Dæmisaga um valkosti, ákvarðanir og afleiðingar...

Eftir heilmiklar vangaveltur hef ég ákveðið að segja hér sögu um nágranna minn. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að segja hana þrátt fyrir allt er að mér finnst ýmislegt í henni vera ágætt dæmi um þá krísu sem ég upplifi mig í gagnvart ástandinu í samfélaginu í dag. Það sem hefur hins vegar haldið aftur af mér er spurningin um það hvort einhver geti misskilið tilgang minn þannig að ég sé að vekja athygli á neyð viðkomandi og sverta mannorð hans í leiðinni.

Það stendur auðvitað ekki til að ég gefi upp nafn mannsins sem er aðalpersónan í eftirfarandi dæmisögu en það kemur ekki í veg fyrir það að þeir sem þekkja vel til geta e.t.v. fundið út úr því um hvern er að ræða. Ég ætla þess vegna að byrja á því biðja þá sem hugsanlega vita hver hann er að nefna hann ekki á nafn.

Ég bý í blokk. Í stigaganginum eru sjö íbúðir. Ég bý á annari hæð en undir minni íbúð er kjallaraíbúð sem Akureyrarbær keypti fyrir nokkrum árum en einn skjólstæðingur bæjarins leigir hana af þeim. Sá er drykkjumaður. Reyndar mjög langt leiddur drykkjumaður. Ég man ekki nákvæmlega hvað er langt síðan hann flutti hérna inn en það er a.m.k. að nálgast einn áratug.

Á því tímabili sem þessi maður hefur búið fyrir neðan mig hefur hann farið að meðaltali í fjórar til fimm meðferðir á ári en hann drekkur enn. Drykkja hans fer stigversnandi. Hann sem leit alltaf ótrúlega vel út þrátt fyrir hóflausa drykkju hefur látið verulega á sjá síðastliðið ár og það sem verra er þá virðist eitthvað fleira vera farið að bila miðað við ýmis óútreiknanleg uppátæki hans í vímunni.

ÁfengisnauðÉg sagði hér í upphafi að mér fyndist þessi saga vera ágætis dæmi um þá krísu sem ég upplifi vegna þess sem á sér stað nú um mundir í íslensku samfélagi. Ég ætla að nefna nokkur dæmi um áreitið sem umtalaður maður veldur mér og öðrum íbúum stigagangsins sem ættu að skýra þessa staðhæfingu.

Drykkja mannsins hefur lengst af verið háð ákveðnu mynstri. Hann kemur heim úr meðferð en það líður svo mislangur tími þar til hann dettur í það aftur. Allt frá tæpum sólarhring upp í hálft ár. Ég er sennilega oft sú fyrsta sem veit af því að hann er dottinn í það. Það er vegna þess að íbúðin mín er sú eina sem liggur að hans.

Hann fór gjarnan að spila á skemmtarann sinn, sem hann hefur annaðhvort selt eða eyðilagt núna því það hefur ekkert heyrst í honum lengi. Hann fer gjarnan að syngja eða spila plötur með tónlist sem minnir mig helst á að einhver standi í þungum skóm ofan á skotti á risastórum villiketti. Stundum stillir hann allt í botn, svona yfir eina og eina aríu...

Ég hef lifað þetta af og ekki látið það eftir honum að fara niður til hans að kvarta og veita honum félagsskapinn sem blessaður maðurinn er í raun að kalla eftir með svo aumlegum hætti. En hann hefur líka gengið enn lengra til að ná athygli minni og/eða annara í stigaganginum. 

Í eitthvert skiptið tók hann nefnilega upp á því að slá rafmagnið af öllum stigaganginum. Ég áttaði mig nú ekki alveg strax á því hvað var í gangi en þar sem ég átti von á vinkonu minni í mat þurfti ég sárlega á rafmagninu að halda þannig að þegar ég stóð í þriðja skiptið í kolsvarta myrkri inni í íbúðinni minni með öll ljós skínandi í gluggum nærliggjandi húsa var ég sneggri fram í rafmagnstöfluna en í hin skiptin. Um leið og ég opnaði hurðina að íbúðinni minni heyrði ég að hurðin niðri lokaðist og ég lagði saman tvo og tvo.

Þessi saga er ekki úti enn en hér er e.t.v. rétt að víkja að aðaltengingunni sem ég sé í því að segja þessa sögu í samhengi við atburðarrás undanfarandi vikna og mánuða. Mér finnst það liggja í augum uppi að eitthvað stórkostlegt hefur farið úrskeiðis í íslensku efnahagslífi og það gerðist ekki af sjálfu sér. Sökudólgarnir eru miklu fleiri og mennskari en alheimskreppan. Þess vegna finnst mér liggja í augum uppi að það verður að gera eitthvað í málunum en það er greinilegt að það eru ekki allir sammála um það hvað á að gera.

En hvað um drykkjumanninn? Eru allir sammála því að ég hafi átt að hringja í lögregluna þegar hann var búinn að slá út rafmagninu í öllum stigaganginum í fimmta skiptið? Eru einhverjir undrandi á því hvað ég var sein til þess og kannski líka á því að enginn úr hinum íbúðunum fimm, sem urðu fyrir þessu ekkert síður en ég, voru ekki heldur búnir að því? Sumum finnst kannski að einhver hefði átt að fara niður og berja hann en kannski finnst öðrum að svona atvik eigi maður bara að fyrirgefa og gleyma en mér líst á hvorugt...
Fyrirgefa og gleyma?Auðvitað hringdi ég ekki í lögregluna fyrr en ég var alveg viss í minni sök. Eins og áður sagði var ég að undirbúa matarboð og taka á móti gesti þannig að ég gat ekki verið að leggja mig alla í það að sitja fyrir manninum en hljóp alltaf niður og setti rafmagnið jafnóðum á aftur. Þegar maturinn var til og vinkona mín komin kveikti ég bara á kertum en rafmagnsleysi af þessu tagi kemur auðvitað ekki vel niður á t.d. ískápum og frystiskápum þannig að þegar vinkona mín var farin heim hringdi ég loks á lögregluna. Hún kom ekki. Hvað átti hún svo sem að gera því þó ég hefði heyrt til hans hafði ég ekki séð til hans... 

Lögreglan þekkir þennan mann líka miklu betur en ég í þeim ham sem alkóhólið hleypir í hann og sennilega hafa þeir litla ánægju af því að þurfa að eiga við hann í slíku ástandi. Þess vegna hafa þeir að öllum líkindum bara óskað þess að hann væri dottinn út og gerði ekki meira af sér þetta kvöldið. Þeim varð að ósk sinni því hann sló ekki rafmagninu út aftur að sinni. En óútreiknanleg hegðun hans sem hefur valdið íbúum stigagangsins alls kyns óþægindum og ónæði hefur því miður stigmagnast á undanförnum tveimur árum.

Frá því að hann flutti inn hefur hann fundist í víndái í forstofunni og víðar í sameigninni á öllum tímum sólarhringsins. Núorðið angar stigagangurinn oftast allur bæði af tóbaksreyk og vínanda. Upp í íbúðina mína heyri ég rödd hans glymja þegar hann talar í síma því hann talar í hann eins og hann sé að tala í gamla sveitasímann til Kína. Sennilega er hann líka mjög reiður við alla sem hann nær sambandi við miðað við það sem má greina af tóninum og einstaka orðum sem berast óbrengluð.
UppgjöfÓnæðið af drykkjumanninum í kjallaranum er reyndar að verða svo viðvarandi að fæstir íbúar stigagangsins geta leitt það lengur hjá sér. Það keyrði reyndar um þverbak síðastliðið vor enda fyllti hann mæli þolinmæðinnar hjá öllum nábúum sínum endanlega þá. Rafmagnstöflutrixið var rifjað upp þrjár nætur í röð. Ég hringdi á lögregluna í öll skiptin en þeir voru greinilega ekkert sérstaklega æstir í að sinna máli af þessu tagi. Reyndar áttaði ég mig á því að ef ég hringdi í gegnum 112 þá fékk ég mannaðan bíl á staðinn... en það var ekkert útlit fyrir að maðurinn ætlaði að hætta enda taldi hann rafmagnsleysið stafa af allt öðrum hlutum en því að hann væri viljandi að slá út rafmagninu.

Langtleiddi alkóhólistinn hefur alltaf annað slagið hringt bæði dyrabjöllunni minni og símanum mínum og það hefur jafnvel gerst á nóttunni. Blessaður karlinn er einmanna. Hann vantar einhvern til að tala við. Við unnum einu sinni saman og svo eru foreldrar hans úr einni þeirra sveita þar sem ég bjó í uppvextinum. Foreldrar mínir og hans þekktust þess vegna þó það væri nokkur aldursmunur á þeim. Nú svo sé ég um hússjóðinn fyrir stigaganginn þannig að það er eðlilegt að hann telji sig af og til eiga erindi við mig þó hann sé stundum svo fullur að hann á erfitt með að muna hvað hann ætlaði sér að segja og ég á inn á milli ákaflega erfitt með að skilja hann. Oftast eru það þó kvartanir yfir öðrum íbúum stigagangsins en þó einkum frammistöðu minni í hússjóðastarfinu sem hann vill koma á framfæri.

Síðastliðið vor þurfti hann þó óvenjumikið að tala við mig. Hann hringdi og bankaði og barði og skrifaði mér hótunarbréf því lögreglan sagði honum hver hefði kvartað. Aðrir íbúar stigagangsins samþykktu að settur yrði lás á rafmagnstöfluna. Ég talaði við yfirmann hjá Norðurorku og fékk svo blikksmiði til að setja upp lásinn. Kjallarabúinn hreinsaði hann af. Lásasmíðinn og uppsetning hans kostaði auðvitað sitt en það var verknaðurinn sem varð til þess að ég talaði við fulltrúa eiganda íbúðarinnar.

Í framhaldi af því fékk ég enn eitt hótunarbréfið og á sama tíma voru tvö dekk undir bílnum mínum götuð. Starfsmenn dekkjaverkstæðisins sem ég leitaði til treystu sér ekki til að staðfesta það að gatið á fyrra dekkinu væri eftir hníf og því seinna eftir eitthvert stunguverkfæri. Þeir þorðu ekki að fullyrða meira en það að það væri ekki útilokað. Ég hafði heldur engin vitni. Þess vegna get ég ekkert fullyrt að hinn drykkfelldi nágranni minn eigi sök á því að tvo daga í röð kom ég að bílnum mínum á felgunni. Gatið á öðru dekkinu var þumlungur á breidd með áberandi jafnt og hreint sár en á hinu voru þrjú pínulítil göt sem mörkuðu lítinn þríhyrning á úthlið dekksins. 

Eftir tvær heimsóknir á dekkjaverkstæðið fór ég á lögreglustöðina. Mig langaði til að fá ráðgjöf um það hvað ég gæti gert ef ofsóknir af því tagi sem ég hef týnt fram hér á undan héldu áfram. Lögreglumaðurinn sem ég talaði við var stór og stæðilegur maður. Það var líka greinilegt að hann þekkti viðkomandi og efaðist ekki um orð mín. Ég var líka með bréfin. Hann gat í rauninni lítið ráðlagt mér umfram það sem ég vissi en hann sagði mér þó að ef hann byggi við þetta myndi hann berja manninn... Ég skil hann vel en það er hvorki líklegt að ég ráðist í það að berja nágranna minn né að það myndi leysa neinn vanda. Líklegra að ég yrði undir í slíkri viðureign þar sem ég er lítil og létt og hann stór og sterklegur. Stóri lögreglumaðurinn gæti eflaust ógnað honum með stærð sinni einni saman og stundum vildi ég að ég gæti kallað á hann í það verk.

Ég get ekki dæmt um það hvað aðrir lesa út úr þessari sögu en ég er ekki vön að standa í útistöðum við fólk. En kannski finnst einhverjum að ég geri blessuðum manninum óþolandi óleik með því að segja þessa sögu hér. Ég vona þó að þeir verði fleiri sem átti sig á að með henni er ég að segja dæmisögu af óþolandi ástandi sem verður að fá heillavænlegan endi. Ég veit að drykkjumaðurinn í kjallaranum er manneskja eins og ég. Hins vegar fer drykkjuframkoma hans illa saman með hvers konar sambýli. Þess vegna þarf að finna honum annað búsetuúrræði. Eða liggur það ekki í augum uppi? Lögin vernda hins vegar búseturétt hans en ekki rétt þeirra sem hafa orðið fyrir óþægindum og tjóni af hans völdum. Ekkert af ofantöldu er ólöglegt nema að valda skemmdum á eignum annarra en þá þarf vitni til að sanna að hann hafi valdið tjóninu. Bæti hann eða leigusali hans fyrir tjónið telst málið hins vegar leyst.

Í leit að innri styrkMaðurinn á neðri hæðinni hefur valdið mér ónæði, óþægindum og sennilega líka fjárhagslegu tjóni. Ég óttast að samskiptum okkar sé ekki lokið. Það vildi nefnilega svo furðulega til að þegar ég var langt komin með þessi skrif þá hringdi aðalpersóna þessarar sögu og hann hringdi nokkrum sinnum áður en mér tókst að fá hann til að hætta. Hann heldur að ástæðan fyrir því að undan honum hefur verið kvartað við fulltrúa leigusalans hans sé persónuleg óvild mín.

Hann hótar mér enn með mönnum sem hann segir færustu lögfræðinga landsins. Hann rifjar upp allt sem hann telur sig hafa þurft að þola af minni hálfu og telur sig vera í fullum rétti til að drekka í sinni leiguíbúð. Mér komi það andskotann ekkert við... og minnir mig á að hann eigi það til að missa stjórn á sér ef hann sé beittur miklum og berum órétti.

Kannski verður bílinn minn á felgunni þegar ég á að mæta í vinnuna í fyrramálið en það verður bara að koma í ljós...

Þessi saga er orðin alltof löng en ef þú hefur lesið hana alla leið hingað þá reikna ég með að það sé vegna þess að þú ert annaðhvort sammála mér í því að þetta er óþolandi að búa við eða þá að þú ert að bíða eftir að ég komi henni í það samhengi sem ég sagði að ég vildi setja hana í.

Ég bý núna við drykkjumann í kjallaranum, sem ég skal alveg viðurkenna að ég er stundum hrædd við, en ég er tilneydd til að gera eitthvað í málinu. Ég get ekki vikist undan því þó ég fegin vildi þar sem ég sé um hússjóð stigagangsins. Það skiptir auðvitað ekki máli í því samhengi að ég er eingöngu með hann af því að enginn annar vill taka hann að sér. Ég lít hlutverk mitt í því að mótmæla ranglætinu sem viðgengst í þjóðfélaginu nú um þessar mundir að sumu leyti sömu augum. Ég get ekki vikist undan þeirri ábyrgð að andmæla því. Það er skylda mín sem þegn þessa lands.

Ég bý við ríkisstjórn sem ætlar að verja peningasukk örfárra peninga- og valdafíkla (mér skilst reyndar að sumir þeirra stríði við mun alvarlegri fíknir en hef engar haldbærar sannanir fyrir því). Ráðherrar undanfarandi - og núverandi ríkisstjórnar hafa hyglað þessum mönnum, mært þá og mulið undir þá. Gullkálfarnir launuðu ofdekrið með svívirðilegri ósvífni. Stungu af með peningakassana í gegnum flókið net gervifyrirtækja og skiptu um ríkisfang. Þeir voru svo klókir í að tryggja sér molana, sem var mulið undir þá, að þeir flæktu ráðherra og fleiri ábyrgðarmenn íslensks valdakerfis svo tryggilega í kóngulóarvef sínum að þeir sitja þar fastir.

Þeir sitja eftir í vef lyga, græðgi, svika og spillingar og þora sig hvergi að hreyfa nema gegn almenningi. Þeir beina öllu sínu þreki í að sannfæra hann um að allt sem þeir gerðu og gera sé löglegt og gott. Enginn hafi brotið nein lög og ef einhver gerði það er almenningur líka sekur um álíka glæpi og þeir og dekurbörnin þeirra. Minnir mig býsna mikið á röksemdafærslur og réttlætingar drykkjumannsins á neðri hæðinni sem eiga að skýra og útiloka ástæðurnar sem við nágrannar hans teljum okkur hafa fyrir því að kvarta undan nábýlinu við hann.

Þeir sem bera raunverulega ábyrgð á alvarleika efnahagsástandsins eru varðir með undarlegum vísunum til einhvers sem er kallað bankaleynd en almenningur á að fylla ríkiskassann aftur. Mér sýnist markmið þeirra vera svipað og alkóhólistans í kjallaranum. Þeir vilja halda í íverustaði sína sama hvaða ónæði og óþægindum það veldur öðrum. Þeir krefjast þess að fá frið til að halda sukkinu áfram óáreittir. Partýlætin voru reyndar búin að skella á mér áður en úr hófi keyrði. Jafnvel þá var hávaðinn svo mikill að ég upplifði þau sem óþolandi áreiti. Þá hét uppáhaldslagið þeirra ekki Bankaleynd eða Alheimskreppa heldur Góðæri. Það lét jafnpirrandi í mínum eyrum eins og þessi nýju. Þau hljóma bæði líkt og einhver stígi á þungum skóm á skottið á einhverju kattardýri með skerandi hljóðum.

Ég valdi ekki þessa ríkisstjórn frekar en nágranna minn. Þolinmæði mín hefði þó e.t.v. dugað eitthvað áfram ef skellirnir og dynkirnir, sem sukkið á henni hafa framkallað, væru ekki orðnir jafnærandi og raun ber vitni. Hversdagslegu rólyndi mínu og jafnaðargeði hefur margsinnis verið ofboðið. Það hefur orðið fyrir ítrekuðu ónæði og óþægindum af hátterni þeirra sem hafa verið handhafar íslenskra stjórnvalda á undanförnum einum til tveimur áratugum. Þeir hafa misboðið lýðræðishugmyndum mínum og réttlætiskennd hvað eftir annað. Mér fannst ég m.a.s. allan tímann þola fjárhagslegt tjón af þessu sambýli en þó aldrei eins og nú þegar vöruverð, vextir og opinber gjöld stefna upp í himinhæðir.

Nú er mér hins vegar nóg boðið! Ég vil láta mér líða vel heima hjá mér. Ég vil láta mér líða vel í landinum mínu. Ég vil ekki vera hrædd og full af kvíða. Ég vil ekki þurfa að skammast mín fyrir það að ég sé orðin svo samdauna áníðslunni að ég láti bjóða mér upp á hvað sem er! Þess vegna ætla ég að standa með sjálfri mér og mótmæla og krefjast breytinga á núverandi fyrirkomulagi. Ég vil ekki þurfa að búa við ónæði, óþægindi og fjárhagslegt tjón af völdum sjúkra einstaklinga. Ég vil vísa þeim, sem hafa búið mér þannig veröld, úr þægindum sínum og yfir í önnur þar sem þeir geta ekki valdið mér meiri skaða. Skiptir ekki máli hvort það er drykkjumaður sem býr í kjallaranum eða stjórnmálamenn sem búa í kóngulóarvefjum fílabeinsturna. 

(Ég vona að þú hafir fundið samhengið þó ég hafi ekki alls staðar dregið það fram. Fannst þetta vera orðið alltof langt til að lengja þetta enn frekar. En að lokum langar mig til að ítreka það: Að ef einhver áttar sig á því hver maðurinn í sögunni er að sýna honum þá tillitssemi að nafngreina hann ekki. Tilgangurinn með því að segja þessa sögu er alls ekki sá að benda á persónu hans. Ég veit að það eru miklu fleiri sem verða fyrir svipuðu ónæði af nágrönnum sem svipað er ástatt um.

Tilgangurinn með að segja þessa sögu er að draga upp mynd af ólíðandi ónæði sem maður neyðist til að bregðast við þó afleiðingarnar af því kunni að virðast ógnvænlegri en ónæðið sjálft um stund... Ég vona að allir sem lesa þetta átti sig á því. Þeir sem hafa búið við eitthvað svipað ættu að átta sig á líkingunni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég hef sem betur fer verið laus við svona vonda nágranna en skil þá hvernig langvarandi óþolandi ástand getur verið slítandi og reynt á taugarnar. Ef maður heldur það út styrkjast taugarnar og maður fer að standa af meiri einurð með sjálfum sér.

Ég tek ofan fyrir þér að vera á þeirri vegferð...

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.1.2009 kl. 02:25

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir eljuna Jakobína mín að nenna að lesa þetta allt saman Það gleður mig enn meira að þú hefur skilið kjarnann í því sem mig langaði til að segja með þessari sögu en náði bara ekki að segja frá í styttra máli. Ekki að sinni a.m.k.

Ég veit hins vegar að þú skilur fullkomlega að maður verður að standa með sjálfum sér jafnvel gegn ríkisstjórninni ef á þarf að halda

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2009 kl. 02:42

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já Rakel þetta er fjandi langur pistill en söguþráðurinn heldur manni við efnið

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 6.1.2009 kl. 03:54

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, út með ríkisstjórnina!

María Kristjánsdóttir, 6.1.2009 kl. 08:47

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég náði þessu og þú átt alla mína samúð vegna mannsins á neðri hæðinni. (Ég má ekki segja það en ég hef nokkrum sinnum þurft að eyða tíma og orku neyðarþjónustunnar í landinu vegna hans. )

(Mitt ráð til þín og ímyndaðu þér að þetta sé voða smátt letur (eins og hvísl) að hringja í 112 í hvert sinn sem hann ónáðar þig og aðra íbúa í stigaganginum, tilkynna um ólæti, övlun og ónæði af völdum viðkomandi, óskaðu eftir sambandi við fjarskiptamiðstöð lögreglu, óska eftir bókun á tilkynninguna og biðja um aðstoð lögreglunnar. Haltu svo utan um fjölda tilkynninga og fáðu loks yfirlit frá lögreglu um fjölda útkalla á staðinn af hans völdum áður en þú talar næst við eigenda íbúðar.)

Arinbjörn Kúld, 6.1.2009 kl. 15:02

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk Ari

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2009 kl. 15:17

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Æ já, þarna er fárveikur maður þú átt alla mína samúð

Hólmdís Hjartardóttir, 6.1.2009 kl. 16:04

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það Hólmdís. Ætla að nota tækifærið og segja þér frá því hvað mér fannst gaman að fá tækifæri til að hitta þig þó það væri aðeins í stutta stund.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2009 kl. 16:33

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þú átt alla mína samúð vegna ríkisstjórnarinnar og spillingaraflanna sem öllu ráða og rugla Rakel mín. Og líka vegna nágrannans..en eitthvað segir mér að þú verðir fljótari að leysa málin með hann heldur en að losna við ríkisstjórn og hennar lið.

Knús

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 6.1.2009 kl. 21:05

10 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Bravó! Gríðarlega fín dæmissaga og skilar sterkri tilfinningu sem margir hafa upplifað síðustu mánuði. Sagan er löng og stöku villur en þannig á hún að vera, hrá og fersk. Takk fyrir mig!

Jóhann G. Frímann, 6.1.2009 kl. 21:44

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tinna: Mikið þykir mér vænt um að þú hafir þrælast í gegnum allan þennan texta minn Sérstaklega vegna þess að ég get ekki betur séð en þú skiljir fullkomlega það sem ég vildi koma á framfæri með honum.

JGFreemanInternational: Þakka þér kærlega fyrir þitt komment. Ég vona að ég sé búin að laga villurnar núna

Katrín: Takk fyrir þínar hlýju kveðjur. Ég vona að það takist að leysa málin með nágrannann. En íbúar stigagangsin hafa nú þegar búið við óþægindi og ónæði vegna nábýlisins við hann í u.þ.b. áratug. Hann stendur betur að vígi gagnvart lögunum en við sem kvörtum og svo á hann sér líka stuðningsaðila...

Það ætti samt að vera einfaldara mál að koma honum í annað húsnæði en koma heilli ríkisstjórn frá... En það er ótrúlega margt sem minnir mig á hvað annað í þessu tvennu 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.1.2009 kl. 03:02

12 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Ágæta Rakel,

Byrja á því að þakka þér fyrir innlitið.

þessi saga þó löng sé er sterk, sérstaklega þegar kom að tenginunni við ástandið á landinu okkar.  Er búin að búa erlendis í rúman áratug, og þótt  það sé  hafið eða  fjöllin sem toga þá er það aðallega fólkið sem laðar mig enn að þessum stað,

Mér sýnist þú vera prýðileg fyrirmynd 'þessa fólks sem laðar enn að'

Bestu kveðjur

Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.1.2009 kl. 04:29

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æi, þakka þér fyrir það Þetta toppar eiginlega allt sem ég hef heyrt um sjálfa mig. Þakka þér fyrir að gefa mér svona fallega spegilmynd í orðum þínum

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.1.2009 kl. 04:50

14 identicon

Getur ekki einhver annar séð um hússjóðinn? Mér finnst augljóst að einhver þarf að leysa þig af a.m.k. tímabundið. Vona að þér gangi vel.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:45

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég hef reynt að losna við hann en það vill auðvitað enginn taka við ólaunuðum störfum síst af öllu þegar því fylgja leiðindi af því tagi sem ég lýsti hér að ofan. Ætli ég losni nokkuð við hann nema leigjandinn flytji út...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.1.2009 kl. 03:09

16 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Mjög góð færsla hjá þér eins og reyndar allt sem frá þér kemur á blogginu.

Það eru félagsmálayfirvöld á Akureyri sem eru rétti vettvangurinn vegna kjallara búans hefði ég haldið.

Níels A. Ársælsson., 13.1.2009 kl. 01:40

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk, Níels Kannski ég stingi ábendingu þinni á bak við eyrað til að ganga að henni vísri þar þegar sýður upp úr næst.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2009 kl. 18:32

18 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Eftir lýsingu þinni að dæma er viðkomandi einstaklingur mjög alvarlega veikur (andlega stórslasaður) eftir lífsins ólgusjó.

Ef hann væri líkamlega lemstraður eftir áfall sem hann hefði orðið fyrir td, með því hann hefði dottið á hausinn niður af blokkini eða orðið undir bíl út á fyrir utan húsið, þá stæði ekki á yfirvöldum að senda lækna og sjúkrabíl.

Þarna er ósköp lítill munur á finnst mér og því á félagsmálastjóri bæjarfélagsins að skerast í leikinn og senda hjálparlið á vetvang.

Mínar bestu kveðjur til ykkar allra og enn og aftur, bloggið þitt er mjög gott enda ertu frábær penni.

Níels A. Ársælsson., 13.1.2009 kl. 19:01

19 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það Níels! Tek heilshugar undir það sem þú segir um fáránleika þess hve mikill munur er á aðhlynningu líkamlegra og andlegra slasaðra!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2009 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband