Krafturinn í umræðunni

Það er víst að það hefur orðið ótrúleg pólitísk vakning í íslensku samfélagi frá 29. september síðastliðnum. Deginum sem hrun Glitnis var stærsta fréttin í öllum fjölmiðlum landsins síðastliðið haust. Í ljósi þess hvernig orðið pólitík hefur verið notað sem skammaryrði er kannski frekar við að hæfi að kalla þá þessa vakningu aukna samfélagsvitund.

Þetta kemur fram í því að einstaklingar hafa tekið höndum saman og hist í minni og stærri hópum og rætt um undangengna atburði um leið og orsakir þeirra og afleiðingar eru ígrunduð. Mótmælin í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði er einn vettvangurinn þar sem þessi vakning er hvað mest áberandi. Í Reykjavík og hér á Akureyri hafa líka verið haldnir reglulegir borgarafundir. Fundirnir í Reykjavík hafa sumir hverjir orðið mjög líflegir svo ekki sé meira sagt.
Tökum höndum saman
Í október varð til hópur hér á Akureyri sem hefur kennt sig við Byltingu fíflanna. Þetta er hópur réttlætissinnaðra einstaklinga sem getur ekki unað því að við þurfum að búa við óbreytt ástand. Við viljum breytingar en erum alls ekki öll sammála um hverju á að breyta eða með hvaða aðferðum. Ástæðan fyrir því að við viljum breytingar liggur þó ljós fyrir í augum okkar allra. Gamla kerfið hefur brugðist þannig að við treystum því ekki lengur.

Meðlimir í hópnum hafa skipt með sér verkum og komið að ýmsum þáttum. Mest hefur þó mætt á Guðrúnu Þórs sem hefur leitt mótmælin á laugardögum og George Hollander sem hefur haldið utan um borgarafundina. Hann stýrði einum slíkum nú í kvöld þar sem sterkur kjarni hittist til að ræða framhald þeirra.

Við vorum reyndar ekki nema u.þ.b. tuttugu sem mættum á þennan fyrsta fund ársins. Þarna voru einhverjir sem hafa tekið virkan þátt en aðrir voru að mæta í sitt fyrsta skipti. George stakk upp á því að við byrjuðum fundinn á því að segja hvað okkur fyndist um það sem samtökin hafa verið að gera hingað til og hvernig við vildum sjá framhaldið. Þar sem við vorum svona fá fengu allir tækifæri til að tjá sig.

Það finnst kannski einhverjum að það hljómi alls ekki aðlaðandi að svo fámennur hópur sé ekki sammála um alla hluti. Mér finnst það hins vegar frábært að það er ekki aðalmarkmiðið við verðum það. Það voru allir viðstaddir tilbúnir til að hlusta á mismunandi sjónarmið. Hver og einn fékk tækifæri til að bæta sinni sýn inn í umræðuna þannig að þegar upp var staðið vorum við komin með afar fjölbreytt sjónarhorn á það sem er liðið, núið og framtíðina. Við komumst reyndar að býsna mörgum sameiginlegum niðurstöðum en þær helstu voru þessar:

  • Það er nauðsynlegt að halda mótmælunum áfram.
  • Það þarf að kröfuspjaldavæða mótmælin.
  • Það er nauðsynlegt að halda borgarfundunum áfram.
  • Við viljum hafa þá sem fjölbreyttasta.
  • Við viljum fundi þar sem einstaklingar ræða saman eins og í kvöld en við viljum líka bjóða stjórnmálamönnum og sérfræðingum til að koma og svara spurningum og skýra út hugtök og reglugerðir. M.ö.o. við viljum svör um hvað gerðist hvernig það gat gerst og hvernig má bregðast við því.
Töluverð umræða hefur varð um heiti grasrótarhópsins. Það eru alls ekki allir sáttir við Bylting fíflanna. Sumir hafa áhyggjur af því að heitið kunni að fæla frá. Persónulega finnst mér heitið vera algert aukaatriði. Tilgangurinn er aðalatriðið. Sumir vilja þó að við kynnum betur hver hann er. Hann er í aðalatriðum sá að skapa vettvang
  • fyrir réttlætissinnað fólk.
  • þar sem hver sem er getur mætt á sínum eigin forsendum.
  • til að ræða mismunandi skoðanir um samfélagið sem við búum í.
  • fyrir alla sem vilja komast meðal annarra til að tjá og spegla sínar eigin skoðanir.
  • þar sem hver sem er getur komið og boðið fram krafta sína til þess sem nýtist í að skapa betri framtíð.

Annars dró Guðrún Þórs þetta ágætlega saman í sínum málflutningi. Hún sagði að meginmarkmið okkar væri það að koma núverandi valdhöfum frá og skapa björgunarleiðir. Það er þó rétt að taka það fram að það voru ekki allir fundarmenn sammála um það að hlutverk Byltingar fíflanna væri það að koma núverandi ríkisstjórn frá. Hinir sömu treysta því ekki að neitt betra taki við.

Hvað „björgunarleiðirnar“ varðar þá eru sumir sem vilja leggja áherslu á þær á meðan öðrum finnst það ekki vera hlutverk samtaka af þessu tagi. Rök andmæalendanna eru að það sé alls ekki víst að sú vinna sem yrði lögð í að hanna og þróa slíkar leiðir myndu nýtast þeim sem þyrftu á slíkum að halda. Hún muni því stela kröftum frá stærri og meira aðkallandi verkefnum grasrótarsamtaka af þessu tagi.

Það er kraftur í umræðu almennings um ýmis konar samfélagsmál og vaxtarbroddarnir í þeirri umræðu spegluðust ágætlega á fundinum hér á Akureyri í kvöld. Það sorglegasta í umræðunni úti í samfélaginu er sú staðreynd að þrátt fyrir margítrekuð afglöp valdhafanna sem bitna á okkur sem þjóð þá eru enn einhverjir sem neita að horfast í augu við vanhæfni þeirra.

Þeir sem taka þátt í að radda frasa eins og: „Gefum ríkisstjórninni frið til að leiða þjóðina út úr því ófremdarástandi sem alheimskreppan kom okkur í“ eru að sjálfsögðu að verja þá sem þeir trúa enn að séu þeirra menn. Hin djúpa efnahagslægð sem blasir við allri þjóðinni hefur ekki enn runnið almennilega upp fyrir þeim nema þeir trúi því að þeir séu útvaldir. Það er mér þó fullkomalega hulin ráðgáta hvernig þessir geta komist hjá því að horfast í augu við það að það eru þeir sömu, og þessi hópur segist treysta, sem kölluðu miklu alvarlegra efnahagshrun yfir Ísland en það sem blasir við annars staðar í heiminum. Myndin hér að neðan er ágætur vitnisburður um það.
gdp.jpg
Myndin sýnir líka að allt tal um alheimskreppu á engan veginn rétt á sér. Það er þvert á móti hagvöxtur í sumum löndum heimsins. 

Ég átta mig ekki á þeim sem verja ríkisstjórnina enn og trúir engum öðrum en henni til að leiða þjóðina út úr vandanum. Verja þeir kannski líka leiðirnar sem eru farnar til þess? Geta þeir réttlætt allar nýjustu fréttirnar af niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu t.d? Ef svo er þá hljóta hinir sömu að lifa í allt öðrum heimi en ég. Ég get ekki séð að þeir hafi heldur hæfileika til að sjá út um glugga síns eigin veruleika.

Svo er annar hópur sem áttar sig nokkuð á því að alvarleiki efnahagsástandins í landinu er af mannavöldum. Þeir eru fullir furðublandinnar vandlætingar og jafnvel reiðir. En í stað þess að beina þessum tilfinningum í farveg sem nýtist til að knýja fram breytingar sem gætu snúið ógæfunni við þá beinist hún gegn mótmælendum. Þar verða ótrúlegustu smáatrið að bitbeini. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessi atriði að sinni en á örugglega eftir að gera það fljótlega.

Mig langar til að enda þetta að þessu sinni á því að vekja athygli á tveimur bloggum sem birta afar ólík sjónarhorn á mótmælin síðastliðinn gamlársdag. Það sem bloggararnir eiga þó sameiginlegt er að báðir voru í eldlínu átakanna þann dag. Annar meðal mótmælanda. Hinn meðal þeirra sem skipuðu sér í þá sveit sem varnaði mótmælendum inngöngu á Hótel Borg. Frásögnin sem segir frá hlið mótmælanda birtist inn á síðunni aftaka.org en hin er eftir þann sem sá um upptökusettið í kring um Kryddsíldina; þaulvanan sviðsstjóra.

Mig langar til að vekja athygli á frásögnum þessara tveggja hérna vegna þess að mér finnst báðar athyglisverðar heimildir. Fyrst og fremst vegna þess að þær sýna tvö andstæð sjónarhorn. Það sem mér finnst sjálfri fengur af inni á blogginu á Aftöku eru myndirnar sem sýna enn og aftur hvernig lögreglan sprautar svokölluðum „varnarúða“ í bakið á mótmælendum. Hin er snilldarlega skrifuð og laus við fordóma. Sviðsstjórinn er einstkur penni en það sem gerir frásögn hans ekki síst merkir lega er að hún birtir sjónarhorni þess sem stóð í þeim sporum að setja það að verja tæki og tól fyrir skemmdum í forgang þennan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband