Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Amma þín, frænka þín, vinkona þín, þú.

 Myndin hér að neðan er tekin í Aþenu eftir síðustu áramót. Grísk grasrótarsamtök hafa dreift henni víðsvegar á Netinu með þessum texta: „Η γιαγιά σου; Η θεία σου; Η φίλη σου; Εσύ;“ sem útleggst þannig: Amma þín, frænka þín, vinkona þín, þú.

Hún var kannski perla...

Myndin kallar óneitanlega fram djúpa samúð með grískum almenningi sem er kominn af mörgum helstu stórmennum vestrænnar sögu auk þess sem menning Vesturlandanna byggir að mjög miklu leyti á þeim hugmyndaheimi sem á rætur sínar í grískum hetju- og goðsögnum.

Ef svona er komið fyrir Grikkjum hversu langt eiga þá menningarsamfélögin eftir sem grundvalla tilveru sína á því sem þeir þáðu af því sem grískt er? Hversu langt verður þangað til að tilefnin til að yrkja eins og raunsæisskáldið Gestur Pálsson orti undir lok 19. aldar blasa við á hverju götuhorni?

Betlikerlingin
Hún hokin sat á tröppu en hörkufrost var á
og hnipraði sig saman uns í kufung hún lá
og kræklóttar hendurnar titra til og frá,
um tötrana fálma, sér velgju til að ná.

Og augað var sljótt sem þess slokknað hefði ljós
í stormbylnum tryllta um lífsins voða-ós
það hvarflaði glápandi, stefnulaust og stirt
og staðnæmdist við ekkert - svo örvæntingarmyrkt.

Á enni sátu rákir og hrukka' er hrukku sleit,
þær heljarrúnir sorgar er engin þýða veit.
Hver skýra kann frá prísund og plágum öllum þeim
sem píslarvottar gæfunnar líða hér í heim?

Hún var kannski perla sem týnd í tímans haf
var töpuð og glötuð svo enginn vissi af,
eða gimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug,
- en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.

„Hún var kannski perla [...] en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug“


Sýnum samkennd í verki

Enn og aftur fá ráðamenn bréf frá almenningi þar sem er höfðað til vitsmuna þeirra og samkenndar. Að þessu sinni eru það íslenskir þingmenn sem eru hvattir til að bregðast við neyðarkalli Grikkja sem líða fyrir það miskunnarleysi sem þeir sæta af hendi fjármálaaflanna. Þ.á m. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópska seðlabankans.

Þeir sem skrifa undir bréfið eiga fátt annað sameiginlegt en samlíðunina með síversnandi kjörum Grikkja og það að sitja ekki aðgerðarlausir hjá þegar fjármálarisarnir sauma að kjörum bræðra þeirra og systra á þann hátt sem raun ber vitni. Í áskoruninni er vísað til tveggja heimilda sem draga fram það sem virðist hafa farið fram hjá alltof mörgum varðandi það sem er að eiga sér stað í Grikklandi um þessar mundir.

Bréfið sem var sent á alla þingmenn og helstu fjölmiðla nú í morgun er svohljóðandi:

Reykjavík 25. apríl 2012

Til þingmanna

Við undirrituð skorum á ykkur að sýna Grikkjum samkennd og setja saman þingsályktunartillögu um að Alþingi Íslendinga lýsi yfir stuðningi við grísku þjóðina sem líður fyrir aðför fjármálaaflanna.

Það er löngu orðið tímabært að þjóðþingin í Evrópu bregðist við neyðarhrópum grísks almennings; neyð þjóðar sem stafar af aðgerðum fjármálakerfisins. Ykkur til upplýsingar viljum við vísa í tvær góðar heimildir um aðdragandann og ástandið í Grikklandi:

1) Grein tónskáldsins Mikis Theodorakis The Truth about Greece þar sem hann rekur það sem máli skiptir til að skilja stöðu Grikkja í dag.

2) Heimildamynd blaðakonunnar Alexandra Pascalidou, Vad är det för fel på grekerna? (Hvaða vandamál hrjáir Grikki?) um síversnandi aðstæður almennings sem eru tilkomnar fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af grískum stjórnvöldum að kröfu fjármálaaflanna.

Þögn þjóðþinga Evrópu sem hafa daufheyrst við neyðarhrópum grísks almennings er skammarleg. Þess vegna viljum við höfða til samkenndar ykkar þingmanna um að bregðast við kalli hans og leggja fram og samþykkja þingsályktunartillögu þar sem Alþingi Íslendinga fordæmir aðgerðir fjármálaaflanna gegn Grikkjum.

Undirskriftir:

Anna Ólafsdóttir Björnsson, tölvunarfræðingur

Árni Þór Þorgeirsson

Ásthildur Sveinsdóttir, þýðandi
Ásta Hafberg, viðskiptafræðingur

Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi

Elín Oddgeirsdóttir

Elínborg Kristín Kristjánsdóttir, háskólanemi

Fanney Kristbjarnardóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur
Guðrún Indriðadóttir, leikskólakennari

Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur

Helga Þórðardóttir, kennari

Héðinn Björnsson, jarðeðlisfræðingur

Hjalti Hrafn Hafþórsson

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Jón Jósef Bjarnason, ráðgjafi

Jón Þórisson

Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari

Valdís Steinarsdóttir, skyndihjálparleiðbeinandi


Epli og appelsínur

appelsínur í stað eplaLesendur þessa bloggs hafa væntanlega tekið eftir þeim breytingum sem ég gerði á útliti þess fyrir rúmum mánuði síðan. Í stað epla er kominn litur appelsínanna í merki SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Einhverjir eru ábyggilega það vel upplýstir að þeir vita ástæðuna. Þ.e. að ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU um miðjan febrúar sl. og bauð mig fram til formanns í fyrsta aðildarfélagi framboðsins sem var stofnað hér í Reykjavík. Nú er búið að stofna annað í Kraganum en formaður þess er ungur og efnilegur maður búsettur í Hafnarfirði. Sá heitir Birgir Örn Guðjónsson og er ekki hægt að segja annað en hann hafi markað sér stað með eftirtektarverðum hætti í þeirri samfélagsumræðu sem mestu máli skiptir með greininni: „Ofþolinmæði skuldara“. Greinin birtist á visir.is núna á sumardaginn fyrsta.

Kynning á formanni SAMSTÖÐU-Reykjavík

Sjálf hef ég tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni frá haustinu 2008 á þessu bloggi. Frá því sama hausti hef ég líka lagt ýmislegt af mörkum í þeirri viðspyrnu sem hefur verið í gangi frá því þá. Fyrst með þátttöku í reglulegum mótmælagöngum sem fóru fram á Akureyri frá því í október 2008 fram til febrúar 2009. Í upphafi ársins 2009 gekk ég svo til liðs við hóp fjögurra kvenna sem héldu utan um reglulega borgarafundi þar fram til vorsins 2010.

Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hef ég tekið þátt í enn fljölbreyttari viðspyrnuverkefnum. Þau sem ég tel upp hér eru þau sem ég hef lagt mestu kraftana í annaðhvort í skipulagningu og/eða þátttöku. Fyrst voru það tunnumótmælin sem hófust þann 4. október 2010 og má heita að lifi áfram í nýstofnuðu bloggi sem nefnist Tunnutal

Þá var það Samstaða þjóðar gegn Icesave vorið 2011 en stærsta framlag mitt til hennar var myndbandasyrpan: „Af hverju NEI við Iceave“. Haustið 2011 lagði ég uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar lið og hélt undan um reglulega laugardagsfundi þar frá desember og fram í byrjun mars á þessu ári. Þessir fundir voru teknir upp og eru fyrirlestrarnir allir aðgengilegir inni á You Tube.

Ég tók líka þátt í undirbúningi tveggja borgarafunda sem haldnir voru í Háskólabíói á þessum vetri sem er að líða. Þeir fjölluðu báðir um málefni lántakenda. Báðir voru teknir upp. Upptökuna af þeim fyrri má nálgast hér en af þeim seinni hér.
appelsínur
Eftir seinni borgarafundinn, sem var haldinn þann 23. janúar, hittumst við Lilja Mósesdóttir, nú formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, á nokkrum óformlegum fundum. Að kvöldi 12. febrúar tók ég svo ákvörðun um að ganga til liðs við framboðið og leggja því krafta mína. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun og finnst hún reyndar vera í mjög rökréttu samhengi við það sem ég hef helgað meginþorra frítíma míns frá haustinu 2008.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég hef komið nálægt pólitík. Vorið 2009 var ég í fimmta sæti á framboðslista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi. Ég fylgdi þremenningunum sem voru kjörnir inn á þing undir merkjum Borgarahreyfingarinnar þegar þeir klufu sig frá henni og stofnuðu Hreyfinguna haustið 2009 og var varamaður í stjórn hennar fram til vors 2011. Í júní 2011 var ég kjörinn aðalmaður í stjórn Hreyfingarinnar en sagði mig frá því trúnaðarstarfi í byrjun október í fyrra. Leiðir skildu þó ekki fyrr en ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU. 

Fram að næstu kosningum

Í mínum augum hefur það verið ljóst frá hruni að þeir þingflokkar sem voru inni á þingi þá brugðust kjósendum sínum. Á þeim tíma hefði ég viljað sjá annaðhvort þjóðstjórn eða einhvers konar neyðarstjórn skipaða sérfræðingum í efnahagsáföllum og afleiðingum þeirra. Niðurstaðan urðu kosningar þar sem eitt nýtt framboð, sprottið úr mótmælendajarðvegi Austurvallar, bauð fram ásamt þeim flokkum sem fyrir voru inni á þingi. Útkoman varð sú að þetta nýja framboð fékk aðeins fjóra menn kjörna inn á þing  en Samfylkingin fékk leiðandi hlutverk í ríkisstjórnarmynduninni. Það hefur reyndar komið æ betur í ljós síðan að kosningabaráttan vorið 2009 var að langmestu leyti grundvölluð á óheiðarleika.

Þau mál sem hefðu átt að vera í forgrunni voru sett undir hugtök eins og „skjaldborg heimilanna“ og „norræn velferðarstjórn“ en hafa að langmestu leyti snúist um afstöðuna til inngöngu í Evrópusambandið. Kjósendur þekkja allir þessa sögu. Nýjir þingmenn, sem lofuðu margir góðu í upphafi, hafa tapað flugi og eru langflestir eins og horfnir inn í seigfljótandi vinnubrögð þingsins sem einkennast af flestu öðru en því gagnsæi sem kjósendum var lofað. Sú fagmennska sem kjósendur ættu að geta ætlast til af einstaklingum sem fara með þjóðarhagsmuni er vandfundinn.

VonarliljurÞó er einn og einn sem fara með umboð sitt af alúð og árvekni. Að mínum dómi er Lilja Mósesdóttir þó sú sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra þingmenn hvað þetta varðar. Alveg frá upphafi hefur hún sett þann alvarlega forsendubrest sem snertir hvert einasta heimili í landinu á oddinn. Það er ekki síst þess vegna sem ég ákvað að leggja SAMSTÖÐU lið í því að byggja upp raunverulegan valkost við fjórflokkinn fyrir næstu alþingiskosningar.

Að mínu viti þurfa allir kjósendur að gera það upp við sig hvort þeir vilja óbreytt ástand eða breytingar. Þeir sem vilja breytingar hvet ég til að kynna sér ný framboð, sérstaklega Dögun og SAMSTÖÐU, og gera upp hug sinn hvort og hvernig þeir ætla að vinna að því að leggja því lið að kynna þessa valkosti fyrir öðrum kjósendum fyrir næstu kosningar. Það þurfa nefnilega allir sem vilja breytingar að vinna saman að styrkingu og framgöngu þeirra framboða sem hafa þá innanborðs sem hafa sýnt sig í að vinna að sameiginlegum hagsmunum heildarinnar en ekki sérhagsmunum fárra útvaldra.

Grundvallarspurningin er: Hvort viltu skemmt epli eða ferskar appelsínur? 

Skemmt epli
ferskar appelsínur

Rúmlega þriggja mánaða frestur

Meirihluti stjórnar aðildarfélags SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar í Reykjavík samþykkti eftirfarandi ályktun varðandi aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið sl. mánudagskvöld. Ályktunin hefur verið send á forsætisráðherra og alla helstu fjölmiðla. Ályktun stjórnar SAMSTÖÐU-Reykjavík er svohljóðandi:

Stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík fer fram á að ríkisstjórnin ljúki viðræðum um aðild Íslands að Evrópusamabandinu fyrir 1. ágúst 2012. Verði samningaferlinu ekki lokið fyrir þann tíma krefst stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík að þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda eigi samningaferlinu áfram fari fram eigi síðar en í nóvember 2012. Afar brýnt er að viðræðunum verði lokið á þessu ári til að þær skyggi ekki á brýn kosningamál í næstu alþingiskosningum. Þessi kosningamál eru, að mati stjórnar SAMSTÖÐU-Reykjavík: lausn á óásættanlegri skuldastöðu heimila og smáfyrirtækja og leið til að afnema gjaldeyrishöftin sem tryggir almenna velferð og sjálfbærni efnahagslífsins.

Greinargerð:

Stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík er þeirrar skoðunar „að við núverandi aðstæður sé hagsmunum Íslands best borgið utan ESB“ og telur ennfremur að ríkisstjórninni beri skylda til að efna loforð sín um að samningaviðræðurnar myndu ekki taka lengri tíma en eitt og hálft ár.

Eftirfarandi atburðir hafa grafið undan upphaflegum forsendum aðildarviðræðnanna:
  • Evrópusambandið hefur nú í hótunum um að beita Ísland viðskiptaþvingunum til að stöðva lögmætar og ábyrgar makrílveiðar Íslands innan eigin efnahagslögsögu.
  • Evrópusambandið hefur einnig tekið formlega stöðu gegn sjónarmiðum og hagsmunum Íslands í Icesave deilunni.
  • Aðildarferlið átti að taka eitt og hálft ár en hefur nú dregist í tvöfalt lengri tíma og endirinn ekki í sjónmáli.
  • Aðildarumsóknin hefur verið umdeild frá upphafi. Viðhorfskannanir sýna mikla og vaxandi andstöðu við aðild.
  • Aðlögunarferlið dregur dýrmætan tíma, fjármuni og orku stjórnvalda frá brýnni verkefnum.
  • Evrópusambandið glímir sjálft við gjaldmiðils- og skuldakreppu sem ekki er séð fyrir endann á.
  • Aðgerðir og viðbrögð Evrópusambandsins við eigin vandamálum boða ekki gott að mati Samstöðu-Reykjavík þar sem almenningur hefur verið látinn axla tap illa rekinna fjármálafyrirtækja.

Siðmenntun fylgir sú ábyrgð að taka afstöðu

Skynsemin leiðir til skipulagsVið erum stillt og siðmenntuð og það er sú mynd sem við viljum viðhalda af sjálfum okkur. Siðmenntun felur það meðal annars í sér að taka ábyrgð. Fylgifiskar ábyrgðarinnar eru þeir að mynda sér skoðun um mikilvæg mál.

Myndin um siðprýði þarf því að taka mið af aðstæðum. Sá sem vill telja sig til siðmenntaðra einstaklinga þarf með öðrum orðum að bregðast við því sem er að eiga sér stað í kringum hann.

Við lifum á furðulegum tímum þar sem samfélagið, sem meiri hluti okkar hélt að væri heilt, hefur verið rjúkandi rústir í a.m.k. þrjú undanfarin ár. Ég veit að marga langar til að taka til hendinni við að byggja upp nýtt af því það vita það allir að við þurfum á slíku að halda.

Fámenn þjóð sem býr saman á stórri eyju þarf ekki síst að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir öllum. Fámennið og vegalengdirnar gera það að verkum að við ráðum ekki við það að hér búi tvær þjóðir; 3.000 á móti 270.000 eða fámenn valda- og eignaelíta á móti þjónum hennar. Við þessi 270.000 verðum þess vegna að bregðast við því hvað hin 3.000 hafa í hyggju varðandi lífskjör okkar.

Við þurfum að vinna saman og breyta samfélaginu þannig að framtíð okkar verði önnur en þrældómur við að halda uppi innlendri og alþjóðlegri eigna- og valdastétt . Við þurfum að horfast í augu við það að þessi virða líf okkar og framtíð aðeins út frá því hve mikið við getum lagt að mörkum til viðhalds lífsstíls þeirra.

Við sem höfum ekkert að verja nema lífið þurfum að bregðast við því hvernig fyrir okkur er komið vegna fámenns eigna- og valdahóps sem á lífsvenjur sínar undir því að við tökum kerfinu, sem það hefur byggt upp þeim til varnar, með stillingu og afskiptaleysi.

Við eigum val um það hvort við viljum lifa öðrum eða okkur sjálfum. Við eigum val um það hvort við viljum gefa vinnuframlag okkar til viðhalds því kerfi sem þessi hópur hefur byggt upp til að þjóna votum draumum sínum um óhóf eigna og valda.

Merki SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðarÞeim sem eiga sér annan draum skal bent á að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar er prýðilegur vettvangur fyrir alla sem eru tilbúnir til að leggja sitt að mörkum við uppbyggingu lífvænlegrar framtíðar fyrir þann meiri hluta þjóðarinnar sem stendur frammi fyrir því að vera aðeins skiptimynt í firrtum heimi óforbetranlegrar eigna- og valdastéttar.

Um baráttu góðs og ills á páskum

Fyrir margt löngu skrifaði ég bloggfærslu sem ég nefndi: „Baráttu góðs og ills“. Þetta var undir lok ársins 2008. Nú rúmum þremur árum síðar finnst mér ástæða til að endurskrifa hana inn í núverandi aðstæður. Þegar upp er staðið er það þó einkum endirinn sem er annar.

Svínsleg vanhæfniÞað hafa margar sögur um alls kyns spill- ingu gengið um í samfélaginu á undan- förnum árum. Ýmsir auðmenn og reyndar stjórnmálamenn líka hafa verið þar í aðalhlutverki. Eftir bankahrunið óx þessum sögnum svo sannarlega fiskur um hrygg og sífellt fleiri koma við þessar ljótu spillingarsögur.

Fyrst eftir hrun voru fáir í þeirri aðstöðu að meta sannleiksgildi þessara sagna. Allmargir voru sér þó meðvitaðir um það að dýpt kreppunnar hér á landi og þögn yfirvalda þar um væri ekki einleikin. Eitthvað hlyti að liggja að baki. Eitthvað sem væri svo stórt og ljótt að það þyldi ekki að vera dregið fram í dagsljósið. Margir gerðu sér líka grein fyrir því að það þurfti virka og sterka þöggunar- og felublokk til að hylma yfir ástæður og gerendur svo stórvægilegra athafna að þær leiddu til hruns heils samfélags.

Smátt og smátt hafa fleiri og fleiri atvik heildarmyndarinnar verið dregin fram. Stærsti Gandálfur horfir langeygur eftir réttlætinuþátturinn þar er Rannsóknarskýrslan sem þjóðinni var lofað að myndi leiða til uppgjörs. Uppgjörs sem myndi grundvalla nýtt upphaf. Það eru væntanlega fleiri en sú sem þetta ritar sem eru orðnir langeygðir eftir efndunum. Flestir eru sennilega líka orðnir útkeyrðir af því að brjótast áfram í villunum sem hefur verið dælt yfir þjóðina í kjölfarið í gegnum ýmis konar miðla.

Sumir sem reyndust traustir áttavitar fyrst eftir hrun hafa umskipst í blindsker. Margir þessara töluðu skynsamlega um byltingarkenndar breytingar fram til vors 2009 en í kjölfar kosninganna, sem var uppskera Búsáhaldabyltingarinnar, hafa þeir orðið að helstu málpípum nýrrar áhafnar á sama dalli og þeir kepptust við að rífa niður áður. Það hefur vissulega verið dapurlegt að horfa upp á það að þessir skuli styðja helstefnu laskaðrar þjóðarskútu fyrir það eitt að þeirra lið yfirtók stýrishús hennar.

Það sem hefur verið hvað athyglisverðast er að allan þennan tíma hefur enginn þeirra sem ber raunverulega ábyrgð á hruninu stigið fram og viðurkennt hana. Það sem hefur þó vakið mesta furðu í þessu sambandi er það hvernig þeir sem hafa verið kallaðir til hennar hafa langflestir komist upp með það að sverja sig frá allri slíkri ábyrgð. Oft á svo ósvífinn hátt að alla setur dumbrauða undir og margir kreppa hnefa um skriffæri eða hamra á lyklaborð í djöfulmóð. En orð mega sín lítils gegn siðleysinu. Espa það aðeins upp ef eitthvað er.
Altari illskunnar
Þrátt fyrir að það liggi í augum uppi að fjárglæfrastarfsemi nýfrjálshyggju- gosanna hafi steypt krónunni til helvítis þá á enginn að sæta neinni alvöru ábyrgð fyrir það. Fyrst eftir hrun voru skilaboðin til þjóðarinnar þau að það væri ekki rétti tíminn til að finna sökudólga! Enn spyrja margir: „Hvenær? ef ekki þá?“ ... svo fyrnast sakir. Grafast í ari tímans og gleymast undir ryklagi alls moldviðrisins sem þyrlað hefur verið upp á undan- förnum þremur árum til að flýta fyrir sigurverki tímans.

Það sem mér og sennilega mörgum fleirum hefur þótt furðulegast í öllum þessum hildarleik er það hvað þessu liði gengur til? Hvers vegna axlar enginn ábyrgð á því sem átti sér stað innan  fjármálastofnananna í landinu? Hvers vegna virka fjölmiðlanir ekki betur? Hvers vegna þegir dómsvaldið og framkvæmdavaldið? Hvers vegna varð uppgjörið við hrunið ekki forgangsmál þingheims sumarið 2009? Af hverju neitaði ríkisstjórnin að víkja þegar hún reyndist ófær um að takast á við það loksins þegar uppgjörið komst á dagskrá haustið 2010?

Hvað eru þessir aðilar að verja? Sekt? Samsæri? Meðvirkni? Heimsku? Getuleysi? Dómgreindarskort? Siðspillingu? Sjö syndir, og sennilega enn fleiri sem mig skortir hugmyndaflug til að draga fram, binda þöggunar- og felublokkina saman, og gegn hverjum? Almenningi, sem er svo sleginn að andlegu ástandi hans má líkja við afleiðingar alvarlegs áfalls sem kemur fram m.a. í kjölfar loftárása og annarra stríðsógna. Og erum við ekki í stríði?

Fyrir hrun héldu ábyggilega allflestir að ríkisstjórnin væri í vinaliðinu með almenningi og stæði vörð um hagsmuni hans. En annað kom á daginn. Ríkisstjórninn reyndist óvinur almennings í landinu. Sú sem tók við hefur sýnt sig í að vera í því liðinu líka. Hún starfar alls ekki í þágu almennings og ber ekki hagsmuni hans fyrst og síðast fyrir brjósti. Þvert á móti ver hún þá sem brutu gegn þjóðarhagsmunum. Það lítur líka út fyrir að stærstur hluti stjórnmálastéttarinnar sé ekki bara sekur um yfirhylmingu og samsekur glæpamönnunum þess vegna. Heldur eru þeir sennilega líka sekir um sams konar glæpi og útrásarklíkan. Enda tilheyra þeir henni og starfa leynt og ljóst í hennar þágu og hennar hagsmuna. Það er líka hún sem tryggir þeim völdin.

Þjóðin á því ekki bara í baráttu við þá sem spilltu fortíðinni, rústuðu nútíðinni og standa í vegi fyrir framtíðinni heldur berst hún við ill eyðingaröfl. Meinsemdin sem hefur sest að í hugum þeirra, sem verja völd sín og vinaklíkurnar sínar með þessum hætti, er græðgin. GræðginSjúklingarnir sem við sitjum uppi með eru svo gersamlega á hennar valdi að þeir eru orðnir þrælar hennar. Fíknin í auð og meiri auð og spennuna sem hann skapar hefur firrt þessa einstaklinga dómgreindinni. Ef þessi sjúklingahópur tapar er fjörið búið og það má ekki verða. Það er engin framtíðarhugsjón sem stýrir gjörðum þeirra heldur skammtímasjónarmið helguð af peninga- og valdagræðgi.

Hvar er almenningur í þessari mynd? Hann borgar upp áhættufjármagnið sem tapaðist sama hvað það kostar. Almannaheill er fórnað á altari græðginnar. Það verður að fórna öllu og öllum til að bjarga eigin skinni og halda uppi samsærinu. Hugsun græðgisfíklanna innan ríkisstjórnarinnar er mjög líklega þessi: „Ef vinur minn tapar forréttindastöðu sinni kjaftar hann frá mér og það ríður mér að fullu!“ Það er þess vegna engin spurning hverjum verður fórnað, fyrir hvern og hvers vegna!

Almenningur er fórnarlambið. Við höfum færst aftur á tíma lénsveldisins og fáum alltaf frekari staðfestingar á því. Tekjur okkar og eignir voru settar að veði fyrir sýndarverðmæti fjármálastofnana og samsteypufyrirtækja. Við vorum og erum enn knúin áfram með auglýsingum og gylliboðum til að grundvalla þennan sýndarveruleika enn frekar og sumir bitu og bíta enn á agnið. Eru þeir sakamenn eða fórnarlömb? Ég held að þeir séu flestir fórnarlömb því ég reikna ekki með að þeir fái skuldirnar sínar afskrifaðar eða réttara sagt reiknaðar inn í vextina og verðtryggingarnar sem leggjast ofan á lán Jóns og Jónu eins og reyndin hefur verið varðandi afskriftir svokallaðra auðmanna.

Og þá er komið að stærstu spurningunum: Hvers vegna hefur almenningur ekki brugðist við með afgerandi hætti? Hvers vegna hefur hann ekki flykkt sér betur á bak við þá fáu sem hafa barist fyrir hann á undanförnum árum? Hvers vegna brýtur hann sig niður í fylkingar gegn hagsmunum sjálfs sín? Hvers vegna treystir hann enn þá á sundurlyndisraddir, falsspámenn og málsvara hvers kyns forréttindahópa?

Útvörður hins góðaHér má auðvitað spyrja sig hverjir hafa staðið með almenningi? Áður en ég tel nokkra þeirra upp, sem hafa staðið með hagsmunum almennings með hvað skýrustum hætti undanfarin misseri, er rétt að ég taki það fram að það er mjög líklegt að ég gleymi einhverjum verðugum. Þeir sem ég man eftir í augnablikinu eru eftirtaldir: Andrea J. Ólafsdóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Gunnar Tómasson, Lilja Mósesdóttir, Marinó G. Njálsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Ómar Geirsson, Ragnar Þór Ingólfsson, Sturla Jónsson og Vilhjálmur Birgisson.

Ég bið ykkur sem lesið þetta að taka sérstaklega eftir því hvernig fjölmiðlar, alltof margir fésarar og sumar af öflugustu byltingarröddum Búsáhaldabyltingarinnar eru einmitt iðnin við að grafa undan akkúrat þeim sem hér eru taldir. Það er bæði himinhrópandi og sorgleg staðreynd að einmitt um þessar mundir hafa margar þessar raddir tekið sig saman og keppast um að tala niður eina valdhafann sem hefur staðið upp gegn ríkisstjórninni. Þ.e. forsetann sem stóð upp fyrir þjóðina og tryggði henni tækifæri til að kjósa um það hvort hún borgaði skuldir auðmannaklíkunnar sem ríkisstjórnin hefur margsannað að hún vinnur fyrir.

Áður en ég lýk þessum páskaskrifum um baráttu góðs og ills bið ég lesendur þessarar bloggfærslu að hafa hugfast hverjir eiga miðlana sem kosta áróðurinn gegn núverandi forseta. Ég bið ykkur líka að hafa hugfast að eins og er á þjóðin alltaf einn möguleika gegn ákvörðunum sitjandi ríkisstjórnar. Það er að forsetinn vísi endanlegri niðurstöðu hennar áfram til þjóðarinnar. Ólafur Ragnar hefur sýnt sig í að vera sá sem hefur styrkinn til þess að standa þannig með hagsmunum almennings í landinu.

Þess vegna er það fáránlegt ef þjóðin lætur sömu öflin og vildu að hún tæki á sig Icesaveskuldabaggann fífla sig til að kjósa eitthvað annað en manninn sem tryggði henni það að hún fékk að eiga síðasta orðið um það hvað hún vildi í þeim efnum. Látum skynsemina ráða og þiggjum boð Ólafs Ragnars um að standa með okkur gegn ríkisstjórn sem hefur margsýnt sig í að vinna á móti því sem kemur hagsmunum okkar best! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband