Full ástæða til að spyrja fleiri spurninga en byrjun samt

Mér þætti reyndar eðlilegra að Heilbrigðisnefnd borgarinnar þyrfti ekki að óska eftir upplýsingum um innihald þessa úða. Eru lögreglumennirnir sem beita honum ekki á launum hjá Reykjavíkurborg? Má því ekki teljast eðlilegt að nefndin hefði haft eitthvað um ákvörðunina varðandi beitingu þessa efnavopns gegn mótmælendum í höfuðborginni að segja?

Það er líka rétt að minna á að lögreglan í Reykjavík hefur þrisvar sinnum á þessu ári beitt gasi gegn mótmælendum sem gerðust fyrst og fremst sekir um það að vera margir saman, sýna ágengni og vera með hávaða á almannafæri. Lögreglan hefur varið þessar gjörðir sínar gegn óvopnuðum almenningi með vísunum til þess að þetta háttalag sé dæmi um ólögleg mótmæli. 

Talsmenn lögreglunnar hafa síðan matreitt ýmsar réttlætingar í fjölmiðlum. Matreiðsla þeirra hefur staðist mjög illa gæðakröfur en því miður hefur þeim þó tekist að fá suma til að sjá hinn raunverulega óvin í mótmælendum en ekki ríkisstjórninni eða öðrum sem við erum að beina andófi okkar gegn. Í þessu samhengi langar mig til að benda á ótrúlega flott myndband sem ég rakst í núna rétt í þessu.

Myndbandið er að finna inni á veftímaritinu Nei en ég fann það í gegnum tilvísun Helga Jóhanns Haukssonar. Í umræddu verki „er margmiðlunartæknin færð til hæstu hæða á áhrifaríkan en fágaðan hátt.“ svo ég steli orðalagi Hlínar. Einnar sem „kommentar“ við það. Það er þess vegna full ástæða til að vekja athygli á myndbandinu sem listaverki en ég féll ekki síst fyrir boðskapnum...

Kíktu á það! Þú verður ekki fyrir vonbrigðum!


mbl.is Spyrja um efni í lögreglugasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Tókstu eftir því að aftast á myndbandinu er mynd af barni sem hefur verið gasað?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.1.2009 kl. 09:44

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Í öllum pappírum heitir þetta varnarúði. Ég gat ekki séð á myndum að löggan væri að verja sig við Hótel Borg um daginn þegar þessu var spreyjað á fólk á flótta.

Haraldur Bjarnason, 7.1.2009 kl. 14:45

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er svakalega flott myndband sem sýnir vel bæði marga mótmælendur, nokkra af þeim sem vörnuðu þeim inngöngu inn á Hótel Borg og svo lögreglumennina. Ég sé ekki reiði í andliti neins nema framan í nokkrum lögreglumönnum. Mér þykir það athyglisvert og dapurlegt um leið því það bendir til að þeir upplifi mótmælin sem persónulega árás á sig sem einstaklinga.

Mér finnst textinn, tónlistinn og myndirnar í þessu myndbandi vinna rosalega vel saman. Auk þess sem þetta er enn ein heimildin um það að lögreglan notaði piparúðann ekki í vörn heldur hefnd! Ég reikna með að þetta sé það sem þú ert að benda á Haraldur.

Ég sá reyndar ekki neitt barn, Jakobína. Nema þú eigir við dökkhærðu, smávöxnu stelpuna sem kemur fyrir á tveimur myndum undir lokin. Það getur verið rétt að kalla hana barn. Mér sýnist hún vera táningur á svipuðum aldri og stórvaxni strákurinn á stuttbuxunum en ég viðurkenni það að ég er ekkert sérstaklega góð í að lesa í aldur fólks

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.1.2009 kl. 23:08

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Stóri strákurinn í stuttbuxunum lítur ekki út fyrir að vera eldri en 12 til 14 ára. Börn held ég að þeir teljist vera sem eru yngri en átján.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.1.2009 kl. 00:32

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þá veit ég um hverja þú ert að tala.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.1.2009 kl. 00:59

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Átta mig á því að þetta hefur ekki vakið athygli. Finnst þér ekki þetta vera bara krakki?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.1.2009 kl. 01:28

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég tók eftir drengnum í stuttbuxunum á gamlársdag og fleiri ungum einstaklingum sem höfðu orðið fyrir gasi. Öll voru mjög kvalin og sum eins og sjokkeruð. Einn þeirra ældi og ældi. Sum voru með grátstafinn í kverkunum. Ég fann svo til með þeim að mig langaði til að taka utan um þau.

Þau voru miklu hugrakkari en ég sem þorði ekki að standa í eldlínunni eftir að hótunin um beitingu gassins var gefin út. Mig grunar að þau vilji sjálf ekki láta kalla sig krakka en þau eru vissulega óhörðnuð enn. Ég hef töluverðar áhyggjur af því hvað þessar harkalegu aðgerðir lögreglunnar gegn þeim gerir þeim sem einstaklingum. Ég myndi fyllast heift.

Ef ég hefði lent í þessu á þeirra aldri veit ég að heift mín hefði beinst gegn lögreglumönnunum sjálfum og ég hefði orðið enn heiftúðugri í garð þeirra sem lögreglan þóttist vera að verja með þeim.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.1.2009 kl. 02:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband