Epli og appelsínur

appelsínur í stað eplaLesendur þessa bloggs hafa væntanlega tekið eftir þeim breytingum sem ég gerði á útliti þess fyrir rúmum mánuði síðan. Í stað epla er kominn litur appelsínanna í merki SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar.

Einhverjir eru ábyggilega það vel upplýstir að þeir vita ástæðuna. Þ.e. að ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU um miðjan febrúar sl. og bauð mig fram til formanns í fyrsta aðildarfélagi framboðsins sem var stofnað hér í Reykjavík. Nú er búið að stofna annað í Kraganum en formaður þess er ungur og efnilegur maður búsettur í Hafnarfirði. Sá heitir Birgir Örn Guðjónsson og er ekki hægt að segja annað en hann hafi markað sér stað með eftirtektarverðum hætti í þeirri samfélagsumræðu sem mestu máli skiptir með greininni: „Ofþolinmæði skuldara“. Greinin birtist á visir.is núna á sumardaginn fyrsta.

Kynning á formanni SAMSTÖÐU-Reykjavík

Sjálf hef ég tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni frá haustinu 2008 á þessu bloggi. Frá því sama hausti hef ég líka lagt ýmislegt af mörkum í þeirri viðspyrnu sem hefur verið í gangi frá því þá. Fyrst með þátttöku í reglulegum mótmælagöngum sem fóru fram á Akureyri frá því í október 2008 fram til febrúar 2009. Í upphafi ársins 2009 gekk ég svo til liðs við hóp fjögurra kvenna sem héldu utan um reglulega borgarafundi þar fram til vorsins 2010.

Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hef ég tekið þátt í enn fljölbreyttari viðspyrnuverkefnum. Þau sem ég tel upp hér eru þau sem ég hef lagt mestu kraftana í annaðhvort í skipulagningu og/eða þátttöku. Fyrst voru það tunnumótmælin sem hófust þann 4. október 2010 og má heita að lifi áfram í nýstofnuðu bloggi sem nefnist Tunnutal

Þá var það Samstaða þjóðar gegn Icesave vorið 2011 en stærsta framlag mitt til hennar var myndbandasyrpan: „Af hverju NEI við Iceave“. Haustið 2011 lagði ég uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar lið og hélt undan um reglulega laugardagsfundi þar frá desember og fram í byrjun mars á þessu ári. Þessir fundir voru teknir upp og eru fyrirlestrarnir allir aðgengilegir inni á You Tube.

Ég tók líka þátt í undirbúningi tveggja borgarafunda sem haldnir voru í Háskólabíói á þessum vetri sem er að líða. Þeir fjölluðu báðir um málefni lántakenda. Báðir voru teknir upp. Upptökuna af þeim fyrri má nálgast hér en af þeim seinni hér.
appelsínur
Eftir seinni borgarafundinn, sem var haldinn þann 23. janúar, hittumst við Lilja Mósesdóttir, nú formaður SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, á nokkrum óformlegum fundum. Að kvöldi 12. febrúar tók ég svo ákvörðun um að ganga til liðs við framboðið og leggja því krafta mína. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun og finnst hún reyndar vera í mjög rökréttu samhengi við það sem ég hef helgað meginþorra frítíma míns frá haustinu 2008.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég hef komið nálægt pólitík. Vorið 2009 var ég í fimmta sæti á framboðslista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi. Ég fylgdi þremenningunum sem voru kjörnir inn á þing undir merkjum Borgarahreyfingarinnar þegar þeir klufu sig frá henni og stofnuðu Hreyfinguna haustið 2009 og var varamaður í stjórn hennar fram til vors 2011. Í júní 2011 var ég kjörinn aðalmaður í stjórn Hreyfingarinnar en sagði mig frá því trúnaðarstarfi í byrjun október í fyrra. Leiðir skildu þó ekki fyrr en ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU. 

Fram að næstu kosningum

Í mínum augum hefur það verið ljóst frá hruni að þeir þingflokkar sem voru inni á þingi þá brugðust kjósendum sínum. Á þeim tíma hefði ég viljað sjá annaðhvort þjóðstjórn eða einhvers konar neyðarstjórn skipaða sérfræðingum í efnahagsáföllum og afleiðingum þeirra. Niðurstaðan urðu kosningar þar sem eitt nýtt framboð, sprottið úr mótmælendajarðvegi Austurvallar, bauð fram ásamt þeim flokkum sem fyrir voru inni á þingi. Útkoman varð sú að þetta nýja framboð fékk aðeins fjóra menn kjörna inn á þing  en Samfylkingin fékk leiðandi hlutverk í ríkisstjórnarmynduninni. Það hefur reyndar komið æ betur í ljós síðan að kosningabaráttan vorið 2009 var að langmestu leyti grundvölluð á óheiðarleika.

Þau mál sem hefðu átt að vera í forgrunni voru sett undir hugtök eins og „skjaldborg heimilanna“ og „norræn velferðarstjórn“ en hafa að langmestu leyti snúist um afstöðuna til inngöngu í Evrópusambandið. Kjósendur þekkja allir þessa sögu. Nýjir þingmenn, sem lofuðu margir góðu í upphafi, hafa tapað flugi og eru langflestir eins og horfnir inn í seigfljótandi vinnubrögð þingsins sem einkennast af flestu öðru en því gagnsæi sem kjósendum var lofað. Sú fagmennska sem kjósendur ættu að geta ætlast til af einstaklingum sem fara með þjóðarhagsmuni er vandfundinn.

VonarliljurÞó er einn og einn sem fara með umboð sitt af alúð og árvekni. Að mínum dómi er Lilja Mósesdóttir þó sú sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra þingmenn hvað þetta varðar. Alveg frá upphafi hefur hún sett þann alvarlega forsendubrest sem snertir hvert einasta heimili í landinu á oddinn. Það er ekki síst þess vegna sem ég ákvað að leggja SAMSTÖÐU lið í því að byggja upp raunverulegan valkost við fjórflokkinn fyrir næstu alþingiskosningar.

Að mínu viti þurfa allir kjósendur að gera það upp við sig hvort þeir vilja óbreytt ástand eða breytingar. Þeir sem vilja breytingar hvet ég til að kynna sér ný framboð, sérstaklega Dögun og SAMSTÖÐU, og gera upp hug sinn hvort og hvernig þeir ætla að vinna að því að leggja því lið að kynna þessa valkosti fyrir öðrum kjósendum fyrir næstu kosningar. Það þurfa nefnilega allir sem vilja breytingar að vinna saman að styrkingu og framgöngu þeirra framboða sem hafa þá innanborðs sem hafa sýnt sig í að vinna að sameiginlegum hagsmunum heildarinnar en ekki sérhagsmunum fárra útvaldra.

Grundvallarspurningin er: Hvort viltu skemmt epli eða ferskar appelsínur? 

Skemmt epli
ferskar appelsínur

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

FLottur pistill og til hamingju með ákvörðun þína Rakel mín.  Ég tek undir áskorun til þeirra sem eru að hugsa sinn gang, kynnið ykkur nýju framboðin og hvað þau bjóða, en skoðið líka fyrir hvað þau hafa staðið sem eru í forystu þeirra, ekki láta innantóm orð duga.  Bendi eins og þú sérstaklega á Samstöðu og Dögun. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.4.2012 kl. 10:40

2 identicon

Heil og sæl Rakel æfinlega; sem og aðrir gestir, þínir !

Rakel; fornvinkona mæt !

1/2 velgja ykkar; Samstöðu fólks annarrs vegar - og Dögunar liðs, hins vegar, í lotningunni fyrir Evrópusambandinu (klára viðræðurnar; segir Lilja Mósesdóttir, við hvert tækifæri), mun einungis valda ykkur fráhvarfi hugsandi fólks, í komandi  kosningum.

Þess vegna; getið þið, með góðri samvizku dregið framboð ykkar til baka - Hægri grænir; Guðmundar Franklíns, virðist vera eina framboðið, sem hefir bein í nefi, til þess að standa, gegn óprúttinni ásælni og frekju Brussel hirðarinnar, hér á landi.

Það er rétt; hafi fram hjá þér farið Rakel mín, að benda þér á, að : Hval - Sel - Svartfugls, svo og Makríl veiðar Íslendinga, eru fjarri því, að vera hið eina, sem ESB lætur við staðar numið, í heimtufrekju sinni, í boða og banna pólitík þess.

Þar fyrir utan; er ESB, 2. mestu valhopparar Bandarísku Heimsvalda sinnanna, í barna- og kvenna drápunum, austur í Afghanistan og Írak, fyrir utan hefðbundið leiguþý Bandaríkjanna nr. 1; Saudi - Arabíu.

Þannig að; hafi Lilja Mósesdóttir einhverja smávegis rænu til, að jarðtengja sig betur, tæki hún - og Samstaða öll, afdráttarlausa afstöðu, gegn Evrópusambandi því, sem ráðskazt vill, um veröld alla.

Síðan; er fylgispekt Lilju, við Banka Mafíuna, með hinu dæmalausa lyklafrumvarpi,, hvar hún leggur til, að húseigendur leggi niður rófuna - og afhendi glæpaveldi Bankanna húslykla sína, ósiðlegt- og ófyrirgefan legt, með öllu. Þar; skipar Lilja sér í flokk, með Mél- Ráfunni, Kristjáni Þór Júlíussyni, til dæmis.    

Nýjasta dæmið; er samblástur ESB, gagnvart Argentínu, samálfubúum okkar, í Suðri, fornvinkona góð.

Reyndu; að koma einhverri vitglóru, í koll Eyrbyggjans (Grundfirðings ins), Lilju Mósesdóttur, hafir þú tök á, Rakel mín.

Með; Byltingarkveðjum góðum, úr Árnesþingi /     

Óskar Helgi Helgason,

fyrrverandi kjósandi - SEM BETUR FER - 

(búinn að fá upp í kok, af viðbjóði alþingis, fyrir löngu) !!! 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 13:52

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar, það er ekki ætlun mín að egna þér til orðaskaks af neinu tagi þó ég bendi þér á að mér sýnist þú horfa á pólitíkina út um heldur afmarkaðan glugga. Þetta kemur t.d. fram í því þar sem þú talar um Lilju eins og hún ein sé félagsmaður í SAMSTÖÐU og svo í því hvernig þú leggur út af þeim málefnum sem hún hefur staðið fyrir svo og málflutningi hennar.

Mér sýnist þó á öllu að þú sést búinn að velja þér framboð og það eitt af nýjum framboðunum. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig þó ég hefði auðvitað heldur viljað sjá þig velja annaðhvort Dögun eða SAMSTÖÐU. Ég hef þó ákveðna samkennd með þér og öðrum sem gjalda þvílíkan varhug við ESB að þeir taka ekki áhættuna af því að kjósa nokkurn flokk sem tekur ekki afdráttarlausa afstöðu á móti því.

Mín von er að sambandið verði búið að sjá um sjálft sig fyrir næstu kosningar þannig að það þurfi ekkert að blanda því inn í umræðuna í kringum kosningarnar heldur eigi málefni eins og lánamál heimilanna, atvinnumálin og auðlingamálin senuna alla.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.4.2012 kl. 02:35

4 identicon

Heil; á ný Rakel !

Mér sýnist; því miður - sem þú dragir kolrangar ályktanir, af mínu andsvari, hér; að ofan, lestu betur yfir, hvað ég raunverulega meina, Rakel mín.

Til dæmis; eru þau Kristján Þór og Lilja, eins og samvaxnir Síamstvíburar, huglægt vel að merkja, í uppgjafar afstöðu sinni, gagnvart Banka Mafíunni, svo ég árétti, enn frekar.

Hvergi; gef ég til kynna, stuðning minn, við neitt nýrra framboða - hvað þá gamalla; og mun ALDREI, binda trúss mitt framar, við Helvítis gerfi lýðræðið, Rakel mín.

Ekki reyna frekar; að hártoga orð mín - en jafnframt þykir mér miður, að þú skulir ánetjazt þessum ESB fylgjurum, sem í Lilju framboðinu er að finna, sem víðast annarrs staðar, reyndar.

25. Apríl 2009; var síðasta heimsókn mín á kjörstað - og þá aðeins, til þess að fylgja vinum mínum og Sjóhundum, okkar ágæta Guðjóns Arnars Kristjánssonar Skipstjóra, fornvinkona góð - svo; EKKERT FARI Á MILLI MÁLA; Rakel mín.

Ekki síðri kveðjur; hinum fyrri, að sjálfsögðu /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.4.2012 kl. 12:10

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það var engan veginn ætlun mín að hártoga orð þín en ég viðurkenni að sjálfsögðu að ég hlýt að misskilja það sem þú segir. Það sem skilur þó helst á milli er að við lítum hlutina greinilega ekki sömu augum.

Þú talar t.d. um að Lilja og Kristján Þór séu eins og samvaxnir síamstvíburar en ég veit ekki betur en það hafi verið Lilja sem setti fram lyklafrumvarpið en ekki Kristján Þór. Auk þess get ég alls ekki tekið undir það að Lilja sé það sem þú kallar ESB-fylgjara. Sjá t.d. þessa grein hennar sem hún birti á bloggi sínu nú í dag.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.4.2012 kl. 13:25

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flott grein og alveg dagsönn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2012 kl. 13:50

7 identicon

Sælar á ný; stöllur !

Rakel !

Ég trúi því ekki; að allur sá vísdómur, sem ég nam, í Barna- og unglinga skóla Stokkseyrar, 1967 - 1971, hafi verið það tros, að ég geti ekki óbjöguðu orði frá mér komið, og valdi eintómum misskilningi bezta fólks, eins og þín, fornvinkona góð.

Kannski; það sé meginskýring þess - að annað hvort, skilji fólk ekki mína afstöðu, eða þá, að það þori ekki lengur, að koma, inn á tæpra 5 ára síðu mína; hér; á Mbl. vefnum ?

Lilja Mósesdóttir; BER EINFALDLEGA, SÍNA KÁPU, Á BAÐUM ÖXLUM, viljandi - eða þá; óviljandi, Rakel mín. Því; skal hún ómarktæk kallast, því miður - en ykkur, sem hennar boðskap aðhyllist, þessa stundina að minnsta kosti, vil ég ráðleggja, að ígrunda mín orð, þar um, mun betur.

Ásthildur Cesil !

Mig undrar; hversu gagnrýnislaust, þú lest skrif Rakelar vinkonu okkar, þó vissulega megi undir margt taka, í hennar ágætu grein - en annað, er með öllu ósamþykkjandi, sbr. Tröllatrúnaðinn, á Samstöðu moðið, Ís firzka fornvinkona.

Þannig að; þið munuð báðar sjá, vonandi, að ég hafi haft nokkuð til míns máls, þegar nýju framboðin fara að sýna okkur betur, hversu samhanga andi þau eru gamla flokka drazlinu, þegar; allt kemur til alls.

Og; rétt áðan, var verið að sýkna löðurmennið Geir H. Haarde, fyrir sína ósvinnu alla - þó samráðherra- og ráðherfur hans hafi vantað, fyrir Landsdómi, fyrir stundu.

Vonir þverra; um íslenzka endurreisn, því miður, fornvinkonur góðar.

Með; öngvu að síður, ekki lakari kveðjum til ykkar - en hinum fyrri, og í fullu bróðerni meint, öll mín orð, eins og þið ættuð að þekkja, af mínum fyrri skrifum, svo sem /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.4.2012 kl. 14:22

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Óskar minn, ég ætla að minnast orða þinna og sjá hvað gerist.  Ég sé bara ekki neina aðra leið en treysta vinum mínum í Frjálslyndaflokknum Guðjóni Arnari og því góða fólki, veit að þau hafa verið að vinna hörðum höndum að undirbúningi að þessu Framboði Dögun.  Ég þekki þau líka það vel að þau láta ekki af prinsippmálum sínum fyrir einhverja upphefð.  Rakel hef ég lengi fylgst með, og dáist að baráttuþreki hennar og réttlætiskennd.  Ég vil því sjá þessi tvö framboð sterk, því ég hef þá trú að þau standi í lappirnar og veiti okkur betri stjórnsýslu en nú er.

Einhversstaðar verður maður að hengja hattinn sinn, því ekki vil ég sitja heima og láta reika á reiðanum minn kæri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2012 kl. 15:26

9 identicon

Sælar sem fyrr; mætu konur !

Ásthildur Cesil !

Þakka þér fyrir; sem oftar, fölskvalausa einlægni þína, í andsvörum öllum, en; ........ vita megum við öll, að allt það fólk, sem tengst hefir hryðjuverka stofnunni alþingi, frá 1845 - þegar Helvítis gufan; Kristján VIII. Danakonungur endurreisti það, hefir illilega skaddazt, frá góðum áformum, sem hugsjónum, hjá þeim þeirra, sem þær höfðu, á annað borð, langflestum.

Þess vegna; gerðist ég andsnúinn áframhaldandi tilveru alþingis - og; mæli enn, með fámennisstjórn 15 - 30 manna (karla og kvenna), sem koma özlandi beint, úr framleiðslu- og þjónustu greinunum, Glussa- og Gírolíu lyktandi, í stað ilmvatna hyskis alþingis, fornvinkonur góðar.

Þetta er; og hefir verið mín meining, um all nokkra hríð.

Með; ekki síðri og lakari kveðjum, en þeim fyrri /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.4.2012 kl. 21:00

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir hlý orð Óskar minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.4.2012 kl. 21:53

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar, ég var alls ekki að kenna þér um að ég misskilji þín orð því ég veit að skilningur að að miklu og stundum mestu byggður á túlkun þess sem les. Ég get þó ekki betur séð en að þú mistúlkir sumt af því sem ég segi í mínum skrifum. Þar má t.d. nefna að þú talar um að ég hafi tröllatrú á Lilju. Ég viðurkenni það vel að það sem ég hef kynnst af henni líst mér afar vel og styðja það sem ég sagði hér fyrr að hún ber höfuð og herðar yfir aðra þingmenn sem nú sitja á Alþingi. Hitt er svo annað mál að ég hef gjarnan trú á fólki en í pólitík gildir það sem Ásthildur hefur bent á. Maður velur.

Greinina hér að ofan skrifaði ég til að skýra mitt val og hvetja aðra til að velja líka. Ég leyfði mér að hvetja lesendur til að velja skynsamlega en umfram allt eitthvað annað en fjórflokkinn.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.4.2012 kl. 02:49

12 identicon

Heilar og sælar; að nýju !

Rakel !

Þakka þér fyrir; skýrt og skorinyrt andsvar þitt, en,.............. enn vil ég, vekja athygli þína á, fornvinkona góð, að einungis III. valkostur (utan þingsstjórn vinanndi fólks), er ein bjargráðið, úr þessu, hérlendis - Lilja - Guðmundur Franklín; þau ÖLLmengast af því einu, að dvelja innan múra þinghúss kumbaldans - og reynast síðan ónothæf með öllu, eftir viðveru sína þar, Rakel mín.

Því; getur þú, með góðri samvizku, kvatt lýðræðis hugsjón þína - sem og öll þau, sem viðhalda vilja ónýtu þingfyrirkomulagi.

Þannig; er það einfaldlega, því miður.

Ekki síðri kveðjur - en allar; hinar fyrri / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.4.2012 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband