Löggæsla má ekki snúast upp í andhverfu sína

Lögreglumaður í fullum herklæðum:-/

Það virkar svo fjarlægt að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beiti mótmælendur álíka ofbeldi og því sem hún hefur gert sig margseka um í mótmælunum á síðastliðnu ári og við alþingishúsið núna. En því miður er það samt staðreynd!

Við erum búin að fá margítrekaðar frásagnir í máli og myndum sem sýna það svart á hvítu að ofbeldisfull viðbrögð lögreglunnar eru í engu samræmi við athafnir mótmælenda. Mótmælendur eru óvopnaðir. Þeir eru eðlilega reiðir, gjarnan háværir og margir saman gætu þeir virst hættulegir þeim sem hafa aldrei þurft að eiga við reiðan hóp.

Ég var sjálf viðstödd atburðina við Hótel Borg þar sem viðbrögð lögreglu og viðbúnaður var einhvern veginn súrealískur miðað við tilefnin. Myndin hér til hliðar er tekin í Lækjargötunni eftir að mótmælendur voru flestir farnir heim. Nokkur okkar þustu yfir í Lækjargötu því þau boð bárust að ráðherrarnir færu þá leiðina út.

Ég varð alveg gáttuð þegar ég kom þar og sá alla lögreglubílana (sjá hér) og útbúnað þeirra lögreglumanna sem þar voru. Myndin ber honum vitni. Sumir sem þarna voru gátu ekki á sér setið yfir fáránleikanum og fóru að hlægja. Svona útbúnaður gerir eiginlega ekkert annað en senda skilaboð um að viðkomandi sé mættur í slagsmál!

Ég spyr mig þess vegna hvað lögreglunni gangi eiginlega til með því að koma fram við mótmælendur á þann hátt sem hún hefur gert sig seka um að undanförnu? Skyldu lögreglumennirnir læra þessa framkomu í Lögregluskólanum? Hvernig er þeim þá kennt að koma fram við fólk sem er í annarlegu ástandi; kannski ofsabrjálað eða sturlað af vímuefnanotkun? Ég tek það fram að ég leyfi mér að efast um að lögreglan kenni að beita hávaðasaman mannfjölda efnavopnum, kylfum eða ofbeldi yfir höfuð.

Langar til að benda á mjög góða og upplýsandi bloggfærslu Helga Jóhanns Haukssonar um aðgerðir gegn mótmælendurm. Svo má benda á athugasemd „Lögga“ á síðunnu hennar Heiðu B. Heiðarsdóttur. (hún er 56. athugasemdin við færsluna hennar Heiðu)

Ég veit þó að innan lögreglunnar er misjafn sauður í mörgu fé, rétt eins og alls staðar annars staðar. Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því að það séu yfirvöld sem beita lögreglunni fyrir sig á þann hátt sem við höfum orðið vitni að frá mótmælum vörubílsstjóra sl. vor. Slíkt er auðvitað bara enn ein staðfestingin á algjörri vanhæfni stjórnvalda. Hvaða sanngirni er í því að beita lögregluofbeldi gegn sanngjarni kröfu um réttlæti og lýðræði!

Ég hef sagt það áður, og segi það einu sinni enn, að ég finn til með lögreglumönnunum á höfuðborgarsvæðinu en ég furða mig samt á því hvað þeir ætla að láta ota sér langt gegn mótmælendum. Ég furða mig á því að þeir skuli ekki neita að koma fram með þessu ofbeldi. Ekki síst í ljósi þess að reynsla þeirra ætti að hafa kennt þeim að ofbeldi kallar bara á meira ofbeldi eins og dæmin sanna.


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Lögreglan er misnotuð á svívirðilegan máta, og við megum ekki láta stjórnvöld komast upp með það.

Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 04:24

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er svo sammála þér Haraldur! og af því að ég er svo mikil tilfinningavera þá fann ég alveg til í hjartanum af tilfinningaseminni þegar ég las um mótmælendurnar sem stilltu sér á milli annarra mótmælenda sem vildu grýta lögregluna við Stjórnarráðið. Þvílík hetjulund sem langmestur hluti mótmælenda sýnir á þessum ótrúlegu tímum sem við erum að upplifa!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2009 kl. 04:48

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

En táragas er bara of langt gengið. BB er að sjá til þess að stjórnin sé fallin.

Villi Asgeirsson, 22.1.2009 kl. 06:25

4 Smámynd: Geir G

Sæl Rakel

Ég er innilega því hjá þér að mikla hetjulund hafa sumir mótmælendur sýnt.  En að kasta grjóti, skyri eða GANGSTÉTTARHELLUM í lögreglu er langt fyrir neðan okkar virðingu.  Ég fordæmi þá mótmælendur á sama tíma og ég hvet friðsama mótmælendur til að mæta áfram en einnig til að grípa inn í þegar fáir svartir sauðir fara að haga sér illa.

Þá má ekki gleyma því að lögregla verður að beita þessum "meðulum" sínum þar sem að þeir eru jú miklu færri og annað myndi auka hættuna á enn meiri meiðslum.

Geir G, 22.1.2009 kl. 09:00

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Geir, ég er jafn mikið á móti gangstéttakasti og þú, en mér skilst að Ómar hafi tekið myndband á þriðjudag þar sem greinilega sest að löggan byrjaði að úða áður en allt fór úr böndunum. Það var fyrst þá sem þetta fór út í rugl. Það sem gerðist í nótt hefði ekki gerst hefði úðinn ekki verið misnotaður á undanförnum dögum.

Tek það fram að ég var ekki á staðnum.

Villi Asgeirsson, 22.1.2009 kl. 10:56

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Það eru bæði menn innan lögreglunnar og meðal mótmælenda búnir að tapa sér nokkrum sinnum. En ef löggan á að vera boxpúði fyrir ríkisstjórnina erum við komin í ranga átt. Látum veruleikafyrrtu flokksdindlana vera höfuðmálið og hundsum varðhundana þeirra.

Ævar Rafn Kjartansson, 22.1.2009 kl. 11:41

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Geir, ég er sammála Villa Ásgeirs. að lögreglan ber nokkra ábyrgð á því hvernig komið er. Það eru þó, eins og ég ýjaði að í færslunni minni hér á undan, aðeins örfáir einstaklingar innan hennar. Við sem mótmælum verðum að hafa það hugfast að innan lögreglunnar starfa að langmestum meiri hluta gott fólk sem stendur í nákvæmlega sömu sporum og við. Við verðum líka að hafa það hugfast að það voru stjórnvöld sem skipaði þeim að verja þau með þeim vopnum sem þeir hafa beitt á mótmælendur.

Hjartanlega sammála þér Ævar að við megum ekki gleyma því hvert er aðalatriðið! Það er ríkisstjórnin sem við erum að mótmæla ekki lögreglunni. Við verðum þess vegna að leiða „skemmdu eplin“ bæði meðal lögreglumanna og mótmælenda hjá okkur og halda okkar striki.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2009 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband