Siðmenntun fylgir sú ábyrgð að taka afstöðu

Skynsemin leiðir til skipulagsVið erum stillt og siðmenntuð og það er sú mynd sem við viljum viðhalda af sjálfum okkur. Siðmenntun felur það meðal annars í sér að taka ábyrgð. Fylgifiskar ábyrgðarinnar eru þeir að mynda sér skoðun um mikilvæg mál.

Myndin um siðprýði þarf því að taka mið af aðstæðum. Sá sem vill telja sig til siðmenntaðra einstaklinga þarf með öðrum orðum að bregðast við því sem er að eiga sér stað í kringum hann.

Við lifum á furðulegum tímum þar sem samfélagið, sem meiri hluti okkar hélt að væri heilt, hefur verið rjúkandi rústir í a.m.k. þrjú undanfarin ár. Ég veit að marga langar til að taka til hendinni við að byggja upp nýtt af því það vita það allir að við þurfum á slíku að halda.

Fámenn þjóð sem býr saman á stórri eyju þarf ekki síst að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir öllum. Fámennið og vegalengdirnar gera það að verkum að við ráðum ekki við það að hér búi tvær þjóðir; 3.000 á móti 270.000 eða fámenn valda- og eignaelíta á móti þjónum hennar. Við þessi 270.000 verðum þess vegna að bregðast við því hvað hin 3.000 hafa í hyggju varðandi lífskjör okkar.

Við þurfum að vinna saman og breyta samfélaginu þannig að framtíð okkar verði önnur en þrældómur við að halda uppi innlendri og alþjóðlegri eigna- og valdastétt . Við þurfum að horfast í augu við það að þessi virða líf okkar og framtíð aðeins út frá því hve mikið við getum lagt að mörkum til viðhalds lífsstíls þeirra.

Við sem höfum ekkert að verja nema lífið þurfum að bregðast við því hvernig fyrir okkur er komið vegna fámenns eigna- og valdahóps sem á lífsvenjur sínar undir því að við tökum kerfinu, sem það hefur byggt upp þeim til varnar, með stillingu og afskiptaleysi.

Við eigum val um það hvort við viljum lifa öðrum eða okkur sjálfum. Við eigum val um það hvort við viljum gefa vinnuframlag okkar til viðhalds því kerfi sem þessi hópur hefur byggt upp til að þjóna votum draumum sínum um óhóf eigna og valda.

Merki SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðarÞeim sem eiga sér annan draum skal bent á að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar er prýðilegur vettvangur fyrir alla sem eru tilbúnir til að leggja sitt að mörkum við uppbyggingu lífvænlegrar framtíðar fyrir þann meiri hluta þjóðarinnar sem stendur frammi fyrir því að vera aðeins skiptimynt í firrtum heimi óforbetranlegrar eigna- og valdastéttar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

valdaMafían kemst upp með það að leyna fyrir fólki hver vígvöllurinn er . . . hann er lögfræði . . . valdaMafían setur lögin og dæmir svo sjálft . . . ef einhver lögfræðingur vogar sér að fara gegn valdaMafíunni sinni þá er hann umsvifalaust útskúfaður og fær ekki frama á sínu sviði . . . er það ekki ótrúleg "tilviljun" að það eru alltaf smá gallar í löggjöf sem taka á valdaMafíunni en þegar verið er að setja lög um almenning þá eru þau skotheld . . . ef það eru gallar í löggjöf sem henta almenningi þá dæmir hænsnaréttur (héraðsdómur=hæsnaréttur og hæstaréttur=hræsnaréttur)eitthvað bull og síðan eftir langann tíma er kannski hægt að hnekkja því bullið fyrir hræsnarétti eða einhverjum erlendum rétti . . . en á meðan er hjólað á fullu í eignir eða persónu almennings . . . staðan er í dag sú að við gerum engum treyst nema okkur sjálfum í að lesa og túlka lög og læra öll bolabrögðin sem verið er að beita á daglegum basa . . . lögfræðiMafían mun ekki koma landsmönnum til hjálpar . . .

Axel Pétur Axelsson, 11.4.2012 kl. 18:28

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott samantekt hjá þér Rakel sem endranær.  Ég ætla að skoða vel Dögun og sjá hvað þar er í boði,  en fylgist líka með Lilju og Samstöðu.  Finnst að þessi tvö framboð ættu að fara saman í framboð til að verða sterkari.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.4.2012 kl. 18:50

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

virkilega góð færsla.

Bæði myndin af fiskunum og þar sem þú segir  "Fylgifiskar ábyrgðarinnar eru þeir að mynda sér skoðun um mikilvæg mál." Þú færð mann að minnsta kosti til að hugsa um fiska. Á næstunni mun verða tekis á um kvótamálin á hinu háa Alþingi. Þar er virkilega verið að berjast um hvoru megin stafs auðæfin liggja. Handvömm við vinnslu þeirra mála mun skilja á milli feigs og ófeigs í framtíð Íslands.

Gunnar Skúli Ármannsson, 11.4.2012 kl. 19:30

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur öllum fyrir innlit og innlegg. Mig langar til að skemmta mér sérstaklega yfir innleggi Gunnars Skúla sem ég vænti að þekki mig nógu vel til að vita það að ég er oftast vel meðvituð um galdur orða og mynda varðandi það hvernig þau orka saman að því að ýta við hugsuninni.

Stundum sé ég tengingarnar í hendi mér. En stundum bæta lesendur við fleiri möguleikum. Glöggir lesendur eins og Gunnar Skúli eru í uppáhaldi hjá mér einmitt fyrir þann eiginleika að vera bæði vel læs á slíkar tengingar en kunna að bæta fleirum við.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.4.2012 kl. 19:54

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mig langar líka til að svara mínum trygga lesanda, henni Ásthildi.

Mér finnst gott að vita að þú ætlir þér að skoða framboð Dögunar vel. Mér þykir líka gott að vita að þú fylgist vel með framboði SAMSTÖÐU. Ég reikna fastlega með að þú munir líka halda áfram að fylgjast með SAMSTÖÐU þó þú veljir Dögun. Eins og þú veist þá hef ég valið en ég fylgist samt með Dögun af áhuga og óska þess að bæði framboðin nái nógu miklu fylgi til að þau geti í sameiningu bundið enda á valdatíð fjórflokksins.

Ég er nefnilega á því að það sé meiri von til þess að það náist með tveimur sterkum framboðum en einu. Þar sem innlegg mitt við þessa bloggfærslu Gunnars Skúla á dögunum inniheldur frekari rök fyrir þessari skoðun minni ætla ég að láta það fylgja hér með sem skýringu:

„Mig langar til að leggja hér orð í belg varðandi hugmyndir og útfærslur á samvinnu. Það er til fleiri en ein leið að samstöðu. Frá mínum sjónarhóli séð er það nefnilega mjög jákvætt að fram eru komin tvö ný framboð. Í öðru þeirra sameinast sú dirfska sem einkenndi stofnun Borgarahreyfingarinnar upp úr Búsáhaldabyltingunni og hefur alla tíð einkennt málflutning Frjálslynda flokksins. Hitt varð til í kringum skynsemina sem alla tíð hefur einkennt lausnarmiðaðan málflutning Lilju Mósesdóttur.

Framboðin höfða þess vegna til kjósenda með ólíka sýn á hvernig eigi að nálgast samfélagsvandann þó markmiðið sé það sama. Eins og Lilja bendir á í innleggi sínu er það þess vegna alls ekki nauðsynlegt að þeir sem berjast fyrir breytingum í þágu almennings á Íslandi renni saman í eitt.

Hins vegar er það afar sérkennilegt ef hóparnir geta ekki stutt hver annan. Í stjórnmálunum ættu t.d. Dögun og SAMSTAÐA að geta staðið opinberlega saman um það markmið að koma fylgi fjórflokksins vel niður fyrir 50%. Helst niður fyrir 40%. Markmiðið er alls ekki útilokað en til þess að það takist þarf bæði dirfsku og skynsemi. Það er líklegra að þetta takist með a.m.k. tveimur góðum kostum í næstu kosningum en einum.

Að þessu leytinu get ég tekið undir orð Péturs Arnars hér að ofan: „Dögun er velkomin til [s]amstöðu“ en ég vil bæta því við: til samstöðu um það að útrýma hugmyndafræði og vinnubrögðum fjórflokksins. Án þess „verða engar breytingar eftir næstu kosningar.““

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.4.2012 kl. 20:03

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta Rakel, og já ég er alveg sammála því.  Þessi tvö framboð gætu náð miklu fylgi, með skynsemina að vopni og þeim tengslum við alþýðu landsins sem þar er að finna svo sannarlega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.4.2012 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband