó allir sem vilja kannast við það að ráðherrahrókeringarnar á kjörtímabilinu stöfuðu ekki aðeins af skilyrðislausri hlýðni formannanna við tilskipanir erlendra fjármálastofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið um niðurskurð á kostnaði við ríkisrekstrinum heldur var þeim gjarnan beitt sem refsiaðgerðum gegn óhlýðnum flokksmönnum sem höfðu verið álitnir nægilega hollir við upphaf kjörtímabilsins til að hljóta náð ráðherraskipunarinnar.

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur 23. maí 2009

Í upphafi síðasta kjörtímabils voru þessir skipaðir ráðherrar í eftirtalin embætti:

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009

Strax haustið 2009 var gripið til fyrstu refsiaðgerðanna  þegar Ögmundur Jónasson var sviptur ráðuneyti fyrir óhlýðni í fyrsta þætti Icesave-málsins. Í fjölmiðlum var það látið heita afsögn vegna málefnaágreinings en við lok Icesave-framhaldsþáttanna mátti vera ljóst að í raun var það ágreiningurinn sem reis upp sumarið 2009 í fyrsta Icesave-þættinum sem neyddi Ögmund til að láta af embætti heilbrigðisráðherra (sjá hér).

Álfheiður Ingadóttir tók við embætti Ögmundar Jónassonar 1. október 2009. Ári síðar eða 2. september 2010 var hann tekinn inn í ríkisstjórnina aftur en þá sem dóms- og mannréttindaráðherra. Fleiri breytingar voru reyndar gerðar á ráðuneytum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þennan sama dag. Þær verða taldar hér síðar.

Eins og áður hefur komið fram stendur til að bera saman hvort og hvernig menntun og starfsreynsla ráðherra núverandi og síðustu ríkisstjórnar uppfylla eðlilegar kröfur um fagþekkingu í viðkomandi ráðuneytum. Hér verða þessir þættir skoðaðir hvað varðar þá ráðherra sem sátu ekki út kjörtímabilið eins og á við í tilfelli Álheiðar Ingadóttur sem sat aðeins eitt ár yfir heilbrigðisráðuneytinu.

Álfheiður Ingadóttir Álfheiður er fædd 1951. Hún lauk stúdentsprófi tvítug frá MR og BS-prófi í líffræði fjórum árum síðar. Auk þess er hún með nám í þýsku og fjölmiðlum frá háskóla í Vestur-Berlín. 

Á meðan á líffræðináminu stóð kenndi hún líffræði í MH og MR en heimkomin úr viðbótarnáminu í Berlín sneri hún sér aðallega að blaðamennsku.

Þegar á háskólaárunum byrjaði hún að koma fótunum undir sig í pólitík. Frá 22ja ára aldri til 35 ára sat hún m.a. í stjórn Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Fimm árum eftir að hún var kosin í stjórnina er hún orðin varaborgarfulltrúi og gegnir því embætti innan flokksins næstu átta ár. Á sama tíma á hún sæti í nefndum borgarinnar. Fyrst umhverfisnefnd og þá jafnréttisnefnd þar sem hún var formaður um skeið.

Álfheiður tók þátt í stofnun Reykjavíkurlistans árið 1994 þá 43ja ára og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum hans. Sat m.a. í nefnd um mótun orkustefnu Reykjavíkurborgar 2002–2003 og í stjórn Landsvirkjunar 2003-2006.

Í beinu framhaldi af borgarstjórnarferlinum með Alþýðubandalaginu tekur alþingisferillinn við og þá sem varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Í fyrsta skipti sem hún sest inn á þing er hún 36 ára en svo verður nokkurt hlé. Hún kemur næst inn sem varamaður í lok áranna 2003, 2004 og 2005 en þá sem varafulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík suður. Árið 2007 kemst hún svo inn á þing sem þingmaður Vinstri grænna þá 56 ára. Frá því að hún settist inn á þing hefur hún setið í nokkrum nefndum á vegum þess. M.a. heilbrigðisnefnd frá árinu 2007-2009. (sjá nánar hér)

BS-nám Álfheiðar í líffræði og væntanlega afleysingakennslan hennar við MH og MR á meðan á því námi stóð hefur vissulega tengingu við málefni heilbrigðisráðuneytisins en hún hefur enga starfsreynslu til að byggja undir fagreynslu hvorki á sviði líffræðinnar eða heilbrigðismála almennt. Það er því hæpið að nokkur ráðningarskrifstofa hefði kvittað undir það að menntun Álfheiðar og starfsreynsla stæðu undir því að henni væri treyst fyrir jafnstóru og viðamiklu verkefni eins og yfirumsjón heilbrigðismála í landinu. 

Eftir breytingarnar 2. september 2010 

Eins og áður hefur komið fram tók Álfheiður Ingadóttir við sæti heilbrigðisráðherra í tilefni af því að Ögmundur Jónasson var tilneyddur til að segja af sér ráðherraembættinu haustið 2009. Ári síðar var Álfheiður hins vegar látinn víkja fyrir Guðbjarti Hannessyni en Ögmundur Jónasson fékk nýtt embætti. 

Fleiri breytingar voru gerðar á ráðherraskipaninni þetta á sama tíma. Báðir utanþingsráðherrarnir voru látnir fjúka svo og Álfheiður Ingadóttir og Kristján L. Möller. Árni Páll var færður til en Guðbjartur Hannesson tók við embætti hans og Álfheiðar. Ögmundur Jónasson tók við embætti Rögnu Árnadóttur. Frá og með 2. september 2010 voru ráðuneytin því þannig skipuð:

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur haustið 2010

Það fór ótrúlega lítið fyrir umræðum um þessar mannabreytingar í fjölmiðlum og því eru engar aðrar aðgengilegar skýringar á þeim en þær að alltaf hafi staðið til að fækka ráðuneytunum í þeim tilgangi að draga saman í ríkisrekstrinum. Þeim spurningum hvers vegna Álfheiður og Kristján voru látin víkja fyrir þeim Guðbjarti og Ögmundi verður hins vegar ekki svarað með því að vísa til sparnaðar eingöngu. 

Ef við gefum okkur að ánægjumælingar Gallups, hvað varðar störf ráðherra, hafi einhverju ráðið um það hverjum var fórnað í niðurskurðinum kemur reyndar í ljós að Álfheiður og Kristján eru meðal þeirra ráðherra sem minnst ánægja mældist með í könnun frá því í mars 2010; þ.e. tæpu hálfi ári áður en þessar breytingar voru opinberaðar.

Minnst ánægja er með störf Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra og Kristjáns L. Möller samgönguráðherra. Um og undir 14% segjast ánægð með þeirra störf og nýtur Kristján minnstra vinsælda þeirra þriggja.  (sjá hér)

Niðurstöður umræddrar könnunar skýra hins vegar ekki að utanþingsráðherrunum var fórnað í stað þeirra sem komu miklu verr út úr mælingunni en þau tvö. Þeir sem þátttakendurnir í þessari könnun Gallups lýstu mestri óánægju með, fyrir utan þau þrjú sem eru talin hér á undan, eru: Árni Páll Árnason, Össur Skarphéðinsson og Svandís Svavarsdóttir. Utanþingsráðherrarnir eru hins vegar þeir sem mesta ánægjan ríkti með skv. þessari könnun: 

Fram kom að 65% kjósenda eru ánægð með störf Rögnu Árnadóttur og hefur álit á henni aukist um 16 prósentustig frá því í könnun síðast liðið haust. Tæpur helmingur, eða 49%, segist ánægður með störf Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra.  (sjá hér)

Hér verður ekki velt frekar vöngum yfir ástæðum þessara mannabreytinga heldur vakin athygli á ferilskrám þeirra þriggja, sem var vikið úr ríkisstjórninni um leið og Álfheiði Ingadóttur, til að skoða hvort menntun þeirra og starfsreynsla sé í samhengi við málefni ráðuneytanna sem þeim var ætlað að stýra. Í þessu sambandi mætti hafa það á bak við eyrað að ef til stæði að ráða eða skipa einstaklinga í viðlíka ábyrgðarstöður og „framkvæmdastjóra“ eða andlit/rödd fyrirtækja með sambærilega veltu, umsvif og mannafla og ráðuneytin þá eru það einmitt þessi atriði sem yrðu skoðuð fyrst.

Kristján Möller Kristján er fæddur 1953. Hann tók próf frá Iðnskóla Siglufjarðar 1971, þá 18 ára gamall, og kennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands fimm árum síðar. Í framhaldinu bætti hann við sig ýmsum námskeiðum á sviði félags- og íþróttamála í Noregi og Svíþjóð á árunum 1977 til 1982.

Frá 17 ára aldri til 21s árs gegndi hann stöðu æskulýðs- og íþróttafulltrúa Siglufjarðar og má gera ráð fyrir að til þess embættis hafi hann að einhverju leyti notið föður síns sem var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn á Siglufirði á á árunum 1952-1982 (sjá hér).

Kristján var íþróttakennari í Bolungarvík í tvo vetur eða árin 1976-1978 en sneri þá aftur til Siglufjarðar og tók við embætti íþróttafulltrúa Siglufjarðar, þá 25 ára. Þessu embætti gegndi hann í 10 ár áður en hann sneri sér að verslunarrekstri næstu 11 árin.

Þegar Kristján er 33ja ára er hann orðinn bæjarfulltrúi sem er fjórum árum eftir að faðir hans hvarf úr embætti forseta bæjarstjórnarinnar. Sjálfur var Kristján forseti hennar þrisvar sinnum á 12 ára ferli sínum í bæjarmálunum á Siglufirði. Fyrst árið 1986 en síðast árið 1998.

Árið 1999 er Kristján kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna í fyrsta skipti, þá 46 ára. Fyrsta kjörtímabilið sitt inn á þingi átti hann sæti í samgöngunefnd. Árið áður en hann settist inn á þing átti hann sæti Í byggðanefnd forsætisráðherra. Átta árum eftir að hann settist inn á þing er hann gerður að samgönguráðherra, þá 54 ára, en því embætti gegndi hann í þrjú ár. (sjá nánar hér)

Það er erfitt að sjá hvað í ferli Kristjáns L. Möller mælir með því að hann hafi verið gerður að samgöngumálaráðherra ef undan er skilin seta hans í samgöngunefnd um fjögurra ára skeið. Slík nefndarseta skilar þó tæplega þeirri fagþekkingu sem horft væri eftir ef skipun í ráðherraembætti stjórnaðist af faglegum metnaði þeirra sem sjá um skipunina.

Það má auðvitað ætla að reynsla Kristjáns af verslunarrekstri og bæjarmálum á Siglufirði hafi gert það að verkum að hann hafi verið ágætlega inni í því hvað samgöngumálin skipta landsbyggðina miklu máli þar sem ýmsar stjórnsýsluákvarðanir síðustu ára og áratuga hafa miðað að því að gera höfuðborgarsvæðið að stöðugt mikilvægari miðju margs konar þjónustu sem þarf þá að sækja þangað. 

Ragna Árnadóttir Ragna er fædd árið 1966. Hún var því 43 ára þegar hún var skipuð dómsmálaráðherra í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur sem starfaði frá 1. febrúar 2009 til 10. maí það sama ár. 

Ólíkt þeim stjórnmálamönnum sem var vikið úr ráðherrastóli á sama tíma og Rögnu þá ber ferilskrá hennar vitni um menntun og fagreynslu sem er í ágætu samhengi við málefni ráðuneytisins sem henni var trúað fyrir.

Menntun:
Stúdentspróf MA 1986.
Embættispróf í lögfræði HÍ 1991.
LL.M.-gráða í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi 2000.

Viðkomandi starfsreynsla:
Lögfræðingur við nefndadeild Alþingis 1991-1995.
Sérfræðingur við skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og síðar Kaupmannahöfn 1995-1999.
Starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2002-2003. Starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi 2003-2004.
Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 2002-2009, auk þess staðgengill ráðuneytisstjóra 2006-2009. Settur ráðuneytisstjóri í sama ráðuneyti apríl-október 2008.
Stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2006-2008.

Viðkomandi nefndarsetur:
Í stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi (CDDH) 2002-2005.
Formaður sendinefndar Íslands í GRECO, ríkjahópi Evrópuráðsins gegn spillingu 2002-2009.
Í sendinefndum Íslands við fyrirtökur hjá eftirlitsnefndum Sameinuðu þjóðanna: mannréttindanefnd (CCPR) 2005,
nefnd um framkvæmd samnings um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) 2005
nefnd SÞ um réttindi barnsins 2003 og 2006.
Formaður ritstjórnar Lagasafns frá 2004.
Varaformaður kærunefndar jafnréttismála 2004-2008.
Formaður nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum 2008.
Formaður vinnuhóps til að semja Handbók um frágang og undirbúning lagafrumvarpa, útg. 2007. Formaður starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar 2004-2006.
Formaður nefndar til að endurskoða ákvæði laga um helgidagalöggjöf 2004.
Formaður vinnuhóps til að gera heildarendurskoðun á lögum og reglum um fullnustu refsidóma 2002-2003.
Í nefnd viðskiptaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti 2005-2007.
Í nefnd forsætisráðherra til að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum 2004-2006.

Þetta er langur listi þó einhverju sé sleppt en ferilskrá Rögnu á vef Alþingis má kynna sér nánar hér. Yfirlitið hér að ofan hlýtur þó að sýna fram á að Ragna hefði verið mjög líkleg til að hljóta yfirmannsstöðuna yfir ráðuneyti dómsmála jafnvel þótt skipunin hefði farið í gegnum ráðningarskrifstofu. Það er hins vegar spurning um kirkjumálin.

Gylfi Magnússon Gylfi er jafnaldri Rögnu og var skipaður í ráðherraembætti í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur á sama tíma og hún. Rétt eins og Ragna átti hann líka sæti í örðu ráðuneyti hennar sem tók til starfa 23. maí vorið 2009 en var vikið úr því embætti 2. september 2010.

Ragna og Gylfi eiga það svo loks sameiginlegt að ferilskrá þeirra er í ágætu samræmi við ráðherraembættin sem þau voru skipuð til. Það liggur þó væntanlega í augum uppi að ef embættin væru á almennum vinnumarkaði þá er líklegra að Ragna væri hæf til að starfa sem dómsmálaráðherra en Gylfi hefði væntanlega aðeins komið til greina ef engin frambærilegri hefði sótti um viðskiptaráðherrann.

Þegar kemur að ánægjumælingu Gallups á störfum ráðherra skilur enn frekar á milli utanþingsráðherrana tveggja þar sem ánægja þátttakenda með störf Gylfa voru heldur á undanhaldi samkvæmt könnuninni á meðan Ragna hafði unnið töluvert á. Í mars 2010 sögðust 65% vera ánægðir með störf Rögn á meðan 49% voru ánægðir með störf Gylfa. Ánægjan með störf Gylfa hafði lækkað um rúm 10 prósentustig frá fyrstu könnun en Ragna hafði bætt við sig rúmum 15 stigum.

Miðað við þessa könnun voru þau tvö, ráðherrarnir sem þátttakendurnir voru ánægðastir með á meðan formenn ríkisstjórnarflokkanna, sem tóku ákvörðunina um að víkja þeim úr embættunum, voru dottnir niður í fjórða og fimmta sæti. 41% þátttakenda sögðust vera ánægðir með störf Steingríms sem ráðherra á meðan þeir voru aðeins sem voru aðeins 27% sem voru ángæðir með störf Jóhönnu (sjá hér).

Ferilskrá Gylfa Magnússonar á alþingisvefnum má skoða alla hér. Þegar óviðkomandi atriði hafa verið tekin út lítur hún þannig út: 

Menntun:
Stúdentspróf MR 1986.
Cand. oecon.-próf HÍ 1990.
MA–próf í hagfræði frá Yale University, Bandaríkjunum, 1991,
M.Phil. 1994.
Doktorspróf í hagfræði frá sama skóla 1997.

Viðkomandi starfsreynsla:
Sérfræðingur á Hagfræðistofnun 1996-1998.
Stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 1996–1998, aðjúnkt 1997-1998. Dósent við viðskiptaskor Háskóla Íslands 1998 og við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2008.

Viðkomandi nefndar- og stjórnarsetur:
Forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands 2004-2007.
Formaður stjórnar sjóða á vegum Háskóla Íslands 2001–2009.
Varaformaður stjórnar Kaupáss hf. 2000-2003.
Í stjórn Samtaka fjárfesta 2001-2007.
Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings, Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands 2004-2006.
Formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins 2005-2009.
Í úthlutunarnefnd útflutningsverðlauna forseta Íslands 2005 og 2006. 
Varamaður í yfirfasteignamatsnefnd 2007-2009.

Það er rétt að halda því til haga að það voru formenn stjórnarflokkanna í minnihlutastjórninni sem tók við völdum 1. febrúar 2009 sem völdu og skipuðu utanþingráðherranna tvo. Þegar ferilskrár beggja eru skoðaðar nákvæmlega kemur í ljós að Ragna hafði verið mjög náin stjórnsýslunni í tæpan áratug, þar sem hún hafði gegnt stöðum í þremur ráðuneytum, áður en hún var skipuð. Ekki verður heldur betur séð en Gylfi hafi tekið þátt í því sem leiddi til þess samfélagshruns sem sér ekki fyrir endann á enn þá.

Það er reyndar hæpið að ef ráðningarskrifstofu/-um hefði verið falið að auglýsa þessi embætti á sínum tíma og fara yfir umsóknirnar, með það að markmiði að finna hæfustu einstaklingana til að taka þau að sér, að þar hefði það þótt mæla á móti Rögnu að hún hafði reynslu og þekkingu á störfum ráðuneyta; þar af sjö ára reynslu innan úr Dómsmálaráðuneytinu. Hins vegar er ég ekki viss um að það hefðu þótt meðmæli með Gylfa hvar hann átti sæti í nefndum og stjórnum síðustu árin fyrir hrun. 

Varðandi spurninguna um það hvers vegna vinsælustu ráðherrunum var vikið úr ríkisstjórninni haustið 2010 þá má vissulega leiða að því líkum að formennirnir, sem lögðu línurnar fyrir næstu skref stjórnarsamstarfs síðustu ríkisstjórnar, hafi viljað launa utanþingsráðherrunum vel unnin störf áður en vinsældir þeirra tækju að dvína og skaða þannig möguleika þeirra á frekari frama í öðrum verkefnum.

Skipan ráðuneyta undir lok síðasta kjörtímabils

31. desember 2011 var Jóni Bjarnasyni og Árna Páli Árnasyni refsað með brottvikningu úr ráðuneytum þeirra. Við niðurskurð haustsins 2010 þótti staða þess síðarnefnda langt frá því að vera trygg enda altalað þá að: „Innan Samfylkingarinnar [væri] mikil ólga í garð Árna Páls vegna mannaráðninga, bæði í embætti umboðsmanns skuldara og nú síðast í framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.“ (sjá hér) Þessar ástæður lágu þó í þagnargildi þeirrar opinberu umræðu sem fór af stað í aðdraganda annars niðurskurðartímabilsins sem síðasta ríkisstjórn greip til á ráðherrum sínum.

Í máli Jóns Bjarnasonar var hins vegar engin launung eins og blaðafyrirsagnir mánuði fyrir brottvikningu þessara tveggja báru með sér. Hjá DV var það: Jóhanna hjólar í Jón Bjarnason og visi.is: Veruleg óánægja með Jón Bjarnason í ríkisstjórninni. Undir síðari fyrirsögninni er m.a. þetta haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur um „refsivert athæfi“ Jóns Bjarnasonar:

„Þetta er eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar og það gengur ekki að sjávarútvegsráðherra haldi því bara fyrir sig. Hann hefur unnið þessa vinnu án aðkomu stjórnarliða og heldur skipað í kringum sig fólki, sem tilheyrir stjórnarandstöðunni. Það eru vinnubrögð sem ekki er hægt að líða,“ segir Jóhanna og bætir því við að ráðherra sem starfi í umboði þingflokka ríkisstjórnarflokkanna en vilji ekki starfa með sé illa stætt í ríkisstjórn.  (sjá hér)

Steingrímur J. Sigfússon tók við embættum bæði Árna Páls og Jóns Bjarnasonar en Oddný G. Harðardóttir var tekin inn í ríkisstjórnina og gegndi embætti fjármálaráðherra þar til Katrín Júlíusdóttir sneri úr barnseignarfríi haustið 2012. Síðasta þingvetur síðustu ríkisstjórnar var því ráðuneytisskipanin þessi:

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur frá 1. október 2012

Hér verða ferilskrár þeirra tveggja sem var vikið úr ríkisstjórninni í desemberlok árið 2011 og Oddnýjar G. Harðardóttur rýndar í sama tilgangi og þeirra sem hafa verið til skoðunar hér á undan.

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll er fæddur árið 1966. Þegar hann var 19 ára lauk hann stúdentsprófi frá MH. Hann lauk lögfræðipróf frá Háskóla Íslands sex árum síðar eða 1991. Í framhaldinu bætti hann við sig námi í Evrópurétti við Collège d’Europe í Brugge í Belgíu skólaárið 1991-1992 og sumarnámi í Evrópurétti við Harvard Law School / European University Institute í Flórens sumarið 1999. Árið 1997  varð hann sér svo út um réttindi sem hæstaréttarlögmaður.

Árni Páll vann um fjögurra ára skeið sem ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum eða á árunum 1992-1994. Frá árinu 1998 og þar til hann var kosinn inn á þing árið 2007 starfaði hann sem lögmaður með eigin rekstur og ráðgjafi.

Auk fyrrgreindra starfa var Árni Páll sendiráðsritari í fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Vestur-Evrópusambandinu í Brussel og fulltrúi Íslands í stjórnmálanefnd Atlantshafsbandalagsins á árunum 1995-1998. Starfsmaður ráðherraskipaðra nefnda, m.a. nefndar um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar 2004. Hann var stundakennari í Evrópurétti við Háskólann í Reykjavík 2004-2009 og sat í stjórn Evrópuréttarstofnunar skólans á sama tíma.

21s árs er Árni Páll kominn í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins þar sem hann sat í tvö ár. Næstu tvö ár var hann oddviti Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins 1989-1991. Fyrr á þessu ári var hann kjörinn formaður Samfylkingarinnar sem þýðir að hann yrði væntanlega forsætisráðherra ef Samfylkingin kemst í sömu aðstöðu og sköpuðust hér í upphafi ársins 2009. Miðað við þá hefð sem hefur fest í sessi hér á landi varðandi skipun ráðherra þá myndi það væntanlega ekki breyta neinu þó ánægja kjósenda með hans störf sem ráðherra hafi verið komin niður í 12% í aðdraganda þess að honum var sparkað út úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Árni Páll var 41s árs þegar hann var kosinn inn á þing. Hann átti sæti í nokkrum þingnefndum. Þar á meðal nefnd um heilbrigðismál og viðskiptanefnd þar sem hann sat þar til hann var skipaður Félags- og tryggingamálaráðherra 23. maí 2009. Þessu embætti gegndi hann til 2. september 2010 þegar Guðbjartur Hannesson tók við ráðuneyti hans en Árni Páll tók við efnahags- og viðskiptaráðuneytinu af Gylfa Magnússyni. (sjá nánar hér)

Fljótt á litið er ekki að sjá að Árni Páll hafi nokkuð það á ferilskránni sem getur hafa undirbúið hann undir þau krefjandi verkefni sem tilheyrðu ráðuneytunum sem honum voru falin. Það er þó sanngjarn að minna á að áður en hann var gerður að ráðherra þá hafði hann setið í þrjú ár í þingnefnum sem fjölluðu um sömu málefni og honum var ætlað að vera æðstráðandi yfir á síðasta kjörtímabili. 

Jón BjarnasonJón Bjarnason er fæddur 1943. 22ja ára lauk hann stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og tveimur árum síðar, eða árið 1967, búfræðiprófi frá Hvanneyri.  Árið 1970 útskrifaðist hann svo sem búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi, þá 27 ára.

Árið eftir að hann útskrifaðist sem stúdent starfaði hann sem kennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði og eftir útskriftina í Noregi var hann kennari við Bændaskólann á Hvanneyri fjögur ár.

Frá 28 ára aldri var hann bóndi í Bjarnarhöfn en sleit búskap ári eftir að  hann varð skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal 1981. Því embætti gegndi hann til ársins 1999 eða í 18 ár. Sama ár var hann kosinn inn á þing, þá 56 ára.

Frá því að hann tók sæti á þingi hefur hann meðal annar setið í landbúnaðarnefnd á árunum 2003-2007 og sjávarútvegsnefnd árin 2006-2007. Hann var skipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 10. maí 2009 en leystur frá því embætti 31. des. 2011. (sjá nánar hér)
     
Miðað við menntun og starfsreynslu hlýtur Jón Bjarnason að teljast hafa töluvert með sér til embættis landbúnaðarráðherra. Hins vegar má efast um fagþekkingu hans hvað varðar sjávarútveginn. Eins og áður var vikið að er ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir var langt frá því að vera ánægð með störf Jóns og ef mið er tekið af niðurstöðum ánægjumælinga Gallups frá því í mars 2010 var hann meðal þeirra ráðherra sem minnst ánægja ríkti með meðal kjósenda. Hins vegar var gerð ný könnun í nóvember sama ár sem sýndi aðrar og nokkuð breyttar niðurstöður.

Samkvæmt henni voru þátttakendur langóánægðastir með störf Árna Páls í ráðherraembætti. Einungis 12% sögðust ánægðir. 18% þátttakenda voru ánægðir með störf Jóns Bjarnasonar en það voru jafnmargir og sögðust ánægðir með störf Össurar Skarphéðinssonar. Öfugt við Össur hafði Jón bætt við sig um fjórum prósentustigum frá könnuninni á undan á meðan ánægjan með störf Össurar höfðu lækkað (sjá hér).

Oddný G. Harðardóttir

Oddný er fædd árið 1957. Samkvæmt ferilskrá hennar inni á vef Alþingis lauk hún stúdentspróf frá aðfaranámi Kennaraháskóla Íslands þegar hún var tvítug. Þremur árum síðar lauk hún svo B.Ed.-próf frá þeim sama skóla. Stærðfræðinám til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi stundaði hún við Háskóla Íslands árið 1991. Frá þeim sama skóla útskrifaðist hún síðan með MA-próf í uppeldis- og menntunarfræði þegar hún var 44 ára eða árið 2001.

Eftir B.Ed.-prófið starfaði hún sem grunnskólakennari í fimm ár en var síðan kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árunum 1985-1993 þar sem hún var var deildarstjóri stærðfræðideildar skólans í tvö ár og  síðan sviðsstjóri stærðfræði- og raungreinasviðs á árunum 1990-1993.

Eftir stærðfræðinámið til kennsluréttinda árið 1991 var hún kennari við Menntaskólann á Akureyri í eitt skólaár en hlaut þá stöðu aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem hún gegndi á árunum 1994-2003 en var síðar skólastjóri þess sama skóla í eitt ár. Þá var hún bæjarstjóri í Garði í níu ár eða á árunum 2006-2009. 

Oddný hefur unnið við skipulag og stjórnun vettvangsnáms á vegum Endurmenntunar HÍ fyrir starfandi stjórnendur í framhaldsskólum 2001-2002. Hún var verkefnisstjóri í Menntamálaráðuneytinu 2003-2004. Auk þess hefur hún setið í ýmsum nefndum um mennta- og fræðslumál. Þ.á.m. var hún í stjórn Sambands iðnmenntaskóla 1994-1999. Í stjórn samstarfsnefndar atvinnulífs og skóla 1995-1998. Í stuðningshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum 1997-1999. Formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum 2002-2003. Í stjórn Kennarasambands Íslands 2002-2003 og stjórn Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum frá 2006.

Í framhaldi af þriggja ára bæjarstjórnarferli lá leið Oddnýjar inn á þing, þá 52ja ára. Þar hefur hún verið formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá 2011 auk þess að sitja í nokkrum nefndum. M.a. fjárlaganefnd frá 2009-2011. Hún var formaður hennar frá 2010-2011. 

Oddný hafði setið á þingi í rúm tvö ár þegar hún var skipuð fjármálaráðherra 31. desember. 2011. Heiti ráðuneytisins sem hún stýrði var breytt 1. september 2012 í fjármála- og efnahagsráðuneyti en hún var leyst frá embætti 1. október 2012. Þá tók Katrín Júlíusdóttir við embættinu. Helming tímans sem Oddný var ráðherra fór hún með tvö ráðuneyti þar sem hún leysti Katrínu Júlíusdóttur af frá 24. febrúar til 6. júlí á árinu 2012 eða þar til Steingrímur bætti iðnaðarráðuneytinu við ráðuneytið sem Jón Bjarnason hafði stýrt áður auk viðskiptahlutans í þeim ráðuneytismálum sem Árni Páll hafði farið með. 

Þó ferilskrá Oddnýjar sé þéttsetin ýmsum afrekum á sviði menntamála og pólitíkur þá er skýrir það ekki þá ákvörðun að hún var gerð að fjármálaráðherra og síðar sett yfir iðnaðarráðuneytið í fæðingarorlofi Katrínar Júlíusdóttur. Það hefði hins vegar verið töluvert skiljanlegra miðað við feril hennar ef hún hefði verið fengin til að leysa Katrínu Jakobsdóttur af í Menntamálaráðuneytinu á meðan hún var í barnseignaleyfi á árinu 2011.      

Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar 

Hér verður ekki farið frekar yfir ferilskrár ráðherranna í fyrrverandi né núverandi ríkisstjórn. Það verður geymt þar til í næstu færslum. Það er þó við hæfi að slá botninn í þetta hér með því að rifja upp hvernig ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tóku til starfa 23. maí sl. líta út. Ráðherraskipanin er eftirfarandi:

Ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vorið 2013

Hér að neðan eru nokkrar þeirra heimilda sem stuðst var við þessa færslu og verður stuðst við í framhaldinu. Framhaldið verður samanburð á því hvernig menntun og starfsreynsla ráðherranna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hins vegar samræmis málefnum ráðuneytanna sem þessum hefur verið trúað fyrir. Þannig verður menntun og starfsreynsla núverandi forsætisráðherra borin saman við menntun þess fyrrverandi út frá því hversu vel hvoru tveggja stendur undir embættum þeirra og síðan fjármálaráðherranna og svo koll af kolli.

Þetta er vissulega seinlegt og tafsamt verkefni og eflaust engin skemmti- eða afþreyingarlestur heldur. Vonir mínar standa þó til þess að einhverjir sem eru tilbúnir til að hugsa það hvaða áhrif það hefur á rekstur samfélagsins að æðstu embættismenn þeirrar grunnþjónustu sem skatti okkar er ætlað að standa undir eru skipaðir með þeim hætti sem formenn stjórnmálaflokkanna hafa gert að hefð. Samkvæmt henni eru það formenn þeirra flokka sem koma sér saman um stjórnarsamstarf sem skipa sjálfa sig og þau flokkssystkina sinna sem náðu inn á þing til að ganga inn í hlutverk framkvæmdastjóra grunnstofnana samfélagsins.

Það er útlit fyrir að íslensk stjórnmálamenning hafi ekki hugmyndaflug til annars en viðhalda þessari hefð þrátt fyrir að síðasta efnahagshrun hefði átt að leiða það í ljós að í henni liggur stór hætta falinn. Með þeirri vinnu sem ég hef lagt í langar mig að gera tilraun til að vekja til umhugsunar um það hvort það er ekki kominn tími til að horfast í augu við það að núverandi fyrirkomulag er meðal annars sú meinsemd sem hefur skilað okkur til þess árangurs sem blasir við varðandi velflesta grunnþjónustu samfélagsins.

Áður en ég lýk þessum langa pistli langar mig til að taka það fram að tilgangur minn er alls ekki sá að gera viljandi lítið úr þeim einstaklingum sem gegndu embætti ráðherra á síðasta kjörtímabili eða þeim sem hafa nýtekið við slíkum á þessu. Ef einhver þeirra eða þeim nátengdur eiga eftir að sitja uppi með slíka tilfinningu þykir mér það virkilega leitt því ég veit að innst inni hljóta allir þeir sem taka á sig stóra ábyrgð að gera það því þá langar að gera vel.

Vonandi eru þó allir tilbúnir til að velta því fyrir sér hvort ekki megi gera betur með annarri aðferð. Ég er á því að það komi sér betur fyrir alla að þeir sem taka á sig stóra ábyrgð fyrir marga séu örugglega þeir sem eru hæfastir. Þar held ég að skipti meira máli góð undirstöðuþekking og víðtæk starfsreynsla á því sviði sem heyrir ábyrgðarhlutverkinu til heldur en pólitísk viðhorf eða flokkshollusta.

Heimildir:
Skipan ráðuneyta frá 1917-2013
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Þjóðarpúls Gallups frá mars 2010: Ánægja með störf ráðherra
Þjóðarpúls Gallups frá 4. júní 2010: Mikil meirihluti hlynntur fækkun ráðuneyta
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2010: Mat á störfum ráðherra
Frétt á Pressunni vegna ráðherrakapals haustsins 2010
Þjóðarpúls Gallups 2. febrúar 2012: Breytingar á ríkisstjórninni
Þjóðarpúls Gallups 23. mars 2012: Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu 
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn


Loforð og efndir

Það þarf ekki að minna á að nú í vor var mynduð ný ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þetta var í annað skipti frá hruni sem kjósendur fengu tækifæri til að hafa áhrif á það hvaða flokkar héldu um stjórnartaumana frá efnahagshruninu haustið 2008. Síðast veðjaði meiri hluti kjósenda á Samfylkinguna og Vinstri græna.

Í báðum tilvikum þykir mér líklegt að ástæðan hafi legið í sterkri von um að kosningaloforð og landsfundasamþykktir allra þessara flokka væru eitthvað meira en orðin tóm. Að gamli fjórflokkurinn hefði ekki aðeins lært af þeirri reynslu sem bankahrunið skilaði heldur myndu þeir nýta þekkingu sína og ítök til að treysta tilveru sína með samvinnu við það samfélag sem kosningaloforðin gáfu til kynna að stæði til að byggja upp.

Allir sem hafa orðið fyrir áföllum hvort sem þau eru persónuleg eða tengd árangri í starfi þekkja að það tekur tíma að takast á við aðstæður og temja sér nýungar í samskiptum eða vinnutengdri færni. Þegar áfallið tengist alvarlegri áminningu sem varðar atvinnuna eru ekki allir svo heppnir að fá annað tækifæri eins og kjósendur gáfu þingmönnunum sem sátu við stjórnvölinn þegar stóra viðvörunin um skaðsemi núverandi efnahagsstefnu reið yfir samfélagið haustið 2008. 

Thomas Hobbs

Á þeim fimm árum sem eru liðin síðan hefur einhver umræða farið fram um orsakir hrunsins og afleiðingar kreppunnar sem skall á í kjölfarið. Sú umræða hefur hins vegar hvorki  verið djúp né virkilega ígrunduð enda hefur hún litlu skilað. Því miður varð árangur þeirrar bjartsýnu viðspyrnu sem spratt upp í kjölfar hrunsins aðeins skammvinnur. Aðgengilegasta skýringin er sú að hún varð fórnarlamb  þeirra afla sem sáu tækifæri í upplausninni til að koma sjálfum sér og sínum til valda.

Með tilliti til mannkynssögunnar er það þekkt saga að slík verði örlög jafnvel stærstu byltinga. Almenningur setur traust sitt á þá sem hafa hæst og fylgir þeim í blindri trú um að markmið þeirra sé það sama og þeirra sem hafa upplifað misréttið og sjálfræðishallann á eigin skinni. Þegar upp er staðið er það almenningur sem hefur fórnað tíma sínum og jafnvel blóði til að koma þeim breytingunum á sem foringjarnir hönnuðu. Breytingum sem því miður hafa aldrei leiðrétt þann halla að það er almenningur sem heldur valdastéttinni uppi án þess að hafa neitt afgerandi yfir henni að segja.

Í kjölfar hrunsins varð vart við umræðu sem benti til að einhverjir efuðust um að núverandi stjórnkerfi þjónaði samfélagsheildinni til farsældar. Einhverjir gengu jafnvel svo langt að halda því fram að fjársterkir aðilar innan fjármálaheimsins kostuðu bæði flokka og stjórnmálamenn til hlýðni við hagmuni þeirra. Bent var á að þessi aðferðarfræði græfi svo alvarlega undan lýðræðinu að það væri jafnvel tómt mál að tala um slíkt lengur.

Thomas Jefferson

Það liggur væntanlega í augum uppi að lýðræðið hlýtur að standa afar völtum fótum ef hagsmunir þeirra sem geta borgað rata ávallt í forgang. Það hlýtur líka að liggja ljóst fyrir að þeir sem leyfa hlutunum að þróast í slíkan farveg eru tæplega réttu einstaklingarnir til að stýra málefnum samfélagsins sem byggir á einstaklingum með afar fjölbreytilegar þarfir svo ekki sé talað um mismunandi fjárráð.

Eitt af þeim grundvallaratriðum sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir varðandi hvers konar samfélög, er að þau byggja á einhverju sem er sameiginlegt. Hversu sundrað sem íslenskt samfélag kann að virðast í augum bæði þeirra sem tilheyra því og hinna sem horfa á það utan frá þá eru óvefengjanlega býsna margir þættir sem eru sameinandi.

Þeir verða ekki allir taldir upp hér en minnt á að samfélaginu er ætlað að standa undir ákveðinni grunnþjónustu. Einstaklingarnir sem byggja samfélagið hafa tekið það á sig að standa undir kosnaðarþáttum þessarar grunnþjónustu til að þeir og aðrir geti notið hennar þegar þeir þurfa á henni að halda. Til að annast umsýslu og rekstur þessarar þjónustu hefur íslenskt samfélag þann háttinn á að þeir sem hafa náð tilsettum kosningaaldri kjósa á milli stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti til að sjá um þessa þætti .

Che Guevara

Á síðustu árum hefur það sýnt sig að það er ekki trúnaðurinn við samfélagsheildina sem ræður því að einstaklingar leita frama innan stjórnmálaflokkanna til að komast til þeirra áhrifa að þeir eigi von um að stýra ráðuneytum þeirrar grunnþjónustu sem einstaklingarnir sem byggja samfélagið eiga tilkall til fyrir sitt framlag. Þegar menntun og starfsreynsla þeirra sem hafa setið á ráðherrastóli hingað til er skoðuð kemur jafnframt í ljós að það virðist heyra til undantekninga að þeir hafi nokkra fagþekkingu á því sviði sem ráðuneytið sem flokkarnir trúa þeim fyrir hefur yfir að segja. 

Á tímum sérhæfingar og aukinnar menntunarkrafna hlýtur það að koma spánskt fyrir sjónir að ekki séu gerðar neinar kröfur til þeirra sem taka afdrifaríkar ákvarðanir sem varða grundvallarmál samfélagsins aðrar en þær að þeir hafi komist áfram í sínum eigin stjórnmálaflokki. Það þarf sennilega ekki að minna á það að eftir að það hefur verið talið upp úr kjörkössunum í lok hverra alþingiskosninga þá er það alfarið í höndum formanna þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverjir setjast í ráðherrastólana.

Í langflestum tilvikum er það staða viðkomandi innan stjórnmálaflokksins og flokkshollusta sem ræður hver fær ráðherraembætti og hvaða embætti viðkomandi er settur í. Það má minna á það líka að þeir sem fá æðstu embættin eru gjarnan formenn viðkomandi flokka eða gegna einhverri annarri flokkstengdri ábyrgðarstöðu auk þess að vera þingmenn. Ég reikna með að flestir geri sér grein fyrir því að hvert þessara embætta fela í sér ríflega fullt starf. Líklegasta niðurstaðan er því sú að viðkomandi sinni engu af þessum verkefnum af árvekni heldur reiði sig á aðra launaða en flokksholla embættismenn sem kjósendur hafa ekkert um að segja hverjir eru.

John F. Kennedy

Á næstu vikum er ætlunin að birta samanburð á menntun og starfsreynslu ráherranna í núverandi ríkisstjórn og þeirrar síðustu. Tilgangurinn er sá að fylgja því sem hér hefur verið sett fram eftir en líka sú bjartsýnislega von að samanburðurinn veki einhverja til umhugsunar um það hvort núverandi kerfi við skipun ráðherra sé heillavænleg leið til reksturs samfélags sem er ætlað að þjóna öllum einstaklingunum sem það byggja.

Mig grunar að þeir sem hafa komið nálægt mannaráðningum hafi það sem meginreglu að þeir sem þeir ráða til sérhæfðra starfa hafi annaðhvort haldgóða menntun eða viðamikla starfsreynslu á sama sviði. Það hlýtur því að koma fleirum en mér spánskt fyrir sjónir hvaða háttur er hafður á við skipun ráherra. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika það einu sinni enn að ráðherrarnir eru æðstu embættismenn ráðuneyta sinna. Þegar það er haft í huga hlýtur það að vera lágmarkskrafa að þeir búi yfir fagþekkingu varðandi þá málefnaflokka sem þeim er trúað fyrir.

Í þessu sambandi má e.t.v. velta því fyrir sér hvort það er ekki kominn tími til að samfélagið komi sér saman um nýja aðferðafræði en þá sem flokkarnir hafa hannað utan um skipun ráðherra. Miðað við það hvernig íslenskt samfélag og margir einstaklinganna sem það byggja hafa liðið fyrir það hvernig fyrrverandi, og væntanlega núverandi ráðherrar líka, hafa farið með umboð sitt hlýtur það að teljast næsta brýnt verkefni!

*******************
Es: Ég biðst afsökunar á augljósum kynjahalla hvað varðar val á tilvitnunum með þessari færslu en ég ákvað að láta innihald þeirra ráða frekar valinu en hverjum þær eru eignaðar.


Tregðuafleiðingar

Í kvöld rakst ég á tvær stöðuuppfærslur á Fésbókinni sem sögðu frá birtingarmyndum fátæktarinnar annars vegar í Ungverjalandi og hins vegar á Íslandi. Önnur sagan sagði frá fólki sem var að borða upp úr ruslatunnum í sorpgeymslu fjölbýlishúss í Ungverjalandi. Hin sagði frá hungruðum manni sem var að betla fyrir utan Nóatún.

Sögurnar eru einn af mörgum vitnisburðum um það að mannkynið er enn einu sinni komið á þann stað þar sem valda- og eignastéttin hefur misst sig svo í græðgi sinni að afleiðingarnar geta ekki farið fram hjá neinum. Í báðum tilvikum reyndu þeir sem áttu leið hjá að leiða þessar óþægilegu staðreyndir neyðarinnar hjá sér. Þeir sem sögðu sögurnar sveið undan og segja sögurnar í þeirri viðleitni að ná til samkenndar fólks og vekja það upp til viðbragða. 

Borðað úr ruslatunnunniBetlað fyrir mat

Mannkynssagan geymir fjölda slíkra sagna. Menningarsagan varðveitir myndbrotin einkum í sögnum og myndlist en eitthvað kemur í veg fyrir það að þessar heimildir verði lífinu að því gagni að sagan endurtaki sig ekki. 

Það hafa nefnilega alltaf verið til einstaklingar sem finna til yfir áþekkum birtingarmyndum neyðarinnar og þeim sem er vísað til hér á undan. Sumum hefur meira að segja sviðið misréttið svo að þeir hafa gripið til aðgerða. Hingað til hefur valda- og eignastéttinni alltaf tekist að spila þannig á einstaklingseðlið og sérhyggjuna að samstaðan hefur aldrei skilað neinu nema endurtekningu á því sama.

Stríðsfórnir

Það hafa farið fram byltingar eins og rússneska byltingin, franska byltingin, menningarbyltingin í Kína og miklu fleiri. Niðurstaða þeirra varð kannski nýir herrar, nýtt kerfi, önnur valdastétt en frummyndin af samfélagsgerðinni sem eftirgerðin var byggð á í öllum þessum tilvikum braust fljótlega fram og í ljós kom að hún fól í sér sömu skekkju og sú úrsérgengna samfélagsgerð sem hrinti þessum byltingum af stað.

Í öllum tilvikum var það almenningur sem fórnaði blóði sínu til að koma nýju samfélagsmyndinni á. Í lok þessara byltinga kom það hins vegar í ljós að samfélagsmyndin sem það barðist fyrir að koma á, í stað þeirrar sem var fyrir, gerði líka ráð fyrir að vinna þess sama almennings héldi valdastéttinni uppi...

Örlæti hinna fátæku

Það er vissulega spurning hvenær við sem manneskjur náum þeim þroska að læra af reynslu kynslóðanna sem fóru á undan okkur og bregðumst öðru vísi við því úrlausnarefni sem við eigum sameiginleg með þeim. Rétt eins og gengnar kynslóðir stöndum við nefnilega frammi fyrir þeirri sameiginlegu þraut sem einstaklingar að við búum í samfélagi við alla hina einstaklinganna sem eru samferða okkur í tíma og rúmi og þurfum að deila gæðunum með þeim.

Ég held að við séum öll sammála um það að einstaklingurinn þrífst ekki nema í samfélagi við aðra fyrir það að hann þarf alltaf einhvern tímann á öðrum að halda. Ég held að það geti heldur ekki verið óeining um það að til að komast af þurfa allir mat og drykk auk þess sem allir þurfa þak yfir höfuðið. En er það sanngjarnt að valda- og eignastéttin beinlínis þrífist á þessum nauðsynjum og/eða grundvallarskilyrðum til þess að halda lífinu við?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband